Hvalsnesgata

Kunnur Suðurnesjamaður frá fyrri tíð var Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsneskirkju.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Á síðari hluta sextándu aldar og fram á þá sautjándu sat á Hólum einn merkasti biskup Íslendinga eftir siðskiptin, Guðbrandur Þorláksson, mjög afkastamikill bókaútgefandi, en í hans tíð var prentaður á Hólum fjöldinn allur af sálmum, kvæðum og guðsorðaritum, bæði þýddum og frumsömdum og hann sá um fyrstu heildarútgáfu Biblíunnar á íslensku 1584. Mjög mikilvægt var fyrir Íslendinga að fá Biblíuna svo snemma á móðurmálinu, það átti eflaust þátt í að íslenskan varðveittist sem tungumál á þeim tíma þegar Ísland var hluti af danska konungsríkinu.
Hallgrímur Pétursson var skyldur Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum og faðir hans var hringjari þar á staðnum. Á Hólum ólst Hallgrímur að nokkru leyti upp og þar hefði honum verið auðvelt að feta menntaveginn en að loknu námi við skólana á Hólum og í Skálholti héldu ungir efnilegir menn oftast til náms við háskólann í Kaupmannahöfn og áttu síðan von um góð embætti heima á Íslandi.

Glückstadt

Glückstadt.

Af einhverjum ástæðum sem ekki eru fyllilega kunnar hraktist Hallgrímur frá Hólum og hélt til útlanda. Sagt er að hann hafi orðið óvinsæll á staðnum vegna gamansamra og jafnvel dónalegra vísna sem hann orti um þá sem þar voru hátt settir og verið rekinn, en aðrar sögur segja að hann hafi farið að eigin ósk. Hann virðist hafa tekið sér far með erlendum sjómönnum og næst fréttist af honum í Norður-Þýskalandi, í Glückstadt, þar sem hann er kominn í þjónustu hjá járnsmið sem fór heldur illa með hann. Sagt er að hann hafi einhverju sinni gengið út bálreiður og hallmælt húsbóndanum á ófagurri íslensku en þá hafi þar átt leið hjá fyrir tilviljun íslenskur maður að nafni Brynjólfur Sveinsson sem heyrði að pilturinn var íslenskur og þótti hann „heldur orðhittinn, þó ei væri orðfagur í það sinn, ávítaði hann og sagði, að ei ætti hann so sárlega að formæla sínum samkristnum.

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson.

Hallgrímur tók því að sönnu vel en spurði hvort hann vildi ekki vorkenna sér nokkuð þar hann ætti allt illt og þar á ofan fyrir sakleysi barinn og laminn. Brynjólfur fann að nokkuð mundi þó neytt með þessum pilti, réði honum að skilja við þessa þjónustu og leggja annað fyrir sig, svo af hans áeggjan og tilstilli komst hann í vorfrúeskóla í Kaupinhafn.“ Brynjólfur þessi Sveinsson varð síðar biskup í Skálholti og kom aftur við sögu Hallgríms síðar.

Í Kaupmannahöfn hefst nýr kafli í lífi Hallgríms Péturssonar. Hann var góðum gáfum gæddur og skáldhneigður og víst er að námið í vorfrúarskóla hefur haft góð og hvetjandi áhrif á hann. Vitað er að hann náði skjótt góðum árangri og var brátt kominn í hóp bestu nemenda.

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn.

Hann er um þetta leyti 22 ára gamall og þá verða örlagaríkir atburðir í lífi hans. Til Kaupmannahafnar kemur hópur af Íslendingum sem sjóræningjar frá Alsír – sem Íslendingar kölluðu Tyrki – höfðu rænt og hneppt í ánauð fyrir tæpum tíu árum síðan en höfðu nú verið keyptir lausir af Danakonungi. Hallgrímur er fenginn til þess að kenna þessu fólki kristin fræði. Í hópnum er kona sem heitir Guðríður Símonardóttir og hafði verið gift kona og móðir en orðið viðskila við mann sinn og barn. Þessi kona og Hallgrímur fella hugi saman og ekki líður á löngu þar til hún er orðin barnshafandi af hans völdum. Guðríður var þá 38 ára gömul þannig að með þeim var 16 ára aldursmunur. Þetta verður til þess að Hallgrímur hættir námi í annað sinn og þau Guðríður halda heim til Íslands.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík.

Um þetta leyti munu þau hafa frétt að eiginmaður Guðríðar var látinn. Hallgrímur gekk að eiga hana „fyrst hann varð ekki af því talinn“ eins og segir í gamalli heimild og vann fyrir sér og fjölskyldu sinni með erfiðisvinnu. Það er ljóst að þetta hafa verið erfið ár, þau hjónin voru fátæk og einnig er vitað að þau misstu nokkur börn ung að árum.
En það verður aftur róttæk breyting á lífi og högum Hallgríms og í annað sinn er það Brynjólfur Sveinsson sem breytir gangi máli, nú orðinn biskup í Skálholti; hann veitir Hallgrími prestsembætti og lætur vígja hann. Fyrstu árin í prestsembætti hafa þó ekki verið Hallgrími beinlínis auðveld; sumir áttu erfitt með að gleyma því að hann hafði verið fátækur vinnumaður.

Sauðbæjarkirkja

Sauðbæjarkirkja.

Til er gömul heimild þess efnis að fólki hafi þótt biskupinn haga sér undarlega að vígja þennan fátækling til prests en það hafi skipt um skoðun þegar það heyrði hann predika fyrir vígsluna. Aðeins ein predikun Hallgríms, líkræða, hefur varðveist en vitað er að hann þótti frábær predikari. Það sýnir einnig glöggt að Hallgrímur hefur ekki valdið vonbrigðum í starfi heldur þvert á móti vaxið í áliti að þegar Saurbær á Hvalfjarðarströnd, sem var miklu betra prestakall, losnaði var það Hallgrímur sem hlaut það 1651.

Fyrsti áratugurinn á eftir var honum frjór tími til ritstarfa. Öll mestu verk hans munu vera frá þessum árum og öll trúarleg: tveir sálmaflokkar, Samúelssálmar ortir út af Samúelsbókum Gamla testamentisins og Passíusálmarnir; og tvö guðræknisrit í lausu máli sem heita Dagleg iðkun af öllum drottins verkum og Sjö guðrækilegar umþenkingar. Efnahagsleg afkoma var þá vel viðunandi og heilsan góð.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Árið 1662 brann bærinn í Saurbæ og var það skiljanlega mikið áfall þótt strax væri hafist handa að byggja bæinn upp að nýju. Eftir þetta fór heilsu Hallgríms hrakandi, í ljós kom að hann var haldinn holdsveiki, úr þeim sjúkdómi lést hann sextugur að aldri árið 1674.
Eina barn þeirra Hallgríms og Guðríðar sem upp komst var Eyjólfur sonur þeirra. Dótturina Steinunni misstu þau þegar hún var aðeins þriggja og hálfs árs. Legsteinn með nafni hennar sem Hallgrímur hjó sjálfur út hefur varðveist og er í kirkjunni í Hvalsnesi þar sem Hallgrímur þjónaði fyrst sem prestur.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887. Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Tréverkið í kirkjuna vann Magnús Ólafsson snikkari úr Reykjavík. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.
Hvalsneskirkja var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Nokkrar minjar eru á Suðurnesjum tengdar Hallgrími, en aðrar eru horfnar, s.s. Bolafótur, bær sá er hann bjó í þar sem nú er skipasmíðastöðin í Njarðvíkum. Letursteinn norðan við Þórshöfn norðan Ósa er sagður hafa fangamarkið HP og letur í klöpp ofan við Þórshöfn ber stafina HP, en séra Hallgrímur er sagður hafa gengið þá leið að heiman til messu í Hvalsnesi.

M.a. af:
http://servefir.ruv.is/passiusalmar/hhallgrim.htm

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.