Garður

Hörður Gíslason frá Sólbakka leiddi göngu um Garð.
Gengið var um byggðina og fræddi Hörður Gardur-2þátttakendur um þróun hennar frá upphafi og sögu fólksins. Auk þess að segja frá breyttum staðsetningum hinna 13-15 bæja er mynduðu bæjarsamfélagið, bæði vegna ágangs sjávar og breyttra verkhátta, lýsti Hörður einkennum þeirra er lengst hafa staðið nálægt núverandi húsum, þ.e. bæjarhólunum. Gengin var horfin gata milli Síkjanna og saga Gerða rifjuð upp, en þar var lífæð byggðarinnar lengst af á síðustu öldum. Skoðuð var m.a. Gerðavörin, íshúsið, pósthúsið og gamla verslunin, en hluti hennar er samfast hús er flutt var á ís frá Útskálum og var upphaflega byggt úr timbri úr Jamestown.
Hörður tók Útskálabæjarhólinn, sem dæmi um gamalt bæjarstæði til langs tíma, sjá m.a. frásögn af
fornleifauppgreftri. Bæði þurfti að endurbyggja bæjarhúsin reglulega og losna við tilheyrandi ösku og sorp er ekki var nýtt til túnræktar. Við það mynduðust hólar líkt og nú má sjá þar sem líklegt er að gömlu Miðhús hafi staðið (milli Útskála og núverandi Miðhúsa).
Þegar komið var yfir að Króki lýsti Hörður síðustu bæjarhúsunum er nú hafa verið rifin. Grunnurinn var úr tilhöggnu grjóti, en húsið sjálft úr timbri. 

Gardur-3

Gamli hlaðni brunnurinn er neðan við íbúðarhúsið, en hefur verið fylltur upp til að fyrirbyggja slysahættu. Sólbakki er næsta býli að norðanverðu. Skammt neðan við Krók er gróinn garður er náði frá Miðhúsum að Miðhúsasíkinu. Milli þess og Gerðasíkisins er gangfært. Innnan garðsins er gróin gata er lá frá bænum um eyðið áleiðis að Gerðum. Hún sést norðan síkjanna, en sunnan þeirra hefur gatan sokkið í jarðveginn. Skammt neðar eru leifar Bakkabæjanna, en þeir voru nokkrir rétt ofan við kampinn. Vatnagarðar voru einn þeirra (nyrst) sem og Níelsarkot (syðst, horfið undir kampinn). Vegna ágangs sjávar var hopað með marga bæina ofar í landið, upp fyrir síkin. Þarna má þó enn sjá stakkstæði, húsgrunna og mosavaxna garða.
Hvönnin er mikil við Gerðar, en þar má sjá Gerðarvörina, sem var sú besta í Garði. Enda var bryggjan reist þar þegar þurfa þótti og útgerð Milljónafélagsins festi þar rætur um sinn.
Gardur-4Gamla íshúsið stendur enn sem og gamla verslunarhúsið. Samfast við það að vestanverðu er rishús, sem flutt var fyrrum á ís frá Útskálum. Uppistaðan í því eru timburbálkar er bárust hingar með timburflutningaskipinu Jamestown er strandaði við Hestaklett utan við Hafnir 1881 (sjá HÉR).
Hvar sem gengið er um Garð má sjá mannvistarleifar, bæði greinilegar og ógreinilegar. Það væri vel þess virði að teikna þær upp eins nálægt sanni og hægt er, til að skapa yfirsýn yfir hið forna samfélag og til að minnka líkur á að hluti menningararfsins fari forgörðum af vangá þegar og að því kemur að framkvæma þarf á svæðinu.
Gangan var bæði fróðleg og skemmtileg. Hún tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Hörður Gíslason frá Sólbakka.

Garður

Garður – gengið um gömlu byggðina.