Færslur

Útskálakirkja
Útskálakirkja var vígð 1863. Formsmiður af henni var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891).
Árið 1975 var forkirkjan stækkuð. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara. Hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin.Útskálakirkja

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.
Altaristaflan er eftir útlendan málara og sýnir boðun Maríu. Predrikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Séra Sigurður B. Sívertsen (1808-1887) var prestur í Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum, s.s. jarðabótum og húsbyggingum. Hann lét m.a. byggja kirkjuna, sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál, sem hann skrifaði.
Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð. Hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 12000. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkja er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri tíð voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Útskálar

Útskálakirkja – rúnasteinn.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðasögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8. mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum. Um nóttina rak 47 lík á lad í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju landsins.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Ranglát

Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði vildi vekja athygli á eftirfarandi eftir ferð um Sveitarfélagið Garð fyrir stuttu:

Ranglát

Ranglát.

“Takk fyrir síðast.

Þegar við fórum ferðina um Garðinn var ég spurður um vörðu sem er syðst á Langholtinu í Leirunni, og vissi ég það ekki þá.
Nú hef ég komist að því.
Varðan heitir Ranglát og var reist af opinberum aðilum en ekki er vitað hvenær það var [skv. örnefnalýsingu Hólms var varðan hlaðin 1793].
Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði, sem ekki er vitað hvað var. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna.

Ranglát

Ranglát.

Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát. Kanski er hægt að fá betri upplýsingar um vörðuna einhverstaðar.
Tengdafaðir minn Guðni Ingimundarsson sagði mér þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er látinn.”

Kveðja,
Ásgeir Hjálmarsson

Ranglát

Ranglát – upplýsingaskilti við vörðuna.

Gufuskálar
Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgarður.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.”

-Skúli Magnússon – Faxi, október 1999.

Ellustekkur

Ellustekkur 2023.

Skagagarður
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

-Stefán Pálsson – sagnfræðingur v/HÍ.

Garður

Garður.

Garðsskagaviti

Farin var kynnisferð um Sveitarfélagið Garð og Sandgerði. Ásgeir Hjálmarsson leiðsagði um Garðinn og Reynir Sveinsson um Sandgerði.

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagt frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt og Vikivakakvöld á Flankastöðum.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði  er elsta uppistandandi hús í bænum – 1883, komið við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs

Sandgerði

Geirfugl við Sandgerði.

Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, s.s. Kópu og Vararós.

Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli.

Garður

Garður.

Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.

Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum.

Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í sókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.

Garður

Garður.

Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Hjarta

Hjarta landsins utan Sandgerðis.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917.

Garður

Gerðaskóli.

Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti
Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Garðskagaviti

Garðaskagaviti.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps. Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.
Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja

Árnaborg

Árnaborg.

Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

Saga Sandgerðis

Kistugerði

Kistugerði.

Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis.
Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Bæjarskersrétt

Sandgerði – Bæjarskersrétt.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum.

Sandgerði

Sandgerðishöfn.

Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.

Skagagarður

Skagagarður.

Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.

Garður

Garður – Vatnagarður.

Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.

Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.


Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Básendar

Básendar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar

Gálgar.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson.
Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins.
Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Lindarsandur

Lindarsandur.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar.

Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík

Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum.

Hvalsnesgata

Hvalsnegata.

Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir

Flankastaðir

Flankastaðir.

Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn
Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir

Brunnur við Hafurbjarnastaði.

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

ÓSÁ tók saman.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, “Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu” frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.”

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.

Garður

Hér er ætlunin að fjalla um helstu bæi og minjar í Inngarðinum í Garði. Vitnað verður í “Fornleifaskráningu í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna)“, frá árinu 2008.

Garður

Inngarður – minjakort.

Í Inngarðinum voru t.d. bæirnir Útskálar, Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús, Vatnagarður, Miðhús, Krókur, Krókvöllur, Gerðar, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir (Meiríðarstaðir) og Rafnkelsstaðir auk aðliggjandi kota, óskipts lands og heiðarbæjarins Heiðarhúsa.

Útskálar

Garður

Garður – Útskálar; loftmynd 2022.

Útskála er getið í kirknatali Páls Jónssonar frá um 1200 – DI XII, 9. [um 1270]: Útskálar eiga viðreka milli Útskálaóss og Skagaflesjar og 4/5 milli ássins fram undan borginni hjá Kirkjubóli og hjallsins á Fitjum. Útskálar eiga einnig þriðjung í viðreka milli Kölduhamra og Miðhólms og allan viðreka frá honum suður til Mjósyndis.
‘Jtem eigu vtskaler vatztokv j kroks brvnn ok halldi hvorertveggv brvnnenvm. Krokvr ok midhvs eiga tveggia skipa vpp satur j navsta holm. Jtem eiga vtskaler allar veidar sydvr j lambarif, enn krokvr ok midhvs. Enn kirkivbol ad svnnann. Enn fiskreka allan at miofa tanga. DI II, 77. [um 1270] Útskálar eiga þann þriðja af níu hlutum allan nema 17 hverja vætt úr þeim hlut sem Presthús eiga. Útskálar eiga einnig þriðjung af fjórða hlut og sjöttung af sjötta hlut, samtals 16,01 % af hval sem er meir en 12,5 vættir og rekur milli Æsubergs og Keflavíkur – DI II, 78-79.

Garður

Útskálar og nálægir bærir – túnakort 1919.

17.12.1340 selur Bjarni Guttormsson fjórðung í Útskálalandi ‘vmm framm aull þau akurlond sem Biarni keypti til vtskaala ok ein[n] karfa met atkierum ok ollum reida ok bäti’ Skálholtskirkju gegn því að staðurinn taki Hrómund son hans á æfilangan kost. Bjarni og Ingibjörg kona hans gefa einnig Pétri postula og heilögum Þorláki annan fjórðung úr Útskálalandi til æfinlegrar eignar – DI II, 734. 10.6.1370: J mote Þeim iiij bæium sem vndann Vtskaala kitkiu eru tekner leggur Biorn bonde kirkiunni ad Vtskalum jord er heiter j Vorum med tveimur kugilldum til æfinnligrar eignar – DI III 56-257. Máldagar 1363, 1397 og 1575 – geta í engu um fasteign – DI III, 256-257; DI IV, 104; DI XV 639. 5.8.1560: Gísli Jónsson Skálholtsbiskup veitir sr. Jóni Loptssyni Útskála sem ævinlegt beneficium – DI XIII, 508. 1703: 9 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús, ónefnd heima við staðinn, Vatnagarður og Naust, auk þess tvær hjáleigur í eyði sem höfðu verið heima við staðinn.

Garður

Útskálar og nálægir bæir – túnakortið 1919.

Einnig höfðu Blómsturvellir/Snorrakot lagst í eyði um 1670, og Hesthús var eyðihjáleiga sem ekki var vitað hvar hafði verið. JÁM III, 79-84. 1703: Vatnsnautn á staðurinn í Króksbrunni, en Krókur þar í mót skipsuppsátur í staðarins landi fyrir tólfæring eður smærra. JÁM III, 79. 1839: 7 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús og Vatnagarður en Naust hafði farið í eyði 1782 – SSGK, 160.
1919: Tún 7,5 ha., garðar 2600 m2. 1703: Túnin spillast af sjóargangi, önnur í betra lagi, en önnur hættari sandi, sem sjór og vindur ber á, og af leysingavatna ágángi um vetrartímann. Engjar öngvar. Útigangur mjög lítill sumar og vetur. JÁM III, 79. 1839: Mælt er að staðarins tún hafi mikið af sér gengið, og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu.

Garður

Kort herforingjaráðsins danska af Útskálum 1908.

Núleifandi elztu menn muna eftir grastóum fremst framan í fjöru, sem sýnir, að fyrr meir hafi allt það svið verið grasi vaxið og máske tún; hefir þá sjór ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú á brýtur fremst fram við fjörumál (þaragarð). SSGK, 160. 1839: Beitiland staðarins er lítið annað en á svonefndum Skaga, sem liggur fyrir sunnan Lambastaði, á milli Út-Garðsins og Nessins. Það var í fyrri daga fallegt og grösugt sléttlendi, en nú gengur þar á mikill sandur, svo oft á vetrum sést ekki til jarðar fyrir honum; á honum gengur Út-Garðspeningurinn, og sauðfé hafnast þar vel, ef ekki er ofsett á. Á Skaganum voru fyrr meir kornakrar og sáðgerði fornmanna, og má enn sjá mót til girðinganna … – SSGK, 161.

Garður

Í kirknatali Páls Jónssonar frá um 1200 – DI XII, 9. [um 1270]: “Útskálar eiga viðreka milli Útskálaóss og Skagaflesjar og 4/5 milli ássins fram undan borginni hjá Kirkjubóli og hjallsins á Fitjum”. Myndin er af fjárborginni. Hún er óskráð.

Bæjarhóllinn er vestan við kirkjugarðinn í miðju Útskálatúni. Á honum stendur timburhús á hlöðnum grunni, byggt 1882. Það er tæplega 50 m vestan við kirkjuna en bæjarhóllinn nær alveg að kirkjugarðinum, um 20 m frá kirkjunni. Á túnakorti frá 1919 er sýnd húsalengja fast austan við íbúðarhúsið og var þá aðeins mjótt sund á milli. Sú lengja er nú horfin en austast þar sem hún stóð komið steypt útihús sem snýr NNV-SSA og nær fram á brún bæjarhólsins að norðaustan.
Sérstakur hóll, flatur að ofan gnæfir yfir náttúrulega slétt tún í kring. Uppi á hólnum eru tvö hús, annað á steyptum grunni, hitt á hlöðnum, og malarborið plan allsstaðar í kring um þau og út á brúnir hólsins nema mjó ræma vestast.

Garður

Útskálar – minjakort.

Sunnanmegin á hólnum er sléttað malarplan, líklega uppfylling, þar sem kálgarðurinn var, en hann náði þó 15 m lengra í suður þar sem nú er slétt tún. Hóllinn er mjög brattur að vestan og norðan og þar eru hliðarnar grasi grónar, en að sunnan og austan er hallinn minni og þar allsstaðar möl ofaná. Það er annað timburhúsið á hólnum , hið eldra var byggt 1855, og er ekki vitað hvar síðasti torfbærinn var né hvernig hann snéri. Sr. Sigurður Sívertsen byggði eldra timburhúsið “það var 12 álna langt og 8 álna breitt íveruhús, en lét þó gömlu baðstofuna standa og byggði hana upp með nýrri súð.” Undir Garðskagavita, 146. Á hólnum voru 1919 útihús og kálgarðar auk íbúðarhússins og lengjunnar austan við það.

Garður

Útskálar.

Fornleifauppgröftur fór fram á bæjarhólnum haustið 2005. Þar sem uppgröfturinn fór fram við norðanvert íbúðarhúsið hafði áður verið niðurgrafin viðarbygging en í tengslum við endurbætur á húsinu stóð til að reisa þar strærri byggingu. Uppgröfturinn var um 27 m2 stór og alldjúpur, eða um 3 m. Efstu jarðlög voru sundurskorin af lögnum og köplum en undir þeim voru þrjú mannvistar stig, gróflega áætlað. Elstu minjarnar sem voru grafnar upp lágu undir syrpu af gjóskulögum frá 12. öld og sást þá ekki enn í óhreyfðan jarðveg. Varðveisla var með eindæmum góð í bæjarhólnum jafnt á lífrænum leifum og málmi. Einn merkasti gripurinn sem fannst við uppgröftinn var útskorinn kambur af norænni miðaldagerð en svipaðir kambar hafa fundist í 11.-13. aldar lögum í Noregi.

Lónshús

Garður

Lónshús.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr naumlega …. Fjörugrasa og sölva og þángtekja til eldiviðar hafa báðir þessir menn nægilegt.” JÁM III, 80.
1919: tún 2 teigar, kálgarðar 1030 fm.
Í Jarðabók Árna og Páls segir 1703 segir: “Lonshus, fyrsta hjáleiga…Fóðrast kann i kýr naumlega….” Þá var tvíbýlt á bænum. Í athugasemdum á túnakorti frá 1919 segir: “Þar er gróið yfir nokkuð af rústum Lónshúsabæjar, sem var fluttur a. á túnið fyrir rúmum 30 árum (að sögn). Var þó lengi áður varinn bærinn með sjógarði. Nú mun sjógarðsmyndin nærri miðju bæjastæðinu gamla, og ofan á því – Grefur undan.” Gamla bæjarstæðið er merkt, á túnakort frá 1919, um 50 m VNV við nýrra bæjarstæðið.
Þar sem bærinn stóð er nú malarplan við fiskvinnsluhús (byggt 1973).
Engin ummerki eldri bæjarhólsins sjást nú. Vilhelm Guðmundsson heimildmaður sagði frá því að grafið hafi verið frystihúsinu árið 1973. Hann minntist þess ekki að neinar minjar hafi komið í ljós við það verk.
Hugsanlega hefur sjórinn þá þegar verið búinn að éta burt mannvistarlögin.

Akurhús

Garður

Akurhús.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr viðsæmilega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekja af fjöruþángi nægileg.” JÁM III, 80.
1919: Tún (a) 96 ha, garðar 770 m2. Tún (b) 1 ha, garðar 880 m2.

Akurhús voru samkvæmt túnakorti frá 1919 rúma 200 m norðvestur af Útskálabænum. Á kortinu sést að bæjarröðin samanstendur af mörgum húsum sem hefur legið hér um bil frá austri til vesturs. Núverandi íbúðarhús í Akurhúsum II (byggt 1932) er í norðausturhorni bæjarhólsins. Hann er um 240 m norðvestur af bæjarhól Útskála.
Bæjarhóllinn er fast vestan við heimreið að Akurhúsum. Umhverfis hann er slétt tún.
Hóllinn er um 50×35 m stór og snýr austur-vestur. Hann er um 0,6 m hár. Núverandi íbúðarhús stendur í norðausturhluta hans.
Það var byggt 1932 en byggt hefur verið við það síðan. Húsið er tvílyft með kjallara. Bæjarhólnum hefur augljóslega verið raskað við byggingu hússins. Hann er gróinn og mjög grýttur syðst.

Nýibær

Garður

Nýibær.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr og i úngneyti ríflega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af þángi nægilegt.” JÁM III, 6.
“Nijebær, þriðja hjáleiga. … Við til húsabótar segist ábúandinn í xx ár ekki þegið hafa, en þá uppbygt hjáleiguna að nýju af viðum, sem staðarhaldarinn Sr. Þorleifur Cláusson hafi sjer þá fengið,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Nýibær rúma 100 m suður af Akurhúsum. Bæjarhóll Nýjabæjar er um 7 m sunnan við núverandi íbúðarhús í Nýjabæ. Hann er um 120 m sunnan við Akurhús. Norðan, austan og vestan við hólinn er slétt tún en sunnan við hann er órækt.
Hóllinn er um 30×35 m stór og snýr austur-vestur. Hann er um 2 m hár. Hóllinn hefur verið sléttaður að nokkru leyti. Í norðvesturhorni hans er steyptur grunnur um 4×4 m stór. Garðlög, leifar kálgarðs liggja frá suðvestur og suðausturhornum hólsins.
1919: Tún 1,18 ha, garðar 760 m2.

Móakot

Garður

Móakot.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr laklega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 81.
1919: Tún 0,7 ha, garðar 450 m2. Samkvæmt túnakorti Garðsins frá 1919 var Móakot um 160 m SSV af Útskálum. Á túnakortið eru merkt fimm sambyggð hús og snýr röðin nær norður-suður.
Bæjarhóll Móakots er um 20 m norðvestan við núverandi íbúðarhús í Móakoti. Hann er fast norðvestan við bílskúr sem grafinn er inn í hólinn að suðaustan. Sunnan við hólinn er malarborið plan en í aðrar áttir er slétt tún.
Hóllinn er um 30×15 m stór og snýr austur-vestur. Hann er um 2,5 m hár. Við suðurbrún hans er grjóthleðsla, mest 4 umför. Hún er um 5 m löng og snýr eins og hóllinn. Hleðslan er vestan við bílskúrinn sem grafinn er inn í suðvesturhorn hólsins. Fast norðan við bílskúrinn, á hólnum sér einnig í grjóthleðslur við grunn skúrsins.

Presthús

Garður

Presthús.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr af tveim þriðjúngum. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.”
JÁM III, 81. 1919: Tún 1 ha, garðar 1800 m2.
Samkvæmt túnakorti Garðsins frá 1919 voru Presthús um 80 m SSA af Móakoti. Átta hús eru merkt á bæjarhólinn á kortinu og snýr bæjarröðin nær austur-vestur. Í örnefnalýsingu Útskála segir: “Talið er, að þau hafi verið byggð yfir prestsekkjur frá Útskálum.”
Bæjarhóll Prestshúsa er fast norðvestan við núverandi íbúðarhús, byggt 1943. Bílskúr stendur á suðvesturhorni hólsins. Sunnan við hólinn er íbúðarhús og bílskúr en í aðrar áttir er slétt tún. Hóllinn er um 35×20 m stór og snýr ANA-VSV. Hann er um 2,5 m hár. Hóllinn hefur augljóslega verið sléttaður í seinni tíð.

Garðhús

Garður

Garðhús.

1703 og 1847, hjáleiga Útskála.
1703: “Fóðrast kann i kýr að tveim þriðjúngum. … Fjörugrasa og sölvatekju og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 82.
1919: Tún 1,1 ha, garðar 1000 m2.

Samkvæmt túnakorti Garðsins frá 1919 voru Garðhús um 50 m ANA við Presthús. Gamli bærinn í Garðhúsum var um 30 m vestan við skemmu við austurenda garðlags og um 120 m norðan við núrverandi íbúðarhús í Garðhúsum. Vilhelm Guðmundsson, heimildamaður, bjó í bænum á uppvaxtarárum sínum. Hann er fæddur 1937. Þar er slétt tún. Aðeins sér móta fyrir ójöfnum í túninu þar sem bærinn stóð en engin skýr ummerki hans eru greinileg.

Vatnagarður

Garður

Vatnagarður.

Hjáleiga Útskála 1703 og 1847.
1703: ” Fóðrast kann i kýr og i vetrúngur … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af fjöruþángi nægilegt” JÁM III, 83. 1919: Tún norðurbæjarins 0,09 teigar, kálgarðar 440 m2. Tún suðurbæjarins 0,07 teigar, kálgarðar 550 m2.

Í örnefnalýsingu Útskála segir: “Vatnagarðar, er nefnd 1703 og 1861, síðan ekki,” og síðar: “Niður undan kirkjugarðinum eru rústir, sem nefndar eru Vatnagarðar.” Í athugasemdum við örnefnaskrá Gerða segir: “Gerðabakkar eru sjávarbakkar fyrir neðan Síkið. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður, stór jörð, nú komin í eyði, en bærinn stendur enn uppi [1978].”

Garður

Vegamót og Vatnagarður – túnakort 1919.

1919 voru tveir bæir í Vatnagörðum, nyrðri og syðri, og er sá syðri. Ekki hefur mjög mikið breyst á svæðinu, miðað við túnakort frá 1919, en 2007 brann þó bærinn á bæjarstæði til grunna. Bæjarstæðið er um 120 m suðvestan af bæjarhól Miðhúsa. Ekki er nú ljóst hvar rústirnar, sem minnst er á í örnefnaskrá.
Bæjarstæðið er á landræmu milli Útskálatjarnar og sjávar. Svæðið er nú (2008) mjög blásið. Nú (2008) stendur eftir steyptur grunnur húss, holur að innan. Hann er um 5 x 6 m að stærð í austur-vestur og um 1×1 m steypupartur stendur út úr honum að sunnan. Þar hefur inngangur líklega verið. Innan í grunninum er um 0,6 m djúp gryfja sem til er kominn vegna uppblásturs. Undir gróðri kemur í ljós skeljasandur sem er mjög laus í sér, og stuðlar að uppblæstrinum. Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða.

Miðhús

Garður

Miðhús.

1703: Jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847: 20 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið í skjölum um rekaskipti frá um um 1270: “Þetta er reka skipti aa rost hvalsnesi eptir þvi sem at fornv hefer verit. …Þa eigv Midhvs vt til byrdinga skers j vtskala oss. Þadann eigv vtskaler til skagaflesiar.” DI II, 76-77.
Jarðarinnar er getið í fjárskiptabréfi “milli húsfrú Hólmfríðar Erlendsdóttur af einni álfu, en af annari Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar, og systkina hans” frá 1522. DI IX, 87 Þá er hennar getið í í yfirýsingu Gissurar Skálholtsbiskups frá 1541 þar sem hann lýsir því yfir að “hústrú Hólmfríðr Erlendsdóttir haldi til fullrar eignar jörðunum Sandgerði, Króki og Miðhúsum …” DI X, 657 og í dómi um “testametum hústrú Hólmfríðar heitinnar Erlendsdóttur” frá 1545, DI XI, 402. Þá er jarðarinnar aftur getið í dómi frá 1547 “um gildi gjafabréfs hústrú Margrétar Vigfúsdóttur 1486 um ánefnt jarðagóz til Þorvarðs Erlendssonar, dóttursonar síns…” DI XI, 570.
Þorleifur Björnsson lýsir því yfir í Miðhúsum árið 1569 að “hann viti ekki , að jörðin Dynjandi í Jökulfjörðum hafi nokkurn tíma komið í eign föður síns.” DI XV 300.

Garður

Miðhús og Vatnagarður – minjakort.

1703: “Fóðrast kann ii kýr naumlega. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenníngum ef vill. Torfrista og stúnga ekki nema í sendinni jörð og landlitlu landi. Lýngirif lítilsháttar og lángt í burtu. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsa og skelfisksfjara valla nefnd gefandi. Murukjarnar og þvílíkt ekki nema af reka, þó oftlega til að næra peníng á vordag í heyskorti. Eldiviðartak af fjöruþángi mjög af skorti so annarstaðar þarf til að fá. Heimræði er árið um kríng og gánga skip ábúanda eftir hentugleikum, inntökuskip eingin. … Engjar eru
öngvar. Landþröng hin mesta. Hagar nær því öngvir vetur og sumar.” JÁM III, 84-85.
1919: Tún 3 ha, kálgarðar 700 m2.
Bærinn Miðhús er merktur á túnakort Garðsins frá 1919, austur af Útskálum en vestur af Lykkju. Við hann hefur verið rituð skýring á kortinu: “húsið nýlega flutt.” Í örnefnalýsingu Miðhúsa og Króks segir: “Neðan við bæinn á merkjum móti Útskálum er Miðhúsahóll.”

Garður

Miðhús og Vatnagarður – túnakort 1919.

Í athugasemdum við lýsinguna segir ennfremur: “Miðhúsahóll er þar sem fjósið er nú. Þar var gamla húsið, mikið og stórt, sem rifið var nærri aldamótum.” Hóllinn er ekki til staðar í upphaflegri mynd, en um 1963 var hann sléttaður og á honum byggt fjós og hlaða. Staðsetning gamla bæjarins er þekkt, en allar minjar eru nú horfnar.
Merkjagarður milli Miðhúsa og Útskála er enn til staðar og liggur eftir honum girðing, og liggur fast við norðvesturhluta bæjarhólsins. Hóllinn er allur malarborinn en vestan við hann eru hross á beit. Austan við hann taka við miklir bakkar byggðir af ábúanda, og norðan við hann tún Útskála. Innkeyrsla er að hólnum að sunnan. Stærð bæjarhólsins hefur verið töluverð, um 60×45 m í norður-suður og um 3 m hár áður en hann var sléttaður, miðað við lýsingar Rafns Torfasonar. Stærð hólsins í dag er fremur svipuð, um 55×35 m í norður suður, og þótt mikið efni hafi verið borið burt við sléttun var mikil möl sett í staðinn, þar sem hálfgert kviksyndi var í jarðvegnum. Hann er í dag (2008) enn um tæpir 3 m á hæð, sé miðað við tún Útskála.

Álagablettur, Álfhóll, er í túni Miðhúsa, um 150 m suðvestan við bæjarhól.

Garður

Miðhús – álagablettur.

Hóllinn er í afar grænu og grösugu túni sem reglulega er sleginn. Hóllinn er þó ekki sleginn. Hóllinn er um 0,7 m hár og myndar hring sem er um 5 m þvermál. Álög eru sögð vera á hólnum, og megi því ekki slá efsta hluta hans, annars dynji óhapp yfir þann sem fremdi verknaðinn. Þekktar eru tvær dæmisögur af því hvernig fór fyrir þeim mönnum sem slógu efsta part hólsins. Önnur þeirra segir frá manni sem sló toppinn, en vildi svo ekki betur til en hann missti stuttu eftir tvo fingur, og var fólk því þaðan af beðið um að slá toppinn ekki. Seinna var þó annar maður sem taldi þetta bábiljur og sinnti engu um viðvaranir og sló toppinn. Morguninn eftir fannst besta mjólkurkýrin á bænum dauð.

Krókur

Garður

Krókur.

1703: 20 hdr. Bændaeign. 1847: 20 hdr. Bændaeign. “Krókur var gamla býlið, en svo var Sólbakki byggður úr því. … Sólbakki var færður vegna sjávargangs.” Ö-Miðhús og Krókur, 1. Jarðarinnar er getið í skjölum um rekaskipta frá um 1270: “sandgierdinga. ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktar holm. Þadann fra fvlavik xl fadma ä sanndinn fra kolldvhomrvm. Þadann aa hvalsnes. krokvr. ok vtskaler sydvr til midær holms sinn þridivng hvor þeirra. Þadann eigv vtskaler einer sydvr
til miosyndis.” DI II, 77-78. Jarðarinnar er einnig getið í fjárskiptabréfi “milli húsfrú Hólmfríðar Erlendsdóttur af einni álfu, en af annari Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar, og systkina hans” frá 1522. DI IX, 87.

Garður

Sólbakki og Krókur – loftmynd 2022.

Þá er hennar getið í í yfirlýsingu Gissurar Skálholtsbiskups frá 1541 þar sem hann lýsir því yfir að “hústrú Hólmfríðr Erlendsdóttir haldi til fullrar eignar jörðunum Sandgerði, Króki og Miðhúsum …” DI X, 657 og í dómi um “testametum hústrú Hólmfríðar heitinnar Erlendsdóttur” frá 1545, DI XI, 402. Þá er jarðarinnar aftur getið í dómi frá 1547 “um gildi gjafabréfs hústrú Margrétar Vigfúsdóttur 1486 um ánefnt jarðagóz til Þorvarðs Erlendssonar, dóttursonar síns…” DI XI, 570. Jarðarinnar er einnig getið í skiptabréfi Eyjólfs Einarssonar í Dal undir Eyjafjöllum frá 1558, DI XIII, 323.

Garður

Krókur og Krókvöllur – minjakort.

Þrjár hjáleigur eru nefndar frá bænum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703, Krókshjáleiga og tvær ónefndar báðar í eyði.
1703: “Fóðrast kann ii kýr og i úngneyti laklega. … Torfrista og stúnga hjálpleg. Rekavon lítil. Lýngrif í óskiftu landi lítilfjörlegt og lángan veg í burtu. Eldiviðartak af fjöruþángi hjálplegt. Heimræði árið um kríng og uppsátur í Útskálalandi … Hjér í mót eigu Útskálar vatnsnaut í Króks brunni. Lendíng hættusöm. Tún jarðarinnar spillist af leysingarvatns ágángi. Engjar öngvar. Úthagar litlir mjög sumar og vetur.” JÁM III, 85-86. 1919: Tún 1,2 ha, kálgarðar 1120 m2.

Garður

Króksbrunnur.

“Krókur er næst fyrir neðan Krókvöll. Gamli bærinn stóð uppi á dálitlum hól. Túnið lá einkum sunnan hans, vestan og norðan. Nú er búið að rífa gamla bæinn og byggja nýtt hús skammt fyrir norðan þar sem hann var. Það heitir Sólbakki,” segir í örnefnalýsingu Króks. Í annarri lýsingu Króks og Miðhúsa segir: “Krókur var gamla býlið, en svo var Sólbakki byggður út úr því.” Krókur stóð rúma 150 m suðaustur af Miðhúsum. Á túnakorti frá 1919 er Krókur merktur vestarlega, hjá Garðbæ en það mun rangt og bæði heimildamenn og ritaðar heimildir benda til að hann hafi staðið um 140 m norðaustar, hjá Lykkju sem merkt er á kortið, skammt suðaustan við Sólbakka.
Býlið stendur uppi á grónum hól sem er um 30 m langur og 20 m breiður. Bærinn Sólbakki stendur þar rétt norðvestan við bæjarstæðið. Kálgarður er fast sunnan við býlið.

Garður

Króksbrunnur.

Húsið sem síðast stóð var hlaðið úr að því er virðist tilhöggnum steinum og einnig steypt. Grunnurinn er um 10 m á lengd og um 8 m á breidd að innanmáli þar sem hann er breiðastur. Hann er tvískiptur og liggur veggur í gegnum hann nokkurn veginn miðjan. Nokkuð hrun er að sjá inni í grunninum og þá sérstaklega í norðausturhorninu. Grunnurinn snýr í vestnorðvestur-austsuðaustur og finnst ekkert sýnilegt op eða inngangur, líklega hefur hrun lokað því. Líklegt verður þó að teljast að inngangur hafi verið í norðnorðaustur því þar rétt
fyrir neðan er Króksbrunnur. Þar sem hleðslan er hæst sést í þrjá steina.

Garður

Sólbakki.

Á túnakort frá 1919 hefur verið rituð skýring austan við Garðbæ: “Grund var hér, rústir og tún,” og virðast þá engin bæjarhús uppistandandi. “Fyrir ofan Krók heitir Grund. Þar var býli áður; nú er þar steinahrúga,” segir í örnefnalýsingu. Sléttuð tún eru kringum Krók en nokkru suðvestar safnaði fyrrverandi ábúandi öllu grjóti úr túninu saman í hauga. Ekki tekst að staðsetja Grund þar sem öll kennileiti hafa breyst. Heimildamenn þekkja ekki til nafnsins. Hugsanlega er um eitt bæjarstæði að ræða, þ.e. að Grund og Krókur hafi staðið þar sem Sólbakki var síðar reistur.

Krókvöllur

Garður

Krókvöllur.

Ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. 1847, hjáleiga frá Króki. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 segir í neðanmálsgrein: “Þó að hvorki sýslumaður né jarðabækurnar nefni hjáleigu þessa [Króksvöll], er samt svo að skilja á presti, að hún sé til, sem bygt býli.” JJ, 88.
1919: Tún 1,2 ha, kálgarðar 900 m2.
Samkvæmt túnakorti Garðsins 1919 var Krókvöllur syðst og austust þeirra hjáleigna sem deildu túni með Útskálum, um 150 m SA af Garðbæ.
“Krókvöllur er næst fyrir utan Smærnavöll og næst fyrir ofan Krók. Íbúðarhúsið stendur sem næst neðst í túninu, en túnið nær upp að vegi og austur að Smærnavallatúni. Íbúðarhúsið er nær því á sama stað og gamli bærinn stóð áður. Fjós og hlaða voru örskammt norðaustan við íbúðarhúsið,” segir í örnefnalýsingu.

Garður

Krókvöllur.

Húsið stendur í stóru túni, Krókvelli Það er í dag alveg sléttað og girt mestanpart, nema sunnan megin. Túnin voru á sínum tíma jöfnuð með því að bera mold töluverðan veg og leggja yfir grjót og ójöfnur, og þarnæst var það ræktað upp.
Húsið var byggt á tímabilinu 1897-1905 og tún í kring jöfnuð. Um 1965 var svo braggi byggður norðaustan við húsið, en sá er nú (2008) horfinn, en til stendur að byggja þar skúr, og er nú kominn grunnur að því. Við rask þegar grunnurinn var grafinn komu aðeins 20. aldar gripir í ljós, samkvæmt ábúanda. Húsið var stækkað í kringum 1980. Undir húsinu er kjallari. Enginn eiginlegur bæjarhóll er á staðnum.

Gerðar

Garður

Gerðar.

1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 25 hdr. Bændaeign. Þrjár hjáleigur eru nefndar á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703, tvær þeirra eru þá í byggð en Skúlahús sögð forn eyðijörð í eyði umliðin átta ár.
1703: “Fóðrast kann ii kýr laklega. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenníngum. Lýngrif í óskiftu landi lítilfjörlegt og lángan veg í burtu. Torfrista og stúnga í sendinni jörðu valla nýtandi. Rekavon lítil. Eldiviðartak af fjöruþángi laklegt, og þarf annarsstaðar til að fá. Fjörugrasatekja lítil. Murukjarnar og annað þvílíkt má taka um vortíma til að næra peníng í heyskorti. Heimræði er hjer árið um kríng … Lendíng voveifleg. Tún, hús og garða jarðarinnar fordjarfar árlega sjáfar og vatnagángur til so stórra meina heimilisins, að þar sem menn skyldu á þurru landi gánga, verða skinnklæddir menn að bera kvenfólk heimiliss nauðsynja þjónustu, innan bæjar og utan þegar vetrarleysingar með sjáfargángi uppá falla, og er það stór mein ábúandans að byggja jafnoft aftur garðana og bera sand og grjót af túninu. Engjar eru öngvar. Útigangur í lakasta máta sumur og vetur, og landþrengsli mikil. Vatnsból um sumar og á vetur þegar stórfrost eru, er til stórmeina af miklum skorti og í lakasta máta.”

Garður

Gerðar – túnakort.

JÁM III, 87-88. 1919: Tún 1,5 teigar; kálgarðar 860 m2.
1919: Austurbær: Tún 2 teigar, kálgarðar 2140 m2. Vesturbær: Tún 1,5 teigar, kálgarðar 860 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru tveir bæir í Gerðum, austur- og vestur-bær. Hér er vesturbærinn skráður. Hann var um 70 m norðvestan við eystri bæinn 001. Samkvæmt túnakortinu tilheyrðu bænum 1,5 teigar túns og um 860 m2 kálgarða. Á túnakortinu voru einnig þrjú útihús í hnapp innan kálgarðs um 10 m norðan við vestur-bæinn. Eitt útihúsanna var forgryfja og/eða salerni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: “hjáleiga ein, áföst við bæinn.” Heimildamanni þykir líklegra að hjáleiga hafi verið áföst vestari bænum, en ekki eru nein efnisleg ummerki um það. Bærinn er nú (2008) um 40 m norðan við frystihús Nesfisks.

Garður

Garður – Guðlaugsstaðir – túnakort 1919.

Á túnakorti er merktur brunnur, útihús og tveir kálgarðar sem nú eru horfnir, mest farið undir malbikað plan frystihússins.
Húsin standa við malbikuð bílaplön frystihúss Nesfisks, og við hrossatún. Upp við húsin er mikill hvanngróður, en sú órækt hefur verið þar að minnsta kosti frá 1970.
Íbúðarhúsið stendur á um 50×50 m hól sem nær mest um 2 m hæð. Einnig er þar skúr, sem eitt sinn var fjós Gerða, og er merkt inná túnakortið. Íbúðarhúsið hefur gengið í gegnum einhverjar breytingar frá 1919, og er í dag (2008) í eigu Nesfisks. Austur af fjósinu er sýnileg garðhleðsla en samkvæmt túnakorti var kálgarður enn austar sem ekki er til staðar í dag. Innan í þeim garði er merkt forað, en vegna mikillar hvannaróræktar reynist örðugt að finna ummerki þess.

Auðunnarbær

Garður

Garður – skipulagsuppdráttur 1975.

Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði 1903-1915 segir: “Næst Gerðum var lítið timburhús. Þar bjuggu Auðunn Eiríksson og kona hans, Halldóra.” Þessi bær var nefndur Auðunnarbær og var hann um 100 m norður af Vestri-Gerðum 002, og 7 m suður af grjótgarði við sjávarlínu Garðs. Rústirnar eru í túnjaðri Kirkjuflatar. Við og í bæjarstæðinu vex mikið af hundasúru.
Tóftin er um 5×3 m og snýr í norður-suður. Tóftin er úr einfaldri steinaröð sem myndar e.k. grunn. Ekki er um eiginlegar hleðslur að ræða, en í heimild segir að um timburhús hafi verið að ræða. Innan grunns er jörðin grafin niður um 0,2 m. Túngarður liggar að tóftinni að vestan.

Níelsarbær
Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði 1903-1915 segir: “Næsta hús [við Auðunnarbæ] var torfbær og bjuggu þar ýmsir. Sá, sem ég man helzt eftir, hét Níels.” Bærinn mun hafa verið kallaður Níelsarbær, í það minnsta á þessum tíma. Grunnur Níelsarbæjar er um 100 m frá Jaðri 018 og 85 m norðvestan við Auðunnarbæ, 15 m sunnan við grjótgarð. Grunnurinn er merktur með skilti.
Í dag (2008) er aðeins suðurhlið grunnsins sjánleg. Hún er 7 m á lengd frá austri til vesturs, og um 0,5 á breidd.
Sé miðað við gróðurfarsmun gæti breiddin hafa verið 4 m. Troðin leið liggur þétt upp við suðurhliðina og meðfram henni 5 m sunnar er túngarður.

Gerðaskóli

Garður

Gerðaskóli.

Í örnefnalýsingu Gauksstaða, Skeggjastaða og Brekku segir ennfremur: “Það sem myndar Skólatjörnina að utan, er Gauksstaðaurð. Þess má geta að þarna var fyrsti skólinn.” Í 90 ára afmælisriti Gerðahrepps er birt grein Ögmundar Sigurðssonar frá 1890 en hann var þá skólastjóri Gerðaskóla, þar segir: “Í Garðinum var stofnaður barnaskóli árið 1871 og byrjaði þar kennsla 1872 … En hvað, sem um það var, þá komst skólinn á fyrir dugnað sjera Sigurðar [Brynjólfssonar] og fáeinna annarra dugandi bænda, og ljet hann reisa hús fyrir hann á sinni eigin lóð í Gerðum. … En hjer fór sem opt vill verða, þegar næga þekkingu vantar á hlutunum , að þetta dýra hús, sem byggt var fyrir skólann, reyndist mjög óhentugt; staðurinn var hinn versti, þar sem húsið stóð; sjór fjell upp að því og rann allt í kringum það í stórflóðum, svo að ekkert leiksvið varð fyrir börn úti við. Herbergin voru mjög óhentug, bæði vegna þess hvað birtan var slæm, og svo voru þau þröng. …

Garður

Gerðaskóli – minnismerki.

Árið 1887 tók sjera Jens Pálsson, sem nú er prestur á Útskálum, við stjórn skólans … Þá var afráðið að selja skólahúsið í Gerðum og flytja skólann heim að Útskálum, en vissra orsaka vegna gat þessu ekki orðið framgengt. Skólanefndin fékk því til leigu tvö herbergi handa skólanum hjá bónda einum í Garðinum … Á næsta sumri [þá líklega um 1891] er í ráði að gera við hús það sem skólinn á á Útskálum svo að eigi þurfi lengur að legja húsnæði handa honum.” Minnismerki um skólann er um 90 m suðaustan við Eystri-Gerðar og um 20 m austan við Valbraut. Þar er malarhrúga með minnisvarða um Gerðaskólann.
Skólinn, sem var steinhús, var rifinn á seinni hluta 20. aldar að tillögu fegrunarnefndar.

Klöpp

Garður

Lónshús – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Klöpp um 100 m sunnan við vestari-bæinn og um 40 m norðvestan við Einarshús. Um 120 m suðvestur af Neðra-Gerði og 100 m suðvestar er tóft sem kemur heim og saman við staðinn. Við hana hefur verði sett skilti sem á stendur “Miðengi” en ekki ljóst hvaðan sú heimild er fengin.
Tóftin er í órækt aðeins 10 m suðvestur af girtu túni. Grjóthlaðinn grunnur húss sem stendur frekar hátt. Er hann 7×5 m að stærð að utanmáli og er hæð hans 0,5 m. Grunnurinn snýr í austur-vestur og er nokkuð lægri til vesturs. Grjótið í honum virðist að einhverju leyti tilhöggið. Fyllt hefur verið í grunninn og er fremur grýtt og gróið grasi innan hans. Leifar af gaddavír og járnplötu eru sunnan við tóftina og umhverfis hana er nokkuð af grjóti.

Einarshús

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Einarshús um 140 m sunnan við vestari-bæinn og um 20 m ANA við Önnuhús. Tún býlisins voru árið 1919 0,01 teigar og kálgarðar alls 300 m2. Minjarnar eru í afgirtu en óræktuðu túni. A: Steinsteyptur, feryrndur grunnur. Er hann 8×5 m að utanmáli og snýr u.þ.b. í austur-vestur. Breidd veggja er 0,3 m og mesta hæð þeirra er 0,8 m. Á syðri langvegg um 0,5 m frá horni sést móta fyrir dyraopi. Báðir gaflar ásamt suðvesturhorni eru fremur rofnir en þó sést móta fyrir þeim. Nokkuð af steypubitum hefur hrunið inn í grunninn og er þar fremur grýtt en einnig grasi gróið.

Gerðastekkur

Garður

Gerðar – loftmynd 2022.

“Ofan við þjóðveginn að sjá í Ósvörðuna frá bæ heitir Gerðastekkur,” segir í örnefnalýsingu. Ofan við þjóðveginn eru íbúðahverfi.
Heimildamenn þekkja ekki til að hér hafi verið stekkur, og leit milli Gerða og Ósvörðu skilaði ekki árangri. Líkast til hefur stekkurinn farið undir íbúðahverfi.

Þorsteinshús

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Þorsteinshús um 100 m sunnan við eystri-bæinn og um 10 m vestan við Eyjólfshús. Bæjarröðin sneri norður-suður, fast vestan við veg. Tún býlisins voru árið 1919 0,65 teigar og kálgarðar alls 660 m2. Þorsteinshús stóð líklega þar sem Gerðavegur 21 er nú.
Íbúðahverfi, sléttuð grasflöt í garði við Gerðaveg 21, sunnan við það eru hins vegar óhirt tún. Gerðavegur 21 stendur á lágum hól sem gæti verið bæjarhóll Þorsteinshúsa.

Fjósar

Garður

Fjósar og Valbraut – loftmynd.

“Skúlahús … Þau voru skammt þar frá sem gamli skólinn er, þó fjær honum en Fjósar (hús),” segir í athugasemdum við örnefnalýsingu Gerða. Þetta mun hafa verið á h.u.b. sama stað og býlið Valbraut en skv. Stúdentakorti frá 1954 stóð Valbraut um 150 m suður af Neðri-Gerðum, aðeins fáeinum metrum austan við Gerðaveg. Í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur og býli í Garði 1903-1915 segir: “Eru nú ótalin tvö býli: Valbraut og Fjósin.” Ekki er bæjunum lýst nánar. Nú hafa verið sett niður tvö skilti í rústum á þessum stað. Á öðru stendur Valbraut og hinu Fjósar. Tóftirnar eru í afar grónu en ónýttu túni.

Haraldshús

Garður

Skúlahús – brunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Haraldshús um 80 m sunnan við Eyjólfshús. Tún býlisins voru árið 1919 0,08 teigar og kálgarðar alls 480 m2.
Óræktað land, fremur blautt.
240 m suður af Neðri-Gerðum er lítill hóll. Hann er um 3 m í þvermál og um 0,3 m hár. Heimildir benda til að þar hafi Haraldshús staðið. Á hólnum vex hvönn sem gerir það erfitt um vik að greina nokkrar fornleifar á honum. B: 50 m austan við Haraldshús er tóft. Á Stúdentakorti eru hún nefnd Steinbogi. Á svipuðum stað er sýnt útihús frá Haraldshúsum á túnakorti og gætu þetta verið leifar þess. Tóftin er ferhyrnd, 5×4 m að stærð og snýr í norðvestur-suðaustur. Syðri langhlið er veglegust.

Mjósund

Garður

Hólavellir.

“Sjávarmegin var svæði, sem kallað var Skákir, þar sem nú eru fiskihús og athafnasvæði fiskútgerðarinnar. Þar upp af eru bæði Vorhús og Mjósund, sem hvort tveggja var býli, en nú í eyði,” segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Mjósund hefur staðið og nafnið er ekki vel þekkt í dag. Líklegast er að skipt hafi verið um nafn á býlinu og um sé að ræða annaðhvort Settubæ eða Einarshús.

Sigurjónshús
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Sigurjónshús um 30 m SSA við Haraldshús. Tún býlisins voru árið 1919 0,11 teigar og kálgarðar alls 800 m2. Nú stendur þar íbúðarhús, Gerðavegur 16. Svæðið í kringum íbúðarhúsið er sléttað og ekki eru nein ummerki um tóftir eða garða.

Settubær

Garður

Settubær.

Settubær stóð um 260 m suðvestur af Eystri-Gerðum. Þar eru rústir. Grasi gróið svæði. Rústir Settubæjar ná yfir svæði sem er alls um 45×20 m norðaustur-suðvestur. Tóft A er austast, tvíhólfa tóft með áföstum garði, og er um 8×8 m að stærð. Stærra hólfið er um 4×3 m NA-SV og er opið út í garðinn í suðaustur og annað op út í suðvestur. Allar hleðslurnar eru grónar en vel sést í steinhleðslurnar, sérílagi á norðausturhlið kálgarðsins. Tóftin er á um 0,5m háum hól.

Steinshús

Garður

Steinshús.

Á túnakort Gerða frá 1919 er túnskiki merktur Steinshúsi og í honum kálgarður. Engin hús eru merkt við garðinn og ekki ljóst hvar bærinn stóð.
Tún býlisins voru, samkvæmt túnakortinu, 0,23 teigar og kálgarðar alls 200 m2. Líklegast er að Steinshús hafi staðið rúma 200 m norðaustur af kálgarði, þar sem nú stendur íbúðarhúsið Steinshús. Í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur og býli í Garði 1903-1915 er minnst stuttlega á Steinshús en ekki getið um staðsetningu þess.

Gaukstaðir

Garður

Klöpp.

1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 29 1/6 hdr. Kirkjueign. Jarðarinnar er getið í grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: “…Hinn þridia þridvng taka gvkstader ok skeggiastader…”, DI II, 78. Þá er hennar getið í álitsgerð vegna landamerkjaágreiniings milli Skálholtsstólsjarða og Gauksstaða frá árinu 1528, DI IX, 465. Árið 1919 var tvíbýli á Gauksstöðum.
1703: “Fóðrast kann iiii kýr naumlega á allri jörðinni …Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenníngum. Torfrista og stúnga engin. Lýngrif lítið og í fjarska uppá heiðum í óskiftu landi. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon lítil. Murukjarnatekja nokkuð lítil sem brúkuð er til að næra peníng á heyskorti. Heimræði er árið um kríng, þó um vetur valla nýtandi, því lendíng er mjög slæm … Eldiviðartak af fjöruþángi naumlega til heimamanna brúkunar. Túnum og görðum spillir sjáfarágángur og so hjallhúsum. Engjar eru öngvar. Útigangur engin sumar
nje vetur. Vatnsból merkilega slæmt og bregðst sumar og vetur.” JÁM III, 90.

Garður

Gauksstaðir.

1919: Austurbær: Tún 1,5 teigar, kálgarðar 870 m2. Vesturbær: Tún 1 teigur, kálgarðar 880 m2.
Gaukstaðir eru um 180 m norður af Skeggjastöðum, við enda Gauksstaðavegar. Árið 1919 þegar túnakort var gert af Gauksstöðum voru þar tveir bæir. Á túnakortið er merkt þyrping
húsa sem nær yfir svæði sem snýr norður-suður. Þar hafa bæirnir líklega staðið. Elsti hluti hússins sem nú stendur á bæjarstæðinu hefur sennilega þegar verið reistur þegar túnakortið var teiknað en byggt var sunnan við húsið á 5. áratug 20. aldar.

Garður

Gauksstaðir og Skeggjastaðir – minjakort.

Greinilegur bæjarhóll er undir íbúðarhúsinu. Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði segir að Gísli Einarsson hafi reist stórt timburhús á Gauksstöðum, væntanlega fyrir aldamótin 1900. Það var tekið niður og flutt til Reykjavíkur en steinhús, sem er væntanlega að hluta enn uppistandandi, var reist 1913.
Bæjarstæðið er fast niður við sjóinn. Stórt, slegið tún er sunnan við bæ. Alls er bæjarhóllinn um 50 x 30 m stór frá austri til vesturs. Á honum stendur stórt íbúðarhús, skemma norðan
við það og gamalla bárujárnsskúr austast.

Lambhús

Garður

Lambastaðir – uppdráttur; Sigríður Jóhannsdóttir 1978.

“Upp af bæ er lambhús, og þar austur af er Eiði,” segir í örnefnalýsingu. Íbúðarhús sem nefnist Lambhús stendur að því er virðist nálægt þessum stað. Það er um 180 m vestur af Gauksstöðum. Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði á árunum 1903-1915 segir: “Á Gauksstaðalóðinni var eitt tómthúsbýli, Lambhús.”
Gamall, einlyftur steinbær og þétt byggð í kring nema Gauksstaðatúnið er að austanverðu. Engar leifar sjást af eldri húsum og raunar ekki fullvíst að umrædd lambhús hafi staðið á nákvæmlega sama stað og íbúðarhúsið, þótt líkur bendi til þess.

Bjarghús
“… er túngarður úr grjóti upp fyrir tómthúsið Bjarghús,” segir í örnefnalýsingu. Síðar í sömu lýsingu segir: “Svo er Hábær ofan við Bjarghús.” Hér hefur verið giskað á að rústir séu af Hábæ en þeirri ágiskun fylgir nokkur óvissa. Staðsetning Bjarghúsa verður að teljast óþekkt að svo komnu máli þótt sennilega hafi þau verið í námunda við Hábæ.

Hábær

Garður

Varir.

Í örnefnalýsingu segir: “Ofan við bæ [Skeggjastaði], upp við veg, er nýbýli, sem heitir Steinstaðir, vestur af Eiði. Svo er Hábær ofan við Bjarghús.” Hábær var í landi Gaukstaða en í raun er nákvæm staðsetning hans óþekkt. Af lýsingum að dæma gæti hann þó hafa verið þar sem nú er rúst inni í hestagirðingu um 140 m norðvestur af Skeggjastöðum og um 160 m suðvestur af Gauksstöðum.
Skv. grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur í Garði á árunum 1903-1915 bjó þá fjörgamall maður, Árni Pálsson, í Hábæ. Þess má geta að hús er merkt með nafninu Hábær inn á loftmynd frá sveitarfélaginu. Það virðist standa við Sunnubraut 9 en ekki fékkst staðfest hvort það er á bæjarstæði gamla Hábæjar.
Vel bitin hestagirðing, landamerkjagarður, milli Skeggjastaða og Gauksstaða er um 10 m sunnan við rústina.

Tjarnarkot

Garður

Varir, Meiðastaðir og Ívarshús – túnakort.

“Ofan við Skólatjörnina var Tjarnarkot,” segir í örnefnalýsingu. Tjarnarkot hefur líkast til verið um 100 m suðaustur af bæjarstæði Gerða en staðsetningin er ekki mjög nákvæm, enda hefur svæðinu verið raskað mjög mikið. Þar sem Skólatjörn var áður hefur átt sér stað mikil uppfylling, og stendur þar nú fiskvinnsluhús.
Ekki sjást nú (2008) leifar Tjarnarkots.

Skeggjastaðir
1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 8 1/8 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið í grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: “…Hinn þridja þridivng taka gavkstader ok skeggiastadir…”, DI II, 78. Þá er hennar getið í hlutabók eða sjávargerðarreikningi Kristjáns skrifara frá 1548, DI XII, 127 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.

Garður

Skeggjastaðir – loftmynd 2022.

Árið 1919 var tvíbýli á Skeggjastöðum.
1703: “Fóðrast kann i kýr ríflega …Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfristu og stúngu þar í annars jarða löndum til að fá. Eldiviðartak af fjöruþángi mjög lítið. Rekavon því næsta engin. Murukjarnatekja með stórstraumi nokkur til að næra peníng á heyskorti. Heimræði er árið um kríng og lending frí á Gaukstaðalandi …Engjar eru öngvar. Útigángur enginn sumar nje vetur. Vatnsból er ekkert í landareign jarðarinnar.” JÁM III, 90-91.
1919: Norðurbær: 0,82 teigar, kálgarðar 1150 m2. Suðurbær: Tún 0,78 teigar, kálgarðar 910 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var þá tvíbýli á Skeggjastöðum. Það kemur heim og saman við það sem segir í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur í Garði 1903-1915: “Á Skeggjastöðum var tvíbýli. Á öðrum bænum bjó Ólafur Gíslason……Á hinum jarðarpartinum byrjaði að búa 1910 Tryggvi Matthíasson trésmiður.” Syðri bærinn stóð um 10 m ASA við nyrðri bæinn. Þar er merkt T-laga húsaþyrping og kálgarður fast austan við.
Skeggjastaðir eru um 70 m norðvestan við Brekku. Núverandi bæjarhús standa klárlega á bæjarstæði syðri bæjarins en hér er samt öllum bæjarhólnum lýst. Hús stendur á hólnum miðjum, afgirtur garður er sunnan við húsið og bílastæði norðan og vestan við það.
Enginn kjallari er undir íbúðarhúsinu. Austan og norðan við hólinn eru tún, niður að sjó. Bílskúr stendur við húsið.

Húsatóftir

Garður

Móabær – túnakort 1919.

Hústóft er um 65 m vestur af Skeggjastöðum, fast norðan við heimreiðina. Þetta gætu verið Húsatóftir eða Húsatættur en um staðinn segir í örnefnalýsingu “Svo er Hábær ofan við Bjarghús. Þar neðar og nær bæ eru Húsatættur.” Um tómthúsið segir í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur í Garði 1903-1915: “Guðmundur Jónsson bjó að Húsatóftum. Hann gerði oftast út skip á vertíð og bát haust og vor.” Tóftin er á grónu óræktarsvæði, gróðurinn þar nær allt að 2 m hæð við vegkant. Um er að ræða tóft af litlu útihúsi með áföstum garði, líklega kálgarði. Alls er mannvirkið um 9×5 m stórt.

Steinsstaðir
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð þurrabýlið Steinsstaðir um 220 m VSV við Garðstaði og um 50 m norðvestan við Eiði. Samkvæmt túnakortinu voru tún býlisins 0,09 teigar og kálgarðar alls 300 m2. Í örnefnalýsingu segir: ” Ofan [sunnan] við bæ, uppi við veg, er nýbýlið Steinstaðir, vestur af Eiði.”

Garður

Meiðastaðir – minjakort.

Hugsanlega hafa Steinsstaðir fallið í eyði og verið byggðir upp aftur um það leyti sem örnefnalýsingin var skráð, þ.e. um miðbik 20. aldar, en staðsetning þess í lýsingunni kemur vel heim og saman við staðsetningu Steinstaða á túnakortinu frá 1919 og því líkega um einn og sama staðinn að ræða. Steinsstaðir eru í Skeggjastaðalandi, um 260 m VSV af Gauksstaðabænum. Í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur í Garði 1903-1915 kemur fram að Steinsstaðir hafi verið mjög lítill bær.
Þar er nú stórt og veglegt einbýlishús, merkt Steinsstaðir á loftmynd frá sveitarfélaginu.
Allar leifar um eldri byggingar eru horfnar. Óræktarlóð er austan við húsið og þar sjást reyndar talsverðar ójöfnur.

Eiði
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð þurrabýlið Eiði um 50 m suðaustan við Steinsstaði. Þá var tvíbýlt á jörðinni en bæirnir sambyggðir. Bæjarröðin snýr austur-vestur. Samkvæmt túnakortinu voru tún eystri bæjarins 0,03 teigar og kálgarðar alls 550 m2. Tún vestri bæjarins voru 0,09 teigar og kálgarðar 540 m2. Í örnefnalýsingu segir: “Upp af bæ er lambhús, og þar austur af er Eiði.” Eiði var þar sem nú er lóð leikskólans í Garði, nánar tiltekið þar sem nú leikkastali á lóðinni. Þetta er um 180 m norðvestur af Skeggjastöðum. Sléttuð lóð með leiktækjum.
Öll ummerki um Eiði eru horfin. Eiði mun hafa verið síðasti uppistandandi torfbærinn í Garði.

Garðsviki

Garður

Steinshús fremst.

“Þar neðar og nær bæ eru Húsatættur, og efst er Garðsviki,” segir í örnefnalýsingu. Í athugasemdum við lýsinguna segir ennfremur: “Kot var í Garðsvika.” Í grein Hallmanns Sigurðssonar um búendur og býli í Garði 1903-1915 er ekki minnst á Garðsvika en þar er hins vegar talað um Garðsríki og ekki ólíklegt að það hafi verið sami bær: “Í Garðsríki bjó á þessum árum maður að nafni Matthías, var hann aðfluttur og dvaldi þar fremur stutt og veit ég ekki meira um hann að segja.” Ekki fengust upplýsingar um hvar bærinn stóð. Í lýsingu Hallmanns er það Garðsríki upp milli Steinsstaða og Sigríðarstaða sem er síðasti bærinn sem minnst er á áður en komið er í Gerðahverfi. Erfitt er að átta sig á staðháttum út frá þessum lýsingum.

Sigríðarstaðir

Garður

Móabær.

Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði 1903-1915 segir: “Sigríðarstaðir er næsti bær [við Garðsríki]….Eru þá upptaldir bæir, sem ég man eftir fyrir innan Gerðar.” Ekki fundust aðrar heimildir sem minnast á Sigriðarstaði og ekki ljóst hvar bærinn stóð.

Brekka
1703, jarðardýrleiki óviss. Konungsiegn. 1847, 6 1/4 hdr. Konungseign. Jarðarinnar er getið í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar frá 1552, DI XII, 418, 421 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.
1703: “Fóðrast kann i kýr ríflega … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfrista og stúnga engin í landi jarðarinnar það menn vitu til vissu, en lánga vegu burt upp í heiði hafa ábúendur um nokkrar studnir stúngið torf á hey og eldivið, og hefur ekki átalið verið. Eldiviðartak af fjöruþángi mjög lítið. Rekavon lítil mjög eður engin. Murukjarnatekja nærri því engin. Heimræði er árið um kríng … Tún jarðarinnar blæs upp árlega og gengur upp fastagrjót. Engjar öngvar. Úthagar öngvir sumar nje vetur. Vatnsból næsta því ekkert í landeign jarðarinnar,” JÁM III, 91-92.

Garður

Nýlenda.

1919: Tún 1,6 teigar, kálgarðar 1020 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð Brekka um 60 m norðvestan við syðri bæinn á Skeggjastöðum. Þetta er um 170 m norðvestur af Vörum. Steinsteypt hús á greinilegum hól, grasi vaxið umhverfi. Þéttbýli er um 100 m suðvestar en ágætis tún er umhverfis Brekku. Vegur liggur upp að húsinu úr suðri.
Hóllinn er alls um 60×50 m stór frá norðri til suðurs, sennilega náttúrulegur að hluta. Á honum stendur einlyft steinhús. Austurhluti þess var byggður árið 1937 af eiginmanni Steinunnar Sigurðardóttur en vesturhlutinn er yngri viðbygging. Árið 1937 hafði ekki verið búið í Brekku um nokkurra ára skeið. Rústir voru á staðnum, aðallega man Steinunn eftir einum hlöðnum vegg og hlóðaeldhúsi vestan við norðurhluta hússins. Þar var fagurlega hlaðinn veggur, eins og klömbruhnaus en úr grjóti. Framan við húsið, þ.e. um 20 m norðaustan við, eru smáhólar sem skera sig úr. Þar fann sonur Steinunnar mikið af öðuskel þegar hann lék sér að því að grafa í hólinn. Því má ætla að öskuhaugur sé undir. Framan við suðausturhorn steinhússins var kvarnarsteinn sem nú liggur brotinn framan við bæjardyr – þeir voru reyndar tveir upphaflega en hinn var mun þynnri og eyðilagðist.

Brekkukot

Garður

Móakot.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð býlið Brekkukot um 85 m suðaustan við bæ. Bæjarhóllinn er fast norðaustan við nýbýlið Bjarmaland (1945). Jóhanna Kjartansdóttir þekkir bæinn sem Brekkubæ, og kannast ekki við Brekkukot. Á túnakorti frá 1919 er þessi staður þó greinilega merktur sem Brekkukot. Í örnefnalýsingu er minnst á Brekkubæ: “Brekkubær er uppi í móa.” Í athugasemdum við lýsinguna segir ennfremur: “Brekkubær er eyðikot.” Ekki er ljóst hvort þar er átt við þennan stað eða jafnvel Brekku en hún var í eyði, í það minnsta upp úr 1930.
Ekkert hús stendur nú á hólnum en hann er sleginn reglulega. Umhverfis hólinn voru nokkrir kálgarðar ræktaðir fram á 20. öldina samkvæmt heimildamanni, en nú sjást þeirra engin merki. Svæðið austan við hólinn er í órækt og lítið hægt að sjá þar. Hóllinn er um 10×20 m og snýr í norðvestur-suðaustur.
Um 2 m norður af hólnum er lítil bunga. Sunnan megin á hólnum er annar hóll, sá er eftir flaggstöng sem reist var af föður heimildamanns á fyrri part 20. aldar. Í hólnum glittir svo í steina á stöku stað sem gætu verið hleðslur. Heimildamaður segir að meðan grasið var slegið hafi mátt sjá steinstétt liggja norður frá hólnum, en ekki er hægt að greina hana í dag.

Varir

Garður

Varir.

1703. jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 25 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið á skrá yfir hvalskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: “…Annan þridívng varer ok straglastader ok darrastader…”, DI II, 78. Þá er hennar getið í máldaga Hvalnesskirkju frá 1370, DI III, 256 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 nefnir tvær hjáleigur á jörðinni og er þá önnur í eyði.
Árið 1919 var tvíbýli í Vörum samkvæmt túnakorti jaðrarinnar. “Fyrir ofan Varir eru þrjú nýbýli úr landi jarðarinnar,” segir í örnefnalýsingu Vara, 3.

Garður

Varir og Brekka – minjakort.

1703: “Fóðrast kann i kýr og önnur að tveim þriðjúngum … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfrista og stúnga engin nema sú, er brúkuð er láng frá upp í heiði. Eldiviðartak af fjöruþángi hvörgi nærri sem nauðsyn er til, og þarf annarsstaðar til að fá. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon nokkur með stórstraumi. Heimræði er árið um kríng og lending hin besta …Engjar eru öngvar. Útigangur enginn sumar nje vetur. Vatnsból er ekkert í landeign jarðarinnar.” JÁM III, 92-93.
1919: Neðri bær: Tún 0,9 teigar, kálgarðar 720 m2. Efri bær: Tún 1 teigur, kálgarðar 840 m2.
Árið 1919 var tvíbýli í Vörum, efri- og neðri-bær. Neðri bærinn hefur staðið vestar og norðar samkvæmt túnakorti frá 1919. Í örnefnalýsingu jarðarinnar segir: “Varabærinn stendur á háum hól niður við sjó. Þar stóð áður baðstofa, sem nefnd var Höllin sökum stærðar sinnar. Hana byggði Einar Sigurðsson, sem bjó í Vörum næst á undan Halldóri [Þorsteinssyni sem kom að Vörum 1911]. Hann byggði einnig útihús með gestaherbergjum og lokrekkju.

Garður

Kothús og Ívarshús – minjakort.

Ekkert stendur nú eftir af húsum þessum.” Í lýsingunni segir ennfremur: “Steinsnar fyrir ofan og innan Varir er nýtt hús, Varir II (eða Efri-Varir í daglegu tali). Standa Vararbæirnir báðir í sama túninu.” Varir standa næst sjó af öllum bæjum á svæðinu. Bærinn er um 170 m suðaustur af Brekku og um 120 m vestur af Kothúsum. Á hólnum stendur myndarlegt, gult bárujárnshús.
Árið 1919 var tvíbýli í Vörum, efri- og neðri-bær. Efri bærinn hefur staðið austar og sunnar samvkæmt túnakorti frá 1919. Í örnefnalýsingu jarðarinnar segir: “Varabærinn stendur á háum hól niður við sjó. Þar stóð áður baðstofa, sem nefnd var Höllinn sökum stærðar sinnar. Hana byggði Einar Sigurðsson, sem bjó í Vörum næst á undan Halldóri [Þorsteinssyni sem kom að Vörum 1911]. Hann byggði einnig útihús með gestaherbergjum og lokrekkju. Ekkert stendur nú eftir af húsum þessum.” Ekki er ljóst hvort um vestari eða eystri bæinn er að ræða. Í lýsingunni segir ennfremur: “Steinsnar fyrir ofan og innan Varir er nýtt hús, Varir II (eða Efri-Varir í daglegu tali). Standa Vararbæirnir báðir í sama túninu.” Austari bærinn hefur staðið austarlega á bæjarhól og gæti hluti þess bæjarstæðis meira að segja hafa farið undir veg sem liggur að steyptu fiskhúsi við sjóinn.

Kothús

Garður

Kothús.

1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 14 1/6 hdr. Bændaeign. Kothúsa er getið í neðanmáls við grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi. Þar stendur að bærinn sé þar sem áður voru Darrarstaðir, DI II, 78. Þá er jarðarinnar einnig getið í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.
1703: “Fóðrast kann ii kýr naumlega. … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfristu og stúngu á jörðin öngva, en er þó ekki meinað að brúka það í landi eyðijarðarinnar Heiðarhúsa, og tekur það þó mjög að eyðast. Lýngrif nokkuð brúkar jörðin fjarlægt í heiðum uppi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil.
Skelfiskfjara lítil. Eldiviðartekja af fjöruþángi lítið mjög, og þarf annarstaðar til að fá, ef bjarglegt skal vera. Heimræði er árið í kríng … Engjar öngvar. Útihagar öngvir. Vatnból ekkert nema fjöruvatn.” JÁM III, 94.
1919: Efri bær: Tún 0,6 teigar, kálgarðar 1500 m2. Neðri bær: 0,64 teigar, kálgarðar 1370 m2.

Garður

Kothús.

Kothús stóðu 30-40 m norður af Ívarshúsum og rúma 100 m SSA af Vörum. Árið 1919 var tvíbýli í Kothúsum, efri og neðri bær. Á bæjarstæðinu standa nú tvö hús líkt og sýnt er á kortinu 1919 og skilja einungis nokkrir metrar milli hússtæðanna. Er líklega um sömu hús að ræða, í það minnsta virðast þau komin til ára sinna.
Húsin standa á marflötu svæði og enga hólmyndun er þar að sjá. Malarplan er vestan við húsin en annars órækt í kring. Hér er syðra húsið skráð. Það er steinhús eða mögulega forskalað timburhús og enginn kjallari undir því. Ekki er kjallari undir húsinu og vottar alls ekki fyrir upphleðslu eða bæjarhól undir.

Blómsturvellir

Garður

Blómsturvellir.

“Upp af Vatnaskeri, neðan Kothúsa, eru rústir eftir tómthúsbýli, sem hét Blómsturvellir. Þar var byggð um aldamótin. Tætturnar sáust vel fyrir nokkrum áratugum, en eru nú horfnar,” segir í örnefnalýsingu.
Heimildamenn telja Blómsturvelli hafa verið beint vestur af Meiðastaðakotunum. Í örnefnalýsingu Meiðastaða segir: “Milli fiskhúsanna og bæjar [Meiðastaða], vestan við götuna niður að sjó eru tvö kot sem heita Meiðastaðakot. Þau eru í líkri línu og Blómsturvellir í Kothúsalandi.” Staðsetning kotsins verður þó að teljast ónákvæm.
Svæðið er sléttað tún og hvergi sér móta fyrir minjum nú (2008).

Kaldbak

Garður

Blómsturvellir – túnakort.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð þurrabýlið Kaldbak um 30 m vestan við Móabæ, kálgarðar eru merktir fast norðan, sunnan og austan við húsið. Samkvæmt túnakortinu voru tún býlisins um 0,07 teigar og kálgarðar alls 550 m2. Í örnefnalýsingu Kothúsa segir: “Í Kothúsalandi var Kallbak (ur) fyrir ofan veginn.
Aðeins innar var Móabær.” Rústir Kaldbaks eru enn greinilegar, um 250 m sunnan við Kothús. Þær eru 50-60 m sunnan við aðalgötuna Garðbraut. Grasi vaxið óræktarsvæði sem markast af iðnaðarhúsnæði að sunnan og vestan en götum að austan og norðan.
Þokkalega greinileg tóft en veggir þó mikið farnir að síga. Hún er alls 12×7 m stór frá NA-SV og skiptist í tvennt. Vestar er eins og lítil hústóft, um 5×5 m stór að utanmáli. Hún virðist opin í suður eða suðvestur, með nokkuð óreglulega veggi sem eru hæstir að norðanverðu, hátt í 2 m.

Móabær

Garður

Móabær.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð þurrabýlið Móabær um 30 m austan við Kaldbak. Kálgarður var fast vestan við bæinn. Samkvæmt túnakortinu voru tún býlisins 0,4 teigar og kálgarðar alls 470 m2. Í örnefnaskrá Kothúsa segir: “Í Kothúsalandi var Kallbak(ur) fyrir ofan veginn. Aðeins innar var Móabær. Hann var í byggð fram yfir aldamót.” Í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði 1903-1915 er minnst á Nóabæ en ekki Móabæ og má ætla að það sé sami staður. Staðsetningu tilgreinir Hallmann ekki að öðru leyti en því að Nóabær hafi verið í Kothúsalandi. Móabær stóð um 45 m suðaustan við Kaldbak. Þar er mjög grösugt óræktarsvæði fast sunnan við íbúðarhús.
Engin tóft sést, aðeins lágreist og ávöl þúst á kafi í grasi. Brúnir hennar eru hvergi skýrar heldur fjarar hún út í landið umhverfis. Nú er búið að reka staur niður í þústina og þar á að setja skilti með heiti bæjarins. Þústin er 10-15 m í þvermál og 0,5-0,7 m há. Ekkert grjót sést í henni og ekkert rústalag.

Hausthús

Garður

Móabær – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð þurrabýlið Hausthús um 50 m norðvestan við Kaldbak. Samkvæmt túnakortinu voru tún býlisins 0,06 teigar og kálgarðar alls 600 m2. Hausthús standa enn, næsta hús austan við Garðstaði eða Garðbraut 31. Hausthúsa er getið í grein Hallmanns Sigurðssonar um býli og búendur í Garði 1903-1915. Þá bjó þar Sigurður Bjarnason.
Þar stendur tvílyft bárujárnshús sem sennilega hefur verið risið þegar árið 1919. Enginn hóll er undir því og engin merki sjást um eldra hús.

Darrarstaðir

Garður

Kothús og Ívarshús – minjakort.

“…Annan þridívng varer ok straglastader ok darrastader er þar okk v stada skipte: taka tvo hlute varer: enn hin tvo þira ok jafnmikit hvort,” segir í grein um hvalskipti á Romshvalanesi í Fornbréfasafni Íslands. Í neðanmálsgrein segir ennfremur að Straglastaðir og Darrarstaðir séu nú (1893) Ívarshús og Kothús. Darrastaða er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703: “So segja góðir menn, að i þessari sveit hafi þeir heyrt til forna verið hafa jarðir tvær, sem kallaðar skuli verið hafa Darrastaðir og Straglastaðir, sumir segja Stranglastaðir. Hvar þær jarðir sjeu nú eður hafi verið, þykist enginn vita, nema hvað eftir því sem segir í gömlum Rosmshvalaness rekaskiftamáldaga nefnir þessar áðurgreindar tvær jarðir, og standa þær í tölu jarðanna hjer í Garði so niður settar, að skynsamir menn ætla þær sjeu hinar sömu, sem nú eru kölluð Kothús og Ívarshús.
Því að so sem i þeim máldögum er i þessari röð Darrastaðir og Straglastaðir nenfdir, so finst í hvörugum Kothús nje Ívarshús nefnd vera, og standa þó báðar þessar jarðir í sömu röð sem hinar áður.” Hér verða þessar kenningar látnar liggja milli hluta. Staðsetning Darrastaða er með öðrum orðum ekki þekkt en vel má vera að bærinn hafi verið þar sem síðar byggðust Ívarshús eða Kothús. Ummerki, þ.e. magn uppsafnaðra mannvistarleifa, benda frekar til að Ívarshús geti verið gamalt bæjarstæði.

Ívarshús

Ívarshús

Ívarshús.

1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 11 2/3 hdr. Bændaeign. Ívarshúsa er getið í neðanmálsgrein við grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi. Þar segir að bærinn sér þar sem Straglastaðir (097:010) voru áður, DI II,
78. Jarðarinnar er getið í afgjaldsreikningi Eggerts hirðstjóra Hannessonar frá 1553, DI XII, 578 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.
Árið 1919 er tvíbýli í Ívarshúsum en bæirnir sambyggðir.
1703: “Fóðrast kann i kýr og i úngneyti. … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfristu og stúngu á jörðin öngva, en er þó ekki meinað það að brúka í landi eyðijarðarinnar Heiðarhúsa, og tekur það þó mjög að eyðast. Lýngrif nokkuð brúkar jörðin í heiðinni lángt í burtu í óskiftu landi. Fjörugrasatekja lítil mjög og næsta engin. Rekavon næsta því engin. Skelfiskfjara lítil. Eldiviðartak af fjöruþángi næsta því ekkert. Heimræði á jörðunni, en uppsátur frí í Kothúsalandi … Engjar öngvar. Útihagar öngvir. Vatnsból er ekkert í landi
jarðarinnar, og brúkar hún frí fjöruvatn í Kothúsalandi.” JÁM III, 94-95.

Garður

Efri-Akurhús.

1919: Efri bær: Tún 1 teigur, kálgarðar 750 m2. Neðri bær: Tún 1 teigur, kálgarðar 200 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var tvíbýli í Ívarshúsum það ár. Bæirnir voru sambyggðir og sneri bæjarröðin norðvestur-suðaustur. Í örnefnalýsingu Kothúsa segir: ” Rétt fyrir ofan Kothúsabæinn eru greinilegir kálgarðsveggir. Þarna var áður hjáleigan Ívarshús, sem nú er löngu í eyði fallin. Enn heitir Ívarshúsatún samhliða bænum, en það hefur nú verið lagt undir heimajörðina.” Bæjarhóll Ívarshúsa er mjög greinilegur, 20-30 m suður af Kothúsum og um 160m vesutr af bæjarhól Meiðastaða. Í grein Hallmanns Sigurðssonar, Býli og búendur í Garði 1903-1915 er talinn Kristján Jónsson, ábúandi í Ívarshúsum og þar var því enn búið í upphafi 20. aldar.
Greinilegur og kúptur rústahóll í túni. Á honum standa engin hús. Hóllinn er myndarlegur og sker sig úr, vaxinn ræktarlegu grasi. Honum virðist ekkert hafa verið raskað. Vegur
framhjá Kothúsum liggur 20-30 m vestan við hann. Hóllinn snýr nokkurnveginn norður-suður og er um það bil 50×40 m stór. Allar brúnir eru vel skarpar og hóllinn virðist allt að 4 m hár sé staðið við hann að vestan.

Litlibær

Garður

Meiðastaðir og Rafnkelsstaðir – túnakort.

“Fyrir ofan [sunnan?] Ívarshús voru áður tvær hjáleigur, sem hétu Litlibær og Litlu-Kothús,”segir í örnefnalýsingu Kothúsa. Ekki er nú vitað hvar þessar hjáleigur stóðu og engin ummerki hafa fundist ofan við Ívarshús sem gætu komið heim og saman við lýsinguna.

Litlu-Kothús
“Fyrir ofan [sunnan] Ívarshús voru áður tvær hjáleigur, sem hétu Litlibær og Litlu-Kothús,”segir í örnefnalýsingu Kothúsa. Ekki er nú vitað hvar þessar hjáleigur stóðu og engin ummerki hafa fundist ofan við Ívarshús sem gætu komið heim og saman við lýsinguna.

Straglastaðir
“…Annan þridívng varer ok straglastader ok darrastader er þar okk v stada skipte: taka tvo hlute varer: enn hin tvo þira ok jafnmikit hvort,” segir í grein um hvalskipti á Romshvalanesi í Fornbréfasafni Íslands. Í neðanmálsgrein segir ennfremur að Straglastaðir og Darrarstaðir séu nú (1893) Ívarshús og Kothús.

Garður

Vindmyllustandur í Garði.

Straglastaða er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703: “So segja góðir menn, að i þessari sveit hafi þeir heyrt til forna verið hafa jarðir tvær, sem kallaðar skuli verið hafa Darrastaðir og Straglastaðir, sumir segja Stranglastaðir. Hvar þær jarðir sjeu nú eður hafi verið, þykist enginn vita, nema hvað eftir því sem segir í gömlum rosmshvalaness rekaskiftamáldaga nefnir þessar áðurgreindar tvær jarðir, og standa þær í tölu jarðanna hjer í Garði so niður settar, að skynsamir menn ætla þær sjeu hinar sömu, sem nú eru kölluð Kothús og Ívarshús. Því að so sem i þeim máldögum er i þessari röð Darrastaðir og Straglastaðir nenfdir, so finst í hvörugum Kothús nje Ívarshús nefnd vera, og standa þó báðar þessar jarðir í sömu röð sem hinar áður.” Hér verða þessar kenningar látnar liggja milli hluta. Staðsetning Straglastaða er með öðrum orðum ekki þekkt en vel má vera að bærinn hafi verið þar sem síðar byggðust Ívarshús eða Kothús. Ummerki, þ.e. magn uppsafnaðra mannvistarleifa, benda frekar til að Ívarshús geti verið gamalt bæjarstæði.

Meiðastaðir (Meiríðarstaðir)

Garður

Meiðastaðir.

1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847, 16 2/3 hdr. Konungseign. Jarðarinnar er getið í grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: …þar af einn hlvt homvr. Annan hlvt midskala gardvr. skal honum skipta j þridivnga taka einn þridívng … ok meidarstader…”, DI II, 78. Þá er hennar einnig getið í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 156.
Í örnefnaskrá jarðarinnar sem rituð er 1978 segir: “Nýbýli eru hér einhver, og nú eru þrjú íbúðarhús á jörðinni, heimabænum.”
1703: “Fóðrast kann ii kýr … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfrista og túnga engin í heimajarðarinnar landi, en þó brúkuð í eyðijörðunni Heiðarhúsum. Lýngrif nokkuð lítið fjarlægt upp í heiði. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon lítil. Murukjarni lítill með stórstraumum og þó erfitt að sækja. Heimræði er árið um kríng … Lendíng í lakara lagi. Túnin spillast af leysíngarvötnum árlega. Engjar eru öngvar. Útigangur enginn sumur nje vetur, nema á túnstæði eyðijarðarinnar Heiðarhúsa. Vatnsból er ekkert í landeign jarðarinnar.” JÁM III, 95-96.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

1919: Tún 2,8 teigar, kálgarðar 1200 m2.
Bæjarhóll Meiðastaða er um 120 m norðvestur af Rafnkelsstöðum. Hann er fast vestan við Meiðastaðaveg, um miðja vegu milli strandlínu og Garðbrautar. Tvö aðskilin hús standa á hólnum, sem er allgreinilegur. Snýr húsaröðin frá norðvestri til suðausturs líkt og gamli bæirinn hefur gert. Mikil órækt er kringum húsin og bílastæði sunnan við þau. Kringum hólinn eru annars tún. húsbyggingar. Aðalíbúðarhúsið á hólnum var reist á árunum milli 1950-60 en Anton og Guðlaugur Sumarliðasynir fæddust í eldra timburhúsi sem stóð á sama stað og var sennilega byggt um 1860. Vestan við húsið var áður lágreistari skemma sem í voru hross og kýr. Þeir muna eftir niðugröfnu íshúsi í bæjarhólnum norðan við húsið.

Meiðastaðakot eystra

Garður

Jaðar.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var hús um 90 m norðaustan við bæ og um 20 m austur af. Það er merkt eins og forgryfja og/eða salerni. Þetta var Meiðastaðakotið eystra en ekki ljóst hvort þar var húsmannskofi eða útihús árið 1919. Um Meiðastaðakot segir í örnefnalýsingu: “Milli fiskhúsanna og bæjar, vestan við götuna niður að sjó, eru tvö kot, sem heita
Meiðastaðakot.” Ekki er vitað hvenær þau voru í byggð en ekki getur Hallmann Sigurðsson um þau í grein sinni um býli og búendur í Garði 1903 – 1915.
Tún með geysilega háu og ræktarlegu grasi. Þetta hús hefur staðið fast við Meiðastaðaveginn sem liggur niður að sjó og sennilega hefur hóllinn sem húsið stóð á farið undir veginn að hluta. Rústahóll. Veggir eru ekki greinilegir en sennilega hefur uppfylling undir veg lent ofan á hússtæðinu. Hóllinn er um 10×5 m stór frá noðrir til suðurs en gefur þó e.t.v. ekki rétta mynd af upphaflegri stærð vegna rasksins.

Rafnkelsstaðir

Garður

Meiðastaðir og Rafnkelsstaðir – túnakort 1919.

1703, 20 hdr. Bændaeign. 1847, 20 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið í grein um hvalskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: “… þar af einn hlvt holmvr. Annan hlvt midskala gardvr. skal honum skipta j þirivnga taka inn þridívng hrafnkielstader…”, DI II, 78. Þá er hennar getið í vitnisburðarbréfi frá 1418, DI IV, 265 og öðru frá 1428, DI VI, 42. Jarðarinnar er einnig getið í afgjaldareikningi Eggerts hirðstjóra Hannessonar frá 1553, DI XII, 580.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er ein hjáleiga sögð á jörðinni.

Garður

Meiðastaðir og Rafnkelsstaðir – túnakort 1919.

1703: “Fóðrast kann ii kýr … Torfrista til húsbótar er í allra naumasta máta, í heyþöku engin nema tilfengin annarstaðar. Fjörugrasatekja mjög lítil. Rekavon nokkur. Skelfiskfjara hefur áður verið góð, nú aldeiliss af, síðan síðasti lagnaðarís fordjarfaði þessa gagnsmuni. Murukjarni fæst nokkur með stórstraumum, og er brúkaður til að næra peníng í heyskorti. Eldiviðartak af fjöruþángi var áður nokkurneiginn bjarglegt, en síðan hinn mikili lagnaðarís fordjarfaði fjöruna, hefur ábúandinn neyðst til að kaupa eldiviðartak annarsstaðar. Heimræði er hjer árið um kríng …

Garður

Rafnkelsstaðir – minjakort.

Lending er aðgætnissöm. Tún jarðarinnar blásast upp af stórviðrum og þó enn meir af leysingarvatnságangi; að n eðanverðu grandar túninu sjór, og fyrir þá sök hefur ábúandinn í næstu xxx ár þrisvar sinnum tilþrengdur að færa skipanaustin inn á túnið. Engjar eru öngvar. Útihagar utangarðsöngvir …Vatnsból hefur jörðin í betra lagi og líður fyrir það mikinn átroðníng” ´JÁM III, 96-97.
Árið 1919 var tvíbýli á Rafnkelsstöðum.
Rafnkelsstaðir eru austarlega í þéttbýlinu í Garði, rúma 100 m austur af Meiðastöðum. Þegar túnakort var teiknað árið 1919 stóðu þar tvö íbúðarhús, nyrðri og syðri bær.
Nyrðra húsið hefur staðið nokkurn veginn á sama stað og núverandi íbúðarhús, á bæjarhólnum.

Garður

Rafnkelsstaðir.

Þéttbýli en langt er á milli húsa á þessum slóðum. Grasi gróið, afgirt svæði er fast austan við húsið sem nú stendur á bæjarhólnum. Bílastæði er austan við húsið, á bæjarhól.

Steinsteypt hús stendur að því er virðist í vesturjaðri bæjarhóls. Nokkuð greinileg hólmyndum er austan hússins, á afgirtu svæði. Hóllinn er mjög grösugur og ekki sjást greinilegar rústir á honum. Hann er aflangur frá austri til vesturs, um 50×40 m stór. Mjög skarpar brúnir eru á hólnum að norðan og austan og þar er hann allt að 3 m hár.

Garður

Minjar sunnan Rafnkelsstaða – loftmynd.

Gamalt og illa farið steinhús stendur fast sunnan við bæjarhólinn. Grjóthleðsla gengur út frá bæjarhjólnum austan við þetta steinhús, um 10 m löng.
Árið 1919 var tvíbýli á Rafnkelsstöðum, nyrðri og syðri bær. Syðri bærinn stóð skv. túnakorti um 40 m sunnan við hinn nyrðri. Þar sem húsið stóð liggur nú malbikaður vegur.
Öll ummerki eru horfin.

Réttarholt

Garður

Réttarholt.

“Rétt innan við Kópu eru klettar þeir, sem nefndir eru Skarfaklettar. Þeir eru fyrir neðan Réttarholt,” segir í örnefnalýsingu. Réttarholt er um 180 m norðaustur af Rafnkelsstöðum. Þar stendur samnefnt hús. Um Réttarholt er skrifað á túnakorti frá 1919: “Réttarholt, þ.búð við sjó, bygð fyrir ca. 36 árum. Nýlega bygt þar upp aftur steypuhús og afgirt, er þó mannlaust nú. Túnblettur í órækt…”
Snyrtilegir slegnir blettir eru í kringum húsið, og norðan við er aflíðandi brekka niður að sjó.
Húsið sem nú heitir Réttarholt er byggt á árunum 1910-1912 og byggt er við það 1939. Ekki er kjallari undir því. Heimildamaður segir frá því að áður en það hús er byggt hafi verið torfbær rétt austan við núverandi hús sem hét Réttarholt, sem nú (2008) er horfið. Uppruni nafnsins er ekki þekktur en talið er kálgarðar sunnan við húsið, hafi eitt sinn verið rétt.

Þórðarbær/Bjarnabær/Finnsbær/Berg

Garður

Bæir sunnan Rafnkelsstaða.

“Hér voru býli, sem farin eru í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær [sjá að neðan], Pálsbær, og Finnsbær [sjá að neðan],” segir í örnefnalýsingu. Leifar býlanna eru um 130 m austan við Rafnkelsstaði. Til er túnakort af svæðinu frá árinu 1919. Þá virðast önnur bæjanöfn hafa verið við lýði, í það minnsta er bæjarstæði Finnsbæjar, sem nú er horfinn undir íbúðarhús norðvestast á svæðinu, nefnt Holt og Bjarnastaðir nefndir Grund. Önnur heiti eru ekki sýnd á kortinu en annars koma allar útlínur á því mjög vel heim og saman við garðlög og rústir sem nú sjást.
Nálægt þéttbýli, grasi gróið. Svæðið er vel varðveitt utan norðvestasta hlutann þar sem Finnsbær stóð, en þar er nú íbúðarhúsið Holt sem var reist í nokkrum stigum.

Rafnkelsstaðaberg

Garður ofan Rafnkelsstaðabergs.

Árin 1908-1910 var timburhús byggt ásamt kjallara sem upphaflega var fjós. Það var byggt við hliðina gamalli torfbaðstofu, sem þá var gömul. Bætt var við húsið í kringum 1960, og seinna 1974. Undir nýrri viðbyggingum var ekki grafinn kjallari. Þegar íbúar grófu fyrir jurtagarði (2008) var komið niður á hleðslusteina og öskuhaugsleifar fast suðaustan við íbúðarhúsið. Ekki var nema rétt rist ofan af þeim leifum. Gamla baðstofan liggur líklega undir viðbyggingunum. Búið var í torfbænum þar til timburhúsið var byggt.

Garður

Bæir austan Rafnkelsstaða.

Bæirnir þrír mynduðu í raun lítið hverfi og minna minjarnar, sem eru vel varðveittar, einna helst á margskipta rétt. Þar stóðu bæirnir þrír og kálgarðar í kring. Rústirnar mynda heillega einingu og hefur hver bær grjóthlaðin hólf í kringum sig, kálgarða eða túnbletti, en alls ekki er augljóst hvaða hólf tilheyrði hverjum. Hér verður kerfinu lýst sem einni heild og hverjum bæ gefinn bókstafur. Þess má geta að rústunum var lýst rækilega með könnun af jörðu niðri en flóknu kerfi kálgarða umhverfis er að mestu lýst af loftmynd. Í stuttu má skipta svæðinu í þrennt. Syðst er opið, aflangt hólf sem liggur frá austri til vesturs. Innan þess er Þórðarbær.

Þórðarbær

Þórðarbær.

Norðaustan við það er eining sem skiptist 4-5 hólf. Innan þess er Bjarnabær. Vestan við það, norðan við Þórðarbæ, er svo þriðja einingin sem skiptist einnig í 4-5 hólf. Til viðbótar má nefna að norðvestast á svæðinu hafa verið fleiri hólf en þar er nú íbúðarhús sem mun hafa verið reist þar sem Finnsbær stóð áður.

Alls er svæðið 180 x 80 m að stærð og liggur frá austri til vesturs. Þórðarbær (A) var syðstur þeirra bæja sem tilheyrðu heildinni. Er tóftin staðsett sunnarlega við miðbik svæðisins, merkt með skilti. Veggir eru hlaðnir úr torfi og grjóti og er tóftin ferhyrnd. Er hún 8×14 m að utanmáli og snýr í austur-vestur. Á þessum stað er merktur kross á túnakorti og skýring skráð á spássíu: “Var þ. búð, hét Berg. Lögð í eyði f. ca. 12 árum, en um 20 ár í bygð.”

Pálsbær

Garður

Bæir sunnan Réttarholts – loftmynd.

Um 20 m austur af húsinu Holti og 10 m suður af Esjubergi er gerði og í norðausturhorni þess er tóft eða þúst. Á þessum stað stóð býlið Pálsbær og hefur nú verið merkt með skilti. Þetta er 150 m austur af Rafnkelsstöðum.
Innan garðsins er afar gróið og hátt gras. Utan hans er einnig tún, þó ekki eins gróðursælt.
Garðurinn er grjóthlaðinn og hefur væntanlega afmarkað kálgarð frekar en tún. Hann snýr í norðvestur-suðaustur. Er hann ferhyrndur og er stærð hans 30x 5 m að utanmáli. Breidd veggja er um 0,5 m og hæð þeirra er 0,4 m. Að austanverðu standa hleðslurnar í brekku.

Heiðarhús

Heiðarhús

Heiðarhús – fornleifaskráning.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Heidarhús. Nú í auðn um lángar stundir. Jarðardýrleiki óviss. Eigandinn kólngl. Majestat. … Túnstæðið er nú komið í órækt, sýnist þó ekki óbyggilegra en sumar hvörjar smájarðir hjer um pláts. Landið út frá því blásið og graslítið. Jörðin meinast ei kunna aftur byggjast sökum landþrengsla .. Vatnsból skal hjer gott og nægilegt verið … So vitt af skilvísra gamalla manna sögnum skilja er, þá hefur þessi jörð í eyði lagst í þeim hallæris árum, sem geysuðu um og eftir 1600.” Í
örnefnalýsingu segir: “Þá er hið óskifta land uppi í heiðinni. Beint hér upp af er eyðibýlið Heiðarhús. Virðist það hafa verið allmiklar byggingar og mikil jörð.”

Heiðarhús

Heiðarhús.

Magnús Grímsson fjallar um Heiðarhús í grein sinni um fornminjar á Reykjanesskaga. Þar segir: “Upp undan Rafnkellsstöðum er eyðibær, sem heita Heiðarhús, á vinstri hönd við alfaraveg, þegar farið er frá Keflavík að Útskálum. Þar sér enn fyrir bæjarrústum, túni og túngörðum, og hefir túnið verið æði stórt. Nú er það allt komið í móa og órækt og haft til beitar.” Á túnakort frá 1919 er skrifað suðaustan við tún Rafnkelsstaða: “Heiðabær, stórbýlið forna var hér ekki langt frá”. Brynjúlfur Jónsson nefnir Heiðarhús í ritgerð sinni um rannsóknir í Gullbringu- og Árnessýslu sumarið 1902 sem birt var í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903.

Heiðarhús

Heiðarhús – loftmynd 2022.

Þar segir: “Heiðarhús kallast rúst nokkur skamt uppi í heiðinni fyrir ofan inn-Leiruna. Þar hefir fyrrum verið bær. Er það sögn, að þar hafi á sínum tíma verið slíkt stórbýli, að næst hafi gengið Uppsölum og Melabergi…” Rústir heiðarhúsa eru sunnan við Garðbraut og austan við þéttbýlið í Garði, 4-500 m SSV af bæjarhól Rafnkelsstaða.
Nú er svæðið mjög gróið og nær gróðurinn víðast um metra hæð. Tveir malarvegir liggja í gegnum eyðibýlið og ein fyrrum þjóðleið er fast við það norðanvert. Utan veganna er svæðið lítt snortið og því er lega býlisins að mestu leyti sýnileg, þrátt fyrir að hafa legið í auðn í fleiri hundruð ára. Hringinn í kringum býlið liggja 2 stórir túngarðar, sá stærri umlykur hinn, og töluvert er af kálgörðum innan þeirra. Víða um svæðið má sjá leifar 20. alda girðinga svosem staura, gaddavír og aðrar víraflækjur. Svæðið er þó hvergi girt í dag (2008).

Heimild:
-Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna), Reykjavík 2008.

Garður

Garður – minjar bæja sunnan Króks.

Garður

Í “Fornleifaskráningu í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna)“, frá árinu 2008 má fræðast um eftirfarandi varðandi landamerkjaletursteina í landi Vara og Rafnskelsstaða í Garði:

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“Er þar jarðfastur steinn LM. Svo norður með höfðanum í stein merktan LM við norðurenda höfðans. Er þá Brekkuland búið,” segir í örnefnalýsingu. Landamerkjasteinn milli Brekku og Vara er utan í Brekkuhöfða norðaustanverðum, um 60 m norðan við landamerkjastein.
Stór og aflangur, jarðfastur klettur. Leifar af landamerkjagarði liggja utan í höfðanum, óljósar þó.
Áletrunin LM er fremst eða austast á steininum, ofan á honum. Stafirnir eru mjög svipaðir og á steini, hvorutveggja hástafir, einfaldir að gerð og um 10 cm háir.

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“…sjónhending upp á þjóðveginn. Þá norður með þjóðveginum, þar til kemur að stórum steini merktum við þjóðveginn,” segir í örnefnalýsingu.
Steinninn er um 390 m suðsuðvestur af Vörum, á suðvesturhornmörkum jarðarinnar. Um 20 m sunnan við steininn er íbúðasvæði í byggingu.
Steinninn hefur naumlega sloppið við íbúðaframkvæmdir, um 20 m sunnar. Steinninn er við vesturenda garðs.
Steinninn er jarðfastur, um 0,6 m á hæð. Letrunin er höggvin í norðurhlið hans, og er um 0,1 x 0,15 m að stærð. Á honum stendur LM með hástöfum.
L-ið hefur króka á endunum.

Áletrun – landamerki

Garður

Varir – landamerki (LM).

“Er þar jarðfastur steinn LM. Svo norður með höfðanum í stein merktan LM við norðurenda höfðans. Er þá Brekkuland búið,” segir í örnefnalýsingu. Syðri landamerkjasteinninn í Brekkuhöfða er í horni landamerkjagarðs, um 110 m vestur af bæjarhól.
Á þessum stað eru nokkrir jarðfastir klettar í þyrpingu utan í höfðanum.
Áletrinin er ofan á flatasta steininum sem er nokkuð mosavaxinn en virðist hafa verið kroppað ofan af honum. Áletrunin er LM og stafirnir einfaldir að gerð, um 10 cm háir. Grunnt er rist.

Áletrun – landamerki

Garður

Rafnkelsstaðir – landamerki (ML).

Merkjasteinn er inn í Grænugróf, neðst í grófinni, á bakkanum við fjöruna. Hann er um 670 m suðaustur af Rafnkelsstöðum og markaði land jarðarinnar til austurs.
Steinninn er á grýttum hluta neðst í grænni grófinni. Áletrun á steininum er afar greinileg, en hann er merktur ML í stað LM sem er á öðrum merkjasteinum í Garðinum.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I – Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna), Reykjavík 2008.

Garður

Garður – landamerki ofan Vara.

Í skýrslu um “Skráningu stríðsminja á Suðurnesjum” eftir Eirík Hermannsson og Ragnheiði Traustadóttur frá árinu 2019 má t.d. lesa eftirfarandi um flugvöllinn á Garðaskagaflötum, miðunarstöðina á Fitjum og hverfið Howard, miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti:

Garðaskagi

Garðaskagi – herforingjaráðskort.

“Markmið verkefnisins var skráning og mæling menningarminja sem tengjast veru varnarliðs Breta og Bandaríkjamanna á stríðsárunum á landsvæði sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis.
Hvergi á landinu voru umsvif erlendra herja meiri en á Suðurnesjum. Einn af fyrstu flugvöllum breska flughersins hér á landi var á Garðskagaflötum og þar höfðu Bretar aðstöðu um nokkurt skeið. Þar reistu Bretar bragga og loftnet eða miðunarstöð strax 1940 auk loftvarnarbirgja.

Garðskagi

Stríðsminjar.

Með komu Bandaríkjamanna 1941 jukust umsvifin enn og framkvæmdir urðu meiri og stórtækari. Eins og við er að búast er því mikill fjöldi herminja á Miðnesheiði þar sem varnarliðið hafði aðstöðu frá því á árum seinni heimsstyrjaldar.
Minjar af þessu tagi eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar sem þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar, en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né opinber stefna verið mörkuð. Það gefur engu að síður auga leið að ýmsar herminjar á Miðnesheiðinni eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands í einhverjum mestu stríðsátökum mannkynssögunnar og kalda stríðinu sem á eftir kom.

Garðskagi

Hermenn í skotgröf.

Fullyrða má að varnarminjar frá stríðsárunum og fram til þessa tíma hafi alþjóðlegt minjagildi. Því er mikilvægt að fram fari nákvæm skráning á því sem er enn sjáanlegt og það mælt upp samkvæmt stöðlum Minjastofnunar Íslands um skráningu fornminja. Þær upplýsingar þarf að færa á kortagrunn deiliskipulags sveitarfélaganna og leggja mat á hvað af því er þess virði að varðveita og segja frá í máli og myndum. Ekki leikur nokkur vafi á að margir vegfarendur um t.d. Garðskaga hefðu gaman af að vita af þeirri sögu sem liggur að baki Garðskagaflata í flugsögu og varnarsögu landsins. Sú saga er flestum ókunn.
Margir núlifandi heimamenn eru fróðir um þessa staði og geta lýst þeirri starfsemi sem þarna fór fram, jafnvel þótt ummerkin séu orðin óljós. Mikilvægt er að skrá þeirra frásagnir og safna myndefni því sem til er frá stríðstímanum.

Stríðsminjar frá veru hersins

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Á varnarsvæði Bandaríkjamanna á Miðnesheiði munu hafa verið reistir alls 2081 skálar og skemmur af ýmsum gerðum og stóðu í þyrpingum og hverfum sem til öryggis var dreift umhverfis flugvellina, sem voru tveir, þ.e. Patterson og Meeks.
Í bók Friðþórs Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, er að finna greinagóðar upplýsingar um mannvirkin ásamt yfirlitskorti yfir hverfin og nöfn þeirra. Segir þar um nöfnin á hverfunum: „Nafngift herskálahverfanna var af ýmsum toga. Bandaríkjamenn kenndu hverfi sín gjarnan við sögufræga hermenn, leiðtoga, staði eða bækistöðvar eða nefndu þau til heiðurs látnum liðsmönnum Bandaríkjahers líkt og var um nafngift flugvallanna. Voru flest skálahverfin á flugvallarsvæðinu kennd við hermenn sem fórust er þýskur kafbátur sökkti herflutningaskipi USS Henry R. Mallory í skipalest djúpt suð-suðvestur af landinu 7. febrúar 1942.“ Þau svæði sem voru til sérstakrar skoðunar hjá skýrsluhöfundum eru öll á útnesinu utan þessa korts.

Garðskagaflatir – flugvöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Breski herinn hernam Ísland þann 10. maí 1940 til að koma í veg fyrir mögulega innrás Þjóðverja. Herinn var að flestu leyti vanbúinn og efnalítill og þurfti að koma sér upp aðstöðu og þjónustu með litlum fyrirvara og sem minnstum tilkostnaði. Bretar hófu strax leit að heppilegu flugvallarstæðum víða um landið. Fengu þeir snemma augastað á Reykjavík, Kaldaðarnesi í Flóa, Odda á Rangárvöllum, á Snæfellsnesi og Garðskaga og ef til vill fleiri stöðum. Fáir staðir voru jafn ákjósanlegir fyrir bráðabirgðaflugvöll og Garðskaginn. Þarna var slétt og ræktað land, fyrrum kornakrar um aldir.

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Jarðvegur á Garðskagaflötum er harður, þéttur og sendinn þannig að vatn sest sjaldan lengi á sléttlendið. Bretar sömdu við bændur á þeim fimm bæjum sem höfðu notað þetta svæði sem tún og beitiland en það voru Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Ásgarður, Hólabrekka og Útskálar.

Flugvallargerð á Garðskaga var ákveðin og var hafist handa snemma um sumarið 1940, og flugvöllurinn tekinn í notkun sumarið 1941.

Garðaskagi

Flugvallastæðið á Garðskagaflötum.

Þetta var fyrsti flugvöllur á Reykjanesskaganum og líklega einn fyrsti flugvöllur sem Bretar gátu nýtt sér hér á landi. Túnum bænda á Garðskaga var með auðveldum hætti breytt í 1050 m langa flugbraut sem var 90 m breið og lá frá Garðskagavegi suður undir Hafurbjarnarstaði. Flötin var sléttuð og tyrfð að nýju eftir því sem þurfti og sáu heimamenn um verkið. Þetta var fyrsta reynsla þeirra af Bretavinnu og áttu margir þeirra eftir að helga setuliðinu störf sín næstu áratugina. Notaðir voru þeir vörubílar sem Garðmenn og Sandgerðingar áttu á þeim tíma auk hestvagna. Verkamennirnir sjálfir lögðu til handverkfæri s.s. skóflur, haka og sleggjur.

Garðskagi

Grunnur undan bragga.

Þegar flugvallarstæðið hafði verið sléttað voru ræmur ristar í torfið svo skeljasandurinn kæmi vel í ljós við báða enda brautarinnar og með langhliðunum. Þannig var flugvöllurinn vel sýnilegur úr lofti.
Við bæinn Hlíð í Garði var hverfið Útskálar en það var kallað Hlíðarkampur af heimamönnum. Bærinn Hlíð stóð þar sem nú eru gatnamót Skagabrautar og gamla Sandgerðisveg. Bærinn stendur ekki lengur en bæjarhóllinn er við innkeyrsluna að Hótel Lighthouse Inn, sem hóf rekstur í mars 2017.

Garðskagi

Jarðhýsi – neðanjarðarbyrgi.

Nokkrir hermenn höfðu aðsetur í risinu á húsinu. Þar var einnig nokkur braggabyggð í námunda við íbúðarhúsið, en megin verkefni herflokksins sem þar dvaldi mun hafa verið eftirlit með kafbátaferðum. Þar voru reistir 14 braggar. Nú er þar aðeins ein braggatóft vel sjáanleg ofan við Sandgerðisveg og eitt steinsteypt jarðhýsi sem hugsanlega hefur verið skotfærageymsla undir varðstöð sem stóð á þessum slóðum. Jarðhýsið er um 3,4 m x 2,5 m. Gengið er niður í það sunnan megin.

Garðskagi

Skotbyrgi á túninu á Hlíð.

Í braggatóftinni henni er skilti sem stendur á Herkampur og er tún allt í kring. Liggur malarvegur framhjá í átt að Sandgerði. Grunnurinn er 25 x 10 m og snýr austur-vestur. Utanum hann er hleðsla og eru veggir um það bil 1,2 m á breidd og 0,4 á hæð. Þeir eru grónir en greinilega sést grjót í hleðslu. Innan hleðslunnar má sjá ummerki um steypuleifar.

Tvö eða þrjú hlaðin skotbyrgi fyrir vélbyssu voru á túninu ofan við gamla flugvöllinn. Ummerki um eitt slíkt byrgi eru vel sýnileg á túninu vestan við hótelið. Byrgið er hlaðið utan í gamlan túngarð.

Durham

Merki Durham Light Infantry liðsveitarinnar.

Í þessum vélbyssuvígjum var komið fyrir Bren-byssum og mun fyrsta sveitin sem þær mannaði hafa verið breskir hermenn úr Durham Light Infantry og Tyneside Scottish svokölluð „The Black Watch“ sem höfðu aðsetur á Skaganum. Síðla árs 1941 tóku Ameríkanar við vellinum. Þeir notuðu Browning vélbyssur samkvæmt því sem bók Friðþórs Eydal greinir frá. Braggi var einnig reistur við suðurendann í landi Kolbeinsstaða. Nú er ekki nein auðsjáanleg ummerki um þann bragga. Miðað við umsvif hersins í landi Hlíðar þá eru ummerkin hans orðin lítill en það sem er ennþá varðveitt eru nokkuð heillegar minjar, braggagrunnur, skotgröf og neðanjarðarbyrgi.

Garðskagi

Garðskagi 2022.

Aðgengi að sjáanlegum minjum er sæmilegt enda eru þær skammt frá nýbyggðu hóteli en helst þyrfti að færa til girðingu í samráði við landeiganda þannig að minjarnar yrðu enn aðgengilegri sem og merkja minjarnar.
Skagavöllur var í reynd aldrei notaður neitt að ráði en þjónaði hlutverki neyðarflugvallar. Upplýsingaskilti mætti setja niður annað hvort við hótelið eða við enda flugbrautarinnar nálægt bílastæðinu við sjóvarnargarðinn.

Miðunarstöðin á Fitjum

Fitjar

Fitjar – bragga- og húsgrunnar.

Breski herinn reisti miðunarstöð á Fitjum í október 1941 og kom þar upp aðstöðu. Þar reistu Bretar 13 bragga og 5 steinhús. Þá áttu Bandaríkjamenn tvo bragga að Fitjum í stríðslok. Bærinn var farinn í eyði og stóðu íbúðarhúsin enn uppi. Það var þá í eigu Ingibjörns Þ. Jónssonar bónda á Efri-Flankastöðum sem leigði það Bretunum. Þarna var einnig loftnet sett upp, um 20 m stálmöstur. Stöðin var allstór og er áætlað að þarna hafi verið um 100 hermenn þegar mest var, allt til ársins 1945. Stöðin var lögð niður árið1946 og keypti Ingibjörn bóndi á Flankastöðum þá 13 bragga og 5 lítil steinhús af Sölunefnd varnarliðseigna.

Fitjar

Fitjar 2023.

Miðunarstöðvarnar hér og á Langholti, áttu að fylgjast aðallega með skipaumferð en einnig auðvelda staðsetningu á kafbátum og flugumferð en árangur mun ekki hafa verið mikill.

Greinileg ummerki eru um braggabyggðina rétt suðaustan við gamla Sandgerðisveginn, skammt frá gamla bæjarstæði Fitja. Þarna eru enn sýnilegir allmargir grunnar, hleðslur, veggjabrot og sökklar undan möstrum.

Fitjar

Fitjar – húsgrunnur.

Vel má sjá að braggarnir hafa ekki allir verið reistir á sama tíma. Þannig eru þeir eldri með hlöðnum grunni og hafa líklega verið með timburgólfi sem stóð á nokkrum steyptum staurum eða sökklum. Nýrri braggarnir hafa verið með steyptu gólfi og eru þeir grunnar sýnilegri. Einnig var heilleg múrsteinshlaðin kamína eða arinn sem stendur ennþá vel sýnileg.

Þetta hverfi er ágætlega varðveitt og minjarnar vel sýnilegar. Ástæða er til að hreinsa burt lauslegt járnarusl og víra og setja upp skilti með upplýsingum. Aðgengi er gott.

Hverfið Howard á Langholti

Langholt

Ratsjárstöð á Langholti.

Bretar og Bandaríkjamenn settu upp miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti við Litla-Hólm í Leiru. Sautján braggar munu hafa staðið undir Langholtinu austanverðu og ratsjárloftnet uppi á holtinu. Hverfið hét eftir fyrrum yfirmanni merkjasveita Bandaríkjahers í Tennesseeríki í bandaríska þrælastríðinu. Steinsteyptir sökklar og steypt plata fyrir mastur loftnets á norðanverðu holtinu eru enn vel sýnilegir en lítil ummerki eru um braggabyggðina. Talsvert umrót hefur orðið á svæðinu austan holtsins vegna starfsemi fiskvinnslufyrirtækja sem þarna hafa haft fiskþurrkunartrönur um áraraðir. Grunnar undan húsi og einum bragga sem voru nokkuð greinilegir voru mældir upp. Grunnurinn var með steinsteypu og bragginn var 21 x 8 m. Síðan mátti sjá ummerki um sennilega þrjá bragga en þessar minjar voru mjög ógreinilegar sem og steinsteyptan vegg.

Camp Howard

Undirstöður undir fjarskiptamöstur við Camp Howard.

Steinsteyptir sökklar og steypubrot er að finna nyrst í bland við rusl frá seinni tíma. Þá má greina ummerki um hlaðna gröf úr torfi og grjóti utan í og uppi hól vestan við Langholtið. Gröfin virðist hafa vísað inn að heiðinni. Líklegt má telja að þetta sé skotbyrgi frá hernum en þó ekki óhugsandi fyrir veiðimenn.
Fremur ógreiðfær vegarslóði liggur að Langholtinu að fiskþurrkunartrönum sem þarna eru og upp í grjótnámuna. Með dálitlum ofaníburði mætti gera hann færan flestum bílum og setja upp upplýsingaskilti við vegarslóðann.”

Heimildir:
-Magnús Gíslason, „Flugvöllur hans hátignar. Af setuliðinu í Garði og gerð flugvallar á Garðskaga 1940-1944“, Árbók Suðurnesja , VI., árgangur, Sögufélag Suðurnesja, Keflavík 1993, bls. 98.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.
-W.H. Harrisson, „ Gaman að hitta gamla vini eftir hálfa öld“, Árbók Suðurnesja, 1993, bls. 88.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 26-27.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 77.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.

Garðskagi

Hlíðarkampur við Hlíð á Garðskaga.