Færslur

Skagagarður

Eftirfarandi frásögn Magnúsar Gíslasonar í Garðinum er í félagsriti Landssambands eldri borgara, 9. árg. 2004.

Við Skagagarðinn

Skagagarður.

“Menn hafa lengi velt fyrir sér hvaðan Garðurinn dregur nafn sitt. Margir telja hann draga nafn sitt af því, þegar jarðeigendur voru að ryðja grýtta jörðina til ræktunar fyrir bústofn sinn og nýttu grjótið í garðhleðslu bæði til skjóls og varnar ágangi dýra. Talið er að garðarnir í hreppnum hafi náð 60 km að lengd og af þeim sé nafn byggðarlagsins dregið.
Aðrir telja að það fái ekki staðist. Samkvæmt íslenskum málvenjum ætti það þá að heita Garðar. Þeir sem hafa rannsakað nafnið ofan í kjölinn fyllyrða að Garðurinn dragi nafn sitt af Skagagarðinum mikla sem var 1500 metra langur, hlaðinn úr hnausum og grjóti og náði meðalmanni í öxl.

Skagagarður

Skagagarður – minnismerki í Garði.

Var hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir að taka skuli menn tvo mánuði ár hvert til hleðslu. Augljóst virðist að garða hafa landnámsmenn byrjað að hlaða næst því að velja sér bæjarstæði, af þeirri gildu ástæðu að kvikfé var grunnur undir tilveru þeirra og vörslugarðar því nauðsynlegir.

Skagagarður

Skagagarður.

Sagan hermir Skagagarðinn reistan í landnámi Steinunnar gömlu á Reykjanesskaga, en svæðið var í landnámi Ingólfs Arnarssonar sem gaf frænku sinni land suðurmeð sjó. Rausnarleg gjöf Ingólfs, en hin veraldarvana Steinunn vildi ekki standa í þakkarskuld við frænda sinn og galt fyrir landið með flekkóttri heklu enskri, þ.e. ermalausri kápu með áfastri hettu – lítið gjald fyrir landssvæði sem seinna náði yfir tvo hreppa.

Misjafnar skoðanir eru á hvar Steinunn gamla tók sér bólfestu (þótt flestir hallist að því að hún hafi búið að Gufuskálum), en tengsl hennar og landnámsmanna á Rosmhvalanesi sýna að nesið hefur sennilega verið numið fyrir 890.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Rosmur er gamalt heiti yfir rostunga, sem bendir til að þeir hafi verið við Reykjanes á öldum áður og landsmenn fundið þá rekna á fjörur.
Rosmhvalanes tók að byggjast snemma á landnámsöld. Fólki fjölgaði ört, enda búsældarlegt. Sendin moldin var frjósöm til akuryrkju, graslendi nokkuð, og heiðin lyngi og kjarri vaxin. Stutt á fengsæl fiskimið, svo að fólk hafði nóg að bíta og brenna, en náttúruöflin gátu sett strik í reikninginn. Á Reykjanesi skalf jörðin og brann svo sem merkin sanna. Fyrir nesinu voru eldsumbrot, hraun vall upp af sjávarbotni. Fara sögur af ferlegum umbrotum allt frá árinu 1000 og oft síðan. Stórar hraunbreiður eru undir fiskimiðunum í Garð- og Miðnessjó.

Skagagarður

Skagagarður.

Árið 1226 varð mikið gos í sjó út af Reykjanesi, og svokallað miðaldalag lagðist yfir nesið og Skagagarðinn. Gróður spilltist svo mikið aðmenn sneru sér meira að fiskveiðum, sem urðu helsti atvinnuvegur á Rosmhvalanesi um aldaraðir. Fiskurinn var hertur í skreið og nánast slegist um hvern ugga. Lýsið varð verðmæt afurð.
Gróðurinn jafnaði sig smám saman eftir öskufallið og landbúnaður öx að nýju, eins og graslendið leyfði.

Heimildum ber ekki saman um hvenær og hvers vegna kornrækt lauk innan Skagagarðsins. Sumir telja að öskulagið ásamt kólnandi verðáttu sé ástæðan. Aðrir hafna því og benda á að kornið sé einær jurt sem vaxi í öskusalla. En eftir aldamótin 1300 jókst innflutninur korns verulega og lækkaði allt niður í fjórðung landauraverðs miðað við skreið, helst vegna þess að Austur-Evrópumenn létu kristnast og Hansakaupmenn fóru að flytja korn frá Úkraínu og Litháen og selja á vægu verði á Norðurlöndum, en sóttust eftir fiski til föstunnar. Líklega hefur þessi innflutningur bunið enda á kornrækt Íslendinga.

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Þar með lauk upprunalegu hlutverki Skagagarðsins, en þjóðsagan um gullkistuna lifir enn. Hún er grafin í Skálareykjum, þar sem vörsluhliðið var, en rétt er að taka fram, að staðurinn er friðlýstur.
Á gamla akurlendinu innan Skagagarðsins var stundaður búskapur um aldir, en hefur nú lagst niður, utan nytja hestaeigenda. Breski flugherinn naut góðs af sléttlendinu á stríðsárunum og lagði þar 1500 metra flugbraut 1940 sem hann notaði í tvö ár, þar til flugvöllurinn var lagður í Miðsnesheiði 1942.
Skagagarðurinn, mannvirkið forna, er löngu fallinn, en þó sést móta fyrir honum ef vel er gáð.”

-Magnús Gíslason í Garðinum.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – loftmynd.

Sandgerði

Nokkur minnismerki eru í Suðurnesjabæ; Garði og Sandgerði.

Eggert Gíslason (1927-2015)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Eggert Gíslason.

Hann gerði Garðinn frægann
Eggert Gíslason, skipstjóri, fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.

Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði sunnan við Reykjanesvita.

Þormóðsslysið 1943

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Þormóðsslysið varð 18. febrúar 1943. Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.

Skipverjar á Þormóði BA 291:

Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Farþegar úr Dalahreppi:

Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir

Farþegar frá Patreksfirði:

Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson

Farþegi frá Hvammstanga:

Guðmundur Pétursson

Farþegar frá Bíldudal

Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson

Minnisvarðinn er á Garðskaga, á sjóvarnargarðinum skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Hallgrímur Pétursson.

Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.

Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Magnús Magnússon.

Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.

Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.

Magnús Magnússon (1915-1994)
Í Listigarði norðan garðvegar er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur: “Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg, f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.
Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.”

Sigurður B. Sivertsen

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.
Stofnandi Gerðaskóla 1872.

Sveitarstoð og styrkur
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.

Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.

Minnisvarðinn stendur framan við Gerðaskóla.

Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði. Við minnisvarðan er skilti: “Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi. Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.”

Súlan er fagurlega skreydd. Undir henni eru nokkrir skildir með nöfnum drukkaðra sjómanna.

Jón Forseti RE 108

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

Minnismerkið er skjöldur á grágrýti. Ofan á því er eftirmynd af togaranum. Á skildinum stendur: “28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita. 15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.

Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.”

Minnisvarðinn stendur við bifreiðastæði skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; mnnismerki um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn eru þrír stuðlabergsstandar. Við þá er skilti: “Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll. – J. Magnússon.”

Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis. Undir minnismerkinu eru steinar og skidir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn stendur nyrst í Hvalsneskirkjugarði.

Álög – Minnisvarði um drukknaða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Álög.

Horfnir sjómenn Sandgerði – Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði.
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.

Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði, sunnan Sandgerðisvegar skammt norðan íþróttasvæðisins.

Grímsvarða

Grímsvarða

Suðurnesjabær – minnisvarði; Grímsvarða.

Á minnsivarðanum er skjöldur: “Grímsvarða endurreist 2014.
Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær”.

Grímsvarða eða Grímsvörður við Sandgerðisveg voru sunnan vegarins, skammt frá gamla Sandgerðisveginum. Vörðurnar voru fjarlægðar þegar nýi Sandgerðisvegurinn var lagur. Varða á þeim stað hefur nú verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina, s.s. Einmenningshólsvörðu, Gotuvörðu og Efri-Dauðsmannsvörðuna gegnt Vegamótahól.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Grímsvarða.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa.

Prestsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Leturhella er við Prestsvörðuna. Á hana er letrað:

“1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.”

Framangreint vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Varðan er skammt sunnan við gamla Garðveginn sunnan Leirunnar.

Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafur Jónsson.

“Til minningar um Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.
Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.

Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.
Blessuð sé minning þeirra.”

Minnisvarðinn, steinn með skilti er sýnir framangreinda áletrun stendur í Útskálakirkjugarði.

Efri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Efri-Dauðsmannsvarða.

Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. endurhlaðin Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sést vel til Digruvörðu í heiðinni.

Efri-Dauðsmannsvarða er sunnan Sandgerðisvegar og sést vel frá veginum, innan girðingar beitarhólfsins.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Neðri-Dauðsmannsvarða.

Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.

Neðri-Dauðsmannsvarða er fallin og sést einungis ógreinlega þar sem hún hverfur í móann vestan Vegamótahóls.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvarða ofan við Bjarghús
Enn ein Dauðsmannsvarðan er í heiðinni ofan við Bjarghús. Hún stendur nokkuð heil enda hafði Sigurður Eiríksson í Norðurkoti lappað duglega upp á hana. Varðan er ekki við þekkta leið, en er eftir sem áður þannig staðsett að greiðfært hefur verið þarna yfir heiðina millum Keflavíkur og Fuglavíkurhverfisins.

Fornmannaleiði í Garði – Haugbúinn
Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir og við hann þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert torráðið fornletur hafi verið á steininum. Ef vel er að gáð má sjá leifar áletrunarinnar þvert yfir steinhelluna. Hún virðist vera sem rúnir, en hefur hingað til verið ólæsileg þeim er til þekkja. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Við fornleifauppgröft á hólnum, sem letursteinninn liggur undir, fyrir nokkrum árum kom í ljós að þar er enga dys að finna, einungs grjótklöpp.

Ellustekkur í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ellustekkur.

Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur er sunnan Garðvegar, skammt austan Garðs.

Gerðaskóli – Skólinn í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gekkst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir.

Minnismerki um Gerðaskóla er grágrýtissteinn. Steinninn stendur skammt frá Sjólyst ofan Gerðahafnar. Á skildi á steininum stendur: “Gerðaskóli – Hér stóð fyrsta hús Barnaskólans í Gerðum, byggt af fríviljugum samskotum. Í því var kennt 1872-1887.”

Tómasarhóll

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Tómasarvarða.

Á Tómasarhól er Tómasarvarða. Hvorutveggja er skammt frá Fuglavíkurseli, innan varnargirðingarinnar á Miðnesheiði.
Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og er að finna í heiðinni nokkrar
vörður til minnis um þá; a.m.k. þrjár tilteknar Dauðsmannsvörður, Tómasarhóll og
Ólafsvarða eru dæmi um slíkar vörður.

Ólafsvarða
“Landamerkjavörður og stakar vörður eru víða að finna á heiðinni. Hlutverk hverrar og einnar er ekki alltaf ljóst og mun e.t.v. ekki verða hægt að segja til með vissu hvort þær séu allar landamerkjavörður fyrr en skráningar liggja fyrir á öðrum landmerkjavörðum, eða mörkum milli jarðanna neðar í landinu, að teknu tilliti til þróunar byggðar frá landnámi, en landamerki færðust til frá einum tíma til annars þegar jarðir skiptust upp – ein af annarri.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafsvarða.

Sumar þessara stöku varða gætu líka verið minnismerki um fólk, sem hefur orðið úti á heiðinni, en nákvæm vitneskja um það hafi síðan glatast. Fjöldi slíkra varða er hins vegar þekktur á Reykjanesi. Ein er innan girðingar en það er Ólafsvarða og rétt utan girðingar norðanmegin við flugvöllinn er Dauðsmannsvarða og Tómasarhóll. Ólafsvarða mun raskast við framkvæmdina og lendir undir flugbrautinni en aðrar stakar vörður eru ekki í hættu. Má hugsa sér sem mótvægisaðgerð að taka grjótið og endurhlaða Ólafsvörðu rétt utan við Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði”. segir í Fornleifaskráningu á Miðnesheiði árið 2014.

Ekki er vitað hvaða Ólafur þetta var. Í örnefnaskrá segir: „Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir.” Ólafsvarða er um 10 metrum norðan við Hvalsnesleiðina-Melabergsgötur. Hún er heil, um 1,40 á hæð og 1,10 á breidd. Varðan hefur hátt minjagildi.

Kistugerði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.girðinguna þar sem Hvalsnesleiðin-Melabergsgötur koma að girðingunni vestan við flugvöllinn, enda reist til að minnast sögulegs atburðar, manns sem varð úti á leiðinni.

Letursteinninn er niður undir fyrrum sjávarhamri skammt austan Rafnkelsstaða.

Þórshöfn – HP-áletrun

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan.
Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum.

Framangreind “Hallgrímshella” er nú í vörslu Þjóðminjasafnis. Ártal á henni passar ekki við ártíð Hallgríms Pétursson. Ofan við Þórshöfn er hins vegar áletrun á “steinaltari”; HP. Vilja margir meina að þar sé komið fangamark nefnds Hallgríms, en hann ku á fyrstu árum sínum sem prestur í Hvalsneskirkju farið fótgangandi millum hennar og heimilis síns að Bolafæti í Njarðvíkum. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða fangamark Hans Péturs kaupmanns Duus, en hann var einmitt kaupmaður í Keflavík á þeim tíma sem ártölin á steinhellunni gefa til kynna, um 1880. Samskonar fangamark er á hornsteini Duushúsa og á pakkhúslofti verslunarinnar. Hans Pétur verslaði í Þórshöfn á þessum tíma.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Um er að ræða hvítmála styttu af sjómanni við fyrrum sjólist ofan við Gerðahöfn. Á fótstalli styttunar er skilti er á stendur. “Til minningar um drukknaða sjómenn – Mangi frá Mel; Listaverk eftir Helga Valdimarsson”.

Minning um Gíslu S. Vigfúsdóttur
Um er að ræða hvítmála styttu af biðjandi konu utan við hlið kirkjugarðs Útskálakirkju. Á fótstalli hennar er skilti: “2023 – Ég bið fyrir þér (I pray for you) – Verk eftir Helga Valdimarsson. Gefið Útskálakirkju til minningar um konuna mína, Gíslu S. Vigfúsdóttur”.

Skagagarðurinn
Minnisvarði um Skagagarðinn hinn forna er sunnan Garðbrautar þar sem hús nr. 25 stóð áður. Á skilti við minnismerkið segir m.a.: “Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Skagagarðurinn.

Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.”

Sólveig Magnúsdóttir (1932-2020)

Hvalsnes

Suðurnesjabær – minnismerki; Sólveig Magnúsdóttir.

Tómasína Sólveig Magnúsdóttir fæddist 2. apríl 1932 í Nýlendu í Miðneshreppi. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. febrúar 2020.

Minnismerki um Sólveigu er á Kirkjuhól (Austurbæjarhól) ofan við Hvalsneskirkju. Sumarbústaður hennar er skammt sunnar, utan garðs Hvalsnesstorfunnar. Hún reisti hann í skika er hafði tilheyrt Nýlendu.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði 2000.
-Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Keflavíkurflugvelli – 2014.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

 

 

 

 

 

Skagagarður

Í “Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017” er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

“Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,” segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: “Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.”
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.

Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: “Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.” Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: “… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.” Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: “Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.”

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: “Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.”

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: “En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn.

Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: “Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.” Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m.

Skagagarður

Skagagarður.

Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?”

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: “Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.”
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: “Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.”

Garður

Skagagarður.

Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Skálareykir

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Í örnefnalýsingu segir: “Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Skálareykir

Tóftir Skálareykja.

“1839:”Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.”
SSGK, 162;c.1840: “Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.”
SSGK,184;c.1860: “Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.”

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

1902: “Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.”
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: “Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.”

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.

Skálareykir

Skálareykir – loftmynd.

Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald.

Skagagarður

Skaggarður – loftmynd.

Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.

Skagagarðurinn gerður sýnilegur

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – minnismerki.

Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.

Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skagagarður

Skagagarðurinn í Garði.

Útskálakirkja
Útskálakirkja var vígð 1863. Formsmiður af henni var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891).
Árið 1975 var forkirkjan stækkuð. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara. Hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin.Útskálakirkja

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.
Altaristaflan er eftir útlendan málara og sýnir boðun Maríu. Predrikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Séra Sigurður B. Sívertsen (1808-1887) var prestur í Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum, s.s. jarðabótum og húsbyggingum. Hann lét m.a. byggja kirkjuna, sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál, sem hann skrifaði.
Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð. Hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 12000. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkja er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri tíð voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Útskálar

Útskálakirkja – rúnasteinn.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðasögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8. mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum. Um nóttina rak 47 lík á lad í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju landsins.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Ranglát

Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði vildi vekja athygli á eftirfarandi eftir ferð um Sveitarfélagið Garð fyrir stuttu:

Ranglát

Ranglát.

“Takk fyrir síðast.

Þegar við fórum ferðina um Garðinn var ég spurður um vörðu sem er syðst á Langholtinu í Leirunni, og vissi ég það ekki þá.
Nú hef ég komist að því.
Varðan heitir Ranglát og var reist af opinberum aðilum en ekki er vitað hvenær það var [skv. örnefnalýsingu Hólms var varðan hlaðin 1793].
Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði, sem ekki er vitað hvað var. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna.

Ranglát

Ranglát.

Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát. Kanski er hægt að fá betri upplýsingar um vörðuna einhverstaðar.
Tengdafaðir minn Guðni Ingimundarsson sagði mér þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er látinn.”

Kveðja,
Ásgeir Hjálmarsson

Ranglát

Ranglát – upplýsingaskilti við vörðuna.

Gufuskálar
Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgarður.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.”

-Skúli Magnússon – Faxi, október 1999.

Ellustekkur

Ellustekkur 2023.

Skagagarður
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

-Stefán Pálsson – sagnfræðingur v/HÍ.

Garður

Garður.

Garðsskagaviti

Farin var kynnisferð um Sveitarfélagið Garð og Sandgerði. Ásgeir Hjálmarsson leiðsagði um Garðinn og Reynir Sveinsson um Sandgerði.

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagt frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt og Vikivakakvöld á Flankastöðum.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Efra-Sandgerði  er elsta uppistandandi hús í bænum – 1883, komið við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs

Sandgerði

Geirfugl við Sandgerði.

Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, s.s. Kópu og Vararós.

Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli.

Garður

Garður.

Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.

Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum.

Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í sókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.

Garður

Garður.

Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Hjarta

Hjarta landsins utan Sandgerðis.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917.

Garður

Gerðaskóli.

Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti
Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Garðskagaviti

Garðaskagaviti.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps. Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.
Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja

Árnaborg

Árnaborg.

Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

Saga Sandgerðis

Kistugerði

Kistugerði.

Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða

Bærinn Sandgerði

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis.
Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Bæjarskersrétt

Sandgerði – Bæjarskersrétt.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum.

Sandgerði

Sandgerðishöfn.

Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins
Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.

Skagagarður

Skagagarður.

Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.
Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.

Garður

Garður – Vatnagarður.

Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.
Í Miðhúsum eru íbúðir eldri borgara. Þar er einnig blómlegt félagslíf við hæfi. Íbúðirnar sem eru nýjar og glæsilega voru byggðar af byggingafyrirtækinu Búmönnum. Má segja að þar sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja og hafa íbúar þar sannarlega kunnað að búa híbýli sín á smekklegan hátt.

Bókasafn

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Sandgerðisbær á myndarlegt bókasafn sem er til húsa í grunnskólanum. Þar sameinast skólabókasafnið og bæjarbókasafnið og nýtast bæði söfnin íbúum á öllum aldri.
Höfnin
Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.

Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.


Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Básendar

Básendar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar

Gálgar.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes
Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson.
Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins.
Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Lindarsandur

Lindarsandur.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar.

Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt. Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík

Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum.

Hvalsnesgata

Hvalsnegata.

Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Flankastaðir

Flankastaðir

Flankastaðir.

Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn
Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir

Brunnur við Hafurbjarnastaði.

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

ÓSÁ tók saman.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Garðskagi

Fyrstu heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti.

Garðskagi

Garðskagi – Gamli Garðskagavitinn.

Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu.

Garðskagi

Garðskagi – Nýi Garðskagaviti.

Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Í BS-ritgerð Sigurlaugar Herdísar Friðriksdóttur í Lanbúnaðarháskóla Íslands, “Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu” frá árinu 2022 má lesa eftirfarandi um minjar á Garðskaga:

Fyrsti viti
Árið 1847 var elsti vitinn á Garðskaga hlaðinn en það var hlaðin grjótvarða. Grjótvarðan var 7 m á hæð og upp úr henni stóð 3,7 m hár járnkarl. Árið 1884 var síðan sett lítið timburskýli á vörðuna og inn í það var sett ljósker. Talið er að grjótvarðan hafi verið um 100 m norðvestan við gamla Garðskagavita.

Gamli viti

Garðskagi

Garðskagi – Gamli vitinn.

Árið 1897 var síðan byggður viti á Garðskagatá. Vitinn var byggður eftir teikningu frá danskri vitamálastjórn. Gamli vitinn er ferstrendur og byggður úr steinsteypu. Vitinn er um 11,4 m á hæð en með ljóshúsi var hæð hans um 15 m. Byggð var varðstofa við vitann og árið 1933 var gert anddyri við varðstofuna.
Þegar vitinn var fyrst byggður var gras fyrir framan hann og náði það líklega fram á Garðskagarif. Í dag er land alveg gróðurlaust í kringum vitann. Skömmu eftir að vitinn var byggður sáust merki um að tanginn sem vitinn er á væri að verða fyrir rofi vegna sjávargangs. Erfitt var orðið að komast að vitanum í slæmu veðri skömmu eftir að hann var byggður og var því byggð göngubrú yfir í vitann árið 1912. Vegna sjávarrofs við vitann var steyptur pallur við hann árið 1925.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Gamla vitanum var lokað þegar nýr viti var byggður en vitinn hefur þó gegnt ýmiss konar tilgangi síðan þá. Á árunum 1962-1978 notaði Náttúrufræðistofnun Íslands vitann sem fuglaathugunarstöð. Í dag er hægt að leigja vitann við ýmis tilefni, til að mynda fundi eða í skemmtanir. Árið 2003 var vitinn friðaður.

Nýi viti

Nýi vitinn á Garðskaga var byggður árið 1944 og var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitinn er sívalur og er um 28,6 m hár frá undirstöðu að ljóshúsi. Neðst er þvermál vitans 7,5 m en 5 m efst. Garðskagaviti er hæsti sérbyggði vitinn á Íslandi. Vitinn er steinsteyptur og var húðaður með ljósu kvarsi en árið 1986 var hann kústaður með hvítu þéttiefni.
Vitavörður hafði fasta búsetu á svæðinu og starfaði við vitavörslu til ársins 1979. Haldnar hafa verið ýmsar listasýningar í nýja vitanum. Til að mynda hefur meðal annars verið haldin hvalasýning með teikningum, Norðurljósasýning RAX og vitasýning af vitum á Suðurnesjum.

Vitavarðarhús

Garðskagi

Garðskagi – Vitavarðahúsið.

Byggt var vitavarðahús árið 1933, húsið er steinsteypt og var notað sem íbúðarhús fyrir vitavörð. Árið 1951 var byggð viðbygging við vitavarðarhúsið en það var ferkantaður turn sem notaður var fyrir miðunarstöð og nokkur útihús tilheyrðu einnig búi vitavarðar. Húsið hefur nú verið notað undir ýmsar listasýningar ásamt því sem húsið hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir sölu á handverkum.

Mikið er um minjar í Garðskaga. Svæðið hefur langa sögu af akuryrkju og hefur breski herinn einnig verið með viðveru á svæðinu á sínum tíma.

Garðskagi

Breskir dátar í viðbragðsstöðu við Garðskagavöll.

Gamli Garðskagaviti er einnig talinn til minja á svæðinu.
Steypt gangstétt lá frá gamla vita að bæjarstæði og var hún 170m á lengd og 1m á breidd. Í dag er enn steypt göngubrú sem liggur frá gamla vita að bílastæðinu. Göngubrúin er um 40 m á lengd og hefur henni verið haldið við með hlöðnu stórgrýti meðfram henni til þess að forðast rof.

Bær

Á árum áður var bær suðaustan við gamla vitann, fyrir framan vitavarðarhúsið, en ekki er hægt að sjá greinilegt byggingarlag fyrir bænum í dag.

Útihús
Nokkur útihús voru við bæinn en talið er að þau hafi verið þrjú í heildina.

Garðskagi

Garðskagi – túnakort 1919.

Fyrsta útihúsið var norðvestan á Garðskaga, nálægt nýjum vita, og tengdist bænum sem var þar áður. Í dag má sjá steyptan sökkul þar sem útihúsið stóð en sökkullinn er 3,2×3,2 m að stærð og er um 0,2 m á hæð. Annað útihús var norðan við vitavarðarhúsið en ekki sjást nein ummerki um útihúsið. Þriðja útihúsið var við vitavarðahúsið en engin ummerki eru um útihúsið.

Kálgarður

Garðskagi

Garðskagi – túnakortið frá 1919 sett ofan á loftmynd 2020.

Kálgarður var við bæjarstað og útihús 1. Ummerki um kálgarðinn sjást ekki en hins vegar var gerði við kálgarðinn sem er enn varðveitt í dag. Kálgarðurinn var 35x23m að stærð og myndaði 90 gráðu horn. Á norðurhluta kálgarðsins var kantur sem afmarkaði garðinn. Veggirnir á kantinum sjást enn og er hann frá 0,4m – 0,8m á hæð.

Akurreinar
Á Garðskaga voru akurreinar girtar af en þeim var skipt í fernt. Sumar akurreinarnar voru aflangar. Garðarnir voru hlaðnir upp úr klömbrum eða sverði. Lítið var um að hlaða þessa garða upp úr grjóti. Leifar eru af þessum görðum en um 18 akurreinar er um að ræða.

Túngarðar

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Á svæðinu voru þrír túngarðar en má finna ummerki um tvo af þeim. Fyrsti túngarðurinn var í kringum tún bæjarins á Garðskaga en ekki eru ummerki um túngarðinn í dag. Annar túngarðurinn var við tún á suðvesturhorni Garðskaga, við núverandi veg. Garðurinn var um 100m langur og sjást leifar af honum í dag. Garðurinn er um 0,5m breiður og hæsti puntur er um 0,6m hár. Þriðji túngarðurinn og einn elsti garður á svæðinu er túngarður sem er staðsettur rúmum 160m frá strönd. Garðurinn er talin vera partur af rúmum 230m kafla af garði en tengsl á milli hafa rofnað á nokkrum stöðum. Túngarðurinn er um 4-6 m á breidd og er á milli 0,2m – 0,3m á hæð.

Skagavöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Þann 10. maí 1940 hernam Breski herinn Ísland. Á þessum tíma voru ekki til flugvellir á Íslandi en flugvélar voru mikilvæg hernaðartól og þurfti herinn því flugvelli. Mikilvægt var að finna staði sem voru nálægt siglingarleiðum. Herinn hafði ekki tæki og stórar vinnuvélar og því var einnig þörf fyrir að finna svæði þar sem hægt væri að gera flugbrautir á skömmum tíma með litlum kostnaði. Fundu þeir slíkt svæði á Garðskaga þar sem landið þar er óvenju slétt og jarðvegur þéttur og sendinn þannig að vatn settist hvergi að í langan tíma í senn. Samið var við landeigendur á svæðinu og hófust framkvæmdir á flugvellinum haustið 1940. Menn úr Garðinum, Sandgerði og annars staðar af Suðurnesjunum unnu við verkið.

Garðskagi

Garðskagaflatir – loftmynd 1954.

Stærsta verkið var að jafna völlinn þar sem torfið var fært til og síðan tyrft aftur yfir. Bifreiðar, hjólbörur og hestvagnar voru notaðir við að færa sand og túnþökur. Flugvöllurinn var síðan tilbúinn vorið 1941 og fyrsta flugvél lenti á vellinum einn sumardaginn síðar það árið. Flugbrautin var um 90 m breið og 1050 m löng en hún náði frá Garðskagavegi að Hafurbjarnastöðum. Flugvöllurinn var hins vegar ekki notaður mikið þar sem Bandaríkamenn byggðu stærri flugvöll á Miðnesheiði. Skagavöllurinn var því helst notaður sem neyðar- eða æfingavöllur.”

Heimild:
-Vitinn á Garðskaga – Hönnun umhverfis, aðgengis og aðkomu, Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir, 2022.
-https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/vitarnir-a-gardskaga

Garðskagi

Garðskagi – minjastaðir.