Kornrækt á Reykjanesskaga
Kornrækt hefur verið stunduð á Íslandi allt frá landnámi. Í gegnum tíðina hafa köld veðurtímabil haft þau áhrif að kornrækt lagðist af og um leið hvarf sú þekking sem bændur höfðu. Á seinni tímum hefur kornrækt hins vegar verið stunduð óslitið frá 1960.
Af mörgum örnefnum að dæma má ætla að kornrækt hafi verið hluti af búskaparháttum landsmanna, a.m.k. fyrstu árhundruðin. Björg Gunnarsdóttir fjallar t.d. um kornræktina í Borgfirðingabók árið 2009 undir fyrirsögninni „Nýting landsins á landnámsöld„:
„Gera má ráð fyrir að landnámsmenn hafi flutt með sér búskaparhætti heimaslóða sinna, lítt breytta. Ekki hef ég rekist á frásagnir um að hér hafi verið stunduð sviðjurækt sem hluti af einhvers konar sáðskiptakerfi, en skógur var ruddur og brenndur til að skapa pláss fyrir tún og akra og jafnvel í þeim tilgangi einum að bæta beitiland.
Jarðrækt, þ.m.t. kornrækt með tilheyrandi jarðvinnslu og áburðargjöf, var í upphafi byggðar meiri en síðar varð, þótt ekki sé talið að akrar og tún hafi verið mikil að vöxtum á nútímamælikvarða. Afkoma manna byggðist mest á kvikfjárbúskap og þar sem það var hægt voru skepnurnar látnar ganga sjálfala allan veturinn.
Almennt er talið að úthey hafi þar að auki verið mikilvægasta uppspretta vetrarforða allt frá landnámi. Það sem auk ræktunarmenningarinnar vekur helst athygli þegar heimildir um búskaparhætti á landnámsöld eru skoðaðar, er hinn mikli fjöldi nautgripa sem hér virðist hafa verið.

Skáli Ingólfs í Skálafelli, fornleif með vísan í Landnámu. Þarna ku Ingólfur hafa haft geldneyti og ræktað korn á Gullakri.
Landnámsmenn hófu vafalítið kornrækt um leið og þeir komu hingað. Þeir brutu landið með þeirra tíma jarðvinnslutækjum, örðum, frumstæðum plógum og pálum. Það hefur verið vinnufrekt og því er ekki líklegt að ræktað land hafi verið mjög víðfemt. Margt bendir til þess að þegar frá leið hafi akrar verið pældir fremur en plægðir, sem enn bendir til lítils flatarmáls. Kornrækt virðist hafa verið stunduð víða á svæðinu frá Hornafirði vestur um til Breiðafjarðar. Svæðið virðist hafa dregist ört saman, en kornrækt þó ekki horfið með öllu við Faxaflóa fyrr en á 16. öld. Öryggi þessa búskapar hefur þó aldrei verið mikið eins og sést best á því að í Skaftafelli taka menn melskurð fram yfir kornrækt um aldamótin 1400, þótt þar séu aðstæður hvað ákjósanlegastar til kornræktar. Ekki hefur skjólleysið vegna minnkandi skóga bætt úr skák.“
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2002-2003 er fjallað um „Forna akrar á Íslandi – meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum„. Hér verður fjallað um Garðskagaþátt þeirra skrifa:
„Kunnugt er af fornbréfum og ýmsum ritheimildum að kornrækt þekktist á Íslandi til forna, en er talin hafa lagst af á fimmtándu öld. Einnig er fjöldi örnefna víða um land sem bendir eða virðist benda til akuryrkju.
Fræðimenn hafa fjallað nokkuð um akuryrkju á Íslandi og má þar nefna rannsóknir þeirra Björns M. Ólsen, Sigurðar Þórarinssonar, Steindórs Steindórssonar, Þorleifs Einarssonar og Margrétar Hallsdóttur. Vitneskja er þó af skornum skammti um þennan þátt í atvinnuháttum Íslendinga fyrr á öldum, ekki er ljóst hve víðtæk akuryrkjan var og nákvæma vitneskju skortir um hvenær hún lagðist af og ástæður þess.
Á allmörgum stöðum á landinu eru þekktar minjar sem taldar eru fornir akrar eða leifar þeirra. Sums staðar eru afgirtir skikar, sem munnmæli nefna akra eða ekrur, eða önnur ummerki á yfirborði minna á plægða akra. Hvort þessar minjar eru í raun minjar um akuryrkju eða eiga sér aðrar skýringar verður ekki sagt með vissu nema með sérstakri rannsókn á hverjum stað.
Árið 1999 var ráðist í rannsóknarverkefni sem vonast var til að varpaði nýju ljósi á akurminjar á Íslandi. Þetta verkefni fólst í athugun á fornleifum á nokkrum stöðum sem taldir hafa verið akurminjar.
Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að afla þekkingar á kornrækt til forna með því að rannsaka meinta forna akra og hins vegar að meta árangur tiltekinna rannsóknaaðferða við fornleifarannsóknir. Reynt var að leggja mat á hversu áreiðanlegur vitnisburður örnefni, ritaðar heimildir og munnmæli eru um tilvist fornra akra með því að leitast við að sannreyna hvort fjórir slíkir staðir geymi minjar um akuryrkju fyrr á öldum.
Heimildir um forna akra má aðallega finna í máldögum, samtímaheimildum og Íslendingasögum og einnig veita örnefni vísbendingu um akuryrkju fyrr á öldum. Þá má sums staðar finna minjar sýnilegar á yfir borði. Vettvangsathugun leiddi í ljós að meintum ökrum má skipta í tvo meginflokka, annars vegar akra á flatlendi og hins vegar akra í hallanda mót suðri. Ákveðið var að taka til rannsóknar báðar þessar tegundir akra, tvo úr hvorum flokki, til þess að fá samanburð. Fyrir valinu urðu m.a. meintir akrar í landi Hólavalla í Gerðahreppi í Gullbringusýslu.
Forsendur fyrir vali á rannsóknarstöðum voru í fyrsta lagi yfirborðseinkenni hinna meintu akra, þ.e. stærð, lögun og yfirborðsformgerð, svo og lega þeirra í landslaginu. Í öðru lagi að til væru heimildir um akurinn eða kornrækt á staðnum. Heimildirnar gátu verið staðarnöfn, munnmæli og ritaðar heimildir s.s. máldagar. Af fjárhagsástæðum hafði fjarlægð frá Reykjavík og aðgengi einnig áhrif á val rannsóknarstaða.
Yfirborð þessara meintu akra var mælt og myndað til að gera nákvæmt hæðarlíkan og reynt var að meta hvort greina mætti sameiginleg yfirborðseinkenni sem gætu nýst til að greina svipuð fyrirbrigði í landslagi annars staðar. Markmiðið með grefti könnunarskurða í hina meintu akra var að greina jarðlög og tímasetja, að taka sýni til greiningar á frjókornum í jarðvegi og rannsaka uppbyggingu jarðvegsins og eiginleika.
Vænst var að niðurstöður úr þeim greiningum gætu gefið vísbendingu um hvort og þá hvenær korn hafi verið ræktað á viðkomandi stað.
Margrét Hallsdóttir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands greindi frjókorn, Ian Simpson við háskólann í Stirling í Skotlandi greindi örformgerð og efnafræði jarðvegs, Kolbeinn Árnason hjá Verkfræðistofnun Háskóla Íslands annaðist fjarkönnun og loftljósmyndun og Magnús Á. Sigurgeirsson hjá Geislavörnum ríkisins greindi gjósku.
Fornleifa þeirra á norðanverðum Garðskaga, sem taldar eru leifar fornra akra, er fyrst getið í sóknarlýsingum Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen. Tæpum áratug síðar, eða 1847, ferðaðist séra Magnús Grímsson um Garðskaga og lýsti staðháttum svo: „Skaga (eða Garðsskaga) kalla menn odda þann enn þríhyrnda, er lengst gengur fram í sjó í Garðinum og snýr til útnorðurs. […] Á Skaganum hafa í fyrndinni verið girðingar eigi alllitlar, og hafa þær skipt honum í marga ferhyrnda reiti, suma aflanga, suma jafna á alla vegu. Allir þessir garðar eru nú fallnir, en þó sér enn vel til þeirra. […] Er það auðsjáanlegt, að hér hafa verið tómir akrar, og er það mikið svæði, sem þeir hafa náð yfir, því sjórinn hefur án efa brotið töluvert af því. […] Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasigrónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum“.
Brynjúlfur Jónsson ferðaðist um Garðskaga árið 1902 og farast honum svo orð um það er fyrir augu hans bar: […]Akurlönd þessi hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítilli hæð eða tóftabungu, sem er skamt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru. Suður- og austur frá langsetis-garðinum og rústinni eru margar stærri girðingar, flestar hér um bil ferhyrndar, og ná þær alt suður að landamerkjum Útskála og Kirkjubóls. Hafa það að líkindum verið töðuvellir.
Brynjúlfur gerði uppdrátt af ökrunum þar sem glöggt má sjá afstöðu þeirra. Í samningi, er Jón biskup Indriðason og Bjarni Guttormsson gerðu með sér 1340, segir að Bjarni leggi til Skálholtsstaðar fjórðung úr Útskálalandi „um fram öll þau akurlönd er Bjarni keipti til Útskála.“
Hvort akurlönd þessi hafi verið norðan og vestan Skagagarðs er ógerningur að fullyrða um. Akurhús er hjáleiga rétt norðan Útskála sem getið er 170321 og Akurhúsabás og Akurhúsafjörur eru niður undan Hólavöllum og vitanum nýja.
Skagagarðurinn hefur verið tímasettur með tilliti til gjóskulaga. Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11. öld. Er það og í samræmi við niðurstöður Guðrúnar Larsen og Hauks Jóhannessonar.
Nú, hundrað árum eftir för Brynjólfs, eru akurreinarnar afar ógreinilegar og víða horfnar með öllu. Ætla má að sjávarrof, bæði á vestur- og norðurströnd skagans, hafi valdið nokkurri eyðileggingu, en mest spjöll hafa orðið af manna völdum. Fjórar hjáleigur og nýr viti eru nú á því svæði þar sem Brynjólfur Jónsson lýsir akurreinunum 18. Þessari búsetu hafa fylgt húsbyggingar, vegagerð, túnasléttun og annað jarðrask.
Vestan akurreinanna og vegar sem nú liggur að vitanum voru í lok heimsstyrjaldarinnar fyrri plægðar stórar spildur að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og kartöflur ræktaðar þar í þrjú sumur. Á árunum 1940-41 gerði og rak breski herinn flugvöll á sléttlendinu frá veginum að vitanum og suður að Hafurbjarnarstöðum, vestan Hólabrekku og Ásgarðs. Við þessar framkvæmdir má ætla að völlurinn hafi verið sléttaður og hafa vafalítið horfið einhver af þeim garðlögum sem Brynjúlfur lýsti á þessu svæði.
Af þeim fornleifum, sem eru norðan og vestan Skagagarðs, þóttu reinarnar 18 líklegastar til að vera leifar fornra akra eins og Brynjúlfur Jónsson ályktaði. Reinar þessar eru mjög sérstakar.
Niðurstöður og ályktanir
Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að afla þekkingar á kornrækt til forna og hins vegar að meta árangur af nýjum rannsóknaraðferðum við fornleifarannsóknir. Reynt var að meta hversu áreiðanlegur vitnisburður örnefni, ritaðar heimildir og munnmæli eru um tilvist fornra akra með því að rannsaka hvort fjórir slíkir staðir á Suður- og Vesturlandi geyma í raun minjar um akuryrkju fyrr á öldum. Yfirborðseinkenni hinna meintu akra voru skoðuð og grafnir í þá könnunarskurðir. Jarðlög voru tímasett með hjálp þekktra gjóskulaga og jarðvegssýni tekin til rannsóknar á frjókornum og örformgerð og til efnagreiningar. Á öllum rannsóknarstaðnum eru greinileg ummerki jarðrasks, væntanlega vegna ræktunar af einhverju tagi, en ekki var með óyggjandi hætti unnt að skera úr um hvort þar hafi verið ræktað korn.
Garðar þeir sem sjá má í landi Hólavalla og á landareignunum austan og vestan Hólavalla eru efalítið þeir sömu og Brynjúlfur Jónsson lýsti árið 1903 og taldi leifar fornra akra. Könnunarskurðir sem grafnir voru á Hólavöllum leiddu í ljós að þar er afar grunnur jarðvegur án sjáanlegra gjóskulaga. Því var ekki hægt að tímasetja jarðrask þar. Eitt frjókorn greindist úr sýnum frá Hólavöllum sem hugsanlega getur verið af byggtegund. Þetta eina frjókorn gefur þó ekki forsendur til að fullyrða að bygg hafi verið ræktað þarna á staðnum, en það gæti hafa verið gert í nágrenninu.Vegna fjárskorts reyndist ekki unnt að efnagreina jarðvegssýni frá uppgreftinum á Hólavöllum og ekki var skoðuð örformgerð jarðvegs þaðan.
Vegna hnattstöðu og loftslags er Ísland á mörkum þess að hér megi rækta korn. Það hefur því ekki mátt mikið út af bregða til að uppskerubrestur yrði, enda hefur kólnandi veðurfar á 14. og 15. öld iðulega verið nefnt sem meginorsök þess að kornrækt lagðist af á Íslandi.
Hafi hins vegar ófrjósemi jarðvegs átt veigamikinn þátt í að kornrækt hnignaði, er eðlilegt að spyrja hverju það sætti. Varð skortur á góðum áburði til dreifingar á akra, t.d. vegna þess að nautgripum fór fækkandi þegar bændur sneru sér í vaxandi mæli að sauðfjárrækt? Nautgripir gáfu af sér stöðugan forða mykju, en sauðatað fékkst einungis meðan sauðfé var á húsum á vetrum, þ.e. ef það hefur þá ekki gengið sjálfala mestallt árið. Minnkandi skógar hafa og valdið því að skortur varð á eldiviði sem aftur kann að hafa leitt til þess að tað hafi frekar verið notað til húshitunar og eldunar en til áburðar á akra.

Kornakur.
Þessara breytinga á búskaparháttum sér víða merki. Til dæmis benda niðurstöður úr fornleifauppgröftum til að stærri fjós hafi tíðkast á bæjum á fyrstu öldum byggðar í landinu en þau sem algeng voru á síðari tímum. Ekki er glöggt vitað hvers vegna eða hvenær þessi þróun átti sér stað en vel má vera að samband sé á milli breyttra búskaparhátta og þess að kornrækt lagðist af. Ekki hefur áður verið sýnt fram á hversu stóran þátt ófrjósemi jarðvegs kann að hafa átt í hnignun akuryrkju á Íslandi til forna og er vissulega áhugavert að taka þetta atriði til frekari rannsóknar í framtíðinni.
Skortur á vinnuafli getur og hafa haft áhrif á að kornrækt lagðist af hér á landi. Akuryrkja útheimtir mikla vinnu. Undirbúningur akursins fyrir sáningu er mikið erfiðisverk og sé akurinn plægður þarf auk þess að halda uxa eða hesta. Kornskurður að hausti er einnig mannfrekur svo og þresking. Hafi bændur ekki haft bolmagn til að halda nægan mannskap til að annast kornyrkju hefur henni verið sjálfhætt. Svartidauði, sem barst til landsins í byrjun 15. aldar, kann því til dæmis að hafa hoggið það stórt skarð í búalið að ekki hafi verið tök á að halda uppi kornrækt.
Með rannsókn þessari á meintum ökrum hefur verið aflað mikilvægra upplýsinga um þá staði sem rannsakaðir voru, en þó er enn langt í land að skýr mynd fáist af því hve víðtæk kornrækt hefur verið til forna. Vandasamt er að færa sönnur á hvort korn hafi í raun verið ræktað á tilteknum stað.Til að geta metið hversu stór þáttur kornyrkja var í íslenskum landbúnaði til forna er nauðsynlegt að geta greint forna akra í landslaginu, tímasett þá og metið umfang þeirra. Ástæður þess að kornrækt lagðist af á Íslandi virðast tengjast þróun landbúnaðar á annan hátt en áður var talið. En mikið vantar upp á að við skiljum til hlítar hvernig þetta gerðist, og sá skilningur fæst ekki nema með víðtækari athugunum, en hingað til hafa verið gerðar.“
Heimildir:
-Borgfirðingabók, Ársrit 2009 (01.12.2009, Björg Gunnarsdóttir, Nýting lands á Íslandi – frá landnámi til upphafs 19. aldar, bls. 94-95.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 97. árg. 2002-2003 (01.01.2004). Fornir akrar á Íslandi – meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum, bls. 79-103.