Varnarsvæði

Í Þjóðviljanum 1982 eru “Fróðleiksmolar um varnarsvæðin“:

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

“Í umræðu manna undanfarnar vikur hafa “varnarsvæðin” svokölluðu verið ofarlega á baugi, og menn hafa spurt sig hversu víðáttumikil þessi svæði væru og hvaða reglur gildu um þau.

Við fórum því á stúfana og kynntum okkur málin og hér kemur árangurinn.

„Varnarsvæði”, sem einnig eru nefnd „samningssvæði” eru nú á 4 stöðum á landinu. Þetta eru svæði, sem á sínum tíma voru tekin eignarnámi af ríkinu og síðan afhent Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins til ráðstöfunar. Auk umræddra samningssvæða, sem varnarmáladeild hefur látið bandariska hernum í té, hefur hún að sögn Hannesar Guðmundssonar, ráðstöfunarrétt yfir umtalsverðu landi á Suðurnesjum, sem hún getur að sögn Hannesar ráðstafað til bandaríska hersins eða íslenskra aðila.

Varnarsvæði

Varnarsvæði ofan Grindavíkur – fylgir “Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða” nr. 964 27. ágúst 2021.

Að flatarmáli skiptast „samningssvæðin” sem hér segir: Miðnesheiði (í landi Miðneshrepps, Gerðahrepps, Keflavíkurkaupstaðar og Njarðvíkurhrepps) 8.854,0 ha. Grindavík: 420 ha. Hvalfjörður: 47,0 ha. Straumnes (á leigu úr landi Horns): 113,7 ha. Allt þetta land var á sínum tíma tekið eignarnámi nema Straumneslandið, sem var tekið leigunámi úr landi jarðarinnar Horn. NATO er auk þess eigandi að bryggjunni i Hvalfirði og Loran-stöðinni á Sandi á Snæfellsnesi, en sú stöð er rekin af pósti og síma. Samtals eru því „samningssvæðin” um það bil 9.450,0 hektarar, sem mun vera álíka mikið land og allt land Reykjavíkurborgar.

Auk þessa telur Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins sig hafa ráðstöfunarrétt yfir landsvæðum þeim, sem á kortinu eru merkt með ljósari rasta. Það er land, sem ríkið hefur keypt eða tekið eignarnámi.

Varnarsvæði

Varnarsvæði – Kort Zópaníasar Pálssonar skipulagsstjóra ríkisins af flugvallarsvæðinu við Keflavík frá 1971.

Spilda, sem merkt er nr. 1 á kortinu er úr landi Leiru, 277 ha. að stærð stærð og var keypt 1958. Spilda nr. 2 er úr landi Hafna, 1526 ha. og var keypt 1955. Spilda nr. 3 er jörðin Húsatóftir, sem ríkið keypti árið 1956, ca 2.500 ha. Á Húsatóftum hefur Varnarmáladeild leigt íslenskum aðilum aðstöðu til fiskiræktar. Spilda nr. 4 er úr landi Grindavíkur og Njarðvíkur. Þaðan hefur Varnarmáladeild leigt malarnám til hersins og annarra aðila. Spilda nr. 5 gengur undir nafninu „Broadstreet”, þar var eitt sitt útvarpsloftnet og skotæfingarsvæði. Spilda nr. 6 er úr landi Hóps við Grindavík og spilda nr. 7 er lóð, sem eitt sinn var undir einhvers konar fjarskiptastöð, en er ekki lengur „samningssvæði”. Svæði nr. 8 er jarðstöðin i Rockville og svæði nr. 9 er útvarps- og hlustunarstöðin við Hvalsnes í landi Sandgerðis, nr. 10 er meginsvæði vallarins og nr. 11 er 416 ha. svæði við Grindavík þar sem herinn hefur hlustunar- og fjarskiptabúnað.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Lögsaga á „samningssvæðum” fer eftir lögum nr. 33 frá 1954, þar sem segir að ráðherra, sá, sem fari með varnarmál skuli skipa lögreglustjóra á Keflavikurflugvelli er hafi á hendi dómarastörf, lögreglustjórn, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóðs, og skal umdæmi hans miðast við samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningurinn frá 1951 tekur til og eru i eigu ríkisins.

Nú munu hátt í 1000 Íslendingar vinna fyrir herinn. Flestir þeirra búa i Keflavík eða Njarðvikum. Þó eru innan vallarsvæðisins a.m.k. þrjár íbúðarblokkir þar sem Íslendingar búa. Þeir greiða sveitastjórnargjöld til Njarðvikurhrepps. Mörkin á milli „samningssvæðanna” og sveitarfélaganna í kring jafngilda þannig ekki mörkum á milli sveitarfélaga enda þótt lögsaga sé önnur innan þeirra en utan.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Hannes Guðmundsson hjá varnarmáladeild tjáði okkur að enda þótt völlurinn væri ekki sjálfstætt sveitarfélag, þá hefði hann samstarf við nágrannasveitarfélögin, um ýmis málefni, og væri það þá Captain Smith, sem er „commander” á vellinum, sem kæmi fram fyrir hönd hersins. Sem dæmi um slíka samvinnu má nefna sorpeyðingarstöðina á Suðurnesjum. Auk þeirra Íslendinga sem starfa eða búa á vellinum munu vera þar um 3.800 Bandaríkjamenn.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið (dökki liturinn) ofan Grindavíkur. Líkt og sjá má takmarkar svæðið mjög möguleika á vöxt bæjarins.

Eins og sjá má á kortinu þrengja „varnarsvæðin” allmikið að byggð, sérstaklega í Keflavík, Njarðvíkum og Grindavík. Þannig var orðið svo þrengt að Keflavík, að bærinn fékk úthlutað land við Helguvík og á Hólmsbergi til framtíðarbyggðar, en það land hafði áður tilheyrt Gerðahreppi og verið „samningssvæði”.

Í skýrslu um eignir bandaríska sjóhersins á Íslandi frá 1979 kemur fram að herinn metur land það sem hann hefur til afnota á Íslandi til 172.900 dollara og greiðir 21.000 dollara í leigu af landi. Í sömu skýrslu kemur fram, að herinn metur eignir sínar á vellinum til 232.660.381 dollara á þessum tíma.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Herinn á Keflavíkurflugvelli kaupir nú heitt vatn frá Hitaveitu Suðurnesja. Fer um rúmur helmingur af heitavatnsframleiðslunni þar inn á völlinn eða um 50 megawött. Rafmagn fær herinn einnig frá Rafmagnsveitum ríkisins.

Skolpfrárennsli vallarins rennur í einni leiðslu til sjávar í Njarðvíkum. Sorpeyðingarstöð Suðurnesja er rekin af sveitarfélögunum í sameiningu, og brennur hún jafnframt sorpi frá vellinum gegn endurgreiðslu. Þannig tengjast „samningssvæðin” nágrannasveitarfélögunum með ýmsum hætti, og er augljóst að skipulagsmál á svæðinu snerta marga hagsmunaaðila.

Árið 1971 gaf skipulagsstjóri ríkisins út skýrslu um Aðalskipulag Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar fyrir 1967-’87. Samkvæmt skipulagstillögu þessari er gert ráð fyrir að framtíðarbyggð í Keflavík þokist til Helguvíkur og Hólmsbjargs. Í sama skipulagi er framtíðarhöfn fyrir svæði ætlaður staður í Njarðvíkum og er það að tillögu Hafnarmálastofnunarinnar.

Varnarsvæði

Varnarsvæði.

Í greinargerð með skipulaginu er einnig fjallað um hættu á mengun vatnsbóla af völdum olíu og segir að nauðsynlegt sé að „tekið verði tillit til hættu varðandi geymslu á olíu á skipulagssvæðinu. Enn fremur er æskilegt að til séu fleiri en eitt vatnsból, sem gripa mætti til ef óhapp verður á einu brunnsvæði”.

Í greinargerð þessari er einnig getið um að „hinar sérstæðu jökulrispuðu klappir við bjargbrún Hólmsbergs” skuli friðaðar sem náttúruvætti.

Lýkur hér samantekt sundurlausra fróðleiksmola um
„varnarsvæðin” á Suðurnesjum.” -ólg.

VarnarsvæðiÍ Reglugerð nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum koma fram skilgreiningar á hugtökum innan varnarsvæðisins, sbr.:
“Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:

Varnarsamningurinn: Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætir við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951 sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Varnarsvæði: Landsvæði það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hefur verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.

Varnarstöð: Varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, þ.e. svæði Flotastöðvar Bandaríkjanna innan öryggisgirðingar Atlantshafsbandalagsins auk þess hluta flugstöðvar sem er utan girðingar, samanber fylgiskjal með reglugerð þessari.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. Aflögð herstöð.

Varnarliðið: Liðsmenn í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli úr herliði Bandaríkjanna og starfslið sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, heldur dveljist þar vegna framkvæmdar varnarsamningsins, og skyldulið þeirra. Til varnarliðsins teljast einnig liðsmenn herafla annarra aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins sem uppfylla sömu skilyrði.”

Broadstreet

Broadstreet 2023. Aflögð herstöð.

Í “Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða” nr. 964 27. ágúst 2021 segir m.a. um um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða:
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 ber ráðherra að auglýsa landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 ber ráðherra að auglýsa ytri mörk og skiptingu öryggis- og varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli í flugvallarsvæði og öryggissvæði.
Öryggissvæði eru á Keflavíkurflugvelli, Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, Stokknesi og í Helguvík. Varnarsvæði er í Grindavík. “

Heimildir:
-Þjóðviljinn, helgin 27.-28. mars 1982, Fróðleiksmolar um “varnarsvæðin”, bls. 12.
-Reglugerð 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum.
-Nr. 964 27. ágúst 2021, Auglýsing um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.

Patterson

Sprengjuefnageymslur á Pattersonflugvelli.