Vatnsnesviti

Keflavík hefur breytt mjög um svip á síðustu árum, ekki síst ströndin. Miklar uppfyllingar og sjóvarnargarðar hafa verið hlaðnir meðfram ströndinni. Fyrir vikið týnast menjar og örnefni sem vert er að halda á lofti.Í dag hefur myndast meðfram ströndinni nýtt landssvæði sem býður upp á marga möguleika til útivistar, einnig hefur verið lagður þar nýr vegur sem nefnist Ægisgata.

Duushús

Duushús.

Í þessari leiðarlýsingu verður farið í göngutúr meðfram ströndinni og gengin nýja Ægisgatan frá Smábátahöfninni að Vatnsnesvita og reynt verður að gera nokkrum örnefnum skil ásamt lýsingu á því sem fyrir augu ber. Smábátahöfnin er í svokallaðri Gróf, sem stundum var nefnd „Keflavíkurgróf“ eða „Duusgróf“en þar var byggð bryggja árið 1928 – 1929. Það var Matthías Þórðarson, eigandi jarðarinnar sem stóð fyrir byggingu bryggjunnar og einnig lét hann grafa þar vísi að skipakví og þaðan skurð til sjávar. Matthías flutti síðan frá Keflavík og féllu þá niður frekari framkvæmdir. Það mætti segja að draumur Matthíasar um skipakví hafi ræst þegar smábátahöfnin var tekin í notkun árið 1993.Rauða húsið á hægri hönd nefnist Bryggjuhús og var vöruhús Duusverslunar. Bryggja gekk niður undan húsinu og út í sjó, nefndist hún Duusbryggja. Steinhleðsla, sem gengur undir túnið sjávarmegin við húsið, er hluti af sjóvarnargarði er var hlaðinn um árið 1900.Þegar beygt er inn á Ægisgötuna má sjá nokkuð stóran stein með uppröðuðum steinum í kring, það er minningarsteinn um skipsskaða sem átti sér stað rétt utan við Stokkavör en svo var þetta svæði kallað.

Duusbryggja

Duusbryggja.

Svæðið sem liggur frá Listaverki Ásgríms að stóru gráu húsi framundan kallast Myllubakki. Þegar gengið er meðfram Myllubakka og horft er til hægri upp á planið þar sem verslunin Nýjung er til húsa þá var á þessum stað byggð fyrsta kirkjan í Keflavík, en sú kirkja skekktist í óveðri og var síðan rifin, síðar var núverandi kirkja byggð á þeim stað sem hún er enn. Í dag stendur á fyrrverandi kirkjuplaninu listaverkið Flug eftir Erling Jónsson.Á vinstri hönd má sjá tröllahjón úr grjóti sem virðast standa vörð um Keflavíkina! Listaverkið er eftir Áka Granz.Þegar gengið er áfram Ægisgötuna er framundan áberandi fallegt og sérkennilega formað hvítt íbúðarhús. Helgi S. Jónsson skátahöfðingi, listamaður o.fl. byggði þetta hús og kallaði það „Heljarþröm,“ hvort sem það var vegna kostnaðar við bygginguna eða staðsetningar því húsið var byggt á kletti út við ströndina. Nokkuð hár grasblettur liggur frá húsinu hans Helga þar má finna tóftir og garðhleðslur bæjar sem nefndist Hæðarendi, kemur nafnið til af því að bærinn stóð uppi á „Hæð.“ (Fyrir heimamenn á miðjum aldri og sem muna eftir Æskulýðsheimilinu og Janusi húsverði þá ólst Janus upp á Hæðarenda).Framundan á vinstri hönd sést Keflavíkurmerkið sem Helgi S. Jónsson teiknaði og Erlingur Jónsson gerði standmynd af.
Þar var uppsátur Keflavíkurbóndans og Keflavíkurkaupmanns, þar lentu áttæringar þeirra og uppskipunarbátar. Uppi á túninu ofan við Gömlu búð (rautt gamalt hús sem stendur eitt og sér við hringtorgið) voru tvö spil til að draga skipin upp.Það var í Stokkavör sem Hallgrímur Pétursson og Guðríður Símonardóttir komu í land þegar þau komu til Íslands eftir Kaupmannahafnardvölina.Gengið er áfram Ægisgötuna og gott að kíkja annað slagið yfir grjóthleðsluna, því enn má sjá Miðbryggjuna sem svo var kölluð. Hún var upphaflega nefnd Fichersbryggja og var þá kennd við verslun Fichers kaupmanns sem lét byggja hana, hann verslaði í húsi því sem nefnt er Fichershús að Hafnargötu 2 (gula húsið á hægri hönd).Á þeim tíma voru hér þrjár bryggjur, Duusbryggja vestast, Fichersbryggja og Norðfjörðsbryggja. Því var Fichersbryggjan nefnd Miðbryggja, að hún var í miðið.Þegar staðið er á móts við hús sem á stendur „Svarta pakkhúsið“ en var Miðpakkhúsið, og horft upp Íshússtíginn sést lítið gult tvílyft hús. Það er fyrsta skólahúsið í Keflavík.Norðfjörðsgata nefnist gatan sem liggur beint frá Kirkjunni, niður að Ungó einsog húsið var nefnt um og uppúr miðri síðustu öld. Þar má staldra við og gera sér í hugarlund umhvefið einsog það var fyrir um það bil einni öld. Í Ungóhúsinu verslaði Knutzonsverslunin og nefndist húsið þá Norðfjörðshús eftir vinsælum verslunarstjóra sem starfaði þar. Neðan frá Norðfjörðshúsi gekk bryggja sem nefnd var Norðfjörðsbryggja, í dag stendur listaverk Ásgríms Jónssonar á móts við Norðfjörðsgötu.

KeflavíkKeflavíkurmerkið stendur á svokölluðum Ósklettum eða Ósnefi, Skollanef nefnist 7-8m hár grágrýtisklettur sem gengur austur úr Ósklettum. Á hægri hönd er gamla Sundhöllin sem var tekin í notkun árið 1939 þegar sjó var dælt í laugina og voru það félagar í Ungmennafélagi Keflavíkur sem áttu veg og vanda af byggingunni. Áfram er haldið og á vinstri hönd framundan má sjá litla vík sem gengur inn í landið og er nefnd Básinn. Árið 1929 hófu þar nokkrir stórhuga athafnamenn að reisa aðstöðu fyrir útgerð. Þeir byggðu myndarlega steinbryggju og upp með henni byggðu þeir allmikil fiskvinnsluhús að þeirra tíma mælikvarða, og standa sum þeirra enn. Básinn hefur verið fylltur upp, en þó sést enn í hluta af bryggjunni.Gengið er áfram með ströndinni þar til komið er að Vatnsnesvita sem stendur á Vatnsnesklettum, vitinn var byggður árið 1921 og er 8,5 m hár. Ef gengið er yfir hlaðna sjóvarnargarðinn við vitann er komið niður á sérkennilegar steinmyndanir þar má finna svonefndann Gatklett.

Heimildir m.a.:
-Byggðasafn Suðurnesja, Örnefni og sögustaðir í Keflavík.
-Sturlaugur Björnsson, Steinabátar.
-Rannveig Kristjánsdóttir tók saman.

Vatnsnesviti

Vatnsnesviti.