Gengið var að Kirkjuvogsseli og þaðan að Arnarbæli um Sauðhól. Þá var ætlunin að taka stefnuna til norðausturs að Gamla-Kaupstað. Staðurinn hefir gjarnan verið settur í samhengi við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og að þar kynni að hafa verið áningarstaður. Í norðaustur frá honum átti að vera, skv. örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi, gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn; Grákolluhóll.
Á svæðinu hafði og spurst um vegghleðslur í gjám, sprungum og víðar.
Svæði, sem hér um ræðir, er miklu mun víðfeðmnara en virðist við fyrstu sýn. Um er að ræða heiðina millum Súlna og Hafna annars vegar og Arnarbælis og Patterssonsflugvallar hins vegar. Svæðið norðanvert var meira og minna notað til æfinga fyrir hermenn á Keflavíkurflugvelli, allt fram til þessa daga. Víða má sjá minjar eftir æfingarnar; hleðslur, byrgi, skjól, spýtnabrak, sprengjubrot og ekki síst ótal slóða eftir skriðtæki og önnur beltatól.
Skoðum fyrst örnefnalýsingu Hinriks í Merkinesi: “Þetta eru Norður-Nauthólar. Þarna hallar landinu til norðurs og austurs, en stefna brekkuhallans er til vesturs alveg niður í sjó sunnan Kalmanstjarnar. Í norðvestur frá Norður-Nauthólum [er] stór, dyngjumynduð hæð. Hún heitir Arnarbæli.” Nauthólaflatir eru milli Merkiness og Norður-Nauthóla. Arnarbæli er mest áberandi kennileitið í heiðinni; hátt holt með klofinni vörðu ofan á, séð frá vegi.
Þá segir í lýsinngunni um örnefni, séð af veginum til Stapafells: “Um Stapafell (Stapafellsþúfu) eru hreppamörk Hafna-, Grindavíkur- og Njarðvíkurhreppa. Vegurinn, sem liggur til vinstri, er Stapafellsvegur [hér er átt við gamla veginn nokkru vestan núverandi vegar]. Lautin, eða lægðin, er nefnd Lágar. Þegar suður fyrir Lágar kemur, hækkar landið og á hægri hönd er geysimikil hæðarbunga með klappahólum. Norðvestan í hæð þessari eru rústir gamlar og heitir það Kirkjuvogssel. Þar litlu ofar – til hægri – er klofinn, hár klapparhóll, sem heitir Sauðhóll. Þar er gamalt refagren undir klapparbrún mót suðvestri. Það heitir Sauðhólsgren. Dálítið ofar sjáum við bera við loft nokkrar hólóttar hæðir, það eru einu nafni Gjáhólar. Í norðaustur frá hæsta hólnum er lág, bungumynduð, lítil klöpp með tvær holur inn undir, önnur til austurs, hin til suðvesturs, þetta er Gjáhólagren. [Víða voru litlar vörður á klapparhólum. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að hér voru leiðarmerki að grenjum að ræða].
Nú komum við að miklu landsigi, er liggur langt suðvestur í Hafnaheiði og til norðausturs í Njarðvíkurheiði. Þetta landsig heitir Súlnagjá. [Súlnagjá er syðsta gjáin í hallandanum, næst Súlum. Norðar er Mönguselsgjá og Arnarbælisgjá nyrst. Gjárnar sjást betur úr suðri] Hér stönzum við og horfum til Stapafells, því að mörgu er að hyggja.
Á hægri hönd, svo sem 300 faðma til norðvesturs, er dálítil flesja milli tveggja hæða, er liggja frá suðaustri til norðvesturs. Á flesjunni er dálítill grasi gróinn hóll með lágum sperrulöguðum helli mót suðvestri, og uppi á brúninni er vörðubrot. Þetta heitir Hellisgreni. Á vinstri hönd ([til] austurs) er nokkuð stór hóll og er nefndur Urðarhóll. [Í rauninni er mjög erfitt að fylgja lýsingunni verandi á staðnum. Hinrik var þaulkunnugur á svæðinu og gat lesið landið án hindrana, en fyrir ókunnuga með þessa lýsingu í höndunum virðist hvert kennileitið öðru líkara og í rauninni öll passa við lýsinguna. Þó má nota útilokunaraðferðina, t.d. með því að gaumgæfa hvern stað vandlega, líkt og hér var gert, en það er mjög tímafrekt.] Í hól þessum var greni, Urðarhólsgreni. Greni þetta eyðilagði herliðið með jarðróti. [Að öllum líkindum er Urðarhóll ranglega merktur inn á landakort m.v. þessa lýsingu.]
Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður. Gren var í hól þessum áður fyrr, en aldrei í tíð núlifandi manna. [Hafa ber í huga að sjaldan voru gren í stórum hólum í heiðinni. Hólarnir vildu þó gjarnan stækka í augum grenjaskytta, ef þar var greni. Hinrik var mikil grenjaskytta].”
“Í norðaustur frá því, er við stöndum, er gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn. Hann heitir Grákolluhóll. Þar norðaustur af er hár, klofinn klapparhóll, Stóri-Klofningur. Dálítið ofar er annar hóll, líkur hinum, en minni, Litli-Klofningur. Báðir eru hólar þessir neðan við sjálfa heiðarbrúnina.”
Eins og fyrr sagði er heiðin norðanverð meira og minna útsporuð eftir stríðstól. Í ljósi nútíma rýni skilaði “vitleysan” nákvæmlega engu fyrir land og þjóð öðru en því að spilla umhverfinu sem og menningarverðmætum á svæðinu. Mannvirki, hlaðin af forfeðrum vorum, hefur verið umverpt og grjótið notað í skjól fyrir erlendar skyttur, sem voru hér til tímabundinnar afþreyingar og dægradvalar. Ef einhvern tíma hafa verið fornar götur að og frá Gamla-kaupstað, áningarstað Grindavíkurútvegsbænda um aldir, eru þær nú horfnar undir skriðbelti forgenginna stríðstóla. Þó má á einum stað, um skamman veg, sjá móta fyrir götunni.
Þegar gengið er um Hafnaheiði má víða sjá gamlar hleðslur í gjám og sprungum. Sumar virðast hafa verið undir fyrrum girðingar, en aðrar hafa fáar tilvísanir aðrar en að hafa verið skjól óskráðra ferðalanga um heiðina. Hinar mörgu vörður gætu hins vegar, ef vel væri gengið, gefið hina fornu þjóðleið millum Grindavíkur og Keflavíkur til kynna. Hún mun líklega tengjast Árnastíg norðvestan við Þórðafell, eða hinum forna Prestastíg nokkru sunnar, norðan Sandfellshæðar (sjá HÉR). Þar í brúninni er forn ferhyrnd hleðsla í gróanda.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarhrepp.