Kirkjuvogskirkja

Freyja Jónsdóttir ritaði um Kirkjuvogskirkju í Höfnum í Dag árið 1999:
“Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland”, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmanstjarnarhverfi. Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
kirkjuvogskirkja-221Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Þá er getið um hálfkirkju að Glámatjörn. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð.
Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Þá er þess getið að kirkjan hafi fengið stórar gjafir frá Hákoni Brandssyni, sem gaf kirkjunni læsta kistu, og Erlendi Hjaltasyni sem gaf kaleik og messuklæði.
Brandur Guðmundsson hreppstjóri, sem þá bjó í Kirkjuvogi, ritaði sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar árið 1840 eftir beiðni séra Sigurðar Sívertsen á Útskálum. Brandur var fæddur á Rangárvöllum 1771. Faðir hans var Guðmundur Brandsson, bóndi á Brekku á Rangárvölum, sonarsonur Bjarna Halldórssonar á Víkingalæk. Guðmundur flutti suður að Kirkjuvogi og drukknaði á góu árið 1801. Brandur sonur hans þótti siðavandur, smiður góður og smíðaði fjölda skipa, bæði stór og smá. Hann andaðist í Kirkjuvogi, 74 ára gamall. Gróa Hafliðadóttir hét kona hans, orðlögð fyrir heppni í starfi en hún var ljósmóðir. Gróa lést árið 1855.
kirkjuvogskirkja-224Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað tók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist. Hákon gaf nýja söngtöflu í kirkjuna og var fjárhaldsmaður hennar alla sína tíð. Hákon Vilhjálmsson lést 1820. Ketill Jónsson (elsti Ketill í Kotvogi) og Guðni Ólafsson í Merkinesi gáfu kirkjunni nýja prestshempu og hökul af rauðu flaueli með gullnum krossi og knipplingum umhverfis.
Ketill Jónsson sem tók við kirkjunni eftir að Hákon lést, lét endurbæta kirkjuna árin 1844, 1848 og 1851. Hann lét einnig steypa silfurkaleik og gaf kirkjunni til minningar um konu sína, Önnu Jónsdóttur. Árið 1859 afsalar Ketill Jónsson sér kirkjunni til Vilhjálms Hákonarsonar, en Vilhjálmur byggði hana í þeirri mynd sem hún er nú. Tómas faðir Ingigerðar konu Vilhjálms Hákonarsonar byggði Kirkjuvogsbrunninn sem lengi var vatnsból byggðarinnar. Brunnurinn er nú aflagður og búið að fylla hann af grjóti, þó enn sjáist vel hvar hann var.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Í húsvitjunarbókum frá árinu 1865 sem prófasturinn í Kjalarnesþingi skráði, þegar hann vísiteraði í Höfnum í byrjun septembermánaðar, segir að kirkjan sé í prýðisástandi eins og hirðing hennar til sóma. Þá skuldaði kirkjan 685 ríkisdali sem þótti ekki mikið vegna byggingar hennar því talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 1800 ríkisdali. Stefán Sveinsson á Kalmarstjörn gaf kirkjunni nýja kirkjuklukku. Kaupmaður P. Duus í Keflavík gaf kirkjunni glerhjálm og Vilhjálmur Kristinn Hjálmarsson gaf nýtt altarisklæði, gert af rauðu silkiflosi með gullnum krossi og leggingum, einnig gaf hann hvítan altarisdúk með blúndu í kring. Gjöfin var talin afar höfðingleg og tekið er fram að hún hafi kostað yfir 50 ríkisdali.
kirkjuvogskirkja 222Prófastur endar lýsingu á heimsókn sinni í hið veglega guðshús með því að þakka höfðinglegar gjafir. Þá er tekið fram að sóknarbörn munu taka að sér að halda við hurð og dyraumbúnaði á kirkjunni og sáluhliði. Árið 1866 lét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna. Kostnaðurinn við bygginguna varð rúmlega 605 ríkisdalir. Vilhjálmur gaf altaristöfluna sem enn er í kirkjunni og máluð af Sigurði Guðmundssyni málara. Einnig gaf hann kaleik og stærri kirkjuklukkuna og flest það sem kirkjuna vanhagaði um. Vilhjálmur var kirkjuhaldari til dauðadags. Hann andaðist í Kirkjuvogi 20. september 1874. Vilhjálmur hafði tvívegis fengið heiðursmerki, frá Danakonungi árið 1852 fyrir giftusamlega björgun sjómanna, og heiðursmerki frá Napoleon Frakklandskeisara. Danebroksmaður varð hann 1869. Eftirlifandi kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir, tók við kirkjunni og stjórnaði henni af mikilli rausn. Hún greiddi niður skuldir kirkjunnar og stjórnaði öllu með miklum skörungsskap í þrettán ár. Steinunn, dóttir Vilhjálms og Þórunnar, tók við stjóminni af móður sinni til ársins 1890. Steinunn gaf kirkjunni stórfé og varð kirkjan skuldlaus í hennar tíð.
Kirkjuvogskirkju var fyrst þjónað frá Hvalsnesi, síðan Útskálum og frá 1907 frá Grindavíkurprestakalli. Íbúar í Höfnum hafa alltaf verið stoltir af sóknarkirkju sinni og hugsað vel um hana enda er hún ákaflega falleg bygging. Helmingur loftsins er með hvolfþaki sem prýtt er með hundrað og einni stjörnu. Hinn hluti loftsins er með bitum. Kirkjan tekur sjötíu manns í sæti og er með fjórtán bekkjum. Í gegnum árin hafa sóknarbörnin gefið kirkjunni flestar eigur hennar, eins og skírnarfont sem séra Jón Thorarensen gaf, maðurinn sem hefur skrifað mest af öllum mönnum um sögu Hafnanna. Jón var alinn þar upp hjá Hildi Jónsdóttur Thorarensen, föðursystur sinni og manni hennar Katli Ketilssyni (yngsti Ketill) í Kotvogi. Ketill var fæddur á Hvalsnesi en faðir hans átti jörðina og byggði þar tvær kirkjur.
Á kirkjuturninum er járnstöng, efst á henni er plata með fangamarki Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og ártalinu 1861. Kirkjan er dökkmáluð með rauðu þaki og hvítmáluðum gluggakörmum, dyraumbúnaði og hurð. Hún stendur á hæð í vel grónu túni. Í kringum hana er vel hirtur garður með hvítri girðingu. Í austurhluta garðsins er leiði þeirra Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og Þórunnar Brynjólfsdóttur. Í kringum það eru fagurlega smíðaðar grindur.
Heimildir eru úr Suðumesjaannál, Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Blöndu II, Lýsingum Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu og viðtal við Borgar Jónsson í Höfnum.”

Heimild:
-Dagur 18. desember 1999, bls. 1 og 3.
Hafnir