Njarðvíkurkirkja

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir hafa nú runnið saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Minnismerki um Thorcellius.

Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.
Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki greinanleg ókunnugum.
Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.
Njarðvíkin sjálf er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Sú kirkja, sem þar er nú, var reist 1884-86. Hún var vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni. Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.

Njarðvík

Minnismerki um Sveinbjörn.

Að baki kirkjunni er minnisvarði eftir Ríkharð Jónsson um Jón Þorkelsson Skálholtsrektor, öðru nafni Jón Thorkillius var afhjúpaður við Innri-Njarðvíkurkirkju síðasta laugardag í maí árið 1965. Jón Thorkellius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Jón var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði. Minnisvarðinn sýnir skólamanninn Jón sitjandi með tvö börn og er þetta eitt af stærstu verkum Ríkharðs Jónssonar.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Þarna er og minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor, en hann bjó í Innri-Njarðvík. Minnisvarðin var afhjúpaður 27. febrúar 1991. Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Þjóðhátíðarinnar 1974 var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.
Byggðasafn Njarðvíkur er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið stendur norðvestan við kirkjuna.

Njarðvík

Njarðvík – minjasafn.

Vestar eru tjarnir. Austan þeirra er brunnur. Suðvestan við brunninn eru tóftir grasbýla, sem jafnan tóku nafn af húsráðendum sínum hverju sinni. Eitt þeirra var Hólmfastskot.
Íslandssagan segir frá því að árið 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt.

Njarðvík

Hómfastskot.

Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp. Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
Garðbær er skammt suðvestar, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti. Bærinn hét áður Bræðraborg. Við hlið hans stendur nýrra íbúðarhús klætt bárujárni, sennilega frá byrjun 20. aldar. Við norðurenda þess er þurrkhjallur, sem algengir voru við hús hér fyrrum.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er í Innri Njarðvík. Það er endurgert tilgátuhús sem, reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur.
Fitjarnar voru ofan við Njarðvíkina. Þær þóttu farartálmi á ferðum fólks milli byggðalaganna, auk þess sem skrímslu gerðu sig þar stundum sýnileg ofan við kampinn, einkum að kvöldlagi. Við þjóðleiðina um Fitjar stóð eitt sinn grasbýli, sem bókstaflega var etið út á gaddinn.
Um árið 1890 varð uppi fótur og fit í Innri-Njarðvík út af dýri ókennilegu, sem þar hafði sézt nýlega á Kampinum heima við íveruhúsið.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Sjónarvottar lýstu því svo, að það hefði verið áþekkast tryppi, að því fráskildu, að það var með upphringaðan hala eins og hundur. Það var hvítt á lit. Vinnumenn og sjómenn í Innri-Njarðvík hlupu út til að skoða þessa skepnu nánar. En þá tók hún á rás fram til sjávar. Þeir eltu hana, þar til þeir sáu hana hverfa í sjóinn niðri í Kirkjuvík.
Heiman frá bænum í Innri-Njarðvík niður í Kirkjuvík mun hafa verið um 200 metra vegalengd. Eitt kvöld rétt fyrir miðjan nóvembermánuð árið 1912 fór bóndinn út í fjós, eins og venjulega, til að vatna kúnum. Það mun hafa verið um tíuleytið og orðið alrokkið. Fjósið og önnur útihús, sem hér koma við sögu, voru þann veg sett, að syðst var hesthús með dyrum á móti suðri. Norður af því var fjósið og gengið í það úr hesthúsinu. En nyrzt og áfast við fjósið var fjárhússkúr og dyr á honum í austur. Við vesturhlið hans var steyptur brunnur, sem safnað var í rigningarvatni af þökum gripahúsanna handa búpeningnum, en þess utan var yfir honum hlemmur. Örskammt frá suðvesturhorni hesthússins var vanhús, með dyrum til norðurs. Sást úr þeim meðfram vesturveggnum á hesthúsinu, fjósinu og fjárhússkúrnum og til brunnsins.

Njarðvík

Brunnur við Stekkjarkot.

Stúlka fór með föður sínum þetta kvöld og skrapp á vanhúsið, á meðan hann var að vatna kúnum. Hesthúsdyrnar voru opnar og lagði út um þær daufa glætu frá ljósi, sem faðirinn hafði hjá sér í fjósinu. Vanhúsdyrnar stóðu líka opnar, og sá hún ljósglætuna út um þær, dálítið skáhallt til hægri hliðar. Hafði stúlkan ekki lengi setið á vanhúsinu, þegar henni verður litið um dyrnar norður með gripahúsunum. Þykist hún þá sjá skepnu, líkasta tryppi, standa á brunnhlemminum, um tíu metra frá henni. Hún þorði ekki að trúa sinni eigin sjón og kreisti aftur augun í þeirri von, að þetta yrði horfið, þegar hún opnaði þau á ný, sem hver önnur missýning. En það varð ekki. Þegar stúlkan opna augun, sér hún glöggt, hvar skepnan stendur á hlemminum, hvít á lit, eða annan lit gat eg ekki greint á henni. Hún sneri hliðinni að stúlkunni og sperrti eyrun eins og hestur, sem hlustar, og horfði í vesturátt til næsta bæjar, er hét Hákot. Stúlkan reyni að telja sér trú um, að þetta væri náttúrulegt tryppi. En þá tók hún eftir því, að það hefur upphringaðan hala eins og hundur. Þá gat hún ekki beðið boðanna lengur og kalla til föður síns. Hann kemur út í hendingskasti, hélt víst af kallinu, að eitthvað hefði orðið að dóttur sinni.
Hún segi við hann: “Sjáðu dýrið, sem stendur á brunnhlemminum!”
Faðirinn lítur þangað og segir: “Eg sé ekkert dýr.”

Njarðvík

Frá Njarðvík.

En við því var máski ekki að búast. Hann var nýkominn út í myrkrið úr ljósbirtunni og mun hafa verið dimmt fyrir augum. Í sömu svifum sér stúlkan dýrið snarsnúa sér við og skjótast austur fyrir fjárhúshornið, eins og í átt til kirkjunnar. Nú var henni runninn móður í brjóst og segir við föður sinn: “Við skulum hlaupa austur fyrir húsin og vita, hvort við sjáum ekki til þess.”
Feðginin þutu þangað, en urðum einskis vör. Dýrið var horfið.
Fyrir nokkrum árum var í Njarðvíkum suður maður sem Bjarni hét Högnason. Hann sagði eitt sinni frá því að hann hefði orðið fyrir áleitni af sjóskrímsli þar í víkunum og komist nauðulega undan. Gat hann þess og til að það mundi sitja um sig. Svo leið og beið þangað til að hann átti ferð síðla dags á milli Njarðvíkna. En áður hafði hann orðið skrímslisins var á milli þeirra og Keflavíkur og uggði því síður að sér. Hann lenti í myrkri og kom eigi sem menn væntu um nóttina né morguninn. Var hans þá leitað og fannst hann þegar dauður með ærið miklum áverkum. Töldu menn það víst að skrímslið hefði hitt hann aftur og gert útaf við hann. Engin glögg sögn er til um útlit þessa skrímslis.Frá Fitjum í Njarðvík liggur forna þjóðleiðin Skipsstígur til Grindavíkur. Vörður hafa fallið á fyrrihluta leiðarinnar, en eru mjög greinilegar frá Stapafelli til Grindavíkur og Húsatófta (Árnastígur).  Áætlaður göngutími er u.þ.b. 5 klst.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.