Framsöguerindi, flutt á málfundanámskeiði Iðnaðarmannafélagsins 28. febrúar 1967. –
“Það litla, sem Landnáma segir um upphaf byggðar á Suðurnesjum er eftirfarandi: „Steinunn in gamla frændkona Ingólfs fór til Íslands og var með honum inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingu. Steinunn hafði átt Herlaug bróðir Skallagríms, þeirra synir voru Njáll og Arnór,,.1.)
Þetta er öll landnámssaga Steinunnar gömlu og næstum allt og sumt, sem um hana verður vitað eftir rituðum heimildum. Þó víst sé talið, að við Íslendingar séum af norrænum uppruna, þá eru miklar líkur fyrir því, að Steinunn landnámskona sem er talin vera sú fyrsta, sem reisti sér bú á Suðurnesjum, hafi komið frá Vesturlöndum. Synir hennar hétu Njáll og Arnór. Njálsnafnið bendir til þess, að hún hafi komið frá Vesturlöndum og styrkist það við frásögnina um ensku hekluna, er hún gaf Ingólfi fyrir landnámið. Hún hafði enska vöru og getur maður því ætlað, að það hafi verið fleira af því tagi í fórum hennar, en hekla þessi, því að bæði víkingar og landnemar fluttu með sér nokkrar birgðir af varningi frá þeim löndum, sem þeir lögðu frá, er þeir fóru í herferðir eða landaleit.2)
Talið er, að Steinunn hafi reist sér bú að Stóra Hólmi í Leiru og hafi rekið þar um árabil mikið höfuðból og verstöð. Það er talið, að á landnámsöld hafi Keflavík og Njarðvík verið sel frá Stóra-Hólmi í Leiru.4) Hið forna höfuðból Steinunnar gömlu er nú komið í eyði, en sel hennar eru aftur á móti ört vaxandi byggðarlög.
Í bókum um landnám Ingólfs er getið um, að í Rosmhvalaneshreppi hafi verið Keflavík, Leira, Garður og Miðnes og allt að Ósabotnum. Greinilegt er, að Njarðvíkur eru teknar undan Rosmhvalanesi, er hreppar eru myndaðir.5) Njarðvíkur, Vatnleysuströnd og Vogar mynduðu Vatnsleysustrandahrepp.
Fyrsta breytingin, sem gerð er á Suðurnesjum er, að Njarðvíkur segja skilið við Vatnsleysustrandahrepp og sameinast Rosmhvalaneshreppi árið 1885.6).
Næsta breytingin á hreppaskilum er, að Miðnesingar segja skilið við Rosmhvalaneshrepp árið 1886.7) Það ár verður því Miðneshreppur til í sinni núverandi mynd, og hefur engin breyting orðið á síðan.
Næsta breytingin á Rosmhvalaneshreppi er, að árið 1908 er hann lagður niður og myndaðir tveir nýir hreppar. Hinir nýju hreppar voru núverandi Gerðahreppur og Keflavíkurhreppur. Í þeim síðarnefnda voru núverandi Keflavíkurkaupstaður og Njarðvíkurhreppur. Þannig voru Keflavík og Njarðvík sameiginlegt hreppsfélag frá árinu 1908 8) eða þar til Njarðvíkingar óskuðu eftir að gerast sér hreppsfélag, vegna þess að þeir töldu sig vera mjög afskipta með alla þjónustu og framkvæmdir svæði sínu til handa.
Samningur um skilnað Keflavíkur og Njarðvíkur var gerður 25. október 1941.9)
Njarðvíkur urðu því fyrst sérstakt sveitarfélag með lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1942.
Landaskil Njarðvíkur og Keflavíkur voru fyrst þar, sem Tjarnargata er nú í Keflavík, en er samningur var gerður um skipti byggðarlaganna voru þau ákveðin um lóð Fiskiðjunnar hf. þannig, að mjölskemma Fiskiðjunnar stendur nú að hálfu í Keflavík og að hálfu í Njarðvík.
Keflavík hlaut kaupstaðaréttindi 1. apríl 1949. Lögsagnarumdæmi Keflavíkur var stækkað með lögum frá 4. maí 1966. Með þeirri stækkun rúmlega þrefaldaðist lögsagnarumdæmið að flatarmáli. Þeir 415 ha, sem Keflavík stækkaði um, eru að mestu land, sem hefur verið skilið frá Gerðahreppi.
Nokkuð er sagt frá Eyvindi fóstra Steinunnar gömlu í Landnámu, en Evindi fóstra sínum gaf Steinunn hin gamla land á millum Hvassahrauns og Kvígubjargarvogum.
Landnám Evindar, er hann hlaut að gjöf frá Steinunni fóstru sinni, hlaut nafnið Vatnsleysuströnd. Landnám hans er nú óbreytt sem Vatnsleysustrandarhreppur.
Molda-Gnúpssynir, þeir Hafur-Björn, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi, námu Grindavík. Landnám þeirra bræðra er enn óbreytt sem Grindavíkurhreppur10.)
Herjólfur, frændi Ingólfs og fóstbróðir, fékk frá honum að gjöf land milli Reykjaness og Vogs og svarar það nákvæmlega til núverandi Hafnarhrepps. 10)”
Eyþór Þórðarson.
Neðanmálsheimildir:
1. Landnám I—III 1900 bls. 123 og Þórðarbók 1921, bls. 28.
2. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 266.
3. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 280.
4. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 278.
5. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 279.
6. Strönd og Vogar 1961 bls. 48.
7. Undir Garðskagavita bls. 218.
8. Faxi 1963 bls. 211.
9. Faxi Desember 1941,
10. Landnám Ingólfs II. 1. 1936 bls. 14.
Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 1. tbl., bls. 5-7.