Færslur

Vogar

Í Wikipedia koma fram eftirfarandi upplýsingar um “Suðurnes” á Reykjanesskaga:

Suðurnes

Suðurnes – kort.

“Suðurnes er samheiti þeirra byggðarlaga sem eru á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, eða sunnan Straums eins og Suðurnesjamenn segja oft. Þessi byggðarlög eru Vogar í samnefndu sveitarfélagi á Vatnsleysuströnd, Reykjanesbær (sem var myndaður 1994 úr Innri- og Ytri Njarðvík, Keflavík og Höfnum en sameining var felld í öðrum byggðarlögum), Suðurnesjabær (sem myndaður var 2018 úr Garði og Sandgerði) og Grindavík. Á þessu svæði er landnám Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs, en henni gaf hann Rosmhvalanes allt sunnan Hvassahrauns, eins og Landnáma kemst að orði. Einnig landnám Molda-Gnúps, sem nam Grindavík. Annars er frásögn Landnámu um þetta svæði mjög óljós.”

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Á Vísindavefnum segir um “Suðurnes” þegar spurt var; “Er Reykjanes það sama og Suðurnes?”:
“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Á eftir skrá um hvalskipti Rosmhvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.
Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann:

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903; Rosmhvalanes.

Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga og þaðan alla leið til Krýsuvíkur. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var “hællinn” á skaganum en það síðarnefnda “táin”, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.”

Málið er að Suðurnes voru jafnan talin vera byggðalögin vestan Hafnarfjarðar á norðanverðum og vestanverðum Reykjanesskaganum. Grindavík á sunnanverðum Skaganum var aldrei talið til “Suðurnesja”.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Su%C3%B0urnes
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Hafnir

Hafnir.

Fagradalsfjall

Á Vísindavef Hákóla Íslands má lesa eftirfarandi svar Svavars Sigmundssonar, fyrrv. forstöðumanns Örnefnastofnunar um “Er Reykjanes sama og Suðurnes?”:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
“Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.”
Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
“Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu”.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Frá Suðurnesjum

Frásagnir frá liðinni tíð. Þessi bók fjallar að mestu um útgerð og sjósókn og ýmislegt þessu tengt frá Suðurnesjasvæðinu.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi.”

Áttir á Suðurnesjum voru jafnan tvær fyrrum; út (norður) og inn (suður). Þannig eru t.d. tilkomin örnefnin Út-Garður og Inn-Garður, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.

Heimildir:
Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.

Heimild:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanesskagi

Fagradalsfjall verður seint talið á Reykjanesi – hvað þá á Suðurnesjum.

Skagagarður

Í skýrslu Samvinnunefndar um skipulagsmál á Suðurnesjum og gefin var út árið 1989 koma fram margir áhugaverðir punktar um náttúruminjar, menningarminjar og útivist. Þessir eru helstir:

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

1. Mosaþemban (gamburmosi) er einkennisgróður á Suðurnesjum.
2. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Má með sanni segja að gamburmosi sé einkennispnanta Reykjanesskaga.
3. Um aldir hefur svæðið verið ofnýtt af mönnum og skepnum, þar sem sauðfé nagaði stráin, en mannfólkið hjó kjarrið og reif lyngið til eldiviðar meðan eitthvað var eftir í þessu mýrarlausa og þá um leið mólausa landi. Sandfok tók einnig stóran toll af gróðrinum. Búseta manna hefur því haft mjög mikil áhrif á gróðurfarið og því miður hafa þau áhrif í flestum tilvikum verið til hins verra hingað til.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

4. Skilningur íbúa á friðun lands hefur verið að aukast.
5. Á áratug má sjá árangur friðunnar vestan svonefndrar Grindvíkurgirðingar, en það hefur verið friðað fyrir beit þann tíma.
6. Kjarrlendi á í vök að verjast bæði vegna uppblásturs og beitar, sem er alls staðar nema innan skógræktargirðingar.
7. Um Reykjanessfólkvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins.

8. Mosaþemba er útbreiddasta gróðurlendið. Henni er skipt í fernt: 1. Í einföldustu mynd, 2. með lyngi, 3. með lyngi og kjarri, 4. og með grasi.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

9. Reykjanesskagi er ákaflega eldbrunninn og eru sprungur og gígaraðir algengar. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum sem runnið hafa eftir að jöklar síðasta jökulsskeiðs hopuðu. Á Reykjanesi munu jöklar hafa horfið fyrir um 12-13 þúsund árum, nokkru fyrr en víðast annars staðar á landinu.
10. Á Suðvesturhorninu er áhugi fólks á útiveru og náttúruskoðun mikill. Reykjanesskaginn er eins og stór sýningarsalur fyrir það afl sem skapar Ísland, þ.e. eldvirkni.

Hrútagjárdyngja

Í Hrútagjárdyngju.

11. Mikill hluti Reykjanesskagans er þakinn nútímahraunum. Þeim má skipta í tvo flokka eftir uppruna þeirra og útliti. Annars vegar eru hraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum (apalhraun). Hins vegar eru hraun sem runnið hafa frá svonefndum dyngjum (helluhraun).
12. Utanverður Reykjanesskagi einkennist af þremur stórum dyngjum; Sandfellshæð, Þráinsskyldi og Hrútargjárdyngju.
13. Nokkrar minni dyngjur eru á Reykjanesi og eru þær flestar svonefndar “píkrit” dyngjur, s.s. Skálafell, Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Hraunssels-Vatnsfell.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.

14. Hraun á sögulegum tíma eru t.d.; Stampahraun (1226), Tjaldstaðagjá (1226), Klofningshraun (1226), Eldvarpahraun (1226), Illahraun (1226), Arnarseturshraun (1226), Afstapahraun (runnið skömmu eftir landnám), Ögmundarhraun (1151), Hraun vestan Mávahlíða (1151 eða síðar), Kapelluhraun (1151), Flatahraun (Hvaleyrarholtshraun) (1000), nokkur hraun í Brennisteinsfjöllum (runnin eftir landnám og einhver á fjórtándu öld), nokkur hraun í Heiðmörk (runnin eftir landnám).
15. Auk þess hefir oft gosið á sögulegum tíma í sjó undan Reykjanesi og munu flest þau gos hafa verið í grennd við Eldey.
16. Dæmi um menningarminjar eru; Drykkjarsteinn, selsrústir, varir og uppsátur, Skagagarður og gamlar þjóðleiðir.
17. Síðasta stóra goshrinan á Reykjanesi var um landnám opg önnur fyrir um 2500 árum.
18. Grindavík er reist á hrauni sem rann fyrir 2000-2500 árum frá Sundhnúkagígum.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

19. Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari, og fer það saman við bergmyndun hans; móbergssvæði, grágrýtissvæði og mójarðveg á Miðnesheiði.
20. Gildi útivistar- og íþróttasvæða hefur aukist mikið hin síðar ár.
21. Einn mikilvægasti þáttur í skipulagi útivistar eru göngur og útivera.
22. Fá svæði á landinu eru auðugri að menningarminjum. Sumir vitna um forna atvinnuhætti, t.d. gamlar verstöðvar og seljarústir. Tilvalið væri að skipuleggja útivist og ferðamál með tilliti til þessa. Þeirra á meðal eru gömlu þjóðleiðirnar, en á svæðinu eru margar leiðir og bera flestar nafn. Sums staðar vitna hófklöppuð för í hraunklappir um það hversu fjölfarnar þær voru. Nauðsynlegt er að þeim verði haldið við og varðaðar upp.
23. Nauðsynlegt er að opna útivistarsvæði fyrir allan almenning.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Hvassahraun

Magnús Jónsson, bókavörður, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1966. Þar fjallar hann um leiðina fyrrum milli Hafnarfjarðar áleiðis út á Suðurnes. Greinin endar við Gvendarbrunn. Framhaldsgrein skrifaði hann svo í sama blað árið 1968. Sú grein lýsir leiðinni áfram að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hér verður drepið niður í þessar greinar:

Magnús

“Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnngt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.
Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötun af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá.
Þegar halda skyldi t.d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús – nánast þar sem nú er Strandgata 21 – var æði stutt bilið milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfell möl, allt að Hamrinum syðri. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallan í átt til sjávar. Fljótlega hallaði undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.
Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í HafnarfjörðurHafnarfjarðarhrauni. Er m.a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna.
Nokkurn veginn sézt hvar lestarvegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel.
Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, – lá þar upp fyrir hann.
Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum.
LónakotEnn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku.
Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn – reiðgötuna, – nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti – steypi – er fáa metra neðan við.
Í Hraunum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður.
Er nú Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýskubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfi vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m.a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.
KúagerðiEfst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við erum nú komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði er rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga. Hér hefur Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftri að hafa vígt vatnslind þessa, öld[n]um og óbornum til blessunar.”
Gamla gatanHér lauk fyrri greininni og sú seinni tók við:
“Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.”
Í Lónakoti var búið langt fram á þessa öld, og áður var þar oft tvíbýli. Þá hefur verið treyst á sjófangið.
Nú mun Lónakot vera í Hafnarfjarðarlandi, en ekki í Garðahreppi. Við komum því úr Hafnarfjarðarlandi í Vatnsleysustrandarhrepp, um leið og farið er úr Lónakotslandi í Hvassahraunsland.
Ekki er nærri strax úr Almenningi komið, þó að Hafnarfjarðarland sé kvatt. Akvegirnir liggja samhliða hægra megin við ávala klettabungu sem Skyggnir heitir, og þar tekur við aflíðandi halli niður að býlinu Hvassahrauni. Þar var jafnan fleirbýli áður fyrr, og  byggð hélzt þar lengur en í Lónakoti. Það hefur líka þann mikla kost að vera alveg við akveginn. En einn ókostanna er sá, að túnið er á hinu ójafna hrauni, og því seinunnið.
Nú mun enginn búskapur vera í Hvassahrauni, en margir sumarbústaðir eru í grendinni.
Fáir leggja leið sína 20-30 mínútna gang þvert úr þjóðleið hér, upp í hraun og heiðardrög. Þar er grænn gróðurblettur, ekki ósvipaður þeim við Gvendarbrunn. En ær renna ekki lengur á stöðul á björtum vorkvöldum, né að fjármaðurinn flytji daglega saðsaman mólkurmat úr selinu.
Selráðskonuna hittum við ekki. Já, selráðskonuna, oft heimasætuna ungu, hverrar húsmæðraskóli seljalífið var, fyrir önn ævidagsins. Sú síðasta, sem þennan starfa hafði í Hvassahrauni, mun þó hafa lifað fram á þriðja tug þessarar aldar, Ingibjörg Pálsdóttir. Hún og síðan dóttir hennar, bjuggu í Hvassahrauni allan sinn búskap.

Hvassahraun

En við skulum aftur halda að þjóðleiðinni til Suðurnesja. Áður, eða svo að segja um leið og Almenningnum sleppir, erum við í Látrunum. Það eru grasgeirar sem eru undir sjó um stórstraum og fyrir vit okkar ber lykt af rotnandi þara. Loks erum við komin út úr Almenningum og tekur þá við á stuttum kafla hraun, sem Afstapahraun heitir. Það minnir mikið á Kapelluhraun, mosagróið, úfið og ungt, af hrauni að vera. Reyndar er til lítils að benda ökumanni um Keflavíkurveginn  á líka gerð þessara hrauna, eftir þá breytingu sem hefur átt sér stað í því síðarnefnda.

Leiði

Elzta veginn er auðvelt að sjá í Afstapahrauni, hlykkjóttan, grasi gróinn umhverfis. Sunnan til á leiðinni um Afstapahraun er Kúagerði – tærar ferskvatnsvætlur með gróðri umhverfis. Breitt belti þessa gróðurreits er þó horfið undir veginn. Sunnar – svo að málvenjan um áttir á þessum slóðum sé haldið – er Akurgerði. Það eru þyrrkingslegar grasflatir, takmarkaðar að norðan af allháum sjávarkambi. Líta má á Hraunsnesið sem lágan arma þríhyrning, þar sem annað grunnhornið er Straumsvík, en hitt hér.
Í Akurgerði var einu sinni býli, en löngu var það fyrir tíð þeirra sem nú lifa. Ekki er heldur á margra vitorði að þarna voru sýndar einskonar heræfingar. Stjórnandinn var aðfluttur frá Vestmannaeyjum, en þar var eitthvað í áttina við hervarnir, allt frá því eftir Tyrkjaránið. Þetta mun hafa verið á áttunda tug aldarinnar sem leið.
Þegar Starndarheiði tekur við vandast málið, því þars kilja leiðir. Þær eldri liggja með byggðum og allnærri sjó, en sem kunnugt er var steypti vegurinn lagður beinna og þar af leiðandi fjær minnkandi byggð Vatnsleysustrandar.

Kálfatjörn

Nokkuð mun vera á reiki hvað telzt vera hin eiginlega Vatnsleysuströnd. Það mun aðeins að réttu lagi vera sá hluti hreppsbyggðarinnar þar sem túnin eru að mestu samfelld, þ.e. frá Litlabæ að Halakoti. Minnst hefur verið á býlið Hvassahraun hér nær, og áður en að samfelldum túnum kemur eru býlin Stóra- og Minni-Vatnsleysa. Enn standa hús í Flekkuvík, en hún er í eyði.
Nokkur þurrabúðarkot voru þatna hér og hvar, m.a. við túnjaðarinn á Stóru-Vatnsleysu.
Farið er framhjá afleggjaranum að Flekkuvík og þegar byggð Vatnsleysustrandar blasir við af hæðadrögunum nokkru sunnar, virðist vitinn vera uppi á kirkjuturninum.
Við skulum ljúka þessu með því að fara inn í kirkjuna og taka okkur sæti á einum bekknum. Hann er nýr, en málning kirkjunnar að innan – marmaraeftirlíking – þykir svo vel af hendi leyst, að þótt þörf umbóta sé orðin brýn, veigra menn sér við því enn, eftir 75 ár.” 

Heimildir:
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1966, bls. 21.
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1968, bls. 5-6.

Ferðalög

Sandgerðishöfn

Í FAXA árið 1964 ritaði Gils Guðmundsson eftirfarandi lýsingu undir fyrirsögninni “Suður með sjó”:
Gils“Skemmtilegur og athyglisverður greinarflokkur um byggðir Suðurnesja, eftir Gils Guðmundsson rithöfund, birtist í vikublaðinu „Frjáls þjóð” nú á síðast liðnu sumri. — Þar sem greinarflokkur þessi var hinn fróðlegasti, fór ég þess á leit við höfundinn, að hann leyfði birtingu greinarinnar hér í blaðinu. Varð hann góðfúslega við þeim tilmælum og kann ég honum beztu þakkir fyrir.
Að þessu sinni er förinni heitið um Reykjanesskaga. — Reykvíkingur, sem skreppur í bíl suður með sjó, til Keflavíkur eða Sandgerðis, sér að jafnaði eitthvert brot af því mannlífi, sem þar er lifað í dag, en minnist þess sjaldan, að Reykjanesskaginn á sér sína sögu. Og þó að minjar fornrar mannvistar á Reykjanesi blasi ekki hvarvetna við augum ferðamannsins, sem þýtur í bíl um þjóðveginn, má víða finna þær á þessum slóðum, ef rólega er farið yfir og eftir leitað. Í dag er ætlunin að ferðast um Reykjanes án asa og í stuttum áföngum, og gefa einkum gaum landslagi og sögu.
(Hér er sleppt úr nokkrum þáttum, sem fjalla um Kópavog, Álftanes og Hafnarfjörð).
Á Hvaleyrarholti sunnan Hafnarfjarðar er ástæða til að staldra við, þar eð nú opnast nýtt útsýni upp til fjalla og út eftir Reykjanesskaga. Fjöllin, sem mest ber á, eru Lönguhlíð og Sveifluháls með tindunum: Hellutindum, Stapatindum og Miðdegishnúk. Lengra til vesturs sjást Dyngjur og enn vestar Keilir. Láglendið allt, frá fjöllunum niður að flóanum, svo langt út eftir sem augað eygir, er ein samfelld hraunbreiða. Flestum mun þykja það við fyrstu sýn næsta fábreytilegt landslag og nöturlegt. En við nánari kynni af þessum hraunum kemur í ljós, að þau hafa sína tilbreytni, sín sérkenni, sína fegurð. Litbrigði eru þar mikil eftir birtu, gerð hraunanna og gróðri. Mosagrónu hraunin eru ljósgrá í þurrki, en gulgræn í vætu. Í gömlu hraununum er víða töluverður gróður, gras, lyng og birkikjarr, enda eru þar góðir sauðfjárhagar og skjól.

Hraunin
Kapella-222Við höldum nú niður af Hvaleyrarholti á leið okkar „suður með sjó”. Fyrr en varir erum við komin inn í hraunin, fáa metra yfir sjó. Fyrsti hraunflákinn heitir Hvaleyrarhraun. Það hraun er gamalt, flatt og hellótt, með kötlum víða og allmiklum burknagróðri. Þá tekur við Kapelluhraun, miklu yngra en hitt, úfið mjög og illt yfirferðar, ef farið er út af þjóðvegi. Nafnið dregur það af gamalli grjótdys í miðju hrauni, svonefndri „kapellu”. — Segja munnmæli, að þar hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Eftir nokkra stund er komið út úr Kapelluhrauni og farið framhjá Straumi, einum hinna svonefndu Hraunabæja. Þá tekur við víðáttumikið, gamalt og gróið hraun, er Almenningur heitir. Ber það nafn af því, að það er beitiland Hraunamanna, og mun vera gott sauðland. Þessu næst tekur við ungt apalhraun, Afstapahraunið. Í vesturjaðri þess er graslaut með smátjörn í, fast við veginn. Heitir þar Kúagerð, og var áningarstaður hestamanna, því að þarna var eini staðurinn milli Hafnarfjarðar og Voga þar sem hestar náðu til vatns.

Dyngjurnar

Trölladyngja

Trölladyngja og Spákonuvatn.

Nú komum við í Vatnsleysuhverfi. Síðan má heita samfelld byggð suður Vatnsleysuströndina. — Bæirnir standa í hverfum, Kálfatjarnarhverfi, kennt við kirkjustaðinn Kálfatjörn, Ásláksstaðahverfi og Brunnastaðahverfi. Frá Vatnsleysu ber mikið á Trölladyngjum og Keili, enda eru aðeins 8 km upp að honum og 10—12 km að dyngjunum. Þar sem við erum ekki á hraðferð í þetta sinn, er vel þess virði að gera dálitla lykkju á leið sína og halda upp að Trölladyngj um. Þangað er nú kominn akfær vegur. Þar eru gosstöðvar miklar og merkilegar, enda geta fornir annálar þess oft, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum. Um miðjan Reykjanesskaga liggja samhliða tveir langir og brattir hálsar, sem heita einu nafni Móhálsar. Austurhálsinn er nú jafnan kallaður Sveifluháls. Sunnanvert við hann er Kleifarvatn. Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi. Hann er víða grösugur, og þar eru margar tjarnir og lækir, en slíkt er næsta fátítt á Reykjanesskaga. Upprunalega mun þessi háls hafa heitið einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö fjöll, Trölladyngja og Grænadyngja (tæpir 400 m). 

Nupshlidarhals-222

Trölladyngja er hvass tindur, blasir hún við í suðri frá Reykjavík. Grænadyngja er hins vegar kollótt, þótt öllu hærri sé. Þarna er jarðhiti mikill, hverir margir og gufur leggur víða upp úr hrauninu. Auðvelt er að ganga á Grænudyngju. Þaðan er hið bezta útsýni. Reykjanesskaginn blasir að heita má allur við og má glögglega sjá hér upptök hinna mörgu og misgömlu hraunflóða, hvernig þau hafa ruðzt fram, hvert á annað ofan. Þaðan sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda. Norður úr Trölladyngiu gengur rani allmikill. Þaðan hafa mestu gosin komið. Vestan í rana þessum er röð af miklum eldgígum, og eru tveir þeir syðstu stórkostlegir. Hér er stórbrotið landslag og einkennilegt. Óvíða munu jafnmargir gígar á tiltölulega litlu svæði sem hér, og þó mikill gróður víða í grennd. Er það vissulega þess virði að gefa sér góðan tíma til að skoða sig hér um. En varlega ættu menn að fara í nánd við gígana, því að limlesting eða bani er hverjum þeim búinn, sem í þá fellur. Í hraununum á Reykjanesskaga eru fylgsni mörg, en óvíða þó fleiri og betri en hér. Ýmsar sagnir eru um, að menn hafi freistað þess að leggjast út á þessum slóðum, en fáir eða engir munu hafa átt hér langa dvöl. Einna greinilegastar eru heimildir um þrjá náunga austan úr sveitum, sem leituðu hælis í Reykjanesfjöllum í byrjun 18. aldar. Hétu tveir þeirra Jónar, en hinn þriðji var unglingspiltur, Gísli að nafni. Höfðu þeir áður verið á flækingi og stolið víða á bæjum, síðast í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Meðan þeir höfðust við þarna á fjallgarðinum stálu þeir sauðum og rændu einn ferðamann. Söfnuðu þá bændur á Vatnsieysuströnd liði, handtóku útilegumennina og færðu til Bessastaða. Þaðan voru þeir fluttir til Alþingis á Þingvöllum og dæmdir. Jónarnir voru báðir hengdir, en Gísla hlíft við bana fyrir æsku sakir. En dæmdur var hann til húðstrýkingar, er svo skyldi fastlega á lögð, að næst gengi lífi hans.

Kvíguvogar
Storu-vogar-222Eftir að við höfum svipazt um á þessum mikilúðlegu slóðum trölla og útilegumanna, höldum við sömu leið til baka, niður á þjóðveginn hjá Vatnsleysu. Er nú farið í suðvesturátt. Næsti áfangastaður er Vogar, sem að fornu nefndust Kvíguvogar. Þar er dálítið þorp og útgerð nokkur, enda allgóð höfn. Héðan var mikil útgerð á tímum áraskipanna. Hér bjó á 17. öld Einar Oddsson lögréttumaður, stórbokki mikill og ríkisbubbi. Um hann orti Hallgrímur Pétursson:

Fiskurinn hefur þig feitan gert,
sem færður er upp með trogum,
en þóttú digur um svírann sért,
samt ertu Einar í Vogum.

„Bezta og skemmtilegasta útræðið á öllu landinu var undir Vogastapa”, segir sjósóknarinn Ágúst Guðmundsson í Halakoti í endurminningum sínum. Hér er að vísu fast að orði kveðið, því að víða var gott til útræðis og stutt á mið, meðan fiskur gekk upp í landsteina. En fiskimiðin undir Vogastapa voru landsfræg, hlutu snemma nafnið „Gullkistan”, því að löngum þóttu þau bera af flestum öðrum miðum. Menn brutu að vonum um það heilann, hvers vegna þorskurinn gekk svo mjög á þetta litla svæði og hélt þar oft kyrru fyrir langtímum saman uppi við landsteina. Og skýringuna töldu þeir sig finna. Svo segir í ferðabók Eggerts og Bjarna: „Það er algeng sögn, að undir skagann liggi göng, og sérstaklega séu víð göngin milli Grinndavíkur og Vogastapa, og á fiskurinn að ganga í gegnum þau. Það er víst, að þegar þorskurinn gengur austan með suðurströndinni og sjómennirnir fylgjast með, hversu hratt göngunni miðar milli verstöðvanna, þá er hann ekki fyrr kominn til Grindavíkur en hans verður vart undir Vogastapa, og þó er leiðin þar á milli 13 mílur, er farið er fyrir Reykjanes, og einskis fisks verður vart í verstöðvunum milli Grindavíkur og Vogastapa.” Það er enn gömul sögn, sem á að sanna þessa sögu um undirgöngin, að einhverju sinni misstu Grindvíkingar stóra lúðu með merktum öngli, en morguninn eftir veiddist hún undir Vogastapa. Það var og haft fyrir satt, að tveir þorskar, rígastórir, héldu vörð um göngin, sinn við hvorn enda. Ekki eru nútímamenn trúaðir á þessi fiskagöng. En oft veiðist enn vel undir Vogastapa.

Vogastapi
Stapinn-222Vogastapi er um 80 metra hár. Hann skagar í sjó fram sunnan við Vogana. Framan í honum eru þverhnípt björg, og hétu þau Kvíguvogabjörg að fornu. Þar verpir nokkuð af sjófugli. Leiðin lá áður yfir Stapann, þar sem heitir Reiðskarð, en akvegurinn er á öðrum stað. Efst á Stapanum er hóll lítill, sem Grímshóll nefnist. Kemur hann allmikið við þjóðsögur. Segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að þar hafi ungur vermaður, Grímur að nafni, komið að bæ huldumanns, sem bauð honum að róa með sér á vetrarvertíð. Lét Grímur til leiðast. Réru þeir jafnan tveir á báti og öfluðu vel, höfðu um lokin fengið 10 hundruð til hlutar. Réri Grímur þarna margar vertíðir og líkaði vel vistin. Tókust ástir með Grími og dóttur bónda, svo að hann sótti að lokum reitur sínar, hélt með þær sem leið liggur suður á Vogastapa og sást ekki í mannabyggð upp frá því. Er talið, að bær huldumannsins sé hóllinn efst á Stapanum, sem upp frá þessu nefndist Grímshóll.
Mjög hefur þótt villugjarnt og slysahætt á Vogastapa í myrkri og vondum veðrum. Villugjarnast var þó talið hjá Grímshól, og höfðu menn fyrir satt að hólbúar villtu um fyrir mönnum. Er þess oft getið í annálum og öðrum frásögnum, einkum frá 19. öld, að menn yrðu úti á Vogastapa eða hröpuðu þar fram af björgunum. Þótti þar löngum mjög reimt. Hafa sögur um reimleika á þessum stað verið að myndast allt fram á þennan dag, eftir að bifreiðar urðu algengust farartæki. Hafa nokkrar þeirra sagna þegar verið skráðar, en einhverjar munu óskráðar enn.

Njarðvíkur og Keflavík
Njardvik-222Frá Stapa er skammt út í Njarðvíkur. Í Innri-Njarðvík bjuggu löngum gildir bændur. Urðu sumir þeirra auðugir, enda var gott við útgerð að fást þarna úr víkinni. Þar fæddist í lok 17. aldar Jón Þorkelsson Skálholtsrektor, sá er gaf allar eigur sínar, er voru miklar, í sjóð til uppfræðingar fátækum og munaðarlausum börnum í Kjalarnesþingi. Tæpri öld síðar fæddist þar skáldið og málfræðingurinn Sveinbjörn Egilsson. Í seinni tíð hefur Ytri-Njarðvík tekið miklum vexti. Má heita, að þaðan sé orðin samfelld byggð út í Keflavík, hinn forna og nýja aðalkaupstað Suðurnesja. — Með byggingu hinnar fyrirhuguðu landshafnar í Njarðvík má gera ráð fyrir að byggð á þessu svæði fari mjög vaxandi. Keflavík stendur á melum við samnefnda vík milli Vatnsness og Hólabergs. Umhverfið er hrjóstugt og ekki svipmikið, en útsýni þaðan inn yfir Faxaflóa er einkar fagurt í góðu veðri. Í Keflavík er ein þeirra stílhreinu og fallegu kirkna, sem fyrsti arkítekt okkar Íslending, Rögnvaldur Ólafsson, teiknaði.
Keflavík kemur allmikið við sögu á 16. öld, er Hamborgarar verzluðu hér. Stóð verzlunarhús þeirra í Keflavík á hólma nokkrum skammt undan landi, en seinna var það flutt á land upp. — Á síðari árum hefur Keflavík tekið miklum vexti og er nú stærsti útgerðarbær á Suðurnesjum. Í blaðinu Faxa hefur frú Marta Valgerður Jónsdóttir birt marga fróðlega þætti úr sögu Keflavíkur, einkum frá 19. og öndverðri 20. öld.

Garðurinn
Gardur-222Úr Keflavík liggur leiðin út í Garð. Í Garðinum hafa löngum búið sjósóknarar miklir og dugandi athafnamenn. Garðsjór var annálaður fyrir veiðisæld, einkum fram að þeim tíma, er togvciðar hóftist fyrir alvöru. Auk heimabáta gengu fjölmargir aðkomubátar úr Garðinum, einkum á haustvertíðum. Er frá því skýrt í Suðurnesjaannál, að dag nokkurn haustið 1879 hefðu verið talin 400 áraskip að veiðum í Garðs- og Leirusjó. Yzt á Garðskaga, utan við býlið Hof, stendur Garðskagaviti á lágti og mjóu nesi sandorpnu. Er þar sérkennilegt um að litast og því líkast, sem maður sé kominn á haf út. Í fjarska blasir við Snæfellsnesfjallgarður. Svipmikill og tignarlegur jökullinn nýtur sín einkar vel héðan í heiðskíru veðri.

Kirkjuból í Miðnesi
Þessu næst liggur leiðin frá prestssetrinu Útskálum suður á Miðnes. Brátt erum við komin í Kirkj ubólshverfi. Þar er hið forna höfuðból, Kirkjuból á Miðnesi. Árið 1433 var Ívar Hólmur, sonur Vigfúsar Hólms hirðstjóra, brenndur þar inni af sveinum Jóns biskpus Gerrekssonar. — Herma sagnir, að Magnús nokkur, fyrirliði biskupssveina, cr talinn var launsonur Jóns biskups, hafi beðið sér til handa Kirkjubol-222Margrétar Vigfúsdóttur Hólm, systur ívars, en fengið synjun.
Til hefnda hélt hann með liðsafla suður að Kirkjubóli, skaut Ívar Hólm til bana, lagði síðan eld í bæinn og brenndi hann til ösku. Margrét komst úr eldinum, reið norður í Eyjafjörð og gekk að eiga Þorvald Loftsson frá Möðruvöllum, er skömmu síðar stóð ásamt Teiti Gunnlaugssyni í Bjarnarnesi fyrir aðförinni að Jóni biskupi Gerrekssyni og mönnum hans. Rúmri öld síðar, árið 1551, kom Kirkjuból aftur allmjög við sögu, er Kristján skrifari, banamaður Jóns Arasonar, var þar staddur á yfirreið. Þangað komu Norðlendingar, er leituðu hefnda eftir Jón Arason, drápu Kristján skrifara, 7 eða 8 fylgdarmenn hans danska og Jón Ólafsson böðul, þann er hjó Jón biskup og syni hans. „Voru þeir dysjaðir fyrir norðan garð.”
Næsti bær við Kirkjuból eru Hafurbjarnarstaðir. Árið 1868 fundust þar, skammt norður af bænum, dysjar allmargar, beinagrindur, vopn og ýmsir fleiri gripir. — Hugðu sumir, að hér væru fundin bein Kristjáns skrifara og manna hans, en Sigurður Guðmundsson málari sá þegar, að þetta voru kuml úr heiðnum sið. Kom hann fram með þá tilgátu, að í stærsta kumlinu, þar sem m. a. fannst sverð fagurbúið, er verið hafði hin mesta gersemi, hefði verið grafinn Hafurbjörn Molda-Gnúpsson landnámsmaður, þess er nam Grindavík. Löngu síðar, 1947, rannsökuðu þeir Kristján Eldjárn og Jón Steffensen kuml þessi vísindalega og komust að þeirri niðurstöðu, að þau væru úr heiðni, naumast yngri en frá miðri 10. öld. Þykir þetta einn merkasti fornleifafundur á Íslandi. Geta menn fræðst um hann nánar í Þjóðminjasafni og Árbók fornleifafélagsins 1943-8, bls. 108—128.

Sandgerði
Sandgerdi-222Næsti viðkomustaður okkar er Sandgerði, en þar hefur á síðari árum risið allstórt og myndarlegt kauptún, enda bækistöð mikils vélbátaflota og einn af stærstu útgerðarstöðum við Faxaflóa. Búa þar nú um 1000 manns.
Jörðin Sandgerði er snemma nefnd í skjölum. Gömul munnmæli herma, að hún hafi upphaflega heitið Sáðgerði, af því að þar hafi legið kornakrar Gullbringu, sem sýslan er við kennd. Á hún að hafa gefið þræl sínum, Upsa, jörð þá er hann nefndi Uppsali. Uppsalir voru skammt ofan við Sandgerði, 20 hundruð að fornu mati, en Sandgerði 60 hundruð. Líklegt má þó telja, að sagan um þrælinn Upsa sé alþýðleg skýringartilraun á bæjarnafninu Uppsalir. — Jarðarheitið Sáðgerði kemur hvergi fyrir í skjölum, og er það að líkindum tilbúningur síðari tíma. Hitt er efalaust, að Sandgerði hefur fyrr á öldum verið landbetra og frjósamara en síðar varð. Votta heimildir, að áður á tímum hafi verið svo hátt stargresi milli Sandgerðis og Bæjarskerja, að fénaður sást ekki, er hann var þar á beit. Síðar blés þetta svæði upp og á það gekk sjór, svo að þar urðu mest berar klappir eftir eða gróðurlítill foksandur. Séra Magnús Grímsson, sem kannaði um miðja 19. öld fornminjar á Reykjanesskaga og ritaði um þær, kemst svo að orði um Sandgerði: „Suður af Flankastöðum við sjóinn eigi langt er bær, sem nú er kallaður Sandgerði, en hét áður Sáðgerði. Þar eru tún fögur og allslétt. Mikið af túni þessu hefur í fyrndinni verið akrar, og sést þar glöggt fyrir skurðum, sem hafa skipt ökrunum í breiðar og langar reinar. Tjörn ein er fyrir norðan bæinn, og sér til skurðar úr henni niður á akurinn. Hefur þar mátt hleypa vatni úr í allar rásirnar og af eða á akurinn eftir geðþekkni.”
BaejarskerÍ Sandgerði er lending tiltölulega góð. Var þar á áraskipatímum talið eitt hið bezta og tryggasta sund fyrir sunnan Skaga. Það heitir Hamarsund. Sundið er fremur mjótt og blindsker á báða vegu, en sé rétt farið er það hættulaust í öllu skaplegu. Sandgerðishöfn myndast af Bæjarskerseyri, sem Hggur bogadregin fyrir sunnan og vestan Sandgerðisvík, um eina sjómílu út. Á eyri þessari brotnar brimáldan, og er fyrir innan hana tiltölulega örugg höfn fyrir tugi vélbáta. Frá Sandgerði er tiltölulega stutt á fiskimið, enda er hér einhver aflasælasta verstöð landsins. Með auknum hafnarbótum og bættri aðstöðu fiskibáta til að athafna sig við bryggjur, má telja víst að útgerðarstaður þessi eigi enn eftir að taka miklum vexti.
Frá Sandgerði liggur leiðin út í Bæjaskerjahverfi um sléttar flatir, er nefnast Lönd. Neðri hluti Landanna hefur eyðzt mjög af sjávargangi og uppblæstri. Fyrir allmörgum árum var girt fyrir Löndin skammt ofan við sjávarmál. Er þar nú að gróa upp hið fallegasta landsvæði. Þar hafa á síðari árum risið margar og myndarlegar byggingar þeirra Sandgerðinga.
Frá Bæjarskerjum er haldið út í Fuglavíkurhverfi. Á þeirri leið er bærinn Melaberg, sem mjög kemur við hina mögnuðu þjóðsögu um illhvelið Rauðhöfða, svo sem lesa má í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er og í munnmælum, að í fyrndinni hafi Melaberg verið stórbýli með 50 hurðum á járnum, sumir segja 80 eða 100. Ekki eru sagnir þessar sennilegar. Segir og í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, að Melaberg sé eyðijörð, hafi legið í auðn yfir hundrað ár, enda jörðin „aldeilis yfirfallin af sandi og grjóti”. Það er auðsætt, að landbrot hefur orðið ákaflegt þarna, svo að vafalaust hefur áður fyrr verið þar land miklu meira. Á síðari árum hefur Melaberg aftur komizt í byggð. Er það nú snoturt býli og vel ræktað. Er það einkum verk Hjartar B. Helgasonar, kaupfélagsstjóra í Sandgerði, sem þar bjó um alllangt skeið myndarbúi.

Hvalsnes
Hvalsnes-222Nú er skammt suður á Hvalsnes, en þar hefur löngum verið allmikil byggð og útræði mikið. Blasir þar við snotur kirkja úr hlöðnum steini, reist 1887. Kirkjudyr horfa beint móti innsiglingu um Hvalsnessund, en þar er brimasamt mjög og lending oft torveld ef eitthvað er að veðri. Liggur sundið fyrir opnu hafi og brimar því oft með skjótri svipan. Er það forn venja að opna dyr Hvalsneskirkju þegar sundið brimar. Var því trúað, að þar færist aldrei bátur fyrir opnum kirkjudyrum. Þegar maður stendur hér við kirkjudyr á Hvalsnesi, reikar hugurinn til Hallgríms Péturssonar og Guðríðar konu hans. Um sjö ára skeið, hin fyrstu eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn, var Hallgrímur embættislaus, og hafði ofan af fyrir sér og sínum við ýmis störf á um. Höfðust þau hjón við í koti einu í Ytri-Njarðvík, en löngum varð Hallgrímur að stunda vinnu utan heimilis. Um skeið var hann púlsmaður hjá dönskum kaupmanni í Keflavík, en hafði þó einkum athvarf á Hvalsnesi, í skjóli bóndans þar. Þaðan stundaði hann sjó, enda kallaði Torfi Erlendsson, sýslumaður á Stafnesi, hann „líðilegan slordóna.” Fyrir þau ummæli og ýmsar fleiri kaldar kveðjur frá valdsmanninum á Stafnesi kvittaði Hallgrímur með þessari óþvegnu skammarvísu:

Áður en dauður drepst úr hor,
drengur á rauðum kjóli,
feginn verður að sleikja slor,
slepjaður húsgangs drjóli.

Mun ýmsum hafa dottið í hug vísan, og þótt áhrínsorð, þegar Torfi var síðar dæmdur frá embætti, æru og eignum. Erfið hafa verið mörg spor Hallgríms á þessum árum. Um það vitnar sú tiltekt Hvalsnes-223góðkunningja hans og helztu hjálparhellu, Gríms Bergssonar í Njarðvík, er hann beitti sér fyrir samskotum, svo að þau Hallgrímur og Guðríður gætu greitt sektargjald fyrir „frillulífisbrot” sitt. Bað Grímur „góða menn á Suðurnesjum að gefa honum einn, tvo eða þrjá fiska eftir því sem Guð blési sérhverjum í brjóst.” Eftir að biskupar höfðu „straffað” Hallgrím í sjö ár fyrir fyrstu barneignina með Guðríði, og sennilega einnig þá þverúð hans, að vilja síðan ólmur stofna til hjúskapar með þessari barnsmóður sinni, sem almenningur taldi heiðna, enda komna úr kvennabúri Hundtyrkjans, veitti Brynjólfur Sveinsson honum loks prestsembættið á Hvalsnesi og vígði hann þangað. Hér var Hallgrímur prestur í sjö ár. Engar sýnilegar menjar munu nú vera lengur um dvöl hans á þessum stað. En þarna í kirkjugarðinum liggja börnin hans grafin, er hann missti flest kornung. Eitt þeirra var þó komið ögn á legg, telpa, er Steinunn hét. Litli steinninn, sem hann reisti yfir moldum hennar, er nú ekki sjáanlegur lengur. En minning litlu telpunnar geymist í tveimur innilegum og ómþýðum erfiljóðum. Eru upphafsstafir hvers erindis í öðru ljóðinu valdir þannig, að úr verða þessi látlausu orð: “Steinunn mín litla hvílist hér”.

Stafnes
Stafnes-224Frá Hvalsnesi er stutt á Stafnes, sem í fornum máldögum er jafnan kallað Starnes. Ekkert vil ég um það fullyrða, hvort nafnið er upprunalegra. En sé Starnes hið forna heiti bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi fyrr á öldum verið starengi. Hafi svo verið, er það nú fyrir löngu horfið í sand og sjó. Getur það staðist, því að jörðin „hefur stórlega af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sand- og sjávarágangi”, segir sr. Sigurður B. Sívertsen í sóknarlýsingu 1839. Á hitt má þó benda, að Stafnes er’ fornt staðarheiti á Fjölum í Noregi.
Stafnes var eitt sinn stórbýli, 143 hundruð að dýrleika, enda talið að þar hafi verið yfir 20 hjáleigur. Getur jarðbókin frá 1703 um 10 hjáleigur byggðar og 12 eyðihjáleigur, sem Stafnesi fylgi, og telur allar upp með nöfnum. Hér var því í rauninni heilt sjávarþorp. Var og á Stafnesi einhver hin stærsta og veiðisælasta verstöð á öllum Suðurnesjum. Þar hafði konungsútgerðin um skeið aðalbækistöð sína. Hólastaður gerði út skip þaðan. Glöggt dæmi þess, hve mikil verstöð Stafnes var á 17. öld, er eftirfarandi frásögn annála um skipstapa þar 1685: Mannskaðaveður. Skipstapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi — Drukknuðu 58 menn… Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útgerðarmenn að norðan og margir valdir menn, þar á meðal Ólafur yfirlestarmaður á Hólum, Þorsteinsson.”
Á 19. öld var enn mikil útgerð frá Stafnesi. Gengu þaðan að jafnaði allmörg stórskip, enda óvíða eða hvergi jafngóð aflabrögð á vetrarvertíð sem þar. Nú er útgerðarsaga Stafness fyrir álllöngu á enda. Fátt er þar legnur, sem minnir á forna athafnasemi og reisn. — Rústir og tóttir eru þar eðlilega margar, en húsin, sem enn standa orðin næsta hrörleg flest.

Básendar
Basendar-222Nú skal haldið að Básendum. Þangað er ekki bílvegur, en leiðin er stult. Básendar liggja skammt sunnan við Stafnes í landi þess. Þar var kaupstaður á einokunartímabilinu og nokkru lengur, svo sem kunnugt er. Básendahöfn þótti jafnan viðsjál, enda er leiðin inn á höfnina löng milli ófrýnilegra skerja. Varð þarna oft skipatjón, einkum þar til járnhlekkir voru greyptir í sker og kletta í fjörunni og skipin „svínbundin” sitt á hvað. Má enn sjá leifar af þeim umbúnaði þegar lágsjávað er. Á malartanga einum þarna rétt hjá eru enn dálitlar rústir, þar sem staðið hafa verzlunar- og bæjarhús á Básendum. Húsum þessum var hætt í stórflóðum, og gekk sjór stundum inn í þau fyrr á öldum, án þess að verulegt tjón hlytist af. En snemma í janúarmánuði 1799 gcrði ofsaveður af í útsuðri og tók þá af hús á Básendum, svo að þar stóð ekkert eftir. Kaupmaðurinn, kona hans, fjögur börn og vinnukona, björguðust með naumindum. Gömul kona, Rannveig Þorgilsdóttir, sem verið hafði þar niðursetningur í nokkur ár, drukknaði í flóðinu.
Basendar-223Síðasti kaupmaður á Básendum hét Hinrik Hansen. Hann ritaði greinargóða lýsingu á atburði þessum, er hann sendi sýslumanni, um leið og hann bað um skoðunargerð á rústunum og fjártjóni sínu. Fer hún hér á eftir, allmikið stytt (þýðinguna gerði Vigfús fræðimaður Guðmundsson, sem ritað hefur ýtarlega um Básendaflóð í Blöndu III. bindi, bls. 46—68).
„Eftir að við öll vorum háttuð, varð ég þess var um nóttina, á að giska kl. 2, hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eftir annan, eins og veggbrjótur væri að vinna á hiið hússins og undirstöðu. Af þessu fór ég á fætur, til þess að líta eftir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk ég upp húsdyrunum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergið á lítilli stundu. Flúðum við því í skyndi upp á húsloftið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við ótttiðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris. Svo vissum við hka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loftinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundu þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Hér um bil kl. 7, að við héldum, treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loftinu. Braut ég því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum. Ég óð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, varningi og búshlutum. Náðum við fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalist þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu.

Basendar-224

Við urðum því að flýja þaðan aftur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkum tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blakaði fram og aftur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagðan kaupstaðinn, leiddumst öll saman áleiðis til byggða. Óðum við svo og skriðum í rokinu, unz við eftir miklar þrautir náðum til næstu hjáleigu, er nefndist Lodda, rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur, sem vorum örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki, með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema þrjú stafgólf á lengd, 2 1/2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp á mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekki lengur níðast á gestrisni hans. Fórum við nú á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslenzku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá, eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum samanhrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var líka. Fólkið úr honum (vinnufólk kaupmanns) bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu.”

Hafnir
Hafnir-222Skammt sunnan við Básenda gengur vogur einn eða lítill fjörður inn í landið. Nefnist hann Osar. Sunnan Ósanna taka við Hafnirnar, en þar eð enginn vegur liggur fyrir Ósabotna verður ekki komizt þá leið í farartæki nútímans, bílnum. — Höldum við því aftur að Stafnesi og þaðan sama veg til baka allt til Keflavíkur. Þar liggur bílvegsálma út af aðalvegi rétt hjá flugvallarhliðinu. Sá vegur liggur um Hafnaheiði sunnan við Ósana. Í Höfnum hefur löngum verið allmikil byggð. Þar bjuggu oft sjósóknarmenn miklir og komust sumir vel í álnir. Hefur séra Jón Thorarensen lýst hinum gömlu Hafnamönnum í skáldsögum sínum, og stuðzt þar mjög við sagnir og munnmæli. Helstu jarðir þar á síðari tímum voru Kirkjuvogur, Kotvogur, Merkines og Kalmanstjörn. Nokkru fyrir sunnan Kalmanstjörn eru við sjóinn rústir allmiklar og garðar. Eru það sandorpnar leifar af fornri byggð. Þar hét Kirkjuhöfn. A þessum stað hafa fundizt leifar af kirkjugarði og gömul mannabein. Fleiri bæir hafa verið þarna, svo sem Sandhöfn og Eyri. A Eyri bjó um miðja 17. öld maður sá, er Grímur hét. Það var einhverju sinni meðan Hallgrímur Pétursson var prestur á Hvalsnesi, að Grímur bóndi á Eyri kom þar á sunnudegi og hlýddi messu í Hvalsneskirkju. Gekk hann út um messuna að gæta reiðskjóta síns, sem var hryssa. Hafði hún losnað, en Grími varð skapbrátt, lamdi merina harkalega og batt síðan rammlega aftur með reipi. Munu þær aðfarir hafa verið ófagrar. Gerðist þetta í sömu andrá og Hallgrímur blessaði yfir söfnuðinn. Sá hann gjörla allt atferli Gríms, því að viðureign hans við merina fór fram gegnt opnum kyrkjudyrum. Um það kvað prestur eftir messuna:

Hann Grímur á Eyri
gerir sem fleiri,
að gengur hann út,
merina keyrir,
með reipum svo reyrir
og rekur á hnút.

Sunnan við Eyri taka við þverhnípt Djörg í sjó fram, er heita Hafnaberg. Er pað a alllöngu svæði um og yfir 30 metra hátt. Verpir þar allmikið af sjófugli, einkum svartfugli. Þar var áður allmikil eggja og fuglatekja, og þurfti að síga í bjargið, sem er ókleift með öllu. Nyrzt gengur inn í bergið gjá nokkur, sem heitir Klauf. — Þótt Hafnaberg sé ekki ýkjahátt, er sjálfsagt fyrir ferðamenn á þessum slóðum að leiða það augum og gefa um stund gætur að hinum fleygu og skemmtilegu íbúum þess.

Reykjanes
Reykjanesviti-222Frá Hafnabergi er ekki ýkjalangt út á hið eiginlega Reykjanes, en svo nefna menn suður þar „hæl” Reykjanesskagans, nesið milli Staðar í Grindavík og Stóru-Sandvíkur í Hafnalandi. Svæði þetta er ákaflega eldbrunnið. Þar eru ótal gígir, gufuhverir, brennisteinshverir og leirpyttir.
Nesið er allhálent og sæbratt víðast hvar. Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, svo sem Valahnúkur, Vatnsfell og Sýrfell. Þar eru og tvær breiðar hraunbungur, Skálafell og Háleyjarbunga, gömul eldfjöll. Gígurinn í Háleyjabungu er stór og tilkomumikill, sagður 440 fet að þvermáli og 100 feta djúpur. Á þessum slóðum mun hafa gosið á 13. öld, þegar „hálft Reykjanes brann”. Enn er þarna mikill jarðhiti og fjöldi smáhvera. Einna stærstur þeirra og þekktastur er Gunnuhver, þar sem Eiríkur karlinn í Vogsósum kom draugnum fyrir. Ekki ýkjalangt frá Gunnuhver er hóll einn sérkennilegur, myndaður úr mjallhvítu hverahrúðri (kísil). Má kljúfa kísilinn í þunnar flögur. Hugðu menn um skeið að þetta væri „postulínsjörð” og vænlegt að vinna úr postulín. En Þorvaldur Thoroddsen sá hvers kyns var og gerði ljósa grein fyrir.
Fram hjá Reykjanesi hefur jafnan legið fjölfarin skipaleið. Var því snemma þörf á vita þar, enda reis á þessum stað fyrsti viti landsins, byggður 1878.
Upphaflega stóð vitinn á Valahnúk, úti við sjóinn, en vegna þess hve mikið hrundi úr Reykjanesviti-222hnúknum í jarðskjálfta 1886 þótti ekki öruggt að láta hann standa þar áfram. Þó liðu enn allmörg ár unz byggður var nýr viti. En árið 1908 var hár og stæðilegur viti reistur uppi á Bæjarfelli, sem svo er nefnt, þar eð vitavarðarbærinn hefur frá upphafi staðið við rætur þess. Aukaviti var einnig reistur á Skarfasetri, skammt frá grunni gamla vitans, þar eð Skálafell skyggir á aðalvitann á mjóu belti á siglingaleið skipa, er að austan koma.
Ofan úr Reykjanesvita er útsýni gott yfir nesið og á haf út. Í suðvestri blasir við Eldey úti við hafsbrún, 77 metra há, hvít af fugli og fugladrit eins og mélsekkur. Fyrir utan hana sézt skerið Eldeyjardrangur, en til hinna ytri Fuglaskerja sést ekki.
Norður af Valahnúk, skammt undan landi, rís upp úr Reykjanesröst 50 metra hár móbergsdrangur, sem heitir Karl. Þegar brimar kvað hann verða alhvítur, og mun það tilkomumikil sjón. Björgin hér við sjóinn eru mjög etin út í skvompur og skúta. Brim er oft svo mikið á þessum slóðum, að bergin eru öll í löðri. Heyrast þá að sögn skellir miklir og brak eins og fallbyssuskot, þegar brimskaflarnir lemja bergið og berja saman stórum hnullungum í fjörunni. Eru þar víða tröllauknir garðar af brimsorfnu grjóti. Ekki eru það neinir smásteinar, heldur heil björg, og er hverju tildrað ofan á annað. Fjörugrjót þetta er egglaga, steinarnir margir á að gizka 1—2 metrar að þvermáli.”

Heimild:
-Faxi, 24. árgangur 1964, Gils Guðmundsson, Suður með sjó, bls. 86-89, 133-135, 149 og 169-171.

Suðurnes

Suðurnes – skilgreiningar.

Reykjanesskagi

Eftirfarandi upplýsingar um Reykjanesskagann birtust í upplýsingariti Ferðamálasamtaka Íslands 2005: Suðurnes / Reykjanesskagi – MANNLÍF, NÁTTÚRA OG SAGA / SOCIETY, NATURE AND HISTORY.

Inngangur
“Þegar tímar jafnréttis eru runnir upp þá er ekki úr vegi að minna á að fyrsti femínistinn á Íslandi var frá Suðurnesjum. Það var landnámskonan Steinunn gamla sem vildi eiga sig sjálf og þáði því ekki að gjöf landið frá Hvassahrauni til Sandgerðis af frænda sínum Ingólfi Arnarsyni heldur greiddi fyrir með heklu flekkóttri.
Annar landnámsmaður á Suðurnesjum var Herjólfur Bárðarson fóstbróðir Ingólfs en hann fékk frá honum land frá Ósabotnum suður á Reykjanestá. Talið er að rústir sem fundust við kirkjuna í Höfnum árið 2003 séu hús Herjólfs sem hann reisti á 9. öld. Herjólfur var afi Bjarna Herjólfssonar þess sem fyrstur Evrópumanna barði Ameríku augum. Frá fornu fari hafa sjósókn og fiskverkun verið höfuðatvinnuvegir Suðurnesjamanna og byggðin og mannlífið mótast af sjónum kynslóð fram af kynslóð. Náttúran á Reykjanesinu býður upp á gróðurvinjar, fagrar strendur, náttúruperlur og hrífandi umhverfi. Við tökum vel á móti ferðamönnum og bjóðum öllum að kynnast sögu okkar, menningu og náttúru. Matsölustaðir og veitingahús bjóða bæði innlenda og erlenda rétti úr íslensku úrvals hráefni og gistihúsin eru af þeim gæðaflokki sem hver vill hafa. Vertu velkomin.”
Undir framangreint ritar Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Náttúran og gönguleiðir
Náttúran er einstök. Nakin eldhraun í bland við gróðurvinjar, fuglabjörg, sandfjörur og ólgandi brim eru ferðamönnum áskorun um útivist. Hverasvæðin eru meðal öflugustu jarðhitasvæða landsins. Eldvörpin eru um tíu km löng gígaröð með jarðhita. Suður af Hafnarbergi eru skil Ameríku og Evrópu þar sem jarðflekarnir mætast. Fuglalíf er fjölbreytt. Stærstu fuglabyggðirnar eru í Hafnarbergi, Krýsuvíkurbergi og Eldey. Við Vogastapa og Hólmsberg eru brattar og brimasamar fjörur en sandfjörur eru m.a. í Sandvíkum og við Garðskagavita. Tilvalið er að bregða sér í göngutúr. Frá Keili er útsýni stórfenglegt, forn gönguleið liggur frá Vogum yfir Stapann til Njarðvíkur og önnur til Grindavíkur. Vinsælar gönguleiðir til fuglaskoðunar eru frá Garðskaga suður í Sandgerði, um Stafnes til Hafna. Og á Berginu í Keflavík hefur verið gerð skemmtileg gönguleið meðfram sjónum.

Kirkjurnar, söfnin og fornminjar
Saga kynslóðanna er heillandi. Tilvalið er að skoða fornminjar, söfn og gamlar kirkjur sem ilma af fortíðinni. Á Hafurbjarnarstöðum fannst konukumbl. Á Stóra-Hólmi var ein elsta verstöð landsins og Skagagarður er forn garðhleðsla. Stafnes var fjölmennur útgerðarstaður og að Básendum var rekin einokunarverslun til 1799.

Á skeri utan friðlýstra bæjarrústanna eru festarboltar sem kaupskipin voru bundin við. Í Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja. Á Selatöngum eru forn fiskbyrgi. Á Reykjanesi eru fimm kirkjur frá 19. öld sem geyma gamla muni og sögu. Ógleymanlegt er að skoða Hvalsneskirkju þar sem séra Hallgrímur Pétursson þjónaði. Síðan er upplagt að koma við á einhverju safnanna. Í Garði er byggðasafn. Duushús er í Reykjanesbæ. Saltfisksetur er í Grindavík en Fræðasetrið í Sandgerði tengir saman umhverfi, náttúru og sögu. Þá eru í flestum bæjarfélögum lista- og handverksstaðir sem fróðlegt er að heimsækja.

Virkjun orku
Á Reykjanesi eru mikil jarðhitasvæði og er Reykjanesvirkjun sem nú er í byggingu til vitnis um hve Íslendingar standa framarlega í virkjun jarðvarma. Hitaveita Suðurnesja virkjar heitan jarðsjó í Svartsengi til húshitunar fyrir allt Reykjanes auk þess sem hún virkjar gufu á öðrum stö›um á nesinu og framleiðir rafmagn í gufuhverflum. Í Eldborg, sem staðsett er við virkjunina í Svartsengi, er Gjáin sem er upplýsingamiðstöð um jarðfræði Íslands. Þar er jarðfræði Íslands, framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns kynnt á lifandi og skemmtilegan máta.

Jarðhitasvæði
Heilsulindin er vel þekkt víðs vegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar, leika um húðina. Eimböð, sauna og foss sem tilvalið er að bregða sér undir er meðal þess sem bíður gesta heilsulindar. Úrval spa- og nuddmeðferða er í boði. Að lokinni slökun og endurnæringu er tilvalið að njóta veitinga í einstöku umhverfi.

Útivist
Möguleikar til útivistar og afþreyingar eru ótalmargir. Hafið út af Reykjanesi er eitt besta svæðið hér við land til hvalaskoðunar. Skip fer daglega á sumrin og haustin í hvalaskoðunarferðir út á dimmbláan sjóinn og leitar uppi hvali. Hvað er stórfenglegra en að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp til að anda. Einnig er hægt að fara í sjóstangaveiði og skemmtisiglingu. Þetta eru öllum ógleymanlegar ævintýraferðir. Fjórir góðir golfvellir eru á Reykjanesi en þeir sem gefnir eru fyrir hraða og spennu heimsækja Go-Kart brautina í Njarðvík þar sem brunað er á litlum bílum á öruggri braut. Hægt er að skipuleggja keppni fyrir hópa. Tilvalið að reyna hæfileikana til kappaksturs við öruggar aðstæður.

Byggðirnar og mannlífið

Fyrrum var blómleg byggð á Vatnsleysuströnd, bændabýli og útræði. Töluverð byggð var á Leirunni en nú er þar einn besti golfvöllur landsins. Hafnir anga af sögu liðins tíma og Stekkjarkot, gömul endurbyggð þurrabúð, er minnisvarði um gamla búskaparhætti. Í sveitarfélögunum fimm: Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði byggist afkoman sem fyrr á sjávarútvegi en í Reykjanesbæ skiptir þjónusta og upplýsingatækni líka miklu máli.
Mannlífið er fjölbreytt og blómlegt. Á Suðurnesjum er fjöldi kaffihúsa og veitingastaða og glæsileg hótel. Sjóarinn síkáti í Grindavík er vinsæl sjómanna- og fjölskylduhátíð á sjómannadaginn. Sandgerðisdagar eru í ágúst og með Ljósanóttinni í Reykjanesbæ í september kveðja Suðurnesjamenn sumarið.

Íslendingur – Víkingaskipið – víkingasetur

Norrænir menn námu Ísland á ofanverðri 9. öld. Hingað komu þeir á knörrum og hraðskreiðum víkingaskipum. Árið 1996 smíðaði Gunnar Marel Eggertsson víkingaskipið Íslending sem er nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem var smíðað í Noregi um 870 og fannst árið 1882. Íslendingur er 23m á lengd, 5,25m á breidd og mælist 80 brúttótonn. Hann er miðlungsstórt víkingaskip og á slíkum skipum voru 70 manns í áhöfn. Gunnar sigldi Íslendingi til Ameríku og heim aftur árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis siglinga og landafunda Íslendinga í Ameríku. Reyknesingar vilja halda afrekum forfeðranna á lofti. Eftir heimkomuna keypti Reykjanesbær skipið. Nú er verið að vinna að því að koma því fyrir til frambúðar á glæsilegu víkingasetri.”

Framangreint lýsir vilja til að vekja athygli á því stóra er fólk gæti haft áhuga á þegar það vill sækja Reykjanesskagann heim, en allt hið smáa og merkilegra er látið ferðalöngunum eftir að finna að eigin frumkvæði – því sjaldnast er leiðbeinandi merkingum fyrir að fara.

Heimild:
-http://www.icetourist.is/upload/files/sudurnes.pdf21

Skoðað

Reykkjanes

Í Árbók Suðurnesja 1986-1987 er grein eftir Kristinn Arnar Guðjónsson sem nefnist “Áhrif landbrots og sandfoks á byggð á Suðurnesjum 1686-1947”.
Í greininni er Reykjanesskaginnm.a. kafli um skilgreiningu á hugtakinu “Suðurnes”: “Í texta, kortum og töflum hér eftir er Suðurnes notað sem samheiti fjögurra hreppa: Hafna-, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandar-hrepps.
Kristján Eldjárn (Árbók Ferðafélags Íslands 1977) gerði grein fyrir takmörkum nafnsins og telur að í fyrstu hafi það verið bundið Miðnesi (svæðinu frá Hvalsnesi til Garðsskaga) en um miðja 19. öld er farið að nota Suðurnes í víðtækari merkingu, þeirri sömu og nú er algengust; Rosmhvalanes að viðbættum Höfnum. Í yfirgripsmestu merkingu, segir Kristján, er nafnið Suðurnes látið ná yfir allan Reykjanesskagann frá Hvaleyrarholti að Selatöngum.
Skúli Magnússon segir um nafnið Suðurnes: “Í daglegu tali, aðallega með tilliti til fiskveiðanna, er Býjaskersþingsókn kölluð Suðurnes, en fremur hún og Járn-gerðarstaðaþingsókn Útver (Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu).” Býjaskersþing-sókn tekur yfir Hvalsnessókn og Útskálasókn og samsvarar því hinum gamla Rosmhvalanes-hreppi.

Núverandi Sveitafélagsskipan á Reykjanesskaga

Sigurður B. Sívertssen segir árið 1841: “Úr fjarlægum plássum  eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrr nefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu (Lýsing Útskálaprestakalla 1839).”
Jón Thorarensen telur Suðurnesjaheitið hafa þá merkingu sem Kristján segir yfirgripsmesta. Jón segir m.a.: “Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi: Innnes – frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð. Suðurnes – frá Hvaleyrarholti, að Selatöngum austan við Grindavík. [Hér er Jón greinilega að heimfæra Útnesin upp á Suðurnes].
Ef litið er á samtímaheimildir kemur í ljós að notkun heitisins Suðurnes er enn nokkuð á reiki. Í bókinni Suðurnes, náttúrufar, minjar og landnýting (1986) afmarkast Suðurnes af strandlínunni að norðan og vestan, en að sunnan af línu dreginni frá Hvaleyrarholti í gegnum Hvaleyrarvatn, Helgafell, Trölladyngju, Keili, Stapafell og Hafnir. Í riti Byggðastofnunnar (Byggð og atvinnulíf 1985) er heitið Suðurnes látið ná yfir öll sveitarfélög á Reykjanesskaga, að Hafnarfirði og Kópavogi undanskildum.”

Heimild m.a.:
-Árbók Suðurnesja 1986-1987, bls.39-42.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Gufuskálar

Framsöguerindi, flutt á málfundanámskeiði Iðnaðarmannafélagsins 28. febrúar 1967. –
stori-holmur-231“Það litla, sem Landnáma segir um upphaf byggðar á Suðurnesjum er eftirfarandi: „Steinunn in gamla frændkona Ingólfs fór til Íslands og var með honum inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingu. Steinunn hafði átt Herlaug bróðir Skallagríms, þeirra synir voru Njáll og Arnór,,.1.)
Þetta er öll landnámssaga Steinunnar gömlu og næstum allt og sumt, sem um hana verður vitað eftir rituðum heimildum. Þó víst sé talið, að við Íslendingar séum af norrænum uppruna, þá eru miklar líkur fyrir því, að Steinunn landnámskona sem er talin vera sú fyrsta, sem reisti sér bú á Suðurnesjum, hafi komið frá Vesturlöndum. Synir hennar hétu Njáll og Arnór. Njálsnafnið bendir til þess, að hún hafi komið frá Vesturlöndum og styrkist það við frásögnina um ensku hekluna, er hún gaf Ingólfi fyrir landnámið. Hún hafði enska vöru og getur maður því ætlað, að það hafi verið fleira af því tagi í fórum hennar, en hekla þessi, því að bæði víkingar og landnemar fluttu með sér nokkrar birgðir af varningi frá þeim löndum, sem þeir lögðu frá, er þeir fóru í herferðir eða landaleit.2)
Talið er, að Steinunn hafi reist sér bú að Stóra gardur-gufuskalarHólmi í Leiru og hafi rekið þar um árabil mikið höfuðból og verstöð. Það er talið, að á landnámsöld hafi Keflavík og Njarðvík verið sel frá Stóra-Hólmi í Leiru.4) Hið forna höfuðból Steinunnar gömlu er nú komið í eyði, en sel hennar eru aftur á móti ört vaxandi byggðarlög.

Í bókum um landnám Ingólfs er getið um, að í Rosmhvalaneshreppi hafi verið Keflavík, Leira, Garður og Miðnes og allt að Ósabotnum. Greinilegt er, að Njarðvíkur eru teknar undan Rosmhvalanesi, er hreppar eru myndaðir.5) Njarðvíkur, Vatnleysuströnd og Vogar mynduðu Vatnsleysustrandahrepp.
Fyrsta breytingin, sem gerð er á Suðurnesjum er, að Njarðvíkur segja skilið við Vatnsleysustrandahrepp og sameinast Rosmhvalaneshreppi árið 1885.6).
Næsta breytingin á hreppaskilum er, að Miðnesingar segja skilið við Rosmhvalaneshrepp árið 1886.7) Það ár verður því Miðneshreppur til í sinni núverandi mynd, og hefur engin breyting orðið á síðan.
Næsta breytingin á Rosmhvalaneshreppi er, að árið 1908 er hann lagður niður og myndaðir tveir nýir hreppar. Hinir nýju hreppar voru núverandi Gerðahreppur og Keflavíkurhreppur. Í þeim síðarnefnda voru núverandi Keflavíkurkaupstaður og Njarðvíkurhreppur. Þannig voru Keflavík og Njarðvík sameiginlegt hreppsfélag frá árinu 1908 8) eða þar til Njarðvíkingar óskuðu eftir að gerast sér hreppsfélag, vegna þess að þeir töldu sig vera mjög afskipta með alla þjónustu og framkvæmdir svæði sínu til handa.
njardvik-231Samningur um skilnað Keflavíkur og Njarðvíkur var gerður 25. október 1941.9)
Njarðvíkur urðu því fyrst sérstakt sveitarfélag með lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1942.
Landaskil Njarðvíkur og Keflavíkur voru fyrst þar, sem Tjarnargata er nú í Keflavík, en er samningur var gerður um skipti byggðarlaganna voru þau ákveðin um lóð Fiskiðjunnar hf. þannig, að mjölskemma Fiskiðjunnar stendur nú að hálfu í Keflavík og að hálfu í Njarðvík.
Keflavík hlaut kaupstaðaréttindi 1. apríl 1949. Lögsagnarumdæmi Keflavíkur var stækkað með lögum frá 4. maí 1966. Með þeirri stækkun rúmlega þrefaldaðist lögsagnarumdæmið að flatarmáli. Þeir 415 ha, sem Keflavík stækkaði um, eru að mestu land, sem hefur verið skilið frá Gerðahreppi.
keflavik 1833Nokkuð er sagt frá Eyvindi fóstra Steinunnar gömlu í Landnámu, en Evindi fóstra sínum gaf Steinunn hin gamla land á millum Hvassahrauns og Kvígubjargarvogum.
Landnám Evindar, er hann hlaut að gjöf frá Steinunni fóstru sinni, hlaut nafnið Vatnsleysuströnd. Landnám hans er nú óbreytt sem Vatnsleysustrandarhreppur.
Molda-Gnúpssynir, þeir Hafur-Björn, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi, námu Grindavík. Landnám þeirra bræðra er enn óbreytt sem Grindavíkurhreppur10.)
Herjólfur, frændi Ingólfs og fóstbróðir, fékk frá honum að gjöf land milli Reykjaness og Vogs og svarar það nákvæmlega til núverandi Hafnarhrepps. 10)”

Eyþór Þórðarson.

Neðanmálsheimildir:
1. Landnám I—III 1900 bls. 123 og Þórðarbók 1921, bls. 28.
2. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 266.
3. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 280.
4. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 278.
5. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 279.
6. Strönd og Vogar 1961 bls. 48.
7. Undir Garðskagavita bls. 218.
8. Faxi 1963 bls. 211.
9. Faxi Desember 1941,
10. Landnám Ingólfs II. 1. 1936 bls. 14.

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 1. tbl., bls. 5-7.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Suðurnes

Þegar gengið er um Suðurnes norðvestast á Seltjarnarnesi ber margt forvitnilegt fyrir augu.
Golfvöllur þarlendra er á Nesinu, en umleikis hann með allri ströndinni er göngustígur sem varinn Sudurnes-222hefur verið með sjóvarnargarði svo Mar geti ekki gengið upp á völlinn. Á vefsíðu golfklúbssins Ness sést m.a. þetta um svæðið: “Í upphafi var golfvallarstæðið á helmingi Suðurnessins, suðvestur hluta þess. Túnin höfðu verið nýtt af hestamönnum. Vestast á Suðurnesi við innsiglingarmerki sem þá var uppistandandi, voru öskuhaugar Seltjarnarnesbæjar. Þar sem nú er önnur braut var æfingaskýli lögreglunar sem þá stundaði handtöku- og skotæfingar þar. Á núverandi æfingarsvæði voru fiskverkunartrönur og hesthús voru við Daltjörn.”
Sudurnes-223Þegar skoðað er aðalskipulag Seltjarnarness 2006-2024 má sjá að Suðurnes þetta er í raun eyja tengt landi með granda eða samföstum gröndum; Bakkagranda í suðri og Kotagranda í norðri. Utan við hinn síðarnefnda er Seltjörnin en Bakkavík við hinn fyrrnefnda. Helstu örnefnin á Suðurnesi eru, ef gengið er réttsælis með Bakkavík, Leirur og suðvestast Suðurnestangi. Innan við tangann er Búðatjörn. Norðvestar er Helguvík og Urðin nyrst. Á henni voru sjóbúðir fyrrum sem síðar verða nefndar. Á miðju Suðurnesi var Réttin og norðan hennar Dældir eða Dalurinn. Bakkatjörn er framar, milli grandanna fyrrnefndu.
Lionsklúbbur Seltjarnarness hefur komið upp nokkrum upplýsingastólpum á strandleiðinni. Við Búðatjörnina stendur: “Búðatjörn (Fúlatjörn) – Fjaran suðaustan við trjörnina heitir Búðagrandi og sunnan við hana hafa staðið verbúðir eins og  Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð. Tanginn út frá Búðagranda heitir Suðurnestangi”.

Sudurnes-226

Við vörðu á Urðinni stendur: “Fyrst var reist hér varða eða sundmerki um 1780 til þess að auðvelda siglingu um Valhnúkasund. Endurreist oftar en einu sinni, síðast í atvinnubótavinnu 1930. Varðan eyðilagðist í stórviðri í febrúar 1996”.
Í Morgunblaðinu 26. október árið 1990 er fjallað um endurhleðslu leiðarmerkisins: “Viðgerð á leiðarmerkinu í Suðurnesi á Seltjarnarnesi er lokið. Nesskip hf. og Björgunarsveitin Albert gerðu með sér samkomulag um viðgerð á vörðunni sem var að hruni komin. Leiðarmerkið í Suðurnesi er merkt inn á sjókort sem gerð voru á seinni hluta 18. aldar. Danskur sjómælingamaður, kapteinn H. Mi nor, notaði leiðarmerkið í Suðurnesi sem mælingapunkt þegar hann var við sjómælingar á innanverðum Faxaflóa sumarið 1776.

Sudurnes-224

[Árið] 1930 fór fram umtalsverð viðgerð á innsiglingarvörðunni, en verkinu stjórnaði Albert vitavörður í Gróttu. Björgunarsveitin Albert á Seltjarnarnesi, sem ber nafn vitavarðarins í Gróttu, stóð hins vegar að viðgerð vörðunnar nú, 60 árum síðar. Seltjarnarneskaupstaður hefur ákveðið að laga umhverfi vörðunnar og tryggja að ágangur sjávar brjóti hana ekki niður aftur.” Nú var að að sjá að enn einni viðgerðinni væri nýlokið.
Skammt utar (norðar) er skilti: “Ljóskastarahús – Stríðsminjar frá seinni heimstyrjöld. Héðan var fylgst með umferð skipa og flugvéla”. Og þar rétt hjá: “Setlög – jökulberg. Efst í fjörunni eru setlög með skeljabrotum ofan á jökulrúnum grágrýtisklöppum. Setlögin eru talin vera frá síðasta hlýskeiði um 70 – 100 þús. ára gömul”. (Á skiltinu er mynd af hávellu).
Sudurnes-225Fremst, þar sem grandarnir mætast, er skilti með ljósmynd. Á því eru öll helstu örnefni þegar horft er til norðurs yfir vestanvert Seltjarnarnes.
Í örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes skráða eftir Kjartani Einarssyni á Tjarnarbóli 4, f: 1914, árið 1976, kemur m.a. eftirfarandi fram um Suðurnes: “Mótekja var neðan við Bakkagranda en ekki hægt að taka hann nema um fjöru. Seinast var þar tekinn mór 1939. Í honum voru stórir lurkar, lærissverir.
Nesið fyrir vestan, sem byrjaði áður fyrr við Ósinn, kallst Suðurnes. Hæsti blettur á því er Svartibakki, að austan við sjóinn. Leirur voru nefndar fram af útfalli Óssins. Á þeim voru maðkafjörur Framnesinga, þ.e. þeirra sem áttu heima vestan Þvergarðs. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn. Í daglegu tali var hún nefnd Fúlatjörn; í henni safnaðist fyrir þari, sem úldnaði. Vestan við tjörnina voru Búðir. Þrjú nöfn voru notuð, svo að Kjartan vissi til, Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð, talið frá austri. Grandinn austan við Búðatjörn heitir Búðagrandi og tanginn út frá honum Suðurnestangi. Skerið víkurmegin við hann nefnist Selsker. Vík suðvestan á nesinu nefnist Helguvík. Lítið sér nú fyrir henni. Frá henni er svokölluð Urð, sem nær alla leið að Seltjarnarrifi. Vestast á (í) nesinu er innsiglingarmerki, hlaðin grjótvarða, sem nefnist Suðurnesvarða. Í suðvestur af henni er sker, sem nefnist Kerlingasker. <

Sudurnes-227

Sú saga er um nafnið, að Seltirningar hafi eitt sinn farið í róður og haft kerlingu nokkra með sér, sveitarómaga. Hún átti að tína öðu í beitu á skerinu, meðan þeir skryppu úr á Svið. Þeir voru lengur í róðrinum en þeir hugðu, og þegar þeir komu aftur, var kerlingin flotin af skerinu. Sker, sem heitir Keppur, er suðaustur af Kerlingarskeri, kemur upp um stórstraumsfjöru.
Um það bil á (í) miðju Suðurnesi er merki, sem landmælingamenn danska herforningaráðsins settu upp [í byrjun 20. aldar]. Við það var svonefnd Rétt, fjárrétt, sem síðast var notuð 1930. Þar var haft í kvíum frá Hrólfsskála um 1880. Nokkur lægð er austarlega á Suðurnesi. Hún nefnist Dældir, í seinni tíð stundum kölluð Dalur. Það er smátjörn, sem áður fyrr hafði útfall í Ósinn.
Sudurnes-228Grandinn, sem liggur vestan á Seltjarnarnesi, nefnist Kotagrandi. Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar, sem nú er komin í sjó. Geta má þess, að á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1835 er Bakkatjörn nefnd Seltjörn. Utan við Seltjörn liggur Seltjarnarrifið, sem áður er getið”.
Í nefndri örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir um Suðurnes: “Sunnan hennar [Bakkatjarnar] heitir Bakkagrandi, malarkamburinn, sem þar er, og gegnum hann er Ós. Vestan við Bakkatjörn er svo annar skerjagrandi, sem heitir Kotagrandi.  Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar. Kotagrandinn liggur út í grasi vaxið landssvæði, ekki stórt um sig, sem heitir Suðurnes.  Þetta er láglent svæði frekar; norðaustur úr því liggur langt rif, sem heitir Suðurnesrif.  Það eru leifar þess lands, er eitt sinn myndaði Seltjörnina að norðvestan. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn og fram af henni er Búðagrandi; þar sem koma saman grandarnir, Bakkagrandi og Kotagrandi, er forarvilpa, sem heitir Dalur.

Sudurnes-229

Norðan við Búðatjörn eru gamlar sjóbúðir.  Þarna voru 1703 þrjár búðir: Stórabúð, Morastaðabúð, Hannesarbúð. Vestast í nesinu er Suðurnesvarða, nýlega hlaðin upp, og er innsiglingarmerki á Skerjafjörð. Svo var uppi á hánesinu Rétt og gerði í hring.”
Í bréfi um matsskyldu vegna fyrirhugaðra sjóvarnargarða á Suðurnesi má m.a. lesa eftirfarandi um jarðmyndanir, fuglalíf o.fl.: “Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sé að finna merkar jarðfræðiminjar, þ.e. jarðlög með skeljaleifum frá síðasta hlýskeiði ísaldar og ísaldarlokum m.a. í víkinni inn af Svörtubökkum. Fyllt hafi verið yfir setlögin að hluta til og sandur hylji þau að einhverju leyti við núverandi sjóvarnargarða en setlögin verði sýnileg þegar fjari út. Ef umfang sjóvarnargarða aukist megi búast við því að sá hluti fjörunnar þar sem sandur safnist fyrir færist utar og þar með muni meira af setlögunum hyljast sandi. Með því verði bæði þrengt að setlögunum sjálfum og fjörumónum. Fram kemur að setlögin séu aðgengileg og gegni hlutverki við kennslu í Háskóla Íslands, sem og við komu erlendra rannsóknarhópa til landsins. Á kaflanum frá miðjum „tanganum” við austurhluta golfvallarsvæðisins og út með víkinni inn af Svörtubökkum. Fram kemur að við ljóskastarahúsið, á um 100 m breiðu svæði, sé að finna merkileg setlög með steingervingum og jökulrákaðar klappir. Á þeim kafla sé mikilvægt að fláar fyrirhugaðrar sjóvarnar nái ekki lengra niður í fjöruna en núverandi sjóvörn.

Sudurnes-230

Umhverfisstofnun telur að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft umtalsverð áhrif á merkar jarðfræðiminjar ef farið verði með fyllingu og grjótvörn lengra út í fjöruna. Setlög með steingervingum er að finna í fjörunni. Það sama eigi við um 100 m breitt belti neðan við Ljóskastarahúsið ef hækkun sjóvarna hafi í för með sér að grjótvörn nái lengra niður í fjöruna.
Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram aðí  Bakkavík sé auðugt smádýralíf og í víkinni sé mikilvægt fæðuöflunarsvæði fugla og því beri að leggja áherslu á að eins litlu fjörusvæði verði raskað við framkvæmdirnar og kostur sé. Bent er á að ef sandsvæði í fjörunni færist utar í kjölfar fyllingar geti það haft áhrif á fæðuöflunarsvæði fugla. Umhverfisstofnun bendir á að þarna séu einnig flóðsetur og hvíldarstaðir fugla, sem og fæðuöflunarsvæði auk þess sem varpstaðir kríu við Búðatjörn séu við framkvæmdasvæðið. Á þessu svæði sé því einnig mikilvægt að halda öllu jarðraski í lágmarki og athuga hvort ekki megi draga úr fyrirhuguðu umfangi grjótvarnar.
Fram kemur að til að tryggja leið andfugla frá varpstöðvum til sjávar telji Umhverfisstofnun að vænlegast sé að koma fyrir sniðbrautum á Sudurnes-231görðunum.”
Þótt ekki sé um langan hringveg að fara um Suðurnes er leiðin sérstaklega skemmtileg, ekki síst vegna framangreindra minja, fuglalífs og jarðlaga að ógleymdu útsýninu yfir hafflötinn við æði misjöfn birtustig.
Þegar hringleiðin var gengin í aprílmánuði fylltu margæsir á leið þeirra til Grænlands og Kanada golfvallaflatirnar og nálægar tjarnir. Allt umleikir spígsporuðu vorboðarnir, auk fjölda annarra ágætra fargesta. Þrátt fyrir ánægjuaugað verður að segjast eins og er að það er synd að verbúðirnar framangreindu skulu hafa farið forgörðum vegna augnabliks andvararleysis fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Kjartans Einarssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Mbl föstudaginn 26. október, 1990, leiðarmerki endurhlaðið.
-Endurbætur á sjóvarnargörðum á Suðurnesi, Seltjarnarnesi. Ákvörðun um matsskyldu, Skipulagsstofnun 2004.
-nkgolf.is

Grótta

Grótta.