Færslur

Skagagarður

Í skýrslu Samvinnunefndar um skipulagsmál á Suðurnesjum og gefin var út árið 1989 koma fram margir áhugaverðir punktar um náttúruminjar, menningarminjar og útivist. Þessir eru helstir:

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

1. Mosaþemban (gamburmosi) er einkennisgróður á Suðurnesjum.
2. Nánast allur annar gróður í hraununum, nema fléttur, á gamburmosanum tilveru sína að þakka, því hann myndar jarðveg sem plönturnar festa rætur í. Má með sanni segja að gamburmosi sé einkennispnanta Reykjanesskaga.
3. Um aldir hefur svæðið verið ofnýtt af mönnum og skepnum, þar sem sauðfé nagaði stráin, en mannfólkið hjó kjarrið og reif lyngið til eldiviðar meðan eitthvað var eftir í þessu mýrarlausa og þá um leið mólausa landi. Sandfok tók einnig stóran toll af gróðrinum. Búseta manna hefur því haft mjög mikil áhrif á gróðurfarið og því miður hafa þau áhrif í flestum tilvikum verið til hins verra hingað til.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

4. Skilningur íbúa á friðun lands hefur verið að aukast.
5. Á áratug má sjá árangur friðunnar vestan svonefndrar Grindvíkurgirðingar, en það hefur verið friðað fyrir beit þann tíma.
6. Kjarrlendi á í vök að verjast bæði vegna uppblásturs og beitar, sem er alls staðar nema innan skógræktargirðingar.
7. Um Reykjanessfólkvang má segja að landeyðing sé eitt af höfuðeinkennum gróðurfarsins.

8. Mosaþemba er útbreiddasta gróðurlendið. Henni er skipt í fernt: 1. Í einföldustu mynd, 2. með lyngi, 3. með lyngi og kjarri, 4. og með grasi.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

9. Reykjanesskagi er ákaflega eldbrunninn og eru sprungur og gígaraðir algengar. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum sem runnið hafa eftir að jöklar síðasta jökulsskeiðs hopuðu. Á Reykjanesi munu jöklar hafa horfið fyrir um 12-13 þúsund árum, nokkru fyrr en víðast annars staðar á landinu.
10. Á Suðvesturhorninu er áhugi fólks á útiveru og náttúruskoðun mikill. Reykjanesskaginn er eins og stór sýningarsalur fyrir það afl sem skapar Ísland, þ.e. eldvirkni.

Hrútagjárdyngja

Í Hrútagjárdyngju.

11. Mikill hluti Reykjanesskagans er þakinn nútímahraunum. Þeim má skipta í tvo flokka eftir uppruna þeirra og útliti. Annars vegar eru hraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum (apalhraun). Hins vegar eru hraun sem runnið hafa frá svonefndum dyngjum (helluhraun).
12. Utanverður Reykjanesskagi einkennist af þremur stórum dyngjum; Sandfellshæð, Þráinsskyldi og Hrútargjárdyngju.
13. Nokkrar minni dyngjur eru á Reykjanesi og eru þær flestar svonefndar “píkrit” dyngjur, s.s. Skálafell, Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Hraunssels-Vatnsfell.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.

14. Hraun á sögulegum tíma eru t.d.; Stampahraun (1226), Tjaldstaðagjá (1226), Klofningshraun (1226), Eldvarpahraun (1226), Illahraun (1226), Arnarseturshraun (1226), Afstapahraun (runnið skömmu eftir landnám), Ögmundarhraun (1151), Hraun vestan Mávahlíða (1151 eða síðar), Kapelluhraun (1151), Flatahraun (Hvaleyrarholtshraun) (1000), nokkur hraun í Brennisteinsfjöllum (runnin eftir landnám og einhver á fjórtándu öld), nokkur hraun í Heiðmörk (runnin eftir landnám).
15. Auk þess hefir oft gosið á sögulegum tíma í sjó undan Reykjanesi og munu flest þau gos hafa verið í grennd við Eldey.
16. Dæmi um menningarminjar eru; Drykkjarsteinn, selsrústir, varir og uppsátur, Skagagarður og gamlar þjóðleiðir.
17. Síðasta stóra goshrinan á Reykjanesi var um landnám opg önnur fyrir um 2500 árum.
18. Grindavík er reist á hrauni sem rann fyrir 2000-2500 árum frá Sundhnúkagígum.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

19. Skipa má Reykjanesskaganum í þrjá aðallhluta eftir gróðurfari, og fer það saman við bergmyndun hans; móbergssvæði, grágrýtissvæði og mójarðveg á Miðnesheiði.
20. Gildi útivistar- og íþróttasvæða hefur aukist mikið hin síðar ár.
21. Einn mikilvægasti þáttur í skipulagi útivistar eru göngur og útivera.
22. Fá svæði á landinu eru auðugri að menningarminjum. Sumir vitna um forna atvinnuhætti, t.d. gamlar verstöðvar og seljarústir. Tilvalið væri að skipuleggja útivist og ferðamál með tilliti til þessa. Þeirra á meðal eru gömlu þjóðleiðirnar, en á svæðinu eru margar leiðir og bera flestar nafn. Sums staðar vitna hófklöppuð för í hraunklappir um það hversu fjölfarnar þær voru. Nauðsynlegt er að þeim verði haldið við og varðaðar upp.
23. Nauðsynlegt er að opna útivistarsvæði fyrir allan almenning.

Grindavík

Horft til Grindavíkur frá Þjófagjá.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir “Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum” eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

“Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði” skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma”.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést”. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík”. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant”-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent”, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni”.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.”

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um “Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð“:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi”, en „lang lélegust og sóðalegust” voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…”. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.”.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús”. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær”, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…”.”, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..”.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…” og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess”.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…”.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð”, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini”. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi”.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær”. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…”.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…”. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn”. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…”.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl” sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík”.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt” 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…”.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera “Er Reykjanes það sama og Suðurnes?” Stutta svarið er “Nei”.

Suðurnes

Suðurnes – skilgreiningar.

Lengra svarið er: “Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: “Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”
Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.” Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.
Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga og þaðan alla leið til Krýsuvíkur. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var “hællinn” á skaganum en það síðarnefnda “táin”, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.”
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið “kátir menn og frískir”, en í Grindavík “sjósæknir og fríðir”. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan “málsmetandi” ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Leira

Njáll Benediktsson skrifar um “Fyrsta íbúann á Suðurnesjum” í Faxa árið 1989:

Steinunn gamla

Skáli.

“Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna. Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka” var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka”. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.

Steinunn gamla

Steinunn gamla.

Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Steinar í Leiru
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030. Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.

Leiran

Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.” – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.

Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi”.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinumHún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafhareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafhabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, LitlaSandvík, Mölvík, Kistuberg, Pyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um “Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá”. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið “Suðurnes” einungis yfir byggðirnar norðan Stapa.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

“Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

Keilir

Keilir.

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík. (1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík. (1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík. (1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km lóng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.
5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík. (1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull. (1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.
7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull. (1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.
8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull. (1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík. (1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.
10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull. (1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.
Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.”

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Straumur

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, ritaði þrjár greinar í sunnudagsblað Tímans árið 1964 undir yfirskriftinni “SUÐUR MEÐ SJÓ”. Þar segir m.a.:
Hvaleyri“Af Hvaleyrarholti blasir við yngsti hluti Íslands, Reykjanesskaginn. Þar eru engar jarðmyndanir eldri en frá ísöld. Þá hlóðust upp fjöll um sunnan- og austanverðan skagann, en þau hlaða síðan hrauni á hraun ofan og heyja landvinningastríð við hafið, en það sargar og sverfur ströndina og hefur brotið mikið land.
Reykjanesskagi er eyðimörk, hraun hrjóstrug og grett og nær gróðurlaust, eldfjöll, örfokamelar og sandar. Byggðin stendur á vinjum við ströndina, en milli þeirra lágu troðningar um auðnirnar, og þar hefur ótrúlegur fjöldi manna þreytt síðustu göngu sína, lagzt til hinztu hvíldar við götuna. Fyrir daga ferðalaganna miklu þekktu unglingar hér um slóðir hvorki ár né læki nema af afspurn, og hvergi getur hér engjalönd nema í Krýsuvík. Hér þrömmuðu vermenn með mötur sínar á þorra, en skreiðarlestir siluðust um Jónsmessubil … í hitatíð og þurrkum sveittust menn og málleysingjar sárþyrstir á auðnunum, því að víða er óravegur milli vatnsbóla, skálar í kletti, holu niður með hamri eða lindar í fjöru.
“En þegar það brestur, er ekkert vatn utan fjöruvötn, varla nýtandi fyrir seltu, og fyrir þessa orsök missir kvikfénaður bæði nytjar og holda”, hraungjotasegir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 í kaflanum um Kirkjuvog. Það rignir engu minna á Reykjanesskaga en annars staðar á Suðvesturlandi, en gljúpur berggrunnur ungra hrauna drekkur í sig alla úrkomu og leiðir jarðvatnið eftir undirgöngum til sævar, og nefnist það fjöruvötn. Reykjanesskaginn liggur í þjóðbraut lægða á norðanverðu Atlantshafi, og þar er glímuvöllur vinda og tilraunastöð skaparans.
Eyðimerkurgróður er jafnan kjarnmikill, og svo er einnig á Reykjanesskaga. Elztu hraunin eru víða kjarri vaxin og tápmiklir skógar lundar á stökum stað, jafnvel reynistóð og mikið er um eini og beitilyng. Hér voru löngum bújarðir góðar og beitilönd og búpeningur gekk sjálfala á vetrum allt frá dögum Ingólfs landnámsmanns, þangað til Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum sællar minningar í niðurskurðinum 1948. En skorti skagann sífrjóa töðuvelli og akurlönd, þó hafa gullkistur löngum legið í hafinu við túnfótinn.
forngataÁ Reykjanesskaga tóku menn sér fyrst bólfestu hér á landi. Skaginn er hluti af landnámi Ingólfs, og menn sóttu svo ákaft í slóð hans, að hann varð að reka úr túninu, hrekja suma burt úr héraðinu eins
og Ketil gufu. Aðrir öfluðu sér jarðnæðis við gullkistuna með vígfimi eins og Hrolleifur Einarsson í
Kvíguvogum, en hann hrakti Eyvind landnámsmann burt af jörðinni. Í árdaga hefur skaginn verið skógi vaxinn og góður undir bú, en sjórinn stórgjöfull. Af þeim sökum hafa menn þyrpzt hingað frá upphafi vega en hagsæld þeirra hefur ekki ávallt verið á marga fiska. Fjárplógsstofnanir kirkju- og konungsvalds settust að bændum við Faxaflóa, því að þar var feitan gölt að flá. Hér á landi hófst opinber skattheimta með tíundarlögunum um 1100, en í kjölfar þeirra sigldi röskun á eignaskiptingunni í landinu. Jarðeigendur settu leigupening, kúgildi, á jarðir sínar og kröfðust leigu af hvoru tveggja, en síðar færðu þeir sig upp á skaftið og lögðu ýmiss konar kvaðir á landsetana. Þeirra verður fyrst vart á jörðum Viðeyjarklausturs um 1300. Sú ánauð á leiguliðum virðist eiga upphaf sitt við Faxaflóa. Algengast var að landsdrottinn bætti fóðrarkvöð ofan á landskuldina, en þar við bættist síðar dagsláttur, mannslán eða dagsverk hjá landsdrottni, hestlán og róðrarkvaðir, þegar sjávarútvegur efldist á 14. öld. Um 100 manns mun hafa þurft á báta Viðeyjarklausturs á Vatnsleysuströnd um siðaskiptin og hafa landsetar þá orðið að halda þeim út á vertíðum. Þegar
landseta tók að veitast þungt að rísa undir álögunum, tók hann annan mann á jörðina með sér, leigði honum hjá sér nokkurn hluta hennar og velti yfir á hann sem mestu af afgjöldunum. Þannig varð íslenzka hjáleigubyggðin til, en hjáleigur urðu rúmlega 1/4 hluti eigna, sem hlóðu utan á sig auðæfum eins og snjóbolti, sem veltur ofan brekku. Það risu upp vellauðug stórhöfðingjasetur í landinu, þar blómgaðist íslenzk hámenning, þaðan eru okkur komnar íslenzkar fornbókmenntir.
KapellKlaustur og aðrar kirkjustofnanir voru fengsælastar á fé manna og aðrar fasteignir. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 og varð brátt vellauðugt. Þar var menntasetur, en menntunin kostaði fé, og voru
fasteignir bræðrunum einkar geðþekkt kennslugjald. Þeir voru sérfræðingar í fyrirbænum, en bænirnar
kostuðu fé, það var hollt sáluhjálp manna að hljóta hinztu hvíld í kirkjugarði í Viðey, en sá náðarstaður kostaði mikið fé, og síðast en ekki sízt þurftu menn að gefa fyrir sálu sinni og greiða fyrir alls konar yfirsjónir. Klaustrið í Viðey eignaðist nær allar jarðir suður með sjó á miðöldum. Bændur reyndu að halda í helztu útvegsjarðirnar, en urðu undan að láta sókn kirkjuvaldsins. Klaustrið hreppti Stóru-Voga 1496, og 1516 sölsaði Ögmundur bæja hér á landi, er stundir liðu. Auk þessa guldu menn skatt til kotunga, manntalsfiska, og margs konar gjöld til kirkna og presta.
kalfatEftir siðaskiptin 1550 hirti konungur eignir klaustranna og eignaðist flestar jarðir á Reykjanesskaga, allar í Hraunum og á Vatnsleysuströnd nema Kálfatjörn, sem var kirkjulén. En kóngur var æðsti mað
ur kirkjunnar og átti því í rauninni einnig kirkjujarðirnar. Af 15 jörðum á ströndinni guldust rúmlega 56 vættir af fiski, þegar konungur tók við þeim, en 113 vættir um 1700. Þannig jukust álögurnar við húsbóndaskiptin og voru þó ærnar fyrir. Bessastaðamenn tóku undir sig hálfa báta bænda og hálfan aflahlut, kröfðust tveggja dagsverka heima á Bessastöðum og urðu bændur að fæða verkamanninn, tveggja hríshesta, og þegar allt hrís var uppurið á Strandarheiði, þá urðu bændur að láta fjórðung af fiski fyrir h
ríshestinn. Þá komu ýmis köll. Bændur voru skyldir að hlýða, þegar Bessastaðamenn kölluðu, hýsa þá endurgjaldslaust, ljá þeim hesta, flytja þá bæði yfir sjó og land vetur og sumar, verka konungsskreiðina og flytja í kaupstað, bera fálka til skips; leggja fálkafénu hey o.s.frv.
hraVeðurfar er milt á Reykjanesskaga. Þar er snjólétt, en umhleypingasamt. Þar hefur hafís ekki lagzt að landi, frá því að sögur hófust, nema á 17. öld (1605, 1635, 1695)! En fólkið, sem byggði skagann, var einhver fátækasti lýður á fslandi á 17. og 18. öld. Það slapp við allt galdrafargan þessa tímabils. Meðal þess fundust hvorki stórþjófar né höfðingar. Þar var aðeins snauður bændalýður, sem barðist fyrir lífi sínu við máttarvöldin á sjó og landi. Skúli Magnússon landfógeti fer ekki í neinar graf; götur um orsakir örbirgðarinnar. Í lýsingu Gullbringu- og Kjósasýslu frá því um 1784 segir hann meginástæðuna fyrir fátækt manna, sem hefur í svo mörg ár svipt þá nauðsynlegum kröftum til þess að leita sér eðlilegrar lífsbjargar á sjó og landi, vera fjárplóg einokunarkaupmannanna. „Hvorki jarðskjálftar, jarðeldar, snjóar né skriðuföll, eigi heldur harðir vetur, rekísinn frá Grænlandi eða meðfædd leti er meginástæðan, ekki heldur óhóf um brennivín, tóbak eða dýran fatnað.
Allt þetta vekur mikla eftirtekt, af því að fátæktin er orðin svo óskapleg, að menn geta ekki veitt sér nauðsynlegustu föt og fæði, og því síður veitt sér hófsamlegar skemmtanir, þar ovedsem þeir búa við þungbærari vinnu og erfiðari kjör en siðmenntir íbúar nokkurs annars lands í Evrópu nú á tímum. Hitt er annað atriði, hvort einokunarverzluninni verði komið í það horf, að hún geti nokkurn tíma bætt það, sem hún hefur eyðilagt.”
Fjárkúgun og yfirgangur valdhafa erlendra og innlendra hefur hvergi á Íslandi verið jafngegndarlaus og á Reykjanesskaga. Þar tefldu menn um líf sitt við máttarvöldin á sjó og landi á degi hverjum. Mannfallið í liði þeirra var mikið. Það lægju valkestir af líkum allt í kringum skagann, ef alla þá, sem drukknuðu þar undan landi, ræki á fjörur í einu. Þar féll mikil fylking fyrir hendi böðulsins, og höfðu margir, sem hana skipuðu, ekkert til saka unnið frá okkar sjónarmiði. Dysjarnar við Kópavog skýra þá sögu að nokkru. Hundruð manna urðu úti á götuslóðunum yfir eyðimörkina. Skaginn er samt sem áður ekki einungis stórslysastaður.

storuv

Hér hafa Íslenidingar löngum staðið í návígi við ofureflið, en ávallt hrósað sigri um það er lauk. Þess vegna er íslenzk þjóð til í dag. Það eru til margskonar orrustu vellir á Íslandi, en utan Reykjanesskaga eru þeir að mestu tengdir minningum um bræðravíg, sundrungu, sem leiddi til þess, að Íslendingar fóru flokkum um landið og drápu hverjir aðra. Hér var ráðizt gagn erlendnm ofbeldisseggjum og þeir hraktir af landi brott. Hafnarfjörður, Básendar og Grindavík — eru nöfn, sem eitt sinn skörtuðu í bréfabókum furstanna á Vesturlöndum. Áttu þeir að leggja út í styrjöld um gullkistuna við Reykjanes? Áttu þeir að kaupa land, þar sem umboðsmenn þeirra urðu höfði styttri eins og Týli Pétursson? Þeim leizt ekki á blikuna og létu Dani og Íslendinga eina um hituna. Það var á 16. öld. Eftir allar hörmungar 17. og 18. aldar tekur loks að rofa í lofti, það var slakað á einokunarfjötrunum og konungsjarðir seldar. Einokunin og bændaánauðin var gengin sér til húð ar, verzlunin orðin gjaldþrota, og byggðin á skaganum hafði dregizt saman, jarðir lagzt í eyði um langan eða skamman tíma, jafnvel höfuðbólið Hvalsnes um skeið. Þegar svo var komið, varð að breyta til og fara að tillögum Skúla Magnússonar, sem skarpast hafði gagnrýnt hina fornu verzlunarskipan. Dómur hans um einokunarverzlunina reyndist réttur. Þegar losnaði um einokunarfjötrana, gerðust kraftaverk við Faxaflóa.
Bjarni Sívertsen (d. 1833), kotungssonurinn úr Selvoginum, gerðist umsvifamikill kaupmaður fyrstur íslenzkra manna, rak stórútgerð og s
tofnaði skipasmíðastöð. Hann eignaðist 10 þilskip og hafði sum í förum milli landa. Þann 5. september hljóp fyrsta þilskipið af stokkunum i skipasmíðastöð hans í Hafnarfirði. Það var merkur atburður í sögu þjóðarinnar. Þar voru aldrei smíðuð mörg þilskip, af því að þau voru mjög dýr og menn höfðu í mörg horn að líta. Fullsmíðuð skúta, 10 lestlr, kostaði yfir þrjú þús. ríkisdali, en 18 konungsjarðir á Miðnesi, á meðal þeirra Hvalsnes, Býjarsker, Gufuskálar, Stóri-Hólmur og Keflavík, voru seldar fyrir tæpa 3.200 ríkilsdali 1791.

gufus

Menn þurftu að kaupa sig úr ánauðinni. Þótt verð jarðanna væri ekki hátt, þá voru ekki margir leiguliðar, sem gátu keypt ábýlisjarðir sínar fyrst í stað, en þeim fór fjölgandi, eftir því sem árin liðu. Um 1820 er meiri hluti jarða á Reykjanesskaga kominn í bændaeign. Það hafði orðið efnahagsbylting á skaganum. Á undraskömmum tíma höfðu menn rétt þar talsvert úr kútnum. Þar var mikill afli, gott i árferði, og menn áttu við stórum bætt verzlunarkjör að búa. Þangað sóttu menn á vertíðum alla leið norðan úr Þingeyjarsýslum. Árið 1829 var „vetur svo góður, að varla dóu grös, og fiskafli var mikill syðra.
Sumir fengu á 17. hundrað í, hlut, og um haustið var mikill afli á grunnmiðum”. Sökum hafnleysis voru árabátar, sem hægt var að setja að loknum róðri, hentugustu sjósóknarskipin um Strönd og Suðurnes. Í Hafnarfirði efldist bátasmíði fyrir atbeina Bjarna Sívertsens. Þar voru mestir skipasmiðir þeir Þorsteinn Jónsson bátasmiður á Hvaleyri (d. 1805) og Ólafur Árnason á sama stað og Gísli Pétursson á Óseyri. Sagt er, að Þorsteinn hafi smíðað um 200 báta, en Ólafur um það bil 100 apalhbáta, mjög vandaða og vel gerða. Nú eignuðust Íslendingar fyrstu lærðu skipstjórana, en þeir námu fræði sín erlendis. Fyrstur er talinn Guðmundur Ingimundarson í Breiðholti við Reykjavík. Hann keypti þilskip til fiskveiða og stýrði því sjálfur. Sú útgerð hófst 1803. Stjúpsonur Bjarna Sívertsens, Steindór Jónsson í Akurgerði í Hafnarfirði, tók sér nafnið Waage (d. 1825), var lærður skipstjóri og stýrði skipum milli landa, en litlu fyrr er talið, að Símon Sigurðsson frá Dynjandi í Arnarfirði hafi stýrt skipi yfir úthafið. Um þær mundir voru þrír óvenjulegir afreksmenn í tölu bænda við Vogastapa: Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík, Jón Daníelsson í Stóru-Vogum og Ari Jónsson í Innri-Njarðvík. Þeir smíðuðu og létu smíða sér sína skútuna hver og urðu allir miklir útvegsmenn, eins og síðar verður sagt.
helluhÞað var vor í lofti við sunnanverðan Faxaflóa í byrjun 19. aldar. Áður óþekkt framtak og atorka losnaði þar úr læðingi margra alda kúgunar. Frá Innri-Njarðvík kom sá maður, „sem við eigum hvað mest að þakka endurreisn íslenzkrar tungu og bókmennta á öldinni, sem leið”, hinn frægi þýðandi Hómersljóða, Sveinbjörn Egilsson rektor lærða skólans í Reykjavík (1852). Þaðan var einnig ættaður nafni hans og systursonur, Sveinbjörn Hallgrímsson, fyrsti ritstjóri Þjóðólfs.
Hvaleyrarhraun er fremur flatt helluhraun, liggur suður af Hvaleyrarholti. Það er fornlegt og stingur mjög í stúf við Kapelluhraunið, úfið apalhraun, sem hefur verið brotið niður til vegagerðar á stóru svæði umhverfis Kapelluna, dálitla rúst á óbrotnum hraunhólma sunnan við bílabrautina. Þar sem brautin liggur næst sjó yfir Hvaleyrarhraun, er jökulsorfin grágrýtiseyja stráð stórgrýti rétt norðan við veginn. Þar gægist fram grágrýtisundirstaða hins forna hrauns, en það hefur fallið allt til sjávar. Til marks um aldur þess eru bergstallar, sem sjórinn hefur klappað í það í flæðarmáli, og heita þar Gjögur með ströndinni. Innan frá Hvaleyrarsandi og út að Kapelluhrauni (Bruna, Þórðarvík). Við Hvaleyrarsand eru Þvottaklettar. Þar streymir fram tært vatn í fjörunni, kaldavermsl. Þangað fóru konur frá Hvaleyri með lín sín til þvotta og þurrkuðu þau á Þvottaklettum. Hér telja menn, að komi fram vatn Kaldár, sem hverfur í hraunin fyrir ofan Hafnarfjörð.
Við vegbrúnina fornu liggja björg, sem eitt sinn var þrekraun að þoka úr stað. Efst á Hvaleyrarholti sunnanverðu hvílir klettur við aflagðan vegarspotta. Hann fluttu tveir fullhugar úr vegarstæðinu, 11 ára piltur og þreklítill karl, Gísli Sigurgeirsson og Ólafur Sigvaldason. „Út skyldi skrattinn”, og hér liggur eitt afreksverk þeirra þúsunda, sem brautina ruddu.
raudhRauðhóll nefnist malargryfja austast í Hvaleyrarhrauni við vegamót Krýsuvíkurvegar. Þar stóð áður lítið en snoturt eldfjall, eflaust eitt hið minnsta hér á landi. Hér stóðu tjöld vegamanna, sem ruddu brautina yfir hraunið 1905-1906. Þeir voru allir úr Hafnarfirði, en lágu hér við, fóru aðeins heim til sín í Fjörðinn tvisvar í viku. Vegalengdir voru miklar í þann tíð. Nú er ekkert eftir af Rauðhól nema lágur gígtappi í miðju eldvarpinu, en hann reyndist mokstrarvélum harður undir tönn. Hóllinn er eldri en Hvaleyrarhraun, því að það lá utan á honum á alla vegu og ofan á rauðamölinni, en þunnt moldarlag og kolaðir lyngstönglar finnast á mótum malar og hrauns. Undirlag rauðamalarinnar er barnamold, kísilleir, sem hefur orðið til í ósöltu vatni. Þarna hefur verið tjörn endur fyrir löngu, þegar eldgosið varð. Undir barnamoldinni  er ægisandur með skeljabrotum, svo að hér hefur sjór staðið í eina tíð.
Fyrir utan Straum við gamla veginn er Rauðimelur, gíghóll sömu ættar og Rauðhóll, og ónefndur malarhóll innar í hrauninu. Þessi fornu eldvörp liggja í stefnu frá norðaustri til suðvesturs eins og kapelluhraðrar gígaraðir skagans, og eru þau sennilega á einni gossprungu, en flestir gígar hennar munu þaktir hrauni. Gíslaskarð er skammt fyrir utan Rauðhól við gamla veginn, þar sem hann hverfur milli hraunhólanna. Það lætur ekki mikið yfir sér, en segir sína sögu. Gísli Gíslason, síðar bakari í Hafnarfirði, varð að brjóta veginum leið gegnum hraunhólana með járnkarl og sleggju að vopni. Þá voru hraunin illræmd yfirferðar. Vegamenn voru að vinna í Gíslaskarði, þegar stórbruni varð í Flygenringshúsinu í Hafnarfirði. Þeir sáu reykinn upp af bænum, en vissu ekki hvað um var að vera og fóru því hvergi. Þá voru fáir karlmenn heima í Firðinum eins og oftar á sumrin í þá daga, svo að konur urðu að vinna slökkvi- og björgunarstörfin.
Kapelluhraun tekur við af Hvaleyrarhrauni, ungt apalhraun, sem hefur verið brotið til vegagerðar á stóru svæði. Heildarnafn þess er Bruninn.
Það nefnist Nýjahraun í Kjalnesinga sögu og máldögum fornum og mun runnið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, sennilega á 13. öld. Það er runnið frá um 7 kapekm. langri gígaröð norður frá Vatnsskarði og hefur steypzt fram af sjávarhömrum við ströndina, en sjórinn unnið lítt á því til þessa, af því hve lítill tími hefur gefizt til starfsins. Það dregur nafn af Kapellunni, dálitlu grjótbyrgi á óhreyfðum hraunhólma við syðri brún bílabrautarinnar. Þar liggur ósnortinn hinn forni reiðvegur yfir Brunann. Við rannsókn 1950 fannst þar lítið líkneski heilagrar Barböru. Það er forn kristinn siður að reisa smákapellur við vegi mönnum til bænagerðar. Heilög Barbara og nafnið Kapella sannar, að hér hefur verið slíkur bænastaður. Nokkrar sagnir eru tengdar rústinni og fjalla um, að þar hafi verið dysjaður maður eða menn frá Bessastöðum vegnir til hefnda fyrir líflát Jóns Arasonar og sona hans. Ekki munu þær hafa við neitt að styðjast… Bruninn eða Nýjahraun hefur verið illur farartálmi, þegar það brann, og lokaði hér leiðum. Snemma hefur braut verið rudd yfir það, hlykkjóttur stígur, en sæmilega breiður og sléttur, svo að þar var hægt að spretta úr spori. Það er einhver elzta rudda brautin hér á landi. Eldri er Berserkjagata á Snæfellsnesi.
kaÞegar menn bruna bílabrautina fram hjá Kapellunni, geta þeir minnzt þess, að þar liggur hin forna slóð skreiðarlesta, vermanna, förufólks og höfðingja, sem þreyttu göngu eða teygðu gæðingana til verstöðvanna á Suðurnesjum. Hér fóru vopnaðar sveitir í eina tíð til þess að reka erlenda ribbalda úr stöðvum sínum í Gríndavík, hér fóru Hamborgarar með umboðsmann Danakonungs í taumi eða létu hann hlaupa fyrir hestum sínum og vísa sér á konungsskreiðina, og hér lögðu Norðlendingar leið sína, þegar þeir fóru suður á Rosmhvalanes 1551 til hefnda eftir líflát Jóns biskups Arasonar og sona hans.
Ytri brún Brunans er við Straumsvíkina. Þar liggur bílabrautin beint niður brekkuna, sunnar sveigir gamli akvegurinn sömu leið, en undan honum hlykkjast vagnvegyrinn frá 1906. Hér getur að líta þrjú stig íslenzkrar vegagerðar hlið við hlið, en fjórða og elzta stigið eru troðningarnir við Kapelluna, og víðar gægjast þeir fram við vegbrúnina. Elzti vegurinn er mesta mannvirkið, ef vel er að gáð.
Hann er lagður fyrir farartæki, sem knúið var áfram Straaf einu hestafli. Hann sneiðir brekkur og forðast mishæðir til þess að spara hestum átök og erfiði á löngum og lýjandi lestaferðum. Brúnir vegarins eru rúmlega tvær mannhæðir, fagurlega hlaðnar. Grjótið var borið á handbörum, og verkið lofar meistarana.
Hraunabæir nefndist byggðin við Straumsvíkina og að Lónakoti. Þar voru 14 býli, um þær mundir sem vegagerðin hófst fyrir 57 árum, en aðeins búið á tveimur jörðum, þegar henni lýkur með því að lögð er steypt akbraut um sveitina, en auk þess eru þar nokkrir sumarbústaðir. Hraunabæir þóttu afskekktir, áður en vegurinn var lagður 1906, en svo var þar gott undir bú, að menn dóu þar aðallega úr elli, að því munnmæli herma.
Straumsvíkin er fegursti staðurinn á leiðinni út Reykjanesskaga. Þar eru miklar uppsprettur í fjörunni og sæmilegt drykkjarvatn, þegar lágsjávað er. Uppspretturnar, straumarnir, gefa víkinni nafn. Húsin, sem standa að Straumi, voru reist af Bjarna Bjarnasyni. skólastjóra á Laugarvatni, en hann rak hér bú um og eftir 1920. Austan víkurinnar standa fornleg hús eyðijarðarinnar Lambhaga, sem var tijáleiga frá Þorbjarnarstöðum, eyðibýlis í hrauninu sunnan vegar. Einnig stóðu hér í eina tíð Péturskot og Gerði, en út með víkinni Þýzkabúð Straumsvík-800og Jónsbúð, og stendur kofi á stað þeirrar fyrrnefndu. Hér var verzlunarhöfn á þeim öldum, er útlendir kaupmenn slógust um hverja krummavík við Faxaflóa. Þegar Þjóðverjar tóku að sækja til Hafnarfjarðar, slógu Englendingar búðum í Straumsvíkinni. Þannig var það vorið 1486. Þá unnu Þjóðverjar kappsiglinguna til fjarðarins, svo að Englendingar lögðu skipum sínum við klettana sunnan víkurinnar. Þaðan gerðu þeir áhlaup á Hafnarfjörð, tóku þá Hansakaupfar herskildi og nokkurn hluta áhafnarinnar. Þeir sigldu með aflann til Írlands og seldu þar skipið og mennina 11 að tölu í Calway. Það er eitt hið síðasta, sem vitað er um þrælaveiðar á Íslandi, unz Hundtyrkinn kom hingað 1627.
Vorið 1551 sendi Kristján konungur III skipalið til Íslands til þess að brjóta niður uppreisn kaþólskra manna. Frægasti sjóliðsforingi og víkingur i Danaher um þær mundir var Otti Stígsson. Hann lenti tveimur herskipum á Straumsvíkinni fyrir alþingi. Hernum var ekki veitt nein mótspyrna, af því að Jón Arason biskup og synir hans höfðu fallið fyrir böðulsöxi haustið áður.
Norðlingar drápu Kristján skrifara og menn hans seint í janúar um kirkjubveturinn á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi. Nú varð herinn að vinna sér eitthvað til frægðar og sneri því vopnum sínum gegn bóndanum á Kirkjubóli, Jóni Kenikssyni, og Halli, húsmanni hans í Sandhólakoti. „Þeir voru báðir teknir um sumarið eftir og áttu að flytjast til alþingis. En þeir voru þverbrotnir og bágir viðureignar, fluttu þá að Straumi, og voru þeir þar báðir hálshöggnir. Þar var þá kaupstefna. Höfuðin voru fest á stengur, en bolirnir á hjóli sundur slitnir, og sá til merkis meir en 20 eður 30 ár.” Þeir Jón og Hallur voru þverbrotnir og bágir viðureignar, svo að herinn þorði ekki með þá til alþingis. Þar var herskipið og kanónurnar svo langt í burtu. Hér svalaði herinn metnaði sínum með því frægðarverki að stegla þá félaga. Hér gat að líta pyndingatækin og líkami píslarvottanna við götuna vegfarendum til áminningar.
Um túnið á Straumi liggur braut að Óttarsstöðum, fornri útvegsjörð í hrauninu utan við víkina. Þar voru kot í túni, m.a. Eyðikot og Lónakot nokkru utar með ströndinni. Þar hrjáði fólk mest um Reykjanesskaga, og brennið, sem þeir stungu undir pottinn á hlóðunum, var oft eingöngu
þurrkað þang og þari.
almennAlmenningur var illrændur í eina tíð fyrir það, hve hann var ógreiðfær, og þar var riki huldufólks og drauga. Fá skýr kennileiti eru meðfram bílabrautinni. Goltri heitir hóll, fyrsti verulegi hraunhóllinn, fyrir utan Straum við veginn. Austan við Hvassahraun er Sprengilendi, en nær túninu iiggur brautin milli
Skyggnis og Virkishóla.
Nokkru fyrir utan Goltra liggur vegur af brautinni suður hraunið og yfir á gamla veginn. Nokkru utar liggur annar vegur af honum yfir malargryfju innar í hrauninu. Þarna eru harðbalatún, erfitt um ræktun og engjar engar, en fjárbeit góð. Þótt byggðin standi við steypta bílabraut og háspennulínu, þá hefur rafvæðing íslands ekki náð heim á bæina, og brautin heim er allfrumstæð. Almenningur nefnast fornleg hraun utan við Straum, runnin frá ýmsum eldstöðvum undir Sveifluhálsi, m.a. við Mávahlíðar. Þar er víða talsverður trjágróður þrátt fyrir gengdarlausa rányrkju rúmlega 10 alda. „Rifhrís til kolagjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því rifhrísi stóran ágang af Stærri og Mínni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigu mönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfénað í heyskorti. — . . . Eldiviðartak er af hrísi mestan part”, segir í ottasbkafla Jarðabókarinnar frá 1703 um Hvassahraun.
Hér var mótekja nær engin og reki lítill, svo að hrísið var aðaleldsneyti manna frá upphafi vega, og einnig bithagi búsmalans í harðindum. Þegar það þraut, rifu menn lyng og mosa og þurrkuðu þang til eldsheytis. Menn gengu hart að gróðrinum engu síður en útigangsfé, því að eldsneytis varð að afla, hvað sem það kostaði. Það eru engin undur þótt gróður um Almenning og Strandarheiði sé orðinn tærður af rányrkju margra alda. Eldiviðarskort urinn var ein af þeim plágum, sem Gryfja þessi er fornt rauðamelseldvarp eins og Rauðhóll. Þaðan sér nokkru utar mikla fjárborg, Kristrúnarborg, sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum reisti með vinnumanni sínum einn veturinn seint á 19. öld. Þetta er mikið mannvirki og sýnir, að konur hafa kunnað að hlaða grjóti engu síður en karlar.
Austur af malargryfjunni rís hraunhæð, Smalaskáli, og er fornt skotbyrgi efst á henni. Suður af gryfjunni er hraunið mjög sprungið, hefur þar hrannazt upp kringum dálítinn gjallhól, eldvarp, og er kollur hans botn í alldjúpri skál eða kvos í illgengum hraunkarganum. Hóll þessi er ósnortinn, af því að illfært er að honum.
gvendarbrGamli vegurinn milli Straums og Hvassahrauns liggur nokkru innar í hrauninu en bílabrautin. Rauðimelur, fornt eldvarp, er skammt fyrir austan Smalaskála. Hann er eldri en hraunið, sem hefur lagzt utan að honum. Sumarið 1906 þokaðist gamli Keflavíkurvegurinn suður hraunin, og slógu vegamenn tjöldum um haustið við Rauðamel. Innar í hrauninu er Gvendarbrunnur, hola í sléttri klöpp austan við Gvendarbrunnshæð. Staðurinn er kenndur við Guðmund biskup góða. Vatnsbólið er heldur
ókræsilegt, en hefur þó svalað mörgum á leið um eyðimörkina.
Vatnsleysuströnd hefst hjá Hvassahrauni, innsta bæ á Ströndinni, eða nánar til tekið við Hraunsnes austan við Vatnsleysuvík. Nafnið merkir ekki ströndin vatnslausa, eins og flestir hyggja, heldur vatnslausnar ströndin, ströndin, sem vatnið streymir undan. Jarðvatnið, sem nær ekki að verða að ám og lækjum og liðast milli grösugra bakka um skagann, kemur hér fram í fjörunni. Fjöruvötnin eru sérkenni strandarinnar.

Vatnsl

„Vatnsból er næsta því ekkert nema fjöruvötn, og eru þau sölt”, segir Jarðabókin um Stóru-Vatnsleysu. Árið 1703 eru um 250 manns í sveitínni, 1760, 360, 1890 rúmlega 900, en 1960 um 370. Árið 1780 áttu Strandarar 121 bát, tveggjamannaför, en auk þeirra voru gerðir þar út 64 aðkomubátar, tveggjamannaför nema einn. Þá voru þar 269 aðkomnir vermenn um vertíðina. Á 19. öld stækkuðu bátarnir, sexæringar urðu algengastir, en bændur áttu þar einnig áttæringa og teinæringa, þilskip og loks skútur. Þá vex þar útgerð og sjávarafli miklu meir en mannfjöldatölur gefa til kynna. Um 1960 áttu bændur á Vatnsleysuströnd um 1200 fjár, 80 kýr, rúmlega 1000 svín og talsvert af alifuglum. Þar er frystihús og fiskverkunarstöð og vélbátaútgerð í Vogum.
Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi” eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin”. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjörur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó. En það voru ekki allir, sem gátu reist limburhallir, þótt strandgóssið væri ódýrt.
„Umhverfis stórbændabýlin”, segir Kristleifur Þorsteinsson, „voru fjölmjög þurrabúðarkot, sem öll voru byggð úr torfi,bæði þröng og óvistleg í mesta máta. Voru slíkir kofar aleiga þeirra, er í þeim bjuggu baeog lifðu þar við sult og seyru. Sá ég fyrst, er ég kom í þessa byggð, hvað fátæktin getur hnekkt bæði andlegum og líkamlegum þroska. Á alla vegu út frá stórbændum var hinn snauði þurrabúðarlýður. Útvegsbændur höfðu aftur á móti allsnægtir og böðuðu í rósum, eins og það er orðað”.
Árið 1904 strandaði norskt skip með timburfarm á Vogavík. Það vogrek varð til þess að útrýma torfbæjum að mestu í nágrenninu. Við Voga var kraðak af kotum, en þau hurfu úr sögunni að mestu snemma á þessari öld og fólk flýði Ströndina til betri hafna við Faxaflóa.
Nú þéttist byggðin að nýju við hina fornu verstöð. Vogar eiga sennilega eftir að verða talsverður útvegsbær. Hvassahraun þótti góð sauðjörð í eina tíð, og þaðan var talsvert úrræði. Jörðinni fylgdu nokkrar hjáleigur, en nú hefur hún verið í eyði um skeið. Aðalvatnsbólið þar á bæ var í hraunslakkanum sunnan við bílabrautina, litlu utan við túnið. Þar sér af brautinni ofan í smáseftjörn og hraunbrunn.
Arnstapahraun er úfinn hraunfláki utan við Hvassahraun, en frá honum teygist hrauntunga til sævar við Kúagerði. Nú nefnist það venjulega Afstapahraun, en mun latmæli.
Upphaflega mun hraunið afstasennilega haft verið samnefnt bænum, enda hvassast hrauna hér um slóðir, áður en Bruninn varð til. Norður af Trölladyngju er snotur eldborg, en úr henni hefur Arnstapahraunið runnið nokkru fyrir landnámsöld. Arnastapi er týnt örnefni.
Litlu innan við hrauntunguna við ströndina eru Látur og Látratjörn í hrauninu. Í tjörninni geymdu menn fiska, jafnvel lúðu, til þess að hafa nýtt i pottinn. Hér voru selalátur, urta og kópur byltu sér í fjorunni.
Kúagerði er forn áningarstaður við ytri jaðar Afstapahrauns. Þar eru smátjarnir, og liggur bílabrautin um þá stærstu. Betra þótti lestamönnum að hafa eitthvað til þess að blanda drykkjarvatnið.
Hér verða skörp gróðrarskil, úfnu, gróðurlitlu apalhrauni sleppir, en við tekur Strandarheiði, mjög fornleg helluhraun, sennilega 8 til 9 þúsund ára gömul. Elztu aldursmerki eru forn fjörumörk ” Ströndinni, m.a. hjá Kúagerði í um 10 m. hæð.
kuagVatnsleysuströndin er eini staðurinn hér á landi, þar sem þess sjást merki, að sjór hafi staðið hærra en nú á hrauni, sem runnið er eftir ísöld. Hrafnagjá, sem hefst vestan við túnið á Vatnsleysu og les sig suðvestur heiðina, og Aragjá stóra og litla innar á heiðinni, vitna einnig um aldur hraunsins, því að þær hverfa undir önnur hraun yngri. Vatnsleysustrandarhraun eru runnin frá mikilli dyngju nafnlausri
suður af Keili. Hún er mjög flöt, svo að ófróðum mönnum sést yfir, að hér er um eldfjall að ræða.
Akurgerði var fornt býli inn af Kúagerði. Það er eitt margra örnefna, sem minna á akuryrkju við Faxaflóa að fornu.
Steinunn hét kona og var kölluð hin gamla. Hún taldi til skyldleika við Ingólf landnámsmann i Reykjavík en hafði verið gefin bróður Skalla-Gríms, Þeir frændur urðu ekki langlífir í föðurlandi sínu, Noregi og lenti Steinunn i ekkjustandi. Þá leitaði hún til frænda síns í Reykjavík.

lei

„Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes ailt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla (Landnáma). Hekla var tízkukápa í þann tíð, en er nú gamaldags hökull á eldfjalli austur á Rangárvöllum. Fyrir stássflíkiná hlaut Steinunn alla Vatnsleysuströnd, Voga, Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Miðnes og allt að Ósabotnum. Kjarval gaf eitt sinn 10 þús. kr. málverk fyrir prjónavesti og þótti dýrt, en stertimennið Ingólfur lét einhverjar dýrmætustu lendur Íslands fyrir sparikápu til þess að spóka sig í á hinum tilvonandi rúnti Reykjavíkur. Skartgirni Reykvíkinga er ekki ný af nálinni.
Steinunn mun hafa búið að Stórahólmi í Leiru.
Vatnsleysuvík skert inn úr Faxaflóa milli Keilisness og Hraunsness. Við víkina hjá Vatnsleysu var verzlunarhöfn á 16. öld en lögð niður eftir að einokun hófst, og var bændum gert að sækja verzlun til Hafnarfjarðar.
Stóra-Vatnsleysa var útvegsjörð og kirkiustaður, en þar býr enginn, þegar þetta er ritað. Þar þótti reimt mjög á síðari helmingi 19. aldar, — draugar gengu þar um bæinn með hurðaskellum og látum og leituðu jafnvel í sæng til vermanna, en þóttu kaldir rekkjunautar. Hér eins og víðar er stórbýlið að hverfa í skugga smábýlisins.
vatnsleyMinni-Vatnsleysa er eitthvert mesta svínastórbýli í einstaklingseign á Norðurlöndum. Þorvaldur Guðmundsson kaup- og veitingamaður í Reykjavík stofnaði þar svínabú og alifugla 1954. Nú rýta 1000 svín, þar sercráður var hlaðið þorski. Frá Minni-Vatnsleysu eru hinir kunnu Auðunssynir, fimm sklpstjórar í íslenzka fiskiflotanum. Þeir eiga sér fimm systur, og eru sumar giftar skipstjórum. Auðun, faðir þeirra, var útvegsbóndi á Minni-Vatnsleysu, sonur Sæmundar Jónssonar bónda þar, en hann var einn af mestu útgerðarmönnum á Ströndinni seint á 19. öld, gerði út áttæring og þrjá sexæringa.
Flekkuvík er yzt bæja við Vatnsleysuvíkina. Úr Dalsfirði í Noregi, heimabyggð Ingólfs landnámsmanns, skerst Flekkufjörður, kenndur við bæinn Flekku. Þaðan á Flekka landnámskona að hafa komið. Ingólfur fékk henni bólstað í Flekkudal í Kjós. Þar festi hún ekki yndi og fluttist í víkina, sem við hana er kennd. Þar var gnægð veiðiskapar undan ströndinni og góð lending, en vandrötuð. Flekka mælti svo fyrir andlát sitt, að sig skyldi heygja í túninu gegnt innsiglingunni og aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan kumlið sæist. Þessu hafa menn trúað og sennilega orðið að trú sinni.
flekkusÍ túninu í Flekkuvík er dálítil þúst, klapparhóll, sem nefnist Flekkuleiði. Á honum liggur hraunhella, letruð rúnum: „Hér hvílir Flekka”. Rúnirnar munu ristar á 17. eða 18. öld til virðingar við verndarvættina Flekku. Í Flekkuvík er tvíbýli og gerðu bændur þar út sinn sexæringinn mjög vel útgerð”, segir Ágúst Guðhvor seint á 19. öld. „Lánaðist þar mundsson frá Halakoti í endurminningum sínum. Pétur Helgason, ungur formaður á báti frá Flekkuvík, bjargaði fimm mönnum af kili í óveðri undan Keilisnesi. Skipið var frá Vatnsleysu, og fórst þar formaðurinn, Auðun Jónsson, við þriðja mann. „En eftir þann róður fór Pétur aldrei á sjó, og var það skaði mikill með svo vaskan mann”, segir Ágúst. Þetta var 1887, þann 29. marz. Síld hefur löngum gengið á Faxaflóa, en lítil tök höfðu íslendingar
um rak hana á f jörur í stórviðrum. Um sumarmál 1863 er sagt, að rekið hafi feikn af síld í Vogum. Á síldarhrönnin við ströndina að hafa náð mönnum í mitt læri. Árið 1880 fór ívar Helgason, bróðir Péturs, til Noregs, ásamt tveimur öðrum mönnum, til þess að læra síldveiðar. Hann kom upp með 30 síldarnet og hóf veiðar. Síldina notaði hann einkum í beitu og varð manna aflasælastur.
Af Ívari lærðu menn hina nýju veiðitækni. Síldveiðar við Faxaflóa eiga upphaf sitt að rekja til Flekkuvíkur. Sjór brýtur kampa utan við Flekkuvík eins og víðar á Ströndinni. Þar hafa fundizt fornar rostungstennur i bökkunum og eitt sinn heiltennt hauskúpa. Hér hafa rostungar bylt sér í fyrndinni, en ísbirnir leitað að bráð, þótt bein þeirra hafi ekki fundizt. Rosmhvalanes er kennt við rostunga, rosmhvali, svo að þar hafa þeir leitað að landi á fyrstu öld eða öldum landsbyggðarinnar.
Bílabrautin á að liggja úr Kúagerði út yfir Vatnsleysuheiði, Vatnsleysustrandarheiði eða Strandarheiði og Vogaheiði og suður um Vogastapa til Keflavíkur. Strandarheiði sker byggðina milli Flekkuvíkur og
Kálfatjarnar og nær til sævar á Keilisnesi. Strandarar kalla suður fyrir heiðina til Kálfatjarnar, en Kálftirningar inn fyrir heiðina til Vatnsleysu, en hvorir tveggja fara þeir suður til Reykiavíkur.

kalfatj

Brautin verður það innarlega á heiðinni, að hún liggur handan við holt og hæðir suður frá byggðinni, sem fylgir ströndinni rækilega. Hér voru sel í eina tíð innar á heiðinni. Skúli Magnússon segir, að Strandarheiði sé „eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það sem ég hef séð á Íslandi”. Hér hafa verið skógar, eins og ýmis örnefni votta, en gróður hefur eyðzt mjög frá dögum Skúla og land blásið.
Skammt fyrir utan Kúagerði á brautin að liggja um allbreiðan sigdal, sem takmarkast af Hrafnagjá að utan, en Brúnum að innan (sunnan) og les sig út á Reykjanestá um Snorrastaðatjarnir og Seltjörn.

Stadarb

Utan vegar á Strandarheiði verða Hrafnhólar fyrst, en þá Þorsteinsskála. Af Þorsteinsskála er mjög víðsýnt um strendur Faxaflóa og Reykjanesskaga. Þá koma Lágar, sem ýmist eru kenndar við Vatnsleysu eða Kálfatjörn, og Lynghóll. Utan og norðan við Þorsteinsskála sér mikla fjárborg á sléttri klöpp, og nefnist Staðarborg eða Prestborg. Munnmæli herma, að vinnumaður á Kálfatjörn hafi reist borgina og ætlað að topphlaða hana, láta hleðsluna ganga saman í hvelfingu, en prestur bannað það. Þetta gramdist byggingameistar-anum, svo að hann hljóp úr vistinni. Borgin er meistaralega hlaðin. Fjárborgin íslenzka er fornrar ættar, telur jafnvel til frændsemi við hernaðarmannvirki
bronsaldarmanna, en hér var hún hlaðin sauðkindum til varnar í vetrarnæðingum. Þetta mun vera ein hver stærsta fjárborgin íslenzka, og er hún friðlýst og stendur undir vernd þjóðminjavarðar. Sunnan vegar eða innan er Kirkjuholt, Marteinsskáli og Kolgrafarholt í útsuður frá Staðarborg eða nokkru utar við brautina. Þar hefur áður verið höggvinn skógur til kola gerðar. Hrísið á Strandarheiði var að mestu uppurið á 19. öld, en menn rifu lyng til eldsneytis, unz allt þraut. Rányrkjan var ekki afleiðing skilningsleysis á þeim landspjöllum, sem unnin voru, heldur neyddust menn til að afla eldsneytis, hvað sem það kostaði. Stórbændurnir í Vogum bönnuðu með öllu hrístekju í Vogaholti laust fyrir 1900 og gerðu upptæka síðustu hrísbaggana, sem landseti þeirra tók í holtinu. Skógarvörð settu bændur við heiðina um miðja 19. öld.
cooKeilisnes er nyrzti tangi Vatnsleysustrandar. Undan nesinu fórst togarinn Coot 16. desember 1908, fyrsti vélknúði botnvörpungurinn, sem Íslendingar eignuðust, keyptur til landsins 1904. Hann var með skútuna Kópanes í eftirdragi. Mannbjörg varð. Á sömu slóðum fórst vélbáturinn Haukur frá Vatnsleysu 11. febrúar.

Byggðin á Vatnsleysuströnd skiptist i hverfi. Utan Strandarheiðar verður fyrst fyrir Kálfatjarnarhverfi, þá Þórustaðahverfi og Auðnahverfi.
Kálfatjörn er kirkjustaður. Nafn á að vera dragið af því, að kálfar af sækúakyni eiga að hafa komið úr Naustakotstjörn við sjávargötu Kálftirninga. í fornum máldaga er staðurinn nefndur Galmatjörn. en það er marklaust nafnahrengl. Ekki vilja sagnir hlíta því, að kirkja hafi frá upphafi staðið að Kálfatjörn, heldur á hún að vera flutt þangað undan ágangi sjávar annaðhvort frá Þórustöðum eða Bakka, austasta bænum í hverfinu. Sá bær var fluttur tvisvar undan sævarbroti á 18. öld. Að Kálfatjörn stendur ein af stærstu sveitakirkjum hér á landi. Hún var reist 1893, og voru þá rúmlega 900 manns í sókninni og um helmingi fleiri á vertíðum. Nú teljast sóknarbörnin um 370, og vermenn eru hættir að sækja á Vatnsleysuströnd.

godh

Þar var prestssetur til 1919, en þá var staðurinn gerður anniexía frá Görðum á Álftanesi og situr presturinn nú í Hafnarfirði. Kirkjugarðurinn á Kálfatjörn er heimatilbúinn, mold hefur verið ekið í hann, til þess að unnt væri að grafa menn þar skikkanlega, en jarðvegur er víðast grunnur á Ströndinni. Einn af Kálfatjarnarklerkum var Ámundi Ormsson, d. 1670. Á hans dögum bjó Björn Sturluson smiður á Bakka. Þeir voru báðir hagyrðingar. Björn var bendlaður við víg og óttaðist líflátsdóm, en var að lokum sýknaður.
Sveinbjörn Hallgrímsson er einn af mestu afreksmönnum, sem þjónað hafa Kálfatjarnarsókn. Hann vígðist aðstoðarprestur þangað 1842 og bjó i um skeið í Halakoti í Brunnastaðahverfi. Byltingarárið mikla 1848 stofnaði hann ásamt Páli Melsteð sagnfræðingi hálfsmánaðarblaðið Þjóðólf. Það varð langlífasta og eitthvert ábrifaríkasta málgagn, sem út hefur komið hér á landi. Aðstoðarpresturinn frá Kálftjörn er fyrsti íslenzki blaðamaðurinn. Þjóðólfur var löngum eitt helzta málgagn sjálfstæðisbaráttunnar útgefið hér á landi. Ármann á Alþingi, Fjölnir og Ný félagsrit voru gefin út í Kaupmannahöfn. Nú réðust fslendingar heima fram á ritvöllinn, tóku að gagnrýna stjórnarvöldin, krefjast aukins þjóðfrelsis og lýðréttinda.

moak

„En látum oss þá vakna, íslendingar, látum þjóðlyndi og þjóðrækni ná því valdi vfir hugum vorum, svo að vér álítum engin þau málefni oss óviðkomandi, sem að einhverju leyti horfa til heilla fyrir land vort.” — Þannig hljóðar ávarp Sveinbjarnar ritstjóra í fyrsta tölublaði Þjóðólfs. Hann hefur eflaust hvatt sóknarbörn sín af stólnum í Kálfatjarnarkirkju til þjóðrækni, djörfungar og framtaks. Hann var
ættaður úr Innri-Njarðvík, systursonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors.
Þingstaður hreppsins var að Kálfatjörn fram til ársins 1818. Þá voru hreppsþingstaðirnir að Kálfatjörn, ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði. Kaupmaðurinn þar, Knud Storm, hafði ekki viljað nýta þessa vöru, en samt sem áður kærði hann Hólmfast fyrir verzlunarbrot og fékk hann dæmdan í háa sekt. Hólmfastur átti ekkert fémætt nema gamalt bátskrifli, og Knud Storm vildi ekki nýta það fremur en vöru bóndans og krafðist húðláts.
Var Hólmfastur bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi og húðstrýktur miskunnarlaust að Holmsfastskotamtmanni viðstöddum, en því skotið til konungs, hvort hann skyldi ekki dæmdur til þrælkunar á Brimarhólmi. Hér var þó of langt gengið. Hinn danski lögmaður, Láritz Gottrúp, kærði meðferðina á Hólmfasti fyrir konungi, og síðar tóku þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín málið upp, og hlaut Hólmfastur nokkrar miskabætur. Eftir þetta var gerræði kaupmanna hnekkt að nokkru. Píslírnar við staurinn á Kálfatjarnarþingi voru ekki færðar til einskis. Hólmfastur Guðmundsson býr síðan á Bræðrakoti, hjáleigu frá Innri-Njarðvík.
Þingstaðir á Bæjarskerjum á Rosmhvalanesi og Járngerðarstöðum í Grindavík aflagðir, en þingstaður fyrir alla þrjá hreppana settur í Njarðvíkum. Þá voru Njarðvíkurnar einnig sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi, og hélzt það til 1885, en þá voru þær gerðar að hreppsfélagi með Keflavík. Þessar breytingar á hreppaskipt ingu eru sprottnar af fólksfjölgun á Ströndinni á 19. öld. Á fornum þingstöðum hefur víða verið helgistaður í heiðnum sið, og svo mun einnig á Kálfatjörn. Nokkru fyrir vestan bæinn er hóll, Goðhóll, og stóð þar kot í eina tíð. Hér hefur sennilega staðið hof þeirra Strandara.
BrunnaEinn afburður á Kálfatjarnarþingi er frægur að endemum í Íslandssögunni. Árið 1698 seldi bóndinn á einni hjáleigunni á Brunnastöðum, Hólmfastur Guðmundsson, 3 löngur, 10 víkum, árið 1703 og telst þá 56 ára. Árið eftir strýkingu Hólmfasts (1699) fékk Knud Storm menn á Kálfatjarnarþingi til þess að veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m.a., „að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann . . . og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér skylduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum”. Landakot er austast í Auðnahverfi. Þar bjó Guðmundur Brandsson,
þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1849-1861. Á alþingi barðist hann einkum fyrir því, að öllum flóum og fjörðum yrði lokað fyrir erlendum fiskiskipum, en danska stjórnin var ekki mjög skelegg í landhelgismálum íslendinga, eins og kunnugt er. Guðmundur drukknaði undan Flekkuvík við þriðja mann haustið 1861.
KnarrÁ Auðnum bjó Guðmundur Guðmundsson, einn af gildustu bændum á Ströndinni seint á 19. öld, átti 8 til 10 báta, auk þess þilfarsbát og rak stórbú. Á eínum af bátum hans reri Kristleifur Þorsteinsson fræði maður á Stóra-Kroppi 1882. Báturinn fórst í stórviðri út af Vogavíkinni. Kristleifur bjargaðist við annan mann, en 5 drukknuðu.
Knarrarnes, stóra og litla, standa utan við Breiðagerðisvíkina. Við forna heimreið að Stóra-Knarrarnesi er grágrýtisbjarg og á það klöppuð þessi vísa:
Seytján hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von;
svo þá gjórði sem hér stár,
sá hét Bjarni Eyjólfsson.
Bjarni, sem ríslaði sér við að festa nafn sitt á steininn, var gildur bóndi Á Knarrarnesi um 1700. Menn vilja eigna honum ýmsar steinsmíðar fornar, áletranir á legsteina og jafnvel hleðslu Staðarborgar.
Gerðistangaviti stendur yzt á Atlagerðistanga, reistur til þess að vísa skipum leið milli Keflavíkur og hafna í Innnesjum og bátum til strandar við Stakksfjörð.
GerdistangavitiÁsláksstaðahverfi stendur á tanganum inn af vitanum. Það var útvegur eins og annars staðar á ströndinni. Þar drápu klausturmenn úr Viðey danskan mann veturinn 1540, en sá hafði verið í flokki Diðriks af Mynden, er hann rændi Viðeyjarklaustur á hvítasunnunni sumarið áður. Þá þeir fóru í ver um veturinn, „fóru þeir í Vatnsleysu á skipj og gengu þaðan um nóttina á Ásláksstaði og drápu Jóachim.” Hann var sá 13., sem tekinn var af lífi fyrir klausturránið. „Þótti mönnum það mikil og góð landhreinsun.” Á Ásláksstöðum stendur timburhús reist úr viði þeim, sem var á skipinu Jamestown, er strandaði í Höfnum 1881. Á Þórustöðum og í Óttarsstaðahverfnu standa einnig hús, sem reist voru úr því timbri.
Brunnastaðir voru metnir einna dýrastir jarða á Vatnsleysuströnd um miðja 19. öld. Þar var eitt bezta útræði á Ströndinni og skammt að sækja á stórgjöful mið. „Um miðja öldina voru margir bændur þar, en allir fátækir og reru hver hjá öðrum á tveggja manna förum, því að ekki áttu allir bát. En svo fluttust að Brunnastöðum tveir miklir athafnamenn, sinn á hvora hálflenduna, og þá skipti um.”
Guðmundur ívarsson hét annar frá Skjaldarkoti í Kálfatjarnarhverfi. Um 1865-1870 lét hann smíða sér teinæring, og var það um skeið eitt bezta skipið við Faxaflóa. „Um 1880 átti Guðmundur auk þess 3—5 sex manna för. Var þá mannmargt hjá honum, allt að 50-60 manns í heimili, því að skipverjar höfðu allir aðsetur þar heima, því að verbúðir þekktust varla.”
Jón Breiðfjörð Jónsson hét hinn. Hann fluttist að Brunnastöðum um 1870 og Iét þá breyta áttæring í þilfarsbát. Um 1890 er talið, að hann hafi gert út 6—8 skip, en auk þess rak hann verzlun. Þá fóru erfið ár í hönd. Erlendir togarar streymdu inn á Faxaflóa, eyðilögðu bátamiðin og aflinn brást. Jón varð að taka 1000 króna bankalán og þótti það stórfé. Hann gat ekki staðið í skilum og varð gjaldþrota og dó skömmu síðar. Hann hafði hýst bæ sinn af stórmennsku, en eftir gjaldþrotið lentu eignirnar í oraski og húsin brunnu 1905. Þá var uppgangstími Vatnsleysustrandar á enda um skeið. Barnaskóli var reistur að Brunnastöðum 1870-1872.

Brunnastaðaskoli

Séra Stefán Thorarensen gekkst fyrir skólastofnuninni, og naut hún nokkurs styrks úr Thorchilliisjóði. Þar var Pétur Pétursson, faðir dr. Helga Pjeturs, kennari um skeið. Þetta er einn af elztu barnaskólum á landinu.
Bieringstangi er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, kenndur við Moritz W. Biering kaupmann (d. 1857). Þaðan hefur lengi verið stundað útræði, og þar er stærsta vörin á ströndinni. Um 1840 er þar risin
fisktökustöð, salthús og fisktökuhús, sennilega frá Flensborgarverzluninni í Keflavík. Á lofti þeirra voru verbúðir, en í kring stóðu þurrabúðirnar Vorhús, Hausthús og fleiri. Einnig var þar önnur útgerðarstöð, Klapparholt. Eldra nafn á verstöð þessari er Tangabúðir. Á Bieringstanga var reimt eins og á fleiri verstöðvum. Draugurinn var erlendur að uppruna, gekk með hvíta húfu, en ekki mórauða og var því nefndur Tanga-Hvítingur. Hann gerði mönnum ýmsar glettur eins og drauga ér siður, og íeyttu menn ýmissa bragða til þess að losna við kauða. Eitt sinn skaut bóndinn í Halakoti hann með úlfurhnappi, en það átti að vera draugum öruggt skeyti. Hvítingur sundraðist í eldglæringar við skotið, en skreið saman aftur og hélt uppteknum hætti fram um 1890, en hvarf um þær mundir að sögn.
HalakotHalakot er syðst í Brunnastaðahverfinu. Þar bjó Ágúst Guðmundsson Ívarssonar á árunum frá 1910-1941. Eftir hann er greinagott rit um sjósókn og búskap á Vatnsleysuströnd á tímabilinu frá því um 1860 og fram um 1900. Hann var formaður frá 1888 til 1940 og missti aldrei mann í sjó og engin slys urðu á skipshöfn hans.
Stakksfjörður gengur inn fyrir Faxaflóa milli Keilisness og Stakks, kletts undan sunnanverðu Hólmsbergi norður af Keflavik. Á firði þessum voru fræg fiskimið og við hann stóðu og standa enn miklar verstöðvar. Á Stakksfirði og undan ströndinni ræktuðu menn fiskimiðin í gamla daga engu síður en túnin. Flestir formenn sóttu á sín sérstöku mið og fluttu þangað slor, fiskúrgang, jafnvel hundsskrokka og annað þess kyns, sem til féll. Það var kallað að bera niður, og sævargróðrar
hvatinn nefndist niðurburður, samanber áburður. „Öll þorskgota var borin niður þar á hraunið (Vogahraun) og mikið af slorí, og fiskurinn hændist þar að niðurburðinum og varð mestur, þar sem mest var borið niður,” segir Ágúst frá Halakoti. „Svo gjörðu margir fleiri meðfram öllum Strandarbrúnum og bættu veiðina.” Ræningjafloti eyðilagði miðin um skeið, en verstöðvar hafa eflzt að nýju við Stakksfjörð á síðustu áratugum.
VogVogar, dálítið þorp, stendur utan til við Vogavík. Þar er höfn, hafnargarður og bryggja, frystihús, söltunar- og fiskvinnslustöð. Þar eru gerðir út 2 til 3 vélbátar, 50—100 lestir að stærð. Útgerð hefur lagzt niður á Vatnsleysuströnd, en bændur þar hafa ekki með öllu slitið vinfengi við sjóinn. Synir sjósóknarans, Ágústs í Halakoti, stunda hér útgerð.
Hér fjölgar íbúunum, þótt þeim – fækki á Ströndinni og fornar útvegsjarðir eins og Stóra-Vatnsleysa og Flekkuvík leggist í eyði. Höfuðbólið var Stóru-Vogar hét áður Kvíguvogar, kennt við sækýr eins og Kálfatjörn. Þar var kirkjustaður fram yfir siðaskipti. Kirkjuhóll nefnist hóll fyrir sunnan veginn, þar sem ekið er inn í Vogaþorpið. Þar á kirkjan að hafa staðið. Nú eru Stóru-Vogar i eyði, og mikill reyk háfur trónar upp úr bæjarrústunum. í túnfætinum ofan við vörina liggur steinn. Eitt sinn á skip Jóns Daníelssonar að hafa steytt á honum í lendingu. Á næsta flóði óð Jón bóndi eftir bjarginu, stakk sjóvettling í munn sér og við átökin. Hér liggur það, einustu minjar um hinn jötuneflda Vogabónda.
Minni-Vogar eru i byggð, og í landi þeirra standa fiskvinnslustöðvarnar nýju. Þannig fer um hverfula heimsins dýrð.
StapabFrændi og fóstri Steinunnar gömlu hét Eyvindur Honum gaf
hún Vatnsleysustrandarhrepp, land milli Vogastapa og Hvassahrauns, fyrir alls ekki neitt. Hann bjó að Kvíguvogum.
Á Heiðarbæ i Þingvallasveit bjó Hrolleifur Einarsson, Ölvissonar barnakarls. Ölvir, afi hans, hafði verið mikill víkingur, en skemmti sér ekki við það að henda börnum á spjótsoddum, eins og þá var víkingasiður. Því hlaut hann auknefnið barnakarl. Heldur þótti Hrollleifi leið murtuveiðin á Þingvallavatni, sem reyndar hét Ölfusvatn í þann tíð, og lítið skyn bar hann á náttúrufegurðina þar efra. Hann bauð Eyvindi jarðaskipti, en skoraði hann á hólm, vildi hann ekki ganga að kaupunum. Ekki leizt Eyvindi ráðlegt að berjast við Hrolleif og fluttist að Heiðarbæ. Þar festi hann ekki yndi og leitaði að nýju á náðir Steinunnar frænku, en hún setti hann niður á Bæjarskerjum. Þannig hófst fólksflóttinn til Suðurnesja þegar á landnámsöld.
Í byrjun 18. aldar býr Jón Daníelsson hínn sterki í Stóru-Vogum (d. 1855). Hann keypti jörðina og sat þar fyrstur sjálfseignarbænda frá því á miðöldum. Jón lét smíða sér skútu og var aflasæll og auðugur og talinn fjölkunnugur. Hann á að hafa komið fyrir draugum, rekið illa anda úr mönnum og kunnað skil á töfrasteinum, sem gerðu menn fiskisæla. Þá sótti hann í Mölvík undir Vogastapa. Sonur Jóns Daníelssonar var Magnús. Hann lærði siglingafræði og skipasmiðar i Kaupmannahöfn 1816 og var skipstjóri og skipasmiður í Vogum og tók sér ættarnafnið Waage. Sagt er að hann hafi smíðað nálægt 100 róðrarskipa og báta og tvo þilfarsbáta frá stofni”. Hann varð fyrstur til þess hér á landi að rita um nauðsyn sjómannafræðslu og bauðst til þess að kenna mönnum fræði sín, en ekkert er vitað um það, á hvern hátt menn færðu sér það í nyt.
BrekkBændaánauð og einokun hafði sogið svo merg úr bændum við Faxaflóa, að þeír áttu varla sjófæra fleytu stærri en tveggja manna för, þegar líður á 18. öld. Þegar slakað var á 382 ánauðinn og einokunarfjötrunum, færðist þegar nýr þróttur í atvinnulífið.
Þrír bændur urðu fyrstir til að rétta úr kútnum, hófu skipasmíðar og útgerð í miklu stærri stíl en áður hafði þekkzt. Jón Daníelsson í Vogum er frægastur, en nafni hans Sighvatsson í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík tók að sér að smíða skútu með aðstoð Gísla Péturssonar, skipasmiðs á Óseyri við Hafnarfjörð, árið 1814. Ekki leizt nágrönnum hans gæfulega á þessar tiltektir kotbóndans, en hann lét hrakspár ekkert á sig fá, og þrem árum síðar hljóp fyrsta þilskipið af stokkunum í Njarðvík. Meðan Jón vann að smíði skipsins, dvaldist Jón Norðfjörð, sonur hans, í Kaupmannahöfn og lauk þar stýrimannsprófi 1817. Hann stýrði skútu föður síns fyrstu árin, en síðar tók bróðir hans, Pétur við stjórninni.
Ari Jónsson, bóndi í Innri-Njarðvík, gerðist þriðji þilskipseigandinn við Vogastapa. Árið 1818 eiga skip Sigltþessara þriggja bænda öll að hafa verið við veiðar og reynzt mestu happaskip. Þau voru smá, ekki mikið yfir 10 lestir, en loðuðu þó þáttaskil í fiskveiðum íslendinga. Í kjölfar þeirra sigldu stærri skútur, þegar leið á öldina. Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti er fyrsti kotungurinn hér syðra, sem hófst algerlega af sjálfum sér, alinn upp í fátækt, og varð einn af gildustu útvegsbændum. Gengi bænda við Vogastapa kveikti mönnum vonir um betri daga á Íslandi.
Skútuöldin við Faxaflóa hefst í Vogum árið 1863. Þá keypti Egill Hallgrímsson bóndi í Austurkoti ásamt öðrum f élögum sínum í hreppnum skútuna Lovísu um 45 rúmlestir að stærð. Í Vogum er bezt höfn frá náttúrunnar hendi við Vatnsleysuströnd og eina bjarglega skútuhöfnin. Lovísa og aðrar skútur þeira Vogamanna efldu hér stórútgerðarstöð. Þilskipin, sem þeir Jón Daníelsson létu smíða og smíðuðu um 1817, voru bátar ekki haffærandi. Þau voru þáttur í miklum vexti bátaflotans á fyrri helmingi 19. aldar og lögðu grunn að skútuöldinni, næsta stigi í fiskveiðasögu Íslendinga.

Briml

Egill Hallgrímsson (1817—’83) gerði út marga báta, 8 að sögn, rak lýsisvinnslu, fisk- og saltverzlun og hafði margt í vöfunum. Hann hafði Lovísu í beinum siglingum til Spánar, sendi þangað fisk og keypti salt. Árið 1870 tók sonur hans, Klemenz við skipstjórninni, en hann var einn af mestu sjósóknurum á Suðurnesjum um sína daga.
Einn af landsetum Egils var Nikulás Jónsson í Norðurkoti. Hann gerði út áttæring og sexmannaför, 5—6. Bátaútvegurinn hélt velli, þótt skútur bættust í hóp fiskiskipa. Það var skammt á miðin og uppgripaafli oft á tíðum. Ágúst í Halakoti segir, að þorskur hafi gengið „alla leið inn undir lendinguna á Hólmanum undir Grímshól og Mölvík og allt Hólhraunið og upp undir Stapann og Vogabrúnir. Á öllu þessu svæði var oft svo mikill fiskur í þorskanet, að daglega var þangað sótt fullfermi og sum skip tvær til þrjár hleðslur á dag bæði í net og á færi, og var hvergi jafnstór fiskur sem þarna undir Stapanum, á Vogabrúnum og um allt Vogahraun”.
Árið 1892 átti Klemenz Egilsson í Minni-Vogum nýjan áttæring. Þá var slíkt mokfiski undir Stapanum, að skipshluturinn greiddi bátsverðið á einni vertíð. En þar með var lokið auðsæld gullkistunnar, en óvæntir atburðir fóru í hönd. Þessi afli lifir enn í minni Vogamanna, og þeir kenna togveiðum um, að hann er þrotinn.
KristjanstKristjánstangi gengur út í miðja Vogayík. Þar stóð salthús í eina tíð.
Vogastapi, grágrýtisberg, hefst utan Vogavíkur, um 80 m. á hæð. Stapinn nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkistan í sóknarlýsingum 19. aldar „af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi í hrauninu þar rétt upp undir”. Skúli Magnússon landfógeti segir um 1785: „Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi, tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin í notkun”. Ágúst frá Halakoti segir, að það hafi verið gaman að róa undir Vogastapa, „að skríða þar út með landinu í lygnum og sléttum sjó og taka svo nógan, fetan og stóran þorsk í netin. Það verður tæplega sagt um of af þeirri fiskimergð, sem gekk sum árin undir Vogastapa, enda var hann áður fyrr kallaður Gullkista Íslands og bar það nafn með rentu.” Hann telur, að á árunum frá 1870-’94 hafi gengið um 200 skip úr
Brunnastaðahverfinu, Vogum og Njarðvíkum. „Þegar fiskur var kominn undir Stapann, þá sóttu allir þangað, — sömuleiðis allir Vatnsleysingar, ef ekki var fiskur á Vatnsleysuvík. Var því oft ærið þéttskipað, þegar allir voru komnir undir Stapann.”
Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd Vogastapa, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt. Margir urðu úti á Stapanum og hröpuðu fyrir björg, og eiga þeir að vera þar enn á flökti. Stapadraugar eru taldir með afbrigðum kurteisir, taka jafnvel ofan höfuðið fyrir tækni nútímans.
GrimshollGrímshóll heitir efsta bunga Stpans. Hann á að vera kenndur við Grím Rangæing, sem varð eftir af vermönnum og réðst tíl vistar hjá Stapabónda og gekk þar að eiga heimasætuna. Undir Vogastapa er dálítið undirlendi, ef að er gáð, en hefur verið miklu meira áður, því að sjór hefur brotið hér land.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), “anleggshúsum” Knudtzons gróssera
reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Anlegg” nefndust salt- og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátai, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár. Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk. Brekka,, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin” sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru tii skamms tíms. Kerlingabúðir voru nokkru utar.
ReidskUm Reiðskarð lágu forðum reiðgöturnar upp Stapann. Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku. Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar. Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar. Strákar heita þrjár vörður, gömul mið nær Njarðvíkum. Kópa er vík við bergshalann, ytri enda Stapans hjá Stapakoti í Innri-Njarðvík.
Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894. „Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga. — Þess vegna voru 1000 netakúlur seldar á uppboði eftir Guðna Jónsson á Brekku á 5 krónur, og stórjörðin Stóru-Vogar var boðin upp til skuldalúkningar á 2000 króna láni í Landsbankanum, og enginn bauð yfir það. — Þannig var hernám Engiendinga við Faxaflóa 1895.
UtskalAnnar sjósóknari af Vatnsleysuströnd, Benjamín Halldórsson frá Naustakoti, segir, að oft hafi mátt telja á Vogavík 50-100 enska togara, sem leitað höfðu vars undan ofviðrum, en stunduðu veiðar á Faxaflóa. Á leiðinni út köstuðu þeir á víkinni og toguðu frá landi. Eitt sinn strandaði enskur togari upp í fjöru undan Útskálum með vörpuna aftan í sér. Þetta var á aðfangadagskvöld. Skipverjar sáu ljósadýrð í kirkjunni og héldu, að þar væri togari í aðgerð og stefndu þangað. Þá var strandgæzla nær engin, svo að bændur voru varnarlausir gegn þeim ræningjum, sem óðu að landi og eyddu byggðina. Aðgerðarlausir vildu þeir þó ekki vera. Þeir fluttu hraungrýti út á miðin í þeirri von, að það eyðilegði vörpurnar, en ekki bægði það veiðiþjófum frá landi. Það er ekki mjög blómlegt umhorfs á Vatnsleysuströnd: byggðin er slitin, stórbýli í eyði og húsakostur á sumum jörðum lítt breyttur frá því í lok 19. aldar. Hér hefðl orðið samfelld byggð og borg stæði í Vogum, ef ræningjaflotinn hefði ekki lagzt að landi.

Minni-Vogar

Nú flosnuðu menn upp og flýðu byggðina, en miðin, sem þeir höfðu ræktað um aldir, lögðust i örtröð og auðn. Gildustu útvegsbændur þraukuðu aflaleysið, keyptu sér skútur og sóttu dýpra, og síðar hófst vélbátaútvegur. Fyrsta vélbátinn keypti Ásmundur Árnason í Hábæ í Vogum árið 1907. Vogamenn höfðu verið brautryðjendur í þilskipaútgerð, en nú voru þeir orðnir eftirbátar annarra, eins og bezt sést á því, að vélbátaútvegur hófst hér á landi 1902 og efldist mjög á næstu árum, en vélbátar náðu ekki til Voga fyrr en 5 árum síðar. Hin fisksælu mið voru þrotin. og útgerð gekk illa.
Á styrjaldarárunum glæddist afli að nýju, og um 1920 eignuðust bændur á ströndinni trillubáta. Ekki varð sú útgerð þeim mikil féþúfa. Það er fyrst með tilkomu 25 til 50 lesta vélbáta um 1940, að útgerðin tók að hjarna við að nýju í Vogunum. Í hönd fóru friðunarár heimsstyrjaldarinnar. Þegar togaraflotinn birtist að nýju og allt sótti í sama horfið og áður, var Faxaflóa lokað fyrir togveiðum árið 1952 og fiskveiðilandhelgin færð út 1958. Í Vogum hefur risið upp vísir að þorpi, en bílabrautin nýja sneiðir þar hjá garði, og íbúarnir eru uggandi um, að straumur tímans muni fylgja brautinni til bæjanna fyrir utan Vogastapa.”

-Tíminn, sunnudagsblað, 6. sept. 1964, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 828-831.
-Tíminn, sunnudagsblað, 13. sept. 1964, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856-859.
-Tíminn, sunnudagsblað, 20. sept. 1964, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 880-883.

Suðurnes

Suðurnes – skilgreiningar.

Gufuskálar

Framsöguerindi, flutt á málfundanámskeiði Iðnaðarmannafélagsins 28. febrúar 1967. –
stori-holmur-231“Það litla, sem Landnáma segir um upphaf byggðar á Suðurnesjum er eftirfarandi: „Steinunn in gamla frændkona Ingólfs fór til Íslands og var með honum inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingu. Steinunn hafði átt Herlaug bróðir Skallagríms, þeirra synir voru Njáll og Arnór,,.1.)
Þetta er öll landnámssaga Steinunnar gömlu og næstum allt og sumt, sem um hana verður vitað eftir rituðum heimildum. Þó víst sé talið, að við Íslendingar séum af norrænum uppruna, þá eru miklar líkur fyrir því, að Steinunn landnámskona sem er talin vera sú fyrsta, sem reisti sér bú á Suðurnesjum, hafi komið frá Vesturlöndum. Synir hennar hétu Njáll og Arnór. Njálsnafnið bendir til þess, að hún hafi komið frá Vesturlöndum og styrkist það við frásögnina um ensku hekluna, er hún gaf Ingólfi fyrir landnámið. Hún hafði enska vöru og getur maður því ætlað, að það hafi verið fleira af því tagi í fórum hennar, en hekla þessi, því að bæði víkingar og landnemar fluttu með sér nokkrar birgðir af varningi frá þeim löndum, sem þeir lögðu frá, er þeir fóru í herferðir eða landaleit.2)
Talið er, að Steinunn hafi reist sér bú að Stóra gardur-gufuskalarHólmi í Leiru og hafi rekið þar um árabil mikið höfuðból og verstöð. Það er talið, að á landnámsöld hafi Keflavík og Njarðvík verið sel frá Stóra-Hólmi í Leiru.4) Hið forna höfuðból Steinunnar gömlu er nú komið í eyði, en sel hennar eru aftur á móti ört vaxandi byggðarlög.

Í bókum um landnám Ingólfs er getið um, að í Rosmhvalaneshreppi hafi verið Keflavík, Leira, Garður og Miðnes og allt að Ósabotnum. Greinilegt er, að Njarðvíkur eru teknar undan Rosmhvalanesi, er hreppar eru myndaðir.5) Njarðvíkur, Vatnleysuströnd og Vogar mynduðu Vatnsleysustrandahrepp.
Fyrsta breytingin, sem gerð er á Suðurnesjum er, að Njarðvíkur segja skilið við Vatnsleysustrandahrepp og sameinast Rosmhvalaneshreppi árið 1885.6).
Næsta breytingin á hreppaskilum er, að Miðnesingar segja skilið við Rosmhvalaneshrepp árið 1886.7) Það ár verður því Miðneshreppur til í sinni núverandi mynd, og hefur engin breyting orðið á síðan.
Næsta breytingin á Rosmhvalaneshreppi er, að árið 1908 er hann lagður niður og myndaðir tveir nýir hreppar. Hinir nýju hreppar voru núverandi Gerðahreppur og Keflavíkurhreppur. Í þeim síðarnefnda voru núverandi Keflavíkurkaupstaður og Njarðvíkurhreppur. Þannig voru Keflavík og Njarðvík sameiginlegt hreppsfélag frá árinu 1908 8) eða þar til Njarðvíkingar óskuðu eftir að gerast sér hreppsfélag, vegna þess að þeir töldu sig vera mjög afskipta með alla þjónustu og framkvæmdir svæði sínu til handa.
njardvik-231Samningur um skilnað Keflavíkur og Njarðvíkur var gerður 25. október 1941.9)
Njarðvíkur urðu því fyrst sérstakt sveitarfélag með lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1942.
Landaskil Njarðvíkur og Keflavíkur voru fyrst þar, sem Tjarnargata er nú í Keflavík, en er samningur var gerður um skipti byggðarlaganna voru þau ákveðin um lóð Fiskiðjunnar hf. þannig, að mjölskemma Fiskiðjunnar stendur nú að hálfu í Keflavík og að hálfu í Njarðvík.
Keflavík hlaut kaupstaðaréttindi 1. apríl 1949. Lögsagnarumdæmi Keflavíkur var stækkað með lögum frá 4. maí 1966. Með þeirri stækkun rúmlega þrefaldaðist lögsagnarumdæmið að flatarmáli. Þeir 415 ha, sem Keflavík stækkaði um, eru að mestu land, sem hefur verið skilið frá Gerðahreppi.
keflavik 1833Nokkuð er sagt frá Eyvindi fóstra Steinunnar gömlu í Landnámu, en Evindi fóstra sínum gaf Steinunn hin gamla land á millum Hvassahrauns og Kvígubjargarvogum.
Landnám Evindar, er hann hlaut að gjöf frá Steinunni fóstru sinni, hlaut nafnið Vatnsleysuströnd. Landnám hans er nú óbreytt sem Vatnsleysustrandarhreppur.
Molda-Gnúpssynir, þeir Hafur-Björn, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi, námu Grindavík. Landnám þeirra bræðra er enn óbreytt sem Grindavíkurhreppur10.)
Herjólfur, frændi Ingólfs og fóstbróðir, fékk frá honum að gjöf land milli Reykjaness og Vogs og svarar það nákvæmlega til núverandi Hafnarhrepps. 10)”

Eyþór Þórðarson.

Neðanmálsheimildir:
1. Landnám I—III 1900 bls. 123 og Þórðarbók 1921, bls. 28.
2. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 266.
3. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 280.
4. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 278.
5. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 279.
6. Strönd og Vogar 1961 bls. 48.
7. Undir Garðskagavita bls. 218.
8. Faxi 1963 bls. 211.
9. Faxi Desember 1941,
10. Landnám Ingólfs II. 1. 1936 bls. 14.

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 1. tbl., bls. 5-7.

Njarðvík

Frá Njarðvík.