Eftirfarandi upplýsingar um Reykjanesskagann birtust í upplýsingariti Ferðamálasamtaka Íslands 2005: Suðurnes / Reykjanesskagi – MANNLÍF, NÁTTÚRA OG SAGA / SOCIETY, NATURE AND HISTORY.
Inngangur
“Þegar tímar jafnréttis eru runnir upp þá er ekki úr vegi að minna á að fyrsti femínistinn á Íslandi var frá Suðurnesjum. Það var landnámskonan Steinunn gamla sem vildi eiga sig sjálf og þáði því ekki að gjöf landið frá Hvassahrauni til Sandgerðis af frænda sínum Ingólfi Arnarsyni heldur greiddi fyrir með heklu flekkóttri.
Annar landnámsmaður á Suðurnesjum var Herjólfur Bárðarson fóstbróðir Ingólfs en hann fékk frá honum land frá Ósabotnum suður á Reykjanestá. Talið er að rústir sem fundust við kirkjuna í Höfnum árið 2003 séu hús Herjólfs sem hann reisti á 9. öld. Herjólfur var afi Bjarna Herjólfssonar þess sem fyrstur Evrópumanna barði Ameríku augum. Frá fornu fari hafa sjósókn og fiskverkun verið höfuðatvinnuvegir Suðurnesjamanna og byggðin og mannlífið mótast af sjónum kynslóð fram af kynslóð. Náttúran á Reykjanesinu býður upp á gróðurvinjar, fagrar strendur, náttúruperlur og hrífandi umhverfi. Við tökum vel á móti ferðamönnum og bjóðum öllum að kynnast sögu okkar, menningu og náttúru. Matsölustaðir og veitingahús bjóða bæði innlenda og erlenda rétti úr íslensku úrvals hráefni og gistihúsin eru af þeim gæðaflokki sem hver vill hafa. Vertu velkomin.”
Undir framangreint ritar Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.
Náttúran og gönguleiðir
Náttúran er einstök. Nakin eldhraun í bland við gróðurvinjar, fuglabjörg, sandfjörur og ólgandi brim eru ferðamönnum áskorun um útivist. Hverasvæðin eru meðal öflugustu jarðhitasvæða landsins. Eldvörpin eru um tíu km löng gígaröð með jarðhita. Suður af Hafnarbergi eru skil Ameríku og Evrópu þar sem jarðflekarnir mætast. Fuglalíf er fjölbreytt. Stærstu fuglabyggðirnar eru í Hafnarbergi, Krýsuvíkurbergi og Eldey. Við Vogastapa og Hólmsberg eru brattar og brimasamar fjörur en sandfjörur eru m.a. í Sandvíkum og við Garðskagavita. Tilvalið er að bregða sér í göngutúr. Frá Keili er útsýni stórfenglegt, forn gönguleið liggur frá Vogum yfir Stapann til Njarðvíkur og önnur til Grindavíkur. Vinsælar gönguleiðir til fuglaskoðunar eru frá Garðskaga suður í Sandgerði, um Stafnes til Hafna. Og á Berginu í Keflavík hefur verið gerð skemmtileg gönguleið meðfram sjónum.
Kirkjurnar, söfnin og fornminjar
Saga kynslóðanna er heillandi. Tilvalið er að skoða fornminjar, söfn og gamlar kirkjur sem ilma af fortíðinni. Á Hafurbjarnarstöðum fannst konukumbl. Á Stóra-Hólmi var ein elsta verstöð landsins og Skagagarður er forn garðhleðsla. Stafnes var fjölmennur útgerðarstaður og að Básendum var rekin einokunarverslun til 1799.
Á skeri utan friðlýstra bæjarrústanna eru festarboltar sem kaupskipin voru bundin við. Í Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja. Á Selatöngum eru forn fiskbyrgi. Á Reykjanesi eru fimm kirkjur frá 19. öld sem geyma gamla muni og sögu. Ógleymanlegt er að skoða Hvalsneskirkju þar sem séra Hallgrímur Pétursson þjónaði. Síðan er upplagt að koma við á einhverju safnanna. Í Garði er byggðasafn. Duushús er í Reykjanesbæ. Saltfisksetur er í Grindavík en Fræðasetrið í Sandgerði tengir saman umhverfi, náttúru og sögu. Þá eru í flestum bæjarfélögum lista- og handverksstaðir sem fróðlegt er að heimsækja.
Virkjun orku
Á Reykjanesi eru mikil jarðhitasvæði og er Reykjanesvirkjun sem nú er í byggingu til vitnis um hve Íslendingar standa framarlega í virkjun jarðvarma. Hitaveita Suðurnesja virkjar heitan jarðsjó í Svartsengi til húshitunar fyrir allt Reykjanes auk þess sem hún virkjar gufu á öðrum stö›um á nesinu og framleiðir rafmagn í gufuhverflum. Í Eldborg, sem staðsett er við virkjunina í Svartsengi, er Gjáin sem er upplýsingamiðstöð um jarðfræði Íslands. Þar er jarðfræði Íslands, framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns kynnt á lifandi og skemmtilegan máta.
Jarðhitasvæði
Heilsulindin er vel þekkt víðs vegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar, leika um húðina. Eimböð, sauna og foss sem tilvalið er að bregða sér undir er meðal þess sem bíður gesta heilsulindar. Úrval spa- og nuddmeðferða er í boði. Að lokinni slökun og endurnæringu er tilvalið að njóta veitinga í einstöku umhverfi.
Útivist
Möguleikar til útivistar og afþreyingar eru ótalmargir. Hafið út af Reykjanesi er eitt besta svæðið hér við land til hvalaskoðunar. Skip fer daglega á sumrin og haustin í hvalaskoðunarferðir út á dimmbláan sjóinn og leitar uppi hvali. Hvað er stórfenglegra en að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp til að anda. Einnig er hægt að fara í sjóstangaveiði og skemmtisiglingu. Þetta eru öllum ógleymanlegar ævintýraferðir. Fjórir góðir golfvellir eru á Reykjanesi en þeir sem gefnir eru fyrir hraða og spennu heimsækja Go-Kart brautina í Njarðvík þar sem brunað er á litlum bílum á öruggri braut. Hægt er að skipuleggja keppni fyrir hópa. Tilvalið að reyna hæfileikana til kappaksturs við öruggar aðstæður.
Byggðirnar og mannlífið
Fyrrum var blómleg byggð á Vatnsleysuströnd, bændabýli og útræði. Töluverð byggð var á Leirunni en nú er þar einn besti golfvöllur landsins. Hafnir anga af sögu liðins tíma og Stekkjarkot, gömul endurbyggð þurrabúð, er minnisvarði um gamla búskaparhætti. Í sveitarfélögunum fimm: Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði byggist afkoman sem fyrr á sjávarútvegi en í Reykjanesbæ skiptir þjónusta og upplýsingatækni líka miklu máli.
Mannlífið er fjölbreytt og blómlegt. Á Suðurnesjum er fjöldi kaffihúsa og veitingastaða og glæsileg hótel. Sjóarinn síkáti í Grindavík er vinsæl sjómanna- og fjölskylduhátíð á sjómannadaginn. Sandgerðisdagar eru í ágúst og með Ljósanóttinni í Reykjanesbæ í september kveðja Suðurnesjamenn sumarið.
Íslendingur – Víkingaskipið – víkingasetur
Norrænir menn námu Ísland á ofanverðri 9. öld. Hingað komu þeir á knörrum og hraðskreiðum víkingaskipum. Árið 1996 smíðaði Gunnar Marel Eggertsson víkingaskipið Íslending sem er nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem var smíðað í Noregi um 870 og fannst árið 1882. Íslendingur er 23m á lengd, 5,25m á breidd og mælist 80 brúttótonn. Hann er miðlungsstórt víkingaskip og á slíkum skipum voru 70 manns í áhöfn. Gunnar sigldi Íslendingi til Ameríku og heim aftur árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis siglinga og landafunda Íslendinga í Ameríku. Reyknesingar vilja halda afrekum forfeðranna á lofti. Eftir heimkomuna keypti Reykjanesbær skipið. Nú er verið að vinna að því að koma því fyrir til frambúðar á glæsilegu víkingasetri.”
Framangreint lýsir vilja til að vekja athygli á því stóra er fólk gæti haft áhuga á þegar það vill sækja Reykjanesskagann heim, en allt hið smáa og merkilegra er látið ferðalöngunum eftir að finna að eigin frumkvæði – því sjaldnast er leiðbeinandi merkingum fyrir að fara.
Heimild:
-http://www.icetourist.is/upload/files/sudurnes.pdf21