Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni “Í fótspor fjár og feðra“.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)