Færslur

Reykjanes

Á vefsíðunni eldey.is má lesa eftirfarandi fróðleik um Reykjanes:

Reykjanes – Stórbrotið hraun og eldstöðvar

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

“Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða. Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.

Grindavík

Grindavík – skemmdir á Dvalarheimili aldraðra eftir jarðskjálftahrinu árið 2023.

Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga

Reykjanes

Reykjanes – Háleyjabunga.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.
Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Reykjanes

Reykjanes – Stóra-Sandvík.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.

Patterson

Lífstöðumyndanir (skeljar) við Pattersonflugvöll.

Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesi

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.

Eldgos

Eldgos á sprungurein ofan Grindavíkur 2024.

Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Reykjanes

Reykjanes – eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.

Jarðhiti

Jarðhiti er mjög algengur á íslandi. Jarðhitasvæðum má skipta í lág- og háhitasvæði. Á þeim fyrri eru volgar eða heitar uppsprettur sem nefnast laugar eða hverir sem sumir eru goshverir.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Einkenni háhitasvæða eru gufuaugu, leir- og brennisteinshverir. Á Reykjanesskaganum er mest af jarðhitanum háhiti. Í Krýsuvík eru bæði leirhverir og gufuaugu. Í gufuaugunum sést gulur brennisteinn.
Vatnið í hverunum er oftast upprunalega úrkoma sem hefur falið sem regn eða snjór. Það hefur síðan sigið niður í heit berglög á nokkurra kílómetra dýpi og hitnað þar upp í 200 – 300 gráður á Celsíus. Þegar vatn hitnar stígur það aftur upp á yfirborð jarðar, ýmist sem vatn eða gufa.
Á flestum háhitasvæðunum á utanverðum Reykjanesskaga er það hins vegar aðallega sjór sem sígur inn í berglögin og hitnar þar.

Gunnuhver

Við Gunnuhverá Reykjanesi.

Jarðhiti er ein aðalorkulind Íslands Nær 90% húsa eru beint eða óbeint hituð með hveravatni. Háhitasvæðin eru einnig noðuð til raforkuframleiðslu.
Önnur helsta orkulind Íslendinga er vatnsorka.

Brú milli heimsálfa

Mið-Atlantshafshryggurinn sem klýfur Atlantshafið í tvær úthafsplötur, sem rekur hvora frá annari, kemur í land á Reykjanesi. Þar eru glögg merki gliðnunar sem fólki gefst kostur á að upplifa með því að ganga yfir brú milli heimsálfa sem staðsett er við Sandvík.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa.

Skilin milli flekanna sem reka í sundur birtast ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem gígaraðir og er brúin staðsett við eina slíka en Reykjanesið er virkasti hluti gosbeltisins. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi hafi „gengið milli heimsálfa“ á Upplýsingamiðstöð Reykjaness.

Áhugaverðir staðir
Víða er að finna áhugaverða staði á Reykjanesi. Þar eru mikil fuglabjörg og stutt er í ákjósanlega staði fyrir fuglaskoðun svo sem á Hafnabergi. Brimfjörur eru stórbrotnar, t.d. við Reykjanesvita. Árið 1878 var fyrsti viti á Íslandi byggður á Valahnúki skammt norðan við Reykjanestá.

Síðasti Geirfuglinn veginn

Geirfugl

Geirfugl á Náttúruminjasafninu.

Þann 3. júní 1844, voru tveir síðustu geirfuglanir í heiminum drepnir á syllu í Eldey, suðvestur af Reykjanesi.
Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins.

Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en eins og áður segir voru síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey.
Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti með geirfugla, sem hann hannaði eftir frummyndinni.

Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Kjörlendi göngufólks

Reykjanes

Reykjanes – Sandfellshæð.

Segja má að Reykjanesskaginn sé kjörlendi göngufólks en þar er fjöldi merktra gönguleiða frá fornu fari. Á gönguleiðum má skoða merka jarðfræðisögu eða menjar um gamla búskaparhætti.”

Á vefsíðu Markaðsstofu Reykjaness; “Visit Reykjanes“, er hún sögð vera “samstarfsverkefni sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Reykjanesi. Megin hlutverk stofunnar er að vinna að markaðssetningu fyrir svæðið á innlendum markaði og erlendis og stuða að samstarfi innan greinarinnar á þeim vettvangi. Markaðsstofan vinnur einnig að ýmsum verkefnum sem styðja við rekstarumhverfi greinarinnar og uppbyggingu innviða í landshlutanum“.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn er “lifandi” eldfjallagarður.

Rétt er að vekja athygli á að nefnd “stofa” eða “stofnun” á Reykjanesskaganum hefur aldrei, hvorki reynt að eiga samstarf við þátttakendur gönguhópsins né vefsíðuna www.ferlir.is, sem u.þ.b. 800.000 manns heimsækja á hverju ári í leit að fróðleik um möguleika svæðisins – bæði innlendir og erlendir.

Heimild:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanes
-https://www.visitreykjanes.is/is/thjonusta/markadsstofa-reykjaness

Eldgos

Eldgos vekja jafnan mikla athygli. Eldgos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2023.

Grindavík

Hér á eftir er fjallað um nokkur áhugaverð atriði er varða Grindavík. Fólk á leið í og um bæinn gæti nýtt sér þennan fróðleik til að upplifa hluta af sögu hans því flest það, sem minnst er á má sjá með berum augum ef vel er að gáð.

Þorbjörn

Þorbjörn.

1. Það er alltaf sól í Grindavík – stundum að vísu á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og svo til ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. FERLIR hefur farið um 1310 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtingu skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, eitt helsta sérkenni okkar Íslendinga.

Arnarklettur

Arnarklettur.

2. Mikilvægt er fyrir leiðfarendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlega og leitandi að einhverju áður ókunnu. Nægan eldivið fyrir slíkt er að finna í Grindavík og nágrenni.
3. Mörk Grindavíkur að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Seltjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, og ekki síst ströndin, er víðfeðmt.
4. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að aðalútflutnings- og söluvöru landsins og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðirnar á Reykjanesskaganum, ekki síst til að geta brauðfætt áhangendur biskups og skólasveina hans. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiði til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

5. Sagan segir (Landnámabók) að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Afritum Landnámu ber þó ekki saman um fjölda sona Molda-Gnúps – meira um það á eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

6. Njarðvíkursel er sunnan við Selvatn. Rústir má sjá þar glögglega og sennilega er það eitt nærtækasta selið á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 metra frá veginum – þó utan umdæmis Grindavíkur. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
7. Eitt af viðfangsefnum góðra ferðamanna er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbása sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma. Þá tekur Saga Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór á flestu hinum markverðasta um sögu og staðhætti í Grindavíkurumdæmi.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

8. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærsla byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem örlög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Eimir af því enn þann dag í dag í samskiptum fólksins. Hver landbleðill var nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurfti ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til tímabundinna afnota. Sumir ílengdust. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.

Járngerðarstaðir

Járngerðastaðahverfi í Grindavíkurhreppi – túnakort.

9. Útgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað er áhugavert að fara til að rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði og minjarnar þar er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

10. Á Gíghæð má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili. Hestshellir er þar í leiðinni sem og nokkur heilleg og hús. Arnarseturshraunið rann árið 1226. Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca 2400 ára.
11. Dollan er um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutæki er nota var við vinnu nýja vegarins. Stuttan stiga þarf til að komast niður í hann um jarðfallið. Dæmigerður fyrir u.þ.b. fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

12. Skógfellahraun er eldra en Arnarseturshraun. Hraun á sögulegum tíma eru nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er hins vegar eldra. Það er myndað af gosi í Vatnsheiði, en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.
13. Á Baðsvöllum voru sel Grindvíkinga um tíma, en voru færð á Selsvelli vegna ofbeitar. Þar eru margar tóftir og minjar, djúpt markaðir stígar og vatnsstæði. Hópssel er hins vegar við veginn, visntra megin, rétt áður en komið er að Selhálsi milli Þorbjarnarfells og Svartsengisfjalls.
14. Þorbjarnarfellið er ekki síst merkilegt fyrir misgengið er liggur í gegnum fjallið. Sjá má hvernig miðja fjallsins hefur fallið niður og bergveggir stannda eftir beggja vegna. Sagnir um þjófa er héldu til í fjallinu og herjuðu þaðan á íbúana. Ræningjagja er í fjallinu, en Baðsvellir norðan þess og Gálgaklettar austar. Allir tengjast þessir staðir sögunni.

Hraun

Hraunsvör.

15. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir. En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis. Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök. Fátt er heilsusamlegra en að ganga rekann eða ráfa um fjörurnar í góðu veðri, anda að sér sjávaranganum og skoða aðfallslífið.

Grindavík

Grindavík.

16. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv. sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku er skildi eftir sig dys á Hrauni.
17. Skipsstígur liggur milli Njarðvíkur og Grindavikur, um Rauðamel og áfram þar sem hann klofnar í Árnastíg er liggur niður að Húsatóftum. Við Skipsstíg er m.a. Gíslhellir, skjól eða athvarf einhverra, sem þar vildu dvelja.
18. Sögufrægir staðir eru í umdæminu, s.s. Selatangar og Húshólmi. Á Selatöngum er gamalt útver með öllum þeim minjum, sem þeim fylgja, og í Húshólma eru með merkustu fornleifum landsins, líklega frá upphafi landnáms hér á landi.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

19. Kóngsverslunin var neðan Húsatófta. Þar má í dag m.a. sjá kítarpípur koma undan tóftunum, sem sjóinn er óðum að brjóta iður – Festasker eru utar. Þarna er hin flóraða Staðarvör, bærinn Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914), sem nú er verið að endurgera, og Hvirflarnir, rústir ofan við gömlu bryggjuna í Staðarhverfi. Bjallan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 við Jónssíðubás utan við Húsatóftir er í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Sagt er að á meðan hún stendur mun ekkert illt henta Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
20. Sýlingarfell er mið af sjó. Annars heitir það Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps. Á kolli þess er fallegur gígur.
21. Hópsselið er við veginn skömmu áður en komið er upp á Selháls.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

22. Á Þorbjarnarfelli var um tíma bækistöð Breta. Enn má sjá grunnam hleðslur og vegi uppi á fjallinu sem minjar þessa.
23. Gálgaklettar eru ofan við Hagafell. Þeir tengjast sögunni um ræningjana í Þorbjarnarfelli.
24. Skipsstígur hefur verið endurgerður að hluta utan í Lágafelli –Við hann er Dýfinnuhellir er tengist sögu af samnefndri konu er þangað flúði með börn sín eftir að Tyrkirnir stigu á land í Grindavík.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

25. Fornavör er neðan Járngerðarstaða. Frá bænum lá sjávargatan framhjá Járngerðarleiði, er nú má sjá í eitt hornið af undir veginum gegnt Hliði.
26. Stóra-Bót geymir Virki Jóhanns breiða og samlanda hans og stendur sem minnisvarði um lok ensku aldarinnar hér á landi. Þar er og Junkaragerðið, sem fyrr segir.
27. Einisdalur er fallegur áningastaður vestan Járngerðarstaða.
28. Hóp hefur af sumum verið talið vera landnámsjörð Molda-Gnúps. Hann átti þrjá sonu sbr. Hauksbók, en fjóra sbr. Sturlubók. Þeir hétu a.m.k. Björn (Hafur-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi, sem Þórðarfell er kennt við. Fjórði bróðirinn á að hafa verið Gnúpur er Gnúpshlíðarháls er kenndur við. Talið er jafnvel að landnámið hafi verið þar sem Hóp er nú. Getið er jarðarinnar Hofs í rekamáldaga Skálholtskirkju frá árinu 1270.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Engin jörð við Grindavík hefur borið það nafn á síðari öldum. Um misritun gæti hafa verið að ræða. Hof gæti líka hafa breyst í Hóp eftir að kristni af innleidd. Við Hóp er öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending og mikil fjörugæði. Þar er tóft, sem nefnd er Goðatótt og ekki hefur mátt hrófla við.

Þórkötlustaðanes

Sögusviðið í Þórkötlustaðanesi.

29. Í Þórkötlustaðahverfi má m.a. finna dys Þórkötlu, fiskbyrgi og -garða í Slokahrauni og við Hraun er 14. aldra kapella, Gamlibrunnur, Tyrkjadys, refagildrur og Tyrkjahellir.
30. Þórkötlustaðanesið er lifandi minjasafn um útgerð sjávarþorps á fyrri hluta 20. aldar, semnú er horfið. Eftir standa íshúsin, fiskkofarnir, garðarnir, uppsátrið, rústir lifrabræðslu og grunnar húsa, sem fjarlægð hafa verið og flutt í önnur hverfi – meira lifandi.

Grindavík

Grindavík.

Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni “Í fótspor fjár og feðra“.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik – www.ferlir.is

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Kind

Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs).

Umleitun

Tilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem “Óbrennishólahraun” og “Óbrynnishólahraun”. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér heyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá “hugskeyti” frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.

VitneskjaFERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 140 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 60 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 180 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar “Bókin mikla – Reykjanesskinna” kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
Handan