Vogar

Í Wikipedia koma fram eftirfarandi upplýsingar um “Suðurnes” á Reykjanesskaga:

Suðurnes

Suðurnes – kort.

“Suðurnes er samheiti þeirra byggðarlaga sem eru á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, eða sunnan Straums eins og Suðurnesjamenn segja oft. Þessi byggðarlög eru Vogar í samnefndu sveitarfélagi á Vatnsleysuströnd, Reykjanesbær (sem var myndaður 1994 úr Innri- og Ytri Njarðvík, Keflavík og Höfnum en sameining var felld í öðrum byggðarlögum), Suðurnesjabær (sem myndaður var 2018 úr Garði og Sandgerði) og Grindavík. Á þessu svæði er landnám Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs, en henni gaf hann Rosmhvalanes allt sunnan Hvassahrauns, eins og Landnáma kemst að orði. Einnig landnám Molda-Gnúps, sem nam Grindavík. Annars er frásögn Landnámu um þetta svæði mjög óljós.”

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Á Vísindavefnum segir um “Suðurnes” þegar spurt var; “Er Reykjanes það sama og Suðurnes?”:
“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Á eftir skrá um hvalskipti Rosmhvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.
Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann:

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903; Rosmhvalanes.

Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga og þaðan alla leið til Krýsuvíkur. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var “hællinn” á skaganum en það síðarnefnda “táin”, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.”

Málið er að Suðurnes voru jafnan talin vera byggðalögin vestan Hafnarfjarðar á norðanverðum og vestanverðum Reykjanesskaganum. Grindavík á sunnanverðum Skaganum var aldrei talið til “Suðurnesja”.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Su%C3%B0urnes
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Hafnir

Hafnir.