Straumssel

Á vefsíðunni má fræðast um yfir 401 sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á umliðnum árum á Reykjanesskaga. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Yfirlitið segir til um 401 sel á 202 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er t.d. getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn, auk fjölda annarra.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg, sem sannarlega hafa þá verið í notkun. Verður það að skrifast á ónákvæma skráningu hlutaðeigandi. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu.

Urriðavatn

Frá uppgreftri við Urriðavatn.

Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir. Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík, Kúadalur ofan Kaldársels og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt. Við Urriðavatn í Garðabæ hefur verið garfið upp kúasel, væntanlega frá Hofstöðum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma).

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.