Tag Archive for: Sel

Rauðhólssel

Gengið var upp í Fornasel á Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar, í Auðnasel og áfram upp í Rauðhólssel. Þaðan var gengið til baka niður heiðina með viðkomu í Flekkuvíkurseli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – stekkur.

Fornasel er austan við svofnefnda Strokka. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessm slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni. Selið sést vel frá Strokkum og er stutt að ganga að því, hvort sem er frá Reykjanesbrautinni eða línuveginum. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár eða fjórar tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt ofan við hólinn að austanverðu er lítið vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á lengd, um 2 m á breidd og er grjóthleðsla í kring.

Fornasel

Fornasel.

Auðnasel er norðaustur af Knarrarnesseli. Þangað var um 15 mín. gangur. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýholt. Margar tóftir er þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestan af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu.
Í landamerkjalýsingu Auðna og Landakots frá árinu 1886 er Stórhæð nefnd og sagnir eru til um að setið hafi verið yfir sauðum í Stórhæð.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ofarlega í heiðinni eru nokkir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsbvól. Aðalbláberjalyng er mjög skaldgæf jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Kálfatjarnarbræður sögu Herdísi Jónsdóttur, f: 1858, hafa komið í selið sem barn. Þar voru þá eingöngu hafðar kindur.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursel, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.
-Örnefni og göngileiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Brunnastaðasel

Gengið var yfir Hrafnagjá frá Reykjanesbraut, upp Vogaheiði áleiðis upp í Knarrarnessel og Brunnastaðasel, síðan niður heiðina á ný, niður að Snorrastaðatjörnum með viðkomu í Nýjaseli.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Hrafnagjá liggur, að sumir segja, frá Háabjalla og alla leið í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Af loftmyndum að dæma eru skil á milli Hrafnagjá Vatsleysumanna og Hrafnagjár Vogamanna. Hvað sem því líður er gjáin falleg og gefur Almannagjá lítið eftir á köflum. Hæst er Hrafnagjá um 30 metrar, þ.e. ofan Voganna.
Gjárnar upp Vogaheiðina eftir að gengið hefur verið yfir Hrafnagjá heita m.a. Huldugjá, Litla-Aragjá, Stóra-Aragjá, Klifgjá, Gjáselsgjá, Holtsgjá og Brunnastaðaselsgjá.
Á Huldugrjárbarmi er Pétursborg. Gjáin er nokkuð há á kafla. Litla-Aragjá og Stóra-Aragjá eru óljóslega sagðar heita eftir Ara, fornmanni í Vogum, en ekki eru til skráðar heimilir um það. Sá möguleiki er fyrir hendi að Aranafnið sé jafnvel tilkomið af fuglsnafninu örn. Þar sem bergveggurinn er hæstur í Stóru-Aragjá heitir Arahnúkur.

Arasel

Arasel.

Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnast tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt alla leið í Snorrastaðatjarnir.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Í bergveggunum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Stóra-Aragjá nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá þegar komið er austar í heiðina.
Í norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jólin. Mikil leit var gerð, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – stekkur.

Brunnastaðaselið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil heilleg kví og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma. Ofar er Brunnastaaðselsvarða og heimildir eru um Brunnastaðaselsvatnsstæði.
Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilhyert bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar við Snorrastaðatjarnir, en hvergi sést merki um þann bæ. Í Jarðabókinni 1703 segir um Snorrastaði: “Forn eyðijörð og hefur um langan aldur í eyði legið… Nú er allt land þessarar jarðar lagt undir brúlkun ábúenda í Vogum hvoru tveggja, og hefur yfir hundrað ár verið svo”. Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Gengið var frá Straumi áleiðis upp í Straumssel eftir Straumsgötu. Straumstíg var síðan fylgt upp hraunið til suðurs vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur og Straumsselsstígur eystri.

Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.

Straumssel

Straumssel – selið.

Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].

Neðri-straumsselshellar

Neðri-Straumselshellar.

Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin niður að Þorbjarnastöðum.

Verklag í seli.

Straumssel

Vatnsból skammt sunn-an Straumssels.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.

Straumssel

Straumssel – brunnur.

Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann.

Straumssel

Straumssel – selstaðan.

Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.

Straumssel

Straumssel – garður.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Seljabúskapur.

Straumssel

Í Straumsseli – varða.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Straumssel

Straumssel – Neðri-Straumsselshellar.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumsselhellar.

En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.

Straumssel

Í helli vipð Efri-Straumsselhella.

Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.

Straumsselsstígur vestari

Vestari Straumsselsstígur.

Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.

Fornaselsstígur

Fornaselsstígur.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér.

Straumssel

Straumssel – gerði.

Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Straumssel

Hellir við Efri-Straumsselshella.

Geirs Bachmanns segir í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Straumssel

Eystri-Straumsselsstígur (Fornaselsstígur).

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Straumssel

Straumssel – stekkur.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli.

Straumssel

Eitt opanna við Neðri-Straumselshella.

Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus.

Straumssel

Hleðslur í Efri-Straumsselshellum .

Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur.

Straumssel

Í Neðri-Straumselshellum.

Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og  Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Straumsgata

Straumsgatan.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Straumssel

Straumssel.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðastekkur.

Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Einir

Einir við Straumssel.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar.

Straumssel

Straumsselið.

Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu. Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Straumssel

Varða við Eystr-Straumsselsstíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Straumssel

Varða við Eystri-Straumsselsstíg.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Straumssel

Rétt við Eystri-Straumsselsstíg – Tobburétt austari.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703.

Straumssel

Fyrirhlesðlur í Efri-Straumsselshellum.

Á vefsíðunni má sjá heildaryfirlit yfir sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesi. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selaðstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).
Yfirlitið segir til um 139 sel á 102 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg.

Hraunin

Gengið um Hraunin.

Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.

Straumssel

Hreiður við Straumssel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar.

Straumssel

Í Straumsseli.

Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Straumssel

Straumssel.

Niðurlag.
Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár.

Straumssel

Straumssel.

Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.
Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.
Sjá Myndir.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Gísli Sigurðsson.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá.

Blikdalur

Blikdalur – herforingjaráðskort.

Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána.

Guðrún Runólfsdóttir

Guðrún Runólfsdóttir – Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.

Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona. Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Blikdalur

Blikdalur – sel.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Sel - tilgáta

Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum  bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 420 slíkum. Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Venjulega var búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars,  mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar.

 Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta – ÓSÁ.

Hús – megingerð
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara en víða annars staðar, s.s. í gróningum undir hlíðum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – uppdráttur ÓSÁ.

Eins og fram kemur um staðhætti á Reykjanesskaganum þá er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu?) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í eitt rými; eldhúsið. Það hefur að öllum líkindum staðið stakt. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í staka rýminu.
Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum Seltóftirinngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins.  Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í  Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)).  Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr. Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, um 120×240 sm (Knarrarnessel eða 240-320 sm (Brunnastaðasel), tvískipt og jafnan með þremur rýmum. Þó eru til sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.
RéttEkki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik. Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.

Seljagerðir

Þróun seljanna.

Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim ef vel er að gáð.

Réttir

Seljabót

Seljabót – rétt.

Rétt er ofan við Straumssel (Efri-Straumsselshellar), í Seljabót nálægt Herdísarvíkurseli og á Selsvöllum (Vogarétt), en annars eru réttir ekki fast við sel á Reykjanesskaganum. Þessar réttir gætu verið yngri en selin af ummerkjum að dæma því hleðslur standa yfirleitt enn nokkuð vel.
Vorréttir, fráfæru-réttir og rúningsréttir voru yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamra-veggnum í Stóra Hamra-dal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.

Fjárskjól
FjárskjólFjárskjól eru um 280 á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sum þeirra eru nálægt seljum. Samkvæmt örnefnalýsingum  eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunbæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum. Þar skammt frá er fjárskjól í Fjárskjólshrauni.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – fjárhellir í Selvogi.

Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í rásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar. 

Fjárborg – fjárbyrgi
FjárborgFjárborgir (hlaðnar) eru um 90 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum höfundar. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum. Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki heima við bæi á vetrum.

Nátthagi
NátthagiNátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta.
Við Óttarsstaðasel og Fornasel í Hraunum eru fallegir nátthagar.

Stekkur – kví
StekkurStekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum.
Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar eru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Annað hvort hlaðnar kvíar eða stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni, jafnan staðsett í góðu skjóli.

Brunnur – vatnsstæði
VatnsbólBrunnar og vatnsstæði voru bráðnauðsynleg í seljum eða við þau. Vatnsból gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli. Í þurrkum eru dæmi um að yfirgefa þurfti sel áður en seltíma lauk. Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleika.
Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar. Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt spolkorn væri á milli þess og selsins.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel  eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.

Gerði – garður

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, mörg seljanna í Vogaheiði,

Stekkur

Grindavíkurselin og Merkinessel yngra. Stekkir eru þar hlaðnir utan í hæð eða bergvegg auk þess sem auðvelt hefur verið að leiða eða reka fé að þeim.
Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim. Þannig eru hvorutveggja oft undir hlíðum, gjám eða misgengjum, s.s. Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II. 

Selstígur – selsgata
SelstígurSelstígurinn lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir mörgum þessara stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli.
Selsgatan hefur verið mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km).

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá vörður og/eða vörðubrot.

Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Strandarheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra. Gegnumgangur hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar gætu hins vegar hafa viljað nýta sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.

Smalabyrgi

Straumssel

Efri-Straumsselshellar – smalaskjól.

Hlaðin smalabyrgi eru í nágrenni við örfá sel eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, við Flekkuvíkursel og neðan við Stakkavíkurselið yngra.

Selsvarða
Selsvarða stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi að því. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu.
SelvarðaMargar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar grónar. – ÓSÁ

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.

 

Njarðvíkursel

Ætlunin er að reyna að gefa innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina, þ.e. Strandarheiði og Vogaheiði, á innan við 10 mínútum. Stikklað verður því á stóru.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson.

Byggðin hér á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. A.m.k. einn hlaðinn kúastekkur sést þó enn hér fyrir ofan – í Kúadal. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars, en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo. Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Arasel

Ara(hnúka)sel – stekkur.

Á Norðurlandi voru selin oft minni bæir, sem bændur fluttu með mest allt sitt fólk í yfir sumarið og gerðu út þaðan. Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis. Þau voru tímabundar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Dæmi eru þó um einstaka kolasel, þ.e. þau hafa verið notuð til kolagerðar í heiðinni.
Selin eða selstöðurnar í heiðinni, þ.e. í Vatnsleysustrandarbæjalandi milli Hvassahrauns og Seltjarnar, en Innri-Njarðvíkur tilheyrðu þeim þangað til á 20. öld, eru um 34-40, eftir því hvernig talið er.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Hvassahraunssel er austast, en Njarðvíkursel vestast, við Seltjörn eða Selvatn, eins og það þá hét. Deilt hefur verið um hvort Dalselið undir Fagradalsfjalli hafi tilheyrt Grindavíkingum eða Strandarmönnum. Þá var Sogasel í Trölladyngju í fyrstu sel frá Krýsuvík, en síðan Kálfatjörn. Þessi sel hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda einkum gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Síðast var haft í seli frá Flekkuvík um og í kringum 1870 og mun það hafa verið síðasta selið í notkun frá Vatnsleysustrandarbæ. Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.
Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv.

Sogasel

Sogasel.

Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. klukkustundar langur – stundum styttri – stundum lengri. Stígurinn var varðaður og varða var á hól ofan við selstöðuna. Hér á Reykjanesi var selið oftast í skjóli fyrir rigningaráttinni, að norðaustan, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót suðvestri. Selið sjálft var venjulega þrjú rými. Einn inngangur var í tvö þeirra, þ.e. svefnaðstöðu og búr, og annar í eldhúsrýmið. Í sumum seljunum voru fleiri en ein selstaða, þ.e. frá fleiri bæjum. Skammt frá var vatnsstæði eða brunnur. Þó eru allnokkr dæmi um að notað hafi verið yfirborðsvatn í bollum og lautum, sem oft vildi þrjóta þegar leið á sumarið. Þá varð að yfirgefa sum selin, s.s. áður en eiginleg selstíð var á enda. Í selinu var tvískiptur stekkur, venjulega hlaðinn úr grjóti. Hann var notaður til að færa frá. Einnig var þar kví, notuð til mjalta. Fráfærur voru í upphafi stekkstíðar og er í rauninni sérstakur kafli seljabúskaparins.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Fjárskjól, hlaðið fyrir hellisop eða skúta, eru við eða nálægt sumum seljanna á Reykjanesi, en fá hér í heiðinni. Þó má sjá slíkt í Kálffelli, en þar er sagt að Oddur á Grænuborg hafi setið yfir sauðum og í Öskjuholti. Einnig við Smalaskála. Sauðaútgerðin er enn annar kafli, sem ekki verður fjallað um hér.
Fjárborgir, hlaðin hringlaga gerði, eru nokkur í heiðinni. Má þar frægasta nefna Staðarborgina hér ofan við Kálfatjörn, Gvendarborg, enn ofar, Pétursborg á Huldugjárbarmi, Þórustaðaborgina, Auðnaborg, Hringinn, Grænuborg og Gvendarstekk ofan við Voga. Sumar tengjast seljabúskapnum, en þeim var þó yfirleitt ætlað að veita fé skjól í vondum veðrum. Fé var ekki tekið í hús, eða sérstök hús byggt yfir fé, á Reykjanesi fyrr en komið var fram á 20. öldina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Nátthagar voru ekki fjarri seljunum, yfirleitt í stórum grónum lægðum eða hraunkrókum.
Yfirleitt var tvennt í hverju seli, þ.e. selmatsseljan, eða selráðskona, og smalinn. Stundum var unglingur hafður með til aðstoðar. Dæmi er um að kona í seli hafi haft með sér erfiðan ungling til verka og fékk að launum fisk frá foreldrunum á Ströndinni. Dugði hann til viðurværis út árið. Verkaskiptingin var skýr. Hún mjólkaði og vann úr mjólkinni, en hann gætti fjárins og skilaði því í selið á tilskildum tíma. Gerði hann það ekki gat hann átt von að þurfa að éta skömmina, eins og það var nefnt. Þessi verk gátu oft verið erfið og slítandi. Samt voru þetta eftirminnilegustu verk þeirra, sem þau unnu, er litið var síðar yfir liðna tíð.

Gjásel

Gjásel – tilgáta ÓSÁ.

Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað umm Innnesin og Útnesin því ekki fóru allir Almenningsleiðina.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn átti erfitt uppdráttar þegar tók að líða á 19. öldina, bæði vegna mannfæðar á bæjum og sumir sögðu vegna leti bændanna. A.m.k. þurfti konungstilskipun til að gera bændum skylt að gera selin út, en þeim fækkaði þó smám saman uns þau lögðust af er líða fór að aldamótunum 1900.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Ekki hefur verið skrifað mikið um sel hér á landi, en Guðrún Gísladóttir hefur þó ritað um Grindavíkurselin, bæði á Baðsvöllum og á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi, sem Vogamenn hafa stundum viljað hafa átt, og Sesselja Guðmundsdóttir, heimamaður hér á Ströndinni, hefur getið allra seljanna í heiðinni og nefnir þau í bók sinni Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd, sem Lionsklúbburinn gaf út á sínum tíma. Þar getið þið lesið ykkur meira til um þetta efni. Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.

Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra…. Sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Selin í heiðinni bíða heimsóknar ykkar – hvenær sem þið hafið áhuga á, getu eða nennu og tíma til.

Úr erindi ÓSÁ er flutt var í Kálfatjarnarkirkju á Menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 24. okt. 2004.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

selhús

Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá.

Stekkur í seli - D. Bruun

Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn: ,,Það stenst á endum strokkur og mjaltir“.

Smali í seli - færikvíar

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt. Selin voru venjulega þrjú hús: mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur.
Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar. Heldur þótti það vilja þynnast á selflutningunum, sem von var.

Selsmatsselja

Selsmatsselja.

Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig.

Seljabúskapur

Seljabúskapur – RÚV.

Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um  sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju.

Heimild m.a.:
-www.skolavefurinn.is

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

Selvogsheiði

Selstöðvar voru tímabundnar nytjastöðvar frá einstökum bæjum. Á Reykjanesskaganum má enn sjá leifar af yfir 400 slíkum.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Mannvirki í seljum á Reykjanesskaganum, auk húsanna, eru hlaðnir stekkir og kvíar, nálægar réttir, fjárskjól með hleðslum fyrir og í, hlaðnar fjárborgir eða –byrgi, manngerðir brunnar og vatnsstæði, hlaðnir nátthagar og vörður, ýmist við selgöturnar eða selin sjálf. Við kolasel má auk þess sjá kolagrafir.
Elstu selstöðurnar voru fyrir kýr, en langflestar eru fjársel þar sem búpeningur hafður í seli að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars, mjólkurafurðinar unnar þar og þeim komið til bæjar til vetrarnytja.

Sel – hús
Helstu mannvirki í seljunum á Reykjanesskaganum, líkt og annars staðar á landinu, eru húsin. Þau voru gerð úr tilfallandi byggingarefni, að mestu úr grjóti og einnig torfi. Þar sem grjót var að hafa var byggingarefnið að mestu grjót. Þar sem auðveldara var að ná í torf er torfið einnig hluti af húsagerðinni. Á Reykjanesskaganum, þar sem nægt grjót var að hafa í hraununum var torfið vandfundara.

Kringlumýri

Kringlumýri – ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Á Reykjanesskaganum er lítið um gróna inndali. Hvamma og kvosir er helst að finna undir Hálsunum (Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) og Austurhálsi (Sveifluhálsi)) eða Hlíðunum (Lönguhlíðum og Undirhlíðum).
Húsin í seljum Reykjanesskagans eru gjarnan með tveimur eða þremur rýmum. Annars vegar er inngangur í tvö rými; svefnaðstöðu (selbaðstofu) og búr eða geymslu, og hins vegar inngangur í stakt rými; eldhúsið. Í sumum seljanna má enn sjá ón í þessu rými, s.s. í Óttarsstaðaseli. Þegar grafið var í Fornasel árið 2004 voru hlóðir í stöku rými.

Möngusel

Möngusel ofan Hafna.

Í minnstu seljunum sjást einungis minjar tvískiptra húsa með sameiginlegum inngangi eða inngangi í hvorn hluta. Líklega hefur verið reft yfir veggi með tré og torfi, en sums staðar gæti hafa verið notaður dúkur, enda um tímabundna notkun að ræða á heitasta tíma ársins. Þar sem einungis eru tvípskipt hús er gjarnan skúti eða lítill hellir nærri, s.s. í Litlalandsseli, Stakkavíkurseli yngra, Nesseli, Eimubóli og Þorkelsgerðisbóli (Skyrhóll)). Slík aðstaða gæti hafa verið notuð til eldamennsku eða annarra nota, s.s. sem búr.

Hnúkar

Hellisskjól við Hnúkasel.

Á einum staðnum, í óþekktu skjóli í Hnúkum, hér nefnt Hnúkasel ofan við Selvog, er t.a.m. slík aðstaða. Bæði er þar rúmgóður skúti með hringlaga hleðslu í miðju er bendir til eldstæðis og tvær tóftir utan við. Skammt frá er hlaðin kví, að því er virðist.

Húsin voru venjulega fremur lítil að innanmáli, reyndar breytileg frá einum tíma til annars. Elstu selshúsin voru lítil, nánast eins og og smákofar, en þegar fram leið stökkuðu vistarverurnar; baðstofan um 240×360, búr um 180-120 og eldhús um 120×120. Til eru sel með nokkrum tóftum þar sem hvert hús er stakt, s.s. Ara[hnúk]sel og Gjásel.

Staðarsel

Strandarsel (Staðarsel) í Selvogsheiði.

Ekki virðist vera meginmunur á gerð seljanna eftir því hvar þau eru á svæðinu. Þótt byggingarefnið hafi ráðist af því hvort selin voru í mólendi eða í hraunum er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á byggingarlag þeirra. Þannig eru seltóftir í Selvogi, s.s. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, svipaðar seltóftum á Selsvöllum og í Sogagíg, ofan við Hafnir, eða ofan Leirvogsár í Mosfellssveit. Hins vegar leyfa landshagir á nokkrum stöðum svolítil frávik.

Merkinessel

Merkinessel yngra.

Merkinessel yngra er t.a.m. hlaðið utan í u.þ.b. tveggja metra háan gjávegg og þar sem skjól eða skúta er að finna hafa húsin oft verið byggð nálægt þeim, t.d. Stakkavíkurselið yngra, Eimuból, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel. Ekki er ólíklegt að ætla að skútarnir hafi í fyrstu verið tímabundin skjól fyrir þá er fyrstir reistu mannvirkin í seljunum.
Þótt ekki sé hægt í fljótu bragði að greina mikinn mun á gerð seljanna þó má vel greina breytingar á þeim í gegnum tíðina, ef vel er að gáð.

Réttir

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Réttir voru ekki fast við sel á Reykjanesskaganum, enda seinni tíma mannvirki, þ.e. eftir að seljabúskapurinn lagðist af um og eftir 1870. Þó má víða greina litlar réttir í tengslum við selin, s.s. vorréttir, fráfæru- og rúningsréttir, en slíkar réttir voru þó yfirleitt nálægt bæjum, s.s. við Óttarsstaði, Þorbjarnastaði, Lónakot, Hvassahraun og Þórustaði, en þó má sjá rúningsrétt undir hamraveggnum í Stóra Hamradal, fjarri Vigdísarvöllum. Þessar réttir eru jafnan nefndir stekkir í örnefnaskrám, sbr. Stekkinn ofan Þorbjarnastaða, enda hafa bæjastekkirnir að öllum líkindum þjónað sem slíkir á meðan fært var frá heima við bæi, væntanlega eftir að hætt var að færa frá í seli í lok 19. aldar. Hleðslur þessara mannvirkja eru jafnan enn mjög heillegar og standa vel. Síðar, þegar hætt var að færa frá í byrjun 20. aldar, hafa stekkir þessir gegnt hlutverki rétta.

Fjárskjól

Bekkjarskúti

Bekkjarskúti.

Fjárskjól eru um 320 á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sum þeirra eru nálægt seljunum. Samkvæmt örnefnalýsingum eru t.a.m. Efri- og Neðri-Straumsselshellir við Straumssel, Bekkjaskúti, Sveinshellir, Meitlaskjól og Rauðhólsskúti eru við Óttarsstaðasel og Skoráskjól við Lónakotssel. Einkum má sjá þetta ofan við Hraunabæina og ofan við Selvog. Við munna þeirra eru víða hleðslur og einnig inni í þeim. Í Eimubóli er t.d. hlaðinn stekkur inni í Eimuhelli. Bjargarhellir og Strandarhellir á Strandarhæð er með stærri fjárskjólunum, sem og Gvendarhelllir (Arngrímshellir) í Klofningum.

Fjárskjólshraun

Fjárskjól í Fjárskjólshrauni.

Þar skammt frá er stórt fjárskjól í Fjárskjólshrauni.
Fyrirhleðslur eru inni í mörgum stærri hellanna, s.s. í Straumsselshellum, til að varnar því að fé færi of langt inn í hraunrásirnar. Fjárskól þessi hafa verið mikilvæg fyrr á öldum þegar ekki var í önnur skjól að venda fyrir fé. Ekki voru byggð hús sérstaklega yfir fé fyrr en í byrjun 20. aldar.

Fjárborg – fjárbyrgi

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Fjárborgir (hlaðnar) eru um 145 talsins á Reykjanesskaganum skv. athugunum. Sumar þeirra eru nálægt seljum eða á leiðum að þeim, s.s. Óttarstaðafjárborgin (Kristrúnarborg) við Óttarstaðaselstíg, Pétursborg ofan Huldugjár á Vatnsleysuströnd, Gvendarborg á leið í Rauðhólssel og Oddafellsel, Þorbjarnarstaðaborg við Fornasel og Gjásel, Borgarhólsborg nálægt Húshólma og Djúpudalaborg nálægt Nesseli (í Hlíðarendalandi). Borgir þessar hafa verið hlaðnar til að veita fé skjól fyrir óvæntum veðrum og vindum. Ekki er útilokað að þær hafi einnig verið notaðar sem nátthagar á sumrum í sumum tilvikum.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Fjárborgir nær bæjum, s.s. Stakkavíkurborg, Herdísarvíkurborgirnar tvær, sem síðar urðu að fjárhúsum, Breiðabólstaðaborg í Ölfusi, Grænaborg og Gvendarborg ofan Voga, Hringurinn, Lynghólsborg og Staðarborg í Strandarheiði, Árnaborg ofan Garðs og Álaborgirnar ofan Sandgerðis hafa þjónað sama hlutverki og „fjárhús“ heima við bæi á vetrum.
Fjárborgirnar voru jafnan grjóthlaðnar, en þó má víða sjá að torf hafi verið notað við gerð þeirra, s.s borgirnar ofan Flaknastaða og Grænaborg í Njarðvíkum.

Nátthagi – smalabyrgi

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Nátthaga (hleðslur) má finna við sum selin, s.s. Óttarstaðasel, Straumssel, Kaldársel og Hvassahraunsseli. Við hið síðarnefnda er hlaðið byrgi til skjóls fyrir smalann (smalabyrgi). Séðir smalar hafa eðlilega gert sér skjól, sem þeir hafa getað hafst við í skjóli fyrir vondum veðrum en jafnframt haft yfirsýn yfir hjörðina.
Nátthagar voru hluti af selinu, en ekki allfjarri, og voru yfirleitt ekki afmarkaðir með görðum. Náttúrulegir dalir og lægðir hafa verið notaðir til slíkra nota, þ.e. til að halda fé saman yfir nótt. Smalinn hefur þá jafnan haft nálægt afdrep í skjóli eða skúta. Við flest selin eru fallegir grónir nátthagar.

Stekkur – kví

Hádegisskarð

Stekkur norðan Hádegisskarðs.

Stekkir voru yfirleitt hlaðnir, ýmist úr grjóti eða torfi, og má sjá þá við flest selin. Þeir eru jafnan tvískiptir. Króin var notuð til að halda lömbunum aðskildum frá ánum á meðan þær voru mjólkaðar. Stekkir seljanna á Reykjanesskagnum eru misstórir, en þó margir furðu jafnstórir. Svo virðist sem þeir yngri séu öllu stærri en þeir eldri, en það getur þó einungis verið vegna þess að þeir sjást nú betur með berum augum. Í sumum seljanna eru fleiri en einn stekkur, misgamlir. Fjöldi stekkja í fjölnota selstöðu geta sagt til um fjölda bæja, sem þar höfðu í seli. Stærð stekkjanna gefa einnig mynd af stærð fjárstofnsins hverju sinni.

Flankastaðastekkur

Flankastaðastekkur.

Hlaðnar kvíar má sjá við sum selin, s.s. við Gjásel, en í þeim voru ærnar mjólkaðar. Í mörgum seljanna er erfitt að koma auga á kvíar svo líklegt má telja að þær hafi oft verið gerðar úr trjástofnum eða timbri, svonefndar færikvíar, en þar sem þær voru hlaðnar voru þær yfirleitt í skjóli fyrir suðaustri eða austri (rigningaráttinni), í lægð, í gjá, undir hæð, bakka eða jafnvel stórum steini, sbr. Gjáselið í Hraunum.
Hlaðnar kvíar og stekki má sjá við flestar selstöðurnar á Reykjanesskaganum. Mjög erfitt getur verið að greina hvorutveggja við elstu selin, en svo virðist sem náttúrulegar aðstæður hafi þá verið látnar ráða staðsetningunni. Hvorutveggja voru jafnan staðsett í góðu skjóli.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – stekkur.

Stekkir í spottkornsfjarlægð voru jafnan hlaðnir utan í hæðir eða bergveggi þar sem auðvelt var að leiða eða reka fé að þeim, s.s. við Gjásel, Brunnastaðasel, Vogaselin yngri, Selsvallaselin eldri, Hraunssel, Varmársel, Þerneyjarsel og Mosfellssel II. Staðsetningar kvía og stekkja í selinu virðast hafa einnig hafa verið ákveðnar með það fyrir augum að auðvelt væri að reka féð að þeim.

Brunnur – vatnsstæði

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Sel voru jafnan staðsett við brunna eða vatnsstæði, gjarnan nálægt ystu mörkum jarðnæðis. Vatn var bráðnauðsynlegt í seljum eða í nálægð við þau. Vatnsbólin gerði gæfumuninn hvort vært væri í tilteknu seli frá einum tíma til annars. Á þurrkatímum eru dæmi um að yfirgefa hafi þurft sel áður en seltíma lauk. Í slíkum tilvikum var ótímabærum draugagangi kennt um.
Í Jarðabókinni 1703 eru gæði selja að mestu metin eftir vatninu, auk fjarlægðar frá bæ og beitarmöguleikum. Vatnsstæðin við Fornasel (ofan Þorbjarnarstaða), Straumssel, Óttarsstaðasel, Fornasel (Litlasel) og Knarrarnessel eru öll myndarleg og höfðu ávallt vatn, enda selstöðurnar taldar ágætar.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Gnægt vatn var í Hraunssels-Vatnsfelli fyrir Hraunssel þótt „Vatnsbólspölkorn“ væri á milli þess og selsins. Selin á Selsvöllum, Sogagíg, Hvömmum (Kaldranasel?), Haukafjöllum (Esjubergssel), Bringum, Gömlubotnum og við Leirvogsá voru öll við læki eða ár, líkt og Jónssel í Blásteinsbringum svo og Kaldársel.
Markúsarsel, (Reykja)víkursel, Mosfellssel II, Hvaleyrarsel, Ássel, Snorrastaðasel, Nýjasel, Innra-Njarðvíkursel og Grafarsel eru nálægt vötnum.
Erfiðustu selstöðurnar voru þar sem minnst vatn var að fá, s.s. Hlöðunessel, Hólssel, Hópssel, Kirkjuvogssel, Merkinesselin, Möngusel og Rauðhólssel.

Gerði – garður

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Gerði og garðar eru í seljum og við þau til að hefta eða takmarka aðgang sauðfjár. Umhverfis jarðföll Eimuhóls í Selvogsheiði er t.d. hringlaga gerði og umhverfis Straumssel (sem varð að bæ á 19. öld) eru garðar. Norðan við Kirkjuvogssel er hringlaga gerði á sléttri jörð. Við flest sel eru þó engar merkjanlegar hleðslur umfram það sem nefnt er hér að framan. Selstöður virðast jafnan hafa verið valdar með hliðsjón af því hvort nota mætti aðstæður og spara hleðslur. Helgusel neðan við Bringur ofan Mosfellsbæjar eru t.a.m. ágætt dæmi um slíkar aðstæður, svo og Mosfellssel II við Leirvogsvatn, sem og mörg seljanna í Vogaheiði.

Selstígur – selsgata

Selsstígur

Selsstígur.

Selstígur lá jafnan svo til beint frá bæ upp í selstöðuna. Enn í dag má rekja sig eftir flestum þessara fyrrum stíga. Sumir eru markaðir á köflum í harða hraunhelluna, s.s. selstígurinn frá Herdísarvík, gatan upp í Gjásel og Fornasel og stígurinn inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum.
Selsgatan var mislöng. Þannig var langt inn á Selsvelli frá Grindavíkurbæjunum (um 11 km) og upp í Sogagíg frá Kálfatjörn (um 9 km), en stutt t.a.m. frá Hlíðarenda, Litlalandi og Selvogsbæjunum (innan við 5 km). Þannig var því einnig háttað víðast hvar annars staðar, s.s. í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og í Stafnes- og Hafnahreppi. Að jafnaði hefur selsgatan verið nálægt 6-7 km. Ferðalagið upp í selið með vistir hefur þá tekið 1 ½ til 2 klst og svipaðan tíma með afurðirnar til baka.
Stígar og götur upp í selin voru gjarnan varðaðar. Enn má víða sjá við leiðirnar vörður og/eða vörðubrot.
Nokkur seljanna eru við alfaraleiðir, s.s. Hlíðarendaselið, Litlalandssel, Breiðabólstaðasel, Selsvallasel, Hafnarsel (Þorlákshafnarsel), Víkursel við Selvatn, Ólafarsel undir Vörðufelli í Selvogsheiði og Stakkavíkurselin. Líklegt er að sumar þessar leiðir hafi orðið til sem framhald af selsgötunum frekar en að þau hafi beinlínis verið staðsett með tilliti til þeirra.

Mannsskapur í seli

Mosfellsbær

Í stekknum.

Í sérhverju seli var a.m.k. selsmatselja og smali. Fjöldinn fór eftir umfanginu.
Bóndinn, eða einhver í hans umboði, flutti vistir í selið og síðan færði nytjarnar til bæjar.
Gegnumgangur um selin hefur tæplega verið æskilegur, en ferðalangar virðast hafa nýtt sér nálægð seljanna á leiðum sínum því þar gat jú verið athvarf ef illa viðraði.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði til mjalta að morgni eða sídegis var smalinn jafnan látinn borða borða „skattinn“ sinn, þ.e. hann fékk að borða við skilin.
Nokkrar sögur eru til um að selsmatseljur hafi orðið ófrískar í selinu. Oftar en ekki var huldufólki eða útlegumönnum um kennt, en ógjarnan hugað að ferðum húsbóndans í selið eða aðkomumönnum þar á ferð.

Selsvarða

Lónakot

Lónakot – Skorásvarða.

Selsvarðan stóð gjarnan á hæsta hól ofan við selstöðuna eða á hæsta kennileiti er leiddu þá er þangað áttu erindi. Varðan var nokkurs konar stefnumið. Þessi varða var yfirleitt stærri og hærri en aðrar vörður í nágrenninu. Margar þessara varða standa enn eða hafa verið endurhlaðnar. Þótt sumar varðanna séu ekki mjög stórar þegar að er komið, hefur þeim verið þannig fyrir komið að þær sjást langt að, s.s. varða á Skorás ofan við Lónakotssel.
Vörður eða vörðubrot eru við flest selin í hraunum Reykjanesskagans, en síður við sel undir hlíðum (Hraunssel og Selssvallasel) eða á aðgengilegri og auðrataðri stöðum, s.s. í Sogagíg. Þótt enn megi sjá reisulegar vörður, eru sumar nú fallnar og aðrar orðnar grónar.

Verklag í seli

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti, sem fyrr sagði. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.

Skyrhóll

Skyrhóll neðan Þorkelsgerðissels.

Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.
Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.
Ef rennt var úr trogunum var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat. Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.
Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar, alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.

Trog

Trog.

Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselshella.

Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.

– ÓSÁ

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Litla-Botnssel

RÚV var með fróðlegan talsmálsþátt 11. des. 2022 um seljabúskap á Íslandi; „Man ég það sem löngu leið – Samtíningur um seljabúskap á Íslandi„.
Eftirfarandi er lesið í þættinum: „Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur, birt í Húnavöku árið 1975″, „Minningar Þormóðs Sveinssonar úr Goðdölum„, „Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson“ og „Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson, birt í safnfritinu Heimdragi.

Stekkur

Smali og selsmatsseljur við stekk (kvíar).

FERLIR umbreytti framangreindum frásögnum að hluta yfir í eftirfarandi ritmál. Um er að ræða áhugaverðar upplýsingar um verklag í seljunum fyrrum, en slíkar frásagnir er sjaldnast að finna í skriflegum lýsingum um þessa merkilegu arfleifð íslenskrar búskaparsögu.

Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur birt í Húnavöku árið 1975:
„Frá ómunatíð hafa selfarir tíðkast hér á landi. Málnytupeningur, ær og kýr, var á hverju sumri fluttur til dala þar sem bithaga voru meiri og kjarnbetri en í heimahögum. Þetta var kallað að hafa í seli. Vafalaust má rekja þennan þátt landbúnaðarins alla leið til landnámsmannanna norsku því að um sel og selfarir er þegar getið í Íslendingasögunum. Enn munu vera á lífi fólk er man af eigin sjón og raun seljabúskap hér á landi. Selin voru útibú frá heimilinum til að nota beitilandið sem fjær lá bæjunum. Ærnar gerðu meira gagn þar en heima.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.

Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur. Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.

Strokkur

Strokkur.

Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.

Smalaskjól

Smalaskjól.

Ein af mínum mestu ánægjustundum var að vera send í selið til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um í svipinn. Þar var oft glatt á hjalla. Móðir mín fór ævinlega með töðugjöldin þangað þegar búið var að halda þau heima. Við unglingarnir fengum þá að fara með, leika okkur og tína ber í ábæti.
Ef rennt var úr trogunum þegar við vorum þar var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat.
Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Fært var frá seint í júní. All sumarið var selráðskona í selinu með litla dóttur sína með sér. Þar var einnig eldri kona og smali. Lengi höfðum við pilt sunnan af Miðnesi, sem reyndist mjög vel.
Á þessum árum kom allt kaupafólk að sunnan, s.s. frá Garði. Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið. Kaupamaður fékk venjulega fjórðung smjörs í mánaðarkaup, en verð á fjórðungunum var þá 12 krónur.“

Minningar úr Goðdölum“ eftir Þormóð Sveinsson segir höfundur ölítið frá selstöðum í Skagafjarðardölum um síðustu aldramót (1900). Hér lýsir hann heimaseli:
„Alltaf var fært frá sama dag um tíundu sumarhelgina. Var þá strax flutt í selið og verið þar í fjórar vikur. Ærnar voru venjulega um 120 í kvíum. Aldrei voru þær hýstar og gætti einn [smali] þeirra á næturna og annar á daginn. Á selinu voru oftast fjórar stúlkur og tveir karlmenn og svaf fólk í fjárhúsgörðunum við rúmföt þó. Tvær stúlknanna fluttu skyrið heim í skrínum annan hvorn dag. Smjörinu var drepið í belgi og geymt heima þar til undir göngur. Þá var það sent í verslunarstað.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Kýrnar voru einnig hafðar í selinu þennan tíma, utan ein. Mjólkurafurðirnar voru geymdar í húsi sér og lítill kofi var þarna, hafður fyrir eldhús.
Mjög svipað þessu sagði faðir minn mér frá seltímanum á Skatastöðum, en þar var haft í seli fram til um 188o eða vel að. En þar flutti allt fólkið fram með kýrnar þennan tíma. Þar var öll ullin þvegin, rifið hrís til kolagerðar svo og heyjað sem hægt var. Hann sagði mér og að sum haustin hafi 9 stórar tunnur, fullar af skyri, verið heima þar eftir sumarið. Af þessu má sjá hversu þessi atvinnugrein hafði áður fyrr.“

Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

„Ekki voru allir selssmalarnir háir í loftinu eða miklir fyrir sér í þeim raunum er smalann hrjá – þótt þeim væri síðar á ævinni flestir vegir færir. Einn þeirra var þjóðskáldið Matthías Jockumsson, sem á æskuárunum gætti fjár móðurbróður síns, séra Guðmundar Einarssonar á Kvennabrekku í Dölum.
Matthías segir svo frá veru sinni í selinu: Eftir fráfærur fylgdi ég fénu fram á Geldingadal. Var ég þar smalapiltur í þrjú sumur. Hið fyrsta mun ég hafa staðið í stað með þroskun ef ekki miður en hin tók ég heldur við að gangast. Fyrsta sumarið átti Matthías í ólyndi við gildandi selsmatsseljuna. Þau samskipti þótti honum erfið, en voru og eru því miður ekki talin einstök þegar horft er til óæskilegra mannlegra samskipta í víðara samhengi í gegnum tíðina.
Í samanburði við fyrsta sumarið mitt í dalnum má heita að ég hafi lifað eins og sólkinshestur hin sumrin tvö. Þá var góð og gegn kona húsmóðir mín í selinu.“

Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson frá Hrafnagili, birt í safnritinu Heimdragi, 4. bindi. Hólmgeir lýsir þar Hvassafellsseli í Djúpadal í Eyjafirði.

Hólmgeir Þorsteinsson

Hólmgeir Þorsteinsson (1884-1973).

„Ekki voru húsakynni seljanna ævinlega byggð fyrir þá starfsemi, sem þar fór fram heldur var stundum notast við gömul fjárhús eða einhverja slíka kofa.
Hvassafellsel var reglulegt selhús, sem var byggt aðeins fyrir þessa starfsemi og öll tilhögun hússins sniðinn í samræmi við hana. Selhúsinu var vel við haldið og í alla staði hið snotrasta.
Við skulum nú heyra hvernig Hólmgeir lýsir þessu seli og starfinu þar:
Selshúsinu var skipt í fernt; úr honum var innangegnt í mjólkurhús og búr. Nyrst var eldhúsið og var utangengt í það. Vestan við selið var fjárrétt og kvíarnar, langar og mjóar þar sem ærnar voru mjólkaðar.
Áður en flutt var í selið þurfti ýmis konar undirbúning – taka til ílát, kollur og kyrnur, selskrínur og potta og margskonar smærri áhöld. Gera smalaskóna og margt fleira.
Þegar í selið kom var byrjað að sópa veggi og gólf, þvo mjólkurbekkina, rúmstæði og borð. Og svo hófust daglegu störfin, tilbreytingarlaus frá degi til dags.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir heftu hesta sína og skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar,  alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.
Búsmali þurfti á stundum að hverfa frá selstöðum á Reykjanesskaga fyrr en áætlað var. Ástæðan var jafnan sögð „draugagangur“, en raunin var vatnsskortur.

Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn. Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Um og eftir síðustu aldamót var víðast hvar hætt að færa frá og sú nýbreytti upp tekin að lá ærnar ganga með dilk. Var þá lagður fyrir róða aldagamall þáttur í lanbúnaði Íslendinga – fráfærurnar.
Síðustu selfarirnar i Eyjafirði voru 1803. Þótt stundum væri eritt og kalsamt fyrir selssmalana og þeir yrðu það þola vosbúð og einangrun voru þó miklu fleiri sólskinsdagarnir sem þeir geymdu í hugskoti sínu. Minningin um afdalakyrrðina og mildan árniðinn sem svæfði þá þegar þeir lögðust til hvíldar á mosakoddann sinn í litla byrginu var sem ljúfur draumur liði um vitund þeirra á efri árum. Nú er allt hljóðnað frá seljunum og húsin fallin. Þaðan heyrir ekki lengur hóað saman kvíaám, engin fráfærajarmur og ekkert strokkshljóð. Allt þetta hjúfrar sig í skauti minninganna um það sem einu sinni var.“

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8g9

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi „Mig dreymir við hrunið heiðarsel“:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)“.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.“

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
„Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.“

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi“, segir Árni Daníel að endingu.“
Ástæða er til að vekja athygli á að „hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum“ verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.“
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.