Litla-Botnssel

RÚV var með fróðlegan talsmálsþátt 11. des. 2022 um seljabúskap á Íslandi; “Man ég það sem löngu leið – Samtíningur um seljabúskap á Íslandi“.
Eftirfarandi er lesið í þættinum: “Bernskuminning um Miðhópssel” eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur, birt í Húnavöku árið 1975″, “Minningar Þormóðs Sveinssonar úr Goðdölum“, “Sögukaflar af sjálfum mér” eftir Matthías Jochumsson” og “Sel og selfarir” eftir Hólmgeir Þorsteinsson, birt í safnfritinu Heimdragi.

Stekkur

Smali og selsmatsseljur við stekk (kvíar).

FERLIR umbreytti framangreindum frásögnum að hluta yfir í eftirfarandi ritmál. Um er að ræða áhugaverðar upplýsingar um verklag í seljunum fyrrum, en slíkar frásagnir er sjaldnast að finna í skriflegum lýsingum um þessa merkilegu arfleifð íslenskrar búskaparsögu.

Bernskuminning um Miðhópssel” eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur birt í Húnavöku árið 1975:
“Frá ómunatíð hafa selfarir tíðkast hér á landi. Málnytupeningur, ær og kýr, var á hverju sumri fluttur til dala þar sem bithaga voru meiri og kjarnbetri en í heimahögum. Þetta var kallað að hafa í seli. Vafalaust má rekja þennan þátt landbúnaðarins alla leið til landnámsmannanna norsku því að um sel og selfarir er þegar getið í Íslendingasögunum. Enn munu vera á lífi fólk er man af eigin sjón og raun seljabúskap hér á landi. Selin voru útibú frá heimilinum til að nota beitilandið sem fjær lá bæjunum. Ærnar gerðu meira gagn þar en heima.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.

Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur. Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.

Strokkur

Strokkur.

Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.

Smalaskjól

Smalaskjól.

Ein af mínum mestu ánægjustundum var að vera send í selið til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um í svipinn. Þar var oft glatt á hjalla. Móðir mín fór ævinlega með töðugjöldin þangað þegar búið var að halda þau heima. Við unglingarnir fengum þá að fara með, leika okkur og tína ber í ábæti.
Ef rennt var úr trogunum þegar við vorum þar var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat.
Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Fært var frá seint í júní. All sumarið var selráðskona í selinu með litla dóttur sína með sér. Þar var einnig eldri kona og smali. Lengi höfðum við pilt sunnan af Miðnesi, sem reyndist mjög vel.
Á þessum árum kom allt kaupafólk að sunnan, s.s. frá Garði. Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið. Kaupamaður fékk venjulega fjórðung smjörs í mánaðarkaup, en verð á fjórðungunum var þá 12 krónur.”

Minningar úr Goðdölum” eftir Þormóð Sveinsson segir höfundur ölítið frá selstöðum í Skagafjarðardölum um síðustu aldramót (1900). Hér lýsir hann heimaseli:
“Alltaf var fært frá sama dag um tíundu sumarhelgina. Var þá strax flutt í selið og verið þar í fjórar vikur. Ærnar voru venjulega um 120 í kvíum. Aldrei voru þær hýstar og gætti einn [smali] þeirra á næturna og annar á daginn. Á selinu voru oftast fjórar stúlkur og tveir karlmenn og svaf fólk í fjárhúsgörðunum við rúmföt þó. Tvær stúlknanna fluttu skyrið heim í skrínum annan hvorn dag. Smjörinu var drepið í belgi og geymt heima þar til undir göngur. Þá var það sent í verslunarstað.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Kýrnar voru einnig hafðar í selinu þennan tíma, utan ein. Mjólkurafurðirnar voru geymdar í húsi sér og lítill kofi var þarna, hafður fyrir eldhús.
Mjög svipað þessu sagði faðir minn mér frá seltímanum á Skatastöðum, en þar var haft í seli fram til um 188o eða vel að. En þar flutti allt fólkið fram með kýrnar þennan tíma. Þar var öll ullin þvegin, rifið hrís til kolagerðar svo og heyjað sem hægt var. Hann sagði mér og að sum haustin hafi 9 stórar tunnur, fullar af skyri, verið heima þar eftir sumarið. Af þessu má sjá hversu þessi atvinnugrein hafði áður fyrr.”

Sögukaflar af sjálfum mér” eftir Matthías Jochumsson:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

“Ekki voru allir selssmalarnir háir í loftinu eða miklir fyrir sér í þeim raunum er smalann hrjá – þótt þeim væri síðar á ævinni flestir vegir færir. Einn þeirra var þjóðskáldið Matthías Jockumsson, sem á æskuárunum gætti fjár móðurbróður síns, séra Guðmundar Einarssonar á Kvennabrekku í Dölum.
Matthías segir svo frá veru sinni í selinu: Eftir fráfærur fylgdi ég fénu fram á Geldingadal. Var ég þar smalapiltur í þrjú sumur. Hið fyrsta mun ég hafa staðið í stað með þroskun ef ekki miður en hin tók ég heldur við að gangast. Fyrsta sumarið átti Matthías í ólyndi við gildandi selsmatsseljuna. Þau samskipti þótti honum erfið, en voru og eru því miður ekki talin einstök þegar horft er til óæskilegra mannlegra samskipta í víðara samhengi í gegnum tíðina.
Í samanburði við fyrsta sumarið mitt í dalnum má heita að ég hafi lifað eins og sólkinshestur hin sumrin tvö. Þá var góð og gegn kona húsmóðir mín í selinu.”

Sel og selfarir” eftir Hólmgeir Þorsteinsson frá Hrafnagili, birt í safnritinu Heimdragi, 4. bindi. Hólmgeir lýsir þar Hvassafellsseli í Djúpadal í Eyjafirði.

Hólmgeir Þorsteinsson

Hólmgeir Þorsteinsson (1884-1973).

“Ekki voru húsakynni seljanna ævinlega byggð fyrir þá starfsemi, sem þar fór fram heldur var stundum notast við gömul fjárhús eða einhverja slíka kofa.
Hvassafellsel var reglulegt selhús, sem var byggt aðeins fyrir þessa starfsemi og öll tilhögun hússins sniðinn í samræmi við hana. Selhúsinu var vel við haldið og í alla staði hið snotrasta.
Við skulum nú heyra hvernig Hólmgeir lýsir þessu seli og starfinu þar:
Selshúsinu var skipt í fernt; úr honum var innangegnt í mjólkurhús og búr. Nyrst var eldhúsið og var utangengt í það. Vestan við selið var fjárrétt og kvíarnar, langar og mjóar þar sem ærnar voru mjólkaðar.
Áður en flutt var í selið þurfti ýmis konar undirbúning – taka til ílát, kollur og kyrnur, selskrínur og potta og margskonar smærri áhöld. Gera smalaskóna og margt fleira.
Þegar í selið kom var byrjað að sópa veggi og gólf, þvo mjólkurbekkina, rúmstæði og borð. Og svo hófust daglegu störfin, tilbreytingarlaus frá degi til dags.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir heftu hesta sína og skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar,  alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.
Búsmali þurfti á stundum að hverfa frá selstöðum á Reykjanesskaga fyrr en áætlað var. Ástæðan var jafnan sögð “draugagangur”, en raunin var vatnsskortur.

Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn. Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Um og eftir síðustu aldamót var víðast hvar hætt að færa frá og sú nýbreytti upp tekin að lá ærnar ganga með dilk. Var þá lagður fyrir róða aldagamall þáttur í lanbúnaði Íslendinga – fráfærurnar.
Síðustu selfarirnar i Eyjafirði voru 1803. Þótt stundum væri eritt og kalsamt fyrir selssmalana og þeir yrðu það þola vosbúð og einangrun voru þó miklu fleiri sólskinsdagarnir sem þeir geymdu í hugskoti sínu. Minningin um afdalakyrrðina og mildan árniðinn sem svæfði þá þegar þeir lögðust til hvíldar á mosakoddann sinn í litla byrginu var sem ljúfur draumur liði um vitund þeirra á efri árum. Nú er allt hljóðnað frá seljunum og húsin fallin. Þaðan heyrir ekki lengur hóað saman kvíaám, engin fráfærajarmur og ekkert strokkshljóð. Allt þetta hjúfrar sig í skauti minninganna um það sem einu sinni var.”

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8g9

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.