Ákveðið hefur verið að undirbúa uppbyggingu einnar dæmigerðrar selstöðu og einnar sambærilegrar verstöðvar á Reykjanesskaganum.
selstadaEins og flestu upplýsandi fólki ætti að vera orðið kunnugt voru fjöldi selja á þessu landssvæði, fyrrum landnámi Ingólfs, alls u.þ.b. bil 360 talsins. Fáu fólki er nú kunnugt um þennan mikilvæga þátt búskaparsögunnar er spannar u.þ.b. 1000 ár, eða allt frá landnámi  fram til loka 19. aldar.
Verstöðvar á 24 stöðum við strandir á sunnan- og norðanverðum Reykjanesskaga gengdu lykilhlutverki fyrrum í forðaöflun fyrir íbúana, verslun og útflutningi. Verin voru á vertíðum mönnuð fólki hvaðanæva af landinu allt frá því á 12. öld til loka 19. aldar. Húsakostur, önnur mannvirki, bátakostur, klæðnaður, áhöld, fiskverkun og mannlíf í þessum strandútstöðvum settu sinn svip á þjóðarsálina líkt og selbúskapurinn gerði inn til landsins – með ólíkum hætti þó.
Sel og ver voru órjúfanlegur hluti búskapar fyrri alda. Það er því mikilvægt að komandi kynslóðir fái tækifæri til að sjá og skilja mikilvægi hvorutveggja í lífi forfeðra þeirra og -mæðra.
Ætlunin er að undirbúa verkið og hefjast síðan handa. Staðsetningar hafa verið ákveðnar, en eftir er að afla leyfa fyrir mannvirkjunum. Vandað verður til verka. Ferðaþjónustan á og án efa eftir að njóta góðs af til lengri framtíðar.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.