Baðsvellir

Sel og selstöður í Grindavík – eftir Guðrúnu Ólafsdóttur.

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Í ritinu “Söguslóðir”, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, ritar Guðrún Ólafsdóttir um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi. Í því segir hún m.a.: Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir.

Einbúi

Sel Ísólfsskála sunnan Selskálar.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum. Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fék aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa selstöðu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Járngerðarstaðamenn geru og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. “.aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangar var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæ góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Það eru aðeins Krýsuvíkurbændur, sem njóta þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. Skúli Magnússon landfógeti kallar jörðina fremur landjörð en sjávarjörð og lýsir henni m.a. á þess leið: “Landrými er mikið; eru þar hraun, fjöll og rauðleitar moldir; tún og engi er gott, og má auka það með tilkostnaði, svo að fleiri ábúendur getið setið þar”.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Ef til vill er það þessi góðu búskaparskilyrði, sem valda því, að ekki hefur tekist að hafa upp á neinum heimildum um selstöður frá Krýsuvík eftir daga Jarðarbókarinnar 1703. Um aðra hluta hreppsins gegnir öðru máli. Í verðlaunaritgerð Skúla Magnússonar, sem áður er getið, er ekkert minnst á selstöðu í Krýsuvíkursókn, en um Grindavíkursókn segir hins vegar: “En 2 mílur í norðaustur frá byggðalaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar í selstöðu. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selstöðurnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
Sr. Geir lýsir einnig selsstöðunni á Selsvöllum, að þar sé allgrösugt og bítist fljótt upp, vegna þess að allir bæirnir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli, þótt þeir greiði Staðarprestinum ekkert fyrir, og segir hann, að hann hafi heyrt, að flestir bæir hafi haft í seli einhvers staðar til fjalla, en vatnsleysi hafi valdið því, að þau væru niðurlögð og allir hafi þyrpst á Selsvelli, því að þar sé dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt sé að reka í selið 8. viku sumars en úr því í 16 eða 17. viku sumars, “nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum”. Af því að ekkert sé afréttarlandið sé allt fé, ungt og gamalt, lömb og sauðir, rekið í selið og smalað á hverju máli og lömbin séu kefluð.

Hraunssel

Hraunssel.

Þessum siða að kefla lömb er lýst hjá Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili í íslenskum þjóðháttum og Þorvaldi Thoroddsen.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega, enda ekki margir kostir heima fyrir ef marka má lýsingu sr. Geirs: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá séra Geir til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsunum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis.

Selsvellir

Selsvellir – horft af Þórustaðastíg að Kúaflöt.

Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ.e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars horaðan og nytlausan “þegar peningur allstaðar annarstaðar gjörir hvar mest gagn, og er í bestum holdum, og er þetta til allmikils ama mörgum búanda hér í sveit sem á stundum ekki þá hafa náð inn töðum sínum af túnunum.”

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
Í nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Rétt er að geta þess hér að óvíst er að Fitjar hafi vaxið úr seli líkt og Vigdísarvellir. Þó er það ekki með öllu ólíklegt. Hins vegar er Selshóll austan við Selöldu og undir honum eru mjög gamlar tóftir, sem gætu verið af seli því er nefndir eru í þjóðsögunni af Tyrkjunum er komu upp Ræningjaastíginn og selstúlkunum. Skammt vestsuðvestan við tóftirnar eru aðrar fleiri og heillegri, en þær munu vera af bænum Eyri, sem þar var. Sá bær gæti hins vegar hafa sprottið upp úr gama selinu því þar hafa landshagir verið góðir, en nú er þar veruleg landeyðing eins og annars staðar á Krýsuvíkurheiðinni.
Skammt sunnan við þær tóftir mótar fyrir fornum garði og a.m.k. tveimur fjárborgum og ílöngum stekk, líkt og í Strandarseli (lambastekkur).

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

“Hvenær lögðust selfarir í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. “Síðar”, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, “þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag”.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um Reykjanesskagann sumarið 1883 kom hann bæði að Hraunseli og seljunum á Selsvöllum í rústum. Hann kom á Baðsvelli, sem hann reyndar kallar Baðvelli, og minnist ekki á selstöður þar né heldur rústir eftir sel, og á Vigdísarvöllum fann hann samnefndan kotbæ.
Hér er komin gróf tímasetning. Einhvern tímann eftir 1850 og fyrir 1883. Samt er ekki öll sagan sögð.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram fór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.

Magnús kennir fólk á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870.

Selsvellir

Stekkur (rétt) á Selsvöllum.

Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.
Það má spyrja, hvað lifi enn eftir af þessum búskaparháttum, sem lögðust af fyrir um það bil öld. Í huga Magnúsar Hafliðasonar lifir minningin um selfarir foreldra hans. Hann kann einnig að segja frá öðrum seljum en Hraunseli, sem hann álítur að sé á Selsvöllum. Innar á Selsvöllum veit hann um Sogasel.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg – Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt mun vera, að Sogasel er fyrir norðaustan Selsvelli við Sog, suðvestan við Trölladyngju og Grænudyngju og var í landi Stóru-Vatnsleysu og nytjað frá Kálfatjörn, en ekki frá Stað eða Tóftum eins og haft er eftir Magnúsi. Magnús þekkir einnig Dalsel og segir það vera frá Húsatóftum, og hann veit um sel á Baðsvöllum. Margrét Daníelsdóttir, f: 1899, og Þorsteinn Ólafsson, f: 1901, bæði frá Grindavík,vissu um tvö sel á Baðsvöllum, það eystra frá Hópi, en hinu vissu þau eingin deili á. Ennfremur vissu þau um sel á Selsvöllum, sem þau þekktu ekki. Gísli Guðjónsson frá Hlíð í Gerðahreppi, f: 1891, hafði drukkið kaffi á Vigdísarvöllum, þegar hann var smákrakki. Hann áleit, að á Selsvöllum hefði getað verið sel. “Það veit enginn fyrir víst”. Þetta er það sem stúdentar grófu upp um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sumarið 1976.

Dalssel

Dalssel.

Samt má enn um sumardaga ganga selgöturnar gömlu og skoða tóftarbrot víða um Reykjanesskagann og einnig í Grindavíkurhreppi. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, hefur um áraraðir viðað að sér fróðleik um þetta efni og veit man best um það. Hann hefur farið um allan skagann og leitað seljarústa, mælt og teiknað upp grunnmyndir af þeim, sem hann hefur fundið. Hann fullyrðir að leifar sé að finna eftir sel á öllum þeim stöðum, sem nefndir hafa verið hér að framan nema við Seltún, á Baðsvöllum og í Fagradal. Við Seltún hafa ummerki horfið vegna umsvifa í sambandi við brennisteinsnám á 18. og 19. öld. Á Baðsvöllum er nú skógræktarlundur Grindvíkinga. Dalsel hefur Gísli aldrei fundið, þrátt fyrir nokkra leit, en um það segir svo í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, 1961: “Dalsel er í Fagradal við samfellt fjall. Þar sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur eru nú uppblásin fyrir löngu”.
[Tóftir sels í Fagradal sjást vel norðan Nauthólaflata. Dalurinn sjálfur er uppblásinn, en grónar torftur er norðaustast í dalnum. Þar eru tóftirnar á bakka gamals árfarvegar. Vestan við selið eru grónar brekkur. Farið var nokkrum sinnum á staðinn til að leita að selinu, en þangað er langt að fara og torsótt. Það fannst loks á nefndum stað.

Litlahraun

Selstaða í Litlahrauni.

Hér hefur verið sýnt fram á að sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: “Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.”.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

“Ekki hefur tekist að tímasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll”.
Tveir staðir eru þó ónefndir í framangreindum lýsingum. Það eru selstöður Krýsuvkurbænda í Kringlumýri undir Hettu og í Litlahrauni. Í Kringlumýri er væntanlega að finna elstu selsminjar hér á landi, allt frá tímum Húshólmsbæjanna við hina fornu Krýsuvík – jafnvel fyrir sögulegt landnám…

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.