Þórkötlustaðanes

Farið var í Kynnisferð um Vatnsleysustrandarhrepp og Grindavík. Meðal leiðsegjenda voru Viktor, sonur Guðmundar í Brekku, Kjartan, nýlega fyrrverandi forstöðumaður Saltfiskssetursins í Grindavík, og Sigfrjón.

Grindavíkurvegur

Vegavinnubúðir við Grindavíkurveg.

Hér á eftir er getið um helstu punkta, sem annað hvort var minnst á eða átti að minnast á í ferðinni. Auk þess voru allnokkur tilfallandi atriði tekin upp og heimfærð á vettvangi. Stapadraugurinn, sem birtist á Vogastapa, var t.d. óundirbúið atriði í ferðinni sem og það að hitta óvænt bæjarstjórann í Grindavík, Ólaf Örn, á göngu um Þórkötlustaðanesið. Hann var gripinn og fenginn til að kynna möguleika og vilja Grindvíkinga á sviði ferðaþjónustunnar. Svo er að heyra og sjá að bjartsýni og mikill áhugi sé einkennandi fyrir vilja Grindvíkinga til að styrkja og efla þjónustu við ferðamenn í umdæminu. Hellaferð í Dolluna var einnig óvænt uppákoma, en slíkar eru eitt einkenni FERLIRsferða um Reykjanesskagann.
Auk þessa verða síðar birtir nánari punktar um Kálfatjarnarkirkju, um fyrirtækið Sæbýli og fleira, sem fyrir augu bar og kynnt var í ferðinni.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

1. Vesturmörk Vatnsleysustrandarhrepps er við svonefnda Kolbeinsvörðu ofan við Innri-Skoru á Vogastapa. Varðan er horfin, segja menn, en landamerkin standa enn. Aðrir segja Kolbeinsvörðuna hér nær Keflavíkurveginum, en slíkt getur ruglað landamerkjum, svo ekki verður fjallað nánar um það. Sökkull slíkrar vöru er þar vel greinanlegur, en úr Kolbeinsvörðu eiga lendamerki hreppsins að liggga í Arnarklett vestan við Snorrastaðatjarnir, en hann sést vel frá Háabjalla, miklu misgengi á hægri hönd. Undir bjallanum er skógrækt þeirra Vogabúa.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

2. Stapagatan – gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur og framhald Almenningsvegarins sem liggur úr Hafnarfirði og suður úr – Alfararleið. Annar armur götunnar er Sandakravegur (nú Skógfellavegur) liggur suður og upp heiðina í átt til Grindavíkur. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Ári seinna var byrjað á bílvegi frá Stapa áleiðis til Grindavíkur. Þeirri vegagerð lauk árið 1918 og munum við síðar í dag á leiðinni til Grindavíkur m.a. skoða hlaðin byrgi vegavinnumanna á Gíghæðinni í Arnarseturshrauni. Slík byrgi voru á u.þ.b. 500 metra millibili svo til alla leiðina til Grindavíkur, en nýi vegurnn krafðist fórna, eins og svo margar vegaframkvæmdir síðustu ára.

Stapagata

Stapagata.

Stapagatan liggur upp Reiðskarð á fjörubökkum Vogavíkur undir Vogastapa og munum við kíkja þangað í bakaleiðinni. Undir Stapanum eru merkar minjar bæjarins Brekku, Stapabúðar, Hómabúðar og Kerlingarbúðar, með elstu minjum á Reykjanesi, en sjórinn hefur nú tekið til sín að mestu. Síðastnefndu búðirnar heita svo vegna þess að sjómenn höfðu þar vinnukonukerlingu í matinn þegar hún neitaði að hlýða boðum þeirra. Gatan upp úr Reiðskarði er djúp og falleg þar sem hún liðast vestur eftir Stapanum, framhjá Grímshól þars em þjóðsagan um vermanninn að norðan á að hafa gerst. Viktor mun segja ykkur nánar frá því er við komum þangað. Á Grímshól er útsýnisskífa þar sem fjallasýnin er tíunduð með sjónrænum hætti. Gullkollurinn lifir m.a. góðu lífi undir Vogastapum við Reiðskarðið.

Hreppsgarður

Hreppsgarður á Stapanum.

3. Hreppsgarður – einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19. aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einhverskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan hjalla, sem nefndur er Kálgarðsbjalli.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

4. Um 140 sel og selstöður eru á svæðinu milli Suðurlandsvegar og Reykjanestáar, sem og öll mannvirki sem þeim tengdust, s.s. fjárskjól, stekkir, vatnsstæði, kvíar, húsatóftir, fjárborgir, réttir, vörður og selgötur. Þessi sel voru í notkun á mismunandi tímum, en líklet er talið að haft hafi verið í seli hér á þessu svæði allt frá því að land byggðist fram upp undir 1890, en síðasta selið, Flekkuvíkursel, lagðsit þá af. Síðasta selið, sem notað var hér á Reykjanesskaganum var Hraunsselið undir Vesturhálsi, en það var í notkun til 1914.
Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Ærnar voru þá værðar í selið og hafðar þar og mjólkin nýtt til smjör og skyrgerðar m.a. Afurðir voru færðar heim til bæja ca. 3. hvern dag, en vistir færðar upp í selin í staðinn. Þar var venjulega matselsdama og smali og stundum fleira fólk frá bæjunum. Dæmi eru og um að erfiðir unglingar hafi verið hafðir þar til ögunar. Segja má að lífið hér fyrr á öldum hafi meira og minna snúist um sauðkindina, þ.e. maðurinn lagði rækt við sauðkindana og reyndi allt hvað hann gat til að halda í henni lífi því hún hélt lífinu í manninum. Allmörg mannvirki og búskapaleifar á skaganum bera þessa glöggt vitni.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar í ferðinni munum við skoða minjar útvegsbændanna, en fjárhald og útvegur við ströndina hafa verið samofin um langan aldur; naust, varir, sjóbúðir, þurrkgarðar, verkunarhús, skiparéttir og þurrkvellir gefa okkur nokkra hugmynd um hvernig þeir lifnaðarhættirnir við sjávarsíðuna hafa verið.
Sem dæmi um sel má nefna Snorrastaðasel, Nýjasel, Gjásel, Vogasel, Brunnastaðasel (sést uppi í heiðinni), Knarrarnessel, Hlöðunessel, Hólssel, Fornasel, Flekkuvíkursel og Hvassahraunssel. Flest seljanna á Reykjanesskaganum eru í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, suðaustanáttinni. Best er að finna þau með því að koma að þeim úr norðvestri, einkum á vorin þar sem þau grænka fyrr en umhverfið vegna fyrrum áburðar fjársins, sem þau njóta enn þann dag í dag. Og svo er sagt að sauðkindin nagi allan gróður. Reyndar eykur hún grasvöxt, en dregur úr kjarrvexti. Framvegis verður þessari fyrrum lífsbjörg markaður bás í afmörkuðum beitarhólfum – ófrjáls og án villibráðabragðsins (G. Þorsteinsson frá Hópi).

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

5. Kálffell – í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldarmótin 1900. Frægasti sauðamaðurinn var án efa Oddur Stefánsson frá Gærnuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígsskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellsins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop. Til þess að komast niður þarf maður að stökkva niður á nokkra hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan við. Líklega hefur Oddur frá Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

Sprungur

Hrafnagjá – misgengi.

6. Hrafnagjá er hér rétt handan á hægri hönd. Hún liggur næst okkur þeirra gjáa sunnan vegarins, en við sjáum m.a. upp í Huldugjá, Aragjá og Stóru-Aragjá, en undir henni er Gjásel, sennilega eitt eista raðhús hér á landi.
Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Vatnsleysu og er tilkomumikil á köflum. Hér ofan við voga er hún tilkomumikil með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Undir gjánni er fjölskrúðugur gróður, s.s. burknar, blágresi og brönugrös. Í gjánni verpir t.d. hrafn þar sem bergið er hvað hæst. Syðsti hluti Hrafnagjár er á Náttúruminjaskrá.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

7. Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefnt Arnstapahraun. Eldra hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun rann við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000-12000 ára).
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

8. Refagildra – hlaðin refagildra í vörðu. Til skamms tíma var talið að slíkar gildrur væru einungis á norðausturlandi, en a.m.k. 90 slíkar eru enn sjáanlegar hér á Reykjanesskaganum, þ.a. 4 á Vatnsleysuströndinni.

Breiðagerðisslakki

Brak í Breiðagerðisslakka.

9. Breiðagerðisslakki – í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarherflugvél niður í þennan slakka skammt norðaustan við Knarrarnessel eftir að hafa orðið fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar.Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf lítið meiddur. Hann var fyrsti þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandarríkjamenn tóku höndum í seinni heimsstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi að Saurbæ á Kjalarnesi en eftir stríðið flutt í Fossvogskirkjugarð.
Nokkuð sést enn eftir af brotum úr flugvélinni og eru þau dreifð um stórt svæði um miðja vegu milli narrarnessels og Auðnasels.

Eldborgir

Eldborgir ofan Knarrarnessels.

10. Eldborgir – um 900 metra röð 11 gíga, sem gosið hafa litlu gosi á takmörkuðu svæði, einkennandi þó fyrir hin mörgu sprungureinagos á skaganum. Við þær eru nokkur greni, svonefnd Edborgagreni og hlaðin byrgi fyrir refaskyttur. Mörg slík mannvirki má sjá á Strandarheiðinni.

Þyrluvarða

Þyrluvarða 2008.

11. Þyrluvarða– í maí 1965 hrapaði Sikorsky bjrögunarþyrla frá varnarliðinu niður í lægðina en hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins, og var varðan reist í minningu þeirra.
12. Keilir – einkennisfjall Reykjanesskagans og víðfrægt mið af sjó. Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjópfarnedur kalli Keili Sykurtoppinn. Líklega er þetta samlíking við keilulaga sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á marjaðnum áður en strásyrkurinn kom til sögunnar. Keilri varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa íhonum miðjum sem ver hann veðrum. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu ár sem farið er upp austanverða öxlina. Af fjallinu er ótrúlega víðsýnt.
13. Stóri Hafnhóll og Litli Hafnhóll – sagt er að í eina tíð hafi verið löggilt höfn í Vatnsleysuvík og af henni beri hólarnir nöfnin.

Vatnaborg

Vatnaborg – fjárborg ofan Vatnsleysustrandar.

14. Vatnaborg – fyrrum fjárborg, ein af u.þ.b. 80 á Reykjanesskaganum. Borgin er hirnglaga. Líklega hefur verið stekkur þartna eftir að borgin lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnuð Vatnaborg það rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu sem þarna er. Ofar í heiðinni er Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmudnur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskagnum um aldamótin 1900. Enn ofar Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel. Fundum nýlega rústir neðan við Kolhóla, en þær virðast vera af enne inu selinu, sem ekki hefur verið skráð.

Almenningsleiðin

Almenningsleiðin ofan Kálfatjarnar.

15. Almenningsleiðin – sjá má hana liggja frá Kúagerði og framhjá Vatnsleysu.

Kúagerði

Aðhald í Kúagerði.

16. Akurgerði og Kúagerði – hraunið, Afstapahraun, sem rann á sögulegum tíma (1226), færði Akurgerði í kaf. Vegurinn var lagður yfir Kúagerði, fallega tjörn og áningarstað á ferðum fólks milli Útnesja og Innesja. Hægt að ganga upp hraunið um svonefndar Tóur.
17. Gamli Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegurinn – lagður á árunum 1906-12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Vatnsleysuströnd, skammt vestan Kálfatjarnar, en um 1930 var sá hluti færður neðar. Gamli vegurinn var í upphafi hestvagnavegur, en um 1917 tóku bílarnir völdin.

Almenningsvegurinn

Almenningsvegurinn ofan Flekkuvíkur.

Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni og þó yfirleitt ofan við Gamla Keflavíkurveginn. Í lýsingu séra Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðvíkursókn frá árinu 1840 er þessari leið lýst þannig: “Vegur liggur gegn um heiðina frá Stóru-Vogum og beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarðinn inn fyrir Kálfatjörn. Eftir þaðan frá gegn um heiðina inn hjá Vatnsleysu.”

Staðarborg

Staðarborg.

18. Staðarborg – borgin er stór og listilega velhlaðin fjárborg frá Kálfatjörn og virðist hún vera óskemmd með öllu. Hún er um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju. Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951. Þórustaðastígurinn liggur upp heiðina vestan borgarinnar, í gegnum Þórustaðafjárborgina, framhjá Keili og upp á Vigdísarvelli. Ein af mörgum leiðum upp heiðina. A.m.k. 7 fjárborgi eru í heiðinni milli Strandarvegar og núverandi Reykjanesbrautar.

Grindavík

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

1. Grindavíkurvegurinn – horft frá Grímshól – útsýnisskífa – vegur til framtíðar. Velkomin til Grindavíkur. Alltaf sól á Suðurnesjum – stundum á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. Höfum farið um 2000 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtinguna skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á alt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, helsta sérkenni okkar Íslendinga. Mikilvægt fyrir leiðsegjendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlegir og leitandi að einhverju áður ókunnu.

Arnarklettur

Arnarklettur.

2. Mörkin að norðanverðu – í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Setjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, einkum ströndin, er víðfeðm.
3. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að útflutnings- og söluvöru og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðir á Reykjanesskaganum. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiðis til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Dollan

Dollan á Gíghæð.

4. Sagan – Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.
Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi.

Grindavík

Grindavíkurhöfn – ÓSÁ.

Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl. (nú um 2.500). Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú hefur verið bætt við menninguna hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar þar með hafa grindjánar eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem annarra venjulegra Íslendinga.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

5. Njarðvíkursel – sunnan við Selvatn. Rústir og sennilega eitt nærtækasta sel á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 mertar frá veginum. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
6. Eitt af viðfangsefnum góðra leiðsegjenda er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbás sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma.
7. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærska byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem ölög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Þannig var hver landbleðill nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurft ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til afnota. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.
GrindavíkÚtgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað munum við fara og rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla okkar Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.
Gíghæð – vegurinn lagður á árnum 1913 – 1918. Vegavinnubúðir með ca. 500 m millibili. Hestshellir og hús. Arnarseturshraunið rann 1226. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi er ca 2400 ára.

Dollan

Í Dollunni.

8. Dollan – kíkja í u,þ.b. 300 metra langan helli. Dæmigerður fyrir u.þ.b. 400 slíka á Reykjanesskaganum. Stærstir í Klofningum, neðan Grindarskarða og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir hellar við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.
9. Skógfellahraun (1130) – Arnarseturshraun (1226). Hraun á söglegum tíma, sem og nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er t.d. myndað af gosi í Vatnsheiði (ár), en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

10. Baðsvellir – sel Grindvíkinga um tíma – ofbeit – selstaða flutt uppá Selsvelli undir vestanverðum Vesturhálsi. Margar tóftir og minjar. Djúpt markaðir stígar. Hópssel við veginn.
11. Þorbjarnarfell – misgengi í gegnum fjallið – Sagnir um þjófa er herjuðu á íbúana. Ræningjagrá í fjallinu, Baðsvellir norðar og Gálgaklettar austar.
12. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir.

Brim

Grindavíkurbrim.

En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis.Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök.
13. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku – dys á Hrauni.

Skipsstígur

Skipsstígur.

14. Skipsstígur milli Njarðvíkur og Grindavíkur – lýsa leiðinni um Rauðamel – Árnastígur vestar. Gíslhellir á leiðinni sunan Rauðamels.
15. Sögufrægir staðir, s.s. Selatangar og Húshólmi.
16. Kóngsverslunin neðan Húsatófta – krítarpípur – Festasker utar. Staðarvör, Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914) sem verið er að endurgerða. Klukkan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Á meðan hún stendur mun ekkert illt henda Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
17. Sýlingarfell af landi (Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps).
18. Hópssel – tóftir.
19. Selsháls – Þorbjarnarfell – misgengi í gegnum mitt fjallið. Bækistöð Breta uppi á fjallinu.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

20. Gálgaklettar ofan við Hagafell.
21. Skipsstígur utan í Lágafelli – Endurgerður á u.þ.b. 300 m. kafla utan við Lágafellið – Dýfinnuhellir. Við Skipsstíg er Gíslhellir.
22. Fornavör – sjávargatan – Járngerðarleiði.
23. Stóra-Bót – Junkaragerði.
24. Einisdalur – áning.
25. Hópsnesið – (1928-1942) – Guðjón Pétursson, skipstjóri, lýsti mannlífinu á Nesinu í Sjómannablaðinu 200 – Strýthólahraun – sandfuglinn (egg)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

26. Þórkötlustaðahverfi – dys Þórkötlu – Sloki – byrgi – garðar. Hraun – kapellan – Gamlibrunnur – Tyrkjadys – refagildrur – Tyrkjahellir.
37. Eldvörpin – útilegumannabyrgi – hellar með mannvistaleifum í – refagildra.

Tyrkjaránið – Grindavík
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar: “Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmanneyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er sér Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og nágrenni.

Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokra og haft á brottmeð sér hátt á fjórða hundrað Íslendinga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.
Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem áti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur, að dönsku kaupskipi, er þar lá, og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.

Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipið og réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.
Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.
Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úrvirkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”
Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, “Tyrkjavarðan” (Gíslavarða) vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska og Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (Efra-Helli) ofan Hrauns.

Einnig má nefna Blóðþyrninn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir áðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Hraun – dys.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Þórkötlustaðanesið

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar. Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna. Pétur Guðjónsson, skipsstjóri fæddist í Höfn. Hann lýsir Nesinu svo:
“Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina. Vatninu var safnað af húsþökum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum. Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí.
Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða. Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ gerður eftir Pétri Guðjónssyni í Höfn.

Áður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – bryggjan.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.

Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Áður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.
Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.

Þórkötlustaðanes

Vélspilið á Nesinu.

En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Jóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.
Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana. Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim að kveldi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu. Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – vegurinn að Þórshamri.

Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi. Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Innsiglingavörðurnar voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.
Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi. Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.
Þegar gengið er um Þórkötlustaðanesið og út á Hópsnesið má víða sjá upplýsingarskilti um strönd og skipsskaða og jafnvel brak úr bátum.
Þurrkgarðar eru frá fyrr tíð ofar á Nesinu sem og gömul þurrkbyrgi í Strýthólahrauni, skammt vestan við Þórshamar.
Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.”

ÓSÁ tók saman.

Þórkötlustaðanes

Gengið um Þórkötlustaðanes.