Hraunssandur

Gengið var frá Ísólfsskála og fyrir endann á Bjalla, klifið niður Lambastapa og haldið út með ströndinni undir Skálabergi, gengið eftir Skálasandi og Festarfjalli yfir á Hraunssand.

Festisfjall

Undirbúningurinn.

Aðeins er vitað um eina konu, eiginkonu Brands á Skála, sem gengið hefur þessa leið þurrum fótum og þótti mikið afrek. Dæmi er um að vaskir piltar hafi synt út fyrir Lambastapa er þeir voru að stytta sér leið að Skála. Það voru þeir Guðbergur Bergsson og Hinrik bróðir hans. Eftir þessa ferð bættist enn eitt Skálabarnið við; Erling Einarsson og eiginkona hans.

Svæðið er einstakt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, fuglalíf í bergi og hellum (teistan) er mikið og umhverfið stórbrotið. Berggangar sjást á nokkrum stöðum sem og bólstrabergs og móbergsmyndanir. Í daglegu tali var þetta svæði nefnt “Undir Festi”. Hrun er af og til úr fellinu svo hjálmar eru þarna þarfaþing.

Festisfjall

Festarfjall – undirbúningurinn.

Þjóðsaga er til um Festarfjall, en í henni segir að “austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.”
Undir Festarfjalli eru nokkrir skútar og sjávarhellar. Einn þeirra er sýnum stærstur. Inni í honum verpir teista og má sjá hana þar í flokkum þegar vel stendur á.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Lyngfelli.

Á Hraunsandi var fyrrum unninn sandur og möl, enda má enn sjá leifar malarnámsins ofan við bergið. Fyrirtækið hét Ægissandur og töldu margir það daga nafn sitt af sandströndinni fyrir neðan.
Dunknahellir er undir berginu. Hellirinn hverfur af og til vegna sandburðar, en stutt er síðan hann opnaðist aftur. Nú er komið myndarlegt loftgat í hellinn.
Á kafla er stógrýtt undir bjarginu, en sandur á milli bergganga og -nefja, sem sjórinn leikur við, jafnvel í lágsjávuðu. Það getur því þurft lag til að komast yfir þá og jafnframt þarf að gæta þess vel að lokast ekki inni í básum á milli þeirra. Á leiðinni þurfti að klifra yfir tvær nípur er skaga út úr berginu; Eystri- og Vestarinípu. Að sögn Sigga á Hrauni eru landamerki Hrauns og Ísólfsskála um Eystrinípu. Oft væri ófært neðan við þær, allt eftir því hvernig stæði á sandinum.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Festarfjalli.

“Í kringum 1890 fannst þarna á Hraunssandinum rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna.

Lambastapi

Lambastapi.

Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.

Festisfjall

Festisfjall – berggangar.

Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti.

Festarfjall

Lyngfell – forn setlög.

Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”
Þessi leið, sem farin var, er ekki fyrir ókunnuga. Hún getur verið mjög varasöm, bæði vegna hruns úr berginu og ekki síður vegna óvæntra uppátækja Ægis. Hann á það til að rísa snögglega og óvænt upp og fyrir þá sem ekki þekkja kauða gæti það kostað ýmsar skrokkskjóður eða þaðan af verra.
Eftir gönguna var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; “Á túninu austan við bæinn er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er”. Einn göngumanna er jafnframt einn af eigendum Klappar svo þarna bar vel í veiði – Þórkatla gamla hvílir þá eftir allt saman í hól þar í túninu. En skráning þessi var þó tekin með fyrirvara, sjá FERLIR-826.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðsteinn Einarsson – “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar”.
-www.reykjanesbaer.is/bokasafn

Hraunssandur

Klifrað niður á Hraunssand.