Fáni
Gengið var um hinn óaðgengilegustu hluta Krýsuvíkur, skv. fréttalýsingum a.m.k.

Arnarfell

Í Arnarfelli.

Haldið var austur eftir vörslugarðinum við Krýsuvíkurbæina undir Bæjarfelli, framhjá Ræningjahól og tóftum Suðurkots og áleiðis yfir að Arnarfelli.
Fljótlega kom í ljós að starfsmaður Fornleifaverndar ríkisins hafði farið um svæðið og rekið niður áberandi hæla þar sem vænta mátti fornleifa. En alls ekki við þær allar, eins og í ljós kom á göngunni.
Vörslugarðurinn hafði verið markaður sem og hluti af tóftum Arnarfellsbæjarins. Gömlu tóftirnar voru enn óafmarkaðar. Brunnurinn hafði loks fengið náð starfsmannsins og nú loksins komist á blað fornleifaskráningarinnar. Hins vegar voru báðar vörðurnar ómerktar. FERLIR mun á næstunni merkja 9 minjar til viðbótar á svæðinu, sem horft hefur verið framhjá.
Gengið var upp á Arnarfellið að sunnanverðu. Táknrænt mátti þykta að á steini við brún fellsins lá hvítskeljuð hauskúpa kindar. Var eins og hún vildi minna á tilvist sína í þessu táknræna bústetulandslagi langs tíma aftur í aldir. En því miður virðast fáir nútímamenn þess umkomnir að skilja slíkt.

Arnarfell

Búðir kvikmyndafólks við Arnarfell.

Undir fellsbrúninni voru útihúsatóftir merktar, en helliskúti í fornleifaskránni fékk að vera ómerktur. Í honum eru hellaristur, sem skoða þyrfti nánar. Framan við hann eru hleðslur.
Uppi á Arnarfelli var Eiríksvarðan merkt tveimur stikum, en arnarhreiðrið ekki. Önnur stikan var því færð að hreiðrinu forna – svona til að spara sérfræðingum sporin.
Efst á fellinu var staldrað við og horft yfir sviðið. Jarðýta hafði rutt móann næst þjóðveginum. Þar á víst að reisa hljólhýsabúðir fyrir væntanlega útlendinga. Heyrst hafði í samtali að von væri á þremur fullhlöðnum skipum til landsins með hinn ýmsa búnað, s.s. tæki og tól. FERLIR mun fylgjast með upptökunum.

Arnarfell

Arnarfell – tjaldbúðir.

Þá hvíslaði fugl því að einhverjum að nýlega hefðu komið nýmóðins tæki með flugi til landsins er m.a.s. embættismenn töldu sig þurfa að gæta að. Öllu var komið í “örugga” geymslu á tilteknum stað.
Hvað sem framangreindu líður hafa FERLIRsfélaga einungis áhuga á umhverfinu, minjum og sögu svæðsins. Flaggað var að því tilefni á arnarhreiðrinu á toppi Arnarfells með útsýni yfir Arnarfellsvatnið, er iðaði að fuglalífi þessa kvöldstund. Reyndar eru arnarlauparnir tveir á fellinu.
Haldið var niður Arnarfellið að austanverðu.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Þar var kominn kaðall fyrir fótalúna, en vanir gengu niður um “klofið” og beina leið niður í Stínuskúta. Þar er um að ræða fallegt fjárskjól með útsýni yfir suðausturhluta svæðisns. Því hefur verið haldið fram að engar fornleifar væru á því svæði, en það er rangt. Beint þarna neðan af er t.d. gróið hlaðið skjól undir kletti. Skammt vestar er stekkur. Gömul leið lá með lækjarfarvegi austur yfir heiðina. Yfir hana á að leggja veg.
Skoðað var rask jarðýtunnar við þjóðveginn. Það er orðið allnokkurt, en án efa mun það verða fært í samt lag á ný. Gamla þjóðleiðin liggur fast við mörkin, sem nú er verið að raska. Hún var merkt með steinum, svo fornleifafræðingar gætu komið auga á hana.
Gengið var að kömrum, sem öryggisvörður gætti. Hann virtist vakna við vondan draum þegar FERLIRsfélagar buðu gott kvöld að góðra manna sið. Sagðist hann einungis vera að gæta að jarðvegsdúk, sem þarna væri, en kamranir væru opnir öllum, gangandi sem akandi.

Fáni

Flaggað var við Eiríksvörðu á Arnarfelli á meðan á tökum “Flag of ours Fathers” stóð.

Frá vörslustaðnum sást til fólks vera á ganga á Arnarfell, Líklegt er að þannig muni það verða á næstunni – hvað sem kvikmyndatökum áhrærir.
Í viðtali við öryggisvörðinn kom í ljós að glussarör í jarðýtunni hafði brostið um morguninn af óskiljanlegum ástæðum. Vildu menn jafnvel rekja það til álagasteins, sem reynt hafði verið að færa úr stað. Hann myndi nú fá að vera í friði. Hvorki virðast menn, skv. þessu, hafa tengt atburðinn grafhelginni í Krýsuvíkurkirkjugarði né Gullskinnu séra Eiríks frá Vogsósum. Líklegt má telja að ýmislegt óvænt, skrýtið og jafnvel óútskýranlegt, muni koma koma upp á á svæðinu á næstu dögum og vikum, en vonandi mun það þó allt ganga óhappalaust fyrir sig.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Öryggisverðinum á 12 tíma vöktum virtist leiðast að þurfa að gæta öryggis jarðvegsdúksins, sem örugglega fáir virðast hafa áhuga á að færa úr stað. Hann virtist hins vegar engan áhuga hafa á ferðum fólks um svæðið, enda óheimilt, skv. fornum, en gildandi, lögum, að meina fólki för um land.
Öryggisvörðurinn hafði á orði að góður peningur hafi fengist fyrir gæsluna. Fyrirtækið geymi sprengiefnið, sem nota á á tilteknum stað, og fengið gæsluna sem ábót. Auðvitað virðist þetta sjálfsögð áhrifavirkun á atvinnumál svæðisins – svona í fljótu bragði. Jafnvel formaður einna ferðamálasamtaka svæðisns varð sleginn blindu þegar einhverjum peningaseðlum var veifað framan í hann á kostnað umhverfisins. Slíkt viðhorf hryggir marga, en eru þó skiljanleg.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Í göngunni var bæði það auglósa og það nærtækasta skoðað. Auk sögulegra minja, jarðfræðiáhugaverðra fyrirbæra og náttúrueinkenna svæðisins var gefinn gaumur af fugla- og dýralífi þess. Víða mátti, með góðri yfirlegu og tíma, sjá fugla á hreiðrum. T.d. var tekið hús að þúfutillingi þar sem hann hafi verpt, sennilega öðru sinni, fimm eggjum undir þúfu. Lóan lá enn á eggjum sínum, en væntanlega munu ungarnir kúra sig um sinn undir börðum og bökkum, þ.e.a.s. ef jarðýtan sér ekki um að allur lífstilbúningurinn hafi verið tilgangslaus. Blindir menn á náttúruna og umhverfið sjá ekki slíka hluti – því miður.
Jarðýtur fóru síðast um þetta svæði árin 1944, þegar vegurinn var ruddur austur að Herdísarvík, og þegar þjóðminjavörður fyrirskipaði að rústir Krýsuvíkurbæjarins skyldu jafnaðar við jörðu. Fáum hefur orðið jafn mikil eftirsjá eftir litlu. Í rauninni er sorglegt til þess að vita hversu nútímamaðurinn, með ásókn sinni í sýndarveruleikann, er orðinn fjarlægur raunveruleikanum. Ástæða er til að hvetja áhugsamt fólk til að nota tækifærið og ganga á Arnarfell á næstunni, skoða minjarnar og virða fyrir sér umhverfið, sem er óvíða fagurrra hér á landi.
Frá fellinu má vel sjá yfir að Eldey, út með Stóru-Eldborg, upp yfir Vegghamra og Geitahlíð, upp yfir Rauðuskriður og í hinar stórbrotnu hraunár vestan við Geitarhlíð. Auk þess má af Arnarfelli, með lítilli fyrirhöfn, virða fyrir sér nær allt nærumhverfi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell.