Kringlumýri

Í “Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði” árið 1998 segir m.a. um Gestsstaði í Krýsuvík:

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa.

“Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.” “Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.” Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dys sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.” Framangreind lýsing er höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni frá árinu 1902.

Gestsstaðir

Gestsstaðir, austan hálsa – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls (1703) segir frá jörðinni Gestsstöðum nálægt Krýsuvík. Þá voru greinilegar bæði tóftir og túngarður þó mikið væri uppblásið. Bærinn hafði þá verið svo lengi í eyði að enginn vissi hvenær hann var byggður síðast.
Matthías Þórðarson, Þjóðminjavörður, friðlýsti eyðibýlið Gestsstaði við Krýsuvík árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar er birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903, bls. 50, undir yfirskriftinni “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902”: “Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm. löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Ges[s]tstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Geststaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Geststaðaland eftir eldinn. En við það hafa Geststaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.”
Í örnefnaskrá segir að á Gestsstöðum sjái fyrir miklum tóftum og að þar muni hafa verið stórbýli sem munnmæli séu um að hafi fyrrum heitið Krýsuvík. Rústirnar eru undir blásnum hól, ca. 150 m suðvestur af Krýsuvíkurskóla, á um það bil 30×50 metra stóru svæði. Í fornleifaskráningu Bjarna F. Einarssonar eru skráðar þarna 3 tóftir, bæjarrúst, garður/gerði og ógreinileg rúst.
Heimildir eru einnig um aðra rúst uppi á hálsinum ekki langt frá, hún stendur stök og greinilegt grjót í hleðslum.

Kringlumýri

Gestsstaðir “vestan hálsa”.

Málið er að þeir Gestsstaðir, sem “hefðu í fyrstu heitið Gestsstaðir vestur við hálsinn”, hafa hingað til aldrei ratað inn í fornleifaskráningar, hingað til a.m.k., þrátt fyrir eftirlit Fornleifastofnunar með gildi slíkra skráninga. Tilvist minja um slíka heimild er þó til á vettvangi. Og telja má víst, að fornleifafræðingar, sem á eftir koma, munu ekki vísa í þessa heimild. Slík er smánin.

Vestan Móhálsa [eldra nafn á Sveifluhálsi] er að finna mjög fornar minjar, mjög líklega eldri en elstu minjar, sem hingað til hafa fundist hér á landi. Um er að ræða minjasvæði á þurrsvæði ofan mikillar mýri. Bæjarhóllinn er nú orðinn fordjarfaður; lítt mótar fyrir veggjum, nema kannski miðsvæðis. Þar virðist hafa verið meginbygging, en allt umhverfis virðast hafa verið ýmskonar húsakostir. Ekki sést móta fyrir girðingum eða gerðum umleikis.
Lækir renna beggja vegna minjasvæðisins. Líklegt má þykja að hæð þeirra í landslaginu og afurð þeirra hafi breyst í gegnum aldirnar. Neðar er umfangsmikil mýri og neðst í henni er forn skjólgóður gígur með vatnssvarmi.
Svæðið í heild er einstaklega skjólgott fyrir nánast öllum veðráttum.

Hettustígur

Hettuvegur – gatan er vel mörkuð í móbergið.

Hettusvegur, millum Krýsuvíkurbæjanna og Vigdísarvalla, liggur með vestanverðri Hettu ofan Kringlumýrar.  Vegurinn er vel markaður í hlíðina á köflum. Vegurinn sá virðist hafa týnst, eftir því sem hann varð fáfranari á millum svæðanna, en fannst síðan aftur eftir leit áhugamanna.

Krýsuvík

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – eystri bæjarhúsin (útihús).

Í fyrstu töldu FERLIRsfinnendur minjasvæðisins að þarna hefði verið um að ræða selstöðu frá “Húshólmabæjunum”, einum elstu mannvistarleifum í Krýsuvík sem og landinu öllu – sjá HÉR.
Tiltölulega auðvelt var að rekja augljósa forna götu niður og upp með mýrinni – allt þar til lækirnir koma saman neðan hennar, allt niður að Krýsuvíkur-Mælifelli. Þar hverfur gatan í hraunið er rann 1151 – áleiðis niður í Húshólma. Sjá HÉR.

Minsjasvæðið í Kringlumýri hefur aldrei notið verðskuldaðrar athygli hingað til, hvorki í umfjöllun né í fornleifaskráningum af svæðinu – hvað þá að það hafi verið rannsakað að verðleikum. Ekki er ólíklegt að minjarnar þar kunni að vera frá sama tíma og minjarnar í Húshólma – eða jafnvel enn eldri.

Til er frásögn af pöpum í Hettu ofan Kringlumýrar – sjá HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Krýsuvík – Trölladyngja, Fornleifaskráning, Fornleifavernd ríkisins 2008.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 50.
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 7.

Kringlumýri

Kringlumýri.