Hraunssel

Grindavíkurbær, Saltfisksetrið og FERLIR buðu upp á þjóðháttakynningu um seljabúskap á vettvangi. Mæting var við Ísólfsskála, u.þ.b. 7 km austur frá Grindavík á Krýsuvíkurleið. Gangan var liður í Menningar- og viðburðadagskrá Grindavíkur.
GönguleiðinFrá Ísólfsskála var haldið að Méltunnuklifi. Um það lá hin forna þjóðleið til Krýsuvíkur. Þaðan var gengið eftir nýlegri slóða á gömlu leiðinni um Leggbrjótshraun og inn með vestanverðum Núpshlíðarhálsi í Hraunsel millum Þrengsla.
Leiðin var greiðfær og tók um 3-4 klst með fræðslustoppum á völdum stöðum. Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík og að öllum líkindum einnig frá Ísólfsskála, enda selstaðan í hans landi. Þarna eru þrjár selstöður auk eldri selstöðu og tilheyrandi mannvirki.. Selstaðan er með yngstu seljum á Reykjanesskaganum, en hún mun líklega hafa lagst af árið 1914. Í selinu má sjá heillegar tóftir selsmannvirkjanna; baðstofu, búr og eldhús. Í selinu var áð og nesti borðað.
Leiðsögn var um seljabúskapinn og það sem fyrir augu bar á leiðinni. Í bakaleiðini var gengið yfir Skolahraun eftir selstígnum, niður með austanverðu Sandfelli og eftir Höfðasandi að gömlu Krýsuvíkurleiðinni um Méltunnuklif.
Lítið hefur verið skrifað um sel og seljabúskap hér á landi og mjög lítið á Reykjanesskaganum öllum, þrátt fyrir að enn megi sjá þar fjöldamargar sýnilegar selstöður (eða 250 talsins). Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur nútímafólkið beint við þá gömlu búskaparhætti, sem tíðkuðust um aldir eða allt fram á öndverða 20. öldina.
HraunFéð var yfirleitt haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í seljum voru smalinn auk selráðsmatseljunnar. Þar voru gerðir ostar, skyr, smjör og sýra úr mjólkinni. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Merki jarðarinnar Hrauns eru samkvæmt landamerkjabréfi dagsettu 17.06.1890 og þinglýstu hinn 20.06.1890, sem hér segir: “… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selvallafjall upp af Sogaselsdal, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krísuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru …”

 

Hraunssel

Samkvæmt þessu má segja að Hraunssel sé á hornmörkum Hrauns og Ísólfsskála. Selstöður voru reyndar mjög gjarnan á landamerkjum, einkum frá fyrstu tíð. Ekki er ólíklegt að þessir bæir hafi samnýtt selstöðuna um tíma því hvergi er að finna selstöðu frá Ísólfsskála, sem verður að teljast óvenjulegt því um fjárríka jörð var jafnan um að ræða. Skýringarinnar gæti verið að leita lengra aftur, eða allt frá því að Hraun var kirkjustaður. Þá átti Skálholtsstóll jörðina og hún verið nýtt sem hjáleiga frá Hrauni. Lítið er til af skráðum heimildum frá þessum tíma (á tímabilinu frá 12. til 17. aldar).
Samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er þó getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703.
Stekkur í HraunsseliÍ upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703.
Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Það gæti einnig skýrt fleiri en eina, eða allt að þrjár, selstöður í Hraunsseli.
Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti.
Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík.
SelstígurinnUm eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.”
Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði.
Í sóknarlýsingu Geirs Bachmann um afréttarland Grindavíkur segir á bls. 144 um Grindavíkursókn: ,,Ekkert er hér afréttarland…” með þessu á presturinn við, að allt land innan sóknarmarkanna og þar með einnig hreppamarkanna sé háð einkaeignarrétti, en ekki fyrirfinnist upprekstrarland í óskiptri sameign bænda. Hann bætir því við að allt sauðfé sé rekið í selið og þar smalað á hverju máli. Þar sem eru sel, þar er land ekki afréttur í neinum skilningi.
Um landamerki
Ísólfsskála segir í landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst 20.06.1890: “…, úr fjöru við festargnípu við svonefndan Skálasand liggja mörkin til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, þaðan til austurs sem sjónhending ræður á miðja suðuröxl á Borgarfjalli, þaðan sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum jarðarinnar Krýsuvík, þaðan til suðurs eftir löngugörn meðfram sömu landamerkjum að Dágon kletti á kampinum fyrir vestan Selatanga, þaðan sama sjónhending fram í stórstraumsfjöruborð, einkennismerki markasteinsins er L.M……”

Hraunssel

Hraunssel.

Hér er landeigendur sammála um hornmarkið við Hraunssel og má leiða að því líkum að það hafi jafnan verið þrætulaust, enda enginn ágreiningur með Hrauns- og Ísólfsskálabændum um landamerki þeirra. Ágreiningur hefur hins vegar verið með Ísólfsskála- og Krýsuvíkurbændum um mörkin.
Um Hraun segir í Jarðabókinni 1703: ‚‚Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála segir:
 “Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita.”
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir: “
Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni.“
Gamla KrýsuvíkurleiðinÍ annarri örnefnalýsinu fyrir Hraun segir:
Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel.”
Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatns-leysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla.“
Hraunssel voru skoðuð árið 2001: “Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóftir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tóft, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Tóftin er orðin jarðlæg og mosi tekinn að vaxa í henni. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Sunnan við hlaðna stekkinn er annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra, en þau sem ofar eru, undir hlíðinni, nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Stök hús eru norðan við selið, sennilega kúaskjól að hluta.
Yngra selið geymir einar heillegustu tóftir á Reykjanesskaganum, enda heimildir um að það hafi að öllum líkindum verið síðast selja til að leggjast af. Veggir standa heilir og grónir. Grjóthleðslur sjást í veggjum. Stekkurinn er skammt vestar og sjást hleðslur hans og lögun mjög vel. Vatn er í grunnu gili sunnan við selið.
Eftir að hafa lýst minjunum og rifjað upp verklag í seli var selstígurinn fetaður til vesturs yfir Skolahraunið….
Gangan tók 4 klst. Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.