Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um “Rannsóknir á seljum í Reykjavík” fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir
Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Tóftir Sámsstaða.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konunds.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.