Færslur

Litla-Mosfellssel

“Tilgangurinn með verki Hitzlers var að koma þekkingunni um seljabúskapinn á Íslandi á fastan grundvöll og varpa ljósi yfir þennan þátt íslenskrar menningarsögu, eins og þegar hafði verið gert í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu og reyndar sunnar og austar í Evrópu einnig. Þar hafa mikil verk um þetta efni verið gefin út á öldinni og lætur höfundurinn í ljós undrun á því, að hið sama skuli ekki hafa veriðgert á Íslandi. Hann kennir því um, að hér á landi var seljabúskapurinn að heita má algjörlega horfinn um aldamótin [1900] og farið að fenna í sporin, þegar áhugi á þessu vaknaði í Skandinavíu á millistríðsárunum vegna þess að búskaparhættir þar voru óðum að breytast og selin að týna tölunni.

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Það er enginn vafi á því, að seljabúskapur skipti í eina tíð miklu máli hér á landi. Um það vitnar hinn miklu sægur orða í málinu, sem á rætur sínar að rekja til hans, örnefnaforðinn og seljarústir víða um land. Með hjálp þeirra auk margkyns ritaðra heimilda, munnlegra heimilda og vettvangsransókna reynir höfundur að draga upp mynd af þróuninni frá fyrstu tíð og fram á þennan dag.

Helstu ritaðar heimildir frá miðöldum eru máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar í fornbréfasafninu auk Landnámu, Íslendingasagna og lögbókanna. Frá síðari tímum er jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns drýgst. Ferðabækur og Íslandslýsingar frá 18. og 19. öld veita einnig mikinn fróðleik, einkum um lífið og störfin í seljunum, sömuleiðis ritgerðir, sem skrifaðar voru á síðari hluta 18. aldar og um aldamótin 1900 til þess að reyna að blása nýju lífi í seljabúskapinn. Sýslulýsingar byggðar á spurningalistum Bókmenntafélagsins 1839-1873 gefa nokkra innsýn í ástandið á 19. öldinni og svör við spurningalista Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1962 um fráfærur varpa nokkru ljósi yfir síðasta skeið seljabúskapar hér á landi um aldamótin 1900.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Höfundur leitar heimilda frá fyrstu tíð og er megintilgangurinn að komast að eðli og sérkennum íslensks seljabúskapar. Í síðustu köflunum er hins vegar leitast við að rekja sögu seljabúskaparins og gera grein fyrir útbreiðslu og þýðingu hans. Í þriðja kafla er t.a.m. athyglisverð tilraun til þess að meta vinnuálag í seljunum. Með því að bera saman bússmala (mjólkandi kýr og ær) skv. jarðabókinni á allmörgum bæjum með sel við upplýsingar um búsmala á nokkrum bæjum á síðari hluta 19. aldar fæst sú niðurstaða, að fjöldi áa hefur vaxið mjög miðað við kýr og þar með hefur vinnuálagið vaxið og erfiðleikar og kostnaður í sambandi við hjúahald.

Enn mikilvægari verður jarðabókin í sambandi við rannsóknina á þróun og útbreiðslu seljanna. Þótt höfundur hafi farið yfir alla jarðabókina og reiknað út hlutfallið milli selstaða og býla í þeim sýslum, sem jarðabókin telur yfir (meðaltalið reyndist 23 af hundraði og munurinn á sýslum frá ca. 10 af hundraði í Rangárvalla- og Eyjafjarðarsýslu upp á rúmlega 50 af hundraði í Dalasýslu) þá hefur hann ekki gert nákvæma rannsókn á landinu í heild, heldur valið úr svæði, sýslurnar Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu, til nákvæmrar athugunar og samanburðar við eldri og yngri heimildir (V. kafli). Forsendan fyrir valinu er sú að eftir athugun á öllum gögnum í fornbréfasafninu kemur í ljós að úr þessum sýslum hafa varðveist fleiri skjöl um selstöður en í öðrum sýslum (IV. kafli). Til samanburðar fyrir tímabilið eftir skráningu jarðarbókarinnar þrengir hann enn valið og tekur Sauðadal í Húnavatnssýslu á milli Vatnsdals og Svínadals (VI. kafli).

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Elsta heimild um selstöðu þar er máldagi Hjaltabakkakirkju frá 1318, en skv. heimildarmönnum var síðast haft þar í seli aldamótaárið eða 1904. Fjölmargar seljarústir eru í dalnum og hefur höfundur því getað rakið sögu seljanna frá miðöldum og fram á síðasta áratug, síðasta spottann á göngu um dalinn með staðkunnugum heimildarmönnum og ljósmyndavél sér við öxl.
Með þessari aðferð gefur höfundur hugmynd um umfang seljabúskapar í upphafi 18. aldar, en ekki beinlínis um útbreiðslu hans, gefur dæmi um það hversu langt aftur og fram má rekja sögu sumra selja og sýnir fram á að breytingar hafa átt sér stað á eignaraðild, nýtingarrétti, staðsetningu o.fl. Nokkra hugmynd um útbreiðslu selja gefur hins vegar kortið á bls. 93, sem sýnir bæjarnöfn með nafnliðum sel eftir heimildum frá 19. og 20. öld. Það er þó langt í frá að öll kurl séu komin til grafar þar. Auk þess sem gera má ráð fyrir að eins brot af seljunum hafi orðið að býlum má reikna með að bæjarnöfn séu ekki einhlít vitni [sbr. bæjarnafnið Stardalur). Sel urðu ekki endilega að býlum þar sem þau voru flest heldur þar sem landkostir voru bestir. Á suðurkjálkanum, þar sem sem voru tiltölulega mörg sel, er t.a.m. ekkert bæjarnafn sem vitnar um slíkan uppruna. [Hafa ber þó í huga Straumsel, sbr. framangreint]. Ennfremur má benda á að ekki eru talin býli sem komin voru í eyði um miðja 19. öld.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Hverjar eru niðurstöður höfundar? Miðaldagögnin eru fyrst og fremst skjöl sem kveða á um eignar- eða nýtingarrétt, máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar. Þau ná yfir fimm aldir, frá 1140-1570, og sýna að selstöður hafa lotið sömu reglum og hlunnindi, þannig var hægt að selja, gefa eða leigja selstöðu og kom oftast ítak fyrir ítak. Á grundvelli þess er seljunum skipt í fjórar tegundir, þ.e. 1. sel í heimalandi, sem mun vera það upprunalega, 2. sel í sel- eða seljalandi, á eigin jörð, en fjarri heimalandi, 3. réttindi eða ítak í landi annarrar jarðar, 4. leigusel. Fyrsta örugga dæmið um það er frá 16. öld. Máldagar spegla ástand, sem er býsna stöðugt, en hvernig koma aðstæður í upphafi 18. aldar heim og saman við aðstæður á miðöldum? Samanburður sýnir að þótt rekja megi réttindi til selstöðu langt aftur í miðaldir þá hafa þó miklar breytingar átt sér stað. Samanburðurinn við Sauðadal gefur til kynna að sveiflur hafa átt sér stað. Seljabúskapurinn í byrjun 18. aldar er sýnilega í afturför. Af 188 selstöðum sem nefndar eru í sýslunum þremur eru 70 niðurlagðar. [Þessi hlutfallsskipting kemur vel heim og saman við samanburð á heildarfjölda selja á Reykjanesi við Jarðabókina 1703].

Færikvíar

Færikvíar.

Rannsókn Egon Hitzlers staðfestir þá mynd sem menn hafa gert sér um þróun búskaparhátta á Íslandi, að þeir hafi haldist lítt breyttir, en verið undirorpnir nokkrum sveiflum og að yfirleitt hafi heldur sigið á ógæfuhliðina. Þannig virðist seljabúskapur hafa staðið með meiri blóma á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, t.a.m. virðist heyöflun hafa skipt miklu máli og bendir ýmislegt til þess að verulegur hluti heimilsfólks hafi dvalist í seljunum um tíma á sumrin. Hins vegar hefur höfundur ekki fundið dæmi um það að heyjað hafi verið í seljum á 19. öld. Þá getur eyðing skóga hafa átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Ef horft er til seljanna á Reykjanesi og landshátta þar með hliðsjón af framansögðu er raunhæft að álykta að ekki hafi verið heyjað í seljum þar. Þau eru yfirleitt í hraunum eða utan í þeim og gras er einungis að sjá næst eða í kringum selin eftir áburð búsmalans. Sjaldnast eru um samfelld grassvæði að ræða, nema ef vera skyldi á Selsvöllum og hugsanlega á Baðsvöllum. Þar er þó sagt (sjá meðfylgjandi skrif Guðrúnar Ólafsdóttur) að seljabúskapur hafi lagst af vegna ofbeitar. Líklegast er, miðað við aðstæður, sem eru allólíkar aðstæðum annars staðar á landinu, að einungis hafi verið um sumarbeit að ræða í og við selin á Reykjanesi. Hitt er einnig athugunarvert að eldiviður hafi verið ein forsenda seljabúskaparins. Það gæti að hluta til skýrt hinn mikla fjölda selja á Reykjanesi miðað við aðra landshluta því jafnan var, a.m.k. framan af, næg hrístekja og runnagróður í eldri hraununum á skaganum, s.s. í Almenningum, í Skógarnefi ofan við krosstapana og jafnvel á Selvogsheiðinni. Víða annars staðar á landinu voru “áreiðanlegir” lækir eða jafnvel ár, en víðast hvar á Reykjanesi urðu bændur að treysta á úrkomu til að halda við vatnsbólum og brunnum í hraununum].

Kárastaðasel

Kárastaðasel.

Auk harðanandi veðráttu og rýrnunar landgæða hefur verðlag eflaust haft sín áhrif. Hækkað verð á smjöri og aukin eftirspurn hafa líklega bæði ýtt undir fækkun selja með því að sel voru þá gerð að föstum bylum og fjölgun vegna þess að ný sel hafa verið tekin upp eða gömul tekin upp að nýju. Eftirspurnin eftir vinnufólki hefur eflaust einnig haft áhrif. Í Noregi er yfirleitt talið að kostnaður í sambandi við vinnufólk og skortur á vinnuafli hafi verið ein meginástæðan fyrir því að sel lögðust af. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær, sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skiptu minna máli.

Selvogsheiði

Selsminjar í Selvogsheiði.

Í síðasta kaflanum reynir höfundur að setja íslenska seljabúskapinn í alþjóðlegt samhengi. Það kemur víst engum á óvart að hann virðist vera sama eðlis og sá sem í Noregi kallast sæter (seter) bruk, í Þýskalandi Alm-Alp- eða Sennwirtschaft. Helstu einkenni hans eru að búsmalanum er haldið til haga fjarri heimahögum til þess að létta af þeim og tryggja betri beit. Unnið er úr afurðunum í seljunum og þær fluttar til heimabæjar annað hvort að hausti eða við og við. Dæmi eru einnig um að önnur fæðu- eða forðaöflun hafi átt sér stað. Höfundur hefur ekki fundið neitt, sem sérkennir íslensku selin nema hvað helst að yfirleitt er lítill, ef nokkur, hæðarmunur á heimabæ og seli hér á landi, enda staðhættir aðrir en í Noregi og Ölpunum. Á þeirri forsendu hafnar hann líka kenningu Lars Reitons (1946), að hér á Íslandi hafi mátt finna vor-, sumar- og haustsel líkt og sums staðar í Ölpunum og Noregi. Vorselin og haustselin gegndu því hlutverki að létta af heimahögum á meðan fjallagrösin voru ósprottin eða farin að sölna.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Höfundur lýkur bók sinni á þeirri frómu ósk, að hann hafi lagt grundvöll sem nýta megi til framtíðarrannsókna á sérstökum þáttum sem enn þurfi nánari athugunar við og bíði fræðimanna í öðrum greinum og með öðrum aðferðum en fílólógískum og sagnfræðilegum. Vissulega vakna ýmsar spurningar við lestur bókarinnar. Fengur væri að uppgrefti á einhverjum seljarústum. Rannsóknir á örnefnum, þjóðsögum og munnmælum tengdum seljum gætu einnig varpað ljósi yfir þenann þátt menningarsögu okkar. En hvað sem því líður þá verður ekki annað sagt en að Egon Hitzler hafi með bók sinni rennt traustum stoðum undir þær niðurstöður, sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1961) og Þorvaldur Thoroddsen (1908-22) voru búnir að setja fram fyrr á öldinni”.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Hitzler byggir lýsingar sínar og athuganir að meginefni á heimildum úr þremur sýslum norðanlands. Þótt seltíminn og verklag í seljum hafi ekki verið svo ólíkt á milli einstakra landshluta hafa aðstæður á hverjum stað þó áreiðanlega sett mark sitt á hvorutveggja, líkt og var með aðra atvinnuhætti eða jafnvel talað mál. Ekki er því alveg hægt að heimfæra niðurstöður Hitzlers ógagnrýnislaust upp á selbúskapinn á Reykjanesi því aðstæður þar hafa verið ólíkar öðrum hluta landsins þótt ekki væri fyrir annað en hraunin, takmarkað landrými eða beitarmöguleika og heyjanir. Líklegt má þó telja að verklagið sjálft hafi verið svipað um land allt, ef ummerkjum í seljunum að dæma virðist húsakostur yfirleitt hafa verið fremur rýr á Nesinu ef bornar eru t.a.m. saman tóftir í seljum norðanlands.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Askur

Í bók Önnu Sigurðardóttir um “Vinnu kvenna á Íslandi í 1100 ár“, sem var gefin út árið 1985, fjallar hún m.a. um selstöður til forna og störf í seli á seinni öldum og mjaltir og búverkin heima.
Hér verður gripið niður í nokkur atriði í hinum merku lýsingum Önnu. Þótt hún segi lítið um selstöðurnar á Reykjanesskaganum segir hún allmikið um vinnuna í seljunum fyrrum:

Á stöðli og í seli til forna
Vinna kvenna í 1100 ár
Þær voru sumar sjálfar í seli, sennilega hefir þeim fallið það betur en að vinna heima á bænum. Þórhildur Skinna-Bjarnardóttir var ein þeirra. Maður hennar, Ásgeir rauðfeldur, hafði „selför það sumar uppi í Vatnsdal; hafði kona hans þar umsýslu bús og smalaferðar.“ Frá þessu er sagt vegna þess að „sá atburður var, að hún varð léttari í smalaferðinni og fæddi sveina tvo í Vatnsdalshólum.“
Þórdís Skeggjadóttir húsfreyja í Tungu var jafnan í seli fram í Hrútafjarðardal og voru þó yngri synir hennar mjög ungir. Önnur húsfreyja hafði tvær ungar dætur með sér í selinu. Ekki er nafns þeirrar konu getið en maður hennar hét Þorsteinn Gíslason og fór kona hans heim til að sækja hreinar skyrtur handa feðgunum.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Ein af jarteiknasögum Jóns biskups helga segir frá konu, Arnfríði að nafni, sem var í seli ásamt nokkrum konum að heimta nyt af fé. Þetta orðalag að heimta nyt af fé kemur fyrir í kristinna laga þætti Grágásar þar sem talin eru upp þau verk sem vinna má á helgum degi og ekki eru helgidagsbrot: Menn skulu eiga að reka fé sitt heim og heiman, og eiga konur að heimta nyt af því, og bera heim hvert sem skal, að menn beri heim, eða ferja á skipi, eða á hrossi, ef vötn eru milli bæjar og stöðuls, og eiga konur að gera til nyt þá.
Að gera til nytina heitir líka að búverka. „Að mjalta, sía mjólkina og setja hana, að þrífa mjólkurílátin, að strokka rjómann, hnoða smjörið og hleypa skyr allt þetta hét að búverka. Fyrstu vikurnar eftir fráfærur varð oft einnig að sinna búverkum á kvöldin.“ Búverk hafa frá fyrstu tíð verið kvennastarf svo sem kristinna laga þáttur sýnir.

Fyrrum fóru búverkin aðallega fram í seli. Sel voru höfð þar sem góðir voru hagar, oft allfjarri bænum. Konur í seljum voru óánægðar ef „gerðist fé harla nytlétt“ eins og segir í Hænsna-Þóris sögu. Konurnar vildu að skipt væri um haga og töldu að myndi þá miklu betur mjólka. Ekki voru konur einar í selinu, smalar voru þar líka. Einn þeirra fer heim í Örnólfsdal með klyfjar úr selinu og biður heimasætuna, Jófríði Gunnarsdóttur, að taka ofan með sér. En gestur Jófríðar kemur til og tekur ofan klyfjar. Þess vegna er sagan sögð um heimflutning á hvítum mat úr selinu að gestur var hjá heimasætunni.

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Gunnar Hlífarson í Örnólfsdal „hafði selför, og var jafnan mannfátt heima.“ En ekki er þess getið hve margt manna var í selinu.
Í Búalögum eru ákvæði um hversu margar konur eigi að vera í seli með vissan fjölda ásauðar og kúa.
Um störf kvenna í selinu segir ekkert í Íslendingasögum nema hvað þær eru við mjaltir í kvíum. Hvernig farið er að vinna mjólkina í smjör, skyr og osta segir ekki. En Búalög geta um verð á ýmsum ílátum undir mjólkurmat en þau áttu að vera af löggiltri stærð, svo sem keröld, trog og búskjólur, og strokkur átti að vera „sígirtur af þriðjungurinn og eirseymd gjörð á botni.“ Í sögunum eru nefnd nokkur ílát, svo sem sýrukerald, skyrkerald og skyrkyllir. Skyrkyllar voru notaðir til að flytja skyrið heim úr selinu og sennilega geyma það í líka. Í Grettis sögu segir: Auðunn bar mat á tveim hestum og bar skyr á hesti, og var það í húðum og bundið fyrir ofan; það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af hestinum og bar inn skyr í fangi sér… .
Framhald sögunnar er m. a. um að yfirbandið gekk af og var síðan skyri slett enda þótt sekkbært væri.

Skyr

Skyr.

Verð á skyri var miðað við sekkbært skyr eða sekkbæra hvítu, þykkt skyr eða þykkva hvítu skv. mismunandi heitum í Búalögum. Þunna skyrið, sem stundum er talað um í sögunum, hefir ekki gilt sem söluvara. En venjulega er tekið fram að askarnir hafi verið stórir er menn drukku eða supu skyrið.
Verð var annað á sumarsmjöri en vetrarsmjöri („menn kalla Basalm“). Ostur hefir verið gerður á annan hátt en nú er gert eða var gert á seinni öldum. Verð á osti skv. Búalögum var miðað við að hann hafi haft þriggja daga þerri eða hann á að vera „þurr og gagnsær af þriggja daga þerri.“
Í sögunum er þess getið að menn höfðu „skyr og ost“ til kvöld- eða náttverðar og þótti það betri matur en grautur.

Í seli á seinni öldum og mjaltir og búverk heima

Færikvíar

Færikvíar.

Eftir því sem aldir líða virðist það hafa minnkað að hafa í seli og það svo mjög að það opinbera vildi snúa þróuninni við um miðja 18. öld. Þó getur Eggert Ólafsson um sei í Borgarfirði upp til fjalla. Venjulega eru það þrjú hús eða kofar. í einu er búið, í öðru er mjólkin geymd, en hið þriðja er eldhús. Selfólkið er smali, fullorðin stúlka og unglingsstúlka, en þær mjólka og vinna úr mjólkinni smjör, skyr, osta og sýru.
Þeir eru á ferðalagi um landið Eggert og Bjarni þegar gefin er út tilskipun sem átti að stuðla að því að bjarga landsmönnum frá hungri og annarri neyð sem þeir bjuggu við eða yfir þeim vofði. Af konunglegri náð átti t. d. að styrkja „innréttingar“ en jafnframt var mönnum gert skylt að koma á kornyrkju og garðrækt. Bændur áttu auk þess, að viðlagðri refsingu, að hafa búfé sitt í seli og geldfé á afrétti frá 9.—21. viku sumars, að undanteknum þeim hestum sem nota þurfti við búskapinn. Nánar er minnst á refsinguna ef ekki er farið eftir þessum ákvæðum um selstöðu og jarðrækt eða ef menn notuðu húsdýraáburð til eldsneytis.

Smali

Smali við færikvíar.

Klerkur einn, séra Guðlaugur Sveinsson (1731 — 1807), í Vatnsfirði skrifaði ritgerð í Rit hins íslenska lærdómslistafélags árið 1787: „Um selstöður og nytsemi þeirra.“ Þar bendir hann á nytsemi þess að hafa ær í seljum eða setrum að sumrinu svo sem títt hafi verið hér á landi til forna og enn sé mjög til siðs í Noregi. Nú sé „þessi gagnlega brúkun, ásamt fleiri nytsamlegum atburðum, mikinn part undir lok liðið.“ Telur séra Guðlaugur það illa farið, því að selstöður séu mjög nytsamar, einkum þar sem heimaland er hrjóstrugt og magurt. Hann
telur síðan upp aðalkostina við að hafa í seli og segir frá reynslu sinni af því. Guðrún Ólafsdóttir lektor rannsakaði selstöður í Grindavíkurhreppi. Sama ár og grein hennar birtist, 1979, kom út í Noregi á vegum stofnunar um samanburðarmenningarrannsóknir bók um sel eða rannsóknir til sögu selbúskapar á Íslandi frá landnámsöld. Fróðleg og áhugaverð bók fyrir margan Íslending en því miður ekki á íslensku.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

En frásagnir um sel á öldinni sem leið má trúlega víða finna. T.d. lýsir Ingibjörg Jónsdóttir frá Djúpadal selinu sem foreldrar hennar höfðu á árunum 1842-1862. En þau hjón giftust tvítug og dóu fertug. Þau eignuðust 12 börn, þeirra á meðal var Björn Jónsson ráðherra. Í æskuminningum sínum segir Ingibjörg m. a.: Að sumrinu var haft í seli fram á dal. – Ráðið, sem faðir minn hafði til að fjölga skepnunum, var það, að hann byggði beitarhús á selinu og ruddi nýjan veg upp snarbratta hlíð skammt frá selinu, svo að nota mætti slægjur, sem þar voru. Erfitt var það og svo bratt, að ef baggi datt af hesti efst í hlíðinni, þá staðnæmdist hann ekki fyrr en niðri í árgljúfri, og á hverju vori varð að ryðja þennan veg, og ég veit ekki til að það hafi verið gert nema í tíð föður míns, hvorki fyrr né síðar. Ég hugsa að hann hafi átt mjög erfitt fyrstu búskaparárin, en með framúrskarandi dugnaði yfirvann hann alla erfiðleika og átti síðustu árin gott bú. Fyrstu árin var móðir mín í selinu með börnin 3 og 4, en þegar þau fjölguðu meir, hætti hún, og Guðrún systir [föðursystir, en kölluð systir] var upp frá því selráðskona. — Skrýtnar voru færikvíarnar, þegar í selið kom, þær sem notaðar voru heima þóttu of fyrirferðarmiklar til að flytja þær, í þess stað voru hafðar hrískvíar, hrísið var bundið í smábagga og hlaðin úr því kví og færð til á þann hátt, að önnur hliðin og gaflinn var flutt til þegar þurfti, seinlegt var það, en ekki var um það fengist, þetta mátti nota og gerði sama gagn. Það var gott að mjólka í hrískvínni, ærnar voru rólegar við skógarilminn. Seltúnið spratt vel og gaf af sér töluverða töðu af þessum eina áburði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Það mun víða „ekki hafa þótt svara kostnaði að leggja fólk til“ að hafa í seli á öldinni sem leið. En fráfærur voru hins vegar víða. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi (1871-1952) nefnir ekki selstöður, en hún getur um fráfærurnar, t. d. hversu mjög hún vorkenndi litlu lömbunum að verða að yfirgefa mæður sínar og einnig um mjaltirnar og búverkin: Ýmsir erfiðleikar fylgdu fráfærum, sem nútímafólk þekkir ekki. Þá þurfti að þvo upp og þétta öll mjólkurílát, einnig stóra skyrsái. Tunnur voru ekki notaðar undir skyr; í þeim var geymd súrmjólk og drukkur, sem hafður var á slátur. Annars var lítið um tunnur á þeim árum, nema tvíbytnur, sáir voru miklu meira notaðir og fleiri til. Líka þurfti að þvo upp mörg trog, sem mjólkin var sett í; sumir höfðu mjólkina í trébyttum. Þá var fjöldi af upphleypudöllum, sem hafa þurfti við skyrgerðina. Allt var þetta þvegið fyrir fráfærurnar. Mjaltir í kvíum voru ekki gott verk; þó voru unglingar látnir mjólka alveg eins og fullorðnir. Hér voru fullorðnu stúlkurnar við heyvinnu á engjunum, en við unglingarnir vorum við heyþurrkinn og mjaltirnar. Oft var ég syfjuð á morgnana, þegar ég varð að fara á fætur klukkan sjö… . Út yfir tók þó að verða að fara í kvíarnar á sunnudagskvöldin, verða þá að fara úr sunnudagsfötunum, fyrr en aðrir, og klæða sig í kvíakastið og úlpuna; það voru óskemmtileg umskipti… . Á kvöldin var ofurlítil uppbót á mjaltirnar, að við fórum með mjólkurföturnar í bæjarlækinn og þvoðum þær þar. Yfir lækinn var byggt hús — brunnhús— inni í því þvoðum við föturnar. En þegar það var búið, fórum við út og settumst á brunnhúsvegginn.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Stundum voru þá komnar fleiri stúlkur að læknum, svo að samtölin urðu oft fjörug og stundum nokkuð löng. Þarna var skrafað og skeggrætt um framtíðina og fleira. Hvað er eðlilegra, en að æskuna dreymi framtíðardraum, enda þótt þeir rætist aldrei. . . . Við byggðum vonahallir, sem hrundu áður en þær voru fullgerðar.
Steinunn Jósefsdóttir rifjar upp bernskuminningar um Miðhópssel enda þótt hún hefði sjálf ekki verið selstúlka en ánægjulegt þótti henni að vera send þangað til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um heima. Selráðskonan var með dóttur sína og ein eldri kona var þar og smali. Miðhópssel var byggt úr torfi og grjóti. „Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þurrkuð. Pað hét að hlóðarbaka trogin. Selstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar, en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan dag til tvo daga.“ Síðan lýsir Steinunn hvernig rennt var úr trogi, rjómi strokkaður og smjörið saltað, hnoðað og pressað í skinnbelgjum, hvernig undanrennan var flóuð og kæld fyrir skyrgerðina, mjólkurostur og mysuostur var gerður og seyddur ostur úr draflanum. Sýran var flutt heim í kvartelum og geymd heima í tunnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Í handritum Sigurlínu Sigtryggsdóttur frá Æsustöðum, sem birtust á prenti 1953 í Göngum og réttum, eru líka mjög skilmerkilegar lýsingar á meðferð mjólkur og mjólkuríláta í Eyjafirði, bæði heima við og í seli. Þar er þess getið að húsin í Hvassafellsseli hafi verið baðstofa og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr.
Pétur Jónsson frá Stökkum segir að venjulega hafi einni mjaltakonu verið ætlaðar 30-40 ær að mjalta, stundum þó allt að 50 en sjaldan yfir það. Víðast hvar hafi verið „tekið eftir“ sem kallað var að allar ærnar voru mjólkaðar aftur og þurrtottaðar.
Hér er ekki minnst á hversu lengi konurnar voru að mjólka þennan fjölda, en Sigurður Sigurðsson ráðunautur hefir það eftir reyndum og vönum mjaltakonum, að meðalkvenmaður mjólki 40-50 ær á klukkutíma, ef það eigi að vera viðunandi af hendi leyst.
Guðríður Guttormsdóttir sagði að þegar fært var frá í Stöð, fyrir aldamót, hafi stúlkurnar sem áttu að mjólka farið dálítið fyrr heim úr heyskapnum en hitt fólkið. En þó var mjöltum og mjólkurhirðingu stundum ekki lokið fyrr en undir miðnætti.
Jósef á Svarfhóli man eftir því að fært var frá á æskuárum hans 60—70 ám en kýrnar voru 6-8: Þennan pening mjólkuðu tvær stúlkur, kvölds og morgna. Heldur voru til þess valdar þær, sem liðléttari þóttu. Var það talin hvíld frá heyvinnu að fara heim að mjólka. Kannski hafa þær sem kraftmeiri voru og kjarkbetri afþakkað hvíldina þá og mjaltirnar og búverkin á eftir. „Talið var… . til þess voru valdar“ segir höfundur, en ekki að stúlkurnar hafi óskað þess að fá að sinna mjöltum og búverkum.

Nessel

Nessel – uppdráttur. Dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaga; eldhús, búr og baðstofa.

Sigríður Björnsdóttir frá Miklabæ segir m. a. svo frá í kafla um fráfærurnar í minningum sínum: Mjaltir á sauðfé þótti frekar vond vinna og var ekki eftirsótt meðal kvenþjóðarinnar, en auðvitað kom það eingöngu niður á henni. Þá tíðkaðist ekki að karlmenn önnuðust mjaltir. Það hefði þótt hneysa fyrir karlmenn að gera slíkt kvenmannsverk.
Það var víðar en í Skagafirði sem það þótti hneisa fyrir karlmenn að mjólka. Hreppstjóri einn á Suðurlandi var sárhryggur og grét þegar sonur hans — hreppstjórasonurinn — fór að mjólka kýrnar fyrir konu sína sem gekk með 12. barnið. Sonardóttir hreppstjórans sagði mér þetta en hún var í hópi eldri barnanna.
Það var liðið langt á 20. öldina þegar karlmenn töldu sér ekki lengur vansæmd að mjólka kýr en eftir það var fljótlega farið að mjólka með vélum.
Árið 1954 kom út ritgerðasafn sem ber heitið: Enginn matur er mjólk betri. Þar segir m. a. að það færist í vöxt að mjólka með mjaltavélum. Þar er talað um að „meðferð mjólkur sé í höndum bænda.“ (Karlmenn fóru líka að vefa þegar dönsku vefstólarnir komu).
Bergsteinn Kristjánsson skrifar um ýmsa þjóðhætti liðinna tíma í bókinni Fenntar slóðir. Í kafla sem heitir „Ull í fat og mjólk í mat“ segir hann frá mjöltum: Handmjaltir á kúm eru enn með svipuðu lagi og alltaf hefur tíðkast. Sá er einn munur að hinar svokölluðu togmjaltir eru lagðar niður, en nýtt og betra mjaltalag upptekið… .

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Ær voru alltaf mjólkaðar í opnum kvíum… . Þegar ærnar fóru að venjast mjöltunum og spekjast, röðuðu þær sér með veggjunum, og gat þá mjaltakonan gengið á röðina og mjólkað; hún stóð aftan við ána með fötu sína og mjólkaði annan spenann í einu… . Mjaltir í kvíum voru mjög óþrifalegt verk, einkum ef rigningar gengu og ærnar voru blautar og óhreinar, og geta má nærri, að erfitt hefur verið að halda mjólkinni hreinni. Við ærmjaltirnar fóru konur í hlífðarföt, sem geymd voru við kvíarnar (kvíaföt). Þetta batnaði nokkuð, þegar færigrindur voru uppteknar, því að þá voru þær settar upp á hreina jörð, og mátti altaf færa þær til, er völlurinn óhreinkaðist… .
Þegar mjólkin hafði verið sigtuð, var hún sett upp sem svo var kallað, það er að hún var látin í trog og byttur. Trogin voru grunn ílát með höllum hliðum og göflum, og þekkjast víða enn. Bytturnar voru einnig mjög grunnar og víðar, kringlóttar og gyrtar með vanalegu gyrði, en gat neðarlega á einum stafnum og tappi í. í þessum ílátum var mjólkin látin standa, minnst einn sólarhring, en stundum í þrjú dægur, en að þeim tíma liðnum átti rjóminn að vera sestur ofan á mjólkina. Þar, sem mikil var mjólk, þurfti mjög mikið af þessum ílátum, og hreinsun þeirra var mikið verk og krafðist mikillar vandvirkni og hreinlætis… .

Trog

Trog.

Þegar mjólkin hafði staðið áðurnefndan tíma, var rennt undan, sem svo var kallað, það er að undanrennan var látin renna úr ílátinu, en rjóminn var eftir. Úr byttunum var þetta auðvelt, því að þar var tappinn tekinn úr gatinu á stafnum og undanrennan látin renna þar úr. Úr trogunum var þetta dálítið erfiðara, en þá var undanrennan látin renna úr einu horni trogsins og þess varnað með hendinni að rjóminn rynni með.
Þá fer höfundur nokkrum orðum um það hvernig rjóminn var strokkaður: Þá sem nú þurfti rjóminn að vera í vissu hitastigi, ef smjörgerðin átti að ganga eðlilega fljótt og vera í fullu lagi, en þá var ekki hægt að grípa til hitamælis, svo að matseljan varð að finna það með fingri sínum, hvort strokkurinn var mátulega heitur; sömuleiðis heyrði hún á hljóðinu í strokknum, hvað langt var komið smjörgerðinni. Af því er komið hið alkunna máltæki um hljóð í strokknum, . . .

Rjómatrog

Rjómatrog.

Það er líka fróðlegt að heyra með hverju mjólkurílátin voru hreinsuð á þeim slóðum sem Bergsteinn var kunnugur: Til að þvo mjólkurílát voru notaðar þvögur, en þær voru ýmist úr fíngerðum rótum undan melgrasi eða úr hrosshári. Pottar voru fægðir með vikri eða sandi. Vikurs og melgrasróta var oft aflað í fjall- eða skógarferðum, því að óvíða var það að fá nærri bæjum.
Nýja mjaltalagið sem Bergsteinn segir að hafi verið tekið upp var kallað Hegelundsmjaltalag. Sigurður Pórólfsson kenndi það veturinn 1902—1903 í Reykjavík á allmörgum námskeiðum sem þar voru haldin á vegum Búnaðarfélags Íslands. Guðjón Guðmundsson búnaðarráðunautur kenndi ýmislegt um kýrnar og meðferð mjólkur. Mjaltaæfingarnar fóru fram í þrem bestu fjósum bæjarins. 8—10 stúlkur voru á hverju námskeiði sem stóð í tvær vikur. Margar þeirra voru í hússtjórnarskólanum og kvennaskólanum og var meirihluti þeirra úr sveit.

Mjólkurtrog

Mjólurtrog.

Trúlegt er að G.A., kona sem Halldóra Bjarnadóttir leitar til um upplýsingar um ostagerð í Austur-Skaftafellssýslu, hafi þekkt þvögur úr melgrasrótunum. En hún segir frá því hvernig móðir hennar hafði kennt henni að búa til osta:… . Það var notaður heimatilbúinn hleypir af kálfsvinstur, sem fyrst var blásin upp, hert, bleytt síðan upp í saltvatni. — Fyrst var mjólkin hituð, en ekki meira en svo, að maður þoldi vel niðri í henni með hendinni, þá var hleypirinn látinn út í og hrært vel í um leið. Þegar vel var hlaupið, var þetta vandlega hrært sundur með hendinni, síðan var hlaupið látið setjast á botninn, en því mesta af mysunni ausið ofan af, og osturinn tekinn saman með höndunum og látinn í mátulega stórt ílát og það mesta kreist úr honum af mysunni, og osturinn síðan pressaður t. d. eina nótt. Svo er hann tekinn úr pressunni og látinn í saltpækil (það má líka strá salti á hann, snúa honum, þegar saltið er runnið á efra borðinu, og salta þá hitt). Síðast er osturinn þurrkaður í hjalli í nokkra mánuði. Þess verður að gæta að láta ekki sól skína á ostana, snúa þeim oft við og færa þá til, og þvo þá úr saltvatni, ef skán sest á þá, sem helst vill verða í óþurrkatíð. — Ostarnir urðu góðir og jafnir í gegn með þessari aðferð.

Mjólurfata

Mjólkurfata.

Önnur orð eru til fyrir hleypi, lyf og kæsir. Viktoría Bjarnadóttir kemst svo að orði: Til skyrgerðar var notaður kæsir, en hann var búinn til úr innihaldi magans úr nýslátruðum kálfi. Var tekið úr kálfsmaganum strax og kálfinum hafði verið slátrað, og blandað saman við þetta volgri mjólk í nokkra daga og hrært saman og bundið yfir krukkurnar með þessu í. Síðan var þetta notað eftir tilsettan tíma. Reyndist þetta furðu gott efni til skyrgerðarinnar. Trúlega hefir hann verið þessu líkur kæsirinn sem verðlagður er í Búalögum hálfum eyri.
Viktoría talar um þá miklu vinnu sem er við mjólkina, hvernig trogin voru þvegin, sem notuð voru áður en skilvindur komu á bæina, og um búrin þar sem mjólkurtrogin stóðu. Smjör- og skyrgerð hafi verið mikil á þeim bæjum sem mörgu fé var fært frá því ólíkt meira fengist af smjöri og skyri úr sauðamjólk en kúamjólk. Og hún bætir við: „Hefi ég aldrei farið með búdrýgri mat en sauðamjólkina.“

Strokkur

Strokkur.

Hér á árum áður var landfrægt skyr sem kallað var Hvanneyrarskyr. Kristjana Jónatansdóttir ráðskona á Hvanneyri, sem átti heiðurinn að því skyri, segir frá skyrgerð sinni í Hlín árið 1934. Hún segist reyndar hafa lært hana sem unglingur heima og síðan af 30 ára reynslu.
Sem myndarleg húsfreyja hleypti Herdís Andrésdóttir í skyr og helti á grind, eins og hún orðar það í kvæði sínu, og strokkaði rjóma og breytti smjöri í sköku.
Mesta og besta vitneskju um skyrgerð veitir 5 blaðsíðna grein eftir Hólmfríði Pétursdóttur frá Arnarvatni í 19. júní árið 1960. Greinin er skrifuð af slíkri nákvæmni að vart verður betur gert. Hólmfríður segir ekki aðeins frá því hvernig best tekst að gera skyr heldur einnig frá ýmsu sem veldur því að skyrgerðin mistekst og hvernig þá er reynt að bæta úr. Mörg orð og orðatiltæki, sem fjöldi fólks hefir nú ekki hugmynd um hvað þýðir, koma að sjálfsögðu fyrir í greininni. Hólmfríður lýkur grein sinni með þessum orðum: Íslenska skyrgerðin er arfur frá liðnum kynslóðum íslenskra kvenna, kvenna, sem með hugkvæmni, skynsamlegri athugun og kostgæfni gerðu skyrið að þeirri kostafæðu, sem raun hefur á orðið, og lögðu um leið mikilvægan skerf til varðveislu hreysti og viðnámsþróttar íslenska kynstofnsins á liðnum öldum. Nú hafa íslenskar konur skilað þessum arfi af höndum sér.
Réttara væri þó að segja, að breyttir atvinnu- og þjóðlífshættir hefðu hrifið hann úr höndum þeirra. Vonandi ber þó þjóðin gæfu til að varðveita hann enn um aldir fram.”

Heimild:
-Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Anna Sigurðardóttir 1908 – 1996, útg. 1985, bls. 236-240 og 243-252.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Vífilsstaðasel

Sel í landi Garðabæjar (Úr bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar”).

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar er m.a. fjallað um selin í Selgjá, Vífilstaðasel, Setbergssel, Kaldársel og Hraunsholtssel.
“Selgjá (Norðurhellragjá, Norðurhellnagjá, Norðurhellagjá) er í Urriðakotshrauni. Selgjárhellir er vestast í norðurbrún gjárinnar… ”….nokkuð breið gjá er í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.
Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku”.
Seljabúskapur var að heita má algjörlega horfinn um aldamótin. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skipti minna máli. Eyðing skóga hefur einng átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli (sjá Hitzler 1979).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Búsmalinn var hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir ví nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru til að mjalta ærnar í og kofi handa kúm ef þær voru hafðar í selinu (Jónas Jónasson 1945: 60-62).

Selgjá

Sel í Selgjá.

Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður sem allar eru byggðar upp við gjárbarmana, að minnsta kosti um tuttugu byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar. Að því er virðist hefur verið erfitt um vatn í Norðurhellagjárseljum en vatn mun hafa verið sótt í Gjáaréttarvatnsgjá (Vatnsgjá).
Eftir gjánni liggur Norðurhellagjárstígurinn austur eftir gjánni. Þar í norðurbrún gjárinnar er steinn og á hann klappað B. Stígurinn liggur svo austur og upp úr gjánni sunan syðstu seljarústanna undir norðurbrún gjárinnar.

Urriðakotssystur gáfu upplýsingar um þetta, Vilborg og Guðbjörg, einnig eiginmaður Guðbjargar, Páll Kjartansson, en þau höfðu upplýsingar þessar frá föður Guðbjargar, Guðmundi Jónssyni, sem fæddur var og uppalinn í Urriðakoti og bjóð þar um 50 ára skeið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Heiman frá Vífilstöðum lá Selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljóskollulág, upp á háhálsinn og suður í lægðardragið þar sem Vífilstaðasel stóð. Nú er algengast að fylgja svokölluðum Línuvegi upp á Vífilstaðahlíð og þá blasa við rústir Vífilstaðasels með Selholt (Selshamar) að sunnan en Selás að norðan. Selkvíarnar eru uppi á Selásnum. Austan við Vífilstaðasel er lítill hóll, Selhóllinn. Gísli Sigurðsson hefur það eftir Sigrúnu Sigurðardóttir að gott hafi verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á Hjallana.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um selið segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: “Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, er nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Rústirnar eru greinilegar miðað við margar aðar seljarústir, sem við höfum séð. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum (væntanlega svefnhús, eldhús, mjólkurhús). Sunnanvert við rústirnar eru tvær aðrar rústir (kvíar, stöðull?). Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er þannig einir 50 m2 að utanmáli. Vífilsstaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703”.
Guðrún P. Helgadóttir orti eftirfarandi um Sigrúnu Sigurðardóttur á Hofstöðum: “Hefur þú séð rústirnar – samgrónar landinu – sem mynda torfveggi – í hallandi brekku – og nefndar eru sel – Vífilsstaðasel.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Kaldárseli var selstaða frá Görðum. Í Jarðabók Árna og Páls segir í lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott” (Jarðabók III:180). Ólafur Þorvaldsson hefur ritað um Kaldársel í minningum sínum (sjá Ólafur Þorvaldsson 1968:119-140). Byggð mun hafa verið stuttan tíma í Kaldárseli. Mikill skógur hefur verið á þessu svæði og var óspart á hann gengið, rifinn til kolagerðar og eldiviðar og ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs. Búpeningur gekk þarna sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum. Hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar var hrískvöðinni breytt í fiskakvöð. Um Kaldársel segir Þorvaldur Thoroddsen: “Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kadársel, og þar eru víða í hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d:1887), sem áður hafði verið á Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið”.

Setbergssel

Setbergssel.

Hraunsholtssel var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, fram hjá Hádegishól, að selinu (G.S.). G. Ben. sá enn votta fyrir selinu 1987. 16)
Setbergssel var í Ketshelli samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Gísli Sigurðsson, varðstjóri og útivistarfrömuður; lýsti mörgum leiðum í nágrenni við Hafnarfjörð. Í riti um Selvogsgötuna kemur hann m.a. við í tveimur seljum; “Í miðri brekkunni er landið grænna en annars staðar enda var hér í gamla daga Setbergssel eða Setbergsstekkur. Á hægri hönd er varða.

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Gengið er niður að Setbergsseli. Komið er að helli, sem tilheyrði stekk þessum, það er að segja helmingur hans. Hinn helmingurinn tilheyrði Hamarskoti, og hét því Hamarskotssel. Hellirinn er hólfaður sundur í tvennt með allveglegum garði”.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlöðunessel

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er getið um öll sel, sem þar er að finna.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vantsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. Árið 1703 var búfénaður á Brunnastöðum sem hér segir: 10 nautgripir, 27 kindur ásamt lömbum, 29 sauðir og 4 hestar. Heimilsfólk var 14 talsins. Hjáleigurnar voru 5 og þar 8 kýr og 7 kindur. Því má ætla að um aldamót 1700 hafi 10-12 kýr verið í Brunnastaðaseli og 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
[Þess skal geti að höfundur hefur gengið mikið með Sesselju um selin ofan Vatnsleysustrandar og orðið margs áskynja. Eitt af merkilegri seljum þar er Gjásel. Það er undir Stóru-Aragjá og er sennilega eitt fyrsta “raðhúsið” hér á landi. Í einni keðju eru a.m.k. 7-8 hús undir gjárveggnum og tveir stekkir. Þarna hefur greinilega verið um einhvers konar samyrkjubúskap að ræða, sem fróðlegt væri að reyna að fá gleggri upplýsingar um].

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Í upphafi voru líklega bæði kýr og kindur hafðar í seli hér í hreppnum og afurðirnar, jafnvel ullin, unnar á staðnum. Selfarir lögðust trúlega endanlega af hér og víðar á landinu upp úr miðri nítjándu öldinni, og þá á bilinu 1850-1880. Selstæðin voru kennd við höfuðbýlin en hjáleigubændurnir höfðu líka afnot af þeim og víða voru því 4-6 búendur á sama selstæðinu.
Í heimildum um seljabúskap í Dalasýslu er sagt að sumir bæir hafi átt tvö sel og þrjú sel og notað a.m.k. tvö sama sumarið, þ.e. flutt búpeninginn á milli selja þegar beit var uppurin í því sem fyrst var flutt í. Ekki er getið um kýr í seljum þar vestra á 19. öldinni, aðeins kindur. Í ritinu segir: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Vogasel

Vogasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Líklega hefur seljabúskapurinn hér verið með svipuðu sniði og fyrir vestan en ekki er vitað til þess að býli hafi átt tvær selstöður. Hér í hreppi hefur verið meiri nauðsyn á að hafa kýr í seli en í Dölunum vegna þess hve heimahagarnir vorur rýrir.
Vatnsskorturinn í heiðinni er tíundaður í Jarðarbókinni 1703 og er sagt þar að fólk hafi þurft að flytja hem úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimidlir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til sömu nota. Það sama hefur eflaust gilt hvað varðar selstöðurnar hér og víðar þegar þurrviðrasamt var. Við nokkur selin í heiðinni eru smá vatnsstæði í klöppum og gamlar heimildir eru til um vatnsból við önnur en þau hafa ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

[Selin á Vatnsleysustrandarheiði eru öll ofan Reykjanesbrautar]. Norðaustur og upp frá Pétursborg [á Huldugjárbarmi] en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegn um einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel enda engar húsarústir sjáanlegar. [Minjarnar í og við hólana benda til þess að þarna hafi verið sel. Ekki er útilokað að tjaldað hafi verið yfir gjána, en í henni eru hleðslur veggja].

Undir Arahnúk [þar sem Stóra-Aragjá rís hæst] er Arahnúkasel eða Arasel. Ekki er vitað við hvern þennan Ara selið er kennt við, en getgátur hafa verið uppi um það, sem ekki verður fjallað nánar um hér. Selið dæmigert fyrir selin á Reykjanesskaganum; í skjóli fyrir austanáttinni.

Arasel

Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
[Þess ber að geta framangreindu til staðfestingar, að við leit að vatnsstæðum og vatnsbólum við sel á Reykjanesi sumrin 2002 og 2003 kom í ljós að sum þeirra höfðu þornað alveg upp miðsumars, enda um óvenjuhlý sumur að ræða.]

Fjárborgir eru margar hér enda hreppslandið talið gott sauðfjárland. Skúli Magnússon segir í landlýsingu sinni árið 1785 að Strandarheiðin sé “….eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar það sem ég hefi séð á Íslandi….”.
Merki um 10 fjárborgir eru sjánlegar og eru þær mismunandi heillegar, allt því að vera svo til óskemmdar niður í illgreinanlegar hringlaga grjóthrúgur.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Um síðustu aldarmót var t.d. setið yfir tugum sauða í Kálffelli [sunnarlega í Vogaheiðinni]. [Þar má bæði sjá hleðslur við fjárskjól á a.m.k. tveimur stöðum, stekk og hlaðið gerði. Auk þess er þar að finna helli Odds frá Grænuborg, en hann hélt til í honum um aldarmótin 1900]. Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d: 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.

Oddshellir

Oddshellir.

Oddshellir er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið neðan dyranna. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

[Nýjasel er austanvið Snorrastaðatjarnir. Þar mótar fyrri nokkrum tóftum og stekk undir lágreistum bjalla. Snorrastaðasel er norðan við Snorrastaðatjarnir. Um eina tóft er að ræða. Í hana hefur, af öllum stöðum, verið plantað grenitré. Talið er að Snorrastaðasel hafi verið kúasel].

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Nokkurn spöl vestan við [svonefnda] Viðaukahóla er nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan við Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel. Víst er að Þórunafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en í því átti að satnda höfuðból með átján hurðir á hjörum. Engar rústir eru sjánlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað, en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð.
[Rétt er að geta þess að þarna skammt vestar er gróinn hóll. Í honum má sjá marka fyrir hleðslum í klofi hans. Utan með er það gróið og enn utar það mikil eyðing, að erfitt er að sjá hvor þar geti verið hægt að finna heilleg mannvirki. Þó er það ekki útilokað]. Ein sögn er til að Þórusel hafi verið um tíma í Fornuseljum í Sýrholti.

Kvíguvogasel - SnorrastaðirUtan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar sjást þrjár gamalgrónar tóftir og ein nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 17003 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel.
[Í brekkunni suðaustan við Gömlu-Vogasel má sjá tóftir Nýju-Vogaselja. Þær eru nokkrar á a.m.k. tveimur stöðum; aðrar undir klapparhól og hinar skammt neðar utan í grónum hól. Ofar er stekkur og fleiri hleðslur].
Frá Gamla-Vogaseli, austur af Vogaholtinu, er Brunnastaðasel undir Brunnastaðaselsgjá og er um 15 mín. gangur á milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru um Brunnastaðaselsvansstæði ofan við og sunnan selsins en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggnirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.

Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og liggur um Gjásel og Brunnastaðasel.
Undir Hlöðunesskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel og þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikill þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðunesi sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.[Þegar Hlöðunessel var skoðað komu í ljós mjög gamlar tóftir á tveimur stöðum á torfu þeirri, sem enn er heil, en í kringum selið er mikill uppblástur, eins fram hefur komið, en þarna er greinilega um mjög gamalt sel að ræða, sem erfitt er að koma auga á].

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðarbókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni.
Selið sést vel frá Skrokkum og er stutt ganga að því. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt fyrir ofan hólinn að austanverðu er smá vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á legnd, um 2 m á breidd með grjóthleðslu í kring.
Fyrir ofan fornasel liggur Línuvegurinn. Ofan hans blasir Klifgjá við og framundan er bergveggur hennar hár og mikill, en lækkar til austurs og vesturs þegar fjær dregur.
Yfir gjána á þessum slóðum eru tveir stígar með nokkru millibili; Knarranesselstígur og Auðnaselsstígur nokkurn spöl norðaustar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan við Klifgjá og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selsstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnstæðið sem er um 100 m neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Næst er Auðnasel, en það er norðaustur af Knarranesseli innan við [Breiðagerðisslakka]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól. [Við leit að vatnsstæðinu sumarið 2003 kom í ljós að það er niðurgrafið undir nefndum klapparhól, skammt norðan vestustu tóftanna].
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræsluflug. [Við skoðun á Sýrholti og Fornuseljum sumarið 2002 komu í ljós tóftir á tveimur stöðum. Tóftir eru norðvestan í holtinu. Þá eru tóftir nokkru norðar. Norðan þeirra, í gjá, er hlaðin kví].

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts, en norðan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.

Flekkuvíkursel

Selsvarða við Flekkuvíkursel.

Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-
Flekkuvíkurás og Nyrðri-Flekkuvíkurás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Þórustaðastígurinn liggur milli Selshálsins og Sýrholtsins, síðan yfir Grindarvíkurgjána og áfram upp í heiðina.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan Flekkuvíkursels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman og heita Bræður.
Undir norðaustanverðum Rauðhól er Rauðhólssel, en það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból. Upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði liggur Rauðhólsselsstígur, eða Rauðhólsstígur, upp í selið.
Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur frá Brennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel. Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tvennar tóftir af kofayrpingu, en kvíin er vestarlega í seltúninu. Austarlega á Selásnum er há varða sem sést víða að.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum, en hún lifði líklega fram á anna tug þessarar aldar”.

Arasel

Ara(hnúks)sel – Uppdráttur ÓSÁ.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel fram á 19. öldina; það eru Hvassahraun og Flekkuvík. Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð nýlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir eins og [áður] er getið um.
Hvassahraunsselstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina. Líklega eru örnefnin Selskrínshæð og Hálfnaðarhæð við stíginn og þá Hálfnaðarhæðin fast hægra megin við hann sé gengið upp eftir. Örnefnið Selskrínshæð gefur til kynna að þangað hafi selfólkið farið með selskrínunarr og þær síðan verið sóttar á hæðina af heimafólki og eða skipt um ílát þar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur úr Hafnarfirði um Óttarstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn: Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðhólsstígur eða Óttarstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargatan og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir geta um vatnsból við Hvassahraunssel og þá undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það. Nokkur leit hefur verið gerð að vatnsstæðinu, en það hefur ekki fundist. [Gerð var leit að því sumarið 2003 og fannst það á nefndu stað skammt fyrir ofan selið. Þar eru nokkrir hraunbollar og í einum þeirra var greinilegt vatnsstæði undir].
Næst er fallegasta gróðursvæðið á öllum Reykjanesskaganum, en það eru Selsvellirnir, sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænuvatnseggjum af smá dalverpi eða gili, en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd, en aðeins rúmlega 0.2 km á breidd.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir í lýsingunni að Selsvellir séu “í Strandamannalandi eður fyrir norðan Grindavíkurlandamerkin”. Þrátt fyrir þess heimild og fleiri hafa bændur í Grindavíkurhreppi eignað sér Selsvellina í tugi ára og á kortum Landmælinga Íslands er línan alltaf Grindvíkingum í hag þó svo hún sé að vísu einatt skráð sem óviss mörk.
Tveir lækir, Selsvallalækir, ranna um sléttuna, en hverfa svo niður í hraunjaðarinn, sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili sunnan Kúalága, en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nokkuð nálægt Selsvallaseli.
Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Backmann, Staðapresti, til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. [Þess ber að geta til glöggvunar að eldri seltóftir eru austan Selsvalla skammt norðar. Á milli þeirra liggur greinilegur stígur að nýrri selstóftunum. Kemur hann inn á selstíginn yfir hraunið, áleiðis til Grindavíkur, vestan þeirra. Stígurinn, sem reyndar greinist í fleiri stíga, er djúpt markaður á kafla eftir lappir og fætur liðinna kynslóða.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Handan við hraunkantinn að vestanverðu er Hraunsels-Vatnsfell. Uppi á því austanverðu er gígur með vatni í; vatnsstæði. Það hefur greinilega verið mikið notað í gegnum aldirnar, ef marka má hinn markaða stíg, sem þarna liggur á millum].

Heimild:
-Selin í Vatnsleysustrandarheiði – eftir Sesselju Guðmundsdóttur – “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd”.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakotssel

Hér að framan hefur verið reynt að geta þeirra helstu upplýsinga, sem tiltækar eru um sel á Reykjanesi.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Orra Vésteinssyni, kennara, er sérstaklega þökkuð aðstoð við undirbúning samantektarinnar. – ÓSÁ

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavíkursel

Hér segir Jónas Jónasson frá Hrafnagili frá aðkomu ferðamanns í sel. Lýsir frásögnin ágætlega hvernig þar var umhorfs.

Árbæjarsafn

Hlóðir.

“Ég hafði farið einum tvisvar sinnum yfir heiðina áður, en í hvort tveggja skiptið með öðrum, og því minna tekið eftir landslagi og gatnamótum fyrir það. Samt minnti mig nú, að mér hefði verið sagt, að einhvers staðar þarna í heiðarbrúninni ætti að vera sel. Datt mér strax í hug, að þar skyldi ég ná í morgunkaffið, ef mér tækist að hafa upp á selinu. Vegurinn lá þarna fram með melhrygg einum, og brekkan ofan við götuna var alþakin víði, fjalldrapa, fjólum og blágresi. Vel var loðið á milli runnanna af kjarngóðu língresi. Ég reið því út úr götunni og upp í brekkuna, vatt mér af baki, lét Skjóna eiga sig, en fór að kjaga upp á melinn til þess að skyggnast um og vita, hvað fyrir augun bæri.

Árbæjarsafn

Eldhús fyrrum.

Ég var lafmóður, þegar ég komst upp á melhrygginn. Hinum megin við hrygginn blasti við mér stór og fagur bugmyndaður hvammur — og þarna var selið í miðjum hvamminum. Og búverkareykurinn — eða kaffireykurinn — strokaði sig beint upp úr eldhússtrompinum í háalopt eins og stór viðarbolur og dreifðist þar svo út eins og furutoppur og bauð mig margvelkominn. Það má nærri geta, hvað mér þótti vænt um. Ég lét ekki lengi bíða að ná í klárinn, en hann orðinn fastur í munninum þarna í brekkunni og vildi hvergi fara; hann hefur ekki búist við betri kjörum annars staðar en þarna. Samt lét hann þó tilleiðast; ég teymdi hann upp á melkambinn, fór þar á bak og reið svo heim að selinu.
Ég reið svo liðugt sem ég gat yfir holt og, þangað til ég komst heim að seldyrunum. Þar stiklaði ég af baki og sleppti klárnum í varpann.

Vogsósasel

Vogsósasel.

Undir eins og ég kom af baki, fór ég að skyggnast inn í eldakofann. Hann var frálaus selhúsunum sjálfum. Og það var mér þá „hjartkær happasjón“, sem ég sá: Það skíðlogaði í hlóðunum, og rétt um leið og ég kom inn úr dyrunum, bullsauð upp úr katlinum. Og er það ekki gaman að koma þreyttur og slæptur ofan af heiði og hitta á það að það bullsýður upp úr katlinum! Ég sá engan í eldhúsinu. Ég hljóp því að seldyrunum og sá þar kerlingu skammt fyrir innan dyrnar, sem var að renna trogi. Undanrennan streymdi í flatri, margsnúinni bunu undan hendinni á kerlingunni út úr trogshorninu ofan í stóra fötu sem stóð þar á gólfinu. Ég varð allt í einu þurr í kverkunum af þorsta.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Ég kallaði óðara til kerlingar og sagði: „Gáðu að katlinum — það er að sjóða upp úr honum.“ Kerling leit við og varð svo hverft við, að hún var nærri búin að missa trogið. En ég beið ekki boðanna, úr því að hún var vant við látin, og brá mér sem skjótast út í kofann aftur og bjargaði katlinum, mætti kerlingunni í dyrunum, heilsaði henni hlæjandi og fékk henni þann svarta.
Kerling tók mér vel; hún hafði séð mig einu sinni eða tvisvar áður og þekkti mig.

Hraunssel

Hraunssel.

Það var því ekki að sökum að spyrja — hún tók mér eins og gömlum kunningja, enda hefi ég jafnan átt því láni að fagna, að verða átrúnaðargoð allra kerlinga, sem ég hef kynnst; það hefur gengið öllu erfiðara með þær yngri. Hún byrjaði með að spyrja mig, hvort hún mætti bjóða mér að smakka skyr og rjóma. Ég var heldur á því, að lítið hefði verið um slíkt þar uppi á heiðinni í nótt.
Meðan ég geiflaði á skyrinu, spurðumst við almæltra tíðinda, en fátt bar þó sögulegt á góma, sem taki því að færa það í letur.

Árbæjarsafn

Hangilæri í ráfri.

Mest spunnust umræðurnar út af því, hvernig mjólkaði í selinu; best sagði hún mér að mjólkaði, ef fénu væri haldið frammi og uppi í Borgarrústum, en langmest væri smjörið, ef því væri haldið í Víðilágunum og upp hjá Grenishólunum; en samt heyrðist mér á henni, að húsmóðurinni þætti það aldrei um of og fannst mér það ekki nema eðlilegt.

Þegar ég var búinn að borða nægju mína af skyrinu, var kerlingin búin að hella á könnuna, og sýndist mér hún renna til hennar mjög hýru auga. Það leið heldur ekki á löngu, að kaffið kæmi, og væri synd að segja annað, en það væri vel útilátið; pörin voru í fínna lagi, og sú tíska þekktist ekki þarna uppi í óbyggðum, að hafa borð á bollann; undirskálin var líka hálf eða vel það. Skjóni stóð úti og nagaði grængresið úr selbrekkunni og var hinn rólegasti, þó að það væri fremur snöggt. Mér þótti synd að ónáða hann undir eins og sat því enn, á meðan kerling var að búa í strokkinn; ég varð líka hálffeginn að hvíla mig ofurlítið og láta líða úr mér.”

Heimild:
-Úr “Sagan af Jóni halta” eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1850 – 1918)
-http://skolavefurinn.is/

Selhús

Sel – dæmigerð selhús á Reykjanesskaganum.

Baðsvellir

Sel og selstöður í Grindavík – eftir Guðrúnu Ólafsdóttur.

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Í ritinu “Söguslóðir”, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, ritar Guðrún Ólafsdóttir um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi. Í því segir hún m.a.: Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir.

Einbúi

Sel Ísólfsskála sunnan Selskálar.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum. Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fék aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa selstöðu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Járngerðarstaðamenn geru og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. “.aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangar var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæ góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Það eru aðeins Krýsuvíkurbændur, sem njóta þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. Skúli Magnússon landfógeti kallar jörðina fremur landjörð en sjávarjörð og lýsir henni m.a. á þess leið: “Landrými er mikið; eru þar hraun, fjöll og rauðleitar moldir; tún og engi er gott, og má auka það með tilkostnaði, svo að fleiri ábúendur getið setið þar”.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Ef til vill er það þessi góðu búskaparskilyrði, sem valda því, að ekki hefur tekist að hafa upp á neinum heimildum um selstöður frá Krýsuvík eftir daga Jarðarbókarinnar 1703. Um aðra hluta hreppsins gegnir öðru máli. Í verðlaunaritgerð Skúla Magnússonar, sem áður er getið, er ekkert minnst á selstöðu í Krýsuvíkursókn, en um Grindavíkursókn segir hins vegar: “En 2 mílur í norðaustur frá byggðalaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar í selstöðu. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selstöðurnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
Sr. Geir lýsir einnig selsstöðunni á Selsvöllum, að þar sé allgrösugt og bítist fljótt upp, vegna þess að allir bæirnir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli, þótt þeir greiði Staðarprestinum ekkert fyrir, og segir hann, að hann hafi heyrt, að flestir bæir hafi haft í seli einhvers staðar til fjalla, en vatnsleysi hafi valdið því, að þau væru niðurlögð og allir hafi þyrpst á Selsvelli, því að þar sé dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt sé að reka í selið 8. viku sumars en úr því í 16 eða 17. viku sumars, “nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum”. Af því að ekkert sé afréttarlandið sé allt fé, ungt og gamalt, lömb og sauðir, rekið í selið og smalað á hverju máli og lömbin séu kefluð.

Hraunssel

Hraunssel.

Þessum siða að kefla lömb er lýst hjá Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili í íslenskum þjóðháttum og Þorvaldi Thoroddsen.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega, enda ekki margir kostir heima fyrir ef marka má lýsingu sr. Geirs: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá séra Geir til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsunum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis.

Selsvellir

Selsvellir – horft af Þórustaðastíg að Kúaflöt.

Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ.e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars horaðan og nytlausan “þegar peningur allstaðar annarstaðar gjörir hvar mest gagn, og er í bestum holdum, og er þetta til allmikils ama mörgum búanda hér í sveit sem á stundum ekki þá hafa náð inn töðum sínum af túnunum.”

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
Í nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Rétt er að geta þess hér að óvíst er að Fitjar hafi vaxið úr seli líkt og Vigdísarvellir. Þó er það ekki með öllu ólíklegt. Hins vegar er Selshóll austan við Selöldu og undir honum eru mjög gamlar tóftir, sem gætu verið af seli því er nefndir eru í þjóðsögunni af Tyrkjunum er komu upp Ræningjaastíginn og selstúlkunum. Skammt vestsuðvestan við tóftirnar eru aðrar fleiri og heillegri, en þær munu vera af bænum Eyri, sem þar var. Sá bær gæti hins vegar hafa sprottið upp úr gama selinu því þar hafa landshagir verið góðir, en nú er þar veruleg landeyðing eins og annars staðar á Krýsuvíkurheiðinni.
Skammt sunnan við þær tóftir mótar fyrir fornum garði og a.m.k. tveimur fjárborgum og ílöngum stekk, líkt og í Strandarseli (lambastekkur).

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

“Hvenær lögðust selfarir í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. “Síðar”, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, “þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag”.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um Reykjanesskagann sumarið 1883 kom hann bæði að Hraunseli og seljunum á Selsvöllum í rústum. Hann kom á Baðsvelli, sem hann reyndar kallar Baðvelli, og minnist ekki á selstöður þar né heldur rústir eftir sel, og á Vigdísarvöllum fann hann samnefndan kotbæ.
Hér er komin gróf tímasetning. Einhvern tímann eftir 1850 og fyrir 1883. Samt er ekki öll sagan sögð.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram fór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.

Magnús kennir fólk á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870.

Selsvellir

Stekkur (rétt) á Selsvöllum.

Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.
Það má spyrja, hvað lifi enn eftir af þessum búskaparháttum, sem lögðust af fyrir um það bil öld. Í huga Magnúsar Hafliðasonar lifir minningin um selfarir foreldra hans. Hann kann einnig að segja frá öðrum seljum en Hraunseli, sem hann álítur að sé á Selsvöllum. Innar á Selsvöllum veit hann um Sogasel.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg – Uppdráttur ÓSÁ.

Rétt mun vera, að Sogasel er fyrir norðaustan Selsvelli við Sog, suðvestan við Trölladyngju og Grænudyngju og var í landi Stóru-Vatnsleysu og nytjað frá Kálfatjörn, en ekki frá Stað eða Tóftum eins og haft er eftir Magnúsi. Magnús þekkir einnig Dalsel og segir það vera frá Húsatóftum, og hann veit um sel á Baðsvöllum. Margrét Daníelsdóttir, f: 1899, og Þorsteinn Ólafsson, f: 1901, bæði frá Grindavík,vissu um tvö sel á Baðsvöllum, það eystra frá Hópi, en hinu vissu þau eingin deili á. Ennfremur vissu þau um sel á Selsvöllum, sem þau þekktu ekki. Gísli Guðjónsson frá Hlíð í Gerðahreppi, f: 1891, hafði drukkið kaffi á Vigdísarvöllum, þegar hann var smákrakki. Hann áleit, að á Selsvöllum hefði getað verið sel. “Það veit enginn fyrir víst”. Þetta er það sem stúdentar grófu upp um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sumarið 1976.

Dalssel

Dalssel.

Samt má enn um sumardaga ganga selgöturnar gömlu og skoða tóftarbrot víða um Reykjanesskagann og einnig í Grindavíkurhreppi. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, hefur um áraraðir viðað að sér fróðleik um þetta efni og veit man best um það. Hann hefur farið um allan skagann og leitað seljarústa, mælt og teiknað upp grunnmyndir af þeim, sem hann hefur fundið. Hann fullyrðir að leifar sé að finna eftir sel á öllum þeim stöðum, sem nefndir hafa verið hér að framan nema við Seltún, á Baðsvöllum og í Fagradal. Við Seltún hafa ummerki horfið vegna umsvifa í sambandi við brennisteinsnám á 18. og 19. öld. Á Baðsvöllum er nú skógræktarlundur Grindvíkinga. Dalsel hefur Gísli aldrei fundið, þrátt fyrir nokkra leit, en um það segir svo í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, 1961: “Dalsel er í Fagradal við samfellt fjall. Þar sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur eru nú uppblásin fyrir löngu”.
[Tóftir sels í Fagradal sjást vel norðan Nauthólaflata. Dalurinn sjálfur er uppblásinn, en grónar torftur er norðaustast í dalnum. Þar eru tóftirnar á bakka gamals árfarvegar. Vestan við selið eru grónar brekkur. Farið var nokkrum sinnum á staðinn til að leita að selinu, en þangað er langt að fara og torsótt. Það fannst loks á nefndum stað.

Litlahraun

Selstaða í Litlahrauni.

Hér hefur verið sýnt fram á að sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: “Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.”.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

“Ekki hefur tekist að tímasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll”.
Tveir staðir eru þó ónefndir í framangreindum lýsingum. Það eru selstöður Krýsuvkurbænda í Kringlumýri undir Hettu og í Litlahrauni. Í Kringlumýri er væntanlega að finna elstu selsminjar hér á landi, allt frá tímum Húshólmsbæjanna við hina fornu Krýsuvík – jafnvel fyrir sögulegt landnám…

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Öskjuhlíð

Í riti um Öskjuhlíð – náttúru og saga, er m.a. fjallað um sögulegar minjar í hlíðinni:
“Í Öskjuhlíð Úr Víkuselifinnast víða sögulegar minjar. Þær eru af margvíslegu tagi, en í stórum dráttum má skipta þeim í tvennt; almennar söguminjar og stríðsminjar. Þær elstu tengjast búskap, þ.e. svonefndu Víkurseli. Öskjuhlíð tilheyrði frá upphafi landnámsbænum og höfuðbólinu Reykjavík, sem var nefnt Vík. Engir atburðir gerðust í Öskjuhlíð, sem annálsverðir þóttu fram af öldum. En þar höfðu Reykjavíkurbændur snemma nytjar, skóg og selstöðu, eins og það var kallað. Sel voru íveruhús fjarri bæjum, þar sem búfénaður var látinn ganga á sumrin til að dreifa ágangi á beitilandið.
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig Í Víkurselieru getgátur um að það hafi verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og hafa þau verið flutt til í aldanna rás.
Í máldögum 1397 og 1505 er getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir eru mjög fáorðir um búskaparefni.
Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson (f. 1570, d. 1660), hálfbróðir Odds biskups, “fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband”. Kona hans var Þórey Narfadóttir (ein heimild nefnir hana Þórnýju) bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, Hlíðarhúsaselhafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu, en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.
Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: “Selstaða er jörðinni [REYKJAVÍK] eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; Við Hlíðarhúsaselþar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn”. Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um “gamla Víkursel. Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.
Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selsáðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: “Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…”. Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis. Í Fornleifaskrá Reykjavíkur er gert ráð fyrir að rúst Víkursels sé þar sem talan 1 er merkt á [meðfylgjandi] korti. Þó segir í skránni: “Rústin Uppdrátturer ógreinileg og erfitt að skera úr um hvort þetta séu leifar Víkursels”. Hér er vísað til þess að fornleifaskráin byggir aðeins á yfirborðskönnun. Til að ganga úr skugga um aldur og hverskonar rúst þetta er þyrfti að kanna mannvistarleifar nánar.
Stærð rústarinnar og lögun eru meðal vísbendinga þess efnis að um sé að ræða Víkursel. Hún er 11 x 6 m að ummáli, tvískipt. Ennfremur er svæðið umhverfis rústina búsældarlegt og stekkur er ekki fjarri. Þá er rústin við eina lækinn sem er sæmilega vatnsmikill í Öskjuhlíð vestanverðri. Því til viðbótar kemur staðsetning rústarinnar heim og saman við fyrrnefndar heimilir, Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og vitnisburð Elínar frá 1828. Að lokum er vísbending fólgin í því að rústin er við örnefnið Seljamýri”.
Þess bera að geta að í seinni tíma heimild er á einum stað talað um Hlíðarhúsasel í Öskjuhlíð, en ástæðan gæti verið sú að selið hafi um tíma verið nytjað frá Hlíðarhúsum samanber framangreinda frásögn Elínar. Þó gæti þar hafa verið um Öskjuhlíðannað sel að ræða á svipuðum stað því fleiri rústið eru þarna í hlíðinni, reyndar ógreinilegar, ef vel er að gáð.
Í Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst. Eptir sögninni um séra Gísla Einarsson, er síðar getur virðist svo sem selið hafi verið alllangt frá Vík, og hefur mjer helzt dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal, því þar átti Nes í seli.“ (Sjá HÉR.)

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Svo kemur sögnin um séra Gísla: „Dóttir Narfa [Ormssonar í Rvík] ein hjet Þórey, hún átti séra Gísla prest í Vatnsfirði Einarsson, bróðir Odds biskups. „Þótti sú gipting af ransandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið (Þetta bendir til, að selið hafi þá legið allfjarri, og orðið ´Mosfellsheiði´ bendir á, að selið hafi legið undir henni, í Seljadalnum, sbr. það sem áður er sagt) heim um nóttina, sagði bónda gestakomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleiri í sæng dóttur sinnar, heldur en von átti á. Sýndist gestinum skást afráðið, að lofa eigin orði.“ Þessi skemmtilega saga er tekin úr Ættartölu Steingríms biskups.”
Þegar rústir eru skoðaðar í Öskjuhlíð/Vesturhlíð/Lönguhlíð má sjá leifar tveggja selja. Þær neðri virðast eldri. Hvorugar eru þó leifar hins gamla Víkusels, nema selstöðurnar frá Vík og nálægum bæjum hafi verið fleiri en ein. Víkursel er undir Lönguhlíð norðaustan við Selvatn (sjá meira HÉR). Þar mun og hafa verið selstaða frá Víðeyjarklaustri um tíma (sjá meira HÉR). Um Nessel er m.a. fjallað HÉR.

Heimild:
-Úr bókinni “Öskjuhlíð – náttúra og saga”.

Víkursel

Víkursel við Selvatn.

Straumssel

Á vefsíðunni má fræðast um yfir 401 sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á umliðnum árum á Reykjanesskaga. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Yfirlitið segir til um 401 sel á 202 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er t.d. getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn, auk fjölda annarra.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg, sem sannarlega hafa þá verið í notkun. Verður það að skrifast á ónákvæma skráningu hlutaðeigandi. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu.

Urriðavatn

Frá uppgreftri við Urriðavatn.

Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir. Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík, Kúadalur ofan Kaldársels og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt. Við Urriðavatn í Garðabæ hefur verið garfið upp kúasel, væntanlega frá Hofstöðum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma).

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Sel á Reykjanesskaganum eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð. Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Vindássel

Vindássel í Selvogsheiði – Uppdráttur ÓSÁ.

Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.

Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Hraunssel

Hraunssel.

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.

Vindássel

Vindássel í Kjós.

Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.

Litla-BotnsselEnn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.

Minjar í Selvogsheiði.

Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa.

Staðarsel

Staðarsel.

Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans.

Selgjársel

Selgjá – Uppdráttur ÓSÁ.

Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni. Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Selsstígur

Selsstígur.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.

Merkinessel

Merkinessel.

Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Fornasel

Fornasel í Strandarheiði.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaða-fjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Óttarstaðaborgin, eða Kristrúnarborg, eins og hún hefur stundum verið nefnd, er við Óttarstaðaselsstíginn, Rauðamelsstíginn eða Skógargötuna, eins og hann hefur einnig verið nefndur. Straumsselsstígur liggur upp í Straumssel, Stakkavíkurselsstígur upp í Stakkavíkursel, Lónakotsselsstígur upp í Lónakotssel og svo mætti lengi telja. Til eru þó sel við alfaraleið, s.s. Hlíðarendaasel þar sem Ólafsskarðsvegur liggur svo til í gegnum selið sunnan Geitafells. Sum seljanna eru á fallegri stöðum en önnur. Má þar nefna Breiðbólstaðaselið í Krossfjöllum og selin í Sogagíg undir Trölladyngju. Hið fyrrnefnda státar af fögru útsýni niður í Dimmadal á meðan hið síðarnefnda nýtur skjóls í fallegum hraungíg undir öruggu og litskrúðugu faðmlagi Trölladyngju og Soganna. Ein tóftin er utan við gíginn.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshella ofan við Straumssel, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.

Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Heiðarbæjarsel

Heiðarbæjarsel.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.

Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.

Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður umhugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Hér er ekki ætlunin að skrifa magesterritgerð um sel á Reykjanesi, en reyna þó að nálgast viðfangsefnið þannig að það gefi nokkra góða sýn á fjölda selja og hversu ríkan þátt selbúskapurinn hefur átt í atvinnuháttum fólks á svæðinu, líkt og annars staðar á landinu. Því verður best lýst með eftirfarandi tilvitnunum í verk Hitzlers.

Sjá niðurlag um seljaumfjöllun HÉR.

Sjá meira um sel og selstöður á Reykjanesskaga HÉR.

Hópssel

Hópssel við Grindavíkurveg.