“Í fornöld tíðkuðust mjög selstöður á sumrum, og er víða í sögunum getið um sel og selfarir. Voru bæjarhúsin til aðgreiningar frá seljunum nefnd vetrarhús. Var stundum margt manna í seli og selin tvö, svefnsel og búr, og var þá annað haft til íbúðar, en hitt til matargerðar.
Voru hér sumarhagar fyrir búfé og mjólkin höfð til smjörgerðar, skyrgerðar og osta. Voru nytjarnar fluttar heim jafn ótt og skyrið reitt í belgjum eða húðum og bundið fyrir ofan; voru slíkir belgir nefndir skyrkyllar. Munu flestir kannast við söguna af Gretti, er Auðun frændi hans flutti mat úr seli og sletti skyrkyllinum í fang Gretti, svo hann varð allur skyrugur; þótti honum það illt, því hann barst þá allmikið á í klæðaburði. Selstöður voru mjög nauðsynlegar í fornöld til hlífðar heimahögum, þar sem búfé var svo margt. Í selin fluttu menn að jafnaði um fráfærur, en úr þeim um réttaleytið eða í 22. viku sumars. Voru nákvæmar reglur settar um það í lögunum, hversu með skyldi fara er fé var rekið í sel eða frá.
Geldfé var rekið á afrétt að sumrinu til, eins og nú tíðkast, og voru strangar reglur settar um beit í afréttum og notkun þeirra að öðru leyti. Mátti eigi gera sel í afrétt né heyja og eigi beita þangað öðru en geldfé, og lá við útlegð. Fé sitt skyldu menn reka á afrétt er 8 vikur voru af sumri, en úr afrétt er 4 vikur lifðu sumars. Réttir höfðu fornmenn tvisvar á ári, að vorinu til áður féð var rekið á fjall, og að haustinu til er afréttir voru smalaðar, og var hvorttveggja nefnt lögréttir”.
Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 247-248.