Blikdalur

Einhver merkasta bók um þjóðleg fræði, sem út hefir komið á síðari árum á Íslandi, er Íslenzkir þjóðhættir, eftir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili.
Kaldarhofdi-201Er það heildaryfirlit um þjóðháttu, siðu og þjóðtrú Íslendinga á síðari öldum. Því miður entist höfundinum, hinum merka fræðimanni, rithöfundi og kennara, síra Jónasi Jónassyni, ekki ævin til þess að ljúka þessu merkilega verki. Vantar t.d. alt er að sjómensku lýtur. En annar merkur fræðimaður, dr. Einar Ól. Sveinsson bjó bókina undir prentun og Ísafoldarprentsmiðja gaf hana út. Kafli sá, er hér fer á eftir er tekinn úr bókinni og fjallar um dagleg störf til sveita.
Frá fráfærum til sláttar leið nokkuð misjafn tími, eftir því sem gras spratt fljótt, en oftast var það hálfsmánaðartími að minnsta kosti. Var þá nóg til að vinna, sem eðlilegt var. Verður að taka fyrst þau störfin, er náðu jafnt yfir alt. Mjólkurærnar hafa lengi verið nefndar búsmali á Íslandi.
Stekkur-201Þegar eftir fráfærurnar voru ærnar nytkaðar kvöld og morgna, en hafðar í haga mála á milli. Nytkunartíminn kvöld og morgna heitir mál og kallað að mjólka ærnar á málum, mjólkurhirðing kvöld og morgna heitir málaverk, og kvöld- og morgunskattur málamatur. Þessi nöfn eru forn.
Smalinn hafði það verk á hendi, að sjá um, að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum, til þess að það yrði mjaltað, enda er sá tími enn í dag einatt kallaður mjaltir og verkið líka: vinnukonur mjöltuðu fé jafnan. Smalinn gerði ýmist að fylgja fénu eftir í hagana eða láta það sjálfrátt og smala því kvöld og morgna.

Sel-201

Þurfti hann því að vera árrisull, ef fénaðarferð var löng, og æði erfið var honum einatt smalamenskan, fekki sízt til dala eða þegar ærnar létu illa, voru óspakar, óþekkar sem kallað var, eða sóttu mjög til fjalls; þó tók út yfir, þegar þokan kom, en jafnan var húsmóðurinni að mæta, ef vantaði í kvíarnar; henni þótti það ódrýgja nytina, sem von var. Nóg var nú samt, þegar þokur og rigningar komu og „datt úr því dropinn”, þó að ekki vantaði oft í tilbót.

Natthagi-201

En duglegur og röskur smali var altaf mesta uppáhald húsmóðurinnar og fékk marga aukabita og sopa, þegar hann stóð vel í stöðu sinni, og svo er sagt með sönnu, að Sigríður hin stórráða á Grund og Espihóli hafi altaf tímt að gefa smalanum að eta, þó að misbrestur þætti verða á því með hitt f ólkið. Þá átti hann altaf líka vísa smalafroðuna ofan af flóunarpottinum á málum. En ef hann var lélegur og vantaði oft hjá honum, þá átti hann ekki upp á pallborðið hjá húsfreyju. Því er sagt svo frá, að húsfreyja á einum bæ var að ala barn og var að basla við að segja vinnukonunni fyrir, hvernig hún ætti að skamta. Seinast kom að smalanum, og átti hún þá að hafa sagt: „Vantaði ekki af ánum, æ æ?” Stúlkan sagði, að svo hefði verið. „Minna af skyrinu og meira af grautnum, æ æ — látt’ ‘ann eta svikin sín, og æ æ.” Má af því ráða, að stundum hafi verið misjöfn æfi, sem smalarnir áttu
Ef smalanum hafði tekizt svo vel fjárgeymslan, að engin ærin missti máls fram að Þorláksmessu á sumar (20. júlí), átti hann að eiga Arasel-201nytina úr beztu kúnni þann dag og skemta sér við með útreiðum. Þetta var alment í Skaftafellssýslum og undir Eyjafjöllum, en ekki víðar um land, svo að kunnugt sé. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru bygð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag.
Ekki var malið undir smalann í Hvassahraunssel-uppdrattur-21seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn féll saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn: „Það stendzt á endum strokkur og mjaltir.” Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamensku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilizt þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, sízt alment. — Selin voru venjulega þrjú hús: mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa: að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var þá skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn). Heldur þótti það vilja þynnast á selflutningunum, sem von var. Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum.

Hraunssel - uppdrattur-201

Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar astir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær og börn í seljunum og báru þau út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komizt í tæri við selráðskonur. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar.

Selsvellir - uppdrattur-21

Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flutzt hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hinar sömu og á síðari tímum, nema skyr hefir stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða í kollum í krókum.
Þá var annað, sem sjálfsagt var að annast um tímann á milli fráfærna og sláttar. Það var grasaferðin. Grasaferða er getið í Jónsbók, Landleigubálki, 58. kap.; segir þar svo: „Eigi skal maðr utan orlofs lesa ber á annars jörðu til heim at bera, en ef less, tvígildi ber ok svá grös, ef hann less þau.” Þá er og getið um grasaferð í Fljótsdælu og í ýmsum ritum frá 17. öld. Hafa grös verið mikið notuð hér á landi um margar aldir. Þótti hvert heimili til sveita, einkum nyrðra, illa búið til vetrar, ef ekki var farið til grasa. Víða var það og í uppsveitum syðra. Grasatekja var víða ágæt; má einkum til nefna sem orðlagðar grasastöðvar Arnarfell, Lambahlíðar, Kjalhraun, Þjófadali eða Hveravelli, Orravatnarústir o.m.fl.

Fjallagros-21

Grösin voru í miklum metum, og var grasatunnan syðra metin jafnt sölvavætt eða 10 álnir. Nyrðra var kapallinn (4 tn.) vanalega seldur 20 ál., eða 4 m. spec, en á Austurlandi var tunnan af hreinsuðum og hálfmuldum grösum seld í harðindum 30 ál. eða 1 rd. spec, og þótti gott kaup, því að menn álitu, að tvær tunnur grasa væru á við mjöltunnuna til matarnota. Venjulegast var gerður út karlmaður með 2—3 stúlkur frá stórbæjunum, en fólk af smærri bæjum sló sér saman, einn frá bæ, undir forustu eins manns. Venjulega voru 5—8 hestar í hverri lest, og var verið viku til hálfan mánuð í ferðinni, eftir því hvað grasatekjan var góð og tíð hentug. Útbúnaður til grasaferða voru tunnupokar, annað hvort unnir úr togi eða þá hærupokar, ofnir úr faxhári. Voru þeir allþolnir, ef þeir voru vel gerðir í fyrstu. Litlar hornhaldir, 6—8 tals, voru festar í kring í opið, og var svo reimað fyrir opið í hagldirnar með togbandi.
Fjórar tunnur grasa voru ætlaðar hestinum, ef þau voru vel þur. RaudablasturStundum prédikuðu prestar yfir grasaf ólki, áður en það fór, eða sveigðu að því í ræðu sinni sunnudaginn áður. Það gerði síra Jón lærði í Möðrufelli, og muna menn þetta úr ræðunni: „Troðið vel í hornin, svo að ekki verði svik fundin.” Svo var farið af stað og haldið áfram, þangað til komið var í grasastöðvarnar og tjaldað. Tjöldin voru oftast ofin úr vaðmáli. Prjónatjöld höfðu fáir nema útilegumenn. Grösin eru misjöfn að gæðum. Bezt eru skæðagrös; næst þeim brekkugrös eða Maríugrös og klóungur, kræða þótti kostaminnst, en þó vel hafandi í grauta; hún var helzt notuð á Norðurlandi; hundaló þótti til einskis nýt. Þegar búið var að sofa af sér ferðina, skipaði formaður flokksins til göngu. Bezt þótti grasaveður þokur og hægar vætur, því að þá verða grösin mýkri og ljósari og breiðast meira út, en skorpna saman og dökkna í þurki. Ef þurkar voru, var gengið á nóttunni og neytt döggfallsins. Það þótti meðal grasatekja, ef greiður kvenmaður tók tunnuna í göngunni milli mála. Í göngurnar hafði hver um sig tínupoka, svo sem hálftunnupoka; var fest í pokann band, sem gekk upp um hálsinn.

rekavidur-1

Ýmsar hættur gátu komið fyrir á grasafjalli, ekki sízt, ef þokur voru. Mátti þá alt af eiga á hættu, að útilegumenn væru á varðbergi, til að reyna að nema einhverja stúlkuna burtu, og enda huldufólkið var ekki laust við sama. En miklu tíðara var það, að huldumenn leituðu á selráðskonur. Grösin voru þurkuð, ef veður leyfði, og flutt heim síðan, og þótti heldur en ekki búsílag, ef vel hafði grasást. Þegar vel voraði og snemma tók snjó af heiðum og gróður var kominn, var stundum farið nokkru fyrir fráfærur til grasanna og það að því skapi fyrkomið heim aftur. Annað vorverk var það, er mikið var að gert, þar sem nokkurn skóg var að hafa eða fjalldrapa, sem var í stærra lagi. Það var kolagerðin. Allir þurftu kola við á hverjum bæ til þess að dengja við og smiðir til ljáasmíða og hestajárna; þurfti eitt kolakvartil til að smíða ljáinn. Skógurinn var höggvinn og hrísið rifið á haustin og veturna; svo var það afkvistað og afkvistið haft til eldiviðar. Leggir voru síðan kurlaðir í 3 —4 þuml. langa búta. Síðan var gerð kolagröf, 1—2 faðmar að þvermáli og um 2 ál. djúp, og kurlinu raðað í hana, og var hið stærsta haft neðst. Kúfur var hafður á gröfinni, 1—1 1/2 al. á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna.

rekavidur-2

Þá var snöggtyrft yfir og mokað mold yfir, svo að hvergi kæ,mist loft að; síðan var opnað eftir þrjá daga eða fjóra og kolin tekin upp; 4—5 tunnur kola fengust úr slíkri gröf. Stilt veður þurfti að velja til kolagerðar, svo að eigi hlytist óhapp af eins og hjá Ölkofra. Kolin voru seld í skógarsveitunum í aðrar sveitir í tunnutali, og var vanaverð á þeim 5 ál. tunnan. Fnjóskdælir seldu venjulega Eyfirðingum tunnuna fyrir lambsfóður (kolalambið). Í Þingvallasveit seldu menn hana 6 ál., en ef þeir fluttu kolin suður á Suðurnes og seldu þau þar, kostaði tunnan 10 ál. Borgfirðingar gerðu og oft til kola á áliðnu sumri. Kolagerðin hefir orðið skógum og hríslandi á Íslandi til hins mesta tjóns. Alt var höggvið, ungt og gamalt, og þar sem skógar voru ekki, var hrísið rifið miskunnarlaust; jarðvegurinn rótaðist allur upp, og svo blés alt upp ofan í grjót. Sumir skógaeigendur leyfðu líka hverjum, sem vildu, að höggva í skógi sínum og gera til kola, og tóku þá 5 ál. undir kolahestinn, t. d. presturinn á Húsafelli, eða þá einhvern ákveðinn hluta af kolunum. Sama var, ef leyft var að höggva raftvið til húsa. Sumir tóku þó hærri leigu. Konungur eða stjórnin reyndi að sporna við þessari hraparlegu eyðingu skóganna með lögum (10. maí 1755), en fáir eða engir skeyttu þeim.

rekavidur-3

Þá voru, einkum norðanlands, rekaviðarferðir tíðar á vorin, bæði á Strandir, Skaga, Tjörnes, Langanes og Sléttu. Húnvetningar, Vestur-Ísfirðingar, Barðstrendingar og Strandamenn sóttu til Hornstranda sjóleiðis, en sumir Vestfirðingar sóttu rekaviðinn landveg á hestum. Dragklyfjar á hest voru seldar á 5 ál. (= 1 mark); mátti kaupandi þá velja viðinn sjálfur, en varð að höggva hann til og tegla. Húnvetningar, Vestur-Ísfirðingar og Strandamenn höfðu til þeirra ferða sérstök skip, sem þeir kölluðu byrðinga; þau skip voru á stærð við sex- eða áttæringa og rammlega gerð. Þau voru heldur flöt í botninn, flá til hliðanna, og risu stefnin hátt. Á byrðinga þessa settu þeir 10 —15 manns og sendu þá á rekastöðvarnar, og var oft búið að, semja um timburkaupin. Sendimenn voru flestir vanir að höggva og saga við. Svo voru þeir vikutíma eða svo við rekana og höfðu nóg að gera að saga og höggva timbrið. Þeir gerðu langa planka og festu ofan á borðin á byrðingnum, en fyltu hann síðan með timbri, svo að hár búlki varð miðskipa, en autt nokkuð í barka og skut. Þegar þetta var búið, þéttuðu þeir samskeyti hliðarplankanna með mosa, svo að vatnshelt var. Maraði svo byrðingurinn í kafi, svo að upp úr stóðu hnýflarnir einir, en svo vel var um búið, að hvergi gaf sjó inn.

Brennisel-201

Síðan gerðu þeir flota úr timbri, til þess að hafa á eftir byrðingnum í eftirdragi. Til styrkingar reyrðu þeir köðlum um byrðinginn og farminn qg sömuleiðis um timburflotann. Segl höfðu þeir á byrðingnum, stundum 2 eða 3, því að ilt var að komast að að róa þeim, og sömuleiðis á flotanum, en höguðu þó svo til, að flotinn var jafnan gangtregari en byrðingurinn. Svo biðu þeir byrjar og sigldu heim og skiftu síðan með sér farminum að hlutfalli réttu. Tekið er það fram, að nærfelt aldrei hlektist byrðingunum á í ferðum þessum. Byrðingarnir lögðust alveg niður fyrir 1700, og fóru menn þá að sækja rekavið á almennum bátum, sex eða áttæringum, og kölluðu það að fara með stokkafarm, en ferðir þessar kölluðu þeir flotaferðir; 8—10 manns voru á bátnum. Þeir völdu sér viðinn, hlóðu bátinn og gerðu flota og höfðu hann í eftirdragi. Þegar alt gekk vel og byr var hagstæður, gat þetta borið sig, en ef veður gerði að þeim, urðu þeir oft að höggva af sér flotann, ryðja farminum, og stundum fórust skipin alveg. Gerði bæði, að farmurinn var illur og skipin léleg. — Á síðustu áratugum minkar mjög reki til landsins.

Heimild:
Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 3. árg. 1936, 26. tbl. bls. 2 og 6.

Kolagröf

Kolagröf.