Færslur

Gufuskálar

Framsöguerindi, flutt á málfundanámskeiði Iðnaðarmannafélagsins 28. febrúar 1967. –
stori-holmur-231“Það litla, sem Landnáma segir um upphaf byggðar á Suðurnesjum er eftirfarandi: „Steinunn in gamla frændkona Ingólfs fór til Íslands og var með honum inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingu. Steinunn hafði átt Herlaug bróðir Skallagríms, þeirra synir voru Njáll og Arnór,,.1.)
Þetta er öll landnámssaga Steinunnar gömlu og næstum allt og sumt, sem um hana verður vitað eftir rituðum heimildum. Þó víst sé talið, að við Íslendingar séum af norrænum uppruna, þá eru miklar líkur fyrir því, að Steinunn landnámskona sem er talin vera sú fyrsta, sem reisti sér bú á Suðurnesjum, hafi komið frá Vesturlöndum. Synir hennar hétu Njáll og Arnór. Njálsnafnið bendir til þess, að hún hafi komið frá Vesturlöndum og styrkist það við frásögnina um ensku hekluna, er hún gaf Ingólfi fyrir landnámið. Hún hafði enska vöru og getur maður því ætlað, að það hafi verið fleira af því tagi í fórum hennar, en hekla þessi, því að bæði víkingar og landnemar fluttu með sér nokkrar birgðir af varningi frá þeim löndum, sem þeir lögðu frá, er þeir fóru í herferðir eða landaleit.2)
Talið er, að Steinunn hafi reist sér bú að Stóra gardur-gufuskalarHólmi í Leiru og hafi rekið þar um árabil mikið höfuðból og verstöð. Það er talið, að á landnámsöld hafi Keflavík og Njarðvík verið sel frá Stóra-Hólmi í Leiru.4) Hið forna höfuðból Steinunnar gömlu er nú komið í eyði, en sel hennar eru aftur á móti ört vaxandi byggðarlög.

Í bókum um landnám Ingólfs er getið um, að í Rosmhvalaneshreppi hafi verið Keflavík, Leira, Garður og Miðnes og allt að Ósabotnum. Greinilegt er, að Njarðvíkur eru teknar undan Rosmhvalanesi, er hreppar eru myndaðir.5) Njarðvíkur, Vatnleysuströnd og Vogar mynduðu Vatnsleysustrandahrepp.
Fyrsta breytingin, sem gerð er á Suðurnesjum er, að Njarðvíkur segja skilið við Vatnsleysustrandahrepp og sameinast Rosmhvalaneshreppi árið 1885.6).
Næsta breytingin á hreppaskilum er, að Miðnesingar segja skilið við Rosmhvalaneshrepp árið 1886.7) Það ár verður því Miðneshreppur til í sinni núverandi mynd, og hefur engin breyting orðið á síðan.
Næsta breytingin á Rosmhvalaneshreppi er, að árið 1908 er hann lagður niður og myndaðir tveir nýir hreppar. Hinir nýju hreppar voru núverandi Gerðahreppur og Keflavíkurhreppur. Í þeim síðarnefnda voru núverandi Keflavíkurkaupstaður og Njarðvíkurhreppur. Þannig voru Keflavík og Njarðvík sameiginlegt hreppsfélag frá árinu 1908 8) eða þar til Njarðvíkingar óskuðu eftir að gerast sér hreppsfélag, vegna þess að þeir töldu sig vera mjög afskipta með alla þjónustu og framkvæmdir svæði sínu til handa.
njardvik-231Samningur um skilnað Keflavíkur og Njarðvíkur var gerður 25. október 1941.9)
Njarðvíkur urðu því fyrst sérstakt sveitarfélag með lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1942.
Landaskil Njarðvíkur og Keflavíkur voru fyrst þar, sem Tjarnargata er nú í Keflavík, en er samningur var gerður um skipti byggðarlaganna voru þau ákveðin um lóð Fiskiðjunnar hf. þannig, að mjölskemma Fiskiðjunnar stendur nú að hálfu í Keflavík og að hálfu í Njarðvík.
Keflavík hlaut kaupstaðaréttindi 1. apríl 1949. Lögsagnarumdæmi Keflavíkur var stækkað með lögum frá 4. maí 1966. Með þeirri stækkun rúmlega þrefaldaðist lögsagnarumdæmið að flatarmáli. Þeir 415 ha, sem Keflavík stækkaði um, eru að mestu land, sem hefur verið skilið frá Gerðahreppi.
keflavik 1833Nokkuð er sagt frá Eyvindi fóstra Steinunnar gömlu í Landnámu, en Evindi fóstra sínum gaf Steinunn hin gamla land á millum Hvassahrauns og Kvígubjargarvogum.
Landnám Evindar, er hann hlaut að gjöf frá Steinunni fóstru sinni, hlaut nafnið Vatnsleysuströnd. Landnám hans er nú óbreytt sem Vatnsleysustrandarhreppur.
Molda-Gnúpssynir, þeir Hafur-Björn, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi, námu Grindavík. Landnám þeirra bræðra er enn óbreytt sem Grindavíkurhreppur10.)
Herjólfur, frændi Ingólfs og fóstbróðir, fékk frá honum að gjöf land milli Reykjaness og Vogs og svarar það nákvæmlega til núverandi Hafnarhrepps. 10)”

Eyþór Þórðarson.

Neðanmálsheimildir:
1. Landnám I—III 1900 bls. 123 og Þórðarbók 1921, bls. 28.
2. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 266.
3. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 280.
4. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 278.
5. Landnám Ingólfs II. 5 1940 bls. 279.
6. Strönd og Vogar 1961 bls. 48.
7. Undir Garðskagavita bls. 218.
8. Faxi 1963 bls. 211.
9. Faxi Desember 1941,
10. Landnám Ingólfs II. 1. 1936 bls. 14.

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 1. tbl., bls. 5-7.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Kaupstaðavegurinn

Í bókinni “Við opið haf – Sjávarbyggð á Miðnesi” eftir Ásgeir Ásgeirsson er stuttur kafli um samgöngur á Miðnesi fyrrum.

Gamli vegurinn í Garð

“Byggð og mannlíf var háð ákveðnum takmörkunum í tíma og rúmi sem bændasamfélag á frumstæðu tæknistigi fékk ekki yfirstigið. Utanvert Rosmhvalanes gat ekki talist afskekkt byggðalag sé miðað við fjöllum lukta firði og sveitir umluktar söndum, jöklum og stórám. Engu að síður hömluðu umtalsverðar landfræðilegar tálmanir samgöngum við umheiminn – torfærur á þeirra tíma mælikvarða.
Landvegur var torsóttur og ógreiðfær þótt hvorki þyrfti að fara yfir fjallvegi eða vaða stórfljót. Reykjaneshraunin voru torveld yfirferðar; Miðnesheiðin, þótt lág sé, grýtt og seinfarin – villugjörn á vetrum og í náttmyrkri. Við bættist, ef farið var á hestum, að á löngum köflum var fátt um fýsilega áningarstaði þar sem vatn var að finna og sleppa mátti hestum á beit. Vegir stóðu vart undir svo hátíðlegu heiti, voru aðeins “troðningar með ströndum fram” svo vitnað sé til orða ferðalangs þessa tíma, Þorvaldar Thoroddsens.
Sumir þessara slóða voru skilgreindir sem “sýsluvegir” og nutu framlags úr sýslusjóði. Aðrir voru “hreppsvegir” á ábyrgð hreppsfélags. Fram til ársins 1894 var vinnufærum mönnum gert að leggja hálft dagsvek til viðhalds þeirra. Þegnskylduvinna þessi gafst illa og fyrrgreint ár var skattheimta tekin upp í hennar stað. Svo dæmi sé nefnt voru sumarið 1888 samkvæmt eldri löggjöfinni unnin 30 dagsverk við hreppsveginn (á löngum köflum aðeins vörðuð leið) frá Gamli vegurinn í SandgerðiStafnesi að hreppamörkum í Ósbotnum, sem aukinheldur var “kirkjuþjónustuvegur”, leið Útskálaklerks frá Hvalsnesi að Kirkjuvogi. Erfitt var að halda þessari leið við og var sjóvegur oftar farinn á milli Hafnahrepps og Miðneshrepps. Úr Kirkjubólshverfinu lá slóði, svonefndur þangvegur, að sýsluveginum fyrir ofan Varir í garði. Annars má segja að allar leiðir af Miðnesi hafi legið til Keflavíkur: úr Kirkjubóls-, Sandgerðis-, Fuglavíkur og Hvalsneshverfum lágu misgreiðfærir slóðar til kauptúnsins. Aðalleiðin lá frá Melabergi til Keflavíkur enda beinust leið yfir heiðina. Árið 1893 var þessi stígur útnefndur sýsluvegur. Í því fólst hagræði fyrir Miðnesinga því veginum yfir heiðina var lítt sinnt af “innhreppnum handan markalínu” enda lá sjaldnar leið innhreppinga suður fyrir Skaga. Enn má sjá móta fyrir hinum gamla sýsluvegi við Melaberg.
Vegur lá einnig meðfram ströndinni og tengdi saman dreifð byggðahverfi Miðsneshrepps. Erfitt reyndist einnig að halda honum í nothæfu ástandi. Á vertíð 1890 er t.d. leiðin frá Bæjarskerjum að Fuglavík sögð með öllu ófær. Magnús Þórarinsson minntist þess að menn hafi fremur kosið að ganga fjöruna en vegnefnuna fyrir ofan Fuglavík. Fjaran þótti oft greiðasta leiðin einkum að vetrarlagi. Einnig brá fólk sér útaf vegi og gekk túnin. Um það vitna bönn bænda gegn átroðningi á viðkvæmum túnum. Öllu verri þótti atgangur óðalsbóndans Sveinbjarnar Þórðarsonar í Sandgerði (sé sú saga sönn) er hann reið sjónhending úr Garðinum yfir tún og engi og ruddi niður túngörðum er á leið hans urðu.
Gamla HvalsnesgatanÁrið 1892 varð vegurinn eftir endileöngum hreppnum hluti af leiðakerfi póstþjónustunnar er aukapósturinn í Gullbringusýslu tók að venja komur sínar að Hvalsnesi er nú varð bréfhirðingarstöð (áður þurftu Miðnesingar að sækja póst sinn út í Garð). Ekki tókst að koma veginum í tölu sýsluvega þrátt fyrir þessa upphefð.
Lítt hefði stoðað að fara á hestvögnum þessa troðninga. Slík undratæki voru hvort er var fáséð á íslandi um aldamótin. Burður klyfja á hestbaki var stórvirasta flutningaaðferðin um landveg sem á var völ hvort heldur um vöru- eða mannflutninga var að ræða. Fáir hestar voru á Miðnesi og Suðurnesjum yfirleitt. Fólk fór því almennt ferða sinna fótgangandi, vílaði ekki fyrir sér gönguferð til Reykjavíkur. Yfirleitt var sú ferð farin á tveimur dögum – a.m.k. í skammdegi og aubleytu eða snjóþyngslum – þótt fara mætti þessa leið á einum degi í góðri færð.
Fæstir þurrabúðarmenn gátu birgt upp heimili sín á kauptíð; efni og lántraust leyfðu það ekki. Þeir þurftu því oft að “skreppa í Keflavík” eftir nauðsynjum og til að falla fyrir freistingum sem stundum lífguðu upp á daufa lífsbaráttu en leiddu líka af sér margan harmleikinn. Á vertíð brá oft við á útvegsbæjum að ófyrirsjánlegur skortur varð á nauðsynjum og veiðarfærum svo senda þurfti menn í kaupstað. Þá vildu vermenn gera sér glaðan dag í landleum. Það mátti því heita daglegt brauð á útnesjum að menn færu fótgangandi til keflavíkur og til baka að kveldi klyfjaðir nauðsynjavöru. Ætíð var freistandi að fá sér brennivínsstaup eða áfyllingu á flösku. Oft sóttist þá seint heim að kveldi… Í náttmyrkri og ef eitthvað var að veðri var auðvelt að lenda í villum í kennileitasnauðu landslagi.
Gamla gatan norðan ÓsaFórnalömb Miðnesheiðar eru furðu mörg. Á þrjátíu ára tímabili, 1860-1890, urðu 25 manns úti milli byggða á Rosmhvalanesi, þar af 13 á Miðnesi. Fjöldi annarra var hætt kominn og margir báru heiðarvolksins aldrei bætur. Flest slysin eru keimlík. Menn leggja upp illa búnir með þungar byrgðar, drukknir, svangir eða hvort tveggja, villast af leið sökum náttmyrkurs og illviðra, verða viðskila við samferðamenn (stundum varð að skilja menn eftir sem ófærir voru um að halda áfram), leggjast fyrir, viljaþrek lamað af áfengisneyslu, frjósa í hel eða verða vosbúð að bráð. Dæmi voru um að menn villtust svo langt af leið að lík þeirra fundust ekki fyrr en eftir marga mánuði – kafnvel ekki fyrr en mörgum árum seinna.
Fólk varð einnig úti milli bæja á Miðnesi. Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og heimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”.
Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.”
Enn má sjá þær gömlu götur á Miðnesheiði er getið er hér að framan, auk fleiri.

Heimild:
-Við opið haf – Sjávarbyggð á Miðnesi – Ásgeir Ásgeirsson, 1998, bls. 127 – 132.Vatnsfell