Reykjanesviti

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878. Ljós hans var fyrst tendrað þann fyrsta desember. Um aldarmótin 1900 voru vitar landsins orðnir 5 að tölu.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Talsvert hefur verið fjallað um fyrsta vitann sem og aðra er síðar voru byggðir við strandir landsins. Uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954, en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Í dag er fjöldi ljósvita við strendur landsins alls 104, þar af 17 á Reykjanesskaganum.
Í dag sjást einungis leifar þessa fyrsta vita, neðan Valahnúks. Einungis fáum árum eftir að ljós hans var tendrað fyrsta sinni kom í ljós að hann hafði verið settur niður á röngum stað.
Nýr viti var því byggður á Vatnsfelli og tekin í notkun árið 1908. Vitinn er að flestu leyti eins í dag og upphaflega, nema hvað efsta ásýnd hans hefur tekið svolitlum breytingum í gegnum tíðina. Þá hafa vitavarðahúsin einnig verið endurnýjuð.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Yfirleitt er sagt að núverandi viti standi á Bæjarfelli, en þar er um miskilning að ræða. Hæðin heitir Vatnsfell, enda dregur fellið nafn sitt af vatni undir hlíðum þess. Leó M. Jónsson segir m.a. um þetta á vefsíðu sinni þar sem hann lýsir svo ágætlega Höfnum og landssvæði, sem tilheyra þeim: “Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908.”

Gott útsýni er af fellinu yfir nágrennið. Í vestri blasa við Valahnúkar og Eldey úti í hafi. Í suðri Vatnsfell og Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu er Sýrfell.
Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell. Sunnan undir því eru leifar útihúsa fyrsta vitavarðarins sem og brunnur, sem hlaðin var í tilefni byggingar fyrsta vitans hér á landi.
Leó fjallar jafnframt um nýjasta vitann á Reykjanesi, vitann á Austurnefi eða ofan við Skarfasker: “Annar viti, minni, var reistur sunnar á svokölluðu Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri.”
Vitinn, sem teljast verður til “hálfvita” var byggður sem aukaviti árið 1909, endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

Þegar gengið er um Reykjanesvitasvæðið er ágætt að byrja gönguna við vitann á Vatnsfelli. Þaðan er hægt að ganga eftir gömlum flóruðum stíg, sem enn er nokkuð greinilegur og liggur frá Vatnsfelli að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans.
Í umfjöllun um samgöngumál á vefsíðu samgöngumálaráðu-neytisins og einstök tímamót á þeim vettvangi er m.a. fjallað um “Þjóðveginn yfir sjóinn”. Þar segir m.a. að “í raun komu strandsiglingar í stað járnbrautarsamgangna sem tíðkuðust í öðrum og þéttbýlli löndum. Slíkt lá í raun beint við því langflestir Íslendingar hafa ávallt búið nálægt strandlengju landsins, en miðja landsins óbyggð sem kunnugt er. Ennfremur þurfti mikil útgjöld og erfiði til þess að ryðja vegi á landi, enda stóðu ansi margar ár, heiðar og fjöll fyrir ferðum fólks, einkanlega á vetrum. En á sjó voru allar götur greiðar svo lengi sem veður og ísalög voru ekki til tafar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fjárfestingar í siglingamannvirkjum –höfnum og vitum – voru einnig sérstaklega fýsilegar fyrir þá sök að þær nýttust einnig fyrir ferðir fiskiskipa. Þannig var búið í haginn fyrir samgöngur og fiskveiðar á sama tíma. Samt sem áður voru Íslendingar seinir til þess að byggja upp innviði sjósamgangna. Fyrsti vitinn var byggður á Reykjanesi 1878 og um aldamótin 1900 voru aðeins fjórir [aðrir] vitar hérlendis. Á þeim tíma voru engar hafnir við landið, utan þess að kaupmenn reistu trébryggjur við verslanir sínar. Til að mynda voru fjórar trébryggjur í Reykjavík, en höfn kom þar ekki fyrr en árið 1912. Vitaskuld skorti peninga til framkvæmda, en einnig mátti um kenna doða hjá opinberum aðilum. Strandferðaskipin lögðu því hvergi að landi áhringferð sinni, heldur sáu léttabátar og breið bök íslenskra dagvinnumanna um að flytjafólk og vöru á milli skips og lands þar sem stöðvað var hverju sinni.”
Öðrum þræði segir að það sem knúið hafi mest á um vitagerð hér á landi hafi verið millilandasiglingarnar. Kaupmenn og útgerðarmenn hafi haft áhyggjur af skipum sínum eftir að þau nálguðust landið, einkum að vetrarlagi. Sigla þurfti fyrir Reykjanesið og þar var ekki síst þörf á leiðarmerkjum svo auka mætti öryggi siglingaleiðarinnar og fá þar með skipstjóra til siglinga með vörður þessa leið.
SVFÍ hafði skömmu fyrir 1950 komið fyrir björgunarbúnaði í Reykjanesvita og var haft eftirlit með honum, að sögn Vilhjálms Magnússonar, þótt vitinn hafi ekki verið á skrá sem björgunarstöð á þeim tíma. Sá búnaður var síðar aukinn og endurbættur (1966).
Þrátt fyrir vitana á Reykjanesi var ströndin þar ekki óhappalaus. Leó segir svo frá “Þegar eitt stærsta skip, sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam, fór upp í klettana sunnan við Valahnjúk á Reykjanesi, að morgni 28 febrúar 1950, drukknuðu 27 sjómenn. Björgunarsveit úr Grindavík tókst með harðfylgi að bjarga 23 mönnum.

Rafnskelsstaðaberg

Viti á Rafnkelsstaðabergi.

Björgunarsveitarmenn úr Höfnum komust ekki til hjálpar vegna þess að enginn vegur hafði ekki enn verið lagður út á Reykjanes sunnan Kalmanstjarnar. Sjálfvirkur sími kom ekki í Hafnir fyrr en seint á 8. áratugnum; fram að því var símstöðin opin á ákveðnum tímum dags eins og tíðkaðist víða annars staðar á landinu og nefndist kerfið ,,sveitasími.”
Í marsmánuði 1954 strandaði togarinn Jón Baldvinsson undir svörtum hamravegg Reykjaness. Svo giftusamlega tókst til að björgunarsveitarmönnum úr Grindavík tókst að bjarga allri áhöfninni. Enn vantaði veginn úr Höfnum, en um 3 km styttri leið er út á Valahnjúk á Reykjanesi úr Höfnum en úr Grindavík. Í bók Jónasar Guðmundssonar, Togaramaðurinn Guðmundur Halldór, er áhrifarík lýsing á þessu strandi og því hvernig einstaklingur, bjargarlaus um borð í strönduðu skipi, og sem veit að um líf eða dauða er að tefla, sér allt í einu ljós frá bílum björgunarsveitarmanna birtast uppi á bjargbrúninni í sortanum framundan. Guðmundur Halldór (faðir Guðmundar ,,Jaka” Guðmundssonar) var einn af skipverjum á bv. Jóni Baldvinssyni.”
Kristján Sveinsson skrifar nokkuð ítarlega um fyrsta vitann á Íslandi í Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003. Þá voru liðin 125 ár frá því að fyrst var kveikt vitaljós á vitanum á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján segir m.a. frá tildrögum vitabyggingarinnar og fólki sem við þá sögu kom, reyndar stundum með dramatískum hætti.
Í umfjölluninni segir Kristján m.a. frá því að það hafi verið Arnbjörn Ólafsson, vitavörður, sem tendraði ljós á vitanum fyrsta sinni, “einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum”.

Reykjanes

Gata vestan Valahnúks.

Líklegt má þó telja að hann hafi við það notið dyggrar aðstoðar umsjónarmanns byggingarinnar, hins danska Alexanders Rothes, sem einmitt hafði leiðbeint Arnbirni um vitavörsluna. Vígsludagur vitans á Valahnúk markaði formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.
Stöðulögin árið 1871 og stjórnarskrán þremur árum síðar (1874) færðu Alþingi fjárveitingarvald. Í skjölum Alþingis kemur fram að þingmennirnir Snorri Pálsson og Halldór Kristján Friðriksson hafi þá flutt frumvarp til laga um vitagjald hér á landi – þótt enginn væri vitinn. Þeir virtust vilja tryggja fjárhagslegan grundvöll til vitabygginga og reksturs vitanna, þegar þeir yrðu byggðir.
Kristján lýsir m.a. í grein sinni hvernig Vitagjaldsfrumvarpið varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. “Ekki er að sjá að komið hafi til álita að byggja fyrsta vitann annars staðar en á Reykjanesinu, enda koma langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins.” Reyndar þarf varla að taka fram að svo hafi verið, enda Reykjanesið og Röstin nær ávallt fyrstu nálgunarstaðir verslunar- og farskipa á leið til landsins.
Eftir umræður við Dani var af fyrrgreindum ástæðum talið mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Eftir að Danir höfðu boðist til að lá í té ljósahús og vitatæki var ákveðið að vitabygginguna sjálfa myndu Íslendingar kosta. Sumarið 1876 var farið að kanna væntanlegt vitastæði og aðstæður til byggingar þar. Varð niðurstaðan sú að best væri að byggja vitann á Valahnúk. Þar hjá var nóg af hraungrjóti til byggingarinnar og auk þess rekaviður í fjörum, sem bæði mátti nota við vitasmíðina og til eldsneytis. Ekki er að sjá að leitað hafi verið eftir formlegu samþykki landeigenda, enda menn kannski ekki á eitt sáttir hverjum það tilheyrði.

Reykjanesviti

Leifar gamla vitans á Valahnúk.

Að sögn Helga Gamalíelssonar frá Stað hétu malirnar austan Valahnúks Staðarmalir og tilheyrðu Stað, en Reykjanesmalir að vestanverðu. Nú eru Staðarmalir jafnan nefndar Valahnúkamalir (í fleirtölu). Líklegast er að landamerkin fyrrum hafi legið um Valahnúk, annað hvort í hábrúnina eða í vikið vestan hennar. Sjórinn hefur verið iðinn við að breyta ásýnd strandarinnar og hefur Valahnúkur ekki farið varhluta af því.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið nefndan Alexander Rothe, danskan verkfræðing, til að undirbúa byggingu vitans. Herma sagnir að hann hafi þá um sumarið farið til Íslands og síðan í tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðabústað ásamt hlöðnum brunni á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og samið var við Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðabústaðar.
Hafist var handa við verkið í júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari (Lüders), en hann hafði m.a. annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er, en Lüders leist ekki vel á það. Reyndist það líka við athugun vera hið lélegasta byggingarefni.
Þá var tekið til þess bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg. Það, ásamt ýmsum öðrum töfum, varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Vinnukrafturinn reyndist óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap. Og svo var veðurfarið þarna yst á nesinu bæði örðugt og óhagstætt þetta sumar og um haustið.
Rothe tókst þó að ljúka þeim um haustið og “var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur saman með steinlími sem í var Esjukalk og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af.” Einnig hafði verið byggður þar skammt frá bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitinn.

“Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var. Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum.”
Vitinn stóð fram til ársins 1908, sem fyrr segir. Jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn urðu til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður hafði neitað að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907-1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Árið 1884 hafði Arnbjörn og eiginkona hans, Þórunn Bjarnadóttir, fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist til Reykjavíkur og síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí, auk annarra umsvifa. Þórunn lést árið 1912 og Arnbjörn árið 1914.
Eftir standa vitarnir tveir; á Vatnsfelli og á Austurnefi. Nú eru tvö ár í að fyrrnefndi vitinn, á Vatnsfelli, verði fornleif skv. gildandi þjóðminjalögum. Hins vegar má ekki gleyma því að ýmsar fornleifar má finna í nágrenni við vitann, s.s. hlaðna garða, brunninn (sem hlaðinn var úr tilhöggnum steinum), stíg vitavarðarins frá Vatnsfelli/Bæjarfelli að Valahnúk, flóraða götu vestan Valahnúks o.fl. Sjá má enn móta fyrir grunni geymsluhúss þess er varningi í 1908 vitann var skipað upp í ofan við Kistu, hlaðið hús skammt austar, vörður með gamalli leið, hlaðin byrgi, áletranir á klappir sem og nokkra þjóðsagnakennda staði, sem ber að varðveita. Reykjanesvirkjunin nýja sækir að þessum fyrrum mannvirkjum, sem í raunininni gefur enga ástæðu til að spilla þeim. Ef það gerist verður það einungis fyrir einskæran klaufaskap.

Reykjanes

Brunnur neðan Reykjanesvita.

Vegna framkominna upplýsinga um Reykjanesvitann og annað honum tengt vildi Kristján Sveinsson geta þess að “það er full ástæða til að taka það fram að ekki var sjálfgefið að reisa fyrsta vita Íslands á Reykjanesi. Skip sem koma að landinu úr suðaustri (þaðan koma skip frá Danmörku og Noregi) hafa landkenningu mun fyrr og það hlaut auðvitað að koma til greina að hefja vitavæðingu Íslands á því að byggja landtökuvita austar á suðurströndinni. Á tímum seglskipanna var alengt að halda skipum á leið inn í Faxaflóa langt af suðurströndinni og svo djúpt til vesturs til að forðast hina hættulegu strönd enda sigling meðfram ströndum þeim hættuleg. Með tilkomu gufuskipa breyttist þetta, þau voru ekki eins háð veðri og vindum eins og gefur að skilja og farið var að sigla nær landi en áður hafði verið gert og skip sem komu úr hafi fyrir sunnan land héldu nærri Reykjanesi á leið sinni til hinna vaxandi þéttbýlisstaða við Faxaflóa. Það voru forsendurnar fyrir byggingu Reykjanesvitans. En landtökuvitann vantaði eftir sem áður og oft var um það rætt. Danska vitamálastjórnin gerði seint á 19. öld hátimbraðar og kostnaðarsamar áætlanir um byggingu slíkra vita á Íslandi sem ekkert varð úr og þegar Stórhöfðaviti á Heimaey var byggður árið 1906 fóru fram umræður um það hvort gera ætti hann að landtökuvita með því að útbúa hann með sterku ljósi. Danska vitamálastjórnin lagðist eindregið gegn því vegna þess hversu skerjótt er við Eyjar og hefur sjálfsagt gert rétt með því.
Dyrhólaeyjavitinn (sá sem nú stendur) sem reistur var 1927 er fyrsti raunverulegi landtökuvitinn. Hann var og er ljóssterkasti viti landsins. Vitinn sem stóð í Dyrhólaey frá árinu 1910 dugði ekki sem landtökuviti vegna þess hve lítið ljós hans var. Ísland fékk sem sagt ekki sinn landtökuvita fyrr en 1927 og þá var tæknin svo langt á veg komin að árið eftir var settur þar upp radíóviti, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Samkvæmt fyrirmælum um vitavörslu voru ljós vitans ætíð tendruð klukkustund eftir sólarlag. Það gerði Arnbjörn Ólafsson þann 1. des. 1878 án nokkurrar aðstoðar frá Alexander Rothe sem var þá farinn úr landi. En auðvitað hafði hann kennt Arnbirni að meðhöndla vitatækin áður en hann fór.
Haustið 2002 kom út bókin Vitar á Íslandi. Leiðarljós á landsins ströndum 1878–2002 eftir Guðmund Bernódusson, Guðmund L. Hafsteinsson og undirritaðan. Þar er á bls. 29–41 greint frá byggingu eldri Reykjanesvitans og tildrögum hennar.
Því má svo bæta við að Reykjanesvitinn sem byggður var veturinn 1907–08 er miklu merkilegri í sögu þjóðarinnar en flestir vita af. Hann var stór og viðamikil framkvæmd á sinni tíð á íslenskan mælikvarða. Ákvörðun um byggingu hans var tekin af Íslendingum einum og forræði Dana hafnað (danska vitamálastjórnin hafði áform um að reisa þarna járngrindarvita) og enda þótt hönnuðir vitans, Thorvald Krabbe verkfræðingur og Frederik Kiørboe arkitekt, væru báðir Danir var vitabyggingarverkefnið sönnun þess að Íslendingar væru fullfærir um að taka ákvarðanir varðandi tæknimál sín og fylgja þeim eftir. Eins og gefur að skilja tengdist þetta heimastjórninni árið 1904 og er til marks um aukið sjálfstraust og áræði sem fylgdi þeim pólitísku tímamótum. Stjórnsýsluhættir í kringum málið voru kannski ekkert til fyrirmyndar eins og hægt er að lesa um í fyrrnefndu riti tveggja, Guðmunda og undirritaðs, bls. 55–56, en það var alveg heilmikill kraftur í mönnum að koma þessu verkefni í kring og þar sem það tókst svo vel er ekki vafi að það efldi kjarkinn og áræðið til frekari verka á tæknisviði.
Þá má loks geta þess að í framangreindum fróðleik um Reykjanesvitann og umhverfi hans kemur fram að Reykjavíkurhöfn hafi verið gerð árið 1912. Hið rétta mun vera að hafnargerðin í Reykjavík hófst árið 1913 og stóð um fjögurra ára skeið, til 1917.”

Heimildir m.a.:
-leoemm.com
-Samgönguráðuneytið – skalasafn.
-Alþingi – skjalasafn.
-Þjóðskjalasafnið.
-Kristján Sveinsson – Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003.
-Kristján Sveinsson.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.