Færslur

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

“Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni “The Lost Bird Project”. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.”

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

“Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Árið 1804 rak á land á svo nefndri Valahnjúksmöl á Reykjanesi geysistóran timburflota. Var hann alveg ein samfelld heild og gyrtur afardigrum járnböndum. Allt voru það ferstrend tré. Það var til marks um stærð flotans, að 10 metra löng tré stóðu upp á endann í honum. Töluvert hafði verið af fötum og fataræflum upp á flotanum, og var haldið, að skip það, sem hafði hann aftan í, hefði farist, en skipshöfnin komist á flotann, en skolast svo aftur af honum í ofviðrinu.

Valahnúkshellir

Valahnúskhellir.

Þegar mannfjöldi mikill hafði bjargað öllu timbrinu undan sjó, fór opinbert uppboð fram; voru þar mættir bændur úr allri Gullbringusýslu. Seldust trén á 4-8 dali hvert, sum þó nokkuð meira, allt upp að 12 dölum einstök tré. Allt voru þetta rauðviðartré, sem kallað var, og valinn viður. Til marks um gæði viðarins, þá var rifið hús eitt í Höfnum sumarið 1929, sem byggt var að mestu leyti úr Reykjanesstrandinu, og var mikið af viðnum alveg óskemmt eftir meira en heila öld. Mestan hluta trjánna keyptu Hafnahrepps- og Vatnsleysustrandarmenn á uppboðinu, dálítið lenti úti á Rosmhvalanesi, en minna í Grindavík og innhreppum sýslunnar. Ár eftir ár voru menn svo úr þessum sveitum að fletta trén í borðvið. Voru borðin svo flutt á hestum í dráttarklyfjum til eigendanna, og sjást vegslóðarnir inn Hafnaheiðina enn í dag, þar sem Strandarmenn og aðrir innan Stapa fóru með lestir sínar.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Hafnamenn einir söguðu lítið af trjánum suður frá, en reru þau aftan í skipum sínum, þegar logn og ládeyða var. Höfðu þeir oft 4-5 tré aftan í einu; var þá lagt af stað um háfjöru að sunnan og norðurfallið látið létta róðurinn með trén, og ef vel gekk, var lent í Kirkjuvogsvörinni um háflæði eftir 6 tíma þembingsróður. Engin byggð var þá á Reykjanesi og urðu sögunarmennirnir því að liggja í tjöldum eða grjótbyrgjum, er þeir hrófuðu upp og skýldu sér í yfir nóttina. En brátt urðu menn þess varir, að uppi á Valahnjúkshamrinum að sunnanverðu, beint upp af þeim stað, þar sem þeir voru að saga, var hellir; skoðuðu þeir hann, og leist þeim hann mjög girnilegur til hvíldar, því að þar var þurr, bjartur og hlýr bústaður fyrir hretviðrum haustsins. Hugðu nú margir gott til þessa staðar fyrir sjálfa sig og seppa sína.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

Næsta dag var svo hafinn krossmessuflutningur úr tjöldum og grjóthreysum upp í hellinn. Bjuggu menn um sig eftir föngum og gjörðust glaðir mjög; var svo etið og drukkið af kappi miklu, sungin kvæði og sögur sagðar og hlegið dátt, svo að hellirinn glumdi við. Loks voru þó lesnar bænir og lagst til hvíldar. Hvíldi nú grafarkyrrð og helgur friður yfir hellisbúum hálfrar eyktar stund. Allt í einu tóku hundarnir að urra og gelta, og í sama vetfangi var kallað:
“Rífið hann Jón upp; hann er að hengjast. Heyrði þið ekki korrið í honum? Og nú er það komið ofan á hann Brand og hann Gvend og ætlar þá alveg að drepa.”
“Komið með kerti fljótt og kveikið ljós.”

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Nú kom öll hundaþvagan þjótandi og skrækjandi upp í fangið á hellisbúum, og skriðu hundarnir titrandi upp fyrir húsbændur sína og þorðu sig ekki þaðan að hreyfa. Kertið fannst ekki í fátinu og myrkrinu, en úti var aftakaveður af landsuðri með úrfelli, en inni voru reimleikar þeir, sem sóttu að andfærum manna og dýra, og mátti því segja, að menn væru þarna milli steins og sleggju, því að hvorugur kosturinn var góður, að flýja út í veðrið eða reyna að haldast við í hellinum, þar til dagur ljómaði á lofti. Loks urðu hellisbúar ásáttir um að hreyfa sig ekki, en hafa við bænir og sálmasöng, það er eftir var nætur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Var nú allt með kyrrum kjörum, á meðan allir voru vakandi, og hellirinn bergmálaði af bænahaldi og sálmasöng. En er lifa myndi þriðjungur nætur, gerðust sumir af hellisbúum svefnhöfgir mjög og hugðu á hvíld um stund; áttu þeir, er vöktu, að vera trúir í hinu andlega starfi og vera til taks, ef friður yrði rofinn eða korr heyrðist í hálsum hinna sofandi manna. En ekki var mönnum þessum fyrr siginn blundur á brá en sömu ósköpin byrjuðu aftur, hundarnir vitlausir með ýlfri og emji, en mennirnir með kyrkingshljóði og korri miklu þar til félagar þeirra voru búnir að fá þá til fullrar meðvitundar. En nú gekk vindur til vesturs og veðrið batnaði, og skammt var til morguns, fóru því mennirnir allir hið bráðasta út úr hellinum og kvöddu hinn ógestrisna hellisráðanda með ófögrum kveðjum.
Liðu svo full 50 ár, að enginn maður varð til þess að leita skjóls í helli þessum, en árið 1862 leigði presturinn að Stað í Grindavík bændum í Hafnahreppi nokkuð af rekalandi prestssetursins. Bóndinn í Kalmannstjörn leigði svonefndar Krossvíkur sem eru stuttan spöl fyrir austan Valahnjúkinn og nálægt landamerkjum Staðar og Kalmannstjarnar. Valahnjúkurinn fylgir Kalmannstjörn.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Veturinn 1865 rak stórt, ferkantað tré á Krossvíkum. Sendi bóndinn vinnumenn sína og sjómenn marga til þess að koma trénu undan sjó og undir sögun, því að hann ætlaði að láta saga tréð þar suður frá. Lá svo tréð allt vorið og sumarið fram yfir höfuðdag á sögunarpallinum, en seint í september voru tveir vinnumenn, Þorleifur og Eyjólfur, sendir suður eftir að saga tréð. Voru þeir útbúnir með nesti og nýja skó, sængurföt og fleira. Loks var tjaldið og tjaldsúlurnar tekið niður af háalofti.
“Hvað eigum við að gera við þetta?” spurði Leifi gamli.
“Auðvitað liggið þið ekki undir beru lofti,” var honum svarað.

Reykjanes

Brim við Reykjanes.

“Það ætla eg ekki heldur að gera,” segir Leifi. “Eg ætla að lofa Valahnjúkshellinum að hýsa okkur”. Þá var Leifi minntur á ósköpin, sem á gengu, þegar Reykjanesstrandið var, en Leifi svaraði með því einu, að lygaþvættingur, heimska og hjátrú vitlausra manna hefði engin áhrif á sig.
Og svo lögðu þeir Þorleifur og Eyjólfur af stað með hund og hest og tjaldlausir. Eyjólfur var með afbrigðum blótsamur, og mátti segja, að hann tæki ærið oft upp í sig.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Næsta morgun um fótaferðartíma er Eyfi kominn á Blágrána gamla að sækja tjaldið. Nú átti auðvitað að spyrja Eyfa spjörunum úr; en það hafðist ekkert annað upp úr honum en hinar óttalegustu formælingar og helv… hann Kolur, og þóttust sumir hafa heyrt tóninn frá Eyfa suður um allt tún, er hann lagði af stað með tjaldið. En víst er, að Þorleifur þjappaði að Eyjólfi með að láta aldrei uppi við neinn, hvernig þeim reiddi af þessa einu nótt í Valahnjúkshellinum og aldrei hafðist neitt frekara upp úr þeim félögum um dvöl þeirra í hellinum.
Sjá meira um strandið við Valahnúkamöl HÉR.

Heimild:
-Rauðskinna I 161.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878. Ljós hans var fyrst tendrað þann fyrsta desember. Um aldarmótin 1900 voru vitar landsins orðnir 5 að tölu.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Talsvert hefur verið fjallað um fyrsta vitann sem og aðra er síðar voru byggðir við strandir landsins. Uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954, en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Í dag er fjöldi ljósvita við strendur landsins alls 104, þar af 17 á Reykjanesskaganum.
Í dag sjást einungis leifar þessa fyrsta vita, neðan Valahnúks. Einungis fáum árum eftir að ljós hans var tendrað fyrsta sinni kom í ljós að hann hafði verið settur niður á röngum stað.
Nýr viti var því byggður á Vatnsfelli og tekin í notkun árið 1908. Vitinn er að flestu leyti eins í dag og upphaflega, nema hvað efsta ásýnd hans hefur tekið svolitlum breytingum í gegnum tíðina. Þá hafa vitavarðahúsin einnig verið endurnýjuð.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Yfirleitt er sagt að núverandi viti standi á Bæjarfelli, en þar er um miskilning að ræða. Hæðin heitir Vatnsfell, enda dregur fellið nafn sitt af vatni undir hlíðum þess. Leó M. Jónsson segir m.a. um þetta á vefsíðu sinni þar sem hann lýsir svo ágætlega Höfnum og landssvæði, sem tilheyra þeim: “Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908.”

Gott útsýni er af fellinu yfir nágrennið. Í vestri blasa við Valahnúkar og Eldey úti í hafi. Í suðri Vatnsfell og Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu er Sýrfell.
Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell. Sunnan undir því eru leifar útihúsa fyrsta vitavarðarins sem og brunnur, sem hlaðin var í tilefni byggingar fyrsta vitans hér á landi.
Leó fjallar jafnframt um nýjasta vitann á Reykjanesi, vitann á Austurnefi eða ofan við Skarfasker: “Annar viti, minni, var reistur sunnar á svokölluðu Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri.”
Vitinn, sem teljast verður til “hálfvita” var byggður sem aukaviti árið 1909, endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

Þegar gengið er um Reykjanesvitasvæðið er ágætt að byrja gönguna við vitann á Vatnsfelli. Þaðan er hægt að ganga eftir gömlum flóruðum stíg, sem enn er nokkuð greinilegur og liggur frá Vatnsfelli að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans.
Í umfjöllun um samgöngumál á vefsíðu samgöngumálaráðu-neytisins og einstök tímamót á þeim vettvangi er m.a. fjallað um “Þjóðveginn yfir sjóinn”. Þar segir m.a. að “í raun komu strandsiglingar í stað járnbrautarsamgangna sem tíðkuðust í öðrum og þéttbýlli löndum. Slíkt lá í raun beint við því langflestir Íslendingar hafa ávallt búið nálægt strandlengju landsins, en miðja landsins óbyggð sem kunnugt er. Ennfremur þurfti mikil útgjöld og erfiði til þess að ryðja vegi á landi, enda stóðu ansi margar ár, heiðar og fjöll fyrir ferðum fólks, einkanlega á vetrum. En á sjó voru allar götur greiðar svo lengi sem veður og ísalög voru ekki til tafar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fjárfestingar í siglingamannvirkjum –höfnum og vitum – voru einnig sérstaklega fýsilegar fyrir þá sök að þær nýttust einnig fyrir ferðir fiskiskipa. Þannig var búið í haginn fyrir samgöngur og fiskveiðar á sama tíma. Samt sem áður voru Íslendingar seinir til þess að byggja upp innviði sjósamgangna. Fyrsti vitinn var byggður á Reykjanesi 1878 og um aldamótin 1900 voru aðeins fjórir [aðrir] vitar hérlendis. Á þeim tíma voru engar hafnir við landið, utan þess að kaupmenn reistu trébryggjur við verslanir sínar. Til að mynda voru fjórar trébryggjur í Reykjavík, en höfn kom þar ekki fyrr en árið 1912. Vitaskuld skorti peninga til framkvæmda, en einnig mátti um kenna doða hjá opinberum aðilum. Strandferðaskipin lögðu því hvergi að landi áhringferð sinni, heldur sáu léttabátar og breið bök íslenskra dagvinnumanna um að flytjafólk og vöru á milli skips og lands þar sem stöðvað var hverju sinni.”
Öðrum þræði segir að það sem knúið hafi mest á um vitagerð hér á landi hafi verið millilandasiglingarnar. Kaupmenn og útgerðarmenn hafi haft áhyggjur af skipum sínum eftir að þau nálguðust landið, einkum að vetrarlagi. Sigla þurfti fyrir Reykjanesið og þar var ekki síst þörf á leiðarmerkjum svo auka mætti öryggi siglingaleiðarinnar og fá þar með skipstjóra til siglinga með vörður þessa leið.
SVFÍ hafði skömmu fyrir 1950 komið fyrir björgunarbúnaði í Reykjanesvita og var haft eftirlit með honum, að sögn Vilhjálms Magnússonar, þótt vitinn hafi ekki verið á skrá sem björgunarstöð á þeim tíma. Sá búnaður var síðar aukinn og endurbættur (1966).
Þrátt fyrir vitana á Reykjanesi var ströndin þar ekki óhappalaus. Leó segir svo frá “Þegar eitt stærsta skip, sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam, fór upp í klettana sunnan við Valahnjúk á Reykjanesi, að morgni 28 febrúar 1950, drukknuðu 27 sjómenn. Björgunarsveit úr Grindavík tókst með harðfylgi að bjarga 23 mönnum.

Rafnskelsstaðaberg

Viti á Rafnkelsstaðabergi.

Björgunarsveitarmenn úr Höfnum komust ekki til hjálpar vegna þess að enginn vegur hafði ekki enn verið lagður út á Reykjanes sunnan Kalmanstjarnar. Sjálfvirkur sími kom ekki í Hafnir fyrr en seint á 8. áratugnum; fram að því var símstöðin opin á ákveðnum tímum dags eins og tíðkaðist víða annars staðar á landinu og nefndist kerfið ,,sveitasími.”
Í marsmánuði 1954 strandaði togarinn Jón Baldvinsson undir svörtum hamravegg Reykjaness. Svo giftusamlega tókst til að björgunarsveitarmönnum úr Grindavík tókst að bjarga allri áhöfninni. Enn vantaði veginn úr Höfnum, en um 3 km styttri leið er út á Valahnjúk á Reykjanesi úr Höfnum en úr Grindavík. Í bók Jónasar Guðmundssonar, Togaramaðurinn Guðmundur Halldór, er áhrifarík lýsing á þessu strandi og því hvernig einstaklingur, bjargarlaus um borð í strönduðu skipi, og sem veit að um líf eða dauða er að tefla, sér allt í einu ljós frá bílum björgunarsveitarmanna birtast uppi á bjargbrúninni í sortanum framundan. Guðmundur Halldór (faðir Guðmundar ,,Jaka” Guðmundssonar) var einn af skipverjum á bv. Jóni Baldvinssyni.”
Kristján Sveinsson skrifar nokkuð ítarlega um fyrsta vitann á Íslandi í Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003. Þá voru liðin 125 ár frá því að fyrst var kveikt vitaljós á vitanum á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján segir m.a. frá tildrögum vitabyggingarinnar og fólki sem við þá sögu kom, reyndar stundum með dramatískum hætti.
Í umfjölluninni segir Kristján m.a. frá því að það hafi verið Arnbjörn Ólafsson, vitavörður, sem tendraði ljós á vitanum fyrsta sinni, “einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum”.

Reykjanes

Gata vestan Valahnúks.

Líklegt má þó telja að hann hafi við það notið dyggrar aðstoðar umsjónarmanns byggingarinnar, hins danska Alexanders Rothes, sem einmitt hafði leiðbeint Arnbirni um vitavörsluna. Vígsludagur vitans á Valahnúk markaði formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.
Stöðulögin árið 1871 og stjórnarskrán þremur árum síðar (1874) færðu Alþingi fjárveitingarvald. Í skjölum Alþingis kemur fram að þingmennirnir Snorri Pálsson og Halldór Kristján Friðriksson hafi þá flutt frumvarp til laga um vitagjald hér á landi – þótt enginn væri vitinn. Þeir virtust vilja tryggja fjárhagslegan grundvöll til vitabygginga og reksturs vitanna, þegar þeir yrðu byggðir.
Kristján lýsir m.a. í grein sinni hvernig Vitagjaldsfrumvarpið varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. “Ekki er að sjá að komið hafi til álita að byggja fyrsta vitann annars staðar en á Reykjanesinu, enda koma langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins.” Reyndar þarf varla að taka fram að svo hafi verið, enda Reykjanesið og Röstin nær ávallt fyrstu nálgunarstaðir verslunar- og farskipa á leið til landsins.
Eftir umræður við Dani var af fyrrgreindum ástæðum talið mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Eftir að Danir höfðu boðist til að lá í té ljósahús og vitatæki var ákveðið að vitabygginguna sjálfa myndu Íslendingar kosta. Sumarið 1876 var farið að kanna væntanlegt vitastæði og aðstæður til byggingar þar. Varð niðurstaðan sú að best væri að byggja vitann á Valahnúk. Þar hjá var nóg af hraungrjóti til byggingarinnar og auk þess rekaviður í fjörum, sem bæði mátti nota við vitasmíðina og til eldsneytis. Ekki er að sjá að leitað hafi verið eftir formlegu samþykki landeigenda, enda menn kannski ekki á eitt sáttir hverjum það tilheyrði.

Reykjanesviti

Leifar gamla vitans á Valahnúk.

Að sögn Helga Gamalíelssonar frá Stað hétu malirnar austan Valahnúks Staðarmalir og tilheyrðu Stað, en Reykjanesmalir að vestanverðu. Nú eru Staðarmalir jafnan nefndar Valahnúkamalir (í fleirtölu). Líklegast er að landamerkin fyrrum hafi legið um Valahnúk, annað hvort í hábrúnina eða í vikið vestan hennar. Sjórinn hefur verið iðinn við að breyta ásýnd strandarinnar og hefur Valahnúkur ekki farið varhluta af því.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið nefndan Alexander Rothe, danskan verkfræðing, til að undirbúa byggingu vitans. Herma sagnir að hann hafi þá um sumarið farið til Íslands og síðan í tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðabústað ásamt hlöðnum brunni á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og samið var við Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðabústaðar.
Hafist var handa við verkið í júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari (Lüders), en hann hafði m.a. annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er, en Lüders leist ekki vel á það. Reyndist það líka við athugun vera hið lélegasta byggingarefni.
Þá var tekið til þess bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg. Það, ásamt ýmsum öðrum töfum, varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Vinnukrafturinn reyndist óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap. Og svo var veðurfarið þarna yst á nesinu bæði örðugt og óhagstætt þetta sumar og um haustið.
Rothe tókst þó að ljúka þeim um haustið og “var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur saman með steinlími sem í var Esjukalk og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af.” Einnig hafði verið byggður þar skammt frá bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitinn.

“Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var. Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum.”
Vitinn stóð fram til ársins 1908, sem fyrr segir. Jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn urðu til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður hafði neitað að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907-1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Árið 1884 hafði Arnbjörn og eiginkona hans, Þórunn Bjarnadóttir, fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist til Reykjavíkur og síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí, auk annarra umsvifa. Þórunn lést árið 1912 og Arnbjörn árið 1914.
Eftir standa vitarnir tveir; á Vatnsfelli og á Austurnefi. Nú eru tvö ár í að fyrrnefndi vitinn, á Vatnsfelli, verði fornleif skv. gildandi þjóðminjalögum. Hins vegar má ekki gleyma því að ýmsar fornleifar má finna í nágrenni við vitann, s.s. hlaðna garða, brunninn (sem hlaðinn var úr tilhöggnum steinum), stíg vitavarðarins frá Vatnsfelli/Bæjarfelli að Valahnúk, flóraða götu vestan Valahnúks o.fl. Sjá má enn móta fyrir grunni geymsluhúss þess er varningi í 1908 vitann var skipað upp í ofan við Kistu, hlaðið hús skammt austar, vörður með gamalli leið, hlaðin byrgi, áletranir á klappir sem og nokkra þjóðsagnakennda staði, sem ber að varðveita. Reykjanesvirkjunin nýja sækir að þessum fyrrum mannvirkjum, sem í raunininni gefur enga ástæðu til að spilla þeim. Ef það gerist verður það einungis fyrir einskæran klaufaskap.

Reykjanes

Brunnur neðan Reykjanesvita.

Vegna framkominna upplýsinga um Reykjanesvitann og annað honum tengt vildi Kristján Sveinsson geta þess að “það er full ástæða til að taka það fram að ekki var sjálfgefið að reisa fyrsta vita Íslands á Reykjanesi. Skip sem koma að landinu úr suðaustri (þaðan koma skip frá Danmörku og Noregi) hafa landkenningu mun fyrr og það hlaut auðvitað að koma til greina að hefja vitavæðingu Íslands á því að byggja landtökuvita austar á suðurströndinni. Á tímum seglskipanna var alengt að halda skipum á leið inn í Faxaflóa langt af suðurströndinni og svo djúpt til vesturs til að forðast hina hættulegu strönd enda sigling meðfram ströndum þeim hættuleg. Með tilkomu gufuskipa breyttist þetta, þau voru ekki eins háð veðri og vindum eins og gefur að skilja og farið var að sigla nær landi en áður hafði verið gert og skip sem komu úr hafi fyrir sunnan land héldu nærri Reykjanesi á leið sinni til hinna vaxandi þéttbýlisstaða við Faxaflóa. Það voru forsendurnar fyrir byggingu Reykjanesvitans. En landtökuvitann vantaði eftir sem áður og oft var um það rætt. Danska vitamálastjórnin gerði seint á 19. öld hátimbraðar og kostnaðarsamar áætlanir um byggingu slíkra vita á Íslandi sem ekkert varð úr og þegar Stórhöfðaviti á Heimaey var byggður árið 1906 fóru fram umræður um það hvort gera ætti hann að landtökuvita með því að útbúa hann með sterku ljósi. Danska vitamálastjórnin lagðist eindregið gegn því vegna þess hversu skerjótt er við Eyjar og hefur sjálfsagt gert rétt með því.
Dyrhólaeyjavitinn (sá sem nú stendur) sem reistur var 1927 er fyrsti raunverulegi landtökuvitinn. Hann var og er ljóssterkasti viti landsins. Vitinn sem stóð í Dyrhólaey frá árinu 1910 dugði ekki sem landtökuviti vegna þess hve lítið ljós hans var. Ísland fékk sem sagt ekki sinn landtökuvita fyrr en 1927 og þá var tæknin svo langt á veg komin að árið eftir var settur þar upp radíóviti, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Samkvæmt fyrirmælum um vitavörslu voru ljós vitans ætíð tendruð klukkustund eftir sólarlag. Það gerði Arnbjörn Ólafsson þann 1. des. 1878 án nokkurrar aðstoðar frá Alexander Rothe sem var þá farinn úr landi. En auðvitað hafði hann kennt Arnbirni að meðhöndla vitatækin áður en hann fór.
Haustið 2002 kom út bókin Vitar á Íslandi. Leiðarljós á landsins ströndum 1878–2002 eftir Guðmund Bernódusson, Guðmund L. Hafsteinsson og undirritaðan. Þar er á bls. 29–41 greint frá byggingu eldri Reykjanesvitans og tildrögum hennar.
Því má svo bæta við að Reykjanesvitinn sem byggður var veturinn 1907–08 er miklu merkilegri í sögu þjóðarinnar en flestir vita af. Hann var stór og viðamikil framkvæmd á sinni tíð á íslenskan mælikvarða. Ákvörðun um byggingu hans var tekin af Íslendingum einum og forræði Dana hafnað (danska vitamálastjórnin hafði áform um að reisa þarna járngrindarvita) og enda þótt hönnuðir vitans, Thorvald Krabbe verkfræðingur og Frederik Kiørboe arkitekt, væru báðir Danir var vitabyggingarverkefnið sönnun þess að Íslendingar væru fullfærir um að taka ákvarðanir varðandi tæknimál sín og fylgja þeim eftir. Eins og gefur að skilja tengdist þetta heimastjórninni árið 1904 og er til marks um aukið sjálfstraust og áræði sem fylgdi þeim pólitísku tímamótum. Stjórnsýsluhættir í kringum málið voru kannski ekkert til fyrirmyndar eins og hægt er að lesa um í fyrrnefndu riti tveggja, Guðmunda og undirritaðs, bls. 55–56, en það var alveg heilmikill kraftur í mönnum að koma þessu verkefni í kring og þar sem það tókst svo vel er ekki vafi að það efldi kjarkinn og áræðið til frekari verka á tæknisviði.
Þá má loks geta þess að í framangreindum fróðleik um Reykjanesvitann og umhverfi hans kemur fram að Reykjavíkurhöfn hafi verið gerð árið 1912. Hið rétta mun vera að hafnargerðin í Reykjavík hófst árið 1913 og stóð um fjögurra ára skeið, til 1917.”

Heimildir m.a.:
-leoemm.com
-Samgönguráðuneytið – skalasafn.
-Alþingi – skjalasafn.
-Þjóðskjalasafnið.
-Kristján Sveinsson – Lesbók Morgunblaðsins 30. nóv. 2003.
-Kristján Sveinsson.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Litluborgir

Haldið var upp í Minni-Dimmuborgir, eða Litluborgir, eins og Jón Jónsson, og sonur hans, Dagur, nefndu lítið hraunssvæði sunnan Helgafells, hraunborgir, sem þar mynduðust, líkt og Dimmuborgir við Mývatn, Hraunsnesið í Skollahrauni og Borgin (Ketillinn) í Katlahrauni. Þar eru og gervigígar, sem mynduðust þegar heitur hraunstraumur rann út í vatn er þá hefur verið þarna austan Helgafells. Hraunið stendur víða á súlum og er “þakið” víðast hvar nokkuð heillegt. Hægt er að ganga í gegnum hraunið undir “þakinu”.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í fyrri FERLIRsferð kom í ljós fallegur hellir, sem ætlunin var að skoða betur. Inni í honum eru myndarlegar hraunssúlur líkt og umleikis. Lítil umferð fólk hefur verið um svæðið (sem betur fer) þrátt fyrir nýlega friðun þess og mikinn áhuga margra að berja það augum. Hafa ber í huga að svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.
Dimmuborgir í Mývatnssveit eru sundurtættar hraunmyndanir sem vart eiga sinn líka. Talið er að þær hafi myndast í hrauntjörn sem tæmst hefur eftir að storknun hraunsins var nokkuð á veg komin. Eftir standa háir hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Gatklettar og smáhellar einkenna borgirnar. Sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda. Í Minni-Dimmuborgum má sjá sömu jarðfræðifyrirbærin, en í smækkaðri og nærtækari mynd.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Í Litluborgum

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.
Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).
Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.

Í Litluborgum

Ef skoðað er snið í gegnum gervigíga kemur í ljós að fyrsta efnið sem kemur upp í gosinu er yfirleitt mjög ríkt af jarðvegi og undirlagsefnum. Er líða tekur á gosið verða hraunflyksur og gjallmolar hins vegar meira áberandi.
Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Minni-Dimmuborgir eru nokkurs konar lagskipt hraunlög, haldið uppi af þunnum hraunsúlum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 100 m í þvermál. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur út til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið frá hliðunum. Mikill hiti hefur verið í hrauninu því víða má sjá glerjung og seiglulíka hrauntauma á veggjum.
Í Dimmuborgum, Katlahrauni (sjá HÉR) og Hraunsnesi (sjá HÉR) standa eftir hraunsúlurnar, en í Minni-Dimmuborgum (Litluborgum) hefur þakið haldist vegna smæðarinnar. Súlurnar hafa líklega myndast í hrauntjörninni þar sem gufa hefur leitað upp í gegnum bráðið hraunið og kælt það.
Hellisskútinn reyndist vera þriggja sala. Þakinu er haldið uppi af súlum, hann er rúmgóður og einstaklega fallegur.
Svæðið er mjög viðkvæmt og þolir illa ágang, sem fyrr sagði. Því er mikilvægt að reyna að varðveita þessar jarðfræði- og náttúruminjar sem mest óraskaðar þangað til gerðar hafa verið ráðstafanir til að stýra umferð
fólks um það. (Sjá meira um það HÉR.)

Í bakaleiðinni var litið til með tröllunum á Valahnúk og kíkt á hinar meintu landnámsrústir í Helgadal (sjá meira HÉR). Rústirnar eru á hæðardragi suðaustan í dalnum ofan við vatnið er safnast saman ofan við misgengið. Þær eru orðnar að mestu jarðlægar og erfitt er að segja til um húsaskipan. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði rústirnar um aldarmótin 1900 og þá var hægt að sjá móta fyrir veggjum og útlínum einstaka tófta, með erfiðismunum þó. Lengi hefur verið talið að landnámsbærinn Skúlastaðir (sjá HÉR) gæti hafa verið á Görðum, Bessastöðum eða jafnvel í Tvíbollahrauni þar sem nú er Skúlatún. Líklegast og ákjósanlegast væri að beina athyglinni að þessum rústum áður en lengra væri haldið í getgátum um það efni, enda bendir nafnið Helgadalur til þess að þar hafi byggð verið um alllanga tíð.
Sjá meira um Litluborgir HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson jarðfræðingur og Dagur, sonur hans, í Náttúrufræðingnum 62. árg., 3.-4. h. 1993 í greininni Hraunborgir og gervigígar.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4351
-http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi//nr/1295
-http://www.hi.is/HI/Stofn/Myvatn/isl/homframe.htm

Í Litluborgum

Reykjanes

Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi “Ökuferð um Hafnarhrepp“. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á “hinu eiginlega Reykjanesi” og nágrenni:

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

“Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.

Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.

Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).

Eldey

Eldey.

Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.

Mönguselsgjá

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík og gjárnar ofanverðar.

Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).

Tjörn gerð af mannavöldum

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík – Tjörnin manngerða.

Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Heimildir um landskjálfta

Stampar

Stampar.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur.

Stampar

Stampahraun í mótun.

Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum” árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).

Forsetahóll

Reykjanes

Reykjanes. Forsetahóllinn efst til vinstri.

Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Niðurlag

Reykjanes

Brú milli heimsálfa yfir Mönguselsgjá.

Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79).

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.”

Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:

Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!

Reykjanes

Reykjanes – Forsetahóll.

Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið” en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll. Steyptir hliðarstólpar fremst.

„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan”! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.” Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.”

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.” Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll”. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk” en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.

Stóra-Sandvík

Stóra-Sandvík. Mynd EG.