Færslur

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um „Skáldin í vitanum“:

Reykjanesviti„Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Reykjanesviti

Í Morgunblaðið 2003 ritaði Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, um „Fyrsta vitann á Íslandi“:

Reykjanesviti

Reykjanesviti og vitavarðahúsið 1908.

„Um þessar mundir [2003] eru liðin 125 ár frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján Sveinsson segir frá tildrögum vitabyggingarinnar, fyrsta vitanum og fólki sem við þessa sögu kom.

Næturmyrkrið lagðist yfir Reykjanesið og Valahnúkinn um nónbilið 1. desember 1878. Eins og um aldir og árþúsundir rökkvaði og kennileiti landsins máðust smám saman út í samfelldan sorta. En þetta var tímamótadagur á Reykjanesinu og þótt það væri ekkert um veisluhöld eða tilhald á Valahnúknum, svo langt sem hann nú var frá öllum byggðum bólum, hefur áreiðanlega verið hátíðarsvipur á Arnbirni Ólafssyni vitaverði einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum, því þetta var vígsludagur vitans og formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.

Íslensk síðþróun í vitamálum

Reykjanes

Reykjanes.

Vitar höfðu logað árhundruðum saman á ströndum Evrópulanda þegar Reykjanesvitinn var byggður og hvernig stóð á þessu seinlæti í vitamálum hinnar norðlægu eyjar?
Jú, landið var afskekkt, strjálbýlt og fámennt, efnahagur íbúanna oftast ekki ýkja beysinn og atvinnuhættir fábreyttir og frumstæðir. Þessar skýringar hafa oft heyrst og sést áður í mati á fortíðinni, jafnvel svo oft að þær hljóma gjarnan sem klisja, en hvað vitana áhrærir eru ekki aðrar nærtækari.

Reykjanesviti

Brunnur undir Bæjarfelli.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hversvegna stjórnvöld í Danmörku höfðu ekki frumkvæði að vitabyggingum á Íslandi því Danir voru meðal fremstu vitaþjóða í Evrópu. En áhrif og atbeini danskra stjórnvalda hér á landi voru í raun ætíð takmörkuð og það átti við á þessu sviði einnig. Og auk þess hafði stjórn danska ríkisins um langt skeið þá stefnu að byggja ekki vita fyrir almannafé annars staðar en þar sem þeir þjónuðu almennri skipaumferð og leit þá einkum til hinna fjölförnu skipaleiða um sund og belti við Danmörku.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Sveitarfélög í Danaveldi urðu að standa straum af innsiglingar- og hafnarvitum og vitum sem einkum komu fiskimönnum að notum. Það sem skýrir byggingu elsta Reykjanesvitans árið 1878 eru kröfur Íslendinga um siglingar millilandaskipa að vetrarlagi. Þær áttu sér rætur í því að efnahagur landsmanna fór batnandi á síðari hluta 19. aldar eftir því sem sjávarútvegur efldist og þróaðist og verslun jókst.

Þéttbýlisstaðir fóru að myndast og vaxa við ströndina þar sem þorskurinn í sjónum og krambúðir kaupmanna löðuðu til sín vaðmálsklætt sveitafólkið sem brá sér í skinnklæði sjómanna og sótti golþorska á fiskimiðin sem urðu að gullþorskum og síðan að kaffi, hveiti, silki, sirsi, tóbaki og tölum í krambúðum kaupmannanna. Eitt af meginöflum nútímans komst á kreik – tískan. Það var annað lag á dönsku skónum í ár en í fyrra. Gaberdínið með öðru móti í vor en síðasta haust svo ekki væri nú minnst á slifsin og hattana. Það var alveg orðið ólíðandi að þurfa að þrauka allan veturinn án þess að það kæmi nýr varningur í verslanirnar.

Reykjanesviti

Gata vitavarðar á milli bústaðar og gamla vitans á Valahnúk.

Það voru bæði kaupmenn og viðskiptavinir sammála um. Og það var ekki nóg að endurnýjast hið ytra með skæðum og klæðum. Sálartetrið þurfti líka sína hressingu og endurlífgun. Já, einmitt, fréttir. Umræðuefni. Það gat ekki náð nokkurri átt að það skyldu geta liðið þrír eða fjórir mánuðir án þess að tíðindi bærust utan úr þeim heimi handan úthafsins sem sífellt fleiri Íslendingar höfðu áhuga á. Það lá við að heilu stríðin færu fram hjá fólki og kóngar og keisarar gátu legið dauðir vikum og mánuðum saman áður en hægt var að segja svo mikið sem „jahá“ eða „jamm“ yfir því á Íslandi, hvað þá biðja vesalingnum fararheilla í eilífðina. Nei, það var ekki hægt að þola það lengur í þorpi og bæ að póstskipið sigldi ekki yfir veturinn.

En var þá ekki bara hægt að láta kaupskipin og póstskipið sigla á veturna? Nei. Norður í þetta órofa heimskautamyrkur stefndi enginn heilvita maður skipi.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Jafnvel ekki þótt rausnarlegt endurgjald væri í boði því hvern fýsir að verða skipreika við úfna, illviðrasama, mannauða og koldimma strönd, en á því voru mestar líkur ef lagt var í svona háska töldu skipstjórar og forráðamenn skipafélaga. Þarna norðurfrá var hvergi ljósglætu að sjá og vindgnauðið oftast svo mikið að það heyrðist ekki í brimgarðinum fyrr en rétt áður en komið var í hann. Hvernig á að varast svo fláa strönd? Hvað ef það væri viti, spyrja kaupmenn og póststjórn. Jú, það myndi breyta málinu svara skipstjórar og útgerðarmenn. Þó að það væri ekki nema einn svo það sé í það minnsta hægt að finna þennan Faxaflóa sem flestir fara til þarna uppi.

Vitamál hefjast á Alþingi

Reykjanesviti

Merki Friðriks VIII, á Reykjanesvita.

Með setningu stöðulaganna árið 1871 og stjórnarskránni sem Kristján IX Danakóngur hafði með sér til Íslands í sumarheimsókn sinni árið 1874 fékk Alþingi fjárveitingarvald og gat farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framkvæmdir í landinu. Fyrsta þingið sem þetta vald hafði kom saman í húsakynnum Lærða skólans í Reykjavík sumarið 1875 og þar hófust íslensk vitamál.
Þetta upphaf fólst á rökréttan hátt í því að tveir þingmenn, þeir Snorri Pálsson þingmaður Eyfirðinga og Halldór Kristján Friðriksson þingmaður Reykjavíkur, fluttu frumvarp til laga um vitagjald þótt enginn væri vitinn. Hinir varfærnu þingmenn vildu með þessu tryggja fjárhagslegan grundvöll vitabyggingar og vitareksturs áður en þeir legðu til að tekist væri á við þau verkefni. Frumvarp þeirra datt raunar upp fyrir á þessu þingi, en varð til þess að farið var að undirbúa byggingu á vita á Reykjanesi.
Vert er að veita þingmönnunum tveimur og bakgrunni þeirra nokkra athygli, en báðir komu þeir af þéttbýlustu svæðum landsins þar sem uppgangur var í sjávarútvegi og verslun.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Snorri Pálsson (1840–1883) hafði bæði fengist við verslunarrekstur og útgerð fiskiskipa við Eyjafjörð auk þess sem hann hafði verið forstöðumaður fyrir Siglufjarðardeild „Hins eyfirzka ábyrgðarfélags“ sem var tryggingarfélag fyrir fiskiskip við Eyjafjörð. Snorri var því vel kunnugur því hversu torvelt það var að fá skip til að sigla til Íslands að vetrarlagi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Hann var einnig vel kunnugur hættunum sem fylgdu því að sækja sjóinn við Ísland. Í lok maí 1875, aðeins nokkrum vikum áður en Snorri tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti, fórst eitt af hákarlaskipum hans í aftakaveðri sem þá gerði við Norðurland og með því 11 menn. Alls fórust 25 manns úr nágrenni Snorra í þessu veðri, þar á meðal bróðir hans.

Halldór Kristján Friðriksson (1819–1902) var kennari og yfirkennari við Lærða skólann en auk þess bæjarstjórnarmaður í Reykjavík og alþingismaður um langt skeið. Áhugamál hans voru fjölþætt og hann lét víða að sér kveða í félagsmálum, meðal annars var hann lengi forseti „Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins“, en ef að líkum lætur voru það einkum afskipti hans af bæjarmálefnum í Reykjavík sem ollu því að hann gerðist talsmaður vitabygginga því siglingaleysið yfir veturinn stóð orðið atvinnulífi í bænum fyrir þrifum.

Reykjanesvitinn 1878

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Vitagjaldsfrumvarp þeirra Snorra Pálssonar og Halldórs Kr. Friðrikssonar varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. Ekki er að sjá að komið hafi til álita að reisa fyrsta vita landsins annars staðar en á Reykjanesi, enda komu langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins. Málið var borið undir C.F. Grove, vitamálastjóra Dana, sem lýsti þeirri skoðun sinni að einmitt af fyrrgreindum ástæðum væri mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Alþingismenn reyndust áhugasamir um að byggja vita á Reykjanesi með hliðsjón af hugmyndum danska vitamálastjórans en sameiginlegir sjóðir landsmanna voru rýrir að vöxtum og þekking á vitatækni var engin í landinu. Því var leitað til Dana um aðstoð og það féll í hlut skáldsins Gríms Thomsens, sem var formaður fyrstu fjárlaganefndar Alþingis, að greiða úr álitamálum í samskiptum Dana og Íslendinga á þessu sviði. Vitamál heyrðu undir danska flotamálaráðuneytið (Marineministeriet) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að danska ríkissjóðnum bæri engin skylda til að standa straum af kostnaði við vitabyggingu á Íslandi en þar sem áformaður viti myndi gagnast dönskum kaupskipum væri flotamálaráðuneytið tilbúið til að styrkja Íslendinga í þessari fyrirætlan. Varð sú niðurstaðan að hæfilegt framlag fælist í ljóshúsi úr eir og vitatæki, en vitabygginguna sjálfa yrðu Íslendingar að sjá um.
Sumarið 1876 var notað til að kanna væntanlegt vitastæði á Reykjanesi og aðstæður til byggingar þar. Tveir undirforingjar af varðskipinu Fyllu fóru þangað í könnunarferð í lok maí og leist best á að byggja vitann á Valahnúk, yst á Reykjanesinu. Nóg var þar af hraungrjóti til byggingarinnar, skrifuðu undirforingjarnir í greinargerð sinni, og rekaviður í fjörum sem bæði mætti nota við vitasmíðina og til eldsneytis.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið danskan verkfræðing, Alexander Rothe, til að undirbúa vitabygginguna á Reykjanesi og fór hann þá um sumarið til Íslands og tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðarbústað á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og 10. apríl skrifaði Nellemann Íslandsmálaráðherra Hilmari Finsen landshöfðingja og tilkynnti honum að samið hefði verið við Alexander Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðarbústaðar á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Rothe og vinnuflokkur hans tóku til starfa 6. júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari, Lüders að nafni, sem hafði annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Vitastæðið hafði verið ákveðið á Valahnúk og Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er gnótt af. En þegar Lüders múrarameistari tók að láta hamra og meitla gnauða á grjótinu molnaði það og reyndist alveg ónýtt byggingarefni.

Reykjanesviti

Gata niður að grjótnámu við Reykjanesvita.

Þá var tekið til bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg sem ásamt ýmsum öðrum töfum varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Honum þótti til dæmis vinnukrafturinn helst til óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap, og svo var veðurfarið á þessum útkjálka með eindæmum örðugt og óhagstætt fannst honum. Kannski var eitthvað til í því. Frásögn Gríms Thomsens bendir til þess, en fjárlaganefndarformaðurinn skáldmælti gerði sér ferð á Reykjanesið um sumarið að líta á vegsummerki og ritaði síðan í blaðið Ísafold sem hann ritstýrði um þessar mundir: Það er engin hægðarleikur að draga grjót að sjer upp á Valahnjúkinn og það steina sem 6–10 manns þarf til að hnosa þar upp; ekki er heldur ládeyðan þar dagslega, þegar lenda þarf með eitthvað, sem til vitans þarf, svo sem kalk og steinlím, vistir og áhöld. Þá gekk langur tími til að ná í vatn, gjöra brautir, höggva grjót niðri í fjöru, ef fjöru skyldi kalla, þar sem brimið beljar ár og síð, og verst af öllu hefur það reynzt, að margir dagar hafa fallið út, af því að ekki gat orðið úr verki uppi við vitaturninn fyrir stormi og óveðri. Það viðrar öðruvísi upp á Valahnúknum en niðri á Austurvelli.

Reykjanesviti

Persónur er komu við sögu fyrsta vitans.

Þótt Rothe yrði ýmislegt mótdrægt við byggingarframkvæmdirnar tókst að ljúka þeim um haustið og var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur með steinlími sem í var Esjukalk, en á þessum tíma var kalknám í Esjunni og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af. Einnig hafði verið byggður á Reykjanesinu bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var.
Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum. Vitinn stóð fram til ársins 1908.
Eins og kunnugt er þá er Reykjanesið jarðskjálftasvæði og urðu jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður neitaði að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907–1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Vitavörðurinn

Reykjanesviti

Arinbjörn Ólafsson, vitavörður.

Bygging og starfræksla fyrsta vitans í óbyggðum Reykjanessins hafði það í för með sér að til varð ný starfsgrein á Íslandi – vitaverðirnir. Starf þeirra var bindandi því ekki varð hjá því komist að halda stöðugan vörð um vitaljósið á logtíma vitans meðan notaðir voru olíulampar. Þess utan þurfti vitavörður að fægja og þrífa, fylla olíu á lampa og gæta vitans í hvívetna. Stundum var gestkvæmt og þá var ekki annað en sjálfsagt að leyfa „mönnum er skýra frá nöfnum sínum og heimilum, og sem ekki er ástæða til að gruna um neina ósiðsemi, að skoða vitabygginguna“. Það sagði erindisbréf vitavarðarins, en ölvaðir menn, óuppdregnir dónar sem hræktu á gólfin og hundspott þeirra máttu ekki stíga fæti í vitann.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Fyrsti íslenski vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson, trésmiður að iðn og hafði unnið við byggingu vitans sumarið 1878. Hann var fæddur 24. maí 1849 og var því rétt að verða þrítugur þegar hann flutti búferlum á Reykjanesið ásamt Sesselju systur sinni, en hún hafði einnig starfað við vitabygginguna þar sem hún var ráðskona. Áður en Rothe verkfræðingur hvarf af landi brott hafði hann veitt Arnbirni einhverja tilsögn í umhirðu vitans og meðferð vitatækjanna, en það er af varðveittum bréfum vitavarðarins að sjá að þessi kennsla hafi verið hálfgert í skötulíki og hann taldi sig vanbúinn til starfans af þeim sökum. Alþingi brást við beiðnum Arnbjörns um frekari vitamenntun og lét honum í té fjárupphæð til Danmerkurfarar. Þangað hélt hann vorið 1879 og nam vitavörslu fram eftir sumri.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesið var sannarlega afskekkt á þessum tímum og orðið nokkuð langt síðan þar var búið þegar vitavörðurinn settist þar að. Varla að það væri reiðvegur þangað út eftir og hægur vandinn að villast í hraunbreiðunni ef skyggni brást eitthvað. Jón Jónsson landritari og vitaeftirlitsmaður lét þetta þó ekki aftra sér frá því að takast á hendur heimsókn til vitavarðarins á jólunum árið 1880. Þessi ötuli embættismaður lagði upp frá Reykjavík á Þorláksmessu, gisti í Höfnunum og var kominn að vitanum síðdegis á jóladag. Þangað hafði hann fikrað sig í stjörnubjörtu veðri og skemmt sér við að telja vörðurnar á leiðinni. Þær voru alls 61 og á heimleiðinni kom sér vel að vita þetta því þá var snjóbylur og ágætt að geta talið vörður til að vita hvar maður var staddur. En það myndi ekki veita af einum 50 vörðum til viðbótar, taldi hann, ef menn ættu að geta verið vissir um að rata í hvaða veðri sem væri.

Jón landritari sá vitaljósið við níundu vörðu frá Höfnum talið og var harla ánægður með hvað það var skært. Það var öryggi og staðfesta í þessu ljósi sem róaði landritarahugann, en aðkoman, þegar í vitavarðarbústaðinn kom um kvöldmatarleytið, kom heldur betur róti á embættismanninn. Það kom nefnilega í ljós að þar sat hvert mannsbarn á bænum og át sinn jólamat, hver sem betur gat, líka vitavörðurinn og aðstoðarmaður hans. Arnbjörn vitavörður reyndi að afsaka sig með jólahátíðinni en landritari lagði ekki eyru við slíku hjali heldur benti honum á að „úr því eptirlitið ljeti ekki jólahátíðina aptra sjer að gæta skyldu sinnar væri vitaverðinum engin vorkunn að gera slíkt hið sama“. Hann fékk skriflega nótu og varð svo að skunda á vitavaktina.Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Það var alla tíð gerð rík krafa um árvekni og samviskusemi vitavarða og flestir stóðu þeir vel undir því, einnig Arnbjörn Ólafsson þrátt fyrir jólamálsverðinn. Hins vegar hentaði ekki öllum sú mikla einangrun sem fylgdi búsetunni á vitavarðarstöðunum og það átti við um hann og fjölskyldu hans. „Það er annað vorhugi en vetrar,“ skrifaði Arnbjörn Jóni landritara haustið 1879 og vetrarkvíðinn er greinilegur í þessu bréfi hins unga vitavarðar sem hafði kvænst jafnöldru sinni, Þórunni Bjarnadóttur úr Skagafirðinum, um sumarið. Hvernig myndi ástinni reiða af í vetrarríki Reykjanessins?Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahník.

Það gekk bara vel því þau Arnbjörn og Þórunn héldu saman meðan bæði lifðu. En árið 1884 höfðu þau fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist þá til Reykjavíkur en nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí.
Um aldamótin 1900 átti Arnbjörn mikil viðskipti við enska togara og varð frumkvöðull í íslenskri togaraútgerð þegar hann fór fyrir hópi Íslendinga sem keypti fyrsta togarann, Coot að nafni, til Íslands árið 1905. Vegna viðskipta Arnbjörns áttu þau Þórunn heimili sitt erlendis um skeið, bæði í Danmörku og Englandi. Þórunn féll frá árið 1912 og Arnbjörn tveimur árum síðar.“ -KS

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið 30. nóv. 2003, Kristján Sveinsson – Fyrsti vitinn á Íslandi, bls. 20-21.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.

Reykjanesviti

„Vangaveltur hafa verið um nafn fellsins sem núverandi Reykjanesviti stendur á:

-1752-7. Ferðabók Eggerts og Bjarna: “ . . . en þrjú lítil leirfjöll skera sig þó mjög úr umhverfinu. Þau heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni, . . . „

-1840. Lýsing Grindavíkursóknar. Geir Bachmann: “ . . . Valahnúkur . . . Skammt þaðan í landnorður er aðrísandi fell, Vatnsfell kallað. “ Sérann nefnir ekki Bæjarfell. Á öðrum stað segir hann: “ . . . Sandfell, Sílfell, Grasfell eða áður nefnt Vatnsfell og fram á Skarfasetur.“

-1883. Þorvaldur Thoroddsen. “ Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, t.d. Valahnúkur (43 m), sem vitinn stendur á [gamli vitinn], Vatnsfell (54 m) og Sýrfell (105 m).

-1908-10: Herforingjaráðskort, 1:50 þús. : Þar sést fell með rana til suðurs. Orðið ´viti´ er skráð vinstra megin við háfellið en örnefnið Bæjarfell er skráð til hægri og sunnar þar sem raninn byrjar. Ekki er hægt að segja til um hvort örnefnið á við hæsta hluta fellsins (Vatnsfellið, nýi bærinn] eða þann lægsta (Bæjarfellið, gamli bærinn).

-1945 kort 1:100 þús.: Þar er Vatnsfell skráð vsv við Bæjarfellið [smbr. Jón Jónsson hér neðar).

-1926. Lesbók Mbl.. Valtýr Stefánsson, ritstjóri: “ . . . Því var ráðist í það að byggja annan vita á Vatnsfelli.·“

-1984. Árbók F.Í.. Séra Gísli Brynjólfsson:“ . . . reis núverandi viti á Bæjarfellinu. “ Sama rit. Jón Jónsson, jarðfr.:. “ . . Lítð eitt
austar [er að lýsa frá vestri] er gosmalarkeila, Vatnsfell, sem sjór er nú sem óðast að brjóta niður [ þarna er greinilega hvorki átt við fellið sem vitinn er á eða gamla bæjarhólinn, en Vatnsfell heitir annað fell austar með ströndinni]“ “ . . . Í fellinu neðan við vitann, Bæjarfelli, stendur bústaður vitavarðar. . .“

-1988. Suður með sjó. Jón Böðvarsson: “ Reykjanesviti trjónar efst á Grasfelli . . . . Eftir byggingu hússins þokaðist gamla örnefnið fyrir heitinu Bæjarfell.“

-1989. Íslandshandbókin. Örn og Örlygur (mynd): “ . . . Bæjarfell með Reykjanesvita fjær . . . „

-1991. Tímaritiði Áfangar. Hafnahreppur. Leó M. Jónsson,: “ . . . og var núverandi viti á Vatnsfelli tekinn í notkun árið 1908.“ Í greininni er mynd af fellunum á Reykjanestá tekin úr norðri, frá veginum og undir henni stendur: “ Frá vinstri sést í Bæjarfell [hóllinn (fellið) sem gamli bærinn stóð á] , þá Reykjanesviti á Vatnsfelli . . „

-2004. FERLIR 665: „Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú.“

-Vitamálastofnun notar örnefnið Bæjarfell.

Undirrituð velur Vatnsfell, svona fyrir aldurs og úbreiðslu sakir . . „.

Sesselja Guðmundsdóttir tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr betonsgrjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálafellsbarm.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara varð. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.
Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund. Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Reykjanesviti

Flóraður vitavarðastígurinn að Valahnúkum.

Gengið var eftir flóraðri „vitagötunni“ að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.
Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).
Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar – sjá HÉR. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Eftirfarandi um Reykjanesvita – Fyrsta vita á Íslandi – er eftir Skúla Magnússon og birtist í Sjámannablaðinu Víkingi árið 1973:
Reykjanesviti - fyrsti
Á þessu ári eru liðin 95 ár síðan kveikt var á fyrsta vita landsins, Reykjanesvitanum gamla, nánar tiltekið 1. desember 1878. Mun ég hér á eftir skýra nokkuð frá vitabyggingunni og starfrækslu þess fyrsta vita. Einnig verður greint frá fyrsta vitaverði á Reykjanesi, sem jafnframt varð upphafsmaður að þessari mjög svo þörfu stétt manna. Heimilda um þessi efni er að leita í eftirfarandi ritum: Um  vitavörðinn, febrúarblað Faxa 1963 (útg. í Keflavík), grein eftir Mörtu V. Jónsdótur ættfræðing. Um vitann og byggingu hans: Saga Íslendinga IX., 1. bindi bls. 218—219, Ísafold 26. okt. 1878 og 14. sept. 1895. (Um vitavörðinn sjá jafnframt í „Ægir“ sept. blaði 1914).
Fyrsti vitavörður þessa lands var Arnbjörn Ólafsson, síðar kaup- og útgerðarmaður í Keflavík. Hann fæddist að Árgilsstöðum í Hvolhreppi 24. maí árið 1849, en ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Arnbirni og Guðríði. Á yngri árum sínum flutti hann til Reykjavíkur og lærði þar trésmíði. Stundaði hann þá iðn, ásamt mörgu fleiru um margra ára skeið. Sama ár og vitinn var tekinn í notkun, 1878, flutti Arnbjörn sig suður á Reykjanes og varð umsjónarmaður með vitaljósinu. Hélt hann þeim starfa til ársins 1884, er hann flutti til Reykjavíkur, og stundaði þar verzlun um nokkur ár. Árið 1891 settist svo Arnbjörn að í Keflavík og dvaldist þar til dauðadags. Þar setti hann upp brauðgerðarhús, hið fyrsta á Suðurnesjum. Marta getur þess að hann hafi sjálfur verið bakari en stundað þá iðn mjög lítið. Hingað til Keflavíkur hafði hann með sér tvo menn, sem munu hafa unnið í bakaríinu, þá Magnús Erlendsson bakarameistara, og Eyjólf Teitsson, er var nemi.
ArnbjornArnbjörn byggði sér hús sunnarlega í Keflavík, sem þá var lítið þorp með innan við 300 íbúa. Var húsið fljótlega nefnt „Bakaríið“ og er svo kallað enn í dag af gömlum Keflvíkingum. Það stendur við Hafnargötuna, skammt frá hinum gömlu mörkum Keflavíkurjarðarinnar og Njarðvíkurlands, þó innan lands Njarðvíkinga. Bökunarofnar voru í kjallaranum, þá hlóð Símon Eiríksson, steinsmiður, sem kom mjög við sögu í Keflavík um og eftir aldamótin 1900, var hann hinn mesti völundur í hleðslu, eins og handverk hans sem enn sjást, bera vott um. Útgerð hafði Arnbjörn alltaf, hann gerði út áraskip, vélbáta (meðal stofnenda hlutafélagsins „Vísi“, sem gerði út vélbátinn „Júlíus“, hinn fyrsta sinnar tegundar er til Keflavíkur kom. Það var 1908) og togarann Coot sem hann var einn af eigendum að (1904). Lengi vel var Arnbjörn formaður fyrir skipi sínu, en síðar var það Guðmundur á Hæðarenda í Keflavík, sem eldri Keflvíkingar kannast við. Jafnframt þessu hafði Arnbjörn verzlun og átti pakkhús niður við sjóinn í suðvestur krika Keflavíkur, var það ætíð kallað  „Arnbjarnarpakkhús“. Ennfremur fylgdi húsunum allstórt tún, sem kennt var við eiganda sinn, það er nú fyrir löngu komið undir götur og hús. Þar var Hafnargatan, sem nú er aðalgata umiferðar og verzlunar í Keflavík, lögð yfir árið 1912. Þann 5. júlí 1879 kvæntist Arnbjörn ungfrú Þórunni Bjarnadóttur, systur síra Þorkels á Reynivöllum í Kjós. Þau eignuðust tvö börn, annað misstu þau, en hitt komst upp, það er Ólafur Jón, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn (f. í R.vík 1885, d. í K.vík 1941). Hans kona var Guðrún Einarsdóttir útvegsbónda í Sandgerði, Sveinbjarnarsonar. Hún lézt fyrir fáum árum og hafði þá ásamt börnum sínum rekið skóverzlun í Bakaríinu. Auk þess ólu þau Arnbjörn og Þórunn upp stúlku, Jónínu Guðlaugu Sigurjónsdóttur, ættaða af Vatnsleysuströnd. Hún fluttist til Khafnar og bar þar beinin 1935.
Arnbjörn Ólafsson tók mikinn þátt í menningar- og framfaramálum í Keflavík, sat m.a.í skólanefnd og hreppsnefnd (þá er átt við hreppsn. Njarðvíkurhrepps gamla, sem 1908 var sameinaður Keflavíkurkauptúni). Hann lézt í Kaupmannahöfn á ferð heim frá fiskiráðstefnu í Bergen 30. júlí 1914, en þangað fór hann fyrir Fiskifélagið, sem þá var nýlega stofnað.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Eftirfarandi segir um Arnbjörn í Ægi 1914 (minningargrein): „Hann var hár maður vexti og vel limaður, gæfulegur og góðmannlegur á svip með greindarlegt yfirbragð, enda var hann maður vel greindur og vel að sér í ýmsum fræðum og tók allmikinn þátt í almennum málum. Hann var einkar dagfarsprúður, vinfastur, ráðhollur og hjálpsamur öllum þeim, sem leituðu til hans, gestrisinn og mjög skemmtilegur í viðræðum. Hann ávann sér því bæði vináttu og virðingu hinna mörgu bæði innlendra og útlendra, sem kynntust honum. Hann var búsýslumaður mikill, einkum í öllu er að fiskveiðum lýtur, og í hinum margbreyttu störfum, sem hann hafði með höndum til sjós og lands, sýndi hann bæði kapp, ráðkænsku og dugnað og framúrskarandi rósemi og úrræði. Kom það m.a. í ljós, þegar hann fyrir allmörgum árum síðan bjargaði heilli skipshöfn af enskum botnvörpungi frá drukknun „fyrir Söndunum“. Sæmdi útgerðarfélag botnvörpungsins hann með skrautrituðu þakkarávarpi og mjög vönduðu gullúri fyrir hans bjargráð, enda hafði skipstjórinn talið víst, að öll skipshöfnin hefði farist, ef Arnbjörn hefði ekki verið þar innanborðs, og lagt á ráðin, hvernig öllu skyldi haga, er skipið var strandað. Hann var jafnrólegur þó hann horfði í augun á dauðanum, og kjarkurinn óbilandi. Hann var gæfumaður og heppnaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur, hann virtist jafnvígur á allt. En ég hygg að hann hafi lagt mestan hug á fiskveiðar og vildi afla sér sem mestrar þekkingar á öllu því, er laut að þeirri grein.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Arnbjörn var frjálslyndur í skoðunum sínum og ættjarðarvinur mikill, fylgdi hann jafnan þeim flokki stjórnmálamanna, sem djarflegast börðust fyrir frelsi og sjálfstæði lands vors, og var góður og einbeittur liðsmaður í þeim hóp. Hann hataði kúgun, áþján og öll óeðlileg bönd hverju nafni sem nefnast, og sömuleiðis óhreinlyndi og ódrengskap, enda var hann sjálfur hreinskilinn, og jafnframt því gætinn í orðum og drengur góður“ Meðan hann var vitavörður átti hann sæti í Hreppsnefnd Hafnahrepps, og var jafnframt hreppsstjóri. Eiginkona Arnbjörns lézt að heimili þeirra í júlí árið 1912.
Byrjað á vitabyggingunni Sumarið 1878 var byrjað á byggingu vitans á Reykjanesi. Borgaði ríkissjóður Dana ljóskerið, kr. 12.000,00, en landssjóður Íslands allt annað. Árið 1875 hafði alþingi ritað konungi „allraþegnsamlegast ávarp um að hans hátign allramildilegast vildi sjá svo fyrir, að fé yrði veitt úr ríkissjóði til vitagjörðar á Reykjanesi m.m.“, þar sem vitagerðir heyrðu undir flotamálaráðuneyti Dana og þar með til sameiginlegra mála ríkisins, en ekki hinna sérstöku mála Íslands eftir „stöðulögunum“. Ekki gat þó stjórnin aðhyllzt þá skoðun, en veitti fé til kaupa á sjálfu ljóskerinu með speglum og fleira, sem tilheyrir.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Aftur var vitamálið tekið fyrir á næsta alþingi, 1877, en þá voru þing haldin annað hvert ár. Veitti alþingi þá til vitagerðarinnar kr. 14.000, samkvæmt áætlun frá þar til kjörnum verkfræðingi, A. Rothe, er hingað hafði verið sendur þá um vorið til að rannsaka vitastæðið, gera kostnaðaráætlun o.fl. vitanum aðlútandi, Rothe stóð síðan fyrir byggingunni, en ekki kom áætlun hans betur heim en svo, að kostnaðurinn varð kr. 22.000,00 og fór þannig langt fram úr áætlun. Ísafold segir svo: „Verkstjóri við vitahleðsluna var Luders, múrarameistari, sem hér dvaldi síðan mörg ár á eftir. Hann fékk góðan orðstír almennings, en Rothe miður. Sagði Luders svo, að sú sérvizkufirra hins, að hafa turninn hlaðinn í átthyrning, hefði hleypt kostnaðinum fram um helming. Sívala turna eða ferhyrnda hefði mátt hlaða tvo fyrir sama verð“.
Miklir erfiðleikar fylgdu byggingu vitans, eins og eðlilegt var, voru erfiðleikar margir og miklir við bygginguna. Rothe ætlaðist fyrst til að haft yrði hraungrýti í hleðsluna, sem nóg var af, en það var óvinnandi. Luders var svo heppinn að finna mikið af grásteini niður við fjöruborð undir hraunsnös, á að gizka 1-200 faðma fyrir norðan Valahnjúk (þar sem vitinn var reistur). Það grjót mátti kljúfa og höggva að vild. En síðan varð að bera það allt á handbörum að rótum hnjúksins og síðan upp á hann. Var það eins og nærri má geta bæði erfitt verk og seinlegt.
Ísafold gerir lítið úr Rothe verkfræðingi, og segir að almenningi hafi mjög lítið þótt til hans koma. Er eftirfarandi saga sögð því til sönnunar: „Til merkis um, hvað almenningi þótti lítið til „mannvirkjafræðingsins“ koma, er þar í frásögur fært, að þegar að því kom að á vatni þurfi að halda í kalkið og sementið, til turnhleðslunnar, vantaði fötur til að bera það í upp á hnjúkinn frá vatnsbóli því, er loks hafði fundist góðan spöl fyrir neðan hann, eftir mikla leit og margar árangurslausar tilraunir til brunngraftar, sumar næsta fákænlegar, að sumum þótti.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Brá þá mannvirkjafræðingurinn sjálfur við, og lagði af stað inn til Reykjavíkur að útvega föturnar. Segir ekki af þeirri ferð fyrr en hann á heimleiðinni aftur, er kominn suður undir Bæjarfell, fyrir ofan bæ vitavarðar. Þá minntist hann þess, að hann hefir steingleymt erindinu, hann hafði skemmt sér svo vel í Reykjavík, að þar komst engin vatnsfötuhugsun að. Eftir hæfilega hvíld leggur hann síðan af stað aðra ferð til höfuðstaðarinss. Þá er þess getið að hann hittist einhvern dag í fögru veðri í barnaleik suður á melum með sonum landshöfðingja (H. Einssen). Það var Grímur Thomsen, sem rak sig þar á hann og hjalaði við hann lítilsháttar, fann síðan landshöfðingja að máli og hafði orð á því, að betur mundi fara á, að mannvirkjafræðingurinn“ væri við starf sitt suður á Reykjanesi úr því að Landssjóður gyldi honum afarhátt kaup daglega. Verður niðurstaðan sú, að Rothe sást vonbráðar aftur syðra, í mjög slæmu skapi og hábölvandi Grími þeim, en — fötulaus. En í þriðju ferðinni höfðust svo föturnar. Varð þá turnhleðslan að bíða á meðan, í margar vikur? Nei, menn björguðust við naglakassa, kíttuðu þá og þéttu og báru vatnið í þeim“. Í sjálfum byggingarkostnaðinum var innifalið verð á íveruhúsi handa vitaverði og fjölskyldu hans. Því var spáð í Ísafold árið 1870, að þetta hús, sem var torfbær, myndi ekki standa í 10 ár, sakir þess hve óvandað það var og illa frá því gengið. Þetta rættist.
Þegar Ísafoldar-Björn skrifaði um Reykjanesvitann 1895, er búið að byggja þar timburhús, og þó tvö heldur en eitt, járnvarin, góð híbýli og myndarleg nú orðin, enda hefur talsverðu verið kostað til þeirra síðan. Íbúðarhúsin stóðu þá eins og nú, sunnan undir Bæjarfelli, sem núverandi viti stendur á.

Vitagjaldið

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Landssjóður Íslands átti að sjá um reksturinn á vitanum, og var með lögum 1879 lagt vitagjald á skip þau, sem fóru framhjá Reykjanesi, 20 aurar á smálest, ef skip leitaði hafnar við Faxaflóa, en annars 15 aurar. Herskip og skemmtiskútur voru undanþegin gjaldi. Þá er komið að lýsingu á sjálfu vitahúsinu og því sem það hafði að geyma. Er hún tekin hér orðrétt úr Ísafold frá 1895: „Reykjanesvitinn stendur yzt á suðurtá Reykjanesskaga, á dálitlum hnjúk rétt við sjóinn, er nefnist Valahnjúkur, og er beint undan landi. Framan í hnjúknum er þverhnípt berg í sjó niður og hallar töluvert upp frá brúninni. Nokkra faðma frá henni stendur vitinn, þar í hallanum. Það er turn, hlaðinn í átthyrning, úr íslenzkum grásteini, höggnum og steinlími, rúml. 22 feta hár, og 6—7 fet á vídd (að þvermáli) að innan, veggimir rúm 4 fet á þykkt nema helmingi þynnri ofan til, þar sem ljóskerið stendur, enda víddin þar meiri. Ljóskerið er áttstrent, eins og turninn, rúm 8 fet á vídd, og 9—10 á hæð upp í koparhvelfinguna yfir því. Það er ekki annað en járngrind, húsgrind, með stórum tvöf öldum glerrúðum í, sem eru nálægt alin í ferhyrning, afarsterkum og þykkum, 6 á hverri af 7 hliðum átthyrningsins — eins og 6 rúðugluggar — en engri á hinni áttundu, þeirri er uppá land veit. Þar utanyfir er svo riðið net af málmþræði, til varnar gegn fuglum, og er manngengt á milli þess og ljósskersins. En innan í holspeglum (sporbaugaspeglum) úr látúni, fagurskyggðum, 21 þuml. að þvermáli, er þeim raðað 2 og 3 hverjum upp af öðrum á járnsúlnagrind hringinn í kring, nema á sjöttung umferðarinnar, þann er upp að landi veit. Verður svo mikið ljósmagn af þessum útbúnaði, að sér nærri 5 vikur sjávar undan landi, enda ber 175 yfir sjávarmáli.

Tvíloftaður turn

Reykjanesviti

Brunnur við Reykjanesvita.

Turninn er tvíloftaður fyrir neðan ljóskerið, og eru þar vistarverur fyrir vitagæzlumennina, með ofni, rúmi, sem neglt er neðan í loftið m. m. Tvöfaldir gluggar litlir eru á þeim herbergjum, 2 á hvoru. Allt er mjög rammgert, hurðir og gluggaumbúnaður o.fl., og veitir ekki af, því fast knýr Kári þar á dyr stundum, t.d. í veðrinu mikla milli jóla og lýárs í vetur sem leið, þeytti þá ekki einungis sandi úr fellinu, heldur allstórum steinum upp um vitann og bæði inn um turngluggana tvöfalda og eins í ljóskersrúðurnar í gegnum málmþráðarnetið og mölvaði þær, þótt sterkar væru.
Tveir menn eru í vitanum á hverri nóttu allan þann tíma árs, er á honum logar, sem er frá 1. ágúst til 15. maí. Bústaður vitavarðar er sem sé dálitla bæjarleið frá vitanum, fulla 60 faðma. Gæzlumenn slökkva á vitanum hálfri stundu fyrir sólaruppkomu. Tveim stundum þar á eftir skal byrjað á dagvinnunni, en hún er í því fólgin að hreinsa og fægja vandlega lampana og speglana, láta á þá olíu, taka skar af kveikjunum og yfirhöfuð undirbúa allt sem bezt undir kveikinguna að kvöldinu. Sömuleiðis að fægja ljóskersrúðurnar og önnur áhöld sem brúkuð eru. Með því að allbratt er uppgöngu að vitanum og veðrasamt mjög þar, hefur verið lagður öflugur strengur úr margþættum málmþræði meðfram veginum til að halda sér í, og hafðar járnstoðir undir. Upp þann stíg er og borin steinolía og annað, sem til vitans þarf, úr geymsluklefa fyrir neðan hnjúkinn“.
Þegar þetta er ritað, 1895, var vitavörður á Reykjanesi Jón Gunnlaugsson. Hefði hann og Arnbjörn Ólafsson lagt mikið í túnrækt heima við  vitavarðarbústaðinn, en samt gat bústofn vart kallast mikill: 1 kýr og 2—3 hestar, sem varð að fá hey fyrir annars staðar. Slægjur voru engar. Eftirfarandi menn hafa verið vitaverðir á Reykjanesi síðan: Jón Gunnlaugsson sem lézt þar 23. okt. 1902, en þá sat ekkja hans þar eitt ár unz hún flutti til Reykjavíkur. Hún hét Sigurveig Jóhannsdóttir.

Vitaverðir á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

3. Þórður Þórðarson 1902—1903.
4. Jón Helgason, áður vitavörður á Garðskaga, 1903—1915, síðar bóndi á Stað í Grindavík. Kona hans: Agnes Gamalíelsdóttir.
5. Vigfús Sigurðsson (Grænlandsfari í leiðangri dr. Wegeners) 1915—1925. Kona hans: Guðbjörg Árnadóttir.
6. ólafur Pétur Sveinsson, 1925—1930.
7. Jón Ágúst Guðmundsson, 1930 til dauðadags, 11. ágúst 1938.
8. Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Ágústs, 1938—1943.
9. Einar Jónsson, sonur Jóns og Kristínar 1943—1947. Hafði gengt vitavarðarstarfinu frá andláti föður síns, en á ábyrgð móður sinnar til 1943.
10. Sigurjón Ólafsson frá 1947 og síðan.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Auðvitað höfðu allir vitaverðir vinnumenn eða aðstoðarmenn, sem voru þeirra önnur hönd við vitavarðarstarfið því oft hefur þurft að hafa sig allan við er napur vindur næddi og ýlfraði um vitann. (Ofangreind upptalning er úr apríl-blaði Faxa 1962 frá Mörtu V. Jónsdóttur).
Reykjanesvitinn sýndi það glögglega, hve mikils virði var að hafa Ijós fyrir sjófarendur á yztu nesjum, en reynslan um viðhald og kostnað hefur sennilega dregið allan framkvæmdahug úr mönnum, svo nokkur tími leið þar til næst var komið upp ljósi fyrir sæfarendur. Var rekstri vitans á Reykjanesi í mörgu ábótavant og fór í ólestur. „Var og lítil þekking á því hvernig hreinsa skyldi hin margbrotnu gler og annað“, segir í Sögu Íslands. Árið 1887 eyðilagðist ljósabúnaður vitans í miklum jarðskjálfta er þá gekk yfir. Og 1896 var vitinn farinn að lýsa mjög illa, og var hingað til þess að athuga hvað gera skyldi. „Þótti honum sem lítið gagn væri í að setja upp góða og dýra vita ef ekki væri séð um að hafa kunnáttumenn við reksturinn. Gegn loforði um, að séð skyldi fyrir því, var hafizt handa um að setja ný ljós í Reykjanesvitann, rannsaka hvar á landinu væri mest þörf á vitum og loks að reisa fyrstu vitana. Voru settir vitar á Garðskaga (1884 hafði verið sett þar upp ljósmerki) og Gróttu, en lengra komust þau mál ekki fyrr en gerð var áætlun, 1905, um 7 nýja vita“. Má hér glöggt greina þann fjörkipp er vitabyggingar taka við komu heimastjórnarinnar 1904.“ – Keflavík, 11. nóv. 1973. Skúli Magnússon.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 35. árg. 1973, 11.-12. tbl., bls. 359-361 og 384-385.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

„Vorið 1878 var byrjað á byggingu vita á Reykjanesi. Stóð fyrir smíði hans danskur verkfræðingur, Rothe að nafni. Sá viti var byggður yzt á Reykjanestá, en íbúðarhús vitavarðar stóð í kvosinni undir Bæjarfellinu, sem nýi vitinn var síðar reistur á, var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum.
Reykjanesviti 1962Þótti það karlmennskuverk að gæta vitans. Þessi viti, sem myndin sýnir, var byggður 30 árum síðar en gamli vitinn, en þá var undirstaða hans, kletturinn, orðin svo ótrygg og sprungin frá aðalberginu, að ekki þótti fært að láta svo búið standa. Aukaviti var einnig reistur á Skarfasetri, slóðum gamla vitans, þar eð Skálafell skyggir á aðalvitann á mjóu belti á siglingaleið skipa, er að austan koma. — Fyrsti vitavörður var Arnbjörn Olafsson, síðar kaupmaður í Keflavík. Flutti hann að Reykjanesi ásamt systur sinni Sesselju Ólafsdóttur, 1878, er byrjað var á vitabyggingunni. Hann fékk veitingu fyrir vitavarðarstarfinu 1. desember 1879 og hélt þeim starfa til 1884. Kona hans var Þórunn Bjarnadóttir, systir séra Þorkels á Reynivöllum.
Reykjanesviti-9212. Jón Gunnlaugsson, skipasmiður, var vitavörður 1884 til dánardægurs, 23. okt. 1902. Ekkja hans Sigurveig Jóhannsdóttir, fluttist til Reykjavíkur 1903.
3. Þórður Þórðarson 1902 til 1903.
4. Jón Helgason, áður vitavörður á Garðskaga, 1903 til 1915, síðar bóndi á stað í Grindavík. Kona hans Agnes Gamalíelsdóttir.
5. Vigfús Sigurðsson (Grænlandsfari í leiðangri dr. Wegeners), 1915 til 1925. Kona hans Guðbjörg Árnadóttir.
6. Ólafur Pétur Sveinsson 1925 til 1930.
7. Jón Ágúst Guðmundsson 1930 til dánardægurs, 11. ág. 1938.
Reykjanesviti-9078. Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Ágústs, 1938 til 1943.
9. Einir Jónsson, sonur Jóns Agústs og frú Kristínar, 1943 til 1947. Hafði hann gegnt vitavarðarstarfi frá andláti föðurins, en á ábyrgð móður sinnar til 1943.
10. Sigurjón Ólafsson 1947 og síðan.
Að sjálfsögðu höfðu allir vitaverðirnir vinnumenn, sem voru þeirra önnur hönd við vitavarðarstarfið. Hér er ekki rúm til að gera vitavörðunum og fjölskyldum þeirra verðug skil, en hetjudug þurfti til að búa á Reykjanesi, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir auðnina þangað né sími. M. V. J.“

Sjá meira um Reykjanesvita HÉR.

Heimild:
-Faxi, 22. árg., 1962, 4. tbl., bls. 49.

Reykjanes

Reykjanes.

Reykjanesviti

Í minnum manna skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs – allt frá víxlu hans hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár.
Reykjanesviti-fyrsti vitinn 1878Merkið þótti bæði stórt og myndarlegt, enda bæði góður vitnisburður um tilvist konungs og viðurkenningu hans á mikilvægi mannvirkisins. Hjá sumum hefur jafnvel sú minning lifað að konungur hafi sjálfur komið hingað til lands og verið viðstaddur afhendingu skjaldarmerkisins. Fyrir því stendur þó enginn stafur í skráðum heimildum. Í dag er ekki að sjá ummerki eftir skjaldarmerkið á vitahúsinu. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða eftirfarandi skrif. –
Í „Sjómannablaðinu“ árið 1998 má lesa eftirfarandi um fyrsta vitann á Íslandi: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Valahnúk á Reykjanesi. Það var hinn 1. desember 1878 að kveikt á Reykjanesvitanum og hann þar með tekinn formlega í notkun. Árið 1897 voru gerðar endurbætur á Reykjanesvita, en hann var orðinn illa farinn, einkum vegna jarðhræringa.
Jarðhræringarnar urðu það afdrifaríkar fyrir Reykjanesvitann að árið 1907 var svo komið, að verulega hafði hrunið úr Valahnúknum og ekki nema 10 m frá vitanum fram á brún, en holt undir og allt sundursprungið. Neitaði vitavörðurinn að vaka í vitanum, og var úr því ákveðið að byggja nýjan vita á Bæjarfelli [Vatnsfelli], sem er hóll nokkru ofar en Valahnúkur. Var nýi vitinn var reistur árið 1908, úr grjóti og steinsteypu, 22 m á hæð upp á pall, sívalur að innan, 2.5 m í þvermál, en keilumyndaður að utan, 9 m í þvermál neðst en 5 m efst. Er því veggþykktin 3.25 m neðst og 1.25 m efst“.
Í „Sjómannablaðinu Víkingur“ árið 1978 var þetta skrifað: „Fyrsti vitinn hér við land var Reykjanesviti, en hann var byggður 1878 og var kveikt á honum 1. desember það ár. Síðan gerðist ekkert fyrr en 1897, en þá voru byggðir þrír Reykjanesviti 1944vitar. Þeir voru Garðskagaviti, Gróttuviti og vitinn sem stóð í Skuggahverfinu í Reykjavík. Upp úr aldamótunum fer svo þróunin að verða nokkuð hröð. Á þessum upphafsárum voru olíulampar ljósgjafinn í vitunum og brenndu þeir steinolíu.
Olíulamparnir kröfðust mikillar natni af vitavörðunum, sem auk þess að sjá um að næg olía væri fyrir hendi urðu að gæta þess að halda kveiknum og lömpunum hreinum og svo framvegis. En þess ber að geta að um aldamótin var ljósabúnaðurinn sérlega vandaður og mikið í hann lagt. Þetta var hreinasta völundarsmíð. Allt gler var handslípað, svo sem ljósakrónurnar og ljósbrjóturinn sem magnar upp ljósið. Þessi tæki eru enn í notkun sums staðar úti á landi, orðin hátt í aldargömul, en tvö þau elstu eru geymd sem safngripir á Siglingastofnun. Annað er úr eldri Garðskagavita og er frá 1897, en að sjá sem nýtt væri.“
Reykjanesviti-sjoldur-2Í „Óðni“ árið 1907 er sagt frá konungsskiptum í Danmörku: „Fyrir rjettu ári flutti »Óðinn« mynd Kristjáns konungs IX., sem, eins og kunnugt er, andaðist 29. jan. síðastl. og blöð okkar hafa einróma talið Íslandi allra konunga bestan. Friðrik konungur er fæddur 3. júní 1843, en Lovísa drotning 31. okt. 1851.“
Í „Skólablaðinu“ árið 1912 er þess getið að Friðrik VIII hafi dáið þann 14. maí 1912.
Í „Bjarma“ árið 1907 segir: „Hans hátign Kristján X. tók við konungdómi 15. maí 1912, þegar hinn vinsæli konungur Friðrik VIII. féll svo sviplega frá.
Fyrstur konunga vorra hafði faðir hans, Kristján IX., heimsótt land vort, á þjóðhátíðinni 1874, þegar hann kom með frelsisskrá í föðurhendi. Enginn Danakonungur hafði fyr stigið fæti á frónska grund. Friðrik VIII. heimsótti land vort, sumarið 1907. Þá voru sjálfstæðismál þjóðarinnar efst á baugi. Þá voru ungmennafélögin í uppsiglingu og fánamálið framarlega á dagskrá. Friðrik VIII. talaði í veizlu á Kolviðarhóli, um »ríkin tvö«, og þótti Íslendingum það vel mælt, en Dönum miður. Friðrik konungur hafði mikinn áhuga fyrir því, að látið væri að óskum Íslendinga um meira frelsi. En tilraunir þær, sem gerðar voru í hans tíð, mishepnuðust, og svo féll hann sviplega frá 1912.“
„Heimilisblaðið“ 1937: „Hinn 10. þ. m. kemur Friðrik IX. Danakonungur og Ingiríður drottning hans í opinbera heimsókn til Íslands, og er þetta sjöunda konungskoman í sögu landsins, en FReykjanesviti-skjoldur-3riðrik IX er fjórði konungurinn, sem sækir landið heim. Fyrstur kom langafi hans, Kristján IX., á þúsund ára afmæli byggðar landsins 1874; þá afi hans, Friðrik VIII., árið 1907 og loks faðir hans, Kristján X., en hann kom fjórum sinnum til Íslands í valdatíð sinni, árin 1921, 1926, 1930 og 1936.“
Í „Sunnudagsblaðinu“ árið 1956 er sagt frá því að „þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita sem er 73 metra yfir sjávarmáli“.
Loks segir frá byggingu þriðja vitans á Reykjanesi í „Morgunblaðinu“ árið 1998: „Árið 1947 var síðan Litliviti byggður á bjargbrúninni skammt austan við Blásíðubás. Sama ár voru ný hús byggð yfir vitavörðinn í stað þeirra eldri, sem ummerki sjást ekki eftir í dag“.
Ekki er getið um skjöldinn í bókinni „Vitar á Íslandi“ frá árinu 2002. Hann (þeir) hangir uppi á vegg Siglingastofnunar að Vesturvör 2 í Kópavogi, tignarlegir á að líta og greinilega vel um haldið. Þegar FERLIR hafði samband við stofnuna brást starfsmaður hennar, Baldur Bjartmarsson, mjög  vel við; upplýsti um tilvist skjaldarins og gaf góðfúslega kost á ljósmyndun hans.
Skjöldurinn sjálfur, sem er úr pottjárni og nánast mannhæðar hár, er með skjaldarmerki Kristjáns IX. og kórónu að ofan. Undir er spjald með áletrunni 1908 (MCMVIII). Til hliðar er annar skjöldur, minni, einnig úr pottjárni, með skjaldarmerki Friðriks VIII., en sá skjöldur hafði verið skrúfaður hafði verið yfir hinn.
Reykjanesviti-skjoldur-4Spjald við skjöldinn á vegg Siglingastofnunar: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Reykjanesi 1878 og endurbyggður á öðrum stað 1908. Þetta konungsmerki var sett á seinni bygginguna. Eftir að Friðrik VIII. tók við stjórnartaumunum var neðra merkið sett yfir það fyrra“.
Hafa ber í huga, samanber ofangreint, að Friðrik VIII. var konungur yfir Íslandi þegar vitinn var vígður, en ekki faðir hans Kristján IX., sem dó 1907. Líkast til hefur skjöldurinn þegar verið mótaður í tíð Kristjáns, en honum síðan breytt viðeigandi eftir andlát hans.
Að sögn Konráðs Óla Fjeldsteds man vel eftir skildinum á vitanum. Hann hefði verið settur upp í tilefni af víxlu hans 1908. Flaggað hafði verið með hárri flaggstöng og stórum dönskum fána á Stanghól gegnt vitavarðarhúsinu af því tilefni. Sjálfur hefði hann haldið að konungur, Friðrik VIII., hefði komið til landsins af því tilefni, en þó hafi það ekki verið víst, sjálfur væri hann fæddur 1943. Skjöldurinn hefði síðan hangið uppi allt þangað til vitinn var múraður síðast, líklega um 1970. Þá hafi skjöldurinn verið færður inn eftir og ekki sést síðan. Skjaldarmerki konungs hefði einnig verið á ljósakúplinum í vitanum. Áður hefði verið þar gaslukt, en konungur hefði einnig gefið nýtt ljósker í tilefni víxlunnar.
Þarna er kominn skýringin á skjaldarmerkinu sem og á þeim tveimur merkjum konunga Íslands sem og tilvist þess á nýjum stað.
Skjaldarmerkið verður 105 ára á þessu ári (ef miðað er við uppruna þess). Því má með sanni telja það til fornminja sbr. ákvæði þjóðminjalaga. Lagt er þó til að skjaldarmerkið (skjaldarmerkin) umrædda verði fært aftur á upprunalega sögustaðinn – á Reykjanesvitann, þar sem það myndi sóma sér vel og vekja forvitni og aðdáun ferðamanna á svæðinu um ókomna tíð.

Sjá má nánari umfjöllun um Reykjanesvita HÉR.

Heimild:
-Sjómannablaðið, 61. árg. 1998, 1. tbl., bls. 119.
-Baldur Bjartmarsson, Siglingastofnun.
-Sjómannablaðið Víkingur, Steingrímur Jónsson, 40. árg. 1978, 11.-12. tbl. bls. 21-26.
-Óðinn, 2. árg. 1906-1907, 1. tbl. bls. 2.
-Skólablaðið, 6. árg. 1912, 6. tbl., bls. 81.
-Bjarmi, 1. árg. 1907, 14. tbl., bls. 105.
-Heimilisblaðið, 26. árg. 1937, 5. tbl. bls. 67.
-Sunnudagsblaðið, 8. apríl 1956, bls. 129.
-Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 78.
-Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, Siglingastofnun, 2002.
-Konráð Óli Fjeldsted, f. 1943, Reykjanesbæ, sonur Sigurjóns Ólafssonar vitavarðar í Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Reykjanesviti

Þótt í dag liggi malbikaður vegur út að Reykjanesvita, bæði frá Grindavík og Höfnum, er alls ekki svo langt síðan að þangað var gerður akvegur.
Reykjanesvegir-22Áður lá reið- og samliggjandi vagnvegur frá Kalmannstjörn allnokkuð ofan Hafnarbergs út á Reykjanes, en það var ekki fyrr en á árunum 1926-1928 að ruddur var vegur frá Reykjanesvita að Stað við Grindavík. Eftirfarandi má t.d. sjá í Alþýðublaðinu árið 1926 undir fyrirsögninni „Vegarbætur“:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna.
Reykjanesvegir-23Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni – vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um. Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast. eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni.
Reykjanesvegir-24Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla Ieiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi. Sá hlutinn, sem hær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt Reykjanesvegir-25of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927. Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. — Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1960 er einnig fjallað um framangreinda vegagerð: „Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. — Við Reykjanesvegir-26okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans…. Við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita… Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fremur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í baráttunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni [Gamalíal Jónsson] er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti manndómsþrek sitt.
Reykjanesvegir-27Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hann í ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, en eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
…Nú er að hyggja að öðru og þá fyrst og fremst veginum til vitans. Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926—’28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bíllinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann. þótt fenni. Það er á tveim stöðum, sem hættast er við snjóþyngslum. „Það er hérna austur undir Stað í gjá,“ segir Manni, „en þar mætti breyta veginum, leggja hann uppi á barðinu í stað þess að fara ofan í gjána, og svo er það Lynghólahraunið sem er farartálmi. En það ætti ekki að vera mikið að ryðja það með þessum stórvirku tækjum. Þetta er ekki nema örstuttur Reykjanesvegir-28spotti,“ bætir hann við.
Framundan er nú óbyggð eyðimörk, allt út að vita. Þetta er ábyggilega ein mesta grjótkista landsins. Við rétt sníglumst áfram. Umhverfis er bara hraun og hraun og aftur hraun. Ekkert lífsmark, enginn fugl, enginn hrafn og ekki einu sinni tófa. En jafnvel í þessari auðn ríkir máttur vanans, því að hinn ágæti bílstjóri kveikir á stefnuljósi, þegar hann skrönglast fyrir hraunbeygjurnar. Eina kennimerkið eftir nokkuð kvikt eru spor í snjónum í vegarhvörfunum, en þau spor eru bara eftir Manna og hundana hans… Bíllinn tekur geisilegan hnykk. Það hefur verið þarna gjóta í vegarhvarfi, sem bílstjórinn hafði ekki komið auga á, því varð hann að snarbeygja. Það var auk þess runnið svo úr veginum, að önnur vegbrúnin var gersamlega horfin og skriðin í burtu. Ég spyr, hvort ekki hafi neitt verið unnið að lagfæringu vegarins í haust. Reykjanesvegir-29„Það var ekið í hann einn dag á leiðinni út til mín,“ svarar Manni stuttaralega.
Við ræðum vegarspursmálið fram og aftur, nauðsyn vegarbótar, og Manni lýsir, með hvaða hætti skuli framkvæma hana, og honum farast orð eitthvað á þessa leið: „Það mesta, sem þarf að laga, er bara að aka ofan í veginn frá Reykjanesi og austur á Bása. Það er búið að aka ofan í að Hveravöllum, og það þarf að halda því áfram frá Hveravöllum austur á Bása. Svo er eins og kílómeterslengd, sem þarf að gera eitthvað meira við. Það eru sléttar klappir og vont að aka þær. Það þarf annað hvort að taka þar horn af og láta stórýtu vaða yfir hraunhornið ofar en vegurinn er og austur yfir Lynghólahraunið, en úr því þarf ekkert annað en aka ofan í það. Það er ódýrast.“ Ég finn, að Manna liggur þessi vegagerð mjög á hjarta, svo ég geng hreint til verks og spyr: „Og þú heldur sem Reykjanesvegir-30sagt, að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið gerður?“ Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvoru auga, er hann segir með þunga: „Já. Það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vörubíl… Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið Reykjanesvegir-31strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi. Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt,“ bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. — Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. — Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fór upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við björgunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trillu, en þarna björguðust 38 menn af franska togaranum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum… Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu sér að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax.
Við sáum það, þegar við vorum að koma Reykjanesvegir-32að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíking, Hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkinn. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu. Frúin helt, að Kínverjinn væri að geispa golunni, enda hafði hann ekki meiri mátt en svo, að ég gat haldið honum með annarri hendi í klofinu, á meðan eg risti utan af honum tuskurnar. Þeir lifnuðu svo við.“
Og Gamaliel Jónsson bóndi á Stað lýkur máli sínu með að segja: „Ég tel það hreinan glæp, að ekki skuli vera lagður þarna góður vegur. Hvert eitt mannslíf, sem bjargast, borgar þann veg að fullu.“
Þetta sagði hann bóndinn á Stað, sem í áratugi hefur skimað til hafs, þegar stormarnir æða fyrir suðurströndinni og jötuneflt brimrótið molar björgin á Reykjanesi… Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska: „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. ágúst 1926, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins, Birgir Kjaran: „Svipast um á Suðurnesjum“, 8. maí 1960, bls. 245-249.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Reykjanesviti

Gengið var um suðvestanvert Vatnsfellið og litið í fallegam brunn er hlaðinn er úr betonsgrjóti upp á dönsku. Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara varð.

Skálafell

Áletrun á Skálafelli.

Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.
Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund. Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.
Gengið var eftir flóraðri „vitagötunni“ að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir. Þegar hellirinn var myndaður birtist ókennileg mynd á skjánum (sjá myndir).

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.
Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.
Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.
Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Valahnúkur

Gata vitavarðarins að Valahnúk.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA), sjá myndasíðu. Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.
Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Reykjanes

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.
Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.
Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.

Reykjanes

Umhverfi Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.
Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.
Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.
Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.
Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.

Tóft austan Reykjanesvita.

Tóft austan Reykjanesvita.

Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.
Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum.

Reykjanesviti

Vitavarðastígurinn.

Portfolio Items