Færslur

Valahnúkur

Í bókinni “Sjómannasaga” eftir Vilhjálm Þ. Gíslason er m.a. sagt frá gamla Reykjanesvitanum: “Ein af helstu framfaramálum þessara umbrotaára fyrir aldamótin [1900], voru vita og hafnamál. Alla tíð hafði Íslandsströnd verið dimm og vitalaus, enda hafði einlægt verið reynt að haga millilandasiglingum svo, að þær lentu í langdegi og björtum nóttum.
Reykjanesvitinn 1878En vitanlega bar skip oft að landi í skammdegi og myrkri. Fiskimenn á vetrarvertíðum áttu oft harða sókn gegn hættum myrkursins. Þegar siglingar aukast og  skipaferðir með ströndum fram, vex vitanlega þörfin á því að fá ljósmerki og vita. Danska stjórnin tók fyrst þunglega óskum Íslendinga um vita. Undireins og Íslendingar fá sjálfir stjórn fjármála sinna, fara þeir að hugsa um vitabyggingar. Halldór Kr. Friðriksson og Snorri Pálsson hreifa málinu á Alþingi 1874 og Grímur Thomsen ljet þessi mál einnig til sín taka. Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi, bygður af Rothe, og var fyrst kveikt á honum 1. des. 1878. Vitinn kostaði tæpar 3 þús. krónur, en ljóstækin voru gefin frá Danmörku.
Arnbjörn Ólafsson var fyrsti vitaðvörðurinn og hafði hann kynt sjer vitavörslu í Danmörku. Vitavarðarlaunin voru 900 kr. á ári, en voru brátt hækkuð upp í 1200 kr. Síðan var Jón Gunnlaugsson lengi vitavörður (1884-1902). Nýr viti var reistur á Reykjanesi 1907-08. Reykjanesviti var lengi eini viti landsins. Upp úr 1880 er farið að veita 500 til 1000 kr. á ári til þess að koma upp ljósvörðum, en ekki var framkvæmdin meiri en svo, að þessar fjárveitingar voru ekki einægt notaðar. Árið 1884 var reist ljósvarða á Garðskaga. Einstakir útgerðarmenn beittu sjer fyrir framkvæmdum eða reistu vita á sinn kostnað eins og Otto Wathne á Dalatanga. Árið 1897 voru reistir vitar á Garðskaga, í Gróttu og í skuggahverfinu í Reykjavík. Jón Helgason var lengi vitaðvörður á Garðskaga, og síðan Ísak Sigurðsson, en Þorvarður Einarsson í Gróttu.”

Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 476-470.

Reykjanesviti í byrjun aldar

Reykjanesviti

Áhugaverðri sýningu um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi hefur verið komið upp í “Radíóhúsinu” neðan við vitann undir yfirskriftinni “Leiðarljós í lífhöfn”.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Eftirfarandi umfjöllun um sýninguna birtist í Víkurfréttum 23. okt. 2021:
„Þetta er skemmtilegt verkefni sem við byrjuðum á árið 2018 þegar við settum upp skjöldinn á Reykjanesvita og í framhaldi af því tókum við þetta húsnæði á leigu og höfum verið að taka það í gegn. Það hefur verið málað að utan sem innan og skipt um glugga.

Hallur J. Gunnarsson

Hallur J. Gunnarsson við nafnatöflu þeirra u.þ.b. 3400 Íslendinga, sem fórust á sjó á 20. öld.

Það er alveg draumur að sjá að þetta sé að smella,“ segir Hallur J. Gunnarsson sem fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita. Félagsskapurinn opnaði sýninguna Leiðarljós í lífhöfn – Saga Reykjanesvita og sjóslysa í gamla vélarhúsinu við Reykjanesvita á safnahelgi á Suðurnesjum. Sýningin er samstarfsverkefni Hollvinasamtaka Reykjanesvita og nágrennis og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri og hönnuður er Eiríkur P. Jörundsson.

Reykjanesviti

Upplýsingar um nöfn látinna Íslendinga á sjó á 20. öldinni.

Hallur bauð FERLIRsfélögum að skoða sýninguna, en hann fékk m.a. til liðs við Hollvinasamtök Reykjanesvita við uppsetningu sýningarinnar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – sýningin er í húsinu lengst t.h.

Sýningin á Reykjanesi er í húsi sem var byggt 1936 sem radíóviti en hefur lengi vel verið kallað vélarhús. Nú stendur til að merkja húsið sem radíóvita en auk sýningarrýmis er í húsinu salernisaðstaða fyrir ferðafólk sem leggur leið sína að Reykjanesvita.

Gríðarlegur tollur til Ægis konungs

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Eiríkur P. Jörundsson kom að uppsetningu sýningarinnar um Reykjanesvita og sögu sjóslysa við Reykjanesskagann. Hann segir efnið vera á sínu áhugasviði en Eiríkur skrifaði meistararitgerð um fiskveiðar við Faxaflóa og vann í áratug á Sjóminjasafninu í Reykjavík. „Ég þekki þessi mál vel og hef kynnst þeim og það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er svo gríðarlega mikil saga þegar við tökum sjóslysin inn í þetta og tengjum það við samfélagið sem er að breytast og uppbygging á þessu neti vita í kringum landið og hvernig menn hafa verið að bæta öryggi sjófarenda. Þetta var rosalegt á síðustu öld og reyndar um aldir. Árabátarnir fórust hér alveg umvörpum og þetta var mikið högg fyrir þessi litlu samfélög.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fjölmargir sjóskaðar hafa orðið við Reykjanesið í gegnum tíðina.

Á vegg hér á sýningunni verðum við með nöfn allra þeirra sem fórust í sjóslysum við Íslandsstrendur ár 20. öldinni. Það er gert sem virðingarvottur og að fólk átti sig á því hvað þetta er mikið fyrir þessa litlu þjóð. Megnið af þessum sjósköðum urðu á fyrri hluta aldarinnar. Þetta eru um 3.400 manns sem fórust á síðustu öld en það eru að jafnaði 35 manns á ári alla síðustu öld og þætti mikið í dag. Á fyrri hluta síðustu aldar voru þetta 54 sem fórust að meðaltali á ári á árunum 1900 til 1950 og þá var íslenska þjóðin innan við 180.000 manns. Þetta voru gríðarlegir tollar sem við vorum að greiða Ægi konungi fyrir afnot af hafinu og fiskimiðunum.“

Engum datt í hug að sigla til Íslands á veturna

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Efnisöflun fór landleiðina. Gjótið í fyrsta vitann, sem og í þann síðari, var unnið úr hraunhellu vestan Valahnúks.

Hversu mikið mál var það árið 1878 að reisa fyrsta vita landsins hér á Reykjanesi og af hverju var hann staðsettur hér?

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

„Það er gaman að segja frá því að þegar Íslendingar fengu sjálfstjórn og sitt eigið löggjafarþing og fjárveitingarvald árið 1874, þá var þetta eitt af fyrstu málunum á fyrsta þinginu að samþykkja byggingu vita. Fram að þeim tíma höfðu bara verið siglingar til landsins á sumrin og það datt engum í hug að sigla hingað frá Evrópu á veturna. Með vaxandi kaupmannastétt í lok 19. aldar þá fer að koma þörf fyrir vita því það vildi enginn sigla hingað yfir vetrarmánuðina nema það væri viti og í raun kom hvergi annars staðar til greina að setja vita en hér á Reykjanestánni. Hér koma menn upp að landinu og mikilvægt að það sjáist strax hér hvað þú ert staddur. Það var því ráðist í það strax að koma upp þessum vita því þessi siglingaleið fyrir Reykjanesið er hættuleg og flest skip sem voru að koma frá Evrópu voru á leið til Reykjavíkur. Menn fóru því í þetta brölt og fengu Dani með sér í lið. Danskur verkfræðingur hannaði vitann og sá um framkvæmdir hérna 1878 en þeir voru hérna allt sumarið og fram á haust. Þetta var gríðarlega erfitt. Þetta var afskekkt og hér var ekkert nálægt. Það var ekki hægt að lenda bátum í fjörunni og hestar þurftu að fara yfir úfið hraun. Það var ekki hægt að nota neitt grjót hér í kring því hér er bara hraun. Það þurfti því að flytja allt um langan veg. Það sem kom að utan var sett á land í Keflavík. Það var flutt á litlum bátum í land í Keflavík og þar dröslað upp á hesta sem fluttu það hingað á Reykjanes. Hér hýrðust menn í tjöldum, hátt í tuttugu manns allt sumarið, og sá danski kvartaði yfir því meira og minna allt sumarið að það væri alltaf kolvitlaust veður. Þetta gekk því ekki eins hratt og menn ætluðu sér en þetta tókst og það var kveikt á vitanum 1. desember 1878 og þá var fyrsti viti landsins kominn í gagnið,“ segir Eiríkur.

Margir að uppgötva þetta svæði í dag

Reykjanesviti

Reykajnesviti 1915.

Hallur fer fyrir Hollvinasamtökum Reykjanesvita og segist hafa haft áhuga á sögu og minjum allt frá barnæsku. Í gegnum Sögu- og minjafélag Grindavíkur hafi áhuginn á Reykjanesvita vaknað. Fyrir nokkrum árum hafi hann, ásamt Ólafi Sigurðssyni, farið og skoðað konungsskildina sem voru á Reykjanesvita á Bæjarfelli þegar hann var reistur. Þar hafi boltinn farið að rúlla og ákveðið að stofna sérstakt félag um verkefnið á Reykjanesi, sem var uppsetning á konungsskjöldunum, sýningin í radíóvitanum og framtíðardraumurinn er, að sögn Halls, að semja við Vegagerðina, sem á og rekur Reykjanesvita, um að þar verði leyfilegt að taka á móti fólki og hleypa því upp í vitann.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjóthleðsla neðan Valahnúks.

„Svo vitum við að Reykjanes Geopark er búinn að undirbúa gönguleiðir um svæðið en á þessu svæði er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Það eru til dæmis ennþá til steinar hérna úr fyrsta vitanum sem mætti færa til, raða upp og gera eitthvað skemmtilegt með,“ segir Hallur og Eiríkur bætir við: „Það eru margir að uppgötva þetta svæði í dag. Við erum hérna í október og það er stöðugur straumur af fólki hérna, ferðamönnum. Þegar við fórum að grúska í þessari sögu þá kemur í ljós að vitinn hérna varð strax vinsæll til heimsókna. Menn voru að koma hérna á sumrin og fá að skoða vitann. Ásóknin var svo mikil að vitaverðir voru farnir að kvarta undan þessu því það tók frá þeim tíma að vera alltaf að taka á móti gestum og svo þurfti að bjóða uppá kaffi og með því, þannig að þetta voru heilmikil útgjöld fyrir vitaverðina. Vitaverðir sóttu því um heimild fyrir því að selja inn í vitana. Það var leyft og jafnframt var sett reglugerð hvernig á að meðhöndla þessa gesti.“

Í gegnum tíðina hafa orðið hér mörg alvarleg sjóslys.
„Já og við verðum með sjóslysakort hérna sem var unnið fyrir okkur og munum sýna alla sjóskaða sem orðið hafa við Reykjanesið og þeir eruu gríðarlega margir því ég held að það hafi hvergi á landinu orðið fleiri sjóskaðar en við Reykjanes. Þetta var algeng siglingaleið og svo var vetrarvertíðin hér í skammdeginu og versta veðrinu,“ segir Eiríkur.

Stórslys á forsíðum blaðanna

Reykjanesvit

Reykjanesviti – Frásögn af slysi Jóns forseta.

Á sýningunni í Radíóvitanum á Reykjanesi eru m.a. forsíður dagblaða frá síðustu öld þar sem sagt var frá stórum sjóslysum. Meðal annars er sagt frá strandi Jóns forseta á Stafnesi. Þar fórst öll áhöfnin en í landi stóðu menn og horfðu á og gátu ekkert gert. Slysið við Stafnes varð endanleg kveikja þess að stofnaðar voru slysavarnadeildir um allt land.

Reykjanesviti

Fróðleikur um fyrrum vitaverði á Reykjanesi.

Á sýningunni á Reykjanesi er fjöldi ljósmynda og upplýsandi og fróðlegur texti. Sýndar eru myndir af fyrsta vitanum á Valahnúk og einnig frá byggingu vitans á Bæjarfelli. Eins og í dag þá höfðu jarðskjálftar áhrif á Reykjanesi í gamla daga. Fljótlega, eða um ttuttugu árum síðar, var farið að huga að nýjum vita á Bæjarfelli því jarðskjálftar og brim höfðu áhrif á Valahnúk. Hrunið hafði úr klettinum og ef ekkert hefði verið að gert þá hefði vitinn fallið fyrir björg og í hafið.

Fyrsti vitavörðurinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – fyrsti vitavörðurinn.

Reykjanesviti þurfti mikla umhirðu fyrstu áratugina eins og vitar almennt á þeim tímum. Þar að auki var hann byggður á afskekktum stað og torfarið að komast að og frá vitanum. Því var ekki annað til ráða en að hafa starfandi vitavörð í fullu starfi sem byggi á staðnum og sinnti vitanum.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Þar sem vitagæslan þurfti að vera stöðug varð ekki komist hjá því að hafa þar a.m.k. tvo menn að störfum. Arnbirni Ólafssyni, fyrsta vitaverðinum, var skylt að halda aðstoðarmann og greiða honum kaup af árslaunum sínum. Honum þótti hins vegar launin lág og þegar haustið 1879 var kominn í hann brottfararhugur. Í bréfi hans til Jóns Jónssonar landritara segir hann að hann sé alltaf að sjá betur og betur að ómögulegt sé að „komast af með 2 menn til að gæta vitans, vegna þess að verði eitthvað að öðrum þeirra, eða þurfi að leita til byggða einhverra orsaka vegna, þá er ef til vill ekki fært öðrum en fullröskum karlmanni og þó valla að komist verði til baka aptur sama dag þegar stuttur er dagur. Þess vegna er óumflýjanlega nauðsynlegt að hafa 3ja mann yfir veturinn …“.

Þá féll Arnbirni illa að búa í þeirri miklu einangrun sem fylgdi vistinni. Þegar við bættist að brunnurinn varð stundum vatnslaus á veturna svo heimilisfólkið varð að láta sér nægja „klaka og skítugan snjó“ svo dögum skipti og torfþakið á vitavarðabænum lak svo hann varð fullur af sagga varð vistin lítt eftirsóknarverð. Arnbjörn sagði endanlega upp og fékk lausn frá embættinu 1. ágúst 1884. Við stöðunni tók Jón Gunnlaugsson skipasmiður og gegndi starfinu til ársins 1902.

Reglur um heimsóknir gesta í vita

Reykjanesviti

Í Stjórnartíðindum frá 1897 eru birtar reglur um heimsóknir í vita. Þar segir m.a.: „Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara.“

Veturnir voru oft langir og tilbreytingasnauðir á afskekktum vitastöðum líkt og lengi var á Reykjanesvita – en vitarnir urðu fljótt vinsælir til heimsókna á sumrin og jafnvel svo að vörðum þótti nóg um. Vitaverðir við Faxaflóavitana kvörtuðu undan því að þeir yrðu fyrir umtalsverðum töfum frá vinnu og hefðu þar að auki „eigi allsjaldan önnur óbeinlínis útgjöld við slíkar gestakomur samkvæmt gamalli íslenskri siðvenju“. Þeir fóru fram á heimild til að taka gjald af gestum og var það samþykkt árið 1910. Nokkrum árum fyrr höfðu verið gefnar út sérstakar reglur varðandi heimsóknir gesta í vitana, eins og fram kemur í Stjórnartíðindum frá 1897. Þar segir m.a.:

Reykkjanes

Skipsströnd utan við Reykjanes.

„Aðkomumenn skulu rita nöfn sín, stöðu og heimili í þar til gjörða bók, áður en þeim er sýndur vitinn. Ekki má hleypa fleirum inn í vitann en rúm leyfir. Vitavörður verður að leggja ríkt að við aðkomendur að snerta ekki á nokkrum áhöldum vitans, gæta þess að þeir séu ekki í votum klæðum, taki ekki með sjer göngustafi eða regnhlífar í vitann. Tóbaksreyking er öllum fyrirboðin í vitanum, bæði vitamönnum og öðrum; vitavörður skal biðja menn um að þurka af sjer á gólfmottunum, áður en þeir ganga um vitann, og brýna fyrir þeim að þeir megi ekki hrækja á gólfin, og hundar mega alls ekki koma í vitann. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræflalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna. Á þeim tíma, er logar á vitanum, leyfist engum aðkomandi manni að ganga í vitann.“

Um sýninguna á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti ~1960.

Um aldir, líkast til alveg frá landnámi, hafa Íslendingar þurft að færa Ægi konungi miklar fórnir. Annars vegar veitti hafið landsmönnum greiða för milli staða og landa og í djúpin sóttu menn í gullkistuna sem fiskimiðin hafa ætíð verið hér við land. Hins vegar voru siglingar og veiðar hættuspil, ekki síst yfir skammdegið þegar allra veðra var von. Sjóskaðar og manntjón voru daglegt brauð og oft voru hoggin stór skörð í lítil samfélög þegar skip og bátar fórust.

Bygging Reykjanesvita á Valahnúk árið 1878 markaði tímamót í siglingsögu landsins. Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að og umhverfis Ísland að frumvarp um byggingu vita var lagt fyrir á fyrsta löggjafarþinginu árið 1874, eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald. Ekki er að sjá að komið hafi til greina að reisa fyrsta vita á Íslandi annars staðar en á Reykjanesi, enda munu langflest skip sem til Íslands komu hafa átt erindi fyrir Reykjanes og leituðu því upp að suðvesturhorni landsins.

Reykjanesviti

Reykjanesviti í dag, okt 2021, “Radíohúsið” t.h.

Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er hrikaleg og erfið oft á tíðum að meðtaka en um leið er þetta saga hugrekkis og krafta sem tekst að leysa úr læðingi þegar aðstæður krefjast og menn þurfa að snúa bökum saman.

Reykjanesviti

Árið 1905 var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.
Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908.

Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í mikla og mikilvæga sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitum til að auka öryggi sjófarenda. Um leið gera aðstandendur hennar sér vonir um og fyrirætlan að sýningin vaxi og geri sögunni betri skil til lengri tíma. Til stendur að reisa þjónustu- og upplýsingamiðstöð í því magnaða umhverfi og náttúru sem umlykur Reykjanesvita og þangað á slík sýning mikið erindi.”

Heimild:
-Víkurfréttir – Laugardagur 23. október 2021 kl. 06:03; Leiðarljós í lífhöfn, Áhugaverð sýning um Reykjanesvita og sögu sjóslysa á Reykjanesi.
-Hallur J. Gunnarsson.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – upplýsingaskilti.

Reykjanes

Í Faxa árið 2020 er fjallað um “Skáldin í vitanum”:

Reykjanesviti
“Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.

Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr

Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.

Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon

Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.

Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.

Clam

Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.

Reykjanesviti

Í Morgunblaðið 2003 ritaði Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, um “Fyrsta vitann á Íslandi”:

Reykjanesviti

Reykjanesviti og vitavarðahúsið 1908.

“Um þessar mundir [2003] eru liðin 125 ár frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján Sveinsson segir frá tildrögum vitabyggingarinnar, fyrsta vitanum og fólki sem við þessa sögu kom.

Næturmyrkrið lagðist yfir Reykjanesið og Valahnúkinn um nónbilið 1. desember 1878. Eins og um aldir og árþúsundir rökkvaði og kennileiti landsins máðust smám saman út í samfelldan sorta. En þetta var tímamótadagur á Reykjanesinu og þótt það væri ekkert um veisluhöld eða tilhald á Valahnúknum, svo langt sem hann nú var frá öllum byggðum bólum, hefur áreiðanlega verið hátíðarsvipur á Arnbirni Ólafssyni vitaverði einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum, því þetta var vígsludagur vitans og formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.

Íslensk síðþróun í vitamálum

Reykjanes

Reykjanes.

Vitar höfðu logað árhundruðum saman á ströndum Evrópulanda þegar Reykjanesvitinn var byggður og hvernig stóð á þessu seinlæti í vitamálum hinnar norðlægu eyjar?
Jú, landið var afskekkt, strjálbýlt og fámennt, efnahagur íbúanna oftast ekki ýkja beysinn og atvinnuhættir fábreyttir og frumstæðir. Þessar skýringar hafa oft heyrst og sést áður í mati á fortíðinni, jafnvel svo oft að þær hljóma gjarnan sem klisja, en hvað vitana áhrærir eru ekki aðrar nærtækari.

Reykjanesviti

Brunnur undir Bæjarfelli.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hversvegna stjórnvöld í Danmörku höfðu ekki frumkvæði að vitabyggingum á Íslandi því Danir voru meðal fremstu vitaþjóða í Evrópu. En áhrif og atbeini danskra stjórnvalda hér á landi voru í raun ætíð takmörkuð og það átti við á þessu sviði einnig. Og auk þess hafði stjórn danska ríkisins um langt skeið þá stefnu að byggja ekki vita fyrir almannafé annars staðar en þar sem þeir þjónuðu almennri skipaumferð og leit þá einkum til hinna fjölförnu skipaleiða um sund og belti við Danmörku.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Sveitarfélög í Danaveldi urðu að standa straum af innsiglingar- og hafnarvitum og vitum sem einkum komu fiskimönnum að notum. Það sem skýrir byggingu elsta Reykjanesvitans árið 1878 eru kröfur Íslendinga um siglingar millilandaskipa að vetrarlagi. Þær áttu sér rætur í því að efnahagur landsmanna fór batnandi á síðari hluta 19. aldar eftir því sem sjávarútvegur efldist og þróaðist og verslun jókst.

Þéttbýlisstaðir fóru að myndast og vaxa við ströndina þar sem þorskurinn í sjónum og krambúðir kaupmanna löðuðu til sín vaðmálsklætt sveitafólkið sem brá sér í skinnklæði sjómanna og sótti golþorska á fiskimiðin sem urðu að gullþorskum og síðan að kaffi, hveiti, silki, sirsi, tóbaki og tölum í krambúðum kaupmannanna. Eitt af meginöflum nútímans komst á kreik – tískan. Það var annað lag á dönsku skónum í ár en í fyrra. Gaberdínið með öðru móti í vor en síðasta haust svo ekki væri nú minnst á slifsin og hattana. Það var alveg orðið ólíðandi að þurfa að þrauka allan veturinn án þess að það kæmi nýr varningur í verslanirnar.

Reykjanesviti

Gata vitavarðar á milli bústaðar og gamla vitans á Valahnúk.

Það voru bæði kaupmenn og viðskiptavinir sammála um. Og það var ekki nóg að endurnýjast hið ytra með skæðum og klæðum. Sálartetrið þurfti líka sína hressingu og endurlífgun. Já, einmitt, fréttir. Umræðuefni. Það gat ekki náð nokkurri átt að það skyldu geta liðið þrír eða fjórir mánuðir án þess að tíðindi bærust utan úr þeim heimi handan úthafsins sem sífellt fleiri Íslendingar höfðu áhuga á. Það lá við að heilu stríðin færu fram hjá fólki og kóngar og keisarar gátu legið dauðir vikum og mánuðum saman áður en hægt var að segja svo mikið sem „jahá“ eða „jamm“ yfir því á Íslandi, hvað þá biðja vesalingnum fararheilla í eilífðina. Nei, það var ekki hægt að þola það lengur í þorpi og bæ að póstskipið sigldi ekki yfir veturinn.

En var þá ekki bara hægt að láta kaupskipin og póstskipið sigla á veturna? Nei. Norður í þetta órofa heimskautamyrkur stefndi enginn heilvita maður skipi.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Jafnvel ekki þótt rausnarlegt endurgjald væri í boði því hvern fýsir að verða skipreika við úfna, illviðrasama, mannauða og koldimma strönd, en á því voru mestar líkur ef lagt var í svona háska töldu skipstjórar og forráðamenn skipafélaga. Þarna norðurfrá var hvergi ljósglætu að sjá og vindgnauðið oftast svo mikið að það heyrðist ekki í brimgarðinum fyrr en rétt áður en komið var í hann. Hvernig á að varast svo fláa strönd? Hvað ef það væri viti, spyrja kaupmenn og póststjórn. Jú, það myndi breyta málinu svara skipstjórar og útgerðarmenn. Þó að það væri ekki nema einn svo það sé í það minnsta hægt að finna þennan Faxaflóa sem flestir fara til þarna uppi.

Vitamál hefjast á Alþingi

Reykjanesviti

Merki Friðriks VIII, á Reykjanesvita.

Með setningu stöðulaganna árið 1871 og stjórnarskránni sem Kristján IX Danakóngur hafði með sér til Íslands í sumarheimsókn sinni árið 1874 fékk Alþingi fjárveitingarvald og gat farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framkvæmdir í landinu. Fyrsta þingið sem þetta vald hafði kom saman í húsakynnum Lærða skólans í Reykjavík sumarið 1875 og þar hófust íslensk vitamál.
Þetta upphaf fólst á rökréttan hátt í því að tveir þingmenn, þeir Snorri Pálsson þingmaður Eyfirðinga og Halldór Kristján Friðriksson þingmaður Reykjavíkur, fluttu frumvarp til laga um vitagjald þótt enginn væri vitinn. Hinir varfærnu þingmenn vildu með þessu tryggja fjárhagslegan grundvöll vitabyggingar og vitareksturs áður en þeir legðu til að tekist væri á við þau verkefni. Frumvarp þeirra datt raunar upp fyrir á þessu þingi, en varð til þess að farið var að undirbúa byggingu á vita á Reykjanesi.
Vert er að veita þingmönnunum tveimur og bakgrunni þeirra nokkra athygli, en báðir komu þeir af þéttbýlustu svæðum landsins þar sem uppgangur var í sjávarútvegi og verslun.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Snorri Pálsson (1840–1883) hafði bæði fengist við verslunarrekstur og útgerð fiskiskipa við Eyjafjörð auk þess sem hann hafði verið forstöðumaður fyrir Siglufjarðardeild „Hins eyfirzka ábyrgðarfélags“ sem var tryggingarfélag fyrir fiskiskip við Eyjafjörð. Snorri var því vel kunnugur því hversu torvelt það var að fá skip til að sigla til Íslands að vetrarlagi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Hann var einnig vel kunnugur hættunum sem fylgdu því að sækja sjóinn við Ísland. Í lok maí 1875, aðeins nokkrum vikum áður en Snorri tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti, fórst eitt af hákarlaskipum hans í aftakaveðri sem þá gerði við Norðurland og með því 11 menn. Alls fórust 25 manns úr nágrenni Snorra í þessu veðri, þar á meðal bróðir hans.

Halldór Kristján Friðriksson (1819–1902) var kennari og yfirkennari við Lærða skólann en auk þess bæjarstjórnarmaður í Reykjavík og alþingismaður um langt skeið. Áhugamál hans voru fjölþætt og hann lét víða að sér kveða í félagsmálum, meðal annars var hann lengi forseti „Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins“, en ef að líkum lætur voru það einkum afskipti hans af bæjarmálefnum í Reykjavík sem ollu því að hann gerðist talsmaður vitabygginga því siglingaleysið yfir veturinn stóð orðið atvinnulífi í bænum fyrir þrifum.

Reykjanesvitinn 1878

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Vitagjaldsfrumvarp þeirra Snorra Pálssonar og Halldórs Kr. Friðrikssonar varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. Ekki er að sjá að komið hafi til álita að reisa fyrsta vita landsins annars staðar en á Reykjanesi, enda komu langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins. Málið var borið undir C.F. Grove, vitamálastjóra Dana, sem lýsti þeirri skoðun sinni að einmitt af fyrrgreindum ástæðum væri mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Alþingismenn reyndust áhugasamir um að byggja vita á Reykjanesi með hliðsjón af hugmyndum danska vitamálastjórans en sameiginlegir sjóðir landsmanna voru rýrir að vöxtum og þekking á vitatækni var engin í landinu. Því var leitað til Dana um aðstoð og það féll í hlut skáldsins Gríms Thomsens, sem var formaður fyrstu fjárlaganefndar Alþingis, að greiða úr álitamálum í samskiptum Dana og Íslendinga á þessu sviði. Vitamál heyrðu undir danska flotamálaráðuneytið (Marineministeriet) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að danska ríkissjóðnum bæri engin skylda til að standa straum af kostnaði við vitabyggingu á Íslandi en þar sem áformaður viti myndi gagnast dönskum kaupskipum væri flotamálaráðuneytið tilbúið til að styrkja Íslendinga í þessari fyrirætlan. Varð sú niðurstaðan að hæfilegt framlag fælist í ljóshúsi úr eir og vitatæki, en vitabygginguna sjálfa yrðu Íslendingar að sjá um.
Sumarið 1876 var notað til að kanna væntanlegt vitastæði á Reykjanesi og aðstæður til byggingar þar. Tveir undirforingjar af varðskipinu Fyllu fóru þangað í könnunarferð í lok maí og leist best á að byggja vitann á Valahnúk, yst á Reykjanesinu. Nóg var þar af hraungrjóti til byggingarinnar, skrifuðu undirforingjarnir í greinargerð sinni, og rekaviður í fjörum sem bæði mætti nota við vitasmíðina og til eldsneytis.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið danskan verkfræðing, Alexander Rothe, til að undirbúa vitabygginguna á Reykjanesi og fór hann þá um sumarið til Íslands og tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðarbústað á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og 10. apríl skrifaði Nellemann Íslandsmálaráðherra Hilmari Finsen landshöfðingja og tilkynnti honum að samið hefði verið við Alexander Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðarbústaðar á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Rothe og vinnuflokkur hans tóku til starfa 6. júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari, Lüders að nafni, sem hafði annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Vitastæðið hafði verið ákveðið á Valahnúk og Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er gnótt af. En þegar Lüders múrarameistari tók að láta hamra og meitla gnauða á grjótinu molnaði það og reyndist alveg ónýtt byggingarefni.

Reykjanesviti

Gata niður að grjótnámu við Reykjanesvita.

Þá var tekið til bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg sem ásamt ýmsum öðrum töfum varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Honum þótti til dæmis vinnukrafturinn helst til óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap, og svo var veðurfarið á þessum útkjálka með eindæmum örðugt og óhagstætt fannst honum. Kannski var eitthvað til í því. Frásögn Gríms Thomsens bendir til þess, en fjárlaganefndarformaðurinn skáldmælti gerði sér ferð á Reykjanesið um sumarið að líta á vegsummerki og ritaði síðan í blaðið Ísafold sem hann ritstýrði um þessar mundir: Það er engin hægðarleikur að draga grjót að sjer upp á Valahnjúkinn og það steina sem 6–10 manns þarf til að hnosa þar upp; ekki er heldur ládeyðan þar dagslega, þegar lenda þarf með eitthvað, sem til vitans þarf, svo sem kalk og steinlím, vistir og áhöld. Þá gekk langur tími til að ná í vatn, gjöra brautir, höggva grjót niðri í fjöru, ef fjöru skyldi kalla, þar sem brimið beljar ár og síð, og verst af öllu hefur það reynzt, að margir dagar hafa fallið út, af því að ekki gat orðið úr verki uppi við vitaturninn fyrir stormi og óveðri. Það viðrar öðruvísi upp á Valahnúknum en niðri á Austurvelli.

Reykjanesviti

Persónur er komu við sögu fyrsta vitans.

Þótt Rothe yrði ýmislegt mótdrægt við byggingarframkvæmdirnar tókst að ljúka þeim um haustið og var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur með steinlími sem í var Esjukalk, en á þessum tíma var kalknám í Esjunni og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af. Einnig hafði verið byggður á Reykjanesinu bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var.
Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum. Vitinn stóð fram til ársins 1908.
Eins og kunnugt er þá er Reykjanesið jarðskjálftasvæði og urðu jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður neitaði að standa þar vaktir. Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907–1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Vitavörðurinn

Reykjanesviti

Arinbjörn Ólafsson, vitavörður.

Bygging og starfræksla fyrsta vitans í óbyggðum Reykjanessins hafði það í för með sér að til varð ný starfsgrein á Íslandi – vitaverðirnir. Starf þeirra var bindandi því ekki varð hjá því komist að halda stöðugan vörð um vitaljósið á logtíma vitans meðan notaðir voru olíulampar. Þess utan þurfti vitavörður að fægja og þrífa, fylla olíu á lampa og gæta vitans í hvívetna. Stundum var gestkvæmt og þá var ekki annað en sjálfsagt að leyfa „mönnum er skýra frá nöfnum sínum og heimilum, og sem ekki er ástæða til að gruna um neina ósiðsemi, að skoða vitabygginguna“. Það sagði erindisbréf vitavarðarins, en ölvaðir menn, óuppdregnir dónar sem hræktu á gólfin og hundspott þeirra máttu ekki stíga fæti í vitann.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Fyrsti íslenski vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson, trésmiður að iðn og hafði unnið við byggingu vitans sumarið 1878. Hann var fæddur 24. maí 1849 og var því rétt að verða þrítugur þegar hann flutti búferlum á Reykjanesið ásamt Sesselju systur sinni, en hún hafði einnig starfað við vitabygginguna þar sem hún var ráðskona. Áður en Rothe verkfræðingur hvarf af landi brott hafði hann veitt Arnbirni einhverja tilsögn í umhirðu vitans og meðferð vitatækjanna, en það er af varðveittum bréfum vitavarðarins að sjá að þessi kennsla hafi verið hálfgert í skötulíki og hann taldi sig vanbúinn til starfans af þeim sökum. Alþingi brást við beiðnum Arnbjörns um frekari vitamenntun og lét honum í té fjárupphæð til Danmerkurfarar. Þangað hélt hann vorið 1879 og nam vitavörslu fram eftir sumri.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesið var sannarlega afskekkt á þessum tímum og orðið nokkuð langt síðan þar var búið þegar vitavörðurinn settist þar að. Varla að það væri reiðvegur þangað út eftir og hægur vandinn að villast í hraunbreiðunni ef skyggni brást eitthvað. Jón Jónsson landritari og vitaeftirlitsmaður lét þetta þó ekki aftra sér frá því að takast á hendur heimsókn til vitavarðarins á jólunum árið 1880. Þessi ötuli embættismaður lagði upp frá Reykjavík á Þorláksmessu, gisti í Höfnunum og var kominn að vitanum síðdegis á jóladag. Þangað hafði hann fikrað sig í stjörnubjörtu veðri og skemmt sér við að telja vörðurnar á leiðinni. Þær voru alls 61 og á heimleiðinni kom sér vel að vita þetta því þá var snjóbylur og ágætt að geta talið vörður til að vita hvar maður var staddur. En það myndi ekki veita af einum 50 vörðum til viðbótar, taldi hann, ef menn ættu að geta verið vissir um að rata í hvaða veðri sem væri.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Jón landritari sá vitaljósið við níundu vörðu frá Höfnum talið og var harla ánægður með hvað það var skært. Það var öryggi og staðfesta í þessu ljósi sem róaði landritarahugann, en aðkoman, þegar í vitavarðarbústaðinn kom um kvöldmatarleytið, kom heldur betur róti á embættismanninn. Það kom nefnilega í ljós að þar sat hvert mannsbarn á bænum og át sinn jólamat, hver sem betur gat, líka vitavörðurinn og aðstoðarmaður hans. Arnbjörn vitavörður reyndi að afsaka sig með jólahátíðinni en landritari lagði ekki eyru við slíku hjali heldur benti honum á að „úr því eptirlitið ljeti ekki jólahátíðina aptra sjer að gæta skyldu sinnar væri vitaverðinum engin vorkunn að gera slíkt hið sama“. Hann fékk skriflega nótu og varð svo að skunda á vitavaktina.

Það var alla tíð gerð rík krafa um árvekni og samviskusemi vitavarða og flestir stóðu þeir vel undir því, einnig Arnbjörn Ólafsson þrátt fyrir jólamálsverðinn. Hins vegar hentaði ekki öllum sú mikla einangrun sem fylgdi búsetunni á vitavarðarstöðunum og það átti við um hann og fjölskyldu hans. „Það er annað vorhugi en vetrar,“ skrifaði Arnbjörn Jóni landritara haustið 1879 og vetrarkvíðinn er greinilegur í þessu bréfi hins unga vitavarðar sem hafði kvænst jafnöldru sinni, Þórunni Bjarnadóttur úr Skagafirðinum, um sumarið. Hvernig myndi ástinni reiða af í vetrarríki Reykjanessins?Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk

Það gekk bara vel því þau Arnbjörn og Þórunn héldu saman meðan bæði lifðu. En árið 1884 höfðu þau fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist þá til Reykjavíkur en nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí.
Um aldamótin 1900 átti Arnbjörn mikil viðskipti við enska togara og varð frumkvöðull í íslenskri togaraútgerð þegar hann fór fyrir hópi Íslendinga sem keypti fyrsta togarann, Coot að nafni, til Íslands árið 1905. Vegna viðskipta Arnbjörns áttu þau Þórunn heimili sitt erlendis um skeið, bæði í Danmörku og Englandi. Þórunn féll frá árið 1912 og Arnbjörn tveimur árum síðar.” -KS

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið 30. nóv. 2003, Kristján Sveinsson – Fyrsti vitinn á Íslandi, bls. 20-21.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.

Portfolio Items