Reykjanesviti

Í minnum manna skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs – allt frá víxlu hans hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár.
Reykjanesviti-fyrsti vitinn 1878Merkið þótti bæði stórt og myndarlegt, enda bæði góður vitnisburður um tilvist konungs og viðurkenningu hans á mikilvægi mannvirkisins. Hjá sumum hefur jafnvel sú minning lifað að konungur hafi sjálfur komið hingað til lands og verið viðstaddur afhendingu skjaldarmerkisins. Fyrir því stendur þó enginn stafur í skráðum heimildum. Í dag er ekki að sjá ummerki eftir skjaldarmerkið á vitahúsinu. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða eftirfarandi skrif. –
Í “Sjómannablaðinu” árið 1998 má lesa eftirfarandi um fyrsta vitann á Íslandi: “Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Valahnúk á Reykjanesi. Það var hinn 1. desember 1878 að kveikt á Reykjanesvitanum og hann þar með tekinn formlega í notkun. Árið 1897 voru gerðar endurbætur á Reykjanesvita, en hann var orðinn illa farinn, einkum vegna jarðhræringa.
Jarðhræringarnar urðu það afdrifaríkar fyrir Reykjanesvitann að árið 1907 var svo komið, að verulega hafði hrunið úr Valahnúknum og ekki nema 10 m frá vitanum fram á brún, en holt undir og allt sundursprungið. Neitaði vitavörðurinn að vaka í vitanum, og var úr því ákveðið að byggja nýjan vita á Bæjarfelli [Vatnsfelli], sem er hóll nokkru ofar en Valahnúkur. Var nýi vitinn var reistur árið 1908, úr grjóti og steinsteypu, 22 m á hæð upp á pall, sívalur að innan, 2.5 m í þvermál, en keilumyndaður að utan, 9 m í þvermál neðst en 5 m efst. Er því veggþykktin 3.25 m neðst og 1.25 m efst”.
Í “Sjómannablaðinu Víkingur” árið 1978 var þetta skrifað: „Fyrsti vitinn hér við land var Reykjanesviti, en hann var byggður 1878 og var kveikt á honum 1. desember það ár.
Síðan gerðist ekkert fyrr en 1897, en þá voru byggðir þrír Reykjanesviti 1944vitar. Þeir voru Garðskagaviti, Gróttuviti og vitinn sem stóð í Skuggahverfinu í Reykjavík. Upp úr aldamótunum fer svo þróunin að verða nokkuð hröð. Á þessum upphafsárum voru olíulampar ljósgjafinn í vitunum og brenndu þeir steinolíu.
Olíulamparnir kröfðust mikillar natni af vitavörðunum, sem auk þess að sjá um að næg olía væri fyrir hendi urðu að gæta þess að halda kveiknum og lömpunum hreinum og svo framvegis. En þess ber að geta að um aldamótin var ljósabúnaðurinn sérlega vandaður og mikið í hann lagt. Þetta var hreinasta völundarsmíð. Allt gler var handslípað, svo sem ljósakrónurnar og ljósbrjóturinn sem magnar upp ljósið. Þessi tæki eru enn í notkun sums staðar úti á landi, orðin hátt í aldargömul, en tvö þau elstu eru geymd sem safngripir á Siglingastofnun. Annað er úr eldri Garðskagavita og er frá 1897, en að sjá sem nýtt væri.”
Reykjanesviti-sjoldur-2Í “Óðni” árið 1907 er sagt frá konungsskiptum í Danmörku: “Fyrir rjettu ári flutti »Óðinn« mynd Kristjáns konungs IX., sem, eins og kunnugt er, andaðist 29. jan. síðastl. og blöð okkar hafa einróma talið Íslandi allra konunga bestan. Friðrik konungur er fæddur 3. júní 1843, en Lovísa drotning 31. okt. 1851.”
Í “Skólablaðinu” árið 1912 er þess getið að Friðrik VIII hafi dáið þann 14. maí 1912.
Í “Bjarma” árið 1907 segir: “Hans hátign Kristján X. tók við konungdómi 15. maí 1912, þegar hinn vinsæli konungur Friðrik VIII. féll svo sviplega frá.
Fyrstur konunga vorra hafði faðir hans, Kristján IX., heimsótt land vort, á þjóðhátíðinni 1874, þegar hann kom með frelsisskrá í föðurhendi. Enginn Danakonungur hafði fyr stigið fæti á frónska grund. Friðrik VIII. heimsótti land vort, sumarið 1907. Þá voru sjálfstæðismál þjóðarinnar efst á baugi. Þá voru ungmennafélögin í uppsiglingu og fánamálið framarlega á dagskrá. Friðrik VIII. talaði í veizlu á Kolviðarhóli, um »ríkin tvö«, og þótti Íslendingum það vel mælt, en Dönum miður. Friðrik konungur hafði mikinn áhuga fyrir því, að látið væri að óskum Íslendinga um meira frelsi. En tilraunir þær, sem gerðar voru í hans tíð, mishepnuðust, og svo féll hann sviplega frá 1912.”
“Heimilisblaðið” 1937: “Hinn 10. þ. m. kemur Friðrik IX. Danakonungur og Ingiríður drottning hans í opinbera heimsókn til Íslands, og er þetta sjöunda konungskoman í sögu landsins, en FReykjanesviti-skjoldur-3riðrik IX er fjórði konungurinn, sem sækir landið heim. Fyrstur kom langafi hans, Kristján IX., á þúsund ára afmæli byggðar landsins 1874; þá afi hans, Friðrik VIII., árið 1907 og loks faðir hans, Kristján X., en hann kom fjórum sinnum til Íslands í valdatíð sinni, árin 1921, 1926, 1930 og 1936.”
Í “Sunnudagsblaðinu” árið 1956 er sagt frá því að “þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita sem er 73 metra yfir sjávarmáli”.
Loks segir frá byggingu þriðja vitans á Reykjanesi í “Morgunblaðinu” árið 1998: “Árið 1947 var síðan Litliviti byggður á bjargbrúninni skammt austan við Blásíðubás. Sama ár voru ný hús byggð yfir vitavörðinn í stað þeirra eldri, sem ummerki sjást ekki eftir í dag”.
Ekki er getið um skjöldinn í bókinni “Vitar á Íslandi” frá árinu 2002. Hann (þeir) hangir uppi á vegg Siglingastofnunar að Vesturvör 2 í Kópavogi, tignarlegir á að líta og greinilega vel um haldið. Þegar FERLIR hafði samband við stofnuna brást starfsmaður hennar, Baldur Bjartmarsson, mjög  vel við; upplýsti um tilvist skjaldarins og gaf góðfúslega kost á ljósmyndun hans.
Skjöldurinn sjálfur, sem er úr pottjárni og nánast mannhæðar hár, er með skjaldarmerki Kristjáns IX. og kórónu að ofan. Undir er spjald með áletrunni 1908 (MCMVIII). Til hliðar er annar skjöldur, minni, einnig úr pottjárni, með skjaldarmerki Friðriks VIII., en sá skjöldur hafði verið skrúfaður hafði verið yfir hinn.
Reykjanesviti-skjoldur-4Spjald við skjöldinn á vegg Siglingastofnunar: “Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Reykjanesi 1878 og endurbyggður á öðrum stað 1908. Þetta konungsmerki var sett á seinni bygginguna. Eftir að Friðrik VIII. tók við stjórnartaumunum var neðra merkið sett yfir það fyrra”.
Hafa ber í huga, samanber ofangreint, að Friðrik VIII. var konungur yfir Íslandi þegar vitinn var vígður, en ekki faðir hans Kristján IX., sem dó 1907. Líkast til hefur skjöldurinn þegar verið mótaður í tíð Kristjáns, en honum síðan breytt viðeigandi eftir andlát hans.
Að sögn Konráðs Óla Fjeldsteds man vel eftir skildinum á vitanum. Hann hefði verið settur upp í tilefni af víxlu hans 1908. Flaggað hafði verið með hárri flaggstöng og stórum dönskum fána á Stanghól gegnt vitavarðarhúsinu af því tilefni. Sjálfur hefði hann haldið að konungur, Friðrik VIII., hefði komið til landsins af því tilefni, en þó hafi það ekki verið víst, sjálfur væri hann fæddur 1943. Skjöldurinn hefði síðan hangið uppi allt þangað til vitinn var múraður síðast, líklega um 1970. Þá hafi skjöldurinn verið færður inn eftir og ekki sést síðan. Skjaldarmerki konungs hefði einnig verið á ljósakúplinum í vitanum. Áður hefði verið þar gaslukt, en konungur hefði einnig gefið nýtt ljósker í tilefni víxlunnar.
Þarna er kominn skýringin á skjaldarmerkinu sem og á þeim tveimur merkjum konunga Íslands sem og tilvist þess á nýjum stað.
Skjaldarmerkið verður 105 ára á þessu ári (ef miðað er við uppruna þess). Því má með sanni telja það til fornminja sbr. ákvæði þjóðminjalaga. Lagt er þó til að skjaldarmerkið (skjaldarmerkin) umrædda verði fært aftur á upprunalega sögustaðinn – á Reykjanesvitann, þar sem það myndi sóma sér vel og vekja forvitni og aðdáun ferðamanna á svæðinu um ókomna tíð.

Heimild:
-Sjómannablaðið, 61. árg. 1998, 1. tbl., bls. 119.
-Baldur Bjartmarsson, Siglingastofnun.
-Sjómannablaðið Víkingur, Steingrímur Jónsson, 40. árg. 1978, 11.-12. tbl. bls. 21-26.
-Óðinn, 2. árg. 1906-1907, 1. tbl. bls. 2.
-Skólablaðið, 6. árg. 1912, 6. tbl., bls. 81.
-Bjarmi, 1. árg. 1907, 14. tbl., bls. 105.
-Heimilisblaðið, 26. árg. 1937, 5. tbl. bls. 67.
-Sunnudagsblaðið, 8. apríl 1956, bls. 129.
-Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 78.
-Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, Siglingastofnun, 2002.
-Konráð Óli Fjeldsted, f. 1943, Reykjanesbæ, sonur Sigurjóns Ólafssonar vitavarðar í Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.