Kaupstaðurinn Keflavík stendur við samnefnda vík er markast af Hólmsbergi að norðanverðu, af Vatnsnesi að sunnanverðu, og gengur inn úr vestanverðum Stakksfirði, en svo nefnist syðri hluti Faxaflóa, sem markast af Rosmhvalanesi og Kvíguvogastapa að austanverðu.
Heimafólk segir að fallegt sé í Keflavík – þegar vel viðrar. En þar gnauða líka vindar allra átt. Landsynningurinn og Útsynningurinn hlaupa óhindraðir yfir lágan skagann og norðanstormurinn stendur beint uppá víkina, – þá þeytist sjórokið yfir bæinn, og þeim, sem ókunnugir eru, finnst þá ömurlegt um að litast. Því miður endurspeglar þetta um of viðhorf heimamanna þegar þeir lýsa aðstæðum fyrir utanaðkomandi.
En svona hefur þetta verið frá aldaöðli, þeir bera því vitni klettarnir á Vatnsnesinu og Berginu, þeir eru brimsorfnir langt inn til lands. “Landið er til að láta sér þykja vænt um það. Með því einu er hægt að fá landið til að umbera mann.”
Jörðin Keflavík var ekki stór. Með sjávarsíðunni afmarkast hún að norðan af “Grófinni”, sem næst er Berginu, að sunnanverðu af Nástrandargróf, sem aðrir kalla Nærstrandar, eða þar sem nú er neðsti hluti Tjarnargötu.
Landamerkin að norðanverðu voru bein lína dregin úr Gróf upp í “Keflavíkurborg”, en svo nefnist gamall stekkur á holtinu upp af Garðvegi, rétt norðan við núverandi byggð, og þar er nú mælipunktur frá Landmælingum Íslands. Þaðan lá svo bein lína í átt að Kölku (sem var stór og mikil hvítkölkuð varða á Háaleitinu), þar til sjónlínu úr Nástrandarvörðu er skar hana í holtinu suðvestur af Iðavöllum.
Til suðurs frá Grófinni rís landið muög, svo að sjávarkanturinn nær allt að 6 metra hæð og gengur suður að svokallaðri “Stokkavör” þar sem uppsátur Keflavíkurbóndans hafði alltaf verið.
Upp af þessum sjávarkanti reis landið nokkuð og náði 9 metra hæð á áberandi hól, og þar fast fyrir sunnan mun bærinn hafa staðið eftir sögn elstu manna, en túninu hallaði frá bænum í allar áttir.
Marta Valgerður Jónsdóttir getur þess í grein í Faxa í maí 1947, til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, að greint hafi verið frá því, aðþar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldri Duus.
Þá hafa einnig verið sagðar sögur af miklum landspjöllum af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land og bakkarnir hrunið smátt og smátt fram.
Frá Stokkavör suður af Nástrandargróf reis landið aftur fram við sjóinn, og náði sjávarkanturinn þar enn um 6 metra hæð. Það urðu mikil landbrot á því svæði, sem ekki var stöðvað fyrr en 1949 er lokið var að gera steinsteyptan sjávargarð á verstu staðina.
Ekki er vitað hvenær búskapur hefur hafist í Keflavík, um það eru engar sagnir, en ætla má að það hafi verið nokkuð snemma, en sennilega hefur sá búskapur aldrei verið mikill, aðeins kotbúskapur sem að miklu leyti hafur byggst á útræði.
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir svo um Keflavík: “Hér er fyrirsvar ekkert, jarðardýrleiki óviss. Eigandi kongl. Majestat. Ábúandi Halldór Magnússon, landsskuld (þ.e. afgjald) 25 álnir, sem borgast 1 vætt og 2 fjórðungar fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum.
Við til húsábóta leggur ábúandinn. Kúgildi er ekkert. Inntökuskip eru hér engin, lending slæm. Engjar engar, úthagar í betra lagi og vatnsból í allra lakasta máta sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartímann.”
Samkvæmt jarðabók er hægt að gera sér grein fyrir að land jarðarinnar hafi verið ólíkt grasgefnara þá og fyrr, en varð á síðustu árum og hefur uppbástur eytt jarðvegi og gróðri á þeim tæpum 3 öldum, sem eru liðnar, því allt land fyrir ofan kauptúnið var orðið örfoka, en eldra fólk benti á þykk rofabörð eins og eyjur upp úr melunum með þéttum grasverði, sem sýnishorn af því sem verið hafði.
Í Faxa í maí 1947 segir MVJ um kvaðirnar á Keflavíkurbóndanum. “Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímanna, en svo sem kunnugt er. Hafði konungsvaldið eða umboðsmenn á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabestu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira.”
T.d. voru sumir Innnesjamenn skyldir til að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verslunarskipunum til Danmerkur.
Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni og Páll sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur verið laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verslunarhúsa hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur.
Í Setbergsannál er getið um Grím Bergsson í Keflavík er andaðist 8. janúar 1649 í einni heyótt á kvöldtíma. Grímur hafði fyrrum verið sýslumaður í Kjósasýslu. Hann bjó fyrst á Kirkjubóli á Miðnesi, síðan í Ytri Njarðvík og loks í Keflavík. Á meðan hann var í Ytri Njarðvík varð hann velgjörðarmaður Hallgríms Péturssonar. Tók hann þátt í að liðsinna Hallgrími þegar hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár með konuefni sitt Guðríði, en þau komu út í Keflavík.
Árið 1750 er í Keflavík einn meðalbær og lítið kot. Þegar bændamanntal er tekið 1762 býr þar Hannes Höskuldsson. Hann mun vera síðasti bóndinn í Keflavík og leggst jörðin undir verslunina þar eftir hans daga.
Hinn 27. júní 1792 var samkvæmt fyrirskipan Ólafs stiftamtmanns háð söluþing í Reykjavík þar sem hann bauð til kaups 24 konungsjarðir á Miðnesi. Jörðin Keflavík var þar á meðal. Hún var slegin kaupmanninum í Keflavík, Christen Adolph Jacobæusi fyrir 50 ríkisdali.
-Guðleifur Sigurjónsson – Keflavík í apríl 1985.