Merkinessel

Gengið var frá Stapafellsvegi með Arnarbælisgjá að Mönguselsgjá, sem sker Hafnaheiðina frá austri til vesturs. Það er um klukkustundar gangur.

Merkinessel

Merkinessel.

Norðan Mönguselsgjár, handan hárrar vörðu (gömul sandgræðslugirðing hefur legið skammt vestan vörðunnar), í dalverpi er opnast til norðurs, kúrði Möngusel. Selið hefur verið fremur lítið og er greinilega komið til ára sinna, en hleðslur voru heillegar. Stekkur er í sunnanverðu dalverpinu.
Þá var haldið til suðurs að Merkinesseli hinu yngra. Selið er undir lágum gjárbarmi og er þar allt, sem prýtt getur fallegt sel. Hleðslur húsa voru að hluta til alveg heilar, sjá mátti meira að segja gluggaop á einum veggnum. Stekkurinn var mjög heillegur og brunnur var greinilegur framan við selið. Það er sjaldséð í seljum á Reykjanesi. Húsin voru hlaðinn utan í gjárvegginn. Þetta er eitt fallegasta selið á svæðinu, sem enn hefur verið skoðað a.m.k.
Nokkur leit var gerð að Merkinesseli hinu eldra. Það fannst þó loks vestur undir Nauthól, skammt ofan við gróðurmörkin, en landið er mikið fokið upp sunnan til á Hafnaheiðinni.

Möngusel

Í Mönguseli.

Um er að ræða mjög gróðið sel og er það greinilega eldra en hið fyrrnefnda. Gróðurinn í selinu hefur haldið sér þrátt fyrir jarðvegseyðinguna. Þar hafa verið ein þrjú hús og stekkur. Að þessu seli fundnu var talin ástæða til að flagga á staðnum – á tóttum eitthundraðasta selsins, sem FERLIR skoðar á Reykjanesi.

Eftir tilbakagönguna var haldið að seli er vera átti við Stampana utar á Reykjanesi. Þar er landið algerlega fokið upp og lítið eftir. Á gömlu korti er selið mert sunnan við þjóðveginn skammt austan Stampa, en á enn eldra korti er það merkt við gömlu þjóðleiðina út á Reykjanes, allnokkru norðar.

Merkinessel eldra

Merkinessel eldra (Miðsel).

Þar eru mun meiri gróður í eldra hrauni. Hlaðið hús er þar skammt frá og virðist það hafa verið hlaðið á eldri grunni. Ekki er ólíklegt að þarna hafi selstaðan verið og um sé að ræða hluta af henni.
Haldið var að Kirkjuvogskirkju og skoðaður gamall letursteinn frá 1830, er liggur flatur við norðvesturhorn kirkjunnar. Á steininum er mikið letur. Loks var litið á Hungangshelluna við Hafnaveginn, en henni tengist þjóðasagan um finngálknið. Finngálknið var loks vegið á hellunni eftir nokkurn aðdraganda, sem flestir þekkja nú orðið. Vörubrot er á hellunni, en gamla þjóðleiðin til Hafna frá Njarðvík liggur svo til alveg við hana.
Annars eru Ósabotnarnir kjörið útivistarsvæði.
Veður var hlýtt og milt – Gangan í selin tók 3 klst og 33 mín.

Merkinessel

Merkinessel – uppdráttur ÓSÁ.