Patterssonsflugvöllur

Haldið var út á Pattersonflugvallasvæðið ofan við Njarðvík. Girðingin, sem einhverju sinni hefur umlukið vallarsvæðið, er horfin og standa staurarnir einir eftir.

Patterssonsflugvöllur

Pattersonsflugvöllur – kort.

Skammt fyrir innan “girðinguna”, í jarðri vallarins skammt frá þjóðveginum út að Höfnum, er ruðningur með móbergsmolum, misjafnlega stórum. Móbergið er set, sem hefur þjappast saman undir þrýstingi. Þegar setið er brotið koma stundum í ljós meira en 10 þúsund ára gamlar skeljar. Sagt er að þær séu í “lífsstöðu”, þ.e. þær eru í sömu stöðu nú og þegar þær festust lifandi í setinu og urðu þar til um aldur og ævi. Svipað jarðfræðifyrirbæri má t.d. sjá í sjávarbakka í norðanverðum Kópavogi. Tjörnes er sennilega þekktasti setlagastaður landsins (en er því miður svolítið utan við Reykjanesskagann).

Patterssonflugvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonflugvöll.

Þessi jarðlög hlóðust upp á kvarter (ísöld) fyrir meira en 10 þúsund árum síðan svo segja má að þau séu komin nokkuð til ára sinna. Skeljarnar í setlögunum sýna sjávarstöðu og sjávarhita á þeim tíma.

Yfirborð jarðar er að langmestu leyti hulið setlögum. Þetta á bæði við um víðáttu hafsbotnsins og þurrlendi meginlandanna. Það gefur því auga leið að setlög eru afar fjölbreytileg.
Myndun setlaga hefst með því að setkorn verða til í náttúrunni. Setkornin geta flust úr stað en setjast svo til og mynda setlög. Með tímanum geta þessi lög þjappast og límst saman vegna jarðlagaþunga og orðið að föstu bergi, setbergi. Setkorn geta myndast á marga vegu. Oft losna þau úr föstu bergi við veðrun eða slípun af einhverju tagi, sum setkorn eiga sér lífrænan uppruna en önnur verða til í eldgosum eða öðrum hamförum.
Setlögum má skipta í þrjá flokka eftir því hvert ferlið var við myndun og flutning setkornanna. Þessir flokkar eru efnaset, lífrænt set og molaberg.

Patterssonsflugvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonflugvöll.

Algengustu setlögin eru molaberg sem gert er úr bergmylsnu. Setkornin í molabergi verða til við veðrun bergs. Þessi setkorn eru sjaldnast lengi um kyrrt á veðrunarstað heldur flytjast til með vindi, vatnsföllum, skriði jökla, öldugangi eða hafstraumum. Eðlisfræðileg lögmál ráða því hversu hratt og hversu langt setkornin berast. Þar sem roföflin missa mátt sinn, til dæmis þar sem árstraumur minnkar, hleðst efnið upp og myndar set eða setlög.
Á Tjörnesi, skaganum milli Skjálfanda og Axarfjarðar, er t.d. að finna einhver merkustu setlög á Íslandi. Tjörneslögin eru að meginhluta til molaberg og á skaganum vestanverðum má finna þykkustu samfelldu setlagamyndun sem aðgengileg er hérlendis. Forndýraleifar í Tjörneslögunum eru víðfrægar og benda til þess að rekja megi myndun setlaganna allt aftur á plíósen tíma á síðtertíer (síðtertíer er talið hefjast fyrir um 25 milljónum ára). Jarðeðlisfræðilegar rannsóknir benda þó til þess að mun þykkari setlög séu varðveitt á hafsbotni á íslenska landgrunninu.

Hernám

Patterson flugvöllur.

Pattersonsvæðið er forvitnilegt vegna setlaganna og skeljanna. Að öðru leyti sker það sig því miður ekki úr svæðinu ofan við Njarðvík. Nánast öllu hefur verið raskað meira og minna. Gengið var um móasvæðið sunnan við, en leitun er þar að einhverju merkilegu. Hins vegar bætti fuglalífið og náttúran, dirrindíið, vellingurinn, tístið, söngurinn, vælið, korrið og ámátlegt gargið umhverfið upp að nokkru. Fuglarnir voru á varðbergi og sendu viðvörðunartóna til unganna, sem kúrðu sig niður og biðu uns hættan var gengin hjá, eins og ekkert væri eðlilegra. Geldingahnappur, blóðberg, ljónslappi og lúpina gáfu og svæðinu góða liti. Mörk Hafna og Njarðvíkur eru skammt vestan við vallarsvæðið og má sjá þess merki.
Frábært síðdegiveður – stilla og hægur andvari. Gangan tók 1 klst og 21 mín.

Fræðilegi hlutinn að mestu fenginn af http://visindavefur.hi.is

Pattersson

Pattersonsflugvöllur fyrrum.