Færslur

Brúin

Í Brúnni árið 1930 er fjallað um “Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930”. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:

Brúin“[Í síðustu tölublöð „Ægis” (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, “Jamestown” eða „stóra strandið”, sem Ólafur kallar.].

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn” skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.

Jamestown

Skip líkt og Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown”, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown”, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown” var þrimastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

Eftir að „Jamestown” strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!

Hestaklettur

Hestaklettur – strandstaður Jamestown.

Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir “Loggortu”-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.

Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.
Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.
Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi”.

Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.

Hafnir

Hafnir um og eftir 1900.

Faxi

Í Faxa  árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um “Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum“. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:

Friðrik Gunnlaugsson

“Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir. Þenna dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?

Jamestown

Skip líkt Jamestown.

— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.
Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?

Sigurður B. Sívertsen

Séra Sigurður B. Sívertsen. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík) og Steinunnar Helgadóttur konu hans.

— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,” sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.”

Hestaklettur

Hestaklettur. Hafnir í bakgrunni.

— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?
— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?

Jamestown

Strandið – auglýsing.

— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.
— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.

Hafnir

— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?
— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.

Kotvogur

Kotvogur.

— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.
— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,” sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.

Hafnir

Hafnir.

— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.
— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.

Jamestown

Í byrjun desember 2018 var vígt við anddyri Safnahússins minnismerki um síðustu og um leið öflugustu botnfestar sem lagðar voru á botni Vestmannaeyjahafnar árið 1920. Theódór S. Ólafsson, vélstjóri og fyrrv. útgerðarmaður hafði frumkvæði að verkinu. Keðjan er frá strandi Jamestown.

En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.

Jamestown

Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi” eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin”. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjórur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó.

— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
Vestmannaeyjar
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu. Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.

Jamestown

Húsið var byggt úr timri úr Jamestown.

— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.
— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?

— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli. En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?

— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..

Jamestown

Hljóðfæri smíðað úr timbri úr Jamestown.

— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?
— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.

Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.” – Hallgrímur Th. Björnsson.

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.
Jamestown

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi”.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi