Gufuskálar

Í Faxa 1999 fjallar Skúli Magnússon um Gufuskála í Leiru þar sem hann reynir að geta sér til um nafngiftina:

Gufuskálar

Gufuskálar – lind.

“Í Landnámu er alþekkt sögn um Ketil gufu, sem flæktist á milli staða við Faxaflóa og á Vesturlandi, sem hafa gufu að forlið í nafni.
Ekki er ljóst hvað vakað hefur fyrir skrásetjurum Landnámabókar með sögninni. Helst virðist svo að þeir séu að reyna að skýra tilurð staðarnafnanna með þessum forlið, með manns eða auknefninu gufu. Þar af leiðandi er mjög varasamt að treysta nokkuð á sannleiksgildi sagnarinnar og eins lfklegt að Ketill gufa hafi aldrei í Leiruna stigið fæti. Raunar tengjast KATLAR eldamennsku og GUFU en hvort í sögninni leynist um leið orðaleikur eða kímni fullyrði ég ekkert um. Þó má vera að hér sé á ferðinni gamansemi Landnámu skrásetjara.

Gufuskálar

Gufuskálar – tóftir ofan við Gufuskálavörina.

Þórhallur Vilmundarson hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu sýnt fram á, að mörg nöfn landnámsmanna, sem menn töldu að hefðu verið til, væru tilbúin, dregin af staðháttum, en staðir ekki nefndir eftir mönnum jafnmikið og talið var. Leitaði Þórhallur þar annarra skýringa, m. a. í staðháttum í náttúrufari. Ef ég man rétt taldi hann gufuforliðinn í nafninu Gufuskálum, dreginn af sjóroki og ágjöf.
Einu sinni, þegar við Ólafur frá Litla-Hólmi, vorum á ferð úti í Leiru, lögðum við leið okkar niður að Gufuskálum. Fórum við þar niður í fjöru og þar sýndi Ólafur mér hvar allvolgt eða heitt vatn vall undan klöppunum niður í fjöruna. Gat hann þess að fyrrum hefði verið þveginn eða skolaður þvottur þarna. Þó var vatnið ekki svo heitt að úr því ryki. Þetta er hins vegar á fárra vitorði og hefur ef til vill alltaf verið sökum þess, að heita vatnið er neðan flóðmarks og fer á kaf á flóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – hleðslur ofan við Gufuskálavör.

Þetta leiðir hugann að nafninu Gufuskálum og hvernig umhorfs var þar fyrrum. Var þar við landnám, 870-900, svo mikill hiti að úr vatninu rauk? Varð heitt vatn þama ef til vill til þess að fommenn komu sér þar snemma upp verbúð eða viðlegu til fiskjar? Er ef til vill kjarni sannleiks í sögn Landnámu um að Steinunn gamla hafi haft þar útræði? Ekki er ólíklegt að á Gufuskálum hafi verið búið fyrr en til að mynda á Hólmi í Leiru, vegna hitans, hafi hann verið meiri á þeirrí tíð.
Í öllu eldiviðarleysinu fyrrum, einkum þegar leið fram um landnám, var sírennandi heitt vatn, sem von er, almesta nauðsyn á köldum vetrum, ekki síst í verstöð þar sem kaldir og hraktir menn tóku oft lendingu.
Aldrei hefur það verið kannað, svo ég viti, hvort og hve mikið af heitu vatni mætti finna á Gufuskálum. Ef til vill gæfi slík rannsókn einhverja vísbendingu um hvernig ástand þar var í vatnsmálum við upphaf landnáms.” – Skúli Magnússon

Gufuskála er getið í gömlum heimildum:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Jarðarinnar er getið á skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270: “…vt j tyslinga stein Gvfvskalar eigv þadann vt til midvarar j midskala…” DI II, 77.
Þá er hennar getið í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar frá 1552 og í jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563, DI XIV, 420, 156.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 nefnir tvær nafnlausar hjáleigur á jörðinni. JÁM III, 99. 1703: “Fóðrast kann iii kýr. … Skóg til kolgjörðar hefur jörðin í almenníngum. Torfrista og stúnga engin nema í grýttri jörðu valla nýtandi. Eldiviðartak lítið af fjöruþángi. Lýngrif lítilfjörlegt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nær engin. Heimræði árið um kríng… Lendíng slæm um stórstraum. Tún eru grýtt og uppblásin til þriðjúnga. Engjar eru öngvar. Hagar eru mjög litlir vetur og sumar. Vatnsból í lakasta máta og þrýtur bæði sumur og vetur.” JÁM III, 98-99.
1703, jarðardýrleiki óviss. Konungseign. JÁM III, 98-99. 1847, 33 1/3 hdr. Konungseign. JJ,88. Jarðarinnar er getið í Þórðarbók Landnámu: “Gufi hét annarr son Ketils. Hann vildi byggja í Nesi en Ingólfr rak hann á brutt þaðan; þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja á Gufuskálum…” ÍF I, 66 nm og í Sturlubók Landnámu: “Ketill tók Rosmhvalnes; sat hann enn fyrsta vetr at Gufuskálum” ÍF I, 166. Þá er hennar getið í Egilssögu: “Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjök byggt; hann var inn fyrsta vetr at Gufuskálum á Rosmhvalanesi.” ÍF II, 240.
Túnakort 1919: Gufuskálar: Tún 2,8 teigar, kálgarðar 930 m2. Vesturkot: Tún 0,9 teigar, kálgarðar 900 m2.

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Gufuskálar í Leiru, Skúli Magnússon, bls. 63.
Gufuskálar.