Gufuskálar

Gengið var um Gufuskála á Rosmhvalanesi, milli Rafnkelsstaða og Hólms (Litla-Hólms).
Í Örnefnalýsingu yfir Gufuskála segir m.a.: “Að vestanverðu við jörðina, við land Rafnkelsstaða, eru Lindlandamerki jarðarinnar í svokallaða Grænugróf vestan til á miðju Rafnkelsstaðabergi. Úr Grænugróf í, merktan með LM [ML], stóran stein, er liggur við aukaveginn. Þaðan beina sjónhendingu i Hríshalavörðu. Þaðan sjónhending suður heiði og í svokallaðar Þrívörður. Þar endar land jarðarinnar, heiðarmegin. Úr Þrívörðum aptur sjónhending beina leið til sjáfar í miðjar Sjálfkvíar. Þaðan sjónhending fram í fjöru í merktan stóran stein í svokölluðum Þyrsklingasteinum. Þaðan í sjó fram.
Gufuskálar og afbýli þeirrar jarðar tilheyra Leirunni og voru stundum nefnd Útleira. Algengara var þó að tala um Gufuskálahverfi.
Sjálfkvíar eru bás inn í klettana, sem eru nokkuð háir þar í kring. Stundum flæddi fé í Sjálfkvíum þegar stórstreymt var.
GrunnurDálítið skarð inn í klettana, a.m.k. 100 föðmum norðan við Sjálfkvíar, er kallað Kista. Þar fellur sjór alveg í berg.
Vatnagarðar eru skammt norðan við Kistu. Eru það tvö lítil dalverpi, nokkuð breið og gengur klettahóll á milli þeirra og skiptir þeim í Ytri-Vatnagarð og Innri-Vatnagarð . Ytri-Vatnagarður gengur upp í túnið á Gufuskálum að austan.
Frá Innri-Vatnagarði miðjum liggur rif í boga til austurs og beygir að landi að klöppum vestan við Litla-Hólmsvör. Á þessu rifi, beint fram undan Sjálfkvíum, eru nokkrir stórir steinar, nefndir Þyrsklingasteinar, og er einn sínu stærstur. Steinar þessir eru alltaf upp úr á fjöru. Oft réru menn fram fyrir þyrsklingasteina og drógu þaraþyrskling, Var það kallað að róa út í Þarann. –

Brunnur

Rifið var stundum nefnt Þyrsklingasteinarif eftir Steinunum. Innan við rifið er stórt lón, Sjálfkvíalón.
Túnið er nokkuð stórt og er hlaðinn grjótgarður allt umhverfis það.
Gamli bærinn stóð aðeins austar en í miðju túni – á sama stað og bærinn stendur nú. Það er efst á háum hól, sem ýmist er nefndur Hóllinn eða Gufuskálahóll. Af honum hallar mjög norður. Hóllinn mun að mestu leyti vera forn öskuhaugur. Fjós og hlaða var sambyggt gamla bænum að vestan.
Fram á Hólnum, neðan við hlöðuna, var kálgarður, nefndur Hólgarður. Hann var vestan við brunngötuna. Annar kálagarður var framan við sjálf bæjarhúsin og þriðji kálgarðurinn var vestan við bæinn.
KastalahliðFrá bænum lá sjávargata skáhallt útávið – niður að lendingu. Steinaröð var sín hvoru megin hennar.
Brunnur var beint niður af bænum, ofan til á svonefndum Klöppum en þær náðu út að lendingunni. Áðurnefnd brunngata lá frá bæ og niður að honum. Í austanátt og brimi fylltist brunnurinn af sjó og þangi. Árið 1937 gerði Guðbjörn nýjan brunn ofan (vestan) við kálgarðinn, sem var vestan við bæinn.
Háar klappir í túninu ofan við bæinn heita Kastali. Kastalahlið var á túngarðinum ofan hans. Hér áður lá heimreiðin frá því – niður sunnan við Kastalann. Síðar lá hún yfir Kastalann og svo var í ungdæmi Guðbjörns. – Seinna gerði Guðbjörn nýja heimreið vestan Kastala. Var það bílfær vegur.
Í túni Gufuskála voru þessi kot: Vesturkot var Hausthúseinum 250 föðmum norðvestur frá bænum. Það hafði tveggja kúa gras úr túni Gufuskála. í túninu, mitt á milli Vesturkots og Gufuskála, er lítill hóll, sem heitir Lénharður.
Hausthús ft. voru tómthús u.þ.b. 60-70 föðmum austur af Vesturkoti. Hausthús fóru í eyði um 1913-14. Síðasti ábúandi þar var Einar Eyjólfsson.
Kúamói lá niður frá túngarði – vestan við Vesturkot. Tómthúsið Kóngsgerði var vestan við Kúamóa. Það var norðvestur af Hausthúsum. Dálítið gerði var í kringum kotið og þaðan var konungsútgerð á tímabili. Mun gerðið af því hafa fengið nafn sitt. Kóngsgerði fór í eyði árið 1915. Þar bjó síðast faðir Guðbjörns, Þórarinn Eyjólfsson. Túnið sunnan við bæinn á Gufuskálum var nefnt Suðurtún og Vesturtún vestan bæjar.
SteinnVörin (lendingin) er niður af Hólnum, austan til fyrir miðju túni. Inn í hana var ein renna, en hún víkkaði ofan til. Stundum voru allt upp í sjö skip í Gufuskálavör á vetrarvertíð.
Mest var útgerðin frá Gufuskálum, en einnig mikil frá Vesturkoti. Þá gerðu Innnesingar út frá Gufuskálum á vetrarvertíðum og lágu þeir þá við og héldu til á Gufuskálum.
Kóngsgerðisvör var beint niður af Kóngsgerði. Hún var fallin saman og hætt að nota hana þegar Símon og Guðbjörn mundu fyrst eftir.
Fyrir norðvestan (utan) Kóngsgerðisvör skiptast á einlægar klappir og stórgrýti. Yzt upp af þessu stórgrýti liggur túngarðurinn, hlaðinn úr grjóti. Utan hans byrjar Hrafnkelsstaðaberg. Það er jafnt og slétt alveg út í Grænugróf, en utan hennar hækkar bergið lítið eitt í landi Hrafnkelsstaða. Innan við Grænugróf er nær alls staðar hægt að komast upp og niður Grænagrófbergið, en það er um tvær mannhæðir á því svæði.
Upp af Grænugróf er Elínarstekkur, oftast nefndur Ellustekkur. Hann er u.þ.b. 10 m ofan við þjóðveginn (núverandi) út í Garð. Þar eru gróin stekkjarbrot.
Sunnan við Gufuskála, utan túns, er holt sem kallast Hádegisholt. Það nær frá merkjunum upp af Sjálfkvíum og út á móts við Innri-Vatnagarð (þ.e. ofan hans). Á því var varða og var hádegi miðað á henni.
Upp frá túni er landið flatt og hrjóstrugt, mest grjótmelar og klapparholt . Á því svæði er Vatnshóll, klapparhæð. Eru þar tvær vatnsskálar ofan í klöpp, sem rigningarvatn safnast í og var kúm brynnt í þessum skálum þegar hægt var.
Vatnshóll er suðvestur af Kastala, Hleðslaeinum 30 föðmum fyrir ofan þjóðveginn (núverandi). Sunnanvert, ofan við þetta svæði, eru löng holt, nokkuð há, sem liggja frá norðvestri til suðausturs. Þau kallast Langholt ft. Sandmelur skilur þau í sundur í Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Merki munu liggja yfir melinn á milli þeirra. Vörður eru á báðum Langholtum, lítil á Ytra-Langholti, en stór og mikil á því innra. Þær eru kallaðar Langholtsvörður. Það var gömul trú, að einhverjar vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti.” Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Ranglát“Þrívörður eru þrjár og sjást þær vel í suðvestur frá Ytra-Langholti.
Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk og eru merki í hana eins og áður segir. Klapparhólar eru í kringum hana og stendur hún á einum slíkum. Þeir kallast Hríshólar. – Gamlar götur út í Garð lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Götur þessar voru nefndar Efrivegur. Hrafnkelsstaðaberg var í framburði Hrakkelsstaðaberg. Það er einnig nefnt Rafnkelsstaðaberg, en það mun yngra.”
Við Gufuskála er vatnsstæði á Kastala og falleg lind með hleðslum í norðan þess. Áletrunin við Grænugróf er ML. Í grófinni er gömul hringlaga hleðsla, líklega brunnur. Gæti líka hafa verið refagildra.
GufuskálarNafnið er talið vera komið frá landnámsmanninum Katli Gufu Örlygssyni, en hann og menn hans munu hafa sest að á Gufuskálum, en þurftu að hverfa þaðan vegna ósættis við landeigandann, Steinunni gömlu. Í Egils-sögu segir: “Ketill gufa kom til Íslands þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska. Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan í brott og inn á Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa…”
Talsverð ummerki eru enn eftir konungsútgerðina í og við Kóngsgerðið. Þar hefur t.d. verið hlaðinn kjallari undir timburhús, hlaðinn niðurgengdur brunnur við hliðina og gerði allt umleikis.
“Verslunarhafar voru af þrenns konar tagi: Einstakir kaupmenn, verslunarfélög og ríkisverslun (konungsverslun). Framan af var einungis um að ræða verslun einstakra kaupmanna eða verslunarfélaga. En árið 1759 hófst konungsverslun sem stóð í fimm ár. Tók þá, árið 1764, aftur við félagaverslun, er Almenna verslunarfélagið tók að sér verslunina og hafði hana til 1774. Eftir það var óslitið konungsverslun fram til 1787 er einokunarverslunin var lögð niður.” En konungsverslunni fylgdi einnig “konungsútgerð”.
KóngsgerðiÁ Stafnesi var t.d. ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við.
Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Í Njarðvíkum var Konungsútgerð þar fram til 1769.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.
FjárborginSigurður B. Sívertssen, prestur, bjó á Gufuskálum 1833, en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837.
Ofan við Sjálfkvíar fann FERLIR hringlaga fjárborg. Norðar er Hádegisholt. Varða er nyrst á holtinu, eyktarmark frá Gufuskálum. Utan garðs að sunnanverðu er ferningslaga tóft.
Þegar Lénharður var skoðaður kom í ljós forn gróin tóft, sennilega skáli. Þar gæti hafa verið viststaður Ketils gufu og manna hans þá er þeir dvöldu veturlangt að Gufuskálum. Lind er skammt neðan við hólinn að vestanverðu. Hún kemur undan lágum klöppur og er lindin hlaðinn að hluta. Dýptin er um 1 m.
Tóftir Vesturkots eru miklar. Bæði eru tóftir gamla bæjarins heillegar sem og hlaðinn grunn undir timburhús, sem þar hefur staðið við garðinn og heimreiðina. Garður liggur síðan á ská niður að sjávargarði. Í honum var tómthúsið Hausthús, sem enn sjást tóftir af.
Ofar er svo Kóngsgerðið.
Ofan við Gufuskálavör má sjá hringlaga hleðslu þar sem togspilið var staðsett. Skammt austar eru grónar tóftir sjávarhúss.
Vesturkot
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Gufuskála (ÖÍ).
http://www.archives.is/index.php?node=324

Landamerkin