Hafnir

Eftirfarandi frásögn af húsum og fólki í Höfnum eftir aldarmótin 1900 birtist í Faxa árið 1968:

Hafnir

Í Höfnum.

“Lengst til vinstri sést burst á útihúsi. Önnur burst er yfir bæjardyrum vestan Vesturbæjar, sem kemur þarna næstur í röðinni. Árið 1907 hófu þar búskap Sigríður Bergsteinsdóttir og Ingvar Eiríksson, foreldrar Ólafs Ingvarssonar í Keflavík. Í þessum sama bæ bjuggu þá einnig Vilborg Sveinsdóttir og Jón Snorrason. Þó húvsakynni væru ekki stærri, var samkomulagið hjá fjölskyldunum eins og bezt varð á kosið. Má m. a. marka það á því, að Ólafur lét dóttur sína heita eftir fyrrnefndum húsfreyjum. — En víkjum nú aftur að myndinni. Næstu tvær burstirnar eru á austari Vesturbænum. — Á þessum árum bjuggu þar hjónin Sigríður Björnsdóttir og Ketill Magnússon, foreldrar Magnúsar Ketilssonar bifreiðastjóra í Keflavík, sem lézt fyrir skömmu.
Næsta hús í röðinni lét Olafur heitinn Ketilsson byggja og bjó þar fyrst sjálfur, en síðar var það keypt og endurbyggt af „templurum” í Höfnum, sem notuðu það til samkomuhalds fyrir góðtemplararegluna í hreppnum.

Kotvogur

Kotvogur.

Næsti bær gekk alltaf undir nafninu Rönkubær. Þar bjó um þessar mundir Guðbjörn Björnsson, með aldraðri móður sinni, sem Rannveig hét. Þaðan mun bærinn hafa fengið Rönkunafnið.
Síðasti burstabærinn á þessari mynd hét Miðbær. Þar bjuggu þá ung hjón, Guðbjörg Þorsteinsdóttir og Jón Olafsson frá Garðbæ í Höfnum.
Þegar hér er komið upptalningunni, færumst við yfir í nútímann. Stóra húsið, sem við blasir, var laust eftir aldamótin í eigu Vilhjálms Ketilssonar. Hús þetta var nefnt Glaumbær og brann það árið 1910 eða 1912. — Kvöldið áður en það brann mun hafa verið haldinn dansleikur í húsinu, í endanum sem snýr að kirkjunni. Í þessu sama húsi bjó Vilhjálmur Hákonarson lengi miklu rausnarbúi og var reyndar þjóðkunnur maður. Hús þetta með tilheyrandi jarðnæði, hét Kirkjuvogur. Var sú jörð ávallt til stórbýla talin.
Næsta bygging er hús Friðriks Gunnlaugssonar, er hann síðar flutti til Keflavíkur, en á það var minnst í löngu viðtali við Friðrik í jólablaði Faxa 1965. Næstur á undan Friðrik bjó í þessu húsi Magnús Guðmundsson, faðir Guðmundar Ingvars Magnússonar, Hafnargötu 70 í Keflavík. Síðar byggði þessi sami Magnús sér íbúðarhús vestan við þessa bæjaröð, lengra til vinstri. Í því húsi býr nú fyrrverandi oddviti Hafnahrepps, Eggert Ólafsson. Turninn á milli húsanna er reykháfur á hlóðareldhúsi, sem tilheyrði fyrrnefndu íbúðarhúsi Friðriks heitins Gunnlaugssonar. Lengst til hægri skartar svo Kirkjuvogskirkja eins og hún er í dag. Engin teljandi breyting mun hafa verið á henni gerð nú á síðari árum.
Upplýsingar þessar hefi ég fengið hjá Ólafi Ingvarssyni, sem eins og fyrr segir, er fæddur og upp alinn þarna í þessu hverfi og því gagnkunnugur allri húsaskipan þar. – H.Th.B.”

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 2. tbl. bls. 17.
Hafnir