Dauðsmannsvarða

 “Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgatan gengin.

Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar. Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsgata neðri við Sandgerðisgötu.

Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar. Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannvarða.

Sem dæmi um framangreint má nefna Jón Guðmundsson, bónda í Sandgerði, 42 ára. Hann varð úti nóttina 21. desember 1930 í ofsaveðri, þá er hann var á heimleið frá Keflavík eftir forlíkun; fannst nóttina þess 22. desember skammt frá bæjum, helfrosinn.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður Eiríksson við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Þorlákur Stefánsson, 45 ára, vinnumaður frá Núpi í Fljótshlíð, sjóróandi á Hrúðunesi í Leiru, varð úti nóttina að 24. febrúar 1837 á Hólmsbergi á leið frá Keflavík að Hrúðurnesi. Hann fannst látinn um kvöldið daginn eftir.

Ásgeir Sigurðsson, 53 ára, giftur húsmaður frá Keflavík, nú sjóróandi frá Gerðum, varð úti á leið frá Keflavík sunnudagsnóttina 31. mars 1861. Fannst eftir viku, nálægt Hólmsbergi við Sandgerðisvegamót. Hafði verið drukkinn og mun hafa liðið í brjóst.

Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á Miðnesheiði á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.”

Heimild:
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.