Færslur

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi “Tilkynning frá ríkisstjórninni” birtist í Morgunblaðinu árið 1942:
“Í því skyni að ameríska hernum megi takast að verja Ísland og draga sem mest úr áhættu landsmanna, er aðeins takmörkuð umferð leyfð um svæði það á Reykjanesi, sem sýnt er á hjer birtum uppdrætti.
Á Reykjanesi norðvestanverðu alt það svæði, sem afmarkast af línu dreginni yfir nesið, og liggur hún þannig; hefst í Litlu-Sandvík og liggur þaðan austur á við h.u.b. 6.3 km. til staðar, sem liggur um 1 km. í suður frá Sandfellshæð, þaðan í norðaustlæga átt h.u.b. 13 km. vegalengd upp á brún hæðar þeirrar, er nefnist Litla-Skógfell, þaðan í norður átt h.u.b. 6.3 km. vegalengd til strandarinnar skamt innan við Grímshól á Vogastapa.
Land það, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, skal ekki taka yfir Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði, Hvalsnes, Stafnes, Hafnir, nje heldur tiltekin landsvæði ræktuð eða umbætt og eru þau sýnd utan merkjalínu greinds svæðis á áðurgreindum uppdrætti.
Auk þess eru neðangreindir vegir innan svæðis umferðatakmörkunarinnar undanskildir takmörkuninni, svo sem sýnt er á uppdrættinum, sem hjer er prentaður með:
1. Vegurinn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru. Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Vegurinn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Vegurinn til Grindavíkur.
Landamerki þessara kauptúna og svæða verða auðkend með staurum máluðum rauðum og hvítum.

BANNSVÆÐI
Bannsvaedi-221Allir þeir staðir, þar sem tæki eru sett upp, mannvirki reist eða hernaðarstörf framkvæmd, innan þess svæðis, sem aðeins takmörkuð umferð er leyfð um, eða eru afgritir og merktir sem slíkir, eru bannsvæði.
Íslendingar mega ekki fara inn á áðurnefnd svæði, sem bönnuð eru eða leyft takmörkuð umferð um, nema þeir hafi í höndum tilhlýðileg vegabrjef. Vegabrjef samþykt af íslensku ríkisstjórninni fást, þegar um þau er beðið hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og lögreglustjóranum í Keflavík og munu þeir leiðbeina umsækjanda til hlutaðeigandi ameríks starfsmanns. Umsókninni skulu fylgja tvær myndir af umsækjanda, 5×5 cm. á stærð. Umsóknin skal tilgreina þann sjerstaka hluta takmarkaðs eða bannaðs svæðis, sem umsækjandinn óskar að fara um, og sömuleiðis á hvaða tíma eða tímum og í hverjum tilgangi hann hygst að fara þar um. Sá sem fer um takmarkaða eða bannaða svæðið skal ávalt bera á sjer vegabrjef sitt.
Engar ljósmyndavjelar eða myndatökuáhöld má fara með inn á takmarkað eða bannað svæði nje geyma þar.
Vegabrjef þurfa Íslendingar ekki til þess að ferðast um neðangreinda vegi:
1. Veginn um Njarðvíkur, Keflavík, Leiru, Garð, Sandgerði og Stafnes.
2. Veginn frá Innri-Njarðvík til Hafna.
3. Veginn til Grindavíkur.
Þar sem vegir þessir liggja um þau svæði, sem umferð er takmörkuð um, er frjáls að fara um veginn, en hvorki má farartæki nje maður staðnæmast þar nje dvelja.
Íslenskar flugvjelar mega ekki fljúga yfir áðurgreind svæði, sem umferð er takmörkuð um, og eigi nær þeim en í 24 km. fjarlægð. – Reykjavík 18. maí 1942.”

Heimild:
-Morgunblaðið 21. maí 1942, bls. 6

Dauðsmannsvarða

 “Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar. Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku. Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar. Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannvarða.

Sem dæmi um framangreint má nefna Jón Guðmundsson, bónda í Sandgerði, 42 ára. Hann varð úti nóttina 21. desember 1930 í ofsaveðri, þá er hann var á heimleið frá Keflavík eftir forlíkun; fannst nóttina þess 22. desember skammt frá bæjum, helfrosinn.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.

Þorlákur Stefánsson, 45 ára, vinnumaður frá Núpi í Fljótshlíð, sjóróandi á Hrúðunesi í Leiru, varð úti nóttina að 24. febrúar 1837 á Hólmsbergi á leið frá Keflavík að Hrúðurnesi. Hann fannst látinn um kvöldið daginn eftir.

Ásgeir Sigurðsson, 53 ára, giftur húsmaður frá Keflavík, nú sjóróandi frá Gerðum, varð úti á leið frá Keflavík sunnudagsnóttina 31. mars 1861. Fannst eftir viku, nálægt Hólmsbergi við Sandgerðisvegamót. Hafði verið drukkinn og mun hafa liðið í brjóst.

Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á Miðnesheiði á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.”

Heimild:
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.