Færslur

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að “Hallgrímshellunni” með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Básendar

Í Faxa árið 1948 eru skrif séra Jóns Thorarensens um “Bátsenda“:

“Bátsendar hjá Stafnesi eiga sér einkennilega sögu. Þeir hafa eflaust á fyrri öldum verið notaðir til útróðra, en nafnkunnastir voru þeir fyrir hina dönsku einokunarverzlun, sem rekin var þar í þrjár aldir, frá 1484—1799.

Fyrst er getið um enska kaupmenn á Bátsendum. Árið 1484 gerði fulltrúi Danakonungs upptækt skip og vörur af Englendingum á Bátsendum, en þeir vildu hafa íriðsamlega verzlun við Íslendinga.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Árið 1491 sló í harða brýnu á milli Englendinga og Þjóðverja útaf Bátsendum, og 1506 eru Englendingar þar í friði með verzlun sína samkvæmt leyfi, er Þorvarður lögmaður Erlendsson í Selvogi gaf þeim.

En 1518 var friðurinn úti milli Þjóðverja og Englendinga út af Bátsendum, Grindavík og Hafnarfirði, og varð bardagi loks milli þeirra í Hafnarfirði, sem endaði með því að Þjóðverjar héldu velli og náðu þessum verzlunarstöðum af Englendingum. Eftir þennan bardaga voru Þjóðverjar öllu ráðandi á Bátsendum, og þegar þýzka útgerðin var mest, höfðu Þjóðverjar þar syðra 45 fiskiskip.

En Kristján þriðji lét gera einn eldhúsdag að þessu öllu og ræna öllum skipum af Þjóðverjum 1543, og 20 árum síðar rændi konungur eða sló eign sinni á allar útvegsjarðir kringum Bátsenda, og öllum afla var upp frá því í tvær aldir rúmlega skipað að Bátsendum, í sjóð konungs. En þrátt fyrir það, að Danir rændu hinum þýsku skipum tókst þeim seint að ná Bátsendum frá Þjóðverjum, því um miðja 16. öld höfðu þeir tuttugu skip þar syðra, en Danir einungis tvö.
Árið 1548 ætlaði danskt skip að sigla inn til Bátsenda, en þýzkt skip var þar fyrir, og flæmdu þeir það danska burt.

Bátsendar

Bátsendar 1083. Garðar fremst. Fjærst má sjá tóft torfbæjarins.

Árið 1640 byrja svo Danir einokunarverzlun sína með fullum krafti á Bátsendum, og þar varð aðalverzlun danska valdsins á þessum slóðum, þar til sjórinn batt enda á allt saman þann 9. jan. 1799, en þá gekk fárviðri með stórflóðum um aJlt Suðuriand, og eyðilögðust þá nótt 187 skip á Suðurlandi. Kirkjan á Hvalsnesi fauk, og skemmdir urðu miklar víðar. Á Eyrarbakka týndust 9 nautgripir, 63 hross og 58 kindur. Seltjarnarnes varð að eyju í flóðinu svo ekki varð komizt tíl Reykjavíkur. Og á Bátsendum eyðilagðist allt. Allur kaupstaðurinn eyðilagðist, en kona ein drukknaði.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726. Keflavíkurhöfn ofar.

Þær byggingar, sem eyðilögðust voru þessar. Sölubúðin; íbúðarhús danska kaupmannsins; lýsisbúðin; lifrarbræðslan; íslenzkur torfbær, sem var 5 kofar litlir og urðu þeir allir ein grjóthrúga eftir flóðið; stórt vöruhús, og svo hrundu að mestu vörugeyrnsla, lítið fjós, hlaða og skemma, auk þesss tapaði kaupmaður 6 manna fari, 4ra manna fari, 2ja manna fari og norskri skektu. Sjórinn komst 164 faðma upp fyrir efsta húsið á Bátsendum.

Hinrik Hansen hét síðasti kaupmaðurinn á Bátsendum. Hann segir frá því í skýrslu, sem hann gaf, að um nóttina, aðfaranótt þess 9. jan., hafi hann, kona hans, 4 börn og vinnukona vaknað við það að brakaði í öllu verzlunarhúsnu, og skellir heyrðust eins og grjóti væri kastað á húsið, og þegar hann fór á fætur og lauk upp útidyrum, brauzt sjór inn á þau með afli og fyllti öll herbergi. Flýðu þau þá upp á loft og hírðust þar til kl. 7 um morguninn, að þau brutu þakgluggann og óðu upp að fjósinu, sem hærra stóð. Óðu þau í gegn um borðvið, planka, búsáhöld og vörur, sem allt flaut þar í einum graut. En þegar þau komu að fjósinu hrundi það litlu síðar, þá flýðu þau til hlöðunnar, en um líkt leyti sópaðist þakið af henni. Þá lagði þetta fólk af stað hálf nakið í roki og kulda í áttina heim að Loddu sem var næsta hjáleiga, og komst það þangað eftir mestu þrautir.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömul kona, er var í íslenzka torfbænum á Bátsendum fórst í flóðinu.

Hinrik Hansen var kaupmaður á Bátsendum frá 1788 og til þess síðasta. Hann kom ungur til Íslands, 16 ára, og eignaðist íslenzka konu. Hann átti íbúðarhús á Bátsendum, sem eg hefi minnst á og bjó þar allt árið, hann var orðinn efnaður maður, en missti aleigu sína á einni nóttu og allt óvátryggt eins og geta má nærri. Bar hann sig upp við kóng, en fékk bæði sein og vond svör.

Hinrik Hansen dó í Keflavík 11. okt. 1802, 53 ára gamall, og var jarðsunginn að Útskálum 18. s.m. Þó að Hinrik Hansen væri danskur einokunarkaupmaður, þá hafði hann það það fram yfir aðra starfsbræður sína, sem fyrr höfðu verið þar, að hann kvæntist íslenzkri konu, og var á Bátsendum allt árið, en danskir kaupmenn voru oft vanir að fara á haustin til Danmerkur og loka verzlunarhúsunum og láta sér á sama standa, þó að Íslendingar yrðu að svelta heilu hungri á vetrum.

Básendar

Básendar 1983. Stafnesbærinn fjærst. Garður við Kaupmannshúsið.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að einkennilegar tilfinningar vakni hjá mönnum, er þeir koma suður fyrir Stafnes, þar sem Bátsendakaupstaðurinn stóð.

Fyrir 148 árum var þar kaupstaður, sem sopaðist burtu á einni nóttu. Eg held, að enginn blettur á Íslandi eigi sér jafn einkennilega sögu. Þar sem nú eru berar klappir og brimbarðir hnullungar, þar á sama stað var einu sinni líf og fjör og fjögur tungumál: íslenzka, danska, enska og þýzka, hafa verið töluð þar fyrr á tímum. Mörg verzlunarhús voru þar og útvegsbændur komu í stórum hópum að leggja inn fisk sinn og taka út. Ungar og fallegar heimasætur að kaupa sér silkiefni í skrauttreyjur við upphluti og skautbúning.

Básendar

Básendar – Brennitorfuvík.

Karlarnir drukku þar brennivín bjartar jónsmessunætur og báru saman hjá hver öðrum vertíðaraflann, og hresstu sig eftir fiskflutningana og uppskipunina. Þangað kom líka oft maður einn, sem var stór, þrekinn og kraftalegur, með stórgert og svipmikið andlit, svartur á brún og brá og bað um úttekt. Þetta var sóknarpresturinn á Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson. En það var hvorttveggja, að hann gat ekki stært sig af búskap og af því að leggja miklar afurðir inn, og svo var líka hitt, að sýslumaðurinn á Stafnesi var óvinur hans, sem spillti fyrir honum á Bátsendum, svo hann hefur eflaust oft farið þaðan með þungum hug. Þess vegna sagði hann:
Mannleg aðstoð er misjafnt trygg
margir fá slíkt að reyna,
trúskaparlundin laus og stygg
leið gengur eigi beina.
Veltur á ýmsa hlið um hrygg
hamingjulánið eina.

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Já, það mátti segja, á Bátsendum, þar valt hamingjan oft um hrygg fyrir Íslendingum. En í frægustu bók heimsins standa þessi orð: Þeir síðustu munu verða fyrstir. Suðurnesin, sem áður voru heimkynni einokunar og kúgunar, hafa orðið fyrir gjörbreytingu og endurreisn. Frá þeim streymir nú árlega ógrynni auðs í þjóðarbúið, og flestir aðrir landshlutar munu hverfa í skugga þeirra stórfelldu mannvirkja og framkvæmda í sambandi við atvinnulífið, sem þar verða að veruleika á komandi tímum.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Bátsendar – séra Jón Thorarensen, bls. 3-4.

Básendar

Frá Básendum.

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”:

Faxi 1993“Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.
Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim”.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.” – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um “Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”, þ.á.m. Stafnes:

“Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.”

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Vörðuhólmi

Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnesinga og eigenda Kirkjuvogs.

“Frá Hæstarétti í gær.

Vísir

Vísir 1925.

Þar var sótt og varið málið: “Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina”.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð “hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð”, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu” á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri “Gömlu þúfu” á Háaleiti í „Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól” í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma”, þaðan sunnanundir „Selskeri” og „Hestakletti” og þaðan á sjó út.”
Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í “Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.”
Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.

Stafnes

Úrskurðuð landamerki Stafnness og Kirkjuvogs. Kort herforingjaráðsins.

— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.”

Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.

Vörðuhólmi

Vörðuhólmi – LM-merki.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; íangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Básendar

Í “Fornleifaskráningu á Miðnesheiði” sunnanverðri árið 2000 er m.a. fjallað um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gömlu-Kirkjuhöfn, auk Kaupstaðarvegarins og aðrar merkar minjar.

Stafnes (býli/konungsútgerð)

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnesin í land að Beinhól og Háaleiti. Stafnes var fyrr á tíð eitt mesta stórbýli Suður-nesja. Í gömlum jarðabókum eru taldar þar 20 hjáleigur og tómthús. Þó er ekki víst að þau hafi öll verið byggð samtímis.
Jarðardýrleiki er sagður óviss í Jarðabók Árna Magnússonar sem tekin var saman árið 1703. Mjög er nú mannfátt í Stafnesshverfi og enginútgerð hefur þar verið seinustu áratugi. Eflaust hefur útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi sem og annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19. þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita að Stafnes væri í eyði um aldarmótin 1800. Útgerð á Stafnesi mun hafa lagst niður fyrir fullt og allt um árið 1945 og hafði þá áður mjög úr henni dregið.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Á öldum áður var þó útræði mikið og hófst konungsútgerð á Stafnesi um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum.
Stafnes er í fornum máldögum oftast kallað Starnes. Ef það er upprunalegt nafn bæjarins bendir það til þess að þar hafi verið starengi. Þá er líklegast að það sé komið undir sjó.
Hrjóstrugt er umhverfis Stafnes, einkum í heiðinni ofan við byggðina. Hefur jarðvegur fokið burt og er nú aðeins bert grjótið eftir. Samhliða þessu hefur sjór gengið mjög á landið, enda bera skerjaflákar undan ströndinni þess merki. Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum.
Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti. Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað.
Annað botnvörpuskip, Admiral Toco, strandaði þar í foráttu brimi árið 1913 og fórust allir með því.

Friðlýsingar

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í landi Stafness eru tveir staðir friðlýstir:
Básendakaupstaðarleifar, á hraunnefi milli 2ja víka skamt fyrir austan Stafnes. Sbr. Árb. 1903:40; Blöndu III: 48-49.b).
„Lögrjetta“, svo nefnd, forn hringur í Stafnesstúni, fyrir norðan bæinn. Sbr. Árb. 1903: 39-40. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst15.11.1938.
Lögréttan er utan hins skráða svæðis og er aðeins lítillega vikið að henni í þessari fornleifaskráningu. Um Básenda er fjallað í sérstökum kafla svo sem fyrr segir. Í landi Stafness eru samkvæmt heimildum um 73 fornminjar sem rétt væri að kanna og skrá í heildarúttekt á svæðinu, en hér verða skráðar 11 sem teljast vera innan yfirráðasvæðis Varnarliðsins.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Magnús Grímsson skrifar að spölkorn suður frá Draughól „í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru lettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum hinna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.“ Magnús Grímsson hefur staðarlýsinguna upp úr örnefnalýsingu Stafness, en bætir við sögninni. Í örnefnalýsingunni segir enn fremur að hraunið upp af Gálgaklettum sé nefnt Gálgahraun. Páll Sigurðsson, lagaprófessor, segir að Gálgaklettar þessir séu einnig nefndir Gálgar: „Að Stafnesi er varðveitt örnefnið Lögrétta, sem kynni að benda til þinghalds af einhverju tagi, en hins vegar var þingstaður hreppsins fyrrum að Bæjarskerjum, sem ekki eru í næstu grennd.“ Páll Sigurðsson fer nánar í málin í bæklingi um aftökustaði í landnámi Ingólfs, en nefnir þó ekki sögnina úr ritgerð Magnúsar um meðferðina á beinum hinna afteknu: „Gálgaklettar eru tveir aflangir en sundursprungnir klettar með allbreiðu sundi á milli, sem greinilega er of breitt til að þar megi koma fyrir gálgatré milli klettanna. Kann því aðvera um náttúruörnefni að ræða, en þröngar sprungur í klettunum geta að vísu komið til álita í þessu sambandi þótt ekki virðist þær sérlega líklegar. Upp við klettana hefði hins vegar máttreisa gálga.“ Mannvistarleifar eru engar sýnilegar við Gálgakletta.

Þórshöfn (lending)

Þórshöfn

Þórshöfn.

Litlu sunnar en Básendar er Þórshöfn. Elsta heimild umÞórshöfn mun vera skrá Resens frá síðari hluta 16. aldar um íslenskar hafnir „sem skip sigla nú til og skip hafa áður siglt og nú er ekki siglt til, landinu til stórtjóns.“ Skúli Magnússon fógeti (1711-1794) lýsir höfninni sem lítilli og lélegri: „Skipaleiðin inn að henni er ekki nema 65 faðma breið og stefnan inn sundið er í norðaustur til hálfausturs. Mesta lengd innsiglingarinnar er 170 faðmar, en breiddin 51 faðmur, en þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet. Þangað geta skip ekki leitað nema í góðu veðri; og í blásanda byr af suðvestri verður að festa þau með 4 köðlum og 3 akkerum að minnsta kosti. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér álandi. Nú er þar ekkert graslendi eða land, sem byggja má á, á ½ mílu svæði frá höfninni, heldur aðeins grjót og sandur, og er því eigi hægt að hafa þar verzlunarstað.“
Í Lýsingu Útskála-prestakalls 1839 segir: „[Þórshöfn] fóru að reyna fiskiskútur fyrir 2 árum, þegar liggja vildu af sér veður, og voru mið sett á landi, til leiðarvísis handa þeim í inn- og útsiglingu; hefir það vel gefizt, og geta þar 20 snekkjur legið í senn. –Vatnsból er þar nýfundið, og þannig þeim örðugleika úr vegi rutt, sem vatnssókn fyrir skipin kostaði. Þórshöfn stendur í sjókortum farmanna og liggur á millum Bátsenda [Básenda] og Ósanna.“ Við vettvangsskráningu fundust engin mannvirki á svæðinu utan ein uppistandandi varða og vörðubrot.

Þórshöfn (fangamörk)

Þórshöfn

Þórshöfn – fangamörk.

Skammt austan við Þórshöfn, uppi í landi, eru klettar og steinar með fangamörkum. Ártöl sem hafa verið höggvin í stein, 1844 til 1891, benda til aðfangamörkin séu frá seinna helmingi nítjándu aldar þegar höfnin var aftur tekin í notkun eftir langt hlé. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar, en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessum áletrunum áður en veður og vindar má þær út.

„Hallgrímshella“ (áletrun)

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

Preststorfa (ferjustaður)

„Ósar heitir vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi [í Höfnum], er kölluð Preststorfa, því þar er prestur vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvogi, þegar hann fer þá leiðina.“

Einbúi (sjóbúðir)

Einbúi

Tóft í Einbúa.

„Litlu innar í Ósunum [en Preststorfa] er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar fráVogi […].“ Á innrauðum loftmyndum má sjá rústir í Einbúa. Var ekki unnt að komast þurrum fótum út í hólmann sumarið 2000, þótt heimildir geti um að það sé hægt.

Stafnessel (sel)

Stafnessel

Stafnessel.

„Austan Stórubjarga er gamalt sel, sem heitir Stafnessel.“ (ÖS). „Enn sést móta fyrir rústum af Stafnesseli.“ (ÖS, 1980). Sel þetta fannst ekki við vettvangsskráningu og er hugsanlega horfið undir mannvirki.
[Stafnesselin eru tvö; annað skammt ofan við Gamla-Kirkjuvog og hitt ofar í heiðinni, upp undir varnargirðingunni.]

Háaleitisvarða (varða)
Í landamerkjabréfi frá 1270 segir um vörðu þessa að hún hafi staðið uppi á Háaleiti þar sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. Hennar er getið víðar seinna, en nú er hún horfin undir flugvöll.

Básendar (verslunarstaður)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi og sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Höfnin var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Landslaginu er þannig lýst í Blöndu á þriðja áratug 20. aldar að umhverfis Básenda séu fjörur og sandauðn með litlum grasflesjum frá öldinni á undan að austan og norðanverðu. Þær séu að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi, en sjór mylji framan af. Þá er lýst boðum miklum, skerjum og lónum.
Skúli Magnússon, fógeti, lýsti Básendum svo um 1785: „Kring um hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar.“
Nafnið Básendar mun ekki vafalaust, en er í góðu samræmi við landslagið eins og það hefur verið frá fyrstu tíð. Nöfnin Bátsendar og Bátsandar, sem einnig má sjá í heimildum, eru taldar vera ambögur, enda eru til fleiri básar enn sunnar á nesinu, s.s. Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíusbás. Básendahöfn hefur sjálfsagt lengi verið notuð til bátaútræðis og fiskiveiða á vertíðum – þó lítið séum þetta kunnugt. En samkvæmt Blöndu voru þó merkustu notin af hinni góðu hafskipalegu og versluninni sem telja má víst að þar hafi oftast verið rekin í rúmar þrjár aldir (1484-1800)og sennilega fyrr á öldum líka.

Básendar

Básendar – bærinn.

Enskir og þýskir kaupmenn börðust blóðugri baráttu um verslunina innbyrðis og við Dani uns þeir síðastnefndu urðu hlutskarpastir. Til dæmis að taka fóru Þjóðverjar frá Básendum og víðsvegar af Suðurnesjum í bardaga við enska kaupmenn í Hafnarfirði og varð þar mikið mannfall.
Samkvæmt Skúla Magnússyni var á Básendum: […] höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá.[…] Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi.

Þegar mjög er stórstreymt, hefur borið við, að sjór hefir flætt inn í verzlunarhúsin, en það hefir þó eigi valdið verulegu tjóni.
Hálfum öðrum áratug eftir að þetta var skrifað eyddust Básendar í einhverju ofsalegasta fárviðri og sjávarflóði sem sögur fara af hér á landi. Aðfararnótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Snæfellsnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu svo að nokkuð sé nefnt. Á Básendum tók þó út yfir allan þjófabálk. Þar sópaði flóðið á einni nóttu flestum ef ekki öllum húsum hins forna kaupstaðar burt, kona einroskin og lasin drukknaði en annað heimilisfólk bjargaði sér við illan leik. Þrátt fyrir öll ósköpin og þó að tvær aldir séu liðnar síðan sér vel til rústa á tanganum. Eyðingu Básenda er lýst í skýrslu hins „fjárþrota“ danska kaupmanns H[inriks] Hansen sem er í vörslu Þjóðskjalasafnsins, skrifuð 16. mars sama ár til að sýna „hversu ofurefli sævarins, hef[ði] eyðilagt verslunarstaðinn og margskonar fjármuni [kaupmannsins], og í hvílíkum dauðans vandræðum [hann] var staddur, með [s]ínum nánustu.“Hér verður stuðst við endursögn skýrslunnar í Blöndu, en því er svo nákvæmlega greint frá þessum atburðum að frásögnin gæðir hinar mállausu tóttir lífi og kann að verða til þess að auka áhuga nútímamanna á varðveislu þessara fornuminja: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úrrúmunum, því við óttuðumst, að við myndum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsið var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo að það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn. Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, tilað komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautirnáðum á næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi.

Stafnes

Lodda.

Í Loddu tók Jón Björnsson, fátækur bóndi, og kona hans við fjölskyldunni, nærri „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki.“ Hafðist hún þar við í hálfan mánuð. Til þess að níðast ekki á gestrisninni frekar fluttist fjölskyldan í baðstofuna á eyðibýlinu Stafnesi. Þegar veðrinu slotaði og aftur fjaraði út var allt á tjá og tundri á Básendum: Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.
Var það hverju orði sannara. Í matsgerð yfirvalda um skemmdirnar á verslunarstaðnum fáum mánuðum eftir óveðrið segir: Verzlunarstaðurinn og umhverfi húsanna er svo hlaðið sandi, möl og grjóti, að það verður ekki lagfært til notkunar, nema með mjög miklum kostnaði, því hér eru [steinar], svo stórir, að naumast verða færðir úr stað af 6 mönnum, með tækjum, sem hér eru til. …
Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1 – 2 álnum lægri en áður.
Til frekara marks um hve hátt flóðöldurnar risu er að sjór komst hátt í 300 m upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur skolaðist upp á þakið á einu verslunarhúsinu meira en 2,3 m frá jafnsléttu.

Brennitorfuvík – Básendahöfn (lending)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar stóðu á grjótrima milli tveggja víka. Í örnefnalýsingu Magnúsar Þórarinssonar segir: „Sunnan við malartangann hjá Básenda er ílangt lón, það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefur verið löngmilli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Básendahöfn mun heitaréttu nafni Brennitorfuvík.“ Enn má sjá merki um varir þar sem höfnin hefur verið.

Festarhringur (kengur)

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í þangi vaxinni klöpp, 42m niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla (vöruhúsið), er járnkarl velgildur en ryðbrunninn, greyptur og tinsteyptur við klöppina. Hann er um 15 sm á þykkt og 30 sm á hæð með áföstu hringbroti í gati ofarlega. „Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborðabeizli sjóhesta. [Aðrir festarhringir fundust ekki sem áttu að vera utar og í klöppum við suðurhlið legunnar. Þannig hafa skipin verið „svínbundin“ á báðar hliðar og frá báðum stöfnum.“ Svo segir í Blöndu, en Magnús Grímsson segir þau skip „svínbundin“sem bundin séu landfestum „svo að ei máttu snúast fyrir vindi.“
Samkvæmt heimildum ættu fleiri festahringir en sá sem lýst er að vera við leguna, en við vettvangskráninguna fundust þeir ekki. „Annar slíkur er dálítið utar, niður undan kotinu og eru tveir eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppunum við suðurhlið skipalegunnar,“ segir í Blöndu. Magnús Grímsson ritar að festarnar séu „5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum.“ Hann segist einungis hafa séð 2 þessara stólpa, fyrrgreindan og annan sem hringurinn var úr: „Sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum.“

Fangamörk (áletur)

Básendar

Básendar – áletur.

Magnús Grímsson segir að við landfestar þær sem hann sá og hringurinn var úr hafi verið klappað í steininn fangamarkið ASS. Var honum sagt að á skeri einu væru ótal slík fangamörk, þ.e. að austanverðu við syðri voginn og kvað vera gengt í skerið á fjöru.

Básendar (býli)

Básendar

Básendar – bærinn.

Framan við Básenda er malartangi með sljóu horni. Er sagt frá því í ýmsum heimildum, þ. á m. í Blöndu, að þar hafi kotbær „staðið vestast á rimanum, má þar greina fimm sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær.“ Rústirnar eru mjög greinilegar og hafa veggir verið hlaðnir úr torfi og grjóti, veggjaþykkt er mest um 2 m en minnst 60 sm. Veggir eru frá 30 sm til 130 sm á hæð. – Um bæinn segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 að jarðardýrleiki sé óviss, ábúandinn Árni Þorgilsson, landsskuld engin í skjóli kaupmanna og að við til húsabótar leggi kaupmaður. Kúgildi var ekkert. Kvaðir voru engar nema þær að gæta búðanna meðan ei var eftir liggjari. Kvikfénaður fjórar ær sem gengu í Stafnesslandi, geldir sauðir þrír veturgamlir, tvö lömb, einn hestur; í óleyfi bóndans á Stafnesi allt saman. Grasnyt engin. Heimilismenn sjö. – Hér drukknaði að öllum líkindum konan í Básendaflóðinu 1799. Hún hét Rannveig Þorgilsdóttir, 79 ára gömul, og hafði verið niðursetningur á Básendum frá 1791 eða fyrr. Aðrir íbúar í kotinu höfðu bjargað sér upp um þekjuna, vinnumaðurinn Ásmundur Jónsson, vinnukonan Þjóðbjörg Jónsdóttir og húskonan Bergljót Arngrímsdóttir. Í matsgerð yfirvalda um tjónið á íslenska bænum segir samkvæmt Blöndu: „Fimm litlir kofar voru byggðir að íslenskum sið, úr grjóti og torfi. Hafa þeir hrunið og spýtur brotnað og skolast út, svo nú er þar umhverfis aðeins ein grjóthrúga.“
Í Blöndu segir: „Aust-suðaustur frá bænum (kotbær), 28 m frá honum, hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni sem er 20 m á lengd frá suðri til norðurs og 12-15 m á breidd, ef til vill með gangstétt.“ Enn má vel greina þessar rústir. Ekki eru neinar leifar af veggjum, enda hefur húsið sennilega allt verið byggt úr timbri. Það hefur snúið í S-N. Framangreind mál eru rétt og sjá mátti að stétt hefði verið fyrir framan húsið. Í Blöndu segir um mat fulltrúa yfirvaldsins á tjóni á „vöruhúsinu mikla“ eftir Básendaflóðið 1799:„Þar er undirstaðan farin undan norðurgafli og austurhlið, fóttré brotið og sigið um ½ alin. Helmingurinn af austurþekjunni er fokinn, og var þó tvöföld. Sperra hefur farið þar líka. Grjót og sandur hefur borist á gólfflötinn. Í norðurenda húss þessa ætlar kaupmaðurinn að þilja af litla sölubúð, til þess að geta haft þar vörusölu í sumar, því ekki er kostur á öðrum stað, fyrir vörur þær, sem von er á með skipinu þangað á næsta vori.“

Húsgrunnur (sölubúð)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Um 10 m austan við vöruhúsið er annar húsgrunnur samkvæmt Blöndu, „mun þar hafa verið sölubúðin.“ Grunnurinn að húsinu sést enn vel og er um 9 m á lengd og 6 m á breidd. Ekki sjást neinar leifar af veggjum, enda trúlega verið timburhús. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar eftir sjávarflóðið 1799: „Syðri hliðin (= suð-suðvestur) var alveg farin og flotin burt, en hálf norðurhliðin opin, þar sem sjórið hafði brotizt í gegn. Hleðslan undan vesturendanum farin, svo það sem af húsinu hangir uppi, stendur á tveimur stafgólfum við eystri endann, og á litlum undirbita í miðjum vesturenda. Og kaupmaður hefur látið stoðir undir grindina hér og þar, svo húsið steyptist ekki á endann. Gólfið hefur sjórinn flutt með sér, en hlaðið möl og grjóti í aðsetursstaðinn („Værelset“ – austurendann) allt að 2 álnum á hæð.“

Hús kaupmannsins (bústaður)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

„Hússtæði kaupmanns hefur sennilega verið enn austar en vöruhúsið og sölubúðin, en í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir,“ segir í Blöndu. Við vettvangskráningu mátti greina rústir á þessum stað. Ekki var unnt að átta sig nákvæmlega á umfangi og gerð hússins, en nokkuð öruggt er að þetta eru leifar af húsgrunni. Hús kaupmannsins varð sævarrótinu 1799 að bráð. Af lýsingu kaupmannsins að dæma á flótta hans og fjölskyldu hans undan flóðinu, eins og hún kemur fyrir í Blöndu, var íbúðin nokkur herbergi og loft yfir þar sem unnt var að standa uppréttur. Að minnsta kosti tvennar dyr virðast hafa verið á húsinu því að kaupmaðurinn tiltekur að hafa opnað dyr eldhúsmegin eins og til aðgreiningar frá aðaldyrum. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar og rituðu um íbúðarhúsið: „Það hefur farið eins [og sölubúðin], suðurhliðin burt, sú er að sjónum sneri, og sömuleiðis hálf norðurhliðin. Gluggar allir brotnir og burtu. Herbergi öll hlaðin sandi, 1-2 álnir á dýpt. Undirhleðslan umrótuð, en undirviðirnir og tvö stafgólfin í vesturenda hússins hafa bjargað því frá gjöreyðing.“

Lýsisbúð (búð)
„Í Básendaflóðinu árið 1799 eyðilagðist Lýsisbúðin, svo ekki er ein spýta eftir,“ sagði í mati fulltrúa yfirvaldsins á skemmdum eftir flóðið samkvæmt Blöndu: „og meira að segja hússtæðinu rótað burt, en í staðinn komin möl og sjávargrjót. Hús þetta byggði kaupmaðurinn í fyrra.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja, sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar lýsisbúðarinnar að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af lýsisbúðinni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Lifrarbræðsluhús (hús)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Matsgerð yfirvalda vegna skemmda á húsum og munum í Básendaflóðinu 1799 greinir frá lifrarbræðsluhúsi: „Norðurgaflinn er brotinn og öll austurhliðin. Inni er 1½ alin af sandi og möl. Húsið væri nú hrunið alveg, ef ekki hefðu verið bornar að því stoðir eins fljótt og gert var.“ Svo segir í Blöndu. Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna leifar lifrarbræðsluhússins að vera, en sú ályktun byggist á því að þar stóð meira uppi eftir flóðið en af öðrum húsum sem ekki er unnt að staðsetja eða gera grein fyrir.

Húsgrunnur (hús)
Við vettvangsskráningu fundust norður af húsi kaupmannsins en sunnan við rústirnar þrjár leifar af grunni húss, trúlega timburhúss, sem örðugt er að greina hvaða tilgangi hafi þjónað, svo lítið hefur varðveist, heimild um lýsisbúð, heimild um litla vörugeymslu, heimild um skemmu, en einkum heimild um lifrarbræðsluhús. Lýsingin á lifrarbræðslunni virðist helst geta átt við þennan grunn af þeim mannvirkjum sem til er að dreifa. Um þetta verður þó ekkert fullyrt. Í grunni þessum fundust múrsteinsbrot.

Skemma (hús)
Fulltrúar yfirvaldsins tóku út húsin á Básendum eftir sjávarflóðið 1799 og segir í matsgerð þeirra samkvæmt Blöndu að skemman hafi verið „byggð að sið landsmanna, með þili, 4 stafgólf. Hún hefur sópast alveg úr stað.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar skemmunnar að vera, þó tæplega því að þar virðist meira vera varðveitt en lýsing af skemmunni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Vörugeymsluhús (hús)
Fulltrúar yfirvalda mátu skemmdirnar á Básendum eftir flóðið 1799 og sögðu um litla vörugeymslu samkvæmt Blöndu:„Gjörhrunið bæði þak og veggir. Bæði þessi hús voru byggð úr grjóti og torfi.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar vörugeymsluhússins að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af vörugeymslunni litlu gefur til kynna.

Básendar

Básendar – garður.

Garður (garður)
Garðsbrot er norður af þeim stað sem vöruhúsið, sölubúðin, og hús kaupmannsins stóðu, að mestu hlaðið úr grjóti, mest um 1,2 m á breidd. Sést garður þessi best á 10-14 m kafla, er víðast horfinn, en sums staðar djarfar fyrir honum á yfirborðinu. Í Blöndu segir að garðurinn hafi legið „í hálfhring að ofanverðu kring um húsin og verslunarsvæðið, hann var byggður úr stóru grjóti, en skemmdist í Básendaflóðinu árið 1799.“

Fjós (hús)
Norðaustur af garðinum „er kálgarður eða rétt með hesthúsi, geymslu og fjósi að baki. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum og stendur enn meira og minna af grjótveggjum þeirra, eftir 125 ár.“ Svo segir í Blöndu sem skrifuð var á miðjum þriðja áratug 20. aldar. Verður að telja ólíklegt að um kálgarð hafi verið að ræða. Rústin er hlaðin úr grjóti og ber öll merki þess að vera rétt eða gerði, 14 m á lengd og breidd með inngangi á suðurhliðinni fast við vesturgaflinn. Yst er hólf, hugsanlega hesthús, 7m á breidd frá vesturgafli og 3 m á lengd, aðgreint frá réttinni með lágum vegg sem nú er hruninn. Viðbygging við norðurgaflinn er 12 x 3m að flatarmáli og skagar út frá vesturgafli réttarinnar eina 5 eða 6 m. Er gengið inn í viðbygginguna fram og utan með vesturgafli réttarinnar. Til vinstri þegar inn er komið er fjós, 5 x 3 m á stærð, en til hægri trúlega geymsla eða hesthús. Grjóthleðslurnar eru 30 til 80 sm á hæð, réttin heillegust. – Hingað virðist síðasti kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, hafa flúið meðfjölskyldu sinni í myrkrinu og vetrarkuldanum árla morguns 9. janúar 1799 þegar sjórinn var að mola undan þeim íbúðarhúsið í Básendaflóðinu: „Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur.“

Brunnur (vatnsból)

Básendar

Brunnur.

Í lægðinni, 100 m austar en réttin, var samkvæmt Blöndu vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Viðvettvangsskráninguna fannst brunnurinn ekki, hvernig sem leitað var, sennilega er hann sokkinn auk þess sem gróður á svæðinu er mikill og hár og gerði að verkum að erfitt reyndist að leita.

Fiskbyrgi (geymsla)

Básendar

Fiskibyrgi.

Í Blöndu segir: „Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga úr einhlöðnu grjóti hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur.“ Við vettvangsskráninguna var aðeins skráð eitt fiskbyrgi í landi Básenda. Það er með skeifulagi, hlaðið úr grjóti og stendur við matjurtagarðinn.

Brennitorfa (brenna)

Básendar

Brennitorfa.

Í örnefnalýsingu og heimildum er örnefnið Brennitorfa fyrir ofan Básendahöfn og áttu Básendamennað hafa haft þar brennur. „Básendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík,“ segir Magnús Þórarinsson. Ekki sáust nein ummerki um brennur á vettvangi.

Draughóll (þjóðtrú)

Í fleiri en einni heimild segir frá örnefninu Draughól og að hann sé sunnan við Brennitorfu. Að þar hafi verið dys kemur aðeins fram í greininni Fornminjar um Reykjanessskaga. Þar segir: „Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundu þeir lítið fémætt.“ Auðvelt var að þekkja þetta kennileiti, en ekki var hægt sjá neitt manngert við hóllinn eða í námunda hans.

Kaupstaðavegur (leið)

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Séra Sigurður B. Sívertsen segir um hina fornu og þá aflögðu leið í Lýsingu Útskálaprestakalls 1839: „Frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það var gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.“ Við vettvangsskráningu var leiðin gengin frá Kirkjuvogi að Þórshöfn. Þá var hún gengin frá Gálgaklettum að Básendum. Hún er á köflum frábærlega vel varðveitt. Víða meðfram götunni hafa myndast háir kantar eftir því sem grjót hefur verið tínt úr henni. Hún er tveggja hesta breið. Með leiðinni eru 10-15 vörður sem virðast fornar, en víða á Miðnesheiðinni eru nýlegar vörður.

Gamli Kirkjuvogur (býli)

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar er að finna eftirfarandi frásagnir:
Herjólfr hét maðr, Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Íngólfs landnámsmanns; þeim Herjólfi gaf Íngólfur land á milli Vogs ok Reykjaness.
Þórir haustmyrkr nam Selvog ok Krísuvík, en Heggrson hans, bjó at Vogi, en Böðmóðr, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.
Herjólfr, sá er fyrr var frásagt, var frændi Íngólfs ok fóstbróðir, af því gaf Íngólfr honum land á milli Reykjaness ok Vogs; hans son var Bárðr, faðir Herjólfs þess, er fór til Grænalands, ok kom í hafgerðingar […]
Nokkuð er nafn bæjarins á reiki, hann virðist ýmist kallaður Vogur eða Kirkjuvogur í gömlum heimildum. Líkur benda eindregið til að um sé að ræða einn og sama bæinn – og að bæst hafi framan við bæjarnafnið þegar kirkja var reist á jörðinni. Kenningar um að Djúpivogur við Ósabotna sé þriðja nafnið á sama bænum geta vart staðist því að í landamerkjabréfi frá 1270 segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsnessskilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Hér virðist Djúpivogur vera bæjarnafn, en ekki annað nafn á Kirkjuvogi sem nefndur er í sömu málsgrein. Enda hafa Árni Magnússon og Páll Vídalín nokkurn fyrirvara á þegar þeir ráða í forn skjöl um að Kirkjuvogur hafi heitið Djúpivogur til forna.
Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Til forna lá jörðin hins vegar langt inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústa bunga, grasi gróin, sem snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og hæst um 2 m. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðins brunns vestan við hann, en tóftir enn lengra í vestur sem gætu verið rústir útihúsa. Enn fremur eru greinilegar traðir frá bænum í norður upp á kaupstaðaleiðina. Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. Hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 verða válegir atburðir sem eru færðir í annála: “Á þessu ári gerðust þau hræðilegu tíðindi, að Þorleifur Þórðarson drap Þorbjörn prest Þorsteinsson í kirkju, suður á nesjum, í Kirkjuvogi, á Mikjáls-messudag, þá er hann var skrýddur og stóð fyrir altari. Síðan lagði þessi Þorleifur sjálfan sig með hnífi til bana í kirkjunni. Þorbjörn Þorsteinsson var prestur á Hvalsnesi,en hefur þjónað í Kirkjuvogi.”

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði.

Tveir máldagar eða eignaskrár hafa varðveist um Vogskirkju. Sá eldri er í Hítardalsbók frá 1367. Það er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn hefur varðveist í Vilchinsbók biskups í Skálholti frá 1397. Þar stendur: Maríukirkja í Vogi á þriðjung í heimalandi, hálft Geirfuglasker, tíu kýr, tvö hross kúgildi. Hún á viðreka önnur hver misseri millum Klaufar og Ósa, fimm álna tré og þaðan af stærri, og þriðjung í Valagnúpafjörum. Hún á Róðukross og með líkneski, Maríuskript, Pétursskript, tabulum [þ.e. töflu] fyriraltari og brík forna. Item [þ.e. einnig] messuklæði, kantarakápur tvær, glóðarker, glergluggur, klukkur fjórar, kaleikur brotinn og annar nýr minni, sloppur, bók er tekur tólf mánaða tíðir, allar nema seqventiur, og sérdeilis söng um Langaföstu, formælabók, Lectaresacrarium, munnlaug, tvær merkur vax, kola.Portio Ecclesiæ [þ.e. reikningur kirkjunnar] sérlega mörk. Item gafst kýr frá Galmatjörn að Kirkjuvogi. Portio xvc so langan tíma sem Svarthöfði átti jörðina.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Kirkjan var í pápísku helguð Maríu guðsmóður og var rík af eignum, enda enginn vafi um að Kirkjuvogur hafi fyrrum verið höfuðból. Hafa ekki lítil hlunnindi verið að sækja í Geirfuglasker og eiga það hálft, en Kirkjubólskirkja og Hvalsneskirkja áttu sinn fjórðunginn hvor. Klettaeyja þessi var að stærð „hér um mældur kýrfóðurs völlur“ og svo mikil mergð svartfugls á henni „að engin sjást skil á neinu“; geirfugl þó ekki nærri eins mikill sem skerið hefur nafn til. Lending við skerið fór smáversnandi og strjáluðust ferðir þegar „á tvær hættur [var] að leggja líf og dauða þar upp að fara“ og mannskaðar urðu. Árið 1732 var gerð ferð í skerið í fyrsta sinn í 75 ár. Fundust þá skinin mannabein í skerinu og gátu menn sér til að dugga hefði orðið að skilja þar eftir mann sem settur hefði verið í land til að taka fugl og egg. Stef séra Hallkels á Hvalsnesi vottar að einnig gat verið illt að sækja í Geirfuglasker í fornöld þótt lending hafi áreiðanlega verið betri í þann tíð: Eg get ekki gefið mig í Geirfuglasker, eggið brýtur báran því brimið er. Um hættuför í Geirfuglasker orti Ólína Andrésdóttir í kvæði sínu Útnesjamönnum: Ekki nema ofurmenni ætluðu sér að brjótast gegnum garðinn kringum Geirfuglasker. Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betri samt en björg að sækja Básendum að; ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Nú eru Geirfuglasker, þetta mikla forðabúr, sokkin í sæ og brýtur á þeim á fjöru.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Hinn 19. apríl 1467 selur Björn Þorleifsson Eyjólfi Arnfinnssyni jarðirnar Voga á Rosmhvalanesi og Gunnólfsá í Ólafsfirði fyrir fimm jarðir á Vestfjörðum.
Einn helsti fornfræðingur landsins um aldamótin 1900, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, skráði minjar á Miðnesheiði. Á grundvelli þess að enginn bær hafi verið í Rosmhvalaneshreppi sem hét Vogar dró Brynjúlfur þá ályktun í skýrslu sinni að hér hlyti að vera átt við Kirkjuvog hinn forna.
Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu eftirfarandi um „gamla Kirkjuvog“ sumarið 1703 í Jarðabók:
Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé hvort hún liggi í Kirkjuvogs eður Stafness löndum, item að munnmæli séu að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því svo vel túnstæðið sem landið alt um kríng af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn, og er hér ágreiningur um landamerki.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – varða.

Tekið er fram að gamli Kirkjuvogur sé forn teyðibýli árið 1703. Í Jarðabók er enn fremur þetta skjal um jörðina, skrifað í ágúst sama ár í Kirkjuvogi í Höfnum:
Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur, þangað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi.
Hvað sem líður landamerkjadeilum varpa þessi gögn ljósi á að jörðin við norðanverða ósa hafi farið í eyði um 1580 eða þar um bil.
Bæjarhóllinn stendur við norðanverða Ósa. Hann er grasi gróinn, snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og um 2 m þar sem hann er hæstur. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Ýmsar heimildir eru til um gamla Kirkjuvog og verður hér látið nægja að vísa í samnefndan kafla hér að framan.

Brunnur (vatnsból)

Gamli-Kirkjuvogur

Brunnur.

8 m vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti, 1,30 x 1,50 m að utanmáli.

Túngarður (garður)
Ofan og norðan við bæjarhólinn eru ógreinilegar leifartúngarðs sem hefur verið hlaðinn úr grjóti.

Kirkjugarður (legstaður)

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður, enda var Kirkjuvogur kirkjujörð. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt héðan í kirkjugarð í Kirkjuvogi í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Rústirnar eru ógreinilegar, en augsýnilega leifar mannvirkis.

Kirkjuvogssel (sel)

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð langt austur af Hvalhólum er Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðarrústir og nokkrar sagnir eru til um það. Í Rauðskinnu hinni nýrri segir Ólafur Ketilsson, refaskytta, frá viðskiptum sínum við draug í selinu. Heyrir hann kallað nafn sitt ótt og títt svo að hann herðir för sína til byggða, en það verður honum til lífs því að foráttuveður skellur á.

Hvalsnessel (sel)

Hvalsnessel

Hvalsnessel.

Í ofanverðri heiðinni eru tvær selstöður, önnur frá Stafnesi og hin frá Hvalsnesi. Báðar eru vel greinilegar (sjá má húsaskipan) á gróðnum bleðlum í annars viðfeðmum sandflákum.

Beinhóll (blóðvöllur)
„Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu.

Hunangshella (þjóðtrú)

Hunangshella

Hunangshella.

„Við landsuðurhorn Ósanna hjá alfaravegi (Keflavíkurveginum) er flöt hraunklöpp, eigi alllítil, sem kölluð er Hunangshella,“ segir í Fornminjum um Reykjanessskaga eftir Magnús Grímsson: „Sagan segir, að dýr það, sem heitir finngálkn (þ.e. afkvæmi tófu og kattar), hafi lagzt á fénað manna og gjört tjón mikið. Reyndu menn til á ýmsa vega að drepa það, en gátu ei sökum styggðar þess og fráleika. Þá hitti maður einn upp á því að bera hunang á hellu þessa og lagðist þar hjá í leyni. Dýrið rann á lyktina og sleikti hunangið, því finngálkn eiga að vera mjög sólgin í það. Þar skaut maðurinn dýrið, en hellan er síðan kölluð Hunangshella.“ Ólafur Ketilsson, refaskytta, getur þess í framhjáhlaupum í draugasögu að hafa árið 1886 í desember tekið stefnuna á Hunangshellu á leið sinni til byggða.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði, Þjóðminjasafn Íslands, 2000.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi. Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Básendar

Festarkengur við Básenda.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili. Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
“1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust…. Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að par stóð ekki eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu”.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes

Fríða Sigurðsson skrifaði um konungsútgerðina á Stafnesi í Faxa árið 1969:
stafnes-221“Konungsútgerðin hafði aðalbækistöð sína á Stafnesi. Þaðan var stutt á miðin. Þar var „annáluð veiðistöð”, talin bezta vetrarverstöðin á öllu landinu. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. 1742, þegar Skúli Magnússon var ráðsmaður á Hólum, komu þaðan 9 sjómenn suður á Stafnes, og enn minnir örnefnið „Norðlingabaðstofa” á þessa menn. Það var Stafnesbóndinn, Guðni Sigurðsson, sem 1749 var settur landfógeti, fyrstur allra íslenzkra manna. Hann gegndi þessu embætti, þangað til Skúli Magnússon tók við því 1750. Þá gerðist Guðni sýslumaður, og næstu 2 árin var Stafnes sýslumannssetur, en 1752 fluttist Guðni að Kirkjuvogi.
stafnes-222Tveir verzlunarstaðir voru í nánustu nánd við Stafnes: Þórshöfn, sem á 18. öld var reyndar ekki lengur notuð, og Bátsendar, sem síðan 1640 voru hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum. Þegar konungsútgerðin var lögð niður 1769, hnignaði mjög sjávarútvegi á Stafnesi.
Fljótlega fóru Refshalabæirnir, hjáleigur frá Stafnesi, í eyði. Í Stafnesi sjálfu bjó gamli bóndinn, Magnús Jónsson, til 1784, og síðan ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, sem var 73 ára gömul, þegar maður hennar dó. 1786 eru aðeins 3 menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað, 1790 jafnvel bara ein hjón. Þau tolla þar upp undir aldamót og ala á þessum árum nokkur börn, en þegar flóðið mikla brýtur húsin á Bátsendum þann 9. janúar 1799, þá fær kaupmannsfólkið frá Bátsendum í hálfan mánuð húsaskjól á Loddu, en hreiðrar þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi”.

Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 167.

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.” Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.” Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.”

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes

Eftirfarandi frásögn séra Gísla Brynjólfssonar um “Básendaför á björtum degi” birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978:

Miðnesið fyrr og nú
Basendar-220“Þennan dag er hópur á ferð um Suðurnes, eða þann hluta þeirra, sem áður hét Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur = rostungur) og náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjólgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.

Fyrir tveim öldum
Basendar-223Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á björtum degi þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. — Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt” varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.

Verzlunarsvæðið
Basendar-224Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði aö undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó ekki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.

Fámennur staður
Basendar-225Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.

Handa mús og maur
Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum”. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Basendar-227Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum. Þrír fræðimenn Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar. Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.”
Basendar-229Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið”. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja.
Basendar-231Lýsing V.G. – Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn. fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. —
Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum.
Lýsing M.Þ. – Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.” — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stóísvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.

Nöfnin og náttúran
Basendar-233Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.

Búseta á Básendum
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vunnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Basendar-235Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.
Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.

Básendaflóð
Basendar-239Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga” mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúövíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki” og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.

Ræningjarnir dönsku
Stafnes-226Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja.
Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker: Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Og allir kannast við kvæði Gríms „Bátsenda þundarinn” um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó”.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks: Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt en — skörungur var hann í gerð og yfir rummungum reiddi hann hátt réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Brynjólfsson – Básendaför á björtum degi, 9. júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items