Básendar

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.

Stafnes

Við Stafnes – steinbrú.

“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.

Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.
Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.

Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.

-Öldin okkar 1799.

Básendar

Básendar – gamli bærinn í sjó fram.