Reykjanesviti

“Vorið 1878 var byrjað á byggingu vita á Reykjanesi. Stóð fyrir smíði hans danskur verkfræðingur, Rothe að nafni. Sá viti var byggður yzt á Reykjanestá, en íbúðarhús vitavarðar stóð í kvosinni undir Bæjarfellinu, sem nýi vitinn var síðar reistur á, var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum.
Reykjanesviti 1962Þótti það karlmennskuverk að gæta vitans. Þessi viti, sem myndin sýnir, var byggður 30 árum síðar en gamli vitinn, en þá var undirstaða hans, kletturinn, orðin svo ótrygg og sprungin frá aðalberginu, að ekki þótti fært að láta svo búið standa. Aukaviti var einnig reistur á Skarfasetri, slóðum gamla vitans, þar eð Skálafell skyggir á aðalvitann á mjóu belti á siglingaleið skipa, er að austan koma. — Fyrsti vitavörður var Arnbjörn Olafsson, síðar kaupmaður í Keflavík. Flutti hann að Reykjanesi ásamt systur sinni Sesselju Ólafsdóttur, 1878, er byrjað var á vitabyggingunni. Hann fékk veitingu fyrir vitavarðarstarfinu 1. desember 1879 og hélt þeim starfa til 1884. Kona hans var Þórunn Bjarnadóttir, systir séra Þorkels á Reynivöllum.
Reykjanesviti-9212. Jón Gunnlaugsson, skipasmiður, var vitavörður 1884 til dánardægurs, 23. okt. 1902. Ekkja hans Sigurveig Jóhannsdóttir, fluttist til Reykjavíkur 1903.
3. Þórður Þórðarson 1902 til 1903.
4. Jón Helgason, áður vitavörður á Garðskaga, 1903 til 1915, síðar bóndi á stað í Grindavík. Kona hans Agnes Gamalíelsdóttir.
5. Vigfús Sigurðsson (Grænlandsfari í leiðangri dr. Wegeners), 1915 til 1925. Kona hans Guðbjörg Árnadóttir.
6. Ólafur Pétur Sveinsson 1925 til 1930.
7. Jón Ágúst Guðmundsson 1930 til dánardægurs, 11. ág. 1938.
Reykjanesviti-9078. Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Ágústs, 1938 til 1943.
9. Einir Jónsson, sonur Jóns Agústs og frú Kristínar, 1943 til 1947. Hafði hann gegnt vitavarðarstarfi frá andláti föðurins, en á ábyrgð móður sinnar til 1943.
10. Sigurjón Ólafsson 1947 og síðan.
Að sjálfsögðu höfðu allir vitaverðirnir vinnumenn, sem voru þeirra önnur hönd við vitavarðarstarfið. Hér er ekki rúm til að gera vitavörðunum og fjölskyldum þeirra verðug skil, en hetjudug þurfti til að búa á Reykjanesi, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir auðnina þangað né sími. M. V. J.”

Heimild:
-Faxi, 22. árg., 1962, 4. tbl., bls. 49.

Reykjanes

Reykjanes.