Í Vísi 1925 er sagt frá landamerkjadeilu Stafnesinga og eigenda Kirkjuvogs.
“Frá Hæstarétti í gær.
Þar var sótt og varið málið: “Eigendur Stafnness eigendum Kirkjuvogs. Mál þetta er risið út af ágreiningi um landamerki milli jarðanna Stafnness og Kirkjuvogs á Miðnesi, og er svo vaxið, sem nú skal greina”.
Árið 1884 var landamerkjaskrá Stafnness rituð og staðfest, lögum samkvæmt, og virðist þá enginn ágreiningur hafa orðið um landamerki jarðarinnar; þau eru sögð “hin sömu, sem verið hafa frá ómunatíð”, og síðan lýst í skránni.
Árið 1922 var svo komið, að ágreiningur var orðinn um landamerki milli Stafnness og Kirkjuvogs. Málsaðiljar áttu þá sáttafund með sér (10. apríl), og gerðu svolátandi sætt: „Landamerki á milli Stafnneshverfis og Kirkjuvogsjarða séu eins og þau eru ákveðin í landamerkjaskrá fyrir Stafnnes, frá 4. desbr. 1884, að viðbættri línu úr svonefndri „Gömlu þúfu” á Háaleiti í Beinhól, og verða þá landamerkin þannig: „Úr svonefndri “Gömlu þúfu” á Háaleiti í „Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr „Beinhól” í Djúpavog, þaðan beina línu í ós austanundir „Vörðuhólma”, þaðan sunnanundir „Selskeri” og „Hestakletti” og þaðan á sjó út.”
Ekki höfðu aðiljar sjálfir gengið á merkin, þá er þeir gerðu sætt þessa, en munu hafa treyst því, að þar væri um ekkert að villast. En brátt kom það í ljós, að eigendur jarðanna urðu ekki á eitt sáttir um, hvar þeir staðir væri sumir, sem getið er í merkjaskránni. Eigandi Stafnness leitaði þess vegna til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og beiddist þess, að kvatt yrði til annars sáttafundar með eigendum jarðanna, og var hann haldinn 10. desember 1922.
Sáttatilraun varð árangurslaus og málinu síðan vísað til landamerkjadóms, og sátu hann þeir Sigurgeir Guðmundsson hreppstjóri í Narfakoti og Þorsteinn Þorsteinsson, kaupm. í Keflavík, ásamt formanni dómsins, sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Dómur þeirra var á þessa leið: „Landamerki á milli Stafnnesjarða í Miðneshreppi annars vegar og Kirkjuvogsjarða í Hafnahreppi hins vegar skulu vera þau, er hér greinir: Úr Gömlu þúfu á Háaleiti í “Beinhól”, sem liggur fyrir botni Djúpavogs, úr Beinhól í miðjan Djúpavogsbotn við stórstraumsflóðmál, hvar varanlegt merki skal sett, auðkennt L.M. Þaðan bein lína um ósinn í vörðu þá, er stendur á suðurenda Vörðuhólma, er skal rauðkennd L.M. með varanlegu millimerki, er sett skal á Illaklif, einnig auðkennt L.M. – Frá Vörðuhólma sunnan um Selsker og; Hestaklett á sjó út.
Málskostnaður, samtals kr. 253.00, greiðist að helmingi af eigendum Stafnnestorfunnar, en að helmingi af eigendum Kirkjuvogstorfunnar.
Dóminum, að því er dæmdan málskostnað og setning landamerkja snertir, ber að fullnægja innan 15 daga frá lögbirtingu hans, undir aðför að lögum.”
Eigendur Stafnness skulu dómi þessum til Hæstaréttar og sótti Jón Ásbjörnsson málið. Krafðist hann þess a hinn áfrýjaði dómur yrði feldur úr gildi og merkjadómurinn skyldaður til þess að taka málið upp að nýju. Einkanlega lagði hann áherslu á það, að samkvæmt dómi þessum hefði landspilda nokkur, norðan Djúpavogs, gengið undan Stafnnesi. Segja munnmæli, að þar hafi áður staðið bærinn Kirkjuvogur (sem sjá má á uppdrætti herforingjaráðsins), en J.A. færði fram vottorð fyrir því, að land þetta hefði um langan aldur legið undir Stafnnes.
Verjandi var Sveinn Björnsson og krafðist hann þess, að dómurinn yrði staðfestur, og áfrýjandi dæmdur til að greiða allan málskostnað. Taldi hann Stafnnesinga enga heimild hafa til þessa áðurnefnda lands, samkvæmt sjálfu landamerkjabréfinu.
— En að öðru leyti er ekki kostur að skýra frá deilum þeirra hæstaréttarmálaflutningsmannanna, svo að ókunnugir hafi þess full not, nema birta jafnframt uppdrátt af þrætulandinu, en Vísir hefir hann ekki á takteinum, og lýkur hér frá þessu máli að segja.”
Heimild:
-Vísir, 6. tbl. 08.01.1925, Frá Hæstarétti – landamerki Kirkjuvogs og Stafness, dómur, bls. 2.