Prestastígur

Lagt var af stað inn á Prestastíg ofan við Hundadal vestan Kalmanstjarnar.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Pestastígur er vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, Stígurinn er gömul þjóðleið. Skýringin á nafngiftinni er sögð vera sú að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið. Þessi áfangi var farinn frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi. Leiðin er um 16 km.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrsti hluti leiðarinnar, yfir og ofan við Hafnasand, er sendinn og lítið um gróður. Sandurinn mun vera kominn að mestu neðan úr Stóru-Sandvík. Þar var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfokið upp á heiðina, en þaðan rauk síðan sandurinn yfir Hafnabæina þar norður af. Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í helli.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118.

Prestastígur

Prestastígur.

Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum” árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.

Skammt áður en komið er upp á sandinn má sjá eina vörðu, sem sker sig frá hinum. Hún er hlaðinn “klofin”, líkt og sumar aðrar vörður á Reykjanesi. Eru þær oft nefndar “stúlkur” eða “bræður”.

Prestastígur

Lagt af stað.

Sjá má eina á hól austan við gömlu Hafnabæina. Systir hennar þar skammt norðar er hins vegar fallin. Láta má sér í hugarlund koma að annað hvort hafi hleðslumaðurinn viljað breyta til og hlaða öðruvísi vörðu en hinar voru, eða hann hafi viljað líkja eftir lagi vörðunnar ofan við Hafnir, sem þá voru. A.m.k. nær hugmyndin og framkvæmdin athygli vegfarenda um stíginn.
Þegar komið var yfir Haugsvörðugjá liggur Reykjavegurinn út af Prestastígnum þar sem hann kemur eftir honumað austan, í áttina að Stóru Sandvík. Þarna gerbreyttist gróðufarið. Nú tóku við mosar, lyng og jafnvel lítil grassvæði í skjóli undir hæðum. Stígurinn er vel greinilegur þar sem hann liggur utan í Sandfellshæðinni og inn á nýlegan bílsslóða frá Svartsengi áleiðis út á Reykjanes. Slóðanum var fylgt uns stígurinn lá samhliða honum hægra megin, með hraunbrún.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Nokkru ofar beygir hann inn á hraunið, áleiðis að Eldvörpum. Þar liggur hann yfir hæð á milli tveggja gíga, áfram niður slétt mosahraun og síðan niður holt og móa áleiðis niður að Húsatóftum og Stað. Norðan í Eldvörpum var vent út af stígnum til að berja “útilegumannahelli” þar augum. Hann er örstutt vestan við borholuna í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Prestastígur

Varða við Presthól.

“Tyrkjabyrgin” svonefndu er þarna nokkru (u.þ.b. einn km) austar, í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Á toppi Sandfellshæðar (sem er dyngja) er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Í matsskýrslu Línuhönnunar fyrir Hitaveitu Suðurnesja (2003) um mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulínu á milli Svartsengis og Fitja segir m.a. í áliti Bjarna Einarssonar, fornleifafræðings, að “fornleiðirnar fjórar; Skipsstígur, Prestastígur, Árnastígur og ónefnd leið, eru taldar hafa talsvert minjagildi í heild sinni, ein einstakar vörður á leiðunum eru taldar hafa lítið minjagildi. Fornleiðirnar, og er þá átt við götunar sjálfar, en ekki vörðurnar, eru taldar vera í mikilli hættu vegna mannvirkjagerðarinnar. Hættan felst einkum í slóðagerð sem fylgir línubyggingunni.

Prestastígur

Við enda Prestastígs.

Skipsstígur er talinn hafa að geyma fornleifar sem eru eldri en frá 1550. Aldur götunnar er dreginn af því að hún hefur markað djúpa rás í hraunhelluna á köflum, en slíkt gerist ekki nema eftir mjög langa notkun. Sambærilega rás var ekki að finna á öðrum fornleiðum, sem kannaðar voru.”
Rétt er að geta þess að af nefndum stígum er Árnastígur hvað dýpst markaður í klöppina, þá Skipsstígur og loks Prestastígur. Gæti það engu síður sagt til um umferð um stígana en aldur.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 51 mín.

Lýsing á aðstæðum er fengin frá Leó M. Jónssyni í Höfnum. Einnig af lýsingu Gunnars H. Hjálmarssonar af Reykjaveginum.

Prestastígur

Varða (prestur) við Prestastíg.