Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja. Bæði örnefnið og lækirnir benda til þess að kýr hafi verið hafðar í seli á Selsvöllum.
Af minjum á Selsvöllum að dæma er ljóst að þar hefur verið haft í seli um langan tíma. Líklegt má telja að þar á austanverðum völlunum hafi fyrrum verið nokkrar selstöður frá Grindavíkurbæjunum þar sem bæði fé og kýr hafa verið hafðar í seli. Ef glögglega er skoðað má sjá a.m.k. minjar tveggja fjósa. Svo virðist sem selastaðan hafi lagst af um tíma, hugsanlega flust á Baðsvelli norðan Þorbjarnarfells líkt og heimildir herma. Frásögn er um ofbeit á Baðsvöllum svo aflögð selstaða Grindvíkinga hefur verið flutt á nýjan leik inn á Selsvelli, en bara á annan stað. Á meðfylgjandi uppdrætti má sjá afstöðu gömlu og nýju selstöðvanna á Selsvöllum.
Fróðlegt er að skoða aldurssamsetningu selsminjanna á Selsvöllum. Sjá má t.d. minjar fjósa á báðum svæðunum og einnig er áhugavert að skoða hvernig Grindvíkingar hafa veitt einum Selsvallalæknum að nýju selstöðunni – gagngert vegna kúaseljabúskapsins.
Nýrri selstóttirnar kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti.
Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar. Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Annar selsstígur liggur norður af völlunum, framhjá Hvernum eina. Er það hluti Þórustaðastígs.
Upp undir fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Deilur hafa löngum staðið með Grindvíkingum og Vatnsleysustrandarhreppsbúum um það hvorum megin landamerkja Selsvellir liggja.
Fyrrum höfðu þeir í seli á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og við Selsháls, en á báðum stöðum má enn sjá tóttir seljanna. Eftir ofbeit þar voru selin færð upp á Selsvelli.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengst upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt upp fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd en aðeins rúmlega 0.2 km ábreidd.
Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, sem er nokku sunnar með vestanverðum Núpshlíðahálsi, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá MYNDIR.